Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 16:04:34 (1897)

2000-11-16 16:04:34# 126. lþ. 26.5 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[16:04]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að setja á langar ræður um þetta mál. Um það vil ég þó segja þetta: Þetta er mál sem horfir til aukins frjálsræðis varðandi innflutning á dýrum. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að við þurfum á auknu frjálsræði að halda í þeim efnum. Ég hef vakið máls á því áður í þessum stól að vísindunum fleygir fram. Það eru komnar fram nýjar aðferðir sem gera það auðveldara en áður að tryggja fullkomnar smitvarnir. Það hefur leitt til þess að erlendis er flutningur á dýrum og erfðavísum milli landa frjálsari en áður. Ísland hefur goldið þess að þeir sem ráðið hafa í þessum efnum hafa haft vantrú á nýjum aðferðum. Það hefur leitt til þess að menn hafa hugsað ákaflega þröngt varðandi óskir og hugmyndir um að leyfa meira svigrúm í þessum efnum.

Nú stígur hæstv. landbrh. hins vegar tiltölulega jákvætt skref í þessum efnum með frv. sínu. Meginbreytingin í frv. felst í að nú þarf ekki lengur atbeina hæstv. landbrh. og ráðuneytis hans til að flytja inn dýr til undaneldis eða til ræktunar innan ákveðinna búgreina. Búgreinarnar geta gert það sjálfar en það eru hins vegar starfsmenn landbrn., einkum yfirdýralæknir og aðrir sem undir hann heyra, sem hafa fullkomið eftirlit með því að allt sé þá gert samkvæmt ströngustu kröfum. Þetta held ég að muni bæta mjög hag þeirra greina sem geta notfært sér þetta.

Það liggur fyrir, herra forseti, að mikil framþróun hefur orðið í greinum eins og svínarækt vegna þess að við höfum fengið heimildir til þess að flytja inn erlend erfðaefni. Það hefur bætt íslenska svínastofninn sem var næsta pervisinn að upplagi í upphafi. Hann er það sem hann er vegna þess að þegar saman fóru þeir eiginleikar sem fylgdu hinum erlendu erfðavísum og innlendu genin sem hér höfðu verið frá landnámstíð þá spratt fram stofn, með ágætri ræktun okkar Íslendinga, sem ég held að standi jafnfætis flestum góðum stofnum í nágrannalöndunum.

Þetta eru menn líka að gera í öðrum stofnum. Menn hafa t.d. flutt inn holdanaut með alveg prýðilegum árangri og blendingar íslenskra nautgripa og hins innflutta holdanauts hafa verið mikil kjörfæða í veitingahúsum og vakið eftirtekt og undrun margra útlendinga sem hingað hafa komið.

Nú hefur hæstv. landbrh. einnig stigið annað skref, loksins tosað af sér feldinum eftir langvinna dvöl undir honum og komist að þeirri niðurstöðu að það sé að öllum líkindum jákvætt fyrir íslenskan landbúnað að gera tilraun með innflutning á norsku kúakyni. Að vísu hefur hæstv. ráðherra stigið ákaflega varlega til jarðar í þeim efnum. Þarna er um tilraun að ræða sem líklega tekur ein 10 ár áður en hún er fullnustuð. Þá kemur í ljós hvort á það er hættandi að taka upp þetta kúakyn að öllu eða einhverju leyti. Samt sem áður er þarna um ákveðið frjálsræði að ræða. Ég tel að menn geti velt því fyrir sér hvort það eigi að fara þá leið að taka hér upp nýtt kúakyn og skipta hreinlega út því gamla en frá vísindalegu sjónarhorni, þ.e. frá sjónarhorni vísindalegra smitvarna, er það í góðu lagi. Menn geta deilt um þær sögulegu og menningarlegu afleiðingar sem af því kunna að hljótast en það er ekki hægt að deila um að aðferðirnar sem eru til staðar til þess að koma í veg fyrir smit eru 100%.

Menn hafa áratugum saman flutt frjóvguð egg úr veðhlaupahestum milli heimsálfa. Það er ekki vitað um eitt einasta dæmi um að illkynja smit eða eitthvað smit hafi af því hlotist. Ég velti þessu upp, herra forseti, vegna þess að við þurfum auðvitað á öllum ráðum að halda til að halda forustu okkar á ýmsum sviðum landbúnaðar. Við höfum auðvitað haft og höfum enn þá forustu í ræktun íslenska hestsins. En það er sótt að okkur þar á ýmsum sviðum vegna þess að úr landi hafa verið fluttir bestu stóðhestarnir.

