Ferill 629. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1004  —  629. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um vöruverð á landsbyggðinni.

Flm.: Kristján L. Möller, Einar Már Sigurðarson, Sigríður Jóhannesdóttir,


Gísli S. Einarsson, Karl V. Matthíasson, Guðrún Ögmundsdóttir,
Jóhann Ársælsson, Lúðvík Bergvinsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem hafi það hlutverk að kanna þróun vöruverðs á landsbyggðinni síðastliðin tíu ár og bera saman við þróun vöruverðs á höfuðborgarsvæðinu á sama tímabili. Nefndin kanni hvaða þættir hafi helst áhrif á vöruverð á landsbyggðinni annars vegar og á höfuðborgarsvæðinu hins vegar og hvar skilji á milli.
    Nefndin kanni sérstaklega og meti áhrif þungaskatts á vöruverð og hvaða áhrif breytingar undanfarinna ára á þungaskatti hafa haft á vöruverð á landsbyggðinni. Nefndin móti tillögur sem hafi að markmiði að draga úr áhrifum þungaskatts á vöruverð.
    Nefndin skili skýrslu til Alþingis fyrir árslok 2001.

Greinargerð.


    Verðlagskannanir hafa sýnt að verðlag á landsbyggðinni er yfirleitt hærra en á höfuðborgarsvæðinu og munar oft talsverðu. Þá hafa kannanir sýnt að fólk telur óhagstætt verðlag á meðal helstu ókosta þess að búa á landsbyggðinni.
    Orsakir hærra verðlags á landsbyggðinni eru margvíslegar og má þar t.d. nefna háan flutningskostnað, óhagstæðar rekstrareiningar og oft litla samkeppni.
    Með þingsályktunartillögu þessari er ætlunin að kannað verði rækilega hvaða orsakir liggja að baki umræddum verðlagsmun þannig að menn geti gripið til markvissra aðgerða sem hafi það að markmiði að jafna þennan mun. Í þessum tilgangi er lagt til að skipuð verði nefnd sem hafi það hlutverk að kanna þróun vöruverðs á landsbyggðinni og bera hana saman við þróun vöruverðs á höfuðborgarsvæðinu. Lagt er til að nefndin kanni þá þætti sem helst hafa áhrif á vöruverð á landsbyggðinni annars vegar og á höfuðborgarsvæðinu hins vegar og greini jafnframt hvar helst ber á milli.
    Verulega hefur skort á aðgerðir í byggðamálum þótt vandi landsbyggðarinnar og áhrif hans hafi verið ljós. Má í því sambandi vitna í þingsályktun um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1998–2001 sem samþykkt var á 123. þingi en þar segir í upphafi ályktunargreinarinnar:
    „ Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd stefnumótandi áætlunar um byggðamál fyrir árin 1998–2001 sem hafi að markmiði að treysta búsetu á landsbyggðinni. Stefnt verði að því að fólksfjölgun þar verði ekki undir landsmeðaltali og nemi 10% til ársins 2010.
    Í fylgiskjali IV. með tillögunni segir síðan:
    „ IV. Hvers vegna flytur fólk búferlum frá landsbyggðinni?
    
Rannsóknin á orsökum búferlaflutninga á Íslandi, sem sagt er frá í bókinni Búseta á Íslandi, leiðir í ljós að mjög náið samband er milli mats íbúa einstakra landshluta á búsetuskilyrðum byggðarlagsins og fólksfjöldaþróunar. Þar sem íbúar hafa yfir fleiru að kvarta í búsetuskilyrðunum hefur fólksfjöldaþróunin orðið óhagstæðust vegna mikils brottflutnings. Þar sem ánægja með 24 þætti búsetuskilyrða er mest hefur þróunin orðið hagstæðust og mest fjölgað.
    Búsetan er almennt veikust í smæstu sjávarútvegsbyggðarlögunum, einkum í þorpum með innan við 1000 íbúa. Náið samband er milli þróunar atvinnutækifæra í fiskvinnslu á landsbyggðinni og brottflutnings til höfuðborgarsvæðisins á síðastliðnum 35 árum. Flutningur vinnslu út á sjó í frystitogara og það óöryggi sem frjálst framsal veiðikvóta skapar í minni sjávarútvegsþorpum virðist eiga ríkan þátt í aukinni búseturöskun á síðustu árum. Hins vegar eru íbúar sumra stærri þéttbýlisstaðanna á landsbyggðinni ánægðari með búsetuskilyrði sín en íbúar höfuðborgarsvæðisins.

