Ferill 659. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1037  —  659. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðild að alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafnar fiskiskips.

(Lögð fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



    Alþingi ályktar að heimila að Ísland gerist aðili að alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafnar fiskiskips, 1995 sem gerð var í Lundúnum 7. júlí 1995.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til að Ísland gerist aðili að alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafnar fiskiskips, 1995.
    Samþykktin var gerð á ráðstefnu Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) í Lundúnum 26. júní – 7. júlí 1995 og tóku 74 ríki þátt í ráðstefnunni. Samþykktin hefur að geyma ákvæði um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður skipstjóra, stýrimanna, vélstjóra og fjarskiptamanna um borð í fiskiskipum sem eru 24 metrar að lengd eða lengri. Samþykktin er fyrsta tilraunin á alþjóðavettvangi til að samræma bindandi lágmarksviðmiðanir um menntun og þjálfun áhafna fiskiskipa. Samþykktin öðlast gildi 12 mánuðum eftir að 15 ríki fullgilda hana. Hinn 26. mars 2001 höfðu tvö ríki fullgilt samþykktina, Danmörk og Rússland. Á næstunni áformar IMO að gera sérstakt átak í því að fá aðildarríki sín til að fullgilda samþykktina.
    Hinn 5. júní 2000 skipaði samgönguráðherra nefnd með fulltrúum hagsmunaaðila í sjávarútvegi og siglingum sem var falið að gera tillögur til ráðuneytisins um frumvarp til laga um áhafnir íslenskra skipa. Nefndin skilaði áliti sínu 8. nóvember 2000 með bréfi formanns nefndarinnar til samgönguráðherra. Í því fólust tillögur um frumvarp til laga um áhafnir íslenskra skipa, ásamt tillögu um að Ísland fullgilti samþykktina. Á grundvelli tillagna nefndarinnar hefur samgönguráðherra lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um áhafnir íslenskra skipa. Það frumvarp byggist á því að Ísland gerist aðili að samþykktinni og taka ákvæði frumvarpsins mið af ákvæðum hennar.
    Í I. kafla viðauka við samþykktina er að finna skilgreiningar á ýmsum hugtökum auk ákvæða um gildissvið, tilhögun eftirlits, miðlun upplýsinga, útgáfu skírteina, áritanir skírteina, lagaskil, undanþágur og lágmarkskröfur.
    Í II. kafla viðaukans eru ákvæði um lögboðnar lágmarkskröfur sem fullnægja ber til að öðlast réttindi skipstjóra og yfirmanna siglingavakta á fiskiskipum, þ.m.t. um viðeigandi skírteini, aldur, heilbrigði, siglingatíma, nám og próf. Ítarleg ákvæði eru um námsskrá sem skal vera undirstaða prófs til tiltekinna atvinnuréttinda skipstjórnarmanna.
    Í II. kafla viðaukans eru jafnframt ákvæði um lögboðnar lágmarkskröfur sem fullnægja ber til að öðlast réttindi yfirvélstjóra og 2. vélstjóra á fiskiskipum með 750 kW aðalvél eða stærri, þ.m.t. ákvæði um viðeigandi skírteini, aldur, heilbrigði, siglingatíma, nám og próf. Ítarleg ákvæði er jafnframt að finna um námsskrá sem skal vera undirstaða prófs til tiltekinna atvinnuréttinda yfirvélstjóra og 2. vélstjóra.
    Í 6. reglu í II. kafla eru ákvæði um lágmarkskröfur sem fullnægja ber til að öðlast réttindi fjarskiptamanns um borð í fiskiskipum, þ.m.t. um viðeigandi skírteini, aldur, heilbrigði, siglingatíma, nám og próf. Ítarleg ákvæði eru um námsskrá sem skal vera undirstaða prófs til að gegna stöðu fjarskiptamanns um borð í fiskiskipi.
    Í 7. og 8. reglu í II. kafla eru ákvæði um lágmarkskröfur sem fullnægja ber til að tryggja áframhaldandi hæfni og endurmenntun skipstjóra, yfirmanna siglingavakta, vélstjóra og fjarskiptamanna.
    Í III. kafla viðaukans eru ákvæði um grunnmenntun og þjálfun áhafnar fiskiskips.
    Í IV. kafla viðaukans eru ákvæði um grundvallaratriði sem fylgja ber við siglingavakt um borð í fiskiskipum.
    Í viðbæti við samþykktina er að finna ýmis form skírteina, m.a. form fyrir alþjóðlegt skírteini til starfa á fiskiskipi sem gefið er út til ríkisborgara útgáfuríkis og áritun sem staðfestir viðurkenningu á skírteini erlends ríkisborgara.



Fylgiskjal.


ALÞJÓÐASAMÞYKKT
um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafnar fiskiskips, 1995



AÐILAR AÐ ÞESSARI ALÞJÓÐASAMÞYKKT,

VÍSA TIL alþjóðasamþykktar um menntun, þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna frá 1978 (hér eftir nefnd „alþjóðasamþykktin frá 1978“),


ÆSKJA þess að efla frekar öryggi mannslífa og eigna á sjó og varnir gegn mengun sjávar með því að samþykkja í almennum samningi alþjóðastaðla um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafna fiskiskipa,


TELJA að þessu marki megi best ná með því að gera alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafnar fiskiskips, hér eftir nefnd „samþykktin“,


HAFA ORÐIÐ ÁSÁTTIR um eftirfarandi:

1. gr.
Almennar skyldur.

    1. Aðilar taka í gildi ákvæði alþjóðasamþykktarinnar og viðaukans við hana sem er óaðskiljanlegur hluti samþykktarinnar. Sérhver tilvísun til samþykktarinnar er jafnframt tilvísun til viðaukans.

    2. Aðilar láta öll lög, tilskipanir, fyrirmæli og reglur taka gildi og framkvæma allt það annað sem nauðsynlegt er til að samþykktin fái fullt og raunverulegt gildi og tryggja, með hliðsjón af öryggi mannslífa og eigna á sjó og vörnum gegn mengun sjávar, að sjómenn á fiskiskipum sem sigla á opnu hafi séu hæfir til starfa sinna.


2. gr.
Skilgreiningar.

    Í þessari alþjóðasamþykkt, nema annað sé sérstaklega tekið fram, merkir:
     .1      Aðili, aðildarríki þar sem samþykktin hefur öðlast gildi.
     .2      Stjórnvöld, ríkisstjórn aðildarríkis sem heimilar skipi að sigla undir fána sínum.

     .3      Skírteini, skjal sem er í gildi, hvaða nafni sem það nefnist, gefið út eða viðurkennt í samræmi við ákvæði samþykktarinnar sem heimilar skírteinishafa að gegna þeim störfum sem tilgreind eru í skírteininu eða heimilað er samkvæmt reglum viðkomandi lands.
     .4      Skírteinishafi, réttmætan handhafa skírteinis.

     .5      Stofnunin, Alþjóðasiglingamálastofnunina.

     .6      Framkvæmdastjóri, framkvæmdastjóra stofnunarinnar.
     .7      Fiskiskip eða skip, hvert það skip sem notað er í atvinnuskyni til að veiða fisk eða aðrar lífrænar auðlindir hafsins.
     .8      Fiskiskip sem siglir á opnu hafi, fiskiskip önnur en þau sem sigla eingöngu á innri vatnaleiðum, á svæðum sem njóta skjóls af landi eða á svæðum þar sem hafnarreglur gilda.


3. gr.
Gildissvið.

    Samþykktin skal ná til áhafna fiskiskipa sem sigla á opnu hafi og eiga rétt á að sigla undir fána aðila.

4. gr.
Miðlun upplýsinga.

    Hver aðili skal senda framkvæmdastjóranum eftirfarandi upplýsingar:
     .1      skýrslu um ráðstafanir sem hann hefur gert til að gefa ákvæðum samþykktarinnar fullt gildi, þ.m.t. sýnishorn af skírteinum gefnum út samkvæmt samþykktinni; og

     .2      aðrar upplýsingar sem tilgreindar eru í reglu I/5.

5. gr.
Aðrir samningar og túlkun.

    1. Allir fyrri samningar, samþykktir og ráðstafanir um menntun, þjálfun, skírteini og vaktstöðu áhafna fiskiskipa sem í gildi eru milli aðila skulu halda fullu gildi út samningstíma sinn hvað varðar:


     .1      áhafnir fiskiskipa sem samþykkt þessi nær ekki til; og
     .2      áhafnir fiskiskipa sem samþykkt þessi nær til hvað varðar mál sem samþykktin hefur ekki að geyma nein sérstök ákvæði um.
    2. Að því marki sem þessir samningar, samþykktir eða ráðstafanir eru í ósamræmi við ákvæði samþykktarinnar skulu aðilar endurskoða skuldbindingar sínar samkvæmt þessum samningum, samþykktum og ráðstöfunum í þeim tilgangi að tryggja að ekki verði ósamræmi milli þessara skuldbindinga og ákvæða samþykktarinnar.
    3. Öll atriði sem engin sérstök ákvæði samþykktarinnar fjalla um eru áfram háð lagasetningu aðila.


6. gr.
Skírteini.

    Skírteini til áhafna fiskiskipa skulu gefin út í samræmi við viðaukann með samþykktinni.


7. gr.
Ákvæði einstakra ríkja.

    1. Hver aðili skal koma á fót ferli hlutlausrar rannsóknar um hverja tilkynnta vanhæfni, athafnir eða vanrækslu handhafa skírteina sem gefin eru út af þeim aðila og varðar skyldur þeirra samkvæmt skírteinunum og ógnað getur með beinum hætti öryggi mannslífa eða eigna á sjó eða umhverfis og um afturköllun, brottfall og ógildingu skírteina af þeim ástæðum og til að koma í veg fyrir slíkt.


    2. Hver aðili skal mæla fyrir um refsingar eða agaráðstafanir þegar ákvæðum innlendra laga samkvæmt samþykktinni er ekki fylgt af skipum sem sigla undir fána þess aðila eða af áhöfnum fiskiskipa sem hafa skírteini gefin út af þeim aðila.

    3. Sérstaklega skal mæla fyrir um slíkar refsingar eða agaráðstafanir og þeim haldið fram í tilfellum þegar:
     .1      eigandi, umboðsmaður eiganda eða skipstjóri hefur ráðið til starfa einstakling sem ekki hefur skírteini sem krafist er samkvæmt þessari samþykkt;
     .2      reglur þessar áskilja að til þess að sinna eða gegna ákveðinni stöðu skuli viðkomandi hafa til þess viðeigandi skírteini, en skipstjóri hefur leyft einstaklingi að gegna stöðunni sem hvorki hefur til þess viðeigandi skírteini eða undanþágu; og
     .3      einstaklingur hefur með svikum eða fölsuðum skjölum fengið starf þar sem reglur þessar krefjast að því megi einungis sinna einstaklingur sem hefur til þess viðeigandi skírteini eða undanþágu.
    4. Aðili, þar sem eigandi, umboðsmaður eiganda eða sérhver einstaklingur sem skýrar ástæður eru til að ætla að sé ábyrgur fyrir eða sé kunnugt um hvað það sem sýnist vera í bága við samþykktina það sem tilgreint er í grein 3, skal láta í té allt mögulegt samstarf til sérhvers annars aðila og tilkynna um áform hans um aðgerðir.