Ég vil nota þetta tækifæri, herra forseti, og minna á að eitt af litafbrigðum íslenska hestsins, litförótti stofninn, er nánast í útrýmingarhættu. Hálft prósent af íslenska hrossastofninum er litförótt og bestu stóðhestarnir eru erlendis. Þá er að finna á erlendri grundu. Því í ósköpunum, herra forseti, ef það blasir við að það er í lagi að flytja inn fósturvísa úr norskum nautgripum, er þá ekki hægt að leyfa innflutning fósturvísa úr íslenska hestinum frá útlöndum? Nákvæmlega sömu aðferðir eru notaðar til þess að koma í veg fyrir smit varðandi nautgripina og varðandi hrossin. Því í ósköpunum leyfa menn þetta ekki? Ég spyr hæstv. landbrh. hvort hann telji ekki að í framhaldi af ákvörðun sinni um norsku nautgripina væri rétt að stíga enn eitt framfarasporið og leyfa slíkt hið sama varðandi einstök afbrigði íslenska hestsins sem segja má að séu í útrýmingarhættu. Reyndar hefur hæstv. ráðherra beitt sér fyrir átaki til að efla ræktun litförótta afbrigðisins hér innan lands og það er auðvitað ákaflega vel. En mér þykja þó þær aðferðir sem kynntar voru á sl. vori ekki nándar nærri nógu sterkar til að tryggja áframhaldandi tilveru þess í íslenska stofninum. Þess vegna varpa ég þessu fram.

Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson drap á ákaflega mikilvægt mál, að mér þótti, sem varðaði gæludýrastöðina í Hrísey. Hann benti á að á fjáraukalögum eru núna lagðar til 6 millj. kr. til þess að bæta við stöðina. Jafnframt á að selja tiltekna fasteign í Hrísey og líka nota hana til þess að byggja upp þessa stöð. Af hverju þarf að byggja upp þessa stöð, herra forseti? Vegna þess að það er langur biðlisti eftir þjónustu hennar. Ef það er langur biðlisti eftir þjónustu stöðvarinnar, hvers vegna má þá ekki fara þá leið að leyfa öðrum að taka upp sams konar þjónustu?

Eftir því sem ég sé best þá er í 5. gr. þess frv. sem við ræðum um núna verið að fikra sig inn á þá leið. Með vissum hætti er opnuð smuga fyrir þennan möguleika. Þessu frv. virðist ætlað að laga rammann að þróuninni sem hefur átt sér stað.

Í reynd eru einkaaðilar farnir að reka sóttvarnastöðvar. Í Hrísey er um einkarekna sóttvarnastöð að ræða þó að hún sé hins vegar á framfæri og ábyrgð ríkisins, sem er auðvitað ákaflega umhendis að skilja. Í þessu felst ákveðin þverstæða. Ég held hins vegar að að 5. gr. samþykktri ætti það að vera næsta auðvelt fyrir hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að annars staðar yrði sett upp stöð af þessu tagi.

Hæstv. ráðherra færði aðeins ein rök gegn þeirri hugmynd sem hv. þm. Þorgerður Katrín varpaði fram í síðustu viku. Það voru viðskiptaleg rök. Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni í síðustu viku og aftur núna: Umfangið er svo lítið. Þetta eru ekki nema 450 dýr á 4--5 árum. Það er svo lítill bisness í þessu, segir hæstv. ráðherra. Samt er bisnessinn nægur til að núna er lagt til að andvirði heillar húseignar og að auki 6 millj. kr. verði varið til að auka þetta umfang. Hvers vegna ekki, herra forseti, að leyfa þessum bisness, eins og hæstv. ráðherra orðaði það, að vera áfram í Hrísey eins og hann var en hætta við stækkunina og spara ríkinu þann kostnað sem til hennar fellur en leyfa í staðinn einkaaðilum í Garðabæ eða annars staðar að taka upp sóttkvíar af þessu tagi? Það held ég að mundi skipta miklu máli. Þá er ég síst að hugsa um það fjármagn sem frá ríkinu kemur. Það mundi skipta ákaflega miklu máli fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu og basla við að heimsækja þessi dýr sín norður til Hríseyjar. Af hverju má ekki hafa þessi dýr í stöð nálægt Stór-Reykjavíkursvæðinu? Sá hluti þjóðarinnar eða þau 60% sem hér búa, sem samkvæmt upplýsingum hæstv. ráðherra notar þjónustu þessarar stöðvar að helmingi, gæti þá farið og séð ketti sína og hunda þegar hann lysti. Ég spyr hæstv. ráðherra: Þætti honum ekki skelfilegt ef hann yrði viðskila við uppáhaldshrossið sitt svo mánuðum skipti?