Ferill 540. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 840  —  540. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum.

Flm.: Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman.



1. gr.

    206. gr. laganna orðast svo:
    Hver sem greiðir fyrir kynlífsþjónustu af einhverju tagi skal sæta fangelsi allt að 4 árum.
    Hver sem hefur atvinnu eða viðurværi sitt af vændi annarra skal sæta fangelsi allt að 6 árum.
    Sömu refsingu varðar það að ginna, hvetja eða aðstoða barn, yngra en 18 ára, til þess að stunda hvers konar kynlífsþjónustu.
    Sömu refsingu varðar það einnig að stuðla að því að fólk sé flutt úr landi eða til landsins í því skyni að það taki þátt í hvers kyns klám- eða kynlífsiðnaði hvort sem viðkomandi er kunnugt um þennan tilgang fararinnar eða ekki og hvort sem samþykki viðkomandi liggur fyrir eða ekki.
    Hver sem stuðlar að því með ginningum, hvatningum eða milligöngu að aðrir hafi holdlegt samræði eða önnur kynferðismök gegn greiðslu eða hefur tekjur af kynlífsþjónustu sem aðrir veita, svo sem með útleigu húsnæðis eða öðru, skal sæta fangelsi allt að 4 árum en sektum eða fangelsi allt að 1 ári ef málsbætur eru.
    Hver sem býður upp á kynferðislegar nektarsýningar og hefur þar með nekt annarra sér að féþúfu og til sölu skal sæta allt að 4 ára fangelsi. Sömu refsingu varðar það að skipuleggja og reka kerfisbundna klámþjónustu gegnum síma eða tölvur.

2. gr.

