Ferill 447. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 713  —  447. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2000, um breytingar á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2000 frá 27. október 2000, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1999/95/EB frá 13. desember 1999, um framkvæmd ákvæða um vinnutíma sjómanna á skipum sem fara um hafnir í bandalaginu.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2000, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992. Sú gerð sem hér um ræðir er tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1999/95/EB frá 13. desember 1999, um framkvæmd ákvæða um vinnutíma sjómanna á skipum sem fara um hafnir í bandalaginu.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögunni er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar tilskipunar sem hér um ræðir og nauðsynlegum lagabreytingum til að innleiða hana í íslenskan rétt. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES- samningnum felast.
    Sú málsmeðferð sem hér um ræðir er sú sama og viðhöfð var í tengslum við alls 19 ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar sem eins var ástatt um en þingsályktunartillaga þess efnis var flutt og afgreidd á 125. löggjafarþingi (587. mál) . Í athugasemdum með þeirri tillögu var skýrt frá því að framvegis yrði það verklag viðhaft að flytja sérstakar þingsályktunartillögur um þær ákvarðanir sem samþykktar væru af sameiginlegu EES-nefndinni með fyrirvara skv. 103. gr. EES-samningsins. Var fyrsta þingsályktunartillagan samkvæmt þessu breytta ferli lögð fram á yfirstandandi þingi og samþykkt (312. mál).
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES- samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið nægja að Alþingi samþykki nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkurt frávik frá almennri meðferð vegna staðfestingar þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er með hvaða hætti það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES-samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en nokkrum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES-samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verður hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið þar sem við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu hefur meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara verið færð til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt hefur þeirri föstu vinnureglu verið komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, að haft verði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.

3. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2000, um tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/95/EB frá 13. desember 1999, um framkvæmd ákvæða um vinnutíma sjómanna á skipum sem fara um hafnir í bandalaginu.
    Tilskipunin er nokkurs konar hliðartilskipun við tilskipun ráðsins 1999/63/EB, um samninginn um skipulag vinnutíma á farskipum, sem gerður var af Evrópusamtökum skipaeigenda (ESCA) og Sambandi flutningaverkamanna en sérstök þingsályktunartillaga hefur verið lögð fram vegna hennar. Með þeirri tilskipun er hrint í framkvæmd samningi um skipulag vinnutíma á farskipum sem gerður var 30. september 1998 á milli Evrópusamtaka skipaeigenda og launafólks á þessu sviði. Settar eru viðmiðanir um skipulag vinnutíma á farskipum, m.a. um hámarksvinnutíma og lágmarkshvíldartíma, en þessi hópur hefur hingað til verið undanþeginn í vinnutímaákvæðum ESB. Þannig eru ekki ákvæði um vinnutíma á farskipum í tilskipun ráðsins 93/104/EB, um ákveðna þætti er varðar skipulag vinnutíma, eins og henni var breytt með tilskipun 2000/34/EB frá 22. júní 2000. Þess má geta að með síðargreindu tilskipuninni voru hópar sem áður höfðu verið undanþegnir í tilskipun 93/104/EB færðir undir gildissvið hennar, að farmönnum undanskildum.
    Tilvitnaður samningur byggist á ákvæðum samþykktar nr. 180 frá Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO) sem fjallar um vinnutíma sjómanna á farskipum. Tilskipun 1999/63/EB mun taka til allra skipa sem skráð eru á ESB svæðinu, en með tilskipun 1999/95/EB er kveðið á um að sömu reglur skuli gilda á farskipum sem taka höfn á ESB svæðinu, þrátt fyrir að þau séu ekki skráð á skipaskrám ríkja þess. Samhliða þessum tveimur tilskipunum hafa verið samþykkt tilmæli framkvæmdastjórnarinnar frá 18. nóvember 1998, um fullgildingu á ILO-samþykkt 180, um vinnutíma sjómanna og mönnun skipa, og fullgildingu frá 1996 á bókun við kaupskipasamþykktina frá 1976.
    Markmiðið með tilskipun 1999/95/EB er að koma á kerfi til að sannprófa og framfylgja því að skip sem fara um hafnir í aðildarríkjunum haldi ákvæði tilskipunar 1999/63/EB svo að hægt sé að bæta öryggi til sjós, vinnuskilyrði og heilbrigði og öryggi sjómanna um borð í skipum. Er mælt fyrir um að aðildarríkin skuli gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að skip sem ekki eru skráð á yfirráðasvæði þeirra eða sigla ekki undir þeirra fána hlíti ákvæðum 1.–12. gr. samningsins sem fylgir tilskipun 1999/63/EB.
    Unnið er að undirbúningi nauðsynlegra lagabreytinga vegna þessa í samgönguráðuneytinu en nauðsynlegt reynist að gera breytingar á sjómannalögum, nr. 35/1985. Samkvæmt tilskipuninni skal efni hennar koma til framkvæmda á EES-svæðinu eigi síðar en 30. júní 2002.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 94/2000

