Ferill 20. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 20  —  20. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991, með síðari breytingum.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir,


Guðmundur Árni Stefánsson.



1. gr.

    Lokamálsliður 2. mgr. 48. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 1. mgr. 74. gr. a laganna:
          a.      A-liður fellur brott.
          b.      Orðin „a- og“ í c-lið falla brott.


3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Mikil óvissa hefur ríkt um starfsemi Barnahúss frá því að ákvæði laga um meðferð opinberra mála tóku gildi 1. maí á síðasta ári. Þar er kveðið á um breytta tilhögun við skýrslutöku barna sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðisofbeldi. Meginbreytingin er sú að skýrslutakan er á vegum dómara en ekki lögreglu eins og áður var.
    Fullyrða má að þingmenn hafi talið að með umræddri lagabreytingu væru þeir að treysta réttarstöðu barna en ekki veikja hana. Reynslan hefur því miður orðið önnur. Í kjölfar lagabreytingarinnar var komið upp aðstöðu í héraðsdómi Reykjavíkur. Stærsti hluti skýrslutöku barna hefur síðan farið fram þar. Einungis héraðsdómstólarnir á Reykjanesi, Norðurlandi eystra og Vesturlandi hafa notað Barnahúsið í verulegum mæli. Á döfinni er að koma á fót slíkri aðstöðu við héraðsdóm Norðurlands eystra og héraðsdóm Reykjaness og má búast við að málum sem tekin eru fyrir í Barnahúsi fækki þá enn þannig að ekki verði unnt að starfrækja það áfram. Lokun Barnahúss væri stórslys og afturhvarf til fortíðar.
    Barnahúsi var komið á laggirnar í kjölfar upplýsinga sem komu fram á Alþingi um að barnaverndarnefndir hefðu fengið til meðferðar 465 mál vegna meintrar kynferðislegrar áreitni eða ofbeldis á árunum 1992–96, en aðeins var birt ákæra í 45 þeirra. Því má segja að Barnahúsið sé svar við eindregnum óskum þingmanna sem fram komu í umræðum á þingi um þessar skelfilegu tölur. Brugðist var við með ábyrgum hætti, bestu úrlausna leitað og þeim hrint í framkvæmd. Meginmarkmið með starfsemi Barnahúss er að veita börnum sem þolað hafa kynferðisofbeldi alla nauðsynlega þjónustu á einum stað. Þannig er unnt að forða börnunum frá því að endurtaka frásagnir af viðkvæmum atvikum fyrir ólíka viðmælendur á mörgum stöðum. Rannsóknir hafa einmitt sýnt að slíkt er líklegt til að auka enn á þjáningar þeirra. Að auki getur slíkt spillt rannsókn málanna þar sem hætta er á að saga barnsins brenglist eftir því sem viðmælendurnir eru fleiri.
    Barnahús var í upphafi samstarfsvettvangur allra sem koma að rannsókn og vinnslu kynferðisafbrota gegn börnum, en þátt í undirbúningi Barnahúss tóku fulltrúar ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara, félagsmálastjóra, Barnaspítala Hringsins og barna- og unglingageðdeildar Landspítalans ásamt sérfræðingum frá barnaverndarnefndum og Barnaverndarstofu. Þessir aðilar, sem hafa þýðingamiklu hlutverki að gegna við rannsókn og meðferð þessara mála, vildu allir leggja sitt af mörkum til að tryggja velferð barnanna jafnframt því að auka öryggi og gæði málsmeðferðar með samvinnu ólíkra sérfræðinga. Með þessu næst mikilvæg heildarsýn ásamt því að þekking og reynsla skapast í þessum erfiðu og viðkvæmu málum.
    Starfsemi Barnahúss má greina í þrennt: skýrslutöku af börnum, læknisskoðun og greiningu og meðferð. Skýrslutöku af börnum annast sérfræðingar sem hlotið hafa sérstaka þjálfun til þess erlendis. Á stuttum starfstíma Barnahúss hefur fengist meiri reynsla við framkvæmd slíkrar skýrslutöku en áður hefur þekkst hérlendis þar sem tekin hafa verið viðtöl við hátt á þriðja hundrað börn. Þá er Barnahúsið sérstaklega hannað með það fyrir augum að börnunum líði vel í viðtölunum en það er forsenda þess að þau geti tjáð sig greiðlega um viðkvæm mál.
    Í Barnahúsinu er fullkomin aðstaða til læknisskoðunar þar sem reyndir læknar, sem annast hafa þessar rannsóknir á Barnaspítala Hringsins í áratugi, sjá um skoðunina. Keyptur var dýr búnaður erlendis frá til að nota við þessar rannsóknir. Læknarnir hafa lýst því að læknisskoðanir í Barnahúsinu hafi markað þáttaskil í þessum efnum því að nú sé í fæstum tilvikum nauðsynlegt að svæfa börnin en það var mjög algengt þegar skoðunin fór fram á sjúkrahúsi.
    Í Barnahúsi er börnum sem þolað hafa kynferðisofbeldi veitt sérhæfð greining og meðferð. Mikilvægt er að greina áhrif ofbeldisins á sálarlíf og líðan barnanna til að ákveða viðeigandi hjálp og meðferð. Mörg börn fá meðferð í Barnahúsi og foreldrar þeirra ráðgjöf og áfallahjálp. Þolendur af landsbyggðinni fá meðferð í sínu heimahéraði ef þess er óskað og fara starfsmenn Barnahúss þá á staðinn. Á vegum Barnahúss hafa vel á annað hundrað börnum fengið meðferð frá upphafi.
