Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 16:51:36 (3458)

2000-12-15 16:51:36# 126. lþ. 50.95 fundur 214#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[16:51]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi mótmæla ómaklegum árásum formanns efh.- og viðskn., hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra Verslunarráðsins, á samkeppnisráð héðan úr þessum ræðustóli. Ég held að hv. þm. ætti að ræða við þá sjálfa á þeim vettvangi þar sem þeir geta svarað fyrir sig.

Í öðru lagi, herra forseti, var athyglisvert að heyra hæstv. forsrh. koma upp um það að ríkisstjórninni hafi dottið í hug að sameina bankana með sérlögum til þess að komast fram hjá samkeppnislögum. Það voru afar athyglisverðar upplýsingar. Er hægt að fá eitthvað meira af slíkum hugmyndum að frétta? Í ljósi úrskurðarins sem nú liggur fyrir voru þetta merkilegar upplýsingar, satt best að segja.

Ég veit ekki, herra forseti, hvort er réttara að kalla þessa niðurstöðu kjaftshögg eða roknalöðrung á ríkisstjórnina. Ekki er það minna. Staðreyndin er auðvitað sú að það er einmitt ríkisstjórnin sem má þakka sínum sæla fyrir að ekki fór enn verr. Eða hefði ríkisstjórnin viljað fá svona úrskurð eftir að hafa knúið fram með offorsi löggjöf um sameiningu bankanna? Ef það er einhver sem má þakka sínum sæla, þá er það ríkisstjórnin.

Í þriðja lagi lagði ríkisstjórnin málið ekki hlutlaust fyrir. Þetta var ekki beiðni frá hlutlausum aðila um faglegan úrskurð. Þetta var beiðni frá ríkisstjórninni sem ætlaði að sameina bankana, ætlaði að keyra löggjöf í gegn á nokkrum sólarhringum. Allt tal um að þetta sé ekki áfall fyrir ríkisstjórnina dæmir sig sjálft.

Ég hvatti til þess, herra forseti, í fyrri ræðu minni að ríkisstjórnin gerði nú þrennt:

1. Lýsti því yfir að ekki yrði um frekari áform um einkavæðingu bankanna að ræða á næstunni. Gefin yrði út yfirlýsing um það að ríkissjóður mundi standa á bak við bankana sem öflugur bakhjarl til þess að róa málin niður og treysta stöðu þeirra.

2. Að starfsfólki yrði gefin yfirlýsing um að ekki kæmi til uppsagnar.

3. Að ríkisstjórnin gerbreytti um vinnubrögð.

Það væri fróðlegt ef hæstv. viðskrh. gæti að einhverju leyti svarað þessum spurningum, herra forseti.