frá 27. október 2000

um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og hann var aðlagaður með bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir samningurinn, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)      XIII. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 69/2000 frá 2. ágúst 2000( 1 ).

2)      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/95/EB frá 13. desember 1999 um framkvæmd ákvæða um vinnutíma sjómanna á skipum sem fara um hafnir í bandalaginu( 2 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.



Eftirfarandi liður komi aftan við lið 56g (tilskipun ráðsins 97/70/EB) í XIII. viðauka við samninginn:

„56h.     399 L 0095: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/95/EB frá 13. desember 1999 um framkvæmd ákvæða um vinnutíma sjómanna á skipum sem fara um hafnir í bandalaginu (Stjtíð. EB L 14, 20.1.2000, bls. 29).“

2. gr.



Texti tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 1999/95/EB á íslensku og norsku, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna, telst fullgiltur.

3. gr.



Ákvörðun þessi öðlast gildi þann 28. október 2000, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi verið sendar sameiginlegu EES-nefndinni( * ).

4. gr.



Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild og EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna.

Gjört í Brussel 27. október 2000.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    G. S. Gunnarsson

    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar
    
    P.K. Mannes     E. Gerner

Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 1999/95/EB

frá 13. desember 1999

um framkvæmd ákvæða um vinnutíma sjómanna á skipum sem fara um hafnir í bandalaginu

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 2. mgr. 80. gr.,

með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),

með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),

í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ),

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)      Aðgerðir bandalagsins á sviði félagsmálastefnu hafa það meðal annars að markmiði að bæta heilbrigði og öryggi starfsmanna í vinnuumhverfi þeirra.

2)      Aðgerðir bandalagsins á sviði sjóflutninga hafa það meðal annars að markmiði að bæta aðbúnað og vinnuskilyrði sjómanna um borð, öryggi til sjós og varnir gegn mengun af völdum sjóslysa.

3)      Á áttugasta og fjórða fundi sínum sem fram fór 8. til 22. október 1996 samþykkti þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) alþjóðavinnumálasamning nr. 180 frá 1996 um vinnutíma sjómanna og mönnun skipa (sem nefnist hér á eftir „ILO- samningur nr. 180“) og bókunina frá 1996 við samninginn frá 1976 um lágmarksstaðla kaupskipa (sem nefnist hér á eftir „bókun við ILO-samning nr. 147“).

4)      Tilskipun ráðsins 99/63/EB frá 21. júní 1999 um samning um skipulag á vinnutíma sjómanna á kaupskipum milli Samtaka skipaeigenda í Evrópubandalaginu (ECSA) og Samtaka félaga flutningaverkamanna í Evrópusambandinu (FST) ( 4 ), sem samþykkt var samkvæmt 2. mgr. 139. gr. sáttmálans, miðar að því að koma téðum samningi, sem gerður var 30. september 1998, í framkvæmd, (hér á eftir nefndur „samningurinn“). Efni samningsins endurspeglar tiltekin ákvæði ILO- samnings nr. 180. Samningurinn gildir um sjómenn á öllum hafskipum, jafnt í eigu hins opinbera sem í einkaeign sem eru skráð á yfirráðasvæði aðildarríkis og eru að jafnaði starfrækt sem kaupskip.

5)      Markmiðið með þessari tilskipun er að beita þeim ákvæðum tilskipunar 1999/63/EB sem endurspegla ákvæði ILO-samnings nr. 180 á öll skip sem fara um hafnir í bandalaginu, án tillits til þess undir hvaða fána þau sigla, í því skyni að sýna fram á og ráða bót á aðstæðum sem greinilega eru hættulegar öryggi og heilsu sjómanna. Í téðri tilskipun nr. 1999/63/EB eru þó kröfur sem ekki er að finna í ILO-samningi nr. 180 og skal þeim því ekki framfylgt um borð í skipum sem ekki sigla undir fána aðildarríkis.