IV.1.     Viðhorf íbúa á hættusvæðunum.
    Til að draga skýrt fram niðurstöður rannsóknarinnar er gagnlegt að skoða meðfylgjandi yfirlit um óánægju með einstaka þætti búsetuskilyrðanna í mestu jaðarbyggðunum, eða þeim svæðum sem Byggðastofnun hefur skilgreint sem sérstök hættusvæði á landsbyggðinni, vegna þess að þau hafa tapað meira en 10% af íbúum sínum á síðustu 10 árum. 1 Þessi greining sýnir á skýran hátt hvaða einstakir þættir búsetuskilyrðanna það eru sem mest svíður undan á þeim svæðum sem flestu fólki tapa. Um er að ræða eftirfarandi svæði:

         Hættusvæðin á landsbyggðinni:
    
    Vesturland:     Dalasýsla og Austur-Barðastrandasýsla
         Vestfirðir:          Allt kjördæmið
         Norðurland vestra:     Vestur- og Austur-Húnavatnssýsla
         Norðurland eystra:     Siglufjörður, Fljóta- og Hofshreppur
        Austurland:     Seyðisfjörður, Neskaupstaður, Suður-Múlasýsla
         Suðurland:     Vestur-Skaftafellssýsla

    Tafla 2 sýnir hvaða þættir búsetuskilyrðanna það eru sem mest óánægja er með á hættusvæðunum á landsbyggðinni. Heildarmynstur niðurstaðna er í samræmi við niðurstöðurnar fyrir landið allt, þó að mikilvægi einstakra þátta sé misjafnt. Hér kemur skýrlega fram að flestir íbúar hættusvæðanna, þ.e. þeirra svæða sem langflestu fólki hafa tapað á síðastliðnum árum, eru óánægðir með húshitunarkostnað, næstmest er óánægjan með verðlag og verslunaraðstæður, þá kemur lagning og viðhald vega, tekjuöflunarmöguleikar, atvinnutækifæri, húsnæðiskostnaður almennt, framboð hentugs húsnæðis á svæðinu, atvinnuöryggi og framhaldsskólamál. Á hinum enda listans eru þau atriði sem litla óánægju vekja, og þar eru áberandi margir þættir opinberrar þjónustu, veðurfar og umhverfisskilyrði.

Tafla 2. Viðhorf íbúa til búsetuskilyrða á hættusvæðunum á landsbyggðinni. Það sem flestir eru óánægðir með.
% íbúa sem segjast
óánægðir með
viðkomandi þátt
Húshitunarkostnaður 78
Verðlag og verslunaraðstæður 69
Lagning og viðhald vega 58
Tekjuöflunarmöguleikar 52
Atvinnutækifæri 49
Húsnæðiskostnaður almennt 49
Framboð hentugs húsnæðis 45
Atvinnuöryggi 43
Framhaldsskólamál 43
Aðstaða til afþreyingar 38
Vöruúrval 37
Skemmtanalíf 37
Menningarlíf 35
Hætta vegna náttúruhamfara 34
Þjónustuúrval 32
Ruðningur vega á vetrum 29
Aðstaða til íþróttaiðkunar 28
Flugsamgöngur 27
Dagvistunarmál 24
Heilbrigðisþjónusta 22
Veðurfar í byggðarlaginu 21
Grunnskólamál 20
Þjónusta við aldraða 14
Hætta af völdum umferðar og ofbeldis 8
Heimild: Landshlutakönnun búsetuskilyrða, vorið 1997

