Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 16:54:33 (2221)

2000-11-27 16:54:33# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[16:54]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. formanni fjárln. að orðalag mitt um vinnu fjárln. var kannski aðeins ónákvæmt. Nefndin vinnur og hefur vinnuskyldu allt árið en varðandi formlega fjárlagavinnu eða eins og lögin um fjárreiður ríkisins kveða á um, þá fær hún ekki þau verkefni frá framkvæmdarvaldinu og frá þinginu eins og lögin kveða á um, þ.e. þegar fyrir liggja beiðnir um útgjöld þá á að taka þær fyrir, þá á kynna þær formlega í fjárln. og fjárln. á að taka þær formlega fyrir og afgreiða þær. Aðeins í neyðartilvikum skal það gert. En meginhluti fjáraukalaganna sem við erum hér að fjalla um eru engin bein neyðartilvik.

Við skulum heldur ekki gera störf þingsins ólýðræðislegri. Teknar eru ákvarðanir í lögum á vorþingi eða eftir að fjárlög hafa verið samþykkt sem geta eðlilega krafist fjárútláta ef Alþingi vill svo. Því er það afar nauðsynlegt að hið virka lýðræði Alþingis við fjárlagaafgreiðslu verði styrkt og eflt. Ég tel einmitt að það eigi að gera með því að fara að þeim lögum sem sett eru um fjáraukalögin og að nefndin starfi að þeim verkefnum eins og þar er kveðið á um.