Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 20:48:53 (2511)

2000-11-30 20:48:53# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., DrH
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[20:48]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Farið hefur verið mjög ítarlega yfir fjárlagatillögurnar af meiri hluta fjárln. Ég ætla aðeins að tæpa á nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi vil ég geta allra þeirra fjölmörgu verkefna sem eru í gangi varðandi menningarminjar í tengslum við ferðaþjónustuna en ferðamenn sem koma til landsins eru á þessu ári yfir 300 þús. sem skila 30 milljörðum til þjóðarbúsins. Þetta er í reynd önnur stærsta atvinnugreinin.

Menningartengd ferðaþjónusta fyrir erlenda sem innlenda ferðamenn skiptir afar miklu máli. Ferðamenn gera sér miklar væntingar um að kynnast sögu og menningu þjóðarinnar og einstakra byggðarlaga. Í raun hefur orðið mikil bylting í þeim efnum. Aukinn áhugi er á Íslendingasögunum með Njálu þar í fararbroddi. Ég held að á engan sé hallað ef ég minnist á nafn Jóns Böðvarssonar sem hefur vakið upp þennan mikla áhuga á Íslendingasögunum. Það hefur verið mjög fróðlegt að fylgjast með því hve aukinn áhugi almennings hefur verið á Íslendingasögunum og þá sérstaklega á Njálu. Ég vil þá geta um Njálusafnið á Hvolsvelli sem er afar vandað safn að allri gerð og er verið að styrkja það enn betur áfram. Þar mun líka verða verslunarsaga og er kominn hluti af henni, verslunarsaga Sunnlendinga sem er mjög merkileg saga, sérstaklega í ljósi þess að verslun á Suðurlandi er nú komin á afar fáar hendur.

Svo vil ég nefna aukinn áhuga á verndun gamlla húsa en þar hefur mjög myndarlega verið tekið á. Árni Johnsen, hv. 1. þm. Suðurl., fór mjög ítarlega yfir þau fjölmörgu verkefni sem verið er að styðja en ég vil nefna eitt verkefni og það er samgöngu- og tækniminjasafnið sem á að rísa í Skógum undir Eyjafjöllum og hýsa mun samgöngu- og tækniminjasögu Íslands. Ég vil geta þess að í Skógum er t.d. eitt merkilegasta símasafn sem er til í landinu. Þáttur Þórðar Tómassonar er einstakur í allri uppbyggingu safnsins og safnið í Skógum er eitt merkasta byggðasafn landsins en þangað koma um 30 þúsund gestir árlega. Safnið skiptir Rangæinga og Skaftfellinga miklu máli en þar er vel varðveitt saga þessara tveggja sýslna.

Þá vil ég nefna jöfnun námskostnaðar sem skiptir verulega miklu máli fyrir námsfólk og fjölskyldur þeirra á landsbyggðinni. Ríkisstjórnin hefur staðið þar verulega vel að málum og staðið við öll sín fyrirheit þar um og þetta er afar mikilvægt byggðamál.

Herra forseti. Undanfarin ár hefur verið unnið að miklum og merkilegum skógræktarverkefnum og landgræðsluverkefnum í öllum landshlutum. Þessi verkefni styrkja bæði búsetu og bæta náttúrufar og eru líka auk þess þáttur í að auka bindingu koltvísýrings í gróðri og jarðvegi. Í tillögunum er ætlað 10 millj. kr. framlag til verkefnisins Bændur græða upp landið en það er verkefni sem sveitarfélög leggja fjármagn til líka og svo bændur. Þetta er mjög merkilegt og þarft verkefni.

Í landshlutabundin skógræktarverkefni eru gerðar tillögur um að verja 70 millj. kr. í hækkun á framlögum og ég tel að það séu mjög mikilvæg verkefni sem þar er unnið að. Þá vil ég geta um mjög merkilegt rannsóknarverkefni sem Inga Þórsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands og formaður manneldisráðs, stendur að og tillaga er um að styrkja, en rannsóknarstofa í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala hefur m.a. stundað rannsóknir á næringu mæðra og ungra barna. Sama rannsóknarstofa hefur skipulagt og stjórnað rannsókn á næringarfræðilegum ástæðum þess að nýgengi sykursýki af gerð eitt eða barnasykursýki er meira en helmingi lægri hérlendis en meðal nágrannaþjóða okkar.