6)      Tilskipun 1999/63/EB gildir um sjómenn um borð í öllum hafskipum sem skráð eru á yfirráðasvæði aðildarríkis. Aðildarríkjunum ber að hafa eftirlit með því að skip, sem skráð eru á yfirráðasvæði þeirra, hlíti öllum ákvæðum téðrar tilskipunar.

7)      Aðildarríkin skulu, í því augnamiði að vernda öryggi og forðast röskun á samkeppni, hafa leyfi til að sannprófa hvort hafskip sem fara um hafnir þeirra hlíti viðeigandi ákvæðum tilskipunar 1999/63/EB, án tillits til þess í hvaða ríki þau eru skráð.
8)      Einkum og sér í lagi skulu skip sem sigla undir fána ríkis sem ekki er aðili að ILO-samningi nr. 180 eða bókun við ILO-samning nr. 147 ekki hljóta hagstæðari meðferð en þá sem þau skip hljóta sem sigla undir fána ríkis sem annaðhvort er aðili að samningnum eða bókuninni eða hvoru tveggja.

9)      Vegna eftirlits með skilvirkri framkvæmd tilskipunar 1999/63/EB er nauðsynlegt að aðildarríkin láti fara fram skoðanir um borð í skipum, einkum ef þeim hefur borist kvörtun frá skipstjóra, skipverja eða einhverjum einstaklingi eða stofnun sem hefur réttmætra hagsmuna að gæta að því er varðar örugga skipsstjórnun, aðbúnað og vinnuskilyrði um borð eða mengunarvarnir.

10)      Að því er þessa tilskipun varðar geta aðildarríkin, að eigin frumkvæði og eftir því sem við á, tilnefnt skoðunarmenn hafnarríkiseftirlits til að framkvæma skoðanir um borð í skipum sem fara um hafnir í bandalaginu.

11)      Afla má sannana fyrir því að skip fullnægi ekki kröfum tilskipunar 1999/63/EB eftir sannprófun á vinnutilhögun um borð og á gögnum um vinnu- og hvíldartíma sjómanna, eða ef skoðunarmaðurinn hefur rökstuddan grun um að sjómennirnir séu of þreyttir.

12)      Í þeim tilgangi að lagfæra skilyrði um borð í skipi sem sannanlega stofna öryggi eða heilsu manna í hættu geta lögbær yfirvöld í aðildarríki þangað sem skipið siglir lagt bann við því að skipið leggi úr höfn fyrr en bætt hefur verið úr vanbúnaði eða áhöfnin orðin úthvíld.

13)      Þar sem tilskipun 1999/63/EB endurspeglar ákvæði ILO-samnings nr. 180 getur sannprófun á því hvort skip, sem skráð eru á yfirráðasvæði þriðja ríkis, hlíti ákvæðum þeirrar tilskipunar einungis farið fram þegar samningur þessi hefur öðlast gildi.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Markmið og gildissvið

1.      Markmiðið með þessari tilskipun er að koma á kerfi til að sannprófa og framfylgja því að skip sem fara um hafnir í aðildarríkjunum haldi ákvæði tilskipunar 1999/63/EB svo að hægt sé að bæta öryggi til sjós, vinnuskilyrði og heilbrigði og öryggi sjómanna um borð í skipum.

2.      Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að skip sem ekki eru skráð á yfirráðasvæði þeirra eða sigla ekki undir þeirra fána hlíti ákvæðum 1. til 12. gr. samningsins sem fylgir tilskipun 1999/63/EB.

2. gr.

Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

a)      „skip“: öll hafskip, jafnt í eigu hins opinbera sem í einkaeign, sem eru að jafnaði starfrækt sem kaupskip. Fiskiskip eru ekki talin með í þessari skilgreiningu,

b)      „lögbært yfirvald“: þau yfirvöld sem aðildarríkin hafa tilnefnt til að annast framkvæmdir vegna þessarar tilskipunar,

c)      „skoðunarmaður”: opinber starfsmaður eða annar einstaklingur sem hlotið hefur viðurkenningu lögbærs yfirvalds í aðildarríki til að skoða vinnuskilyrði um borð, og er ábyrgur gagnvart því,

d)      „kvörtun“: allar upplýsingar eða skýrsla frá meðlimi áhafnar, fagfélagi eða samtökum, stéttarfélagi eða almennt hverjum þeim einstaklingi sem hefur áhuga á öryggi skipsins, einkum því sem lýtur að öryggi eða heilsu áhafnarinnar.

3. gr.