8. gr.
Eftirlit.

    1. Meðan fiskiskip eru í höfn annars aðila eru þau háð eftirliti manna sem sá aðili hefur veitt umboð til þess að sannreyna hvort allir sjómenn, sem skulu hafa skírteini samkvæmt ákvæðum samþykktarinnar, hafi þau eða viðeigandi undanþágur.

    2. Þegar í ljós koma einhverjar brotalamir sem vísað er til í grein 3 í reglu I/4, að því leyti sem þær eru hættulegar mönnum, eignum eða umhverfi, skal aðili sem fer með eftirlitið gera ráðstafanir til að tryggja að skipið sigli ekki á ný nema eftir að eftirlitsákvæðum þessum hefur verið fullnægt að því marki að ekki sé lengur hætta á ferð. Strax skal tilkynna framkvæmdastjóranum og stjórnvöldum um ástæðurnar fyrir þessum aðgerðum.
    3. Við framkvæmd eftirlits skal:
     .1      allt gert til þess að forðast að skipi sé haldið eða það tafið að óþörfu. Sé skipi haldið eða það tafið að óþörfu á það rétt til skaðabóta fyrir tjónið sem það verður fyrir vegna þessa; og

     .2      ekki gera minni kröfur til áhafna erlendra fiskiskipa en til áhafna skipa sem sigla undir fána hafnarríkisins.

    4. Þessari grein skal beitt eins og nauðsyn krefur til þess að tryggja að skip sem siglir undir fána ríkis sem ekki er aðili hljóti ekki hagkvæmari afgreiðslu en skip sem siglir undir fána aðila.


9. gr.
Efling tæknisamvinnu.

    1. Aðilar að samþykktinni skulu í samráði við og með aðstoð stofnunarinnar efla stuðning sinn við þau ríki sem óska eftir tæknilegri aðstoð við:

     .1      menntun og þjálfun starfsfólks við stjórnunar- og tæknistörf;
     .2      að setja á stofn mennta- og þjálfunarstofnanir fyrir áhafnir fiskiskipa;
     .3      að útvega tæki og aðstöðu fyrir mennta- og þjálfunarstofnanir;
     .4      að semja viðeigandi námsskrá sem einnig nær yfir verklega þjálfun á fiskiskipum sem sigla á opnu hafi; og
     .5      að styrkja aðrar gerðir og ráðstafanir sem auka hæfni áhafna fiskiskipa,

helst í eigin landi eða á nálægum svæðum til þess að ná tilgangi og markmiði samþykktarinnar og um leið taka sérstakt tillit til þarfa þróunarríkjanna í þessu efni.
    2. Fyrir sitt leyti skal stofnunin sækjast eftir að ná fyrrgreindum markmiðum, eins og við á, í samráði eða samstarfi við aðrar alþjóðastofnanir, sérstaklega Alþjóðavinnumálastofnunina (ILO) og Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO).


10. gr.
Breytingar.

    1. Samþykktinni má breyta á einhvern þann hátt sem segir í grein þessari.
    2. Breyting gerð eftir athugun á samþykktinni hjá stofnuninni:
     .1      Sérhverja breytingartillögu skal senda framkvæmdastjóranum sem skal síðan dreifa henni til allra aðila að stofnuninni, til allra aðila og til framkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) og Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) a.m.k. sex mánuðum áður en tillagan er tekin til umfjöllunar.

     .2      Sérhverri breytingartillögu sem lögð er fram og dreift sem að ofan greinir skal vísað til siglingaöryggisnefndar stofnunarinnar til umfjöllunar.
     .3      Aðilar, hvort sem þeir eru aðilar að stofnuninni eða ekki, skulu eiga rétt á því að taka þátt í störfum siglingaöryggisnefndar við umfjöllun og samþykkt breytingartillagna.

     .4      Breytingartillögu skal samþykkja með tveimur þriðju hlutum atkvæða aðila sem viðstaddir eru og atkvæði greiða í siglingaöryggisnefnd, stækkaðri samkvæmt grein 2.3 (hér eftir nefnd „stækkuð siglingaöryggisnefnd“), enda sé a.m.k. þriðjungur aðila viðstaddur atkvæðagreiðsluna.

     .5      Framkvæmdastjórinn skal senda öllum aðilum breytingar sem samþykktar eru samkvæmt grein 2.4.
     .6      Breyting á grein telst hafa öðlast staðfestingu þann dag sem tveir þriðju aðilanna hafa staðfest hana.
     .7      Breyting á viðaukanum eða á viðbætinum við hann telst hafa öðlast staðfestingu:

           .7.1      þegar liðin eru tvö ár frá þeim degi er hún var samþykkt; eða
           .7.2      við lok annars tímabils sem skal ekki vera styttra en eitt ár ef svo er ákveðið þegar hún er samþykkt með tveimur þriðju hluta aðila sem viðstaddir eru og atkvæði greiða í stækkaðri siglingaöryggisnefnd.

        Samt sem áður telst breytingin ekki hafa öðlast staðfestingu ef, innan hins tiltekna tímabils, meira en þriðjungur aðilanna tilkynnir framkvæmdastjóranum að hann sé henni mótfallinn.
     .8      Breyting á grein skal öðlast gildi fyrir þá aðila sem hafa staðfest hana sex mánuðum eftir þann dag sem hún er talin hafa öðlast staðfestingu og fyrir hvern aðila sem staðfestir hana síðar sex mánuðum eftir þann dag er sá aðili staðfesti hana.

     .9      Breyting á viðaukanum og á viðbætinum við viðaukann skal öðlast gildi fyrir alla aðila aðra en þá sem hafa mótmælt breytingunni samkvæmt grein 2.7 og ekki afturkallað mótmælin, sex mánuðum eftir þann dag sem hún er talin hafa öðlast staðfestingu. Hins vegar getur sérhver aðili tilkynnt framkvæmdastjóranum, fyrir hinn ákveðna gildistökudag, að hann undanskilji sig því að láta breytinguna öðlast gildi, þó ekki lengur en eitt ár frá gildistökudegi, nema lengri tími sé ákveðinn af tveimur þriðju hlutum atkvæða aðila sem viðstaddir eru og atkvæði greiða í stækkaðri siglingaöryggisnefnd þegar breytingartillagan er samþykkt.



    3. Breyting gerð á ráðstefnu:
     .1      Að ósk aðila og með stuðningi a.m.k. þriðjungs aðilanna skal stofnunin, í samstarfi eða samráði við framkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna, eftir því sem við á, boða til ráðstefnu aðilanna til þess að fjalla um breytingar á þessari samþykkt.

     .2      Hverja breytingu, sem samþykkt er á slíkri ráðstefnu af tveimur þriðju hlutum aðila sem viðstaddir eru og atkvæði greiða, skal framkvæmdastjórinn senda öllum aðilum til staðfestingar.
     .3      Ákveði ráðstefnan ekki annað telst breyting staðfest og hafa öðlast gildi samkvæmt þeirri málsmeðferð sem tilgreind er í grein 2.6 og 2.8 eða 2.7 og 2.9, eftir því sem við á, þó að því tilskildu að þar sem rætt er um stækkaða siglingaöryggisnefnd skuli átt við ráðstefnuna.


    4. Sérhverja yfirlýsingu um staðfestingu eða mótmæli við breytingu eða tilkynningu, sem gerð er samkvæmt grein 2.9, skal senda á skriflegan hátt til framkvæmdastjórans sem skal tilkynna öllum aðilum um hverja slíka tilkynningu og hvaða dag hún var móttekin.
    5. Framkvæmdastjórinn skal tilkynna öllum aðilum um sérhverja breytingu sem öðlast gildi, svo og hvaða dag hún öðlast gildi.


11. gr.
Undirritun, fullgilding, staðfesting, samþykki og aðild.

    1. Samþykktin skal liggja frammi til undirritunar í aðalstöðvum stofnunarinnar frá 1. janúar 1996 til 30. september 1996, en eftir þann tíma skal hún vera opin til aðildar. Öll ríki geta orðið aðilar með því að:

     .1      undirrita án fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki; eða
     .2      undirrita með fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki, sem síðar verði fullgilt, staðfest eða samþykkt; eða
     .3      gerast aðili.
    2. Fullgilding, staðfesting, samþykki eða aðild skal gerð með því að afhenda framkvæmdastjóra stofnunarinnar skjal þess efnis.

12. gr.
Gildistaka.

    1. Samþykktin skal öðlast gildi tólf mánuðum frá þeim degi er eigi færri en fimmtán ríki hafa annaðhvort undirritað hana án fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki, eða afhent nauðsynleg gögn um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild í samræmi við 11. gr.
    2. Að því er varðar ríki sem afhenda skjal um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild að þessari samþykkt eftir að skilyrðum fyrir gildistöku hefur verið fullnægt en fyrir gildistökuna skal fullgildingin, staðfestingin, samþykkið eða aðildin öðlast gildi á gildisdegi þessarar samþykktar eða þremur mánuðum frá þeim degi sem skjalið er afhent eftir því hvor dagsetningin kemur síðar.

    3. Að því er varðar ríki sem afhenda skjal um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild eftir að þessi samþykkt öðlast gildi skal hún öðlast gildi þremur mánuðum frá þeim degi er skjalið er afhent.

    4. Þegar breyting við þessa samþykkt telst hafa öðlast staðfestingu skv. 10. gr. skal sérhvert skjal um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild, sem afhent er, eiga við samþykktina með áorðnum breytingum.

13. gr.
Uppsögn.

    1. Sérhver aðili getur sagt samþykktinni upp hvenær sem er að liðnum fimm árum frá þeim degi sem hún öðlast gildi gagnvart viðkomandi aðila.

    2. Uppsögn á sér stað með skriflegri tilkynningu til framkvæmdastjórans.
    3. Uppsögn skal öðlast gildi tólf mánuðum eftir að tilkynningin um uppsögn berst framkvæmdastjóranum eða að liðnum lengri tíma sem kann að vera tilgreindur í tilkynningunni.

14. gr.
Vörsluaðili.

