Ferill 603. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 972  —  603. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um talsmann útlendinga á Íslandi.

Flm.: Guðrún Ögmundsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir,


Þórunn Sveinbjarnardóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Karl V. Matthíasson,
Rannveig Guðmundsdóttir, Svanfríður Jónasdóttir og Gísli S.Einarsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að stofna embætti talsmanns útlendinga á Íslandi sem sinni hagsmuna- og réttindagæslu þeirra.

Greinargerð.


    Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands bjuggu 14.927 útlendingar á Íslandi um áramótin 1999 og 2000, þar af 11.034 á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi, 1.231 á Vesturlandi og Vestfjörðum, 1.210 á Norðurlandi eystra og vestra, 561 á Austurlandi og 891 á Suðurlandi. Hér er um fjölda fólks að ræða sem oft á ekki auðvelt með að sinna hagsmuna- og réttindamálum sínum en mikilvægt er að þeim málum sé sinnt heildstætt svo að góð yfirsýn fáist. Ekki er síður mikilvægt að gera útlendinga meðvitaða um þá þjónustu sem þeir eiga rétt á og tryggja að ekki sé gengið á lögbundinn rétt þeirra. Hlutverk embættis talsmanns útlendinga mundi auk fyrrgreinds vera að fylgjast með því að stjórnvöld og einkaaðilar tækju fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna útlendinga. Þá mundi hann aðstoða útlendinga við rekstur dómsmála, hvort sem um er að ræða einkamál eða opinber mál. Talsmaður útlendinga yrði samkvæmt fyrrgreindu hlutverki að vera löglærður.
    Til að tryggja að talsmaður útlendinga geti gegnt starfi sínu sem best er jafnframt nauðsynlegt að kynningarefni á algengustu tungumálum, auk íslensku, um hlutverk hans og staðsetningu sé aðgengilegt á sem flestum opinberum stöðum, svo sem á landamærastöðvum og í menntunar- og heilbrigðisstofnunum. Þá er ljóst að miklu skiptir að greiður aðgangur verði að talsmanni útlendinga og því þarf embætti hans að vera staðsett miðlægt, t.d. í fyrirhuguðu alþjóðahúsi sem er væntanlegt samstarfsverkefni sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, en talsmaður mundi jafnframt vinna afar náið með væntanlegum landshlutamiðstöðvum. Stofnun embættis talsmanns útlendinga yrði því ekki síður mikilvægt og gagnlegt Íslendingum.