Undirbúningur á skýrslum

Með fyrirvara um 2. mgr. 1. gr. skal aðildarríki, ef því berst kvörtun, sem að þess mati er ekki augljóslega tilefnislaus, eða fær sannanir fyrir því að ástand skips, sem að eigin ákvörðun fer um höfn þess af eðlilegum viðskiptaástæðum eða rekstrarástæðum, sé ekki í samræmi við staðlana sem um getur í tilskipun 1999/63/EB, útbúa skýrslu stílaða á ríkisstjórn skráningarríkis skipsins og, þegar viðeigandi sannanir fást við skoðun, sem framkvæmd er samkvæmt 4. gr., skal aðildarríkið gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að aðbúnaður um borð, sem sannanlega stofnar öryggi eða heilsu áhafnarinnar í hættu, sé lagfærður.

Ekki má veita skipstjóra eða eiganda skipsins sem um ræðir neinar upplýsingar um einstaklinginn sem lagði fram skýrsluna eða kvörtunina.

4. gr.

Skoðun og nákvæm skoðun

1.      Þegar skoðun er framkvæmd í því augnamiði að afla sannana þess efnis að skip uppfylli ekki kröfur tilskipunar 1999/63/EB skal skoðunarmaðurinn ákvarða hvort:

–    tafla með upplýsingum um vinnutilhögun um borð hafi verið útbúin á vinnutungumáli eða tungumálum skipsins og á ensku samkvæmt fyrirmynd í I. viðauka, eða á öðru sambærilegu formi og hafi verið sett upp á aðgengilegum stað um borð;

–    gögn um vinnutíma eða hvíldartíma sjómanna hafi verið tekin saman á vinnutungumáli eða tungumálum skipsins og á ensku samkvæmt fyrirmynd í II. viðauka, eða á öðru sambærilegu formi og séu geymd um borð og að sannað sé að gögnin hafi verið árituð af lögbæru yfirvaldi í skráningarríki skipsins.

2.      Ef kvörtun hefur borist eða ef skoðunarmaður telur, eftir eigin athuganir um borð, að sjómennirnir séu of þreyttir skal skoðunarmaðurinn framkvæma nákvæmari skoðun, í samræmi við 1. mgr., til að ákvarða hvort vinnutími eða hvíldartími sem skráður hefur verið sé í samræmi við staðlana sem mælt er fyrir um í tilskipun 1999/63/EB og hvort þeim hefur verið framfylgt með tilliti til annarra gagna um rekstur skipsins.

5. gr.

Úrbætur á vanbúnaði

1.      Ef skoðun eða nákvæm skoðun gefur til kynna að ástand skipsins fullnægi ekki kröfum tilskipunar 1999/63/EB skal aðildarríkið gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að úrbætur séu gerðar á aðbúnaði sem sannanlega stofnar öryggi eða heilsu sjómanna í hættu. Slíkar ráðstafanir geta falið í sér bann við að skipið leggi úr höfn áður en úrbætur hafa verið gerðar á vanbúnaði eða áður en sjómenn hafa fengið nægilega hvíld.
2.      Ef augljósar sannanir eru fyrir því að vaktmenn á fyrstu vakt eða á síðari afleysingavöktum séu of þreyttir skal aðildarríkið tryggja að skipið leggi ekki úr höfn fyrr en það sem er í ólagi hefur verið lagfært eða sjómennirnir hafa fengið nægilega hvíld.

6. gr.

Framhaldsaðgerðir

1.      Ef svo ber undir að skipi sé bannað að leggja úr höfn í samræmi við við 5. gr. skal lögbært yfirvald aðildarríkisins tilkynna skipstjóranum, eigandanum eða rekstraraðilanum, stjórnvaldi fánaríkis eða skráningarríkis skipsins eða ræðismanni, eða í fjarveru hans næsta fulltrúa utanríkisþjónustu ríkisins, um niðurstöður skoðananna sem um getur í 4. gr. og, þegar það á við, um þær aðgerðir til úrbóta sem krafist er.

2.      Við framkvæmd skoðana samkvæmt þessari tilskipun skal gera allt sem hægt er til að forðast að skip sé tafið á ótilhlýðilegan hátt. Ef skip er tafið á ótilhlýðilegan hátt á eigandi þess eða útgerð rétt á bótum fyrir tap eða tjón sem hann hefur orðið fyrir. Í hvert skipti sem meint ótilhlýðileg töf á sér stað skal sönnunarbyrði þess efnis hvíla á herðum eiganda eða útgerð skipsins.

