Endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 15:12:23 (1366)

2000-11-03 15:12:23# 126. lþ. 20.13 fundur 13. mál: #A endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála# þál., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[15:12]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki heyrt annað en að hv. þm. Þorgerður Gunnarsdóttir sé á þeirri skoðun að rafmagnseftirlitsmál séu í besta lagi. Burt séð frá því hvernig þetta var áður tel ég ástæðu til að gamalskoðun verði sérstaklega og út af fyrir sig tekin upp og hún athuguð.

Ég er ekki að kasta rýrð á þá rafverktaka sem sætt hafa úrtaksskoðun, komist í gegnum hana og eru ábyrgir fyrir nýlögnum. Ég er ekki að ræða um það. Ég tel að það geti staðist. En við höfum bent á svör 200 aðila, eða liðlega 30% þeirra sem spurðir hafa verið um þessi mál, og við teljum að það nægjanleg rök til að Alþingi geti fallist á að skipuð verði nefnd til að skoða þessi mál.

Ég spyr hv. þm. Þorgerði Gunnarsdóttur: Getur hún verið mér sammála um að það sé varhugavert ástand að óskoðaðar gamalveitur séu allt að eða yfir 70 þús., gamalveitur sem sæta engu eftirliti öðru en því að eigandinn þarf að átta sig á að rafmagnið sé ekki í lagi hjá honum? Hann áttar sig kannski ekki á því fyrr en það kviknar í. Þá segir hann þegar hann er spurður: Ég vissi ekki að það væri neitt að hjá mér. Í mörgum húsveitum hér í Reykjavík eru meira að segja gömlu töflurnar með gömlu öryggjunum sem talað var um, það eru ekki einu sinni lekaliðar í þessum húsum. Ég veit ekki hvort menn gera sér grein fyrir því. Það væri ágætt ef hæstv. ráðherra áttaði sig á því að ástandið krefst þess að kannaður verði a.m.k. hluti þessa eftirlitskerfis.