B-landamærastöðvar á Íslandi

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 14:41:00 (2398)

2000-11-29 14:41:00# 126. lþ. 34.6 fundur 256. mál: #A B-landamærastöðvar á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 126. lþ.

[14:41]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Herra forseti. Landamæri ESB eru að hluta til á Íslandi því að með lögum og reglugerðum er gerð krafa um að allt hráefni sem tekið er til vinnslu á Íslandi og hefur uppruna utan Evrópska efnahagssvæðisins fari um svokallaðar landamærastöðvar sem eru skoðunarstöðvar fyrir matvæli og eru staðsettar á löndunarhöfnum. Erfiðlega hefur gengið að fá samþykki fyrir umræddum landamærastöðvum og þær eru nú eingöngu í Reykjavík, Akureyri, Ísafirði og Eskifirði.

Í byrjun voru heimilaðar nokkrar svokallaðar B-stöðvar, en þeim var öllum lokað eftir að alvarlegt fjaðrafok varð um málið í Brussel. Virðist sem málið hafi lent milli nefnda hjá ESB og EES þar sem ekki var sátt um hver réði. Áhrif þessarar kröfu ESB sem koma síðan fram í íslenskri lagasetningu á rækju- og fiskvinnslu eru hins vegar þau að þær vinnslur sem byggja afkomu sína að einhverju leyti á erlendu hráefni og ekki eru staðsettar þar sem landamærastöðvar hafa verið samþykktar þurfa að leggja í verulegan aukakostnað til að flytja inn hráefni. Sem dæmi má nefna að rækjutogarinn Örvar lá í höfn á Skagaströnd eftir veiðar á Flæmingjagrunni. Þó að fjarlægðin sem flytja þurfti aflann frá skipshlið í frystiklefa hafi einungis verið 50 metrar var ekki heimilt að fara þá leið heldur varð að sigla skipinu til Akureyrar og taka allan afla þar á land í gegnum landamæraskoðun og flytja hann síðan til baka annaðhvort með skipinu eða á bílum. Það liggur auðvitað á borðinu hvaða áhrif slíkar hömlur hafa á samkeppnisstöðu milli vinnslustöðva og verður ekki betur séð en áframhaldandi höft af þessu tagi geti haft veruleg byggðaáhrif. Auk rækjuvinnslu má benda á áhrif á þær fiskvinnslur sem hafa reynt að byggja afkomu sína á vinnslu svokallaðs Rússafisks.

Herra forseti. Ég gat um þann aukakostnað sem félög verða fyrir sem hafa ekki hinar svokölluðu B-landamærastöðvar eða A-landamærastöðvar og fram hefur komið hjá framkvæmdastjóra Skagstrendings, Jóel Kristjánssyni, að það fyrirtæki verður fyrir allt að 12 millj. kr. aukakostnaði eingöngu vegna þess að ekki er hægt að landa aflanum á Skagaströnd eins og hér hefur komið fram. Ljóst er að þetta fyrirkomulag íþyngir mjög vinnslum úti á landi og algert lífsspursmál er fyrir þær að fundin verði lausn á þessum málum til þess að þær hafi sambærilegan rekstrargrunn og rekstrarkostnað og aðrar stöðvar.

Ég sagði áðan að búið var að opna átta stöðvar, svokallaðar B-stöðvar, en þeim hefur nú verið lokað, eins og t.d. á Húsavík, Raufarhöfn, Siglufirði, Sauðárkróki, Vopnfirði, Bolungarvík og Grundarfirði. Þeim var lokað að kröfu frá Evrópusambandinu.

Herra forseti. Vegna þessa hef ég lagt fram fyrirspurn sem er á þskj. 283 til hæstv. sjútvrh. sem er svohljóðandi:

,,1. Hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að mega starfrækja B-landamærastöðvar hér á landi vegna heilbrigðiseftirlits með sjávarafurðum frá svæðum utan Evrópska efnahagssvæðisins?

2. Hvers vegna eru B-landamærastöðvar ekki starfræktar hér á landi?``