    1. Þessari samþykkt skal komið í vörslu framkvæmdastjóra stofnunarinnar (hér eftir nefndur „vörsluaðilinn“).
    2. Vörsluaðilinn skal:
     .1      tilkynna ríkisstjórnum allra ríkja sem hafa undirritað þessa samþykkt eða gerst aðilar að henni um:
           .1.1      hverja nýja undirskrift eða afhendingu skjals um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild ásamt hvaða dag það átti sér stað;
           .1.2      þann dag er þessi samþykkt öðlast gildi;

           .1.3      afhendingu sérhvers skjals um uppsögn á þessari samþykkt ásamt móttökudegi hennar og þeim degi þegar uppsögnin öðlast gildi; og

     .2      senda staðfest rétt afrit þessarar samþykktar til ríkisstjórna allra ríkja sem hafa skrifað undir þessa samþykkt eða gerst aðilar að henni.

    3. Um leið og samþykkt þessi öðlast gildi skal vörsluaðilinn senda staðfest rétt afrit hennar til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til skrásetningar og birtingar í samræmi við 102. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna.


15. gr.
Tungumál.

    Þessi samþykkt er gerð í einu eintaki á arabísku, ensku, frönsku, kínversku, rússnesku og spænsku og eru allir textarnir jafngildir.


ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirritaðir, sem til þess hafa umboð ríkisstjórna sinna, undirritað alþjóðasamþykkt þessa.
GJÖRT Í LUNDÚNUM 7. júlí 1995.


VIÐAUKI

I. KAFLI
Almenn ákvæði.

Regla 1
Skilgreiningar.

    Í þessum viðauka hafa eftirfarandi hugtök merkingu sem hér segir:
    1. Reglur, reglur sem eru í viðaukanum við samþykktina.
    2. Samþykkt, samþykkt af aðila í samræmi við reglurnar.
    3. Skipstjóri, sá sem fer með æðsta vald á fiskiskipi.
    4. Yfirmaður, einhver skipverja, annar en skipstjóri, sem skilgreindur er sem slíkur að landslögum eða reglugerðum eða ef slíku er ekki til að dreifa, af heildarsamningum eða venjum.
    5. Yfirmaður siglingavaktar, yfirmaður sem uppfyllir kröfur samkvæmt reglu II/2 eða II/4 í þessari samþykkt.
    6. Vélstjóri, yfirmaður sem uppfyllir kröfur samkvæmt reglu II/5 í samþykkt þessari.
    7. Yfirvélstjóri, æðsti vélstjóri sem ber ábyrgð á vélum sem knýja skipið og rekstri og viðhaldi vél- og rafbúnaðar skipsins.

    8. 2. vélstjóri, sá vélstjóri sem gengur næst yfirvélstjóra að völdum og ber, í forföllum yfirvélstjóra, ábyrgð á vélum sem knýja skipið og rekstri og viðhaldi vél- og rafbúnaðar skipsins.



    9. Fjarskiptamaður, sá sem hefur viðeigandi skírteini gefið út og viðurkennt af stjórnvaldi samkvæmt ákvæðum alþjóðaradíóreglugerðarinnar.

    10. Alþjóðaradíóreglugerðin, reglur um fjarskipti sem eru viðauki við, eða sem taldar eru viðauki við, nýlegustu alþjóðafjarskiptasamþykktina sem er í gildi á hverjum tíma.
    11. Alþjóðasamþykktin frá 1978, alþjóðasamþykktin um menntun, þjálfun, skírteini og vaktstöðu sjómanna frá 1978, með síðari breytingum.

    12. Torremolinos-bókunin frá 1993, Torremolinos-bókunina frá 1993 sem samþykkt var í framhaldi af Torremolinos-alþjóðasamþykktinni um öryggi fiskiskipa frá 1977.
    13. Vélarafl, heildarhámark samfellds útafls allra aðalvéla skipsins, mælt í kílówöttum, sem fram kemur í skráningarskírteini skipsins eða öðrum opinberum skjölum.

    14. Takmarkað hafsvæði, svæði nálægt aðila, eins og skilgreint er af stjórnvöldum hans, þar sem sérstakar öryggisreglur eiga við sem gera kleift að gera vægari kröfur um hæfni og skírteini skipstjóra og yfirmanna á fiskiskipum en þeirra sem starfa utan þess svæðis. Þegar ákveðin eru takmörk þessa svæðis skulu stjórnvöld hafa til hliðsjónar leiðbeiningar stofnunarinnar.

    15. Ótakmarkað hafsvæði, svæði utan takmarkaðs hafsvæðis.
    16. Lengdin (L), skal vera 96% af mestu lengd í vatnslínu við 85% af minnstu mótuðu dýpt, mældri frá kjöllínu (spónlínu), eða sem lengdin frá fremri brún á stefni í miðju stýrisáss, í sömu vatnslínu, ef þessi lengd er lengri. Í skipum hönnuðum með kjölhalla skal vatnslínan, sem lengdin er mæld á, vera samsíða hönnunarvatnslínunni.

    17. Mótaða dýptin, lóðrétta fjarlægðin mæld frá kjöllínunni (spónfarslínunni) að efri brún á þilfarsbita aðalþilfarsins út við síðu.

Regla 2
Gildissvið.

    Stjórnvöld aðila geta ákveðið, ef þau telja ástæðulaust og óeðlilegt að uppfylla allar kröfur reglna II/3, II/4 og II/5 og kröfur um enskukunnáttu áhafna fiskiskipa 45 metra og styttri sem sigla aðeins frá eigin höfnum og stunda veiðar innan takmarkaðs hafsvæðis, að reglur þessar, að hluta til eða að öllu leyti, taki ekki til áhafna þessara skipa, án frávika frá meginreglum samþykktarinnar um öryggi. Í slíkum tilfellum skulu viðeigandi stjórnvöld upplýsa framkvæmdastjórann nákvæmlega um leiðir sem þau hafa valið með tilliti til menntunar og þjálfunar og skírteina áhafna slíkra skipa.



Regla 3
Skírteini og áritanir.

    1. Skírteini til áhafna fiskiskipa skulu aðeins gefin út ef uppfyllt eru skilyrði um siglingatíma, aldur, heilbrigði, menntun, þjálfun, hæfni og próf í samræmi við reglur samkvæmt samþykktinni.
    2. Skírteini gefið út af aðila í samræmi við 1. mgr. skal áritað af þeim aðila til að votta útgáfu skírteinisins á því formi sem fram kemur í viðbæti 1 eða viðbæti 2.
    3. Skírteini og áritanir skulu gefin út á hinu opinbera tungumáli eða á tungumálum þess lands sem gefur þau út. Ef tungumálið sem notað er er ekki enska skal textinn hafa að geyma þýðingu yfir á það tungumál.
    4. Hvað varðar fjarskiptamann geta aðilar:
     .1      gert kröfu um viðbótarþekkingu sem krafist er samkvæmt reglu II/6 sem hluta af prófum til útgáfu skírteinis samkvæmt alþjóðaradíóreglugerðinni; eða
     .2      gefið út sérstakt skírteini sem ber með sér að handhafi þess hafi þá viðbótarþekkingu sem krafist er samkvæmt reglu II/6.
    5. Stjórnvöld, sem hafa viðurkennt skírteini sem gefið er út af öðrum aðila eða undir hans eftirliti í samræmi við reglu 7, skulu gefa út áritun til að votta viðurkenninguna á formi því sem fram kemur í viðbæti 3.
    6. Áritunin skal falla úr gildi um leið og gildistími skírteinis sem áritað var rennur út, það er afturkallað, fellt brott eða fellt niður af þeim aðila sem gaf það út og aldrei síðar en fimm árum frá því að það var gefið út.
    7. Hvert viðeigandi skírteini sem gefið var út samkvæmt ákvæðum alþjóðasamþykktarinnar frá 1978 og handhafa þess heimilað að starfa sem yfirvélstjóri, vélstjóri eða fjarskiptamaður skal með hliðsjón af tilgangi greinar 1 talið samsvarandi skírteini á fiskiskipum.
    8. Með hliðsjón af breytilegum formum skv. 1., 2. eða 3. viðbæti geta stjórnvöld notað önnur form en þau sem þar eru lögð fram ef slík form hafa að geyma a.m.k. umbeðnar upplýsingar og þau eru skrifuð með rómverskum bókstöfum eða arabískum tölustöfum.


Regla 4
Tilhögun eftirlits.

    1. Eftirlit framkvæmt af starfsmanni sem hefur til þess heimild skv. 8. gr. er háð eftirfarandi takmörkunum:
     .1      staðfestingu þess að öll áhöfn fiskiskips, sem ber samkvæmt samþykktinni að hafa skírteini, hafi gild skírteini eða gildar undanþágur. Slík skírteini skulu viðurkennd nema skýrar ástæður séu til að ætla að skírteinið hafi verið fengið með sviksamlegum hætti eða að handhafi skírteinisins sé ekki sá einstaklingur sem skírteinið var upphaflega gefið út til; og

     .2      mati á getu áhafnar fiskiskipsins til að fullnægja kröfum um vaktstöðu samkvæmt samþykktinni ef skýrar ástæður eru til að ætla að þeim kröfum sé ekki fullnægt af því að eftirfarandi hefur gerst:

           .2.1      skipið hafi lent í árekstri, tekið niðri eða strandað; eða
           .2.2      efni, sem eru ólögleg samkvæmt alþjóðasamningum, hafi verið losuð úr skipinu meðan það var á siglingu, lá fyrir akkeri eða við bryggju; eða
           .2.3      skipinu hafi verið stjórnað á reikulan eða ótryggan hátt og ekki hafi verið fylgt reglum stofnunarinnar um bil á milli skipa eða öruggum siglingavenjum og siglingaleiðarmerkjum; eða
           .2.4      skipinu sé að öðru leyti siglt á þann hátt að valdið geti hættu fyrir menn, eignir eða umhverfi.
    2. Þegar í ljós koma skv. 1. mgr. skal starfsmaður sem fer með eftirlitið þegar upplýsa skipstjóra skipsins og stjórnvöld skriflega svo að gera megi viðeigandi ráðstafanir. Slíkar upplýsingar skulu greina nákvæmlega í hverju brotalamirnar eru fólgnar og ástæður þess að aðili telji að þessar brotalamir geti valdið mönnum, eignum eða umhverfi hættu.


    3. Brotalamir, sem telja má að valdið geti hættu fyrir menn, eignir og umhverfi, geta meðal annars verið eftirfarandi:
     .1      brugðist hafi að menn sem áttu að hafa skírteini hafi haft gild skírteini eða gilda undanþágu;
     .2      brugðist hafi að menn á vakt á stjórnpalli eða í vélarúmi hafi fullnægt þeim reglum sem skipinu voru settar af stjórnvöldum;
     .3      vantað hafi á vakt mann sem var hæfur til að stjórna nauðsynlegum tækjum til öruggrar siglingar og fjarskipta eða til að koma í veg fyrir mengun; eða
     .4      brugðist hafi að tryggt hafi verið að óþreyttir menn væru á fyrstu vakt í byrjun siglingar og síðan á þeim vöktum sem við tóku.