Þær rannsóknir hafa aðallega beinst að samanburði á íslenskri og erlendri kúamjólk með tilliti til áhrifa í líkamanum og hollustugildis. Rannsóknarniðurstöður hingað til benda sterklega til sérstöðu íslensku kúamjólkurinnar og í síðasta mánuði birtist grein um þær í þekktu bandarísku vísindatímariti. Brýnt er að halda þessum rannsóknum áfram, bæði þarf að meta áhrif fleiri efna í kúamjólkinni en hingað til hefur verið gert og rannsaka aðra hugsanlega þætti mataræðis sem tengjast tilkomu sykursýki. Ef íslenska kúamjólkin hefur sérstöðu er mjög líklegt að þeir eiginleikar hafi víðtækari heilsufarsleg áhrif. Í þessum tillögum er gert ráð fyrir að styrkja þetta verkefni með 9,5 millj. kr. Mjög mikilvægt er að ríkissjóður komi að þessum rannsóknum og þetta er í rauninni eina leiðin til þess að íslenskir aðilar haldi áfram næringarfræðilegum rannsóknum sem tengjast kúamjólk. Þetta gagnast fyrst og fremst almenningi því að næringarfræðin er fyrst og fremst í þágu neytandans og heilsu hans og þess vegna er mikilvægt að stuðla að vexti hennar.

Herra forseti. Þróun fíkniefnaneyslu hér á landi undanfarin ár hefur almennt verið á verri veg. Þar ber hæst aukin neysla áfengis og annarra vímuefna meðal ungs fólks. Ungu fólki sem leitar til meðferðarstofnana vegna vímuefnaneyslu fjölgar stöðugt. En sem betur fer hefur á hinn bóginn orðið veruleg vakning til vitundar um nauðsynlega stefnumörkun og skipulegt forvarnastarf og fagleg vinnubrögð í forvörnum. Í auknum mæli er litið á forvarnir sem sjálfsagt viðfangsefni sveitarfélaga. Forvarnir, skipulagðar til lengri tíma, og áhersla á víðtækar samhæfðar aðgerðir, hefur aukist á kostnað afmarkaðra skammtímaverkefna.

Sjálfstfl. hefur ávallt lagt áherslu á öfluga löggæslu sem tryggir öryggi borgaranna, líf þeirra og eignir. Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í áfengis-, fíkniefna- og tóbaksvörnum hefur verið fylgt af krafti frá því að hún var samþykkt fyrir fjórum árum. Markvisst hefur verið unnið að framkvæmd þessarar áætlunar sem tekur til margra aðila og verulega auknu fé hefur verið varið til þessara málaflokka undanfarin ár. Þá hafa í raun og orðið straumhvörf í starfi fíkniefnalöggæslu í landinu. Ekki aðeins hafa verulegar fjárveitingar í þennan málaflokk leitt til betri árangurs heldur hefur meira komið til, eins og faglegri vinnubrögð, en fjármagn til fíkniefnalögreglunnar var aukið um 50 millj. kr. á þessu ári. Þessu fé var varið til fjölgunar lögreglumanna til fíkniefnalöggæslu, til þjálfunar þeirra, til tækjakaupa og þjálfunar fíkniefnahunda.

Mun meiri samvinna er nú milli lögregluliðanna og þá hafa lögregluliðin sýnt meira frumkvæði en áður í baráttunni við þennan vágest. Verulega bættur tækjabúnaður lögreglunnar hefur gert henni kleift að beita hnitmiðaðri rannsóknum og árangursríkari aðferðum. Í nál. meiri hluta fjárln. stendur í kaflanum Áfengis- og fíkniefnamál:

,,Tvær tillögur eru til hækkunar á þessu við fangsefni og nema þær 25 millj. kr. Í fyrri tillögunni er lagt til að veitt verði 20 millj. kr. fjárheimild til þess að mæta sérstökum kostnaði við rannsóknir meiri háttar fíkniefnamála.``

Síðan stendur hér:

,,Í síðari tillögunni er lagt til að 5 millj. kr. verði varið til þess að koma rekstri sporhunda og fíkniefnaleitarhunda á varanlegan grundvöll. Nauðsynlegt þykir að koma á föstum framlögum til þjálfunar sporhunda, annaðhvort á vegum lögregluembætta eða með samningum við björgunarsveitir.``

Og í kaflanum Ýmis löggæslumál:

,,Gerð er tillaga um 25 millj. kr. fjárveitingu sem varið verði til að efla löggæslu með því að fjölga lögreglumönnum, einkum á sviði fíkniefnalöggæslu. Að undanförnu hefur fjölgað verulega stórum og tímafrekum rannsóknum í fíkniefnamálum og er fyrirhugað að bæta við mannafla í fíkniefnalöggæslu til að anna miklu og viðvarandi álagi. Fjárhæðin samsvarar launum sex lögreglumanna ...``

Virðulegi forseti. Þetta eru mjög góðar tillögur sem meiri hluti fjárln. leggur hér til og ég vona að þær fái góða og skjóta afgreiðslu.