Ferill 253. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 278  —  253. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um sjálfbæra atvinnustefnu.

Flm.: Kolbrún Halldórsdóttir, Árni Steinar Jóhannsson, Jón Bjarnason,
Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að móta, í samráði við sveitarfélög, samtök atvinnurekenda og launafólks og opinber ráð og rannsóknastofnanir, rammaáætlun um sjálfbæra atvinnuþróun á Íslandi með hliðsjón af Dagskrá 21 og Staðardagskrá 21 og vinna að framgangi hennar stig af stigi.
    Slík stefnumótun miði meðal annars að því:
          að atvinnuvegir landsmanna lúti lögmálum sjálfbærrar þróunar og miðist við hrein framleiðsluferli og sjálfbæra nýtingu auðlinda,
          að skapa nýjum atvinnugreinum á sviði þekkingar og tækni í umhverfismálum hagstæð vaxtarskilyrði og efla þannig atvinnulíf og auka fjölbreytni þess,
          að beislun innlendra orkulinda hafi að markmiði að vistvæn orka komi í stað innflutts jarðefnaeldsneytis samhliða því sem komið verði í veg fyrir orkusóun,
          að fylgt verði alþjóðlegum skuldbindingum um losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við markmið rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kyoto- bókunina,
          að móta umhverfisstefnu með „grænu bókhaldi“ í stofnunum og fyrirtækjum og fela Þjóðhagsstofnun að þróa og birta „græna þjóðhagsreikninga“,
          að taka upp „græna skatta“ stig af stigi og draga í staðinn úr núverandi skattheimtu og leggja á umhverfisgjöld til að ýta undir sjálfbær framleiðsluferli og örva endurnýtingu,
          að draga úr sorpmyndun með því að flokka og endurnýta sorp og lífrænan úrgang,
          að tryggja að skipulag og landnotkun lúti langsæjum markmiðum um sjálfbæra landnýtingu, náttúruvernd og verndun menningar- og búsetuminja,
          að stuðla að rannsóknum og menntun þannig að ætíð sé til haldgóð þekking aðgengileg fyrir almenning og vel menntað starfsfólk til að stuðla að sjálfbærri atvinnuþróun,
          að styrkja byggðir landsins með fjölgun starfa og fjölbreyttari atvinnutækifærum á sviði umhverfis- og náttúruverndar.
    Rammaáætlunin um sjálfbæra atvinnuþróun verði kynnt á Alþingi eigi síðar en á haustþingi 2002.

Greinargerð.


    Tillaga sú sem hér er flutt er efnislega af sama toga og 590. mál, þskj. 892, sem flutt var á 125. löggjafarþingi af þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Tillögutextinn hefur verið styttur og einfaldaður en aðgerðir í einstökum málaflokkum eru nánar útlistaðar í meðfylgjandi greinargerð.
    Umhverfis- og náttúruvernd er óaðskiljanlegur hluti farsællar samfélagsþróunar á 21. öld og skilyrði þess að mannkynið haldi velli. Umhverfis- og náttúruvernd mun einnig skipta sköpum í baráttunni fyrir því að viðunandi jöfnuður náist með einstaklingum og þjóðum. Allir geta lagt sitt af mörkum til umhverfis- og náttúruverndar og þannig orðið virkir þátttakendur í sameiginlegri vegferð heimsbyggðarinnar í átt til sjálfbærrar þróunar. Þetta á ekki síður við hér á Íslandi en annars staðar. Því er mikilvægt að nú þegar verði hafist handa við að skipuleggja hvernig Íslendingar geti byggt upp sjálfbæra atvinnustefnu þar sem umhverfisvernd og atvinnuuppbygging fara saman. Ein helsta forsenda þess að svo geti orðið er að skilningur á þeim miklu atvinnutækifærum sem í raun felast í markvissri og metnaðarfullri umhverfisvernd verði efldur. Nauðsynlegt er að eyða tortryggni sem oftar en ekki stafar af því að litið er á umhverfisvernd sem dragbít á þróttmikið atvinnulíf eða jafnvel andstæðu þess. Vernd náttúru og umhverfis er ekki einungis skylda okkar við komandi kynslóðir heldur einnig uppspretta tækifæra.
    Tillaga sú sem hér er flutt miðar að því að allir atvinnuvegir þjóðarinnar lúti lögmálum sjálfbærrar þróunar, við alla framleiðslu verði lögð áhersla á hrein framleiðsluferli og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Mikilvægt er að allt kapp verði lagt á að varðveita hreinleika lands og sjávar, enda er slíkt forsenda fyrir framleiðslu og sölu á hollum neysluvörum. Vinna þarf markvisst að því að framleiðsluvörur þjóðarinnar standi undir ímynd hollustu og hreinleika.
    Þá miðar tillagan að því að komið verði á umhverfisstefnu og „grænu bókhaldi“ í stofnunum og fyrirtækjum. Mikilvægt er að koma því á að Þjóðhagsstofnun birti „græna þjóðhagsreikninga“ auk þess sem gera þarf gagngera áætlun um endurskoðun skattkerfisins sem miði að því að taka í áföngum upp „græna skatta“. Markmiðið verði að innkaupsverð vöru endurspegli þann umhverfiskostnað sem framleiðsla, notkun og eyðing vörunnar hefur í för með sér.

Tækni og menntun.
     Nauðsynlegt er að ryðja braut nýjum starfsgreinum á sviði umhverfisfræða og fjölga menntunartækifærum í umhverfistækni og umhverfisstjórnun. Einnig ber að tengja þekkingariðnað þessum greinum og efla hann með samræmdum aðgerðum. Leggja þarf sérstaka áherslu á rannsóknir almennt og sjá til þess að hluti opinberra fjárveitinga til rannsóknarstarfa verði merktur rannsóknum á sviði umhverfismála, svo sem umhverfistækni og umhverfisstjórnunar.
    Á Íslandi eru ákjósanlegar aðstæður til margs kyns rannsókna á sviði náttúruvísinda. Þar sem landið er stöðugt í mótun er það í rauninni lifandi kennsluefni í jarðfræði, líffræði og fleiri greinum. Rannsóknarefnin eru næg og skapa möguleika á að laða hingað erlenda vísindamenn til rannsókna í samvinnu við innlenda aðila. Norræna eldfjallastöðin, Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna, Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar eru dæmi um stofnanir sem hægt er að efla og hafa til hliðsjónar við uppbyggingu alþjóðlegra vísindarannsókna á Íslandi. Þá mætti hugsa sér að komið yrði á vísindasetrum í tengslum við þjóðgarða og önnur friðlýst svæði.
    Frændur okkar Norðmenn hafa komið á fót aðstöðu á Svalbarða fyrir fjölda vísindamanna úr ýmsum greinum náttúruvísinda. Þar dveljast nú næstum 300 vísindamenn við rannsóknir og tengd störf yfir sumartímann og að vetrarlagi dveljast þar 90–100 vísindamenn. Háskólar og aðrar rannsóknastofnanir kosta dvöl vísindamannanna á Svalbarða og hefur starfsemin þar aukist mjög á síðustu árum.
    Annað dæmi má nefna frá japönsku eynni Hokkaido þar sem grænþörungurinn Cladophora aegagropila þekur stór botnsvæði í vatni einu og nær þvílíkri stærð að það hefur gert hann að miklu aðdráttarafli fyrir vísindamenn og ekki síður ferðamenn frá öllum heimshornum. Þetta vatn, Akanvatn, mun vera annað af tveimur vötnum í heiminum þar sem þessi þörungur nær slíkri stærð, hitt vatnið er Mývatn.
    Ljóst er að náttúra landsins og fjölbreytileg vistkerfi hennar eru uppspretta atvinnutækifæra jafnt í ferðamennsku sem í vísindasamfélaginu. Nú hafa verið settar upp tvær skrifstofur á Akureyri sem tengjast umhverfissamstarfi Norðurlandanna, Bandaríkjanna, Kanada og Rússlands. Önnur þeirra (CAFF – Conservation of Arctic Flora and Fauna) hefur umsjón með samvinnuverkefni um náttúruvernd á norðurslóðum og hin (PAME – Protection of the Arctic Marine Environment) annast þau verkefni samstarfsins sem lúta að verndun hafsins. Skrifstofurnar skapa möguleika á enn frekara samstarfi á sviði vísinda, tækni og menntunar.
    Íslendingar eiga líka að nýta sér sóknarfæri sem felast í því að þróa umhverfisvæna tækni á ýmsum sviðum en hún verður stöðugt dýrmætari og eftirsóttari. Umhverfisvæn tækni er forsenda ýmiss konar vottunar eða viðurkenningar sem gefur vörum forskot á markaði. Jafnframt fer þörfin fyrir nýjar umhverfisvænar leiðir ört vaxandi með aukinni alþjóðlegri samvinnu um vernd umhverfis og náttúru, ekki síst í iðnvæddum ríkjum.