Regla 5
Miðlun upplýsinga.

    1. Framkvæmdastjóri skal, sé þess óskað, veita aðilum allar upplýsingar sem honum eru veittar á grundvelli 4. greinar.
    2. Aðili, sem veitir ekki upplýsingar sem veita skal á grundvelli 4. greinar innan 24 mánaða eftir að samþykktin tók gildi hjá aðila, getur ekki öðlast réttindi samkvæmt þessari samþykkt fyrr en framkvæmdastjórinn hefur fengið upplýsingarnar í hendur.

Regla 6
Útgáfa skírteina.

    1. Hver aðili ábyrgist að koma á fót og viðhalda áætlun um leiðbeiningar og verklega þjálfun sem nauðsynleg er til að uppfylla hæfniskröfur og að þeim sé reglulega viðhaldið til að tryggja áhrif þeirra.
    2. Hver aðili ábyrgist, eftir því sem hagkvæmt er, að halda skrá eða skrár yfir öll skírteini og áritanir samkvæmt reglu 3 og II/1 til II/6 sem gefin hafa verið út, felld úr gildi, endurnýjuð, tilkynnt glötuð, felld brott eða ógilt og undanþágur sem gefnar hafa verið út og gefa upplýsingar um stöðu slíkra skírteina, áritana og undanþágna þegar þess er óskað af öðrum aðila.


Regla 7
Viðurkenning skírteina.

    1. Hver stjórnvöld skulu, vegna viðurkenningar, tryggja, með áritun í samræmi við reglu 3, að skírteini sem gefið er út af öðrum aðila eða undir stjórn hans sé í samræmi við kröfur um hæfni, sem og um útgáfu og áritun af þeim aðila.

    2. Skírteini sem gefin eru út af ríki eða undir stjórn ríkis sem ekki er aðili að samþykktinni skulu ekki viðurkennd.
    3. Þrátt fyrir kröfur 1. mgr. í þessari reglu og 5. mgr. í reglu 3, geta stjórnvöld, ef aðstæður krefja, heimilað einstaklingi sem er handhafi viðeigandi og gilds skírteinis sem gefið er út af öðrum aðila og ekki er áritað skv. 5. mgr. í reglu 3, að starfa í allt að þrjá mánuði um borð í skipi sem siglir undir fána þeirra með því skilyrði að skjalfest sönnun liggi fyrir um að lögð hafi verið fram umsókn um áritun hjá stjórnvöldum.



Regla 8
Lagaskilaákvæði.

    1. Skírteini um hæfni til starfa eða þjónustu sem samþykktin krefst einnig skírteinis fyrir og sem gefið var út af aðila áður en samþykktin tók gildi hjá honum í samræmi við lög hans eða alþjóðaradíóreglugerðina skal áfram viðurkennt í gildi eftir að samþykktin hefur gengið í gildi hjá aðila.

    2. Eftir að samþykktin hefur tekið gildi hjá aðila, getur hann haldið áfram að gefa út í nokkurn tíma skírteini um hæfni í samræmi við fyrri starfsvenjur en þó ekki lengur en í fimm ár. Slík skírteini skulu viðurkennd í gildi með hliðsjón af tilgangi samþykktarinnar. Á meðan þessum lagaskilatíma stendur skal aðeins gefa út þessi skírteini til manna sem hófu störf sín á sjó áður en samþykktin tók gildi hjá þeim til tiltekinna starfa á skipum sem skírteinin vísa til. Aðili skal tryggja að umsækjendur um skírteini gangist undir próf og fái skírteini í samræmi við samþykktina.

    3. Aðila er heimilt innan tveggja ára frá gildistöku samþykktarinnar hjá honum að gefa út skírteini til áhafna fiskiskipa sem hvorki eru handhafar skírteinis samkvæmt samþykktinni né skírteinis um hæfni gefið út samkvæmt lögum aðilans fyrir gildistöku samþykktarinnar hjá honum, en hafa þó:

     .1      unnið í starfi sem þeir sækja um skírteini fyrir, þó ekki skemur en í þrjú ár til sjós á síðastliðnum sjö árum fyrir gildistöku samþykktarinnar hjá aðila;

     .2      sýnt fram á að þeir hafi á fullnægjandi hátt leyst störf sín af hendi; og
     .3      fullnægi kröfum aðila um heilbrigði, þ.m.t. sjón og heyrn, með hliðsjón af aldri umsækjanda þegar umsókn er lögð fram.
Með hliðsjón af tilgangi samþykktarinnar skal telja skírteini sem gefið er út samkvæmt þessari grein jafngilt skírteini sem gefið er út samkvæmt samþykktinni.

Regla 9
Undanþágur.

    1. Þegar brýna nauðsyn ber til geta stjórnvöld, ef þau telja að það valdi mönnum ekki neinni hættu, eignum eða umhverfi, veitt tilteknum sjómanni undanþágu til að vinna á ákveðnu fiskiskipi í ákveðinn tíma, sem hann hefur ekki tilskilin réttindi fyrir, en þó ekki lengur en í sex mánuði, nema til starfa fjarskiptamanns, eftir því sem viðkomandi alþjóðaradíóreglugerð heimilar, að því tilskildu að sá sem undanþáguna fær sé fullhæfur að mati stjórnvalda til þess að annast þetta starf á öruggan hátt að mati stjórnvalda.


    2. Undanþágu fyrir stöðu skal aðeins veita manni sem hefur full réttindi fyrir næstu lægri stöðu. Þar sem samþykktin krefst ekki skírteina fyrir næstu lægri stöðu má veita manni undanþágu sem hefur hæfileika og reynslu að mati stjórnvalda sem augljóslega jafngilda þeim skilyrðum sem sett eru fyrir veitingu stöðunnar, að því tilskildu þó að ef umræddur maður hefur engin tilskilin réttindi skal hann skyldur til þess að standast próf sem stjórnvöld samþykkja til þess að sýna fram á að undanþáguna megi veita að skaðlausu. Að auki skulu stjórnvöld tryggja að stöðuna fái, svo fljótt sem auðið er, maður með tilskilin réttindi.


    3. Hver aðili skal svo fljótt sem auðið er eftir 1. janúar ár hvert senda skýrslu til framkvæmdastjórans með upplýsingum um fjölda undanþágna sem veittar hafa verið í hverja stöðu þar sem skírteinis er krafist.


Regla 10
Jafngildi.

    1. Samþykktin skal ekki vera í vegi fyrir því að stjórnvöld haldi áfram menntunar- eða þjálfunarleiðum eða taki aðrar upp, að meðtöldum þeim leiðum sem eru fyrir þjónustustörf á sjó og fyrir skipulag um borð í tengslum við þróun tæknibúnaðar, einnig þróun sérhannaðra skipa, þannig að þjónusta til sjós, þekking og afköst í siglingum og tæknileg stjórnun skipa tryggi að vissu marki öryggi á sjó og stuðli að vörnum gegn mengun, a.m.k. til jafns við ákvæði samþykktarinnar.

    2. Lýsingu á þessum menntunar- og þjálfunarleiðum skal gefa í skýrslu samkvæmt grein 4.

II. KAFLI
Skírteini skipstjóra, yfirmanna,
vélstjóra og fjarskiptamanna.


Regla 1
Lögboðnar lágmarkskröfur sem fullnægja ber til að öðlast réttindi skipstjóra á fiskiskipum sem eru 24 metrar að lengd og lengri og sigla á ótakmörkuðu hafsvæði.

    1. Allir skipstjórar á fiskiskipi sem er 24 metrar að lengd og lengra og siglir á ótakmörkuðu hafsvæði skulu hafa viðeigandi skírteini.
    2. Allir umsækjendur um réttindi skulu:
     .1      færa stjórnvöldum sönnur á heilbrigði sitt, einkum varðandi sjón og heyrn;
     .2      fullnægja kröfum til að öðlast skírteini yfirmanns siglingavaktar á fiskiskipum sem eru 24 metrar að lengd og lengri og sigla á ótakmörkuðu hafsvæði og hafa að baki viðurkenndan siglingatíma, eigi skemmri en 12 mánuði, sem yfirmaður siglingavaktar eða skipstjóri á fiskiskipum sem ekki eru styttri en 12 metrar að lengd. Hins vegar geta stjórnvöld heimilað þess í stað allt að sex mánaða viðurkenndan siglingatíma sem yfirmaður siglingavaktar á skipum sem sigla á opnu hafi og falla undir alþjóðasamþykktina frá 1978; og

     .3      hafa staðist viðeigandi próf með fullnægjandi hætti að mati stjórnvalda. Slík próf eiga að ná til þess efnis sem getið er í viðbætinum við reglu þessa. Umsækjandi um próf sem hefur gilt skírteini, gefið út í samræmi við alþjóðasamþykktina frá 1978, þarf ekki að endurtaka próf í þeim greinum sem upp eru taldar í viðbætinum og eru á hærra eða sama þekkingarstigi og krafist er til útgáfu skírteinis samkvæmt þeirri samþykkt.



Viðbætir við reglu 1
Lágmarksþekking sem krafist er til að öðlast réttindi skipstjóra á fiskiskipum sem eru 24 metrar að lengd og lengri og sigla á ótakmörkuðu hafsvæði.

    1. Eftirfarandi námsskrá skal vera undirstaða prófs sem lagt er fyrir þá sem vilja öðlast réttindi skipstjóra á fiskiskipum sem eru 24 metrar að lengd og lengri og sigla á ótakmörkuðu hafsvæði. Með það í huga að skipstjóri ber endanlega ábyrgð á öryggi skipsins og áhafnar þess hvenær sem er, þ.m.t. á veiðum, er prófum í þessum greinum ætlað að meta hvort nemandi hafi tileinkað sér með viðunandi hætti allar tiltækar upplýsingar sem hafa áhrif á öryggi skipsins og áhafnar þess í samræmi við námsskrána.

