Einangrunarvistun fanga og fjárskortur fíkniefnalögreglunnar

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 13:56:13 (1864)

2000-11-16 13:56:13# 126. lþ. 26.94 fundur 122#B einangrunarvistun fanga og fjárskortur fíkniefnalögreglunnar# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[13:56]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það hefur ekki verið búið nógu vel að lögreglunni í landinu. Nú þarf ekki að deila um það lengur. Hæstv. ráðherra hefur sjálfur, með því að upplýsa um tillögur sínar um stórauknar fjárveitingar og aukinn mannafla, viðurkennt að núverandi ástand gangi ekki upp. Þá held ég að hægt sé að taka það út af dagskrá.

Hæstv. ráðherra og skjaldmeyjar ráðherrans hér, hv. þingmenn, þurfa því ekki að ráðast á þá sem bent hafa á að þarna hafi verið um ófremdarástand að ræða. Nú horfir til betri vegar í þeim efnum og það er vel. Það dugir auðvitað ekki bara að stæra sig af því að menn hafi náð árangri í að hneppa grunaða menn í varðhald og taka fíkniefni, sem er gott. Það verður líka að vera hægt að vinna úr málunum. Ef hlutir þróast þannig að óvenjumörg mál koma upp og óvenjumargir menn sitja í gæsluvarðhaldi, þá verður líka að vera hægt að bæta við mannafla eða auka yfirvinnu til að vinna úr þeim málum með eðlilegum hætti. Það tekur auðvitað steininn úr ef menn sitja í gæsluvarðhaldi og jafnvel einangrun vikum saman og upplýst er að það geti liðið vikur á milli þess að tekin sé skýrsla af viðkomandi fanga eða hann yfirheyrður. Þannig má þetta ekki ganga fyrir sig. Ég held að við hljótum öll að geta sameinast um að á borðinu liggja fullnægjandi upplýsingar um að ástandið hefur verið óviðunandi í þessum efnum. Það verður að auka fjárveitingar til lögreglunnar og efla hana, mannafla hennar og burði á allan hátt til þess að sinna þessum málum betur.

Ég leyfi mér að halda því fram, herra forseti, að sú umræða sem orðið hefur í þjóðfélaginu um þessi mál á haustdögum, í fjölmiðlum og hér á þingi hafi hjálpað til við að skapa þann þrýsting sem vonandi nægir til þess að ríkisstjórnin taki á þessu máli í samræmi við þær tillögur sem hæstv. dómsmrh. hefur upplýst að hún hafi gert til hæstv. fjmrh. Við fáum væntanlega fylgjast með lyktum þeirra mála.