Orkumál.
     Mikilvægt er að taka upp sjálfbæra orkustefnu með það að markmiði að endurnýjanlegir orkugjafar leysi jarðefnaeldsneyti af hólmi og dregið verði úr orkusóun og losun gróðurhúsalofttegunda. Taka verður tillit til umhverfis- og náttúruverndar í áætlunum um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og fresta öllum stóriðjuframkvæmdum uns lokið er gerð rammaáætlunar. Gera þarf átak í rannsóknum á vistvænum orkugjöfum á borð við vindorku, sólarorku og virkjun sjávarfallanna.
    Sjálfbær orkustefna er gríðarlega mikilvægur liður í sjálfbærri þróun á jörðinni. Núverandi orkubúskapur heimsins er í hrópandi andstöðu við þá hugmyndafræði. Íslendingar eru svo lánsamir að eiga miklar endurnýjanlegar orkulindir og því er mikilvægt að nýta þær eins skynsamlega og kostur er. Sú stóriðjustefna sem nú er fylgt bindur gríðarlegt orkumagn í fáeinum stórverksmiðjum. Hverfa verður af þeirri braut ef Íslendingar ætla að eiga þess kost að taka í notkun umhverfisvæna orkugjafa í stað jarðefnaeldsneytis og verða sjálfum sér nægir um orku. Samfara stóriðjustefnunni hefur megináhersla verið lögð á stórar vatnsaflsvirkjanir með hámarksrekstrarhagkvæmni án tillits til umhverfiskostnaðar. Flutningsmenn tillögunnar hafna þessari stefnu og telja rétt að fresta öllum stóriðjuáformum þar til langtímaáætlun um vernd og nýtingu allra vatnsfalla og jarðhitasvæða á landinu liggur fyrir. Í því sambandi ber að styðja vinnu við rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um vatnsafl og jarðvarma og bíða niðurstöðu hennar áður en frekar er aðhafst í virkjanamálum. Mikilvægt er einnig að ákvarða stjórnsýslulegt vægi þeirrar rammaáætlunar, svo hún dagi ekki uppi sem leiðbeinandi plagg, sem ráðamönnum ber engin skylda til að fylgja.
    Varðandi þróun í virkjanamálum verður að teljast skynsamlegt að huga í auknum mæli að smávirkjunum sem hafa sáralítil umhverfisáhrif og gætu skapað störf í dreifbýli, ekki síst til sveita. Kanna ber möguleika smávirkjana á að tengjast orkuflutningsneti Landsvirkjunar sem keypti þá raforkuna af eigendum smávirkjana. Jafnframt eru aðstæður hér á landi ákjósanlegar til að vinna að rannsóknum á nýjum orkuberum eða orkugjöfum og gætu þær haft í för með sér mörg störf á sviði vísinda. Að öðru leyti vísast til greinargerðar með tillögu til þingsályktunar um sjálfbæra orkustefnu sem flutningsmenn þessarar tillögu fluttu á 125. löggjafarþingi (þskj. 13, 13. mál) og endurflutt verður á þessu þingi.