     2. Sigling skips og staðarákvarðanir.
    2.1 Siglingaáætlun og siglingar skips við allar aðstæður:
     .1      með viðurkenndum aðferðum við að setja út stefnu skips á rúmsjó;
     .2      á þröngum hafsvæðum;
     .3      eftir því sem við á, við siglingu í ís;
     .4      í takmörkuðu skyggni;
     .5      þar sem það á við, á aðskildum siglingaleiðum; og
     .6      á svæðum, þar sem sjávarfalla og hafstrauma gætir.
    2.2 Staðarákvarðanir:
     .1      með athugun himinhnatta;
     .2      með jarðlægum athugunum, þar á meðal kunnáttu í að nota miðanir og mið af kennileitum og siglingamerkjum, svo sem vitum, leiðar- og sjómerkjum sem merkt eru í viðeigandi sjókort, notkun tilkynninga til sjófarenda og annarra gagna til að meta nákvæmni staðarákvörðunar; og
     .3      með notkun nútímarafeindasiglingatækja, sem fiskiskip eru búin og uppfylla kröfur stjórnvalda um þekkingu og notkun, ásamt sérstakri þekkingu á því hvernig tækin starfa í meginatriðum, takmörkunum þeirra, skekkjuvöldum, greiningu á villandi upplýsingum og aðferðum við leiðréttingar til að fá nákvæma staðarákvörðun.
     3. Vaktstaða.
    3.1 Hafa mjög góða þekkingu á efni, gildissviði og markmiðum samþykktar um alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó frá 1972 (alþjóðasiglingareglna frá 1972), sérstaklega II. og IV. viðauka, sem fjalla um örugga siglingu skipa.
    3.2 Sýna þekkingu á efni IV. kafla um grundvallaratriði siglingavakta.

     4. Ratsjársigling.
    4.1 Sýna með notkun ratsjárhermis eða, ef hann er ekki fyrir hendi, með ratsjármyndvarpa, þekkingu á grundvallaratriðum ratsjár og kunna að stilla og nota ratsjá svo og að túlka og greina upplýsingar sem fást með því tæki, en í því felst eftirfarandi:

     .1      kunna skil á því sem dregur úr virkni og nákvæmni ratsjár;
     .2      stilla endurvörp á myndskjá ratsjár;
     .3      greina villandi upplýsingar, fölsk endurvörp og endurvörp frá sjó;
     .4      stilla inn fjarlægð og miðun;
     .5      þekkja hættuleg endurvörp;
     .6      finna stefnu og hraða annarra skipa;
     .7      finna hvenær og í hvaða fjarlægð skip er í minnstri fjarlægð framan við eigið skip þegar mætt er eða siglt er fram úr öðrum skipum;
     .8      finna stefnu- og hraðabreytingu annarra skipa;

     .9      finna áhrif breytinga á stefnu eða hraða eigin skips eða hvort tveggja; og
     .10      beita alþjóðasiglingareglunum frá 1972.

     5. Segul- og gýróáttavitar.
    5.1 Kunna að ákvarða og leiðrétta skekkjur á segul- og gýróáttavita, með athugun kennileita og himinhnatta.
     6. Veður- og haffræði.
    6.1 Þekkja tæki til veðurathugana og notkun þeirra.
    6.2 Kunna að nota tiltækar veðurfræðilegar upplýsingar.
    6.3 Þekkja sérkenni ýmissa veðurkerfa, þar á meðal, eftir mati stjórnvalda, hvirfilvinda í hitabeltinu og hvernig forðast megi miðjur fellibylja og hina hættulegu fjórðungsboga hvirfilvinda.
    6.4 Þekkja veðurskilyrði eins og þoku sem getur haft hættu í för með sér fyrir skipið.
    6.5 Kunna að nota viðeigandi gögn og upplýsingar um sjávarföll og hafstrauma.
    6.6 Kunna að reikna tíma flóðs og fjöru, finna stöðu sjávarfalla og meta stefnu og hraða sjávarfallastrauma.
    7. Stjórntök fiskiskips og sigling.
    7.1 Stjórntök og sigling fiskiskips við allar aðstæður, en í því felst eftirfarandi:
     .1      fara frá, leggja að bryggju og nota akkeri við ýmsar aðstæður af völdum vinda og sjávarfalla;
     .2      stjórntök á grunnsævi;
     .3      stjórntök og sigling fiskiskips í slæmu veðri og að sigla með hæfilegum hraða, sérstaklega þegar siglt er undan sjó og vindi eða þegar sjór og vindur stendur skuthallt á skipið, aðstoð við skip eða flugvél í háska, hvernig á að halda skipi sem ekki er hægt að stýra upp í sjó og vind og hvernig á að draga úr reki;
     .4      stjórntök skips við fiskveiðar með sérstöku tilliti til þátta sem gætu stofnað öryggi skipsins í hættu þegar það er að veiðum;

     .5      varúðarráðstafanir við stjórntök þegar björgunarbátar eða -för eru sjósett í slæmu veðri;
     .6      aðferðir við að taka um borð skipbrotsmenn úr björgunarbátum og -förum;
     .7      gera viðeigandi og raunhæfar ráðstafanir þegar siglt er í ís, í námunda við borgarís eða þegar ís hleðst á skip;
     .8      að sigla eftir aðskildum siglingaleiðum og beita þar viðeigandi stjórntökum;
     .9      að mikilvægt er draga úr hraða til að forðast skemmdir af völdum eigin stafn- eða skutbylgju;
     .10      umskipun afla á sjó yfir í verksmiðjuskip eða önnur skip; og
     .11      taka eldsneyti á hafi úti.
     8. Smíði fiskiskipa og stöðugleiki.
    
8.1 Almenn þekking á helstu byggingarhlutum skips og á réttum nöfnum hinna ýmsu hluta.

    8.2 Þekking á fræðsluefni og þáttum sem hafa áhrif á stafnhalla og stöðugleika og nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öruggan stafnhalla og stöðugleika.
    8.3 Sýna kunnáttu í að nota stöðugleikagögn, stöðugleika- og hleðslutöflur og reikna út væntanlegan stöðugleika á siglingu skipsins.
    8.4 Þekkja, eftir því sem við á, áhrif óhefts yfirborðs vökva og áhrif ísingar.
    8.5 Þekkja hvaða áhrif sjór á þilfari hefur.
    8.6 Vita að afar mikilvægt er að hafa traustar og veður- og vatnsþéttar lokanir.
     9. Meðferð aflans og hleðsla.
    9.1 Hleðsla og öruggur frágangur afla og veiðarfæra um borð í skipi.
    9.2 Lestun og losun með sérstöku tilliti til hallavægis og þungavægis afla og veiðarfæra.

     10. Vélbúnaður fiskiskipa.
    
10.1 Meginreglur um aðalvélar í fiskiskipum.

    10.2 Hjálparvélar skips.
    10.3 Alhliða þekking á tæknihugtökum um vélar í skipum.
     11. Eldvarnir og slökkvibúnaður.
    
11.1 Skipulag slökkviæfinga.
    11.2 Flokkar og efnasamsetning elda.
    11.3 Slökkvikerfi.
    11.4 Þátttaka í viðurkenndu eldvarnanámskeiði.

    11.5 Þekking á búnaði slökkvitækja.

    12. Neyðarúrræði.

    12.1 Varúðarráðstafanir þegar skipi er rennt á land.
    12.2 Ráðstafanir sem gera á fyrir og eftir að skip strandar.
    12.3 Úrræði sem gripið er til þegar veiðarfæri festast í botni eða öðrum hindrunum.
    12.4 Strönduðu skipi náð á flot með eða án aðstoðar.
    12.5 Úrræði í kjölfar áreksturs.
    12.6 Þétting leka til bráðabirgða.
    12.7 Ráðstafanir til verndar og öryggis áhafnar á neyðarstundu.
    12.8 Takmörkun tjóns og björgun skips eftir bruna eða sprengingu.
    12.9 Skip yfirgefið.
    12.10 Neyðarstýring, uppsetning og notkun neyðarstýringar og hvernig á að útbúa neyðarstýri þar sem því við verður komið.
    12.11 Björgun manna í sjávarháska af skipi eða flaki.
    12.12 Björgun manns sem fellur fyrir borð.
    12.13 Skip dregið eða tekið í drátt.
    13. Heilsugæsla.
    
13.1 Kunna að veita skyndihjálp.
    13.2 Kunna að biðja um læknisráðgjöf með fjarskiptum.
    13.3 Þekkja til hlítar notkun eftirfarandi rita:

     .1      Alþjóðleg læknisráðgjöf fyrir skip (International Medical Guide for Ships) eða sambærileg rit einstakra þjóða; og
     .2      Læknisrágjöf Alþjóðamerkjabókarinnar (International Code of Signals).
     14. Sjóréttur.
    
14.1 Þekkingu á alþjóðalögum um siglingar eins og þau koma fram í alþjóðasamningum og -samþykktum, hvað varðar sérstaka ábyrgð og skyldur skipstjóra, einkum hvað varðar öryggi og varnir gegn mengun lífríkis sjávar. Sérstakt tillit skal tekið til eftirfarandi atriða:

     .1      skírteina og annarra skjala sem skylt er að hafa um borð í fiskiskipum samkvæmt alþjóðasamþykktum, hvernig er unnt að fá þau í hendur og gildistíma þeirra;
     .2      ábyrgðar samkvæmt kröfum Torremolinos- bókunarinnar frá 1993, eftir því sem við á;
     .3      ábyrgðar samkvæmt kröfum V. kafla alþjóðasamþykktar um öryggi mannslífa á hafinu frá 1974 (SOLAS), eftir því sem við á;
     .4      ábyrgðar skv. I. og V. viðauka við alþjóðasamning um varnir gegn mengun frá skipum frá 1973 (MARPOL), með breytingum með bókuninni frá 1978;
     .5      yfirýsinga um heilbrigði á hafinu og hvaða kröfur eru gerðar í alþjóðaheilbrigðisreglum;

     .6      ábyrgðar samkvæmt alþjóðasiglingareglunum frá 1972; og

     .7      ábyrgðar samkvæmt öðrum alþjóðasáttmálum sem hafa áhrif á öryggi skips og áhafnar þess.

    14.2 Stjórnvöldum hvers lands er í sjálfsvald sett hvaða þekkingar þau krefjast á eigin siglingalöggjöf, en þó skal krefjast þekkingar á hvernig gildandi alþjóðasamningum og alþjóðasamþykktum skuli framfylgt í viðkomandi landi.
    15. Enska.

    Fullnægjandi kunnátta í enskri tungu sem gerir skipstjóra kleift að nota kort og önnur siglingarit, skilja veðurfræðilegar upplýsingar og ráðstafanir er varða öryggi skipsins og störf um borð og geta tjáð sig á ensku í fjarskiptum við önnur skip eða strandastöðvar. Skilja og kunna að nota staðlaðan orðalista Alþjóðsiglingamálastofnunarinnar um viðskipti skipa (IMO Standard Marine Communication Phrases).
    16. Fjarskipti.
    16.1 Almenn þekking á nauðsynlegum grundvallarreglum og -atriðum til öruggrar og skilvirkrar notkunar á öllum búnaði og varabúnaði alþjóðlega neyðar- og öryggiskerfis fjarskipta á sjó (GMDSS).

    16.2 Þekking á siglinga- og veðurfræðilegum viðvörunarkerfum og val á fjarskiptaþjónustu sem við á hverju sinni.
    16.3 Þekkja alvarlegar afleiðingar ef slíkur fjarskiptabúnaður er misnotaður.
    16.4 Þegar aðili hefur prófað nemendur í þessum greinum á lægri stigum skírteina mega þeir sjálfir ráða hvort þeir gangi síðar undir próf í þessum greinum.
    16.5 Kunna að senda og taka á móti morse-ljósmerkjum og að nota Alþjóðamerkjabókina (International Code of Signals).
    17. Björgun mannslífa.
    
