Ferill 103. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 103  —  103. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um mat á áhrifum lögfestingar stjórnarfrumvarpa á byggða- og atvinnuþróun.

Flm.: Magnús Stefánsson, Einar K. Guðfinnsson, Ísólfur Gylfi Pálmason,
Kristinn H. Gunnarsson, Hjálmar Árnason, Gísli S. Einarsson,
Árni Steinar Jóhannsson.


    Alþingi ályktar að með stjórnarfrumvörpum sem lögð eru fyrir Alþingi fylgi mat á því hvaða áhrif lögfesting frumvarpanna kann að hafa á byggða- og atvinnuþróun í landinu.

Greinargerð.


    Á undanförnum árum hefur byggðaþróun í landinu verið sú að þúsundum fleiri Íslendingar hafa flust búferlum af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins en til landsbyggðarinnar. Ljóst má vera að lögfesting einstakra lagafrumvarpa getur haft bein áhrif á þróun byggða og atvinnulífs í landinu. Sem dæmi má nefna að fjárlög hvers árs eru stefnumótandi um það hvernig fjármagn ríkissjóðs er nýtt. Ákvæði fjárlaga um útgjöld í einstökum málaflokkum geta haft einföld og bein áhrif á byggðaþróun, jafnt til lengri sem skemmri tíma. Þannig geta fjárlög stuðlað að sterkari stöðu landsbyggðarinnar og jafnframt veikt stöðu hennar. Lögfesting stjórnarfrumvarpa í ýmsum málaflokkum hefur einnig bein áhrif á þróun byggðar. Því er afar mikilvægt að áhrif lagasetningar á byggðaþróun liggi fyrir, bæði þegar frumvörp eru unnin og eins við umfjöllun Alþingis um þau.
    Þegar stjórnarfrumvörp eru í smíðum eru þau unnin að frumkvæði ráðuneyta. Oftast vinna hagsmunaaðilar að málinu, pólitískir samherjar hafa samráð og í einstaka tilfellum vinna þingmenn að málum. Áður en lokið er við að semja stjórnarfrumvarp gefur fjármálaráðuneytið umsögn um áhrif þess á tekjur og gjöld ríkissjóðs. Á sama hátt hlýtur að vera nauðsynlegt að skoða hvaða áhrif lögfesting frumvarpa getur haft á byggða- og atvinnuþróun, ekki síst í ljósi þess hve alvarleg sú þróun hefur verið undanfarin ár.
    Þegar lagafrumvörp eru samin er mörkuð stefna um það á hverju þau skuli taka. Á því stigi er mikilvægt að þeir sem semja lagafrumvörp geri sér sem besta grein fyrir áhrifum þeirra eftir að þau verða að lögum. Því er nauðsynlegt fyrir framkvæmdarvaldið og stjórnsýsluna að leitast við að gera sér grein fyrir áhrifum lögfestingar á byggða- og atvinnuþróun. Færa má rök fyrir því að hagsmunir íbúa á landsbyggðinni hafi verið látnir víkja fyrir öðrum hagsmunum. Í því sambandi má nefna fjárhagslega hagsmuni í tengslum við útgjöld ríkissjóðs sem lúta tölulegum lögmálum en í slíkum tilfellum skortir oft á að hugað sé að heildarhagsmunum þjóðarinnar. Oft má finna dæmi um að fremur sé litið til þrengri hagsmuna í því sambandi. Líklegt er að í slíkum tilfellum hafi lagasetning stuðlað að þeirri byggða- og atvinnuþróun sem orðið hefur undanfarin ár. Einnig má nefna sem dæmi að þegar unnið er að smíði frumvarpa sem fela í sér nýjar stofnanir eða ný störf, er mikilvægt að hugað sé að staðsetningu. Leiða má líkur að því að til skamms tíma hafi nánast verið litið á það sem sjálfgefið að slík starfsemi væri á höfuðborgarsvæðinu eftir lögfestingu frumvarpanna.
    Stjórnsýslan og framkvæmdarvaldið hefur að langmestu leyti aðsetur á höfuðborgarsvæðinu. Starfsmenn þess og embættismenn eru langflestir búsettir þar og hafa takmarkaðan skilning á aðstæðum og hagsmunum landsbyggðarmanna. Þessir aðilar, sem ráða miklu um útfærslu lagafrumvarpa, hafa hagsmuni landsbyggðarinnar eðlilega ekki efst í huga við frumvarpsgerðina eða þegar þeir fjalla um ýmis atriði á sviði framkvæmdarvaldsins. Ekki skal fullyrt að þetta sé algilt en líklegt er að svona hafi málum oft verið háttað.
    Þegar meta á afleiðingar lögfestingar lagafrumvarpa á byggða- og atvinnuþróun í landinu má telja eðlilegt að Byggðastofnun sé falin sú vinna. Starfsmenn stofnunarinnar búa yfir alhliða þekkingu á málefnum og hagsmunum landsbyggðarinnar og því væri það rökrétt ákvörðun.