7. gr.

Áfrýjunarréttur

1.      Eigandi skipsins, útgerð þess eða fulltrúi hennar í aðildarríki hefur rétt til að áfrýja ákvörðun um kyrrsetningu tekinni af lögbæra yfirvaldinu. Áfrýjun ógildir ekki kyrrsetningarákvörðun.

2.      Aðildarríkin skulu koma á og viðhalda viðeigandi málsmeðferð í þessu skyni í samræmi við landslög þeirra.

3.      Lögbær yfirvöld skulu með viðeigandi hætti veita skipstjóra skips, sem um getur í 1. mgr., upplýsingar um áfrýjunarréttinn.

8. gr.

Samvinna stjórnvalda

1.      Þegar upp koma aðstæður sem eru sambærilegar við þær sem mælt er fyrir um í 14. gr. tilskipunar 95/21/ EB frá 19. júní 1995 um hvernig alþjóðlegum stöðlum um öryggi skipa, mengunarvarnir, aðbúnað og vinnuskilyrði um borð í þeim er framfylgt (hafnarríkiseftirlit) að því er varðar skip sem nota hafnir innan bandalagsins og sigla á skipaleiðum sem heyra undir lögsögu aðildarríkjanna ( 1 ), skulu aðildarríkin gera nauðsynlegar ráðstafanir um samstarf á milli viðeigandi yfirvalda sinna og viðeigandi lögbærra yfirvalda í hinum aðildarríkjunum til að tryggja skilvirka beitingu þessarar tilskipunar og skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um þessar ráðstafanir.

2.      Upplýsingar um ráðstafanir sem gerðar eru samkvæmt 4. og 5. gr. skal birta í samræmi við og eftir þeim leiðum sem settar eru fram í 1. mgr. 15. gr. tilskipunar 95/21/EB.

9. gr.

Ákvæði um „ekki hagstæðari meðferð“

Við skoðun á skipi sem skráð er í eða siglir undir fána ríkis sem ekki hefur skrifað undir ILO-samning nr. 180 eða bókun við ILO-samning nr. 147 skulu aðildarríki tryggja, um leið og samningurinn og bókunin hafa tekið gildi, að slík skip og áhöfn þeirra hljóti ekki hagstæðari meðferð en þá sem skip hlýtur sem siglir undir fána ríkis sem er aðili annaðhvort að ILO-samningi nr. 180 eða bókun við ILO-samning nr. 147 eða að hvoru tveggja.

10. gr.

Lokaákvæði

1.      Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 30. júní 2002.

2.      Þegar aðildarríkin samþykkja ráðstafanirnar sem um getur í 1. mgr. skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

3.      Aðildarríkin skulu tafarlaust tilkynna framkvæmdastjórninni um öll ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til. Framkvæmdastjórnin skal tilkynna það hinum aðildarríkjunum.

11. gr.

Skip frá ríkjum utan bandalagsins

Þessi tilskipun skal fyrst gilda um skip sem ekki eru skráð í eða sigla ekki undir fána aðildarríkis á gildistökudegi ILO-samnings nr. 180 og gildistökudegi bókunar við ILO-samning nr. 147.

12. gr.

Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

13. gr.

Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.Gjört í Brussel 13. desember 1999.

Fyrir hönd Evrópuþingsins,

Fyrir hönd ráðsins,

N. FONTAINE

S. HASSI

forseti.

forseti.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Neðanmálsgrein: 1

(1) Stjtíð. EB L 250, 5.10.2000, bls. 52 og EES-viðbætir við Stjtíð. EB nr. 44, 5.10.2000, bls. 5.
Neðanmálsgrein: 2
(2) Stjtíð. EB L 14, 20.1.2000, bls. 29.
Neðanmálsgrein: 3
(*) Stjórnskipuleg skilyrði tilgreind.
Neðanmálsgrein: 4
(1) Stjtíð. EB C 43, 17.2.1999, bls. 16.
Neðanmálsgrein: 5
(2) Stjtíð. EB C 138, 18.5.1999, bls. 33.
Neðanmálsgrein: 6
(3) Álit Evrópuþingsins frá 14. apríl 1999 (Stjtíð. EB C 219, 30.7.1999, bls. 240), sameiginleg afstaða ráðsins frá 12. júlí 1999 (Stjtíð. EB C 249, 1.9.1999, bls. 7) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 4. nóvember 1999 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB).
Neðanmálsgrein: 7
(4) Stjtíð. EB L 167, 2.7.1999, bls. 37.