    Fyrirmyndin að starfsemi Barnahúss var sótt til Bandaríkjanna og aðlöguð íslensku réttarfari og velferðarkerfi. Það er fyrsta stofnun sinnar tegundar á Norðurlöndum og hefur vakið mikla athygli. Fjallað hefur verið um það í fagtímaritum og á ráðstefnum á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjum. Hópar sérfræðinga hafa komið í heimsókn til að kynna sér starfsemi Barnahúss og starfsmenn þess hafa m.a. verið beðnir um að halda námskeið um framkvæmd rannsóknarviðtala. Því er ljóst að Íslendingar mega vera stoltir af því hvernig til hefur tekist.
    Málefni Barnahúss hafa verið til opinberrar umfjöllunar í langan tíma. Í ljós hefur komið gríðarlegur stuðningur almennings jafnt sem fagfólks við starfsemi hússins, svo sem blaðagreinar og umfjöllun fjölmiðla hafa sýnt. Aðstandendur barna hafa lýst gæðum þjónustunnar sem veitt er í Barnahúsi. Tugir félagasamtaka hafa lýst yfir stuðningi við húsið og skorað á yfirvöld að tryggja áframhaldandi starfsemi þess.
    Gerðar hafa verið tilraunir til að skapa Barnahúsi starfsgrundvöll með því að kanna hvort vilji sé til þess meðal dómara að fallast á starfsreglur sem feli í sér að málum yngri barna verði vísað til meðferðar í Barnahúsi. Segja má að þær tilraunir hafi beðið skipbrot með útgáfu verklagsreglna um skýrslutöku af börnum sem dómstólaráð gaf nýlega út. Í þeim er ekki að finna nein tilmæli til dómara um slíkt heldur er Barnahússins einungis getið sem valkosts við framkvæmd skýrslutöku. Með hliðsjón af því að unnið er að uppbyggingu aðstöðu til skýrslutöku í fleiri dómstólum, svo sem fyrr er vikið að, má búast við að málum sem vísað er til Barnahúss fækki enn. Við blasir að ekki verður unnt að starfrækja það áfram að óbreyttum lögum.
    Frumvarp þetta felur í sér að horfið verði frá þeirri tilhögun sem komið var á með breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, að því er varðar skýrslutöku af börnum fyrir dómi, og að fyrri tilhögun verði lögfest að nýju. Eldri lagaákvæði tryggðu augljóslega betur velferð barna sem sætt hafa kynferðisofbeldi. Hin nýju lagaákvæði hafa að auki skapað glundroða við framkvæmd þessara mála, óvissu og ósætti sem ekki verður við unað. Á það skal minnt að m.a. Dómarafélag Íslands og ríkissaksóknari gerðu alvarlegar athugasemdir við lagabreytinguna á sínum tíma og lögðust gegn því að dómurum væri falin ábyrgð á skýrslutöku af börnum við frumrannsókn mála eins og lögin gera ráð fyrir. Þá hefur ítrekað komið fram af hálfu Barnaverndarstofu það mat að lagabreytingin hafi falið í sér afturför í þessum málum. M.a. hefur verið bent á að einungis lítið brot mála þar sem grunur vaknar um kynferðisofbeldi gegn börnum komi til meðferðar dómstóla. Í því ljósi verður ekki séð hver tilgangurinn með skýrslutöku fyrir dómi er, sérstaklega þegar fórnarkostnaðurinn er hafður í huga. Loks hefur verið bent á að skýrslutaka fyrir dómi við frumrannsókn slíkra mála þekkist hvergi annars staðar í nágrannalöndum okkar en í Noregi, en þar byggist hún á áratugalangri hefð. Engin áform eru t.d. í Danmörku, Svíþjóð eða Finnlandi um að taka slíkt fyrirkomulag upp svo vitað sé.
    Afar brýnt er að Alþingi nái viðunandi niðurstöðu í þessu máli og komi í veg fyrir að leggja þurfi niður Barnahús, sem hefur svo mikilvægu hlutverki að gegna fyrir velferð barna í þjóðfélaginu, en það er megintilgangur þessa frumvarps.
    Í frumvarpinu er lagt til að a-liður 1. mgr. 74. gr. a falli brott, en þar er kveðið á um að ef rannsókn beinist að broti á XXII. kafla almennra hegningarlaga (kynferðisbrot) og brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri þegar rannsókn máls hefst beri lögreglu að leita atbeina dómara sem sér um að taka skýrslu af honum. Með frumvarpinu er því lagt til að skýrslutaka af vitnum verði í höndum lögreglu eins og var áður en lög nr. 36/1999, sem breyttu lögum um meðferð opinberra mála, voru samþykkt. Markmið frumvarpsins er að skýrslutökur af brotaþolum fari fram í Barnahúsi eins og nánar er lýst hér á undan. Jafnframt er lagt til að lokamálsliður 2. mgr. 48. gr. verði felldur brott en samkvæmt honum er gert ráð fyrir að brotaþoli hafi komið fyrir dóm meðan málið var á rannsóknarstigi. Ákvæðið er óþarft því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að tekin hafi verið skýrsla af brotaþola í Barnahúsi á vegum lögreglu við rannsókn málsins og hann hafi því ekki komið fyrir dóm áður. Brotaþoli mundi því aðeins koma einu sinni fyrir dóm til að gefa skýrslu og ef um er að ræða kynferðisbrotamál og hann er undir 18 ára aldri verður ýmist hægt að taka hana í sérútbúnu húsnæði viðkomandi dómstóls með aðstoð kunnáttumanns eða í Barnahúsi, sbr. 7. mgr. 59. gr. laganna.