Fullorðinsfræðsla fatlaðra

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 13:47:26 (1755)

2000-11-15 13:47:26# 126. lþ. 25.2 fundur 41. mál: #A fullorðinsfræðsla fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[13:47]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Mig langaði að inna hæstv. menntmrh. eftir því hvort ekki væri búið að leggja einhver drög að því að reyna að koma á aukinni fræðslu fatlaðra í gegnum netið. Er ekki einhvern veginn hægt, herra forseti, að beita sér fyrir því að menntakerfið og almannatyggingakerfið yrðu þættuð saman í þessu máli, e.t.v. með því almannatryggingakerfið legði fötluðum til tölvur og menntakerfið legði þeim til menntun til þess að nýta þær og síðan væri hægt í krafti upplýsingatækninnar að koma á fót miklu öflugra menntakerfi fyrir fatlaða en menn hafa í dag.

Ég hjó eftir því í máli hæstv. ráðherra að mér fannst að hann legði ekki áherslu á þennan möguleika þó hann nefndi að vísu símenntunarstöðvar á landsbyggðinni sem í vaxandi mæli hafa tekið netið í sína þjónustu. En ég held, herra forseti, að framtíðin í menntun fatlaðra fullorðinna einstaklinga hljóti að verulegu leyti að liggja í þessu. Það er alveg ljóst að þetta mun opna miklu fleiri möguleika fyrir þennan hóp til þess að afla sér menntunar.