17.1 Þekkja til hlítar björgunarbúnað og hvernig staðið er að björgun.
    17.2 Þekkja til hlítar neyðarráðstafanir, neyðaráætlanir og hvernig staðið er að björgunaræfingum.
     18. Leit og björgun.
    
18.1 Þekkja til hlítar handbók Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um leit og björgun kaupskipa (Merchant Ship Search and Rescue Manual – MERSAR).
    19. Leiðarvísir Matvæla- og landbúnaðarstofnunarinnar (FAO) / Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) / Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) um öryggi fiskimanna og fiskiskipa.
    
19.1 Þekkja efni A-hluta leiðarvísis FAO/ILO/ IMO um öryggi fiskimanna og fiskiskipa.
     20. Aðferðir við að sýna hæfni.
    
20.1 Sigling skips.
    
20.1.1 Sýna notkun sextants, miðunarskífu, azimútspegils og færni í að setja út staðarákvarðanir, stefnur og miðanir.
    20.2 Sýna fram á fullkomna þekkingu á efni alþjóðasiglingareglnanna frá 1972, gildissviði þeirra og markmiði.

    20.2.1 Með notkun lítilla líkana sem sýna rétt merki eða ljós eða með því að nota siglingaljósahermi.
    20.3. Ratsjá.
    20.3.1 Með því að fylgjast með siglingu í ratsjárhermi eða ratsjármyndvarpa.
    20.4. Slökkvistörf.
    20.4.1 Með þátttöku í viðurkenndu námskeiði í slökkvistörfum.
    20.5. Fjarskipti.
    20.5.1 Með verklegum prófum.
    20.6. Björgun mannslífa.
    20.6.1. Með notkun björgunarbúnaðar, þ.m.t. hvernig klæðast skuli björgunarvestum og, eftir því sem við á, flotbúningum.

Regla 2
Lágmarksþekking sem krafist er til að öðlast réttindi yfirmanna siglingavakta á fiskiskipum sem eru 24 metrar að lengd og lengri og sigla á ótakmörkuðu hafsvæði.

    1. Allir yfirmenn siglingavaktar á fiskiskipi sem er 24 metrar að lengd og lengra og siglir á ótakmörkuðu hafsvæði skulu hafa viðeigandi skírteini.

    2. Allir umsækjendur um skírteini skulu:
     .1      ekki vera yngri en 18 ára;
     .2      færa stjórnvöldum sönnur á heilbrigði sitt, einkum varðandi sjón og heyrn;
     .3      hafa að baki viðurkenndan siglingatíma eigi skemmri en 24 mánuði á þilfari á fiskiskipum sem ekki eru styttri en 12 metrar að lengd. Hins vegar geta stjórnvöld heimilað þess í stað allt að 12 mánuði vegna sérstakrar þjálfunar, enda sé tíminn talinn sambærilegur að gildi við þann sem hann kom í stað fyrir, eða viðurkenndan siglingatíma sem staðfestur er með viðurkenndri sjóferðabók samkvæmt alþjóðasamþykktinni frá 1978;


     .4      hafa staðist viðeigandi próf með fullnægjandi hætti að mati stjórnvalda. Slík próf eiga að ná til þess efnis, sem getið er í viðbætinum við reglu þessa. Umsækjandi um próf sem hefur gilt skírteini, gefið út í samræmi við alþjóðasamþykktina frá 1978, þarf ekki að endurtaka próf í þeim greinum sem upp eru taldar í viðbætinum og eru á hærra eða sama þekkingarstigi og krafist er til útgáfu skírteinis samkvæmt þeirri samþykkt;


     .5      fullnægja viðeigandi kröfum reglu 6 til að uppfylla fjarskiptaskyldur samkvæmt alþjóðaradíóreglugerðinni.


Viðbætir við reglu 2
Lágmarksþekking sem krafist er til að öðlast réttindi yfirmanna siglingavakta á fiskiskipum sem eru 24 metrar að lengd og lengri og sigla á ótakmörkuðu hafsvæði.

    1. Eftirfarandi námsskrá skal vera undirstaða prófs sem lagt er fyrir þá sem vilja öðlast skírteini yfirmanna siglingavakta á fiskiskipum sem eru 24 metrar að lengd og lengri og sigla á ótakmörkuðu hafsvæði.
     2. Sigling með athugun himinhnatta.
    Kunna að ákvarða kompásskekkju með athugun himinhnatta.
     3. Sigling með athugun jarðlægra kennileita og sigling með ströndum fram.
    
3.1 Kunna að staðsetja skip með því að nota:

     .1      kennileiti;
     .2      siglingamerki, svo sem vita, leiðar- og sjómerki; og
     .3      beita leiðarreikningi, að teknu tilliti til vinda, sjávarfalla, hafstrauma og siglingahraða miðað við snúningshraða skrúfu á mínútu og skriðmælis.
    3.2 Kunna til hlítar að nota sjókort og siglingarit, t.d. um siglingaleiðir, töflur um sjávarföll, tilkynningar til sjófarenda og viðvaranir í útvarpi um siglingar.
     4. Ratsjársigling.
    
4.1 Sýna með notkun ratsjárhermis eða, ef hann er ekki fyrir hendi, með ratsjármyndvarpa, þekkingu á grundvallaratriðum ratsjár og kunna að stilla og nota ratsjá svo og að túlka og greina upplýsingar sem fást með því tæki, en í því felst eftirfarandi:

     .1      kunna skil á því sem dregur úr virkni og nákvæmni ratsjár;
     .2      stilla endurvörp á myndskjá ratsjár;
     .3      greina villandi upplýsingar, fölsk endurvörp og endurvörp frá sjó;
     .4      stilla inn fjarlægð og miðun;
     .5      þekkja hættuleg endurvörp;
     .6      finna stefnu og hraða annarra skipa;
     .7      finna hvenær og í hvaða fjarlægð skip er í minnstri fjarlægð framan við eigið skip, þegar mætt er eða siglt er fram úr öðrum skipum;
     .8      finna stefnu- og hraðabreytingu annarra skipa;

     .9      finna áhrif breytinga á stefnu eða hraða eigin skips eða hvort tveggja; og
     .10      beita alþjóðasiglingareglunum frá 1972.

     5. Vaktstaða.
    5.1 Hafa mjög góða þekkingu á efni, gildissviði og markmiðum alþjóðasiglingareglna frá 1972, sérstaklega II. og IV. viðauka, sem fjalla um örugga siglingu skipa.

    5.2 Sýna þekkingu á efni IV. kafla um grundvallaratriði siglingavakta.

     6. Rafeindakerfi til staðarákvarðana og siglingar.
    6.1 Kunna að staðsetja skip með notkun rafeindasiglingatækja með fullnægjandi hætti að mati stjórnvalda.
     7. Veðurfræði.
    7.1 Þekkja tæki um borð til veðurathugana og notkun þeirra.
    7.2 Þekkja sérkenni ýmissa veðurkerfa.

     8. Segul- og gýróáttavitar.
    8.1 Meðferð og notkun áttavita og skylds búnaðar.
     9. Fjarskipti.
    9.1 Almenn þekking á nauðsynlegum grundvallarreglum og -atriðum til öruggrar og skilvirkrar notkunar á öllum búnaði og varabúnaði alþjóðlega neyðar- og öryggiskerfis fjarskipta á sjó (GMDSS).

    9.2 Þekking á siglinga- og veðurfræðilegum viðvörunarkerfum og val á fjarskiptaþjónustu sem við á hverju sinni.
    9.3 Þekkja alvarlegar afleiðingar ef slíkur fjarskiptabúnaður er misnotaður.
     10. Eldvarnir og slökkvibúnaður.
    10.1 Þekkja flokka elda og efnasamsetningu.
    10.2 Þekkja slökkvikerfi og kunna að beita þeim.

    10.3 Þátttaka í viðurkenndu eldvarnanámskeiði.

    11. Björgun mannslífa.
    
Geta stjórnað æfingum þar sem skip er yfirgefið og þekkja til hlítar björgunarbúnað og fylgihluti hans, þ.m.t. tvíátta talstöðvabúnað. Björgun á sjó, þ.m.t. þátttaka í viðurkenndu námskeiði í björgun á sjó.

     12. Neyðarúrræði og öruggar vinnuaðferðir áhafna fiskiskipa.
    
Þekkja atriði sem nefnd eru í viðeigandi hluta leiðarvísis FAO/ILO/IMO um öryggi fiskimanna og fiskiskipa, kafla A og í VIII. kafla í viðauka við Torremolinos-bókunina frá 1993.

    13. Stjórntök fiskiskips og sigling.
    
13.1 Undirstöðuþekking á stjórntökum og siglingu fiskiskips, en í því felst eftirfarandi:
     .1      fara frá, leggja að bryggju og beita akkeri og stjórntök við að leggja að öðrum skipum á rúmsjó;
     .2      stjórntök við fiskveiðar með sérstöku tilliti til þátta sem gætu stofnað öryggi skipsins í hættu þegar það er að veiðum;

     .3      áhrif vinda, sjávarfalla og hafstrauma á stjórntök;
     .4      stjórntök á grunnsævi;
     .5      stjórntök fiskiskips í slæmu veðri;

     .6      björgun manna og aðstoð við skip eða flugvél sem er í hættu stödd;
     .7      skip dregið eða tekið í drátt;
     .8      björgun manns sem fellur fyrir borð; og
     .9      gera viðeigandi og raunhæfar ráðstafanir þegar siglt er í ís, í námunda við borgarís eða þegar ís hleðst á skip.
     14. Smíði fiskiskipa.
    Almenn þekking á helstu byggingarhlutum skips.

    15. Stöðugleiki skips.
    Sýna kunnáttu í að nota stöðugleikagögn, stöðugleika- og hleðslutöflur og reikna út væntanlegan stöðugleika á siglingu skipsins.
    16. Meðferð afla og hleðsla.
    Kunna örugga meðhöndlun og hleðslu afla og áhrif þessara atriða á öryggi skipsins.

    17. Enska.
    
Fullnægjandi kunnátta í ensku sem gerir yfirmanni kleift að nota sjókort og önnur siglingarit, skilja veðurfræðilegar upplýsingar og skeyti er varða öryggi skipsins. Skilja og kunna að nota staðlaðan orðalista Alþjóðsiglingamálastofnunarinnar um viðskipti skipa (IMO Standard Marine Communication Phrases).
     18. Læknishjálp.
    Kunna að veita skyndihjálp. Geta hagnýtt læknisfræðileg leiðbeiningargögn og beðið um læknisráðgjöf með fjarskiptum.
     19. Leit og björgun.
    
Kunna að beita með fullnægjandi hætti aðferðum sem byggjast á handbók Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um leit og björgun kaupskipa (Merchant Ship Search and Rescue Manual – MERSAR).
     20. Varnir gegn mengun lífríkis sjávar.

    Kunna skil á varúðarráðstöfunum sem grípa þarf til svo að koma megi í veg fyrir mengun lífríkis sjávar.
    21. Aðferðir við að sýna hæfni.
    Stjórnvöld skulu mæla fyrir um leiðir til að sýna hæfni samkvæmt viðeigandi kröfum þessa viðbætis.


Regla 3
Lögboðnar lágmarkskröfur sem fullnægja ber til að öðlast réttindi skipstjóra á fiskiskipum sem eru 24 metrar að lengd og lengri og sigla á takmörkuðu hafsvæði.

    1. Allir skipstjórar á fiskiskipi sem er 24 metrar að lengd og lengra og siglir á takmörkuðu hafsvæði skuli, nema þeir hafi skírteini samkvæmt reglu 1, hafa viðeigandi skírteini sem er a.m.k. gefið út í samræmi við ákvæði þessarar reglu.

    2. Allir umsækjendur um skírteini skulu:
     .1      færa stjórnvöldum sönnur á heilbrigði sitt, einkum varðandi sjón og heyrn;
     .2      fullnægja kröfum til að öðlast skírteini yfirmanns siglingavaktar á fiskiskipum sem eru 24 metrar að lengd og lengri og sigla á takmörkuðu hafsvæði og hafa að baki viðurkenndan siglingatíma eigi skemmri en 12 mánuði sem yfirmaður siglingavaktar eða skipstjóri á fiskiskipum sem ekki eru styttri en 12 metrar að lengd. Hins vegar geta stjórnvöld heimilað þess í stað allt að sex mánaða viðurkenndan siglingatíma sem yfirmaður siglingavaktar á kaupskipum;

     .3      hafa staðist viðeigandi próf með fullnægjandi hætti að mati stjórnvalda. Slíkt próf á að ná til þess efnis sem getið er í viðbætinum við reglu þessa.

    3. Stjórnvöld skulu, með hliðsjón af öryggi allra skipa sem sigla á sama takmarkaða hafsvæði, hafa í huga það takmarkaða hafsvæði sem það hefur skilgreint í samræmi við reglu I/1 og taka ákvörðun um nauðsynlegt viðbótarnámsefni til prófs.


    4. Umsækjandi um próf, sem hefur gilt skírteini gefið út í samræmi við alþjóðasamþykktina frá 1978, þarf ekki að endurtaka próf í þeim greinum sem upp eru taldar í viðbætinum og eru á hærra eða sama þekkingarstigi og krafist er til að öðlast réttindi samkvæmt þeirri samþykkt.

Viðbætir við reglu 3
Lágmarksþekking sem krafist er til að öðlast réttindi skipstjóra á fiskiskipum sem eru 24 metrar að lengd og lengri og sigla á takmörkuðu hafsvæði.

    1. Eftirfarandi námsskrá skal vera undirstaða prófs sem lagt er fyrir þá sem vilja öðlast réttindi skipstjóra á fiskiskipum sem eru 24 metrar að lengd og lengri og sigla á takmörkuðu hafsvæði. Með það í huga að skipstjóri ber endanlega ábyrgð á öryggi skipsins og áhafnar þess hvenær sem er, þ.m.t. á veiðum, er prófum í þessum greinum ætlað að meta hvort nemandi hafi tileinkað sér með viðunandi hætti allar tiltækar upplýsingar sem hafa áhrif á öryggi skipsins og áhafnar þess í samræmi við námsskrána.

     2. Sigling skips og staðarákvarðanir.
    2.1 Siglingaáætlun og siglingar skips við allar aðstæður:
     .1      með viðurkenndum aðferðum við að setja út stefnu skips;
     .2      á þröngum hafsvæðum;
     .3      eftir því sem við á, við siglingu í ís;
     .4      í takmörkuðu skyggni;
     .5      þar sem það á við, á aðskildum siglingaleiðum; og
     .6      á svæðum þar sem sjávarfalla og hafstrauma gætir.
    2.2 Staðarákvörðun:
     .1      með jarðlægum athugunum, þar á meðal kunnáttu í að nota miðanir og mið af kennileitum og siglingamerkjum, svo sem vitum, leiðar- og sjómerkjum sem merkt eru í viðeigandi sjókort, notkun tilkynninga til sjófarenda og annarra gagna til að meta nákvæmni staðarákvörðunar; og
     .2      með notkun nútímarafeindasiglingatækja sem fiskiskip eru búin og uppfylla kröfur stjórnvalda.
     3. Vaktstaða.
    
3.1 Hafa mjög góða þekkingu á efni, gildissviði og markmiðum alþjóðasiglingareglna frá 1972, sérstaklega II. og IV. viðauka, sem fjalla um örugga siglingu skipa.

    3.2 Sýna þekkingu á efni IV. kafla um grundvallaratriði siglingavakta.

     4. Ratsjársigling.
    
4.1 Stjórnvöld skulu ákveða hvort eftirfarandi námsskráratriði um ratsjá skuli vera hluti almennra krafna til að öðlast skírteini skipstjóra. Ákveði stjórnvöld að þessi námsskráratriði skuli ekki vera hluti almennra krafna skulu þau tryggja að tekið sé tillit til þeirra til að öðlast skírteini skipstjóra sem starfa um borð í skipum sem búin eru ratsjá og sigla á takmörkuðu hafsvæði.
    4.2 Sýna með notkun ratsjárhermis eða, ef hann er ekki fyrir hendi, með ratsjármyndvarpa, þekkingu á grundvallaratriðum ratsjár og kunna að stilla og nota ratsjá svo og að túlka og greina upplýsingar sem fást með því tæki, en í því felst eftirfarandi:

     .1      kunna skil á því sem dregur úr virkni og nákvæmni ratsjár;
     .2      stilla endurvörp á myndskjá ratsjár;
     .3      greina villandi upplýsingar, fölsk endurvörp og endurvörp frá sjó;
     .4      stilla inn fjarlægð og miðun;
     .5      þekkja hættuleg endurvörp;
     .6      finna stefnu og hraða annarra skipa;
     .7      finna hvenær og í hvaða fjarlægð skip er í minnstri fjarlægð framan við eigið skip, þegar mætt er eða siglt er fram úr öðrum skipum;
     .8      finna stefnu- og hraðabreytingu annarra skipa;

     .9      finna áhrif breytinga á stefnu eða hraða eigin skips eða hvorutveggja; og
     .10      beita alþjóðasiglingareglunum frá 1972.

     5. Áttavitar.
    
5.1 Kunna að ákvarða og leiðrétta kompásskekkju.
    6. Veður- og haffræði.
    6.1 Þekkja tæki til veðurathugana og notkun þeirra.
    6.2 Kunna að nota tiltækar veðurfræðilegar upplýsingar.
    6.3 Þekkja sérkenni ýmissa veðurkerfa sem hafa áhrif innan þess takmarkaða hafsvæðis sem við á, að mati stjórnvalda.
    6.4 Þekkja veðurskilyrði innan þess takmarkaða hafsvæðis sem við á og stofnað getur skipinu í hættu.

    6.5 Kunna að nota viðeigandi gögn og upplýsingar um sjávarföll og hafstrauma, eftir því sem við á.
    7. Stjórntök fiskiskips og sigling.
    7.1 Stjórn og sigling fiskiskips við allar aðstæður, þar á meðal eftirfarandi:
     .1      fara frá og leggja að bryggju og nota akkeri við ýmsar aðstæður af völdum vinda og sjávarfalla;
     .2      stjórntök á grunnsævi;
     .3      stjórntök og sigling fiskiskips í slæmu veðri og að sigla með hæfilegum hraða, sérstaklega þegar siglt er undan sjó og vindi eða þegar sjór og vindur stendur skuthallt á skipið, aðstoð við skip eða flugvél í háska, hvernig á að halda skipi sem ekki er hægt að stýra upp í sjó og vind og hvernig á að draga úr reki;
     .4      stjórntök skips við fiskveiðar með sérstöku tilliti til þátta sem gætu stofnað öryggi skipsins í hættu þegar það er að veiðum;

     .5      varúðarráðstafanir við stjórntök þegar björgunarbátar eða -för eru sjósett í slæmu veðri;
     .6      aðferðir við að taka um borð skipbrotsmenn úr björgunarbátum og -förum;
     .7      gera viðeigandi og raunhæfar ráðstafanir þegar siglt er í ís, í námunda við borgarís eða þegar ís hleðst á skip;
     .8      að sigla eftir aðskildum siglingaleiðum og beita þar viðeigandi stjórntökum, eftir því sem við á;
     .9      að mikilvægt er draga úr hraða til að forðast skemmdir af völdum eigin stafn- eða skutbylgju; og
     .10      umskipun afla á sjó yfir í verksmiðjuskip eða önnur skip.
     8. Smíði fiskiskipa og stöðugleiki.
    
8.1 Almenn þekking á helstu byggingarhlutum skips og á réttum nöfnum hinna ýmsu hluta.

    8.2 Þekking á fræðsluefni og þáttum sem hafa áhrif á stafnhalla og stöðugleika og nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öruggan stafnhalla og stöðugleika.
    8.3 Sýna kunnáttu í að nota stöðugleikagögn, stöðugleika- og hleðslutöflur og reikna út væntanlegan stöðugleika á siglingu skipsins.
    8.4 Þekkja, eftir því sem við á, áhrif óhefts yfirborðs vökva og áhrif ísingar.
    8.5 Þekkja hvaða áhrif sjór á þilfari hefur.
    8.6 Vita að afar mikilvægt er að hafa traustar og veður- og vatnsþéttar lokanir.
    9. Meðferð aflans og hleðsla.
    9.1 Hleðsla og öruggur frágangur afla og veiðarfæra um borð í skipi.
    9.2 Lestun og losun með sérstöku tilliti til hallavægis og þungavægis afla og veiðarfæra.

    10. Vélbúnaður fiskiskipa.
    10.1 Meginreglur um aðalvélar í fiskiskipum.

    10.2 Hjálparvélar skips.
    10.3 Alhliða þekking á tæknihugtökum um vélar í skipum.
    11. Eldvarnir og slökkvibúnaður.
    11.1 Skipulag slökkviæfinga.
    11.2 Flokkar og efnasamsetning elda.
    11.3 Slökkvikerfi.
    11.4 Þátttaka í viðurkenndu eldvarnanámskeiði.

    11.5 Þekking á búnaði slökkvitækja.

    12. Neyðarúrræði.

    12.1 Varúðarráðstafanir þegar skipi er rennt á land.
    12.2 Ráðstafanir sem gera á fyrir og eftir að skip strandar.
    12.3 Úrræði sem gripið er til þegar veiðarfæri festast í botni eða öðrum hindrunum.
    12.4 Strönduðu skipi náð á flot með eða án aðstoðar.
    12.5 Úrræði í kjölfar áreksturs.
    12.6 Þétting leka til bráðabirgða.
    12.7 Ráðstafanir til verndar og öryggis áhafnar á neyðarstundu.
    12.8 Takmörkun tjóns og björgun skips eftir bruna eða sprengingu.
    12.9 Skip yfirgefið.
    12.10 Neyðarstýring, uppsetning og notkun neyðarstýringar og hvernig á að útbúa neyðarstýri, þar sem því verður við komið.
    12.11 Björgun manna í sjávarháska af skipi eða flaki.
    12.12 Björgun manns sem fellur fyrir borð.
    12.13 Skip dregið eða tekið í drátt.
     13. Heilsugæsla.
    
13.1 Kunna að veita skyndihjálp. Geta hagnýtt læknisfræðileg leiðbeiningargögn og aflað læknisráðgjafar með fjarskiptum.
    13.2 Geta hagnýtt læknisfræðileg leiðbeiningargögn og afla læknisráðgjafar með fjarskiptum, þar á meðal geta gert haldgóðar ráðstafanir þegar að höndum ber slys eða veikindi sem líklegt er að geti átt sér stað um borð í skipi.
    14. Sjóréttur.
    14.1 Með hliðsjón af takmörkuðu hafsvæði eins og það er skilgreint af stjórnvöldum skal vera fyrir hendi þekking á alþjóðalögum um siglingar eins og þau koma fram í alþjóðasamningum og -samþykktum hvað varðar sérstaka ábyrgð og skyldur skipstjóra, einkum hvað varðar öryggi og varnir gegn mengun lífríkis sjávar.
    14.2 Það er í höndum stjórnvalda að ákveða hversu víðtækrar þekkingar á innlendri siglingalöggjöf er krafist en námsefni skal fela í sér þær innanlandsráðstafanir sem gerðar hafa verið til að hrinda í framkvæmd alþjóðasamningum og -samþykktum.
    15. Björgun mannslífa.
    Þekkja til hlítar björgunarbúnað um borð í fiskiskipi. Geta stjórnað æfingum þar sem skip er yfirgefið og notað búnaðinn.
    16. Leit og björgun.
    Vita hvernig leitar- og björgunaraðgerðir ganga fyrir sig.
    17. Leiðarvísir FAO/ILO/IMO um öryggi fiskimanna og fiskiskipa, A-hluta.
    
Þekkja efni þeirra hluta leiðarvísis FAO/ILO/ IMO um öryggi fiskimanna og fiskiskipa sem krafist kann að vera af stjórnvöldum.
    18. Aðferðir við að sýna hæfni.
    Stjórnvöld skulu mæla fyrir um leiðir til að sýna hæfni í viðeigandi kröfum þessa viðbætis.


Regla 4
Lögboðnar lágmarkskröfur sem fullnægja ber til að öðlast réttindi yfirmanna siglingavakta á fiskiskipum sem eru 24 metrar að lengd og lengri og sigla á takmörkuðu hafsvæði.

    1. Allir yfirmenn siglingavaktar á fiskiskipi sem er 24 metrar að lengd og lengra og siglir á takmörkuðu hafsvæði skulu annaðhvort hafa skírteini sem gefið er út í samræmi við reglu 2 eða hafa viðeigandi skírteini sem er a.m.k. gefið út í samræmi við ákvæði þessarar reglu.
    2. Allir umsækjendur um skírteini skulu:
     .1      ekki vera yngri en 18 ára;
     .2      færa stjórnvöldum sönnur á heilbrigði sitt, einkum varðandi sjón og heyrn;
     .3      hafa að baki viðurkenndan siglingatíma eigi skemmri en 24 mánuði á þilfari á fiskiskipum, sem ekki eru styttra en 12 metrar að lengd. Hins vegar geta stjórnvöld heimilað þess í stað allt að 12 mánuði vegna sérstakrar þjálfunar, enda sé tíminn talinn sambærilegur að gildi við þann sem hann kom í stað fyrir, eða viðurkenndan siglingatíma sem staðfestur er með viðurkenndri sjóferðabók samkvæmt alþjóðasamþykktinni frá 1978;


     .4      hafa staðist viðeigandi próf með fullnægjandi hætti að mati stjórnvalda. Slík próf eiga að ná til þess efnis sem getið er í viðbætinum við reglu þessa. Umsækjandi um próf sem hefur gilt skírteini, gefið út í samræmi við alþjóðasamþykktina frá 1978, þarf ekki að endurtaka próf í þeim greinum sem upp eru taldar í viðbætinum og eru á hærra eða sama þekkingarstigi og krafist er til útgáfu skírteinis samkvæmt þeirri samþykkt;


     .5      fullnægja viðeigandi kröfum reglu 6 til að uppfylla fjarskiptaskyldur samkvæmt alþjóðaradíóreglugerðinni.


Viðbætir við reglu 4
Lágmarksþekking sem krafist er til að öðlast réttindi yfirmanna siglingavakta á fiskiskipum sem eru 24 metrar að lengd og lengri og sigla á takmörkuðu hafsvæði.

    1. Eftirfarandi námsskrá skal vera undirstaða prófs sem lagt er fyrir þá sem vilja öðlast skírteini yfirmanna siglingavakta á fiskiskipum sem eru 24 metrar að lengd og lengri og sigla á takmörkuðu hafsvæði.
     2. Sigling með athugun jarðlægra kennileita og sigling með ströndum fram.
    
2.1 Kunna að staðsetja skip með því að:

     .1      nota kennileiti;
     .2      nota siglingamerki, svo sem vita, leiðar- og sjómerki; og
     .3      beita leiðarreikningi, að teknu tilliti til vinda, sjávarfalla, hafstrauma og siglingahraða miðað við snúningshraða skrúfu á mínútu og skriðmælis.
    2.2 Kunna til hlítar að nota sjókort og siglingarit, t.d. um siglingaleiðir, töflur um sjávarföll, tilkynningar til sjófarenda og viðvaranir í útvarpi um siglingar.
     3. Ratsjársigling.
    
3.1 Stjórnvöld skulu ákveða hvort eftirfarandi námsskráratriði um ratsjá skuli vera hluti almennra krafna til að öðlast skírteini yfirmanna siglingavakta. Ákveði stjórnvöld að þessi námsskráratriði skuli ekki vera hluti almennra krafna skal að tekið sé tillit til þeirra til að öðlast skírteini yfirmanna siglingavakta sem starfa um borð í skipum sem búin eru ratsjá og sigla á takmörkuðu hafsvæði.

    3.2 Sýna með notkun ratsjárhermis eða, ef hann er ekki fyrir hendi, með ratsjármyndvarpa, þekkingu á grundvallaratriðum ratsjár og kunna að stilla og nota ratsjá svo og að túlka og greina upplýsingar sem fást með því tæki, en í því felst eftirfarandi:

     .1      kunna skil á því sem dregur úr virkni og nákvæmni ratsjár;
     .2      stilla endurvörp á myndskjá ratsjár;
     .3      greina villandi upplýsingar, fölsk endurvörp og endurvörp frá sjó;
     .4      stilla inn fjarlægð og miðun;
     .5      þekkja hættuleg endurvörp;
     .6      finna stefnu og hraða annarra skipa;
     .7      finna hvenær og í hvaða fjarlægð skip er í minnstri fjarlægð framan við eigið skip þegar mætt er eða siglt er fram úr öðrum skipum;
     .8      finna stefnu- og hraðabreytingu annarra skipa;

     .9      finna áhrif breytinga á stefnu eða hraða eigin skips eða hvorutveggja; og
     .10      beita alþjóðasiglingareglunum frá 1972.

     4. Vaktstaða.
    4.1 Hafa mjög góða þekkingu á efni, gildissviði og markmiðum alþjóðasiglingareglna frá 1972, sérstaklega II. og IV. viðauka sem fjalla um örugga siglingu skipa.

    4.2 Sýna þekkingu á efni IV. kafla um grundvallaratriði siglingavakta.

    5. Rafeindakerfi til staðarákvarðana og siglingar.
    5.1 Kunna að staðsetja skip með notkun rafeindasiglingatækja með fullnægjandi hætti að mati stjórnvalda.
    6. Veðurfræði.
    6.1 Þekkja tæki um borð til veðurathugana og notkun þeirra.
    6.2 Þekkja sérkenni ýmissa veðurkerfa sem hafa áhrif innan þess takmarkaða hafsvæðis sem við á.

     7. Áttavitar.
    7.1 Kunna að ákvarða og leiðrétta kompásskekkju.
    8. Eldvarnir.
    8.1 Kunna skil á eldvörnum og eldvarnabúnaði.

    8.2 Hafa tekið þátt í viðurkenndu eldvarnanámskeiði.
     9. Björgun mannslífa.
    
9.1 Þekkja til hlítar björgunarbúnað um borð í fiskiskipi. Geta stjórnað æfingum þar sem skip er yfirgefið og notað búnaðinn.
    9.2 Hafa tekið þátt í viðurkenndu námskeiði um björgun mannslífa á sjó.
     10. Neyðarúrræði og öruggar vinnuaðferðir áhafna fiskiskipa.
    10.1 Þekkja atriði sem tilgreind eru í viðeigandi hluta leiðarvísis FAO/ILO/IMO um öryggi fiskimanna og fiskiskipa, kafli A og í VIII. kafla í viðauka við Torremolinos bókunina frá 1993.

    11. Stjórntök fiskiskips og sigling.
    
11.1 Undirstöðuþekking á stjórntökum og siglingu fiskiskips, en í því felst eftirfarandi:
     .1      fara frá, leggja að bryggju og beita akkeri og stjórntök við að leggja að öðrum skipum á rúmsjó;
     .2      stjórntök við fiskveiðar með sérstöku tilliti til þátta sem gætu stofnað öryggi skipsins í hættu þegar það er að veiðum;
     .3      áhrif vinda, sjávarfalla og hafstrauma á stjórntök;
     .4      stjórntök á grunnsævi;
     .5      stjórntök fiskiskips í slæmu veðri;

     .6      björgun manna og aðstoð við skip eða flugvél sem er í hættu statt;
     .7      skip dregið eða tekið í drátt;
     .8      björgun manns sem fellur fyrir borð; og
     .9      gera viðeigandi og raunhæfar ráðstafanir þegar siglt er í ís, í námunda við borgarís eða þegar ís hleðst á skip.
    12. Stöðugleiki skips.
    12.1 Sýna kunnáttu í að nota stöðugleikagögn, stöðugleika- og hