Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 16:47:47 (3065)

2000-12-08 16:47:47# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, Frsm. 1. minni hluta GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[16:47]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Gísli S. Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki annað en tekið undir með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að eitthvað er að fiskveiðilöggjöfinni. Ég get tekið undir það að við séum fastir í gildru. Í hvaða gildru? Við erum fastir í þeirri gildru t.d. í Faxaflóanum að allar bleyður þar, sem hægt er að koma við snurvoð, eru orðnar þannig að enginn fiskur fæst orðið þar að gagni. Nærtækast er að vísa í svar til hæstv. forseta sem situr nú í stóli sem sýnir að aflinn er stöðugt minnkandi. Það er vegna rangrar fiskveiðiráðgjafar, svoleiðis að ég tek undir það. En ég segi að það er fyrst og fremst framkvæmd fiskveiðistjórnarinnar sem er gagnrýniverð og þar liggur stjórnin hjá ríkisstjórn.

Aðeins varðandi það að hér var talað um að ríkisfjármálin væru í góðu lagi. Það er aðeins ríkiskassinn sem er í góðu lagi. Hann stendur vel. En efnahagsstjórnin er röng þegar viðskiptahallinn stefnir í yfir 70 milljarða.