Ferill 11. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.




126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 11 – 11. mál.


Tillaga til þingsályktunar



um undirbúning upptöku Tobin-skatts á fjármagnsflutninga milli landa.

Flm.: Ögmundur Jónasson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að komið verði á viðræðum til að undirbúa upptöku svonefnds Tobin-skatts á fjármagnsflutninga milli landa.

Greinargerð.


    Hugmyndin um alþjóðlegan skatt á fjármagnsflutninga milli landa var sett fram í byrjun áttunda áratugarins af Nóbelsverðlaunahafanum James Tobin, prófessor í hagfræði við Yale- háskóla í Bandaríkjunum. Upphaflega markmiðið með slíkum skatti var að renna stoðum undir sjálfstæða efnahagsstefnu ríkja heims og draga úr gengissveiflum einstakra gjaldmiðla. Á síðari árum hefur Tobin-skatturinn einnig verið nefndur sem leið til að verja gjaldmiðla fyrir árásum spákaupmanna og til að fjármagna aðkallandi alþjóðaverkefni. Í stuttu máli má segja að útgangspunkturinn með slíkri skattheimtu sé að treysta efnahagslegt öryggi hvarvetna í heiminum.
    Talið er að nú fari jafnvirði allt að 144.000 milljarða króna milli landa á degi hverjum og þar af eru yfir 80% hrein spákaupmennska. Umfang þessarar verslunar hefur aukist gríðarlega á síðustu árum og nífaldaðist á árunum 1986–98. Um 40% fjármagnsins fara hringinn í viðskiptaheiminum á þremur dögum og 80% komast aftur á byrjunarreit á aðeins einni viku.
    Hér á landi hefur heildarvelta viðskipta með gjaldeyri aukist hröðum skrefum, sbr. meðfylgjandi töflu. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands nemur heildarvelta þeirra sem mynda millibankamarkað með gjaldeyri hér á landi nú að jafnaði mun hærri upphæð mánaðarlega en allt árið 1994 og var heildarveltan á árinu 1999 níföld velta ársins 1994. Aðilar að millibankamarkaði eru Íslandsbanki — FBA, Landsbanki Íslands hf., Búnaðarbanki Íslands hf., og Kaupþing hf. en Sparisjóðabanki Íslands hætti þátttöku á millibankamarkaði 8.ágúst sl.

Tafla 1. Heildarvelta á millibankamarkaði í milljónum króna.



Ár Samtals 1999 2000
1994 53.130 Janúar 32.931 Janúar 56.042
1995 54.384 Febrúar 32.046 Febrúar 82.569
1996 80.821 Mars 25.245 Mars 61.060
1997 162.249 Apríl 37.285 Apríl 39.481
1998 401.719 Maí 38.001 Maí 38.660
1999 467.972 Júní 48.704 Júní 99.446
Júlí 43.541 Júlí 94.671
Ágúst 43.836 Ágúst 52.193
September 38.017
Október 41.306
Nóvember 39.448
Desember 47.614
Heimild: Tölfræðisvið Seðlabanka Íslands.
    Segja má að áhugi á hugmynd James Tobins hafi vaxið mjög eftir fjármálakreppuna í Suðaustur-Asíu haustið 1997. Þá átti spákaupmennska drjúgan þátt í því að gjaldmiðlar Malasíu, Filippseyja og Indónesíu hrundu en kreppan teygði anga sína mun víðar, þar á meðal til Taílands, Suður-Kóreu og Japans. Í framhaldinu neyddust mörg ríkjanna til að taka gríðarlega fjármuni að láni til að fleyta sér yfir erfiðustu hjallana.
    Í umræðu um Tobin-skatt hefur verið miðað við 0,1–0,25% skatt eftir því hve upphæðin er há í hverju tilviki. Afraksturinn á heimsvísu gæti því orðið á bilinu 8–24 milljarðar króna á ári. Svo lág skattprósenta tryggir að skatturinn hefði ekki áhrif á langtímafjárfestingar en hamlaði samt sem áður gegn spákaupmennsku. Höfuðstóll spákaupmanna mundi rýrna hratt við að vera fluttur oft á dag og skattlagður í hvert skipti.
    Nú þegar hafa bæði kanadíska þingið og ríkisstjórn Finnlands lýst yfir stuðningi sínum við hugmyndina. Einnig hefur Tobin-skatturinn komið til umræðu á löggjafarþingum Bretlands, Frakklands og Bandaríkjanna, svo að dæmi séu tekin.
    Það skal tekið fram að þegar skattlagning af þessu tagi er annars vegar er að ýmsu að hyggja. Ýmsum spurningum er ósvarað, m.a. um hvernig innheimta beri skattinn, hver eigi að vera vörsluaðili teknanna og hversu langt sé hægt að ganga í samræmingu laga og reglna um slíkan skatt án þess að ganga á fullveldi ríkja. Flestir eru hins vegar sammála um að Tobin-skatturinn komi ekki að gagni nema um hann náist alþjóðleg samstaða. Ef ríki neita að leggja slíkan skatt á mun gjaldeyrisverslunin einfaldlega flytjast þangað. Hvað ráðstöfun teknanna af slíkum skatti snertir hafa málaflokkar á borð við hungur, ólæsi, friðargæslu, hreinsun jarðsprengjusvæða og brýn verkefni í umhverfismálum verið nefndir til sögunnar.
    Ljóst er af framansögðu að nauðsynlegt er að fulltrúar allra ríkja heims komi saman til að ræða málið enda snertir það alla jarðarbúa með einum eða öðrum hætti. Því er hér skorað á ríkisstjórn Íslands að beita sér fyrir upptöku málsins á alþjóðavettvangi.