    Húshitunarkostnaðurinn er beint kjaraatriði fyrir almenning, en eins og fram kemur í annarri greinargerð, 2 þá greiða íbúar þeirra svæða sem ekki njóta jarðhitaveitna allt að tvöfaldan húshitunarkostnað á við það sem tíðkast á höfuðborgarsvæðinu. Meðalhúshitunarkostnaður á „köldu svæðunum“ er nú nærri heilum mánaðarlaunum verkamanns á einu ári.
    Annað mesta umkvörtunarefnið, verðlag og verslunaraðstæður, tengist auðvitað aðgengi að verslunarþjónustu sem erfitt er að veita svo fullnægjandi teljist nema í stærri þéttbýliskjörnum. Síðan koma atriði tengd atvinnumálum og svo fleiri atriði tengd húsnæðisaðstæðum. Loks eru margir sem kvarta undan aðgengi að framhaldsskólanámi, sem eðlilega er takmarkað á umræddum svæðum.“
    Þrátt fyrir að verðlag sé annað mesta umkvörtunarefni fólks, samanber það sem fram kemur hér að framan, er jöfnun verðlags ekki meðal þeirra atriða sem talin eru upp í texta umræddrar þingsályktunar.
    Mikilvægt er að rannsaka ofan í kjölinn þær ástæður sem liggja að baki mismunandi vöruverði eftir landshlutum þannig að unnt sé grípa til viðeigandi ráðstafanna til að jafna muninn. Jöfnun lífskjara að þessu leyti verður vera meðal forgangsverkefna ef árangur á að nást í byggðamálum.
    Ríkisvaldinu ber skylda til að tryggja að allir landsmenn sitji við sama borð þegar kemur að setningu laga og reglna í samfélaginu. Fullyrða má að þungaskattskerfið sem við búum við sé þess eðlis að það komi harðar niður á landsbyggðarbúum en íbúum höfuðborgarsvæðisins. Nú er svo komið að langstærstum hluta innfluttra vara er skipað upp í Reykjavík eða nágrenni hennar og þaðan er vörunum dreift út um landið með vöruflutningabifreiðum. Þungaskattur leggst á þessa flutninga og því lengra sem ekið er með vöru því hærri verður þungaskatturinn. Skatturinn kemur þannig fram í hærri flutningskostnaði sem aftur kemur fram í hærra vöruverði til viðkomandi neytenda.
    Nauðsynlegt er að bregðast við þessu og því er lagt til að nefndin kanni sérstaklega áhrif þungaskatts á vöruverð og hvaða áhrif breytingar undanfarinna ára á þungaskatti hafa haft á vöruverð á landsbyggðinni en ætla má að áhrif hans hafi aukist hin seinni ár, sérstaklega eftir að afsláttarkerfi þungaskatts var fellt niður.
    Lagt er til að nefndinni verði falið að gera tillögur sem miði að því að draga úr áhrifum þungaskatts á vöruverð á landsbyggðinni. Benda má á að í núgildandi lögum um fjáröflun til vegagerðar er veittur afsláttur af þungaskatti af akstri almenningsvagna í áætlunarferðum og eins njóta bændur afsláttar. Í lögunum er jafnframt kveðið á um að þeir sem noti innlenda orkugjafa í tilraunaskyni skuli greiða 50% lægri þungaskatt. Af þessu má sjá að þungaskatturinn er bæði notaður til jöfnunar og sem stýritæki.
    Í Noregi hafa menn farið þá leið að skipta landinu niður í svæði og er mismunandi skattheimta á milli svæðanna réttlætt út frá byggðasjónarmiðum. Rétt er að nefndin skoði ítarlega hvernig þetta er framkvæmt í Noregi.
Neðanmálsgrein: 1
    1 „Byggðir sem höllum fæti standa“ (Byggðastofnun, október 1997).
Neðanmálsgrein: 2
    2 Stefán Ólafsson, „Tengsl viðhorfa til húshitunarkostnaðar og aðgangs að hitaveitu“ (greinargerð fyrir stjórn Byggðastofnunar, janúar 1998).