Endurvinnsla og endurnýting.
     Mikilvægt er að draga úr sorpmyndun um a.m.k. 5% á ári næstu fimm árin. Flokka þarf sorp í auknum mæli jafnt frá heimilum sem atvinnustarfsemi og bæta skil til móttökustöðva með sérstakri áherslu á efni sem brotna hægt niður í náttúrunni, svo sem gúmmí og nælon. Nauðsynlegt er að endurskipuleggja fráveitukerfi landsmanna með áherslu á vistvæn hreinsiferli og endurnýta ætti allan lífrænan úrgang til jarðgerðar og framleiðslu á lífrænum áburði og auka verðmætasköpun úr hvers kyns öðrum endurunnum úrgangi.
    Stuðla ber markvisst að aukinni endurvinnslu og endurnýtingu úrgangs hér á landi. Til þess að svo megi verða þarf að gera stórátak í flokkun sorps og annars úrgangs, bæði frá heimilum og fyrirtækjum. Lykilatriði í þeirri þróun er skilningur á því að endurvinnsla er hluti af náttúruvernd og er atvinnuskapandi þrátt fyrir þann kostnað sem hún hefur í för með sér. Með aðild sinni að Ríó-yfirlýsingunni frá 1992 hafa Íslendingar ákveðið að taka upp svokallaða mengunarbótareglu. Hún felur í sér að miða skuli við að sá sem veldur mengun borgi fyrir þær ráðstafanir sem gera þarf til að koma í veg fyrir umhverfisskaða af völdum mengunarinnar. Ljóst er að í framtíðinni mun gjaldtaka fyrir sorphirðu og förgun í vaxandi mæli taka mið af þessari reglu þannig að hver og einn beri kostnaðinn af meðferð síns sorps. Þegar hafa nokkur sveitarfélög hafið undirbúning að sorphirðukerfi sem á að hvetja fólk til að minnka sorp. Þar yrði heimilisúrgangur vigtaður og sorphirðugjöld miðuð við magnið.
    Á undanförnum árum hafa nokkrir aðilar hér á landi unnið að vöruþróun í tengslum við endurvinnslu með góðum árangri. Svo dæmi sé tekið hefur Sæplast hf. þróað endurvinnanleg fiskkör frá árinu 1994, svonefnd MPC-kör, sem eru einstök á markaðinum. Þau eru dýrari í innkaupum en hefðbundin kör en á móti kemur að auðvelt er að endurnýta plastið í þeim á umhverfisvænan hátt þegar þar að kemur. Í hefðbundnum körum er pólý-úretan-einangrun sem gerir ómögulegt að endurvinna þau og því er mun dýrara að farga þeim. Annað fyrirtæki sem hefur farnast vel á þessu sviði er Gúmmívinnslan hf. sem framleiðir öryggishellur úr endurunnu gúmmíi og jók sölu sína á endurunnum vörum um 100% frá 1998 til 1999. Þá hefur Úrvinnslan hf. sérhæft sig í framleiðslu á brettakubbum úr pappa og plasti sem fellur til í landbúnaði. Loks má nefna að Hampiðjan hefur verið að feta sig áfram með framleiðslu á girðingarstaurum úr endurunnu plasti.
    Víða um land er ástand fráveitumála afar slæmt og ljóst að ráðast þarf í mjög dýrar framkvæmdir til að bæta þar úr. Enginn vafi leikur á því að hér um bil öll sveitarfélög landsins munu eiga afar erfitt með að standa undir framkvæmdum við nauðsynlegar hreinsistöðvar. Kostnaður vegna skolphreinsunar mun í framtíðinni að öllum líkindum dreifast æ meir í samræmi við mengunarbótaregluna og lenda að töluverðu leyti á fyrirtækjum. Í þessu felast hins vegar líka tækifæri því að hér á landi fer mikill úrgangur frá matvælaframleiðslufyrirtækjum út í holræsi og þaðan til sjávar. Þegar þessum úrgangi er blandað saman við húsaskolp og það síðan grófhreinsað með miklum tilkostnaði verður til þurrefni sem í besta falli nýtist til landgræðslu en meiri hluta lífrænna efna er dælt í sjóinn.
    Með því að skilja að húsaskolp og skolp frá matvælaiðnaði og stóreldhúsum má bæði draga úr kostnaði og búa til verðmæti úr skolpinu. Frá fiskvinnslunni á Íslandi fara um 10.000 tonn af nýtanlegu þurrefni á ári og frá sláturhúsunum fara sennilega um 500 tonn. Með nýrri hreinsitækni geta t.d. fiskvinnslufyrirtæki hreinsað sitt eigið skolp, sjálfum sér og umhverfinu til hagsbóta. Í fiskvinnslu sem framleiðir 50 tonn af afurðum á dag, svo dæmi sé tekið, fellur til nægilegt magn af lífrænu efni til að framleiða lífrænan áburð fyrir 300 hektara af ræktuðu landi á ári. T.d. mundi frárennsli frá allri fiskvinnslu á Akureyri duga til að framleiða lífrænan áburð fyrir 10–15% af ræktuðu landi í Eyjafirði. Þessi áburður hefur þann stóra kost umfram húsdýraáburð að í honum eru engin óæskileg fræ, hvorki illgresisfræ né önnur. Ef Íslendingar tileinkuðu sér þessa vistvænu hreinsitækni væri stærsta hindrunin fyrir þróun lífræns landbúnaðar hér á landi úr sögunni.
    Önnur leið til að búa til verðmæti úr lífrænum úrgangi er að framleiða gas sem gæti komið í stað olíu. Fiskvinnslufyrirtækið í dæminu hér að framan gæti með vistvænu hreinsiferli framleitt eldsneyti sem svarar hálfu tonni af olíu á dag og t.d. nýtt það til að knýja bifreiðar og vinnuvélar á vegum fyrirtækisins. Búnaðurinn sem til þarf kostar á bilinu 2–10 millj. kr. eftir stærð fyrirtækisins en borgar sig hratt upp. Ef áfram er miðað við 50 tonna framleiðslu á dag er hagnaðurinn 30.000 kr. á dag eða 7 millj. kr. á ári ef lífræni áburðurinn er verðlagður eins og tilbúinn áburður. Þessi hreinsitækni er allt í senn umhverfisvæn, hagkvæm og atvinnuskapandi. Henni fylgja störf tæknimanna og umsjónarmanna á hverjum stað. Hún dregur úr mengun, stuðlar að aukinni endurnýtingu og bætir ímynd matvælafyrirtækjanna og íslensks atvinnulífs.
    Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands hefur magn úrgangs sem er grafinn í jörð stöðugt farið vaxandi frá 1992 og nam árið 1998 152.000 tonnum eða um 68% af því sem til féll á árinu. Afar dýrt er að grafa svo stóran hluta sorpsins, ekki er um varanlega lausn að ræða og enn fremur er verið að kasta verðmætum á glæ. Einfaldasta og hagkvæmasta leiðin til að draga úr þessu magni er með meiri flokkun og endurvinnslu, m.a. á pappír, plasti og ekki síst lífrænum úrgangi. Engar tölur eru aðgengilegar um hlutfall lífræns úrgangs af fyrrnefndu magni. Þó liggur fyrir að árlega eru grafin 10.000 tonn af lífrænum úrgangi frá sláturhúsum hér á landi. Hægt er að geta sér til um magn lífræns úrgangs sem fellur til á íslenskum heimilum. Í Bandaríkjunum er hlutfall lífræns úrgangs af heimilissorpi um 30% (sjá t.d. Backyard Composting, Harmonious Press, 1992, bls. 7). Heildarmagn sorps hér á landi er um 68.000 tonn þannig að ætla má að þar af séu yfir 20.000 tonn af lífrænum úrgangi að því gefnu að hlutfallið sé svipað hér og í Bandaríkjunum. Hvað sem því líður er ljóst að magnið er verulegt og mætti hæglega nýta til jarðgerðar eða annarrar verðmætasköpunar með svipuðum hætti og áður er lýst. Ekki verður fullyrt hér um arðsemi þess en það er án efa skynsamlegt að nýta sem mest af lífrænum úrgangi til landgræðslu og áburðarframleiðslu.

Sjávarútvegur.
     Í sjávarútvegi verður að leggja áherslu á notkun vistvænna veiðarfæra og umhverfisvænna vinnsluaðferða. Vinna þarf markvisst að því að draga úr orkunotkun á aflaeiningu og hvetja til varkárni í umgengni við auðlindina og allt lífríki sjávar. Nauðsynlegt er að marka stefnu sem miðar að fullvinnslu afla og finna leiðir til að nýta allan lífrænan úrgang sem til fellur í sjávarútvegi, jafnt í landvinnslu sem á hafi úti.
    Flutningsmenn telja brýnt að undirstöðuatvinnugrein landsmanna, sjávarútvegurinn, verði löguð að kröfum um vistvænni veiðar og vinnslu aflans. Þar fara saman hagsmunir umhverfisins og atvinnugreinarinnar sjálfrar þar sem útflutningur sjávarafurða styðst mjög við ímynd íslenskrar náttúru. Það gefur íslenskum sjávarútvegi talsvert forskot að þar er ekki við stórkostleg vandamál að eiga vegna ofveiði. Stöðugt eru gerðar meiri kröfur um vottun afurða með tilliti til umhverfissjónarmiða og neytendur spyrja æ oftar ekki aðeins um hvaðan varan sé komin heldur hvernig hún hafi verið unnin á öllum stigum framleiðslunnar. Í þessari þróun felast því ýmis tækifæri fyrir Íslendinga ef þeir bera gæfu til að huga betur að umhverfismálum í sjávarútvegi. Okkur ber að leggja áherslu á fullvinnslu aflans með vistvænu framleiðsluferli þannig að sem mest verðmæti fáist fyrir afurðirnar með sem minnstum áhrifum á umhverfið. Í því sambandi vísast til þess sem fyrr er sagt um endurvinnslu lífræns úrgangs.
    Áhrif veiðarfæra á lífríki sjávar eru eitt af mikilvægustu umhverfismálum þessa atvinnuvegar. Rannsóknir í Norðursjó benda til að um 50% af yfirborði sjávarbotnsins þar sé raskað á hverju ári. Enn er lítið vitað um áhrif dragnóta- og botnvörpuveiða á lífríkið á hafsbotninum en ljóst er að toghlerar botnvörpunnar valda þar nokkru raski. Á síðustu árum hafa fregnir borist af stórkostlegri eyðileggingu kóralsvæða á hafsbotni við Noreg og fyrir liggur að þar hefur mikilvægum uppvaxtarsvæðum nytjafiska verið spillt til frambúðar. Það er því allra hagur að rannsóknir á áhrifum veiðarfæra á lífríki sjávar verði efldar og unnið verði markvisst að þróun vistvænni veiðarfæra.
    Orkunotkun í sjávarútvegi er ekki síður stórt mál. Losun koltvíoxíðs, sem er helsta gróðurhúsalofttegundin, frá fiskiskipaflotanum hefur farið stigvaxandi allt frá árinu 1982 þegar hún nam 539.000 tonnum. Árið 1998 var þessi losun hins vegar 781.000 tonn og hafði því aukist um tæp 45% á tímabilinu. Hlutur fiskiskipaflotans í heildarlosun koltvíoxíðs jókst á sama tíma úr tæplega 31% í tæp 40%. Olíunotkun flotans hefur aukist úr rúmlega 192.000 tonnum árið 1983 í nálega 260.000 tonn árið 1998. Ástæður þessa er trúlega fyrst og fremst að finna í stærri og afkastameiri togurum sem eru búnir kraftmeiri vélum og nota sífellt stærri og þyngri veiðarfæri. Því hljóta að vakna áleitnar spurningar um samsetningu flotans með tilliti til orkunotkunar. Ekki eru haldbærar upplýsingar um eldsneytisnotkun skipa eftir stærðarflokkum en vísbendingar fást ef bornar eru saman tölur úr ritum Orkustofnunar og Hagstofunnar. Í töflu er að finna upplýsingar um aflamagn og aflaverðmæti á Íslandsmiðum 1998 og eldsneytisnotkun 1995.

