Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 23:08:12 (2352)

2000-11-28 23:08:12# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[23:08]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. kvartar yfir því að framsóknarmenn hafi ekki verið mikið við þessa umræðu. Við höfum hins vegar verið yfir henni hér. Við eigum aðild að ríkisstjórn og þingflokkar taka ákvarðanir ásamt ríkisstjórn. Hv. þm. er í stjórnarandstöðu. Hann er nýliði og kann að eiga eftir að kynnast því einhvern tíma að sitja í ríkisstjórn. Sá tími kann að koma. Hann verður líka að átta sig á því að hér gildir það sem segir í fornu spakmæli: Að tala er silfur en þögnin er gull. Stundum er betra að gæta sín á að fara ekki marga hringi gegnum sig í þessum stól eins og henti hv. þm. í umræðunni, að gera lítið úr öllu sem gert til hagsbóta.

Hv. þm. er velviljaður og ber réttlætiskennd í brjósti sínu þannig að ég er hissa á að hann skuli ástunda þetta japl og jaml og fuður svo lengi.

Hv. þm. spurði: Hvaða kjarabætur fá þeir íbúar á landsbyggðinni sem ekki eiga eignir? Nú erum við algerlega sammála um það, ég og hv. þm., að það er mikið réttlætismál að íbúðir á Siglufirði séu ekki margfaldaðar í verði og metnar til jafns við íbúðir á Reykjavíkursvæðinu. Menn eiga að fagna einum sigri. Menn þurfa ekki að draga alla umræðuna á það plan sem hentar hv. þm. Ég bið hann að virða það að mikilvægur árangur hefur náðst og niðurstaða í baráttumáli sem við eigum sameiginlegt.

Þau sveitarfélög sem lækkuðu áður og höfðu efni á því eru auðvitað jafnsett hinum. Þau höfðu efni á því að gera þetta áður gagnvart sínum íbúum. Nú er jafnræði í þessu hjá þeim. Það þýðir ekki að spyrja svona þegar menn ná mikilvægum árangri. Hús er hús og hús er mikilvægasta eign fjölskyldunnar. Þá dugir ekki að spyrja hvort það þurfi ekki að dreifa silfrinu til fleira fólks. (Forseti hringir.)

Hæstv. forseti. Mér brá ónotalega við þessa háu bjöllu.