    1. og 2. mgr. 210. gr. laganna orðast svo:
    Ef klám birtist á prenti skal sá sem ábyrgð ber á birtingu þess eftir prentlögum sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.
    Sömu refsingu varðar það þann sem er ábyrgur fyrir að auglýsa í fjölmiðlum eða á opinberum vettvangi aðgang að klámi í hvaða mynd sem það er fram borið.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Að undanförnu hafa miklar umræður orðið í íslensku samfélagi um klám og kynlífsþjónustu og er mikilvægt að nú þegar verði brugðist við breyttum aðstæðum sem hér hafa verið að skapast.
    Samkomustaðir, svokallaðir nektardansstaðir, hafa skotið upp kollinum bæði í Reykjavík og annars staðar á landinu. Mikilvægt er að stemma stigu við slíkri starfsemi hérlendis. Reynslan erlendis hefur nær undantekningalaust verið sú að á slíkum stöðum eða í tengslum við þá sé stundað vændi í einhverjum mæli og oftar en ekki neysla og dreifing fíkniefna einnig. Þá hefur vakið athygli hvernig viðgengist hafa alls kyns auglýsingar, t.d. í dagblöðum, um ýmiss konar kynlífsþjónustu. Enn má nefna að á netinu er alls kyns auglýsingastarfsemi fyrir klámþjónustu, auk þess sem talið er að í tengslum við ákveðnar vefsíður sé stundað skipulagt vændi.
    Með breytingum sem hér er lagt til að verði gerðar á almennum hegningarlögum er lögð áhersla á að refsingar við brotum sem hér er fjallað um beinist að þeim sem kaupa kynlífsþjónustu hvers konar eða hafa líkama annarra sér að féþúfu. Sömuleiðis er hér leitast við að stemma stigu við þeirri opinberu og ógeðfelldu klámþjónustu sem greinilega er stunduð á vegum símafyrirtækja og mikið er auglýst í fjölmiðlum, bæði prentmiðlum og á öldum ljósvakans. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir breytingu á 210. gr. laganna er varðar refsingar við að birta klám á prenti og auglýsa klám eða aðgang að klámi.
    Samkvæmt leiðbeinandi reglum sem jafnréttisnefnd Evrópuráðsins og ráðherranefnd þess hafa afgreitt telst mansal til kynlífsþrælkunar eða kynlífsmisnotkunar vera til staðar „þegar einstaklingur, lögpersóna og/eða samtök útvega og/eða flytja innan lands eða milli landa á löglegan eða ólöglegan hátt einstaklinga, jafnvel með samþykki þeirra, í þeim tilgangi að nýta þá kynferðislega í gróðaskyni og beita til þess meðal annars þvingunum, einkum ofbeldi eða hótunum, blekkingum og misnotkun valds eða misnota sér bága stöðu einstaklinganna.“ (Elsa Þorkelsdóttir, Mansal, erindi flutt á fræðslufundi undir yfirskriftinni Mansal — kynlífsþrælkun — staðreynd eða upphrópun á Íslandi, á Hótel Borg, 8. febrúar 2000.)
    Kaup á kynlífi og kynlífsþjónustu eru því gróf valdbeiting, kynferðislegt ofbeldi, þar sem valdastaða þess sem kaupir, selur eða hefur milligöngu um þjónustuna er staða hins sterka. Þá er þess einnig að geta að talið er að verslun með konur til kynlífsþrælkunar sé oftast tengd annarri glæpastarfsemi, svo sem eiturlyfjasmygli, peningaþvætti og öðrum ólöglegum athöfnum.
    Í desember 2000 var á vegum Sameinuðu þjóðanna undirrituð í Palermó á Ítalíu yfirlýsing gegn skipulagðri glæpastarfsemi fjölþjóðlegra glæpahringa. Þar er að finna sérstakan kafla um sölu á konum og börnum til kynlífsþrælkunar. Íslendingar eiga aðild að þessari yfirlýsingu og skyldar hún íslensk stjórnvöld til að tryggja að í íslenskri hegningarlöggjöf verði tekið á slíkum glæpum af festu.
    Afleiðingar vændis eða sölu hvers kyns kynlífsþjónustu eru iðulega mjög svipaðar og hjá öðrum þolendum kynferðisofbeldis, þ.e. brotin sjálfsmynd, sjálfsfyrirlitning, þunglyndi, sjálfsvígsþankar og tilraunir til sjálfsvíga. Ótal kannanir hafa einnig sýnt að konur sem selja líkama sinn eru að stórum hluta konur sem beittar hafa verið kynferðisofbeldi í bernsku og hafa því alla tíð staðið höllum fæti í lífinu. Á síðari árum hafa fátækt og litlar vonir um mannsæmandi framtíð einnig knúið fólk til vændis og auðveldað þannig þeim sem kaupa kynlífsþjónustu eða gerast milligöngumenn um slíkt að ná valdi yfir því.
    Í grein eftir Áshildi Bragadóttur stjórnmálafræðing (Vera, 1. tbl. 2000) kemur fram að þótt ekki sé hægt með neinni vissu að alhæfa um útbreiðslu vændis hér á landi sé líklegt að vændi sé stundað hér, enda hafi nokkrir tugir einstaklinga sem stundað hafa vændi leitað til Stígamóta, samtaka kvenna gegn kynferðislegu ofbeldi.
    Í greininni er að finna fimm skilgreiningar á vændi sem fullyrt er að stundað sé hér á landi. Í fyrsta lagi kemur fram að hér á landi eru starfrækt vændishús „þar sem einn aðili á eða stjórnar starfseminni, tekur á móti pöntunum og útvegar viðskiptavinum hold. Vændið fer ýmist fram innan veggja vændishússins, á hótelum, vinnustöðum viðskiptavinarins eða heimili hans.“ Í öðru lagi kemur fram að eigendur eða rekstraraðilar ákveðinna veitingahúsa hafi tekið að sér að vera milliliðir viðskiptavinarins og þess sem „seldi sig“. Í þriðja lagi er nefnd svokölluð fylgiþjónusta. Í fjórða lagi er talað um vændi þar sem karlmenn „gera skipulega út á konur“. Í fimmta lagi kemur fram í áðurnefndri grein Áshildar Bragadóttur að hér á landi þrífist það sem hún nefnir tilviljanakennt götuvændi.
    Íslensk stjórnvöld hafa undirritað mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 1948 og þar með undirgengist m.a. að banna að hneppa menn í þrældóm eða nauðungarvinnu og banna þrælahald og þrælaverslun, hverju nafni sem hún nefnist. Þá eru í samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum ákvæði þess efnis að aðildarríkin skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal staðfesta lagasetningu, til þess að hamla gegn hvers konar verslun með konur og gróðastarfsemi sem tengist vændi kvenna.
    Samkvæmt upplýsingum frá PRO-miðstöðinni í Kaupmannahöfn, sem er opinber fræðslu-, ráðgjafar- og rannsóknarmiðstöð um vændi og kynlífsiðnað í Danmörku, er einkadans ekki leyfður þar í landi. Þar er í gildi reglugerð sem kveður á um að viðskiptavinir á nektardansstöðum þurfi að halda sig í a.m.k. fjögurra metra fjarlægð frá stúlkunum. Hjá PRO-miðstöðinni í Noregi kom fram að einkadansinn tíðkist þar ekki heldur. Þar í landi vakti það gífurlega hörð viðbrögð þegar opnaðir voru barir þar sem þjónustustúkur gengu um berbrjósta. Nú er aðeins einn slíkur bar starfandi í Ósló. Sænsk yfirvöld hafa gengið fram fyrir skjöldu og bannað kaup á kynlífsþjónustu hvaða nafni sem hún nefnist.
    Í frumvarpinu eru lagðar til afgerandi breytingar á almennum hegningarlögum til þess að bregðast við þeirri óæskilegu þróun sem orðið hefur í þessum efnum hér á landi sem víða annars staðar. Texti frumvarpsgreinanna skýrir sig að mestu leyti sjálfur en vert er að vekja athygli á þeirri áherslu sem lögð er á að draga notendur kynlífsþjónustu til ábyrgðar ekki síður en seljendur hennar. Klámiðnaður, sala kynlífsþjónustu og vændi hafa verið refsiverð á Íslandi samkvæmt almennum hegningarlögum, en á undanförnum árum virðist hafa dregið úr eftirliti með því að lögunum sé framfylgt. Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til á almennum hegningarlögum yrði sú afstaða fullkomlega ljós í íslenskum lögum.
    Auknar umræður hafa orðið um þessi mál á Alþingi nú á síðustu missirum og á haustþingi 1999 var það samdóma álit þingmanna sem tóku til máls í umræðum utan dagskrár um málið að stemma þyrfti stigu við þeim klám- og vændisiðnaði sem virðist hafa haslað sér völl á Íslandi. Þá liggur nú fyrir Alþingi skýrsla Sólveigar Pétursdóttur dómsmálaráðherra um samanburð á lagaumhverfi á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum varðandi löggjöf og eftirlit með klámi, vændi o.fl. Í henni koma fram gagnlegar upplýsingar sem í náinni framtíð eiga vafalaust eftir að leiða af sér breytingar á löggjöf þeirri sem hér um ræðir. Frumvarp það sem hér er lagt fram er einungis byrjunin á ítarlegri endurskoðun löggjafarinnar og er nú flutt lítið breytt frá fyrra ári.