Afli og aflaverðmæti á Íslandsmiðum 1998 og olíunotkun flotans 1995.

Afli í t
1998
Verðmæti í þús. kr. Þús. kr.
á tonn
Olíunotkun í
tonnum 1995
Afli/olíu í tonnum Þús. kr. á
tonn af olíu
Opnir bátar 40.093 3.456.147 86,204
Vélbátar að 10 t 25.852 2.340.964 90,553
Vélbátar 10–200 t 159.678 12.827.906 80,336
Vélbátar >200 t 1.119.814 13.025.849 11,632
Aðrir en togarar samtals 1.345.436 31.650.866 23,525 82.100 16,39 385,516
Togarar 315.333 25.973.519 82,369 174.472 1,81 148,869
Öll skip 1.660.769 57.624.385 34,697 256.572 6,47 224,593
Heimildir: Orkumál 1995. Útvegur 1998.

    Ekki má gleyma því að togaraflotinn sækir að miklu leyti á fjarlæg mið þar sem öðrum skipum verður ekki beitt og fer því oft miklar vegalengdir í sínum veiðiferðum. Samt sem áður er greinilegt að togararnir nota óhemjumikla olíu við veiðar sínar miðað við smærri skip. Þegar litið er á aflamagn og aflaverðmæti sem skipin skila fyrir hvert tonn af olíu er munurinn mikill en hafa ber í huga að veiðar á uppsjávarfiskum gætu skekkt myndina töluvert. Þar er aflamagn mikið en verðmæti tiltölulega lítið hlutfallslega. Þessar tölur gefa sterkar vísbendingar um að báta- og smábátaflotinn skili margföldu aflaverðmæti á hvert tonn af olíu miðað við það sem gerist í togaraútgerð. Þessa þætti er nauðsynlegt að rannsaka til hlítar og nota niðurstöðurnar til að þróa fiskveiðar á Íslandsmiðum í átt til umhverfisvænni veiðiaðferða.
    Brottkast afla hefur lengi verið vandamál í íslenskum sjávarútvegi. Útgerðin telur sig ekki hafa neinn hag af því að færa undirmálsfisk og úrgang að landi og því fer hvort tveggja allt of oft í sjóinn. Leita verður leiða til að breyta þessari umgengni við hafið og fá sjómenn til að skila öllum afla á land. Eins og áður hefur komið fram má hæglega skapa verðmæti úr fiskúrgangi sem ekki er nýttur til að framleiða skepnufóður. Það er aftur á móti afar ósennilegt að slíkt geti orðið hagkvæmt fyrir útgerðina nema þeim mun hærri gjöld væru lögð á hana samkvæmt mengunarbótareglunni. Slíkt væri þó bæði illframkvæmanlegt og óheppilegt enda síst til þess fallið að breyta viðhorfum útgerðarmanna til þessara mála. Athugandi væri að styrkja fyrirtæki til að gera út skip sem tækju við þessum úrgangi og færðu hann að landi.

Ferðaþjónusta.
     Ferðaþjónusta og náttúruvernd geta farið vel saman, enda er sjálf náttúran sú auðlind sem ferðaþjónustan byggist á. Mikilvægt er að efla náttúruvernd svo ferðaþjónusta geti blómstrað. Gera þarf sérstakt átak í atvinnuuppbyggingu í tengslum við þjóðgarða og önnur friðlýst svæði. Landvörðum og leiðsögumönnum þarf að fjölga, styrkja þarf stöðu þeirra og nauðsynlegt er að efla menntun í ferðaþjónustu og auka fjölbreytni hennar. Koma þarf á fót tilraunaverkefnum um sjálfbær samfélög undir merkjum vistmenningar og þau samfélög sem þegar eru til þarf að styrkja.
    Ferðaþjónusta fer ört vaxandi hér á landi enda hefur fjöldi ferðamanna sem kemur til landsins rúmlega sexfaldast á síðustu tíu árum. Árið 1998 komu rúmlega 230.000 erlendir ferðamenn til Íslands og fjölgaði þá um 15% frá árinu áður. Gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum námu 26 milljörðum kr. árið 1998 og 28 milljörðum kr. árið 1999. Gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu hafa aukist um meira en 30% frá árinu 1995, og eru þá tekjur af innlendum ferðamönnum ótaldar.
    Enginn vafi leikur á því að náttúra Íslands er það aðdráttarafl sem öðru fremur laðar erlenda ferðamenn hingað til lands í svo miklum mæli. Það er því mikið hagsmunamál fyrir ferðaþjónustuna að viðhalda óspilltri náttúru eftir fremsta megni og varðveita þannig auðlindina til framtíðar. Ferðaþjónustu á Íslandi verður að skipuleggja og reka í anda sjálfbærrar þróunar í sátt við landið. Aðeins þannig er mögulegt að gera ferðaþjónustuna að blómlegri atvinnugrein til framtíðar og gæta þess um leið að náttúra og umhverfi hljóti ekki skaða af. Hluti af sjálfbærri ferðaþjónustu er að styrkja menningarsamfélög til að vekja athygli ferðamanna á menningu og sögu viðkomandi þjóðar. Þar eiga Íslendingar vannýtta auðlind sem sjálfsagt er að nota til að efla ferðaþjónustuna.
    Jafnframt ber að nefna heilsutengda ferðaþjónustu sem er meðal nýjustu vaxtarbrodda í þessum atvinnuvegi. Heilsutengd ferðaþjónusta gæti átt mikla framtíð fyrir sér á Íslandi þar sem hér er m.a. hreint loft og heilnæmt vatn. Nægir að benda á hina miklu uppbyggingu sem hefur orðið í tengslum við Bláa lónið að undanförnu. Árið 1999 voru gestir þar rúmlega 250 þús. og gert er ráð fyrir 350 þús. gestum árið 2000. Þar er aðstaða til meðhöndlunar húðsjúkdóma og unnið að þróun og framleiðslu á húð- og snyrtivörum. Aðstandendur starfseminnar hafa uppi áform um rannsóknir á lífríki svæðisins og fengu nýlega nýsköpunarverðlaun Rannís og Útflutningsráðs.
    Til að tryggja sjálfbæra þróun ferðaþjónustunnar þarf að vinna fjölmörg verk. Nauðsynlegt er að kortleggja betur helstu ferðamannasvæði og beina ferðamannastraumnum til fleiri staða þannig að álag verði ekki of mikið á vinsælustu svæðunum. Einnig þarf að auka landvörslu til mikilla muna, bæði til að auka öryggi ferðamanna og koma í veg fyrir landspjöll. Þá er nauðsynlegt að sinna rannsóknarverkefnum sem tengjast náttúruvernd og álagi á ferðamannastaði til að vakta auðlindina. Allt er þetta atvinnuskapandi og óhjákvæmilegt að leggja í kostnað sem því fylgir. Þar að auki sýnir vaxandi markaður fyrir ferðaþjónustu sem stenst kröfur um sjálfbæra þróun að umhverfisvernd í þessari atvinnugrein hefur beinan efnahagslegan ávinning í för með sér. Reynsla annarra þjóða sýnir að ferðamenn eru tilbúnir að greiða mun hærra verð fyrir ferðir inn á verndarsvæði og um þjóðgarða, jafnvel allt að 100% hærra verð, en greitt er fyrir ferðir um óskilgreind svæði.
    Eitt mikilvægasta atriðið er að gera stórátak í skipulagi vinsælla ferðamannastaða, svo að þeir geti borið að skaðlausu álag af ferðamannastraumi en ella verði aðsókn takmörkuð. Einnig er mikilvægt að gera áætlun sem miði að því að dreifa ferðamönnum um landið.

Landbúnaður.
     Í landbúnaði ber að leggja áherslu á lífræna búskaparhætti og stefna að því að hlutfall lífrænnar framleiðslu verði 5% á árinu 2005. Gera verður markvissar áætlanir um beitarstjórnun í öllum landshlutum og leggja drög að öflugri gæðastýringu til að mæta auknum kröfum um merkingu afurða og gæðavottun til að tryggja fæðuöryggi.
    Íslenskur landbúnaður mun víðast hvar vera stundaður í meiri sátt við náttúruna en gengur og gerist í flestum nálægum löndum. Þó þarf að taka fyrir ofbeit af völdum sauðfjár og hrossa í úthaga þar sem hennar gætir enn. Ef rétt er á haldið eru mikil tækifæri fólgin í því að taka í auknum mæli upp lífræna búskaparhætti hér á landi. Meginhindrunin í vegi þeirrar þróunar hefur verið skortur á lífrænum áburði þar sem innlendur húsdýraáburður hefur ekki dugað til. Með vistvænu hreinsiferli á lífrænu skolpi og endurnýtingu lífræns úrgangs er hægt að ryðja þessari hindrun úr vegi.
    Markaður fyrir lífrænt vottaðar vörur stækkar stöðugt. Í fyrstu var eftirspurnin aðallega bundin við grænmeti, korn og ávexti en í seinni tíð hefur hún náð til annarra afurða á borð við kjöt, mjólk og egg. Lífrænn landbúnaður er vaxtarbroddur nýsköpunar sem hefur mjög jákvæða ímynd og fellur afar vel að hugmyndum um sjálfbæra þróun. Með meiri hvatningu, stuðningi og rannsóknum gæti lífrænn landbúnaður einnig stuðlað að traustari byggð til sveita og uppbyggingu í úrvinnsluiðnaði.
    Nú vantar lífrænt vottað dilkakjöt á markað í nágrannalöndum okkar og á síðasta ári fór megnið af lífrænni framleiðslu bænda á erlendan markað. Af þeim sökum var ekki til nægilegt magn fyrir innanlandsmarkað. Þetta sýnir að nú er lag fyrir fleiri bændur að snúa sér að lífrænni framleiðslu. Varlega áætlað má gera ráð fyrir að 50 bændur væru í stakk búnir að stíga þetta skref án mikillar fyrirhafnar. Þeir bættust þá í hóp þeirra 30 sem nú þegar stunda lífræna ræktun. Það er ekki einfalt að stíga þetta skref og víðast hvar í Evrópu hafa bændur fengið hvatningu frá hinu opinbera kerfi í formi aðlögunarstyrkja fyrstu árin sem þeir stunda búskap af þessu tagi. Nú er það opinber stefna í Evrópusambandinu að hvetja bændur til að breyta búskaparháttum sínum á þennan hátt. Það væri stórt en veigamikið skref í átt til sjálfbærrar þróunar ef íslensk stjórnvöld gerðu slíkt hið sama.
    Ekki einasta framleiðsla á lífrænu dilkakjöti gæti orðið ábatasöm búgrein hér því að miklir möguleikar eru einnig fólgnir í grænmetis- og blómarækt. Það er vandasamt að rækta grænmeti án tilbúins áburðar og án allra eiturefna við íslenskar aðstæður, en það fæli í sér atvinnu fyrir fjölda fólks ef rannsóknir á þessu sviði væru efldar, raforkukostnaður til ylræktarbænda lækkaður og útflutningur lífrænt ræktaðra afurða aukinn. Ekki skortir erlenda markaði því að gera má ráð fyrir að hlutdeild lífrænnar framleiðslu í löndum Evrópusambandsins, sem nú er 2%, aukist í 5–10% á næstu fimm árum. Í Þýskalandi telja 70% neytenda lífrænt ræktaðar matjurtir hollari en aðrar matjurtir og þarlendir framleiðendur anna ekki eftirspurn. Það gera Danir ekki heldur; þeir flytja inn sem svarar 30% af seldri lífrænni matvöru. Markaður fyrir lífrænar afurðir stækkar óðum í Bretlandi. Þar eru flutt inn u.þ.b. 70% af heildarneyslu lífrænna matvæla. Einnig stækkar okkar innlendi markaður hratt.
    Umræðan um erfðabreytt matvæli virðist styrkja markað fyrir lífrænar afurðir þar sem neytendur stilla þessum afurðum upp sem andstæðum. Það er mikil andstaða gegn erfðabreyttum matvælum um alla Evrópu og andstaðan fer vaxandi í Bandaríkjunum. Mörg lönd hafa lögleitt bann við ræktun erfðabreyttra matjurta, m.a. Brasilía sem er næstmesta kornframleiðsluland heimsins. Í Þýskalandi eru neytendur afar tortryggnir gagnvart erfðabreyttum afurðum sem kemur kannski best fram í því að segja má að allur barnamatur þar sé að verða framleiddur úr lífrænum afurðum og þar í landi hefur brauðgerð úr lífrænt ræktuðu korni vaxið hröðum skrefum síðustu ár.
    Ljóst er að matvæli sem framleidd eru úr lífrænum afurðum eru ekki tískubóla því að markaður fyrir þessar vörur hefur verið í örum vexti í 30 ár. Einnig er ljóst að neytendur setja hollustu í auknum mæli í forgang og neysluvenjur taka mið af því. Þannig má segja að tækifærin til nýsköpunar í landbúnaði og ræktun felist í lífrænum aðferðum.

Gróðurvernd, landgræðsla og skógrækt.
     Brýnt er að marka framtíðarstefnu um gróðurvernd, landgræðslu og skógrækt með vistvænum aðferðum. Landvörslu og löggæslu á hálendinu og aðliggjandi ferðamannastöðum þarf að efla og fylgja verður fast eftir reglum um umgengni við landið og náttúruna. Stefnumörkun í skipulagsmálum hálendisins, með verndarsjónarmið í fyrirrúmi, ber að halda áfram. Allar rannsóknir á vistkerfum landsins ber að efla og hraða skráningu búsvæðagerða, sbr. áætlun Náttúrufræðistofnunar Íslands, og gerð náttúruverndaráætlunar, sbr. áætlanir Náttúruverndar ríkisins.
    Á þeim tiltölulega skamma tíma sem liðinn er frá því að búseta manna hófst á Íslandi hefur orðið stórkostleg gróðureyðing. Uppblástur hefur leikið stór landsvæði grátt og ógnar viðkvæmum svæðum, ekki síst á hálendinu sem verður ein mesta auðlind landsmanna í framtíðinni. Þrátt fyrir aukinn kraft í baráttunni gegn landeyðingu á síðustu áratugum er ljóst að betur má ef duga skal. Allar aðgerðir í þeirri baráttu verða að vera vandlega skipulagðar og byggjast á rannsóknum og þekkingu.
    Gróðurvernd á þar að vera forgangsverkefni, að verja það sem eftir er af náttúrulegu gróðurfari landsins og vistkerfi sem því tengjast. Nauðsynlegt er að friða svæði sem eru illa farin og skapa þannig forsendur fyrir endurheimt landgæðanna. Aðferðir við uppgræðslu verða að standast kröfur um sjálfbæra þróun og sérstaklega ber að varast innflutning plöntutegunda sem geta skaðað íslenskt lífríki. Hér verða að koma til lög um jarðvegs- og gróðurvernd sem taka heildstætt á nýtingu og verndun þessara auðlinda.
    Nú eru um 1,4% Íslands klædd skógi og kjarri en ef einungis eru talin svæði sem teljast vaxin skógi samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu er hlutfallið aðeins 0,3%. Þetta hlutfall er hið lægsta í Evrópu en skógleysið er hins vegar ekki náttúrulegt ástand miðað við gróðurfarsskilyrði hér á landi. Talið er að ef útbreiðsla skóga hér væri svipuð og við landnám þektu þeir á bilinu 25–30% landsins. Danir og Írar stóðu í svipuðum sporum og Íslendingar við síðustu aldamót hvað þetta snertir, með um 1% landanna vaxið skógi. Ræktunaraðgerðir þar hafa borið góðan árangur, nú eru 8% Írlands og 12% Danmerkur þakin skógi.
    Brýnt er að efla rannsóknir á þessu sviði og ljóst að mikilvægi þeirra mun aukast á nýrri öld. Í því sambandi má benda á nauðsyn þess að finna leiðir til að stunda árangursríka skógrækt í sátt við vistkerfið sem fyrir er, rannsaka áhrif hennar á vatnsbúskap, jarðvegsvernd, líffræðilega fjölbreytni o.s.frv. Þá má nefna rannsóknir á umhirðu og ræktun nytjaskóga sem nú er stunduð víða um land, skógrækt til að binda koltvísýring og til að bæta búsetuskilyrði, bæði í þéttbýli og dreifbýli.
    Endurheimt votlendis er framtíðarverkefni, sem brýnt er að leggja drög að, enda eru votlendissvæði lífseigustu vistkerfi landsins. Votlendi setur mikinn svip á náttúru Íslands en mjög hefur verið gengið á það undanfarna áratugi. Frjósamar láglendismýrar hafa verið ræstar fram í miklum mæli auk þess sem vegagerð og þéttbýlismyndun hafa tekið sinn toll, að ekki sé talað um áhrif virkjana sem hafa sökkt stórum svæðum votlendis undir miðlunarlón. Umræðan um endurheimt votlendis hefur eflst mjög síðustu ár og nú er svo komið að rannsóknir leiða í ljós miklar líkur á að við ákveðnar aðstæður og að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sé endurheimt votlendis möguleg. Vísindamenn starfa nú ötullega við að fullkomna þessar rannsóknir en eins og aðrar rannsóknir í náttúruvísindum hefur þær skort fjármagn og hvatning frá hinu opinbera hefur verið lítil. Rannsóknir á votlendi Íslands gætu skapað fjölda starfa, að ekki sé talað um sjálfa aðgerðina sem fólgin er í undirbúningi að endurheimt votlendisins. Þar er mikilvægt að standa vel og faglega að málum, enda er endurheimt á ákveðnum svæðum bæði vandmeðfarin og kostnaðarsöm. Með endurheimt votlendis vinnst margt. Landið er fært aftur til fyrra horfs sem skapar lífsskilyrði fyrir gróður og dýralíf sem áður ríkti á svæðunum. Þannig má líta á endurheimt votlendis sem lið í almennri náttúru- og landslagsvernd. Þá má gera ráð fyrir að endurheimtin auki útivistargildi svæða, þau verði áhugaverð til fuglaskoðunar og skilyrði geti skapast til veiða á fugli og fiski. Með tímanum mun endurheimt votlendis að öllum líkindum binda kolefni í stað þess að losa það út í andrúmsloftið og önnur virkni ætti að færast til fyrra horfs. Endurheimt votlendis væri þannig liður í því að hamla gegn losun koltvísýrings, metans og annarra skaðlegra lofttegunda út í andrúmsloftið.
    Jarðvegsrannsóknir er ein tegund rannsókna sem skortir tilfinnanlega hér á landi. Íslenskur jarðvegur er eldfjallajarðvegur sem er um margt afar sérstæður og sjaldgæfur í meira lagi. Sem dæmi um sérstöðu hans má nefna mjög háa fosfórbindingu, en rannsóknir á honum skortir. Hér væri um að ræða rannsóknir sem ætla mætti að vísindamenn alls staðar teldu eftirsóknarvert að komast í.
    Nauðsynlegt er að við stöndum vörð um líffræðilega fjölbreytni og leggjum okkar af mörkum til að uppfylla samninginn um líffræðilega fjölbreytni sem tók gildi hér á landi 10. desember 1994. Það gerum við fyrst og fremst með öflugum rannsóknum á vistkerfi landsins og tegundavernd, jafnt í dýra- og jurtaríkinu, einnig með því að marka varfærna stefnu hvað varðar erfðabreyttar lífverur og afurðir framleiddar úr erfðabreyttum lífverum, bæði dýrum og plöntum.

Menning og listir.
     Brýnt er að gera stefnumarkandi áætlun um stuðning við menningarstarfsemi atvinnu- og áhugamanna með það að markmiði að hann dreifist jafnar um landið og til ólíkra verkefna. Leggja ber mikla áherslu á alþýðumenningu hvers konar þar sem menningararfur þjóðarinnar og einstakra byggðarlaga verði nýttur sem efniviður til listflutnings. Gera þarf átak til að efla skráningu, uppgröft og varðveislu fornminja og annars mannvistarlandslags og sjá til þess að slíkar minjar verði aðgengilegar fyrir lærða sem leika og uppspretta atvinnutækifæra. Huga ber sérstaklega að eflingu áhugafélaga um listir og menningu í dreifbýli með það að markmiði að tengja starf þeirra t.d. skólastarfi og ferðamennsku.
    Íslendingar eiga fjölda glæsilegra menningarstofnana. Má þar nefna Þjóðminjasafn, Þjóðarbókhlöðu, Þjóðmenningarhús, Þjóðleikhús, Þjóðskjalasafn, Listasafn Íslands, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Ríkisútvarpið. Allar þessar stofnanir búa yfir möguleikum til landvinninga á lista- og menningarsviðinu. Hugmyndir og kunnátta starfsfólks slíkra stofnana er auðlind sem nýta mætti betur en gert er. Oft skortir fjármagn, en stundum hefur líka vantað hvatningu stjórnvalda. Til að nýta til fullnustu þær hugmyndir sem búa í hugskoti fræði- og listamanna þarf að gera áætlun sem stjórnvöld og stofnanir gætu komið sér saman um að fara eftir.
    Aukin tækifæri til listsköpunar og menningarstarfsemi má finna við hvert fótmál og er hægt að hugsa sér að aukið samstarf milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar geti gefið af sér nýjungar í því tilliti. Þar má nefna hugmyndir að atvinnuleikhúsum í landsfjórðungum, samstarf Listaháskóla Íslands og stofnana og félaga á landsbyggðinni, frumkvöðlasetur á sviði menningar, vísinda og lista o.fl. Víða um land standa auðar byggingar sem eitt sinn hýstu menntastofnanir á borð við húsmæðraskóla og héraðsskóla. Þessar byggingar gætu gegnt lykilhlutverki í að efla menningarstarfsemi á landsbyggðinni og efna til samstarfs milli aðila.
    Byggðaleikhús er dæmi um starfsemi sem gæti tengt ólíkar greinar og ólíkar stofnanir saman í skapandi starfi. Þá er sett á svið leiksýning sem sækir efnivið í sögu viðkomandi byggðarlags eða svæðis. Hópur manna velur sér verkefni, t.d. skútuöldina á Fáskrúðsfirði. Safna þarf heimildum, rituðum jafnt sem munnmælum. Þar mætti hugsa sér að unga fólkið fengi það hlutverk að taka viðtöl við eldra fólkið í bænum. Skjalasafn bæjarins yrði skoðað og leitað fjársjóða í því. Ættfræðingar og sagnfræðingar kæmu að málinu og þegar heimildirnar væru fengnar væri hægt að hefjast handa við ritsmíðina, skrifa leikritið. Svo þarf að safna tónlist frá tímanum, grafa upp hljóðfæri eða smíða þau og læra að leika á þau. Söngvana þarf að rifja upp og skrifa út. Dansarnir þurfa líka að vera til staðar og með réttum blæ. Þá þarf að velja sýningunni stað, mögulega verður gert upp gamalt hús eða gömul bryggja, og það þarf að sækja hugmyndir að leikmunum og búningum á byggðasafnið. Saumakonur, smiðir og málarar eru þar með komin til starfa. Síðan þarf að gefa út leikskrá eða vandaða bók með sýningunni, þá þarf ljósmyndara og grafíska hönnuði og svona mætti áfram telja. Útkoman er sýning sem getur lifað ár eftir ár og laðað ferðamenn til bæjarins, jafnt innlenda sem erlenda. Þetta er dæmi um menningartengda ferðamennsku.
    Verðugt verkefni er að skrá menningarlandslag Íslands, skrá allar búsetuminjar og koma þeim fjársjóði sem landið býr yfir í því tilliti á framfæri. Vel má hugsa sér að slíkt starf gæti auðveldað okkur að viðhalda búsetu um allt land. Til dæmis má hugsa sér verkefni sem fælist í rannsóknum og skráningu á strandmenningu íslensku þjóðarinnar. Hvernig hefur það verið í gegnum aldirnar að búa við sjávarsíðuna? Hvað hefur einkennt líf þess hluta þjóðarinnar sem þannig hefur búið? Hvaða sögur voru sagðar til sjós og hvaða söngvar sungnir?
    Enn eru ótaldir þeir möguleikar sem felast í náttúrustofum landshlutanna. Þar eru stofnanir sem komið hefur verið á fót af vanefnum, þeim ekki verið markað nægilega skýrt hlutverk og ekki verið hvatt til tengsla við aðrar stofnanir í nægilega ríkum mæli. Fullt tilefni er til að leita nýrra hugmynda um það hvernig flétta mætti náttúrustofurnar inn í menningarstarfsemi á landsbyggðinni. Þar er örugglega vannýtt auðlind.
    Þegar öllu er á botninn hvolft sést hversu mikið mætti framkvæma af hugmyndum sem lifa í hugskoti fræðimanna og listamanna. Jafnt áhugamenn sem atvinnumenn búa yfir hafsjó af fróðleik og kunnáttu sem er hluti af mannauði okkar. Þessa þætti þarf að tvinna saman og leita leiða til að vefa fjölskrúðugan vef úr menningararfinum okkar þar sem hann blandast listflutningi framsýnna hugmyndasmiða.

Iðnaður o.fl.
     Í iðnaði ber að leggja áherslu á hrein framleiðsluferli, rannsóknir á vistvænum efnum sem geta komið í stað skaðlegra efna, minni umbúðanotkun og fullvinnslu úr innlendum hráefnum. Styðja á sérstaklega við verkefni sem miða að hreinni framleiðslutækni og uppbyggingu umhverfisstjórnunarkerfa. Marka þarf stefnu um eflingu smáiðnaðar sem nýtir hugmyndaauðgi, listfengi og endurnýtingu hvers konar efna við vinnsluna.
    Huga ber sérstaklega að nýsköpun í iðnaði sem byggist á sjálfbærri nýtingu auðlinda og sjálfbærri þróun. Hvers konar hönnunariðnaði hefur vaxið fiskur um hrygg hér á landi á síðustu árum og í landinu hefur þróast kunnátta í ýmsum greinum iðnaðar sem byggist á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Eitt af því sem nefna má er vistvæn húsagerðarlist. Fyrirmynd um hana er sótt til annarra Norðurlanda þar sem víða hafa myndast svokallaðir vistvænir byggðakjarnar. Auk þess sem mikilvægt er að efla menntun í verklegum greinum á grunn- og framhaldsskólastigi er brýnt að hraða uppbyggingu náms í skipulagsfræðum, koma á arkitektanámi á háskólastigi og efla rannsóknir er tengjast byggingarlist. Þá er einnig brýnt að efla rannsóknir sem varpað gætu ljósi á húsasótt og áhrif raf- og segulsviðs í híbýlum manna samhliða því að þróa vistvænar aðferðir við húsbyggingar.

Vistvæn samfélög.
    Víða eru að verða til samfélög sem byggjast á hugmyndafræði vistmenningar (permaculture). Dæmi um slíkt samfélag eru Sólheimar í Grímsnesi sem voru útnefndir fyrsta vistvæna samfélagið (ECO-Village) á Íslandi af alþjóðasamtökunum Global Eco Village Network árið 1997. Markmið slíkra vistvænna samfélaga felast í því að setja í öndvegi manngildi, ræktun og umhverfismál í víðasta skilningi. Hugmyndin er byggð á því að blanda saman hefðum og nýrri tækni til að efla mannlíf sem samræmist hringrás náttúrunnar og ábyrgri nýtingu auðlinda og skerðir ekki möguleika komandi kynslóða til að fullnægja þörfum sínum. Rétt er að hvetja til þess að byggðakjarnar í þessum anda rísi sem víðast um landið. Hér er um að ræða mannfélag sem byggist á mikilvægum gildum, jafnt í andlegu sem efnahagslegu tilliti, þar sem mannrækt er í hávegum höfð og áhersla er lögð á samhljóm manns og náttúru.
    Önnur dæmi um uppbyggingu í þessum anda eru t.d. nýjasta byggðin að Hellnum á Snæfellsnesi og hugmyndir íbúa Hríseyjar að sjálfbæru samfélagi í eynni. Þess má geta að flutningsmenn þessarar tillögu standa einnig að þingmáli um það efni (þingskjal 17, 17. mál).

Meginreglur umhverfisréttar.
     Stuðla ber að öflugu samstarfi sveitarfélaga og atvinnulífs í umhverfismálum, m.a. með stuðningi við verkefni í anda sjálfbærrar þróunar og Staðardagskrár 21, í samræmi við samþykktir heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Ríó 1992.
    Á heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Ríó de Janeiro í Brasilíu árið 1992 var m.a. samþykkt yfirlýsing, Ríó-yfirlýsingin, þar sem staðfestar voru nokkrar grundvallarreglur um samskipti manns og umhverfis sem stuðla eiga að sjálfbærri þróun. Ríki heims voru hvött til þess að taka þessar reglur upp í umhverfislöggjöf sinni. Þrátt fyrir góðan vilja og tilraunir fyrrverandi umhverfisráðherra, Guðmundar Bjarnasonar, hafa þessar meginreglur enn ekki verið festar í íslensk lög og hlýtur það að teljast löngu tímabært. Ríkisstjórnin samþykkti 1997 framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi. Í eftirfarandi kafla, sem er úr þeirri áætlun, má lesa lýsingu á meginreglum umhverfisréttar:
    „Í Ríó-yfirlýsingunni segir að mannkyninu beri réttur til að lifa heilbrigðu og auðgandi lífi í sátt við náttúruna. Þar er einnig minnst á réttinn til þróunar, sem beri að nýta með þeim hætti að komið sé af sanngirni til móts við umhverfis- og þróunarþarfir núlifandi og komandi kynslóða. Tekið er fram að hver einstaklingur eigi rétt á upplýsingum um umhverfið, ástand þess og aðgerðir á sviði umhverfismála. Einnig á hver einstaklingur rétt á þátttöku í ákvarðanatöku sem snertir nánasta umhverfi hans.
    Segja má að þessar réttindayfirlýsingar séu ein af fjórum meginreglum sem finna má í Ríó-yfirlýsingunni. Hinar eru:
     Varúðarreglan, sem kveður á um að ekki skuli að öðru jöfnu ráðist í framkvæmdir sem kunna að hafa alvarleg eða óbætanleg umhverfisáhrif í för með sér, fyrr en sýnt sé að þær hafi ekki slík áhrif.
     Mengunarbótareglan, sem kveður á um að þeir sem spilla umhverfinu beri nauðsynlegan kostnað við að bæta skaðann og kostnað vegna aðgerða sem miða að því að koma í veg fyrir umhverfisskaða. Reglan felur m.a. í sér að þeir sem hyggja á framkvæmdir sem geta haft mengun eða umhverfisspjöll í för með sér greiði kostnað við mat á umhverfisáhrifum og umhverfiseftirlit.
     Nytjagreiðslureglan, sem felur í sér að þeir sem nýta náttúrulegar auðlindir sér til ávinnings eða ánægju greiði þann kostnað sem til fellur við verndun og viðhald þessara auðlinda.“
    Hugmyndafræði þessarar þingsályktunartillögu er að stórum hluta byggð á Ríó-yfirlýsingunni og þeim meginreglum sem þar voru staðfestar. Hér er því vakin athygli á nauðsyn þess að þessar fjórar grundvallarreglur verði lögfestar þótt slíkt falli utan ramma tillögunnar.

Alþjóðlegar skuldbindingar.
    Koma þarf á fót virku eftirliti með því að Íslendingar fari eftir alþjóðlegum samningum sem þeir hafa fullgilt á sviði umhverfis- og náttúruverndar, svo sem Ramsar, OSPAR, rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, samningi um líffræðilega fjölbreytni, framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun í heiminum, Bernarsamningnum, samningi um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun svo og samkomulagi um Norðurskautsráðið og alþjóðlegri framkvæmdaáætlun gegn mengun hafsins af völdum þrávirkra lífrænna efna.
    Þá þarf að tryggja að Ísland gerist aðili að Kyoto-bókuninni og móta þarf áætlun til að tryggja að settum markmiðum hennar verði náð. Horfa þarf til þeirra atvinnuskapandi tækifæra sem fullgilding bókunarinnar getur fært okkur. Í framkvæmdaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum er brýnt að finna raunhæfar leiðir til að mæta aukinni losun gróðurhúsalofttegunda sem fylgir þeirri stóriðju sem heimiluð hefur verið síðan 1990, án þess að farið verði yfir þau losunarmörk sem Kyoto-bókunin heimilar.


Fylgiskjal.


Um Dagskrá 21 og Staðardagskrá 21.
(Af heimasíðu Staðardagskrár 21.)


    Heimsráðstefna Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Ríó í Brasilíu árið 1992 markaði tímamót í alþjóðlegu samstarfi að umhverfismálum. Tveir alþjóðlegir samningar voru samþykktir á ráðstefnunni: Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og alþjóðlegur samningur um líffræðilega fjölbreytni, tvær alþjóðlegar yfirlýsingar voru staðfestar: Meginreglur um sjálfbæra nýtingu skóga og Ríó-yfirlýsingin um umhverfi og þróun og síðast en ekki síst framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun í heiminum, Agenda 21 eða Dagskrá 21 eins og samþykktin hefur verið nefnd á íslensku. „Agenda“ þýðir dagskrá eða verkaskrá og talan 21 vísar til þess að um er að ræða áætlun til næstu aldar, 21. aldarinnar.
    Fulltrúar 179 þjóða stóðu að samþykkt Dagskrár 21 á ráðstefnunni í Ríó. Þar með skuldbundu þessar þjóðir sig til að framfylgja ákvæðum samþykktarinnar. Þessar skuldbindingar hafa þó ekki þjóðréttarlegt gildi, heldur eru viðkomandi ríki siðferðilega og stjórnmálalega skyldug að fylgja þeim leiðbeiningum sem í samþykktinni felast.
    Í Dagskrá 21 eru sett fram markmið og leiðir að sjálfbærri þróun, þ.e. aðgerðir til að stuðla að og viðhalda umhverfisgæðum um leið og stefnt er að því að uppræta fátækt og vanþekkingu í heiminum. Áætlunin tekur ekki einungis til umhverfismála í þrengsta skilningi þess orðs, heldur spannar hún vistfræðilega, efnahagslega og félagslega þætti. Þarna er því um að ræða heildaráætlun um þróun samfélaganna fram á næstu öld.
    Dagskrá 21 skiptist í 40 kafla. Í 28. kafla er fjallað um hlutverk staðbundinna stjórnvalda í þeirri viðleitni að koma á sjálfbærri þróun í heiminum. Útdráttur úr 28. kaflanum fer hér á eftir í lauslegri þýðingu:
    „Mörg þeirra vandamála og lausna sem getið er um í Dagskrá 21 eiga rætur að rekja til staðbundinna aðgerða. Því eiga staðbundin stjórnvöld lykilhlutverki að gegna í því að koma á sjálfbærri þróun.
    Staðbundin stjórnvöld, svo sem sveitarstjórnir, byggja og viðhalda einingum á borð við vatnsveitur og vegi. Þau hafa yfirumsjón með skipulagi íbúðabyggðar og iðnaðar, setja sér staðbundna stefnu í umhverfismálum og taka þátt í að framkvæma umhverfisstefnu stjórnvalda á landsvísu.
    Sem það stjórnvald sem næst er fólkinu gegna þau þýðingarmiklu hlutverki í að mennta og hvetja almenning á leið til sjálfbærrar þróunar. Á árinu 1996 ættu öll staðbundin stjórnvöld, í samráði við íbúa á hverjum stað, að hafa búið til „Staðardagskrá 21“ (Local Agenda 21) fyrir samfélagið.
    Embættismenn á hverjum stað ættu að leita til íbúanna og samfélagsins, fyrirtækja og samtaka iðnaðarins til að safna upplýsingum og ná samstöðu um leiðir að sjálfbærri þróun. Þessi samstaða mun verða þeim að liði við endurskoðun staðbundinna áætlana, stefnumótunar, laga og reglugerða til að ná markmiðum Dagskrár 21. Samráðið við fyrrnefnda aðila er til þess fallið að efla meðvitund fólks um málefni sjálfbærrar þróunar.“
    Á sama hátt og Dagskrá 21 er forskrift að sjálfbærri þróun í ríkjum heims, er Staðardagskrá 21 heildaráætlun um þróun einstakra samfélaga í samræmi við 28. kafla yfirlýsingarinnar frá Ríó. Eitt af helstu slagorðum ráðstefnunnar í Ríó var „Hugsaðu hnattrænt, framkvæmdu heimafyrir“ (Think Globally – Act Locally). Þetta slagorð er í raun hornsteinn hugmyndarinnar um Staðardagskrá 21. Það undirstrikar mikilvægi þess að einstök samfélög og staðbundin stjórnvöld geri sér grein fyrir því að jafnvel hinar smávægilegustu aðgerðir (eða aðgerðaleysi) í litlum samfélögum eiga sinn þátt í því hvernig ástand umhverfismála í heiminum þróast.