Ferill 168. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 312  —  168. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Hólmfríðar Sveinsdóttur um Jafnréttisráð.

     1.      Stendur til að setja reglugerð um störf Jafnréttisráðs og skrifstofuhald? Ef svo er, hvenær má vænta hennar?
    Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000 segir í 7. gr. að félagsmálaráðherra geti með reglugerð sett nánari ákvæði um störf Jafnréttisráðs og skrifstofuhald. Hefur verið farið fram á það við nýskipað Jafnréttisráð að það ræði hvernig það telji best að hagað verði starfsemi ráðsins. Að fengnum tillögum þess mun reglugerðin verða unnin.

     2.      Eru Jafnréttisráði ætluð önnur verkefni en kveðið er á um í lögum, þ.e. að vera ráðgefandi og gera tillögur um aðgerðir á sviði jafnréttismála?
    Hlutverki Jafnréttisráðs er lýst í 8. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Jafnréttisráð skal stuðla markvisst að jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla á vinnumarkaðinum. Ráðið skal gera tillögur til félagsmálaráðherra um aðgerðir á þessu sviði. Jafnréttisráð er stjórnvöldum til ráðgjafar um jafnréttismál í vinnumarkaðsmálum og getur jafnframt gert tillögur um úrbætur í jafnréttismálum á öðrum sviðum samfélagsins. Ekki er fyrirhugað að fela Jafnréttisráði önnur verkefni.

     3.      Mun Jafnréttisráð geta staðið að sjálfstæðum rannsóknum á jafnréttismálum?
    Ekki er fráleitt að Jafnréttisráð geti staðið fyrir könnunum í tengslum við tiltekin verkefni. Líklegt er að um slíkt yrði fjallað í reglugerð um störf þess og vísast í því sambandi til svars við fyrsta lið.

     4.      Munu félög, samtök og/eða einstaklingar geta sótt um styrk hjá Jafnréttisráði eða Jafnréttisstofu til verkefna á sviði jafnréttismála?
    Ekki er gert ráð fyrir því að Jafnréttisráð verði styrktaraðili verkefna, hins vegar mun Jafnréttisstofa annast ráðgjöf og aðstoð við umsækjendur um styrki í innlenda og erlenda sjóði á sviði jafnréttismála.

     5.      Hver er fjárhagsrammi Jafnréttisráðs?
    Fjárhagsrammi Jafnréttisráðs mun m.a. ráðast ef verkefnum þess eins og þau verða skilgreind í reglugerð í samráði við ráðið. Ráðið fær þjónustu starfsmanns í hálfu starfi og er hann staðsettur á Jafnréttisstofu.

     6.      Hver er fyrirsjáanlegur kostnaður á ári við hið nýja Jafnréttisráð borið saman við Jafnréttisráð sem lauk störfum nú í haust?
    Jafnréttisráð skipað á grundvelli fyrri laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, hafði bæði aðra stjórnsýslulega stöðu og önnur verkefni en núverandi Jafnréttisráð sem skipað er á grundvelli nýrra laga. Verkefni Jafnréttisráðs hafa að breyttum lögum að mestu leyti verið falin nýrri stofnun, Jafnréttisstofu. Jafnréttisráð sinnir nú afmarkaðra hlutverki og verkefnum. Samanburður á fjárframlögum til fyrrverandi Jafnréttisráðs og þess ráðs sem nú er að störfum er því ekki að neinu leyti lýsandi um breytingar á fjárframlögum til sömu starfsemi. Ekki hefur verið gengið endanlega frá fjárveitingum eða skiptingu fjármagns til jafnréttismála fyrir árið 2001. Í frumvarpi til fjárlaga er gert ráð fyrir að hjá félagsmálaráðuneyti fari samtals 48,8 millj. kr. til jafnréttismála. Á fjárlögum ársins 2000 var 45,6 millj. kr. varið til jafnréttismála.

     7.      Er í fjárhagsáætlun ráðuneytisins gert ráð fyrir auknum útgjöldum vegna óhjákvæmilegs ferðakostnaðar Jafnréttisráðs?

    Í áætlunum félagsmálaráðuneytis hefur verið tekið tillit til aukinna útgjalda vegna ferðakostnaðar Jafnréttisráðs.