Ferill 66. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 280  —  66. mál.




Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Svanfríðar Jónasdóttur um kynningu á þingsályktun um hvalveiðar.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvernig og fyrir hverjum hefur þingsályktun um hvalveiðar, sem samþykkt var á Alþingi 10. mars 1999, verið kynnt?
     2.      Hvað liggur fyrir um frekari kynningu og hvenær er áætlað að henni ljúki?
     3.      Hversu mikið hefur kynningin kostað og hvað er fyrirhugað að hún muni kosta?


    Í framangreindri þingsályktun er kveðið á um að ríkisstjórnin skuli hefja undirbúning að hvalveiðum, m.a. með því að kynna stefnu Íslands í hvalamálum meðal viðskiptaþjóða landsins.
    Í samræmi við þingsályktunina hefur verið lögð sérstök áhersla á að kynna stefnu Íslands í hvalamálum á fundum sjávarútvegsráðherra með fulltrúum annarra þjóða, fulltrúum frjálsra félagasamtaka og blaðamönnum. Hefur sjávarútvegsráðherra m.a. kynnt hana á fundum með sjávarútvegsráðherrum Kína, Bretlands, Írlands, Spánar og Frakklands og jafnframt sjávarútvegsráðherrum annarra Norðurlanda. Sjávarútvegsráðherra átti fund með framkvæmdastjóra fiskveiðimála hjá Evrópusambandinu og kynnti þá fyrir honum stefnu Íslands í hvalamálum. Þá hefur sjávarútvegsráðherra átt fundi með sendiherrum fjölmargra ríkja. Meðal þeirra eru Bandaríkin, Kanada, Japan, Þýskaland og Kína. Sérstakir fundir hafa verið haldnir með embættismönnum frá Japan. Meðal frjálsra félagasamtaka sem rætt hefur verið við um hvalamál má nefna Marine Stewardship Council. Fréttamenn frá m.a. frönskum, breskum, bandarískum, þýskum, kanadískum, spænskum og norrænum fjölmiðlum hafa átt viðtöl við sjávarútvegsráðherra sem hefur gert þeim grein fyrir stefnu Íslands í hvalamálum.
    Áhersla hefur verið lögð á að fulltrúar sjávarútvegsráðuneytisins sæki fundi alþjóðastofnana er varða hvalamál og kynni þar stefnu Íslands í hvalamálum fyrir fulltrúum annarra ríkja. Í þessu sambandi má nefna fundi aðildarríkjaþings samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu (CITES), fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) og Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins (NAMMCO).
    Kynning með framangreindum hætti mun halda áfram. Þá hefur sérstök kynning á hvalamálum í Bandaríkjunum verið undirbúin. Framkvæmd hennar verður hins vegar ekki hafin fyrr en að loknum forsetakosningum í Bandaríkjunum. Jafnframt er ráðuneytið að skoða hver áhrif innganga Íslands í hvalveiðiráðið að nýju hefði, og þar með hver lagaleg staða okkar yrði. Í stuttu máli sagt þá er unnið að málinu á grundvelli þingsályktunarinnar með það að markmiði að hefja hvalveiðar að nýju.
    Í fjárlögum ársins 2000 er gert ráð fyrir að varið verði 15 millj. kr. til kynningar á stefnu Íslands í hvalamálum og er sama fjárhæð áætluð til þessarar kynningar á næsta ári. Greiddar hafa verið rúmar 8 millj. kr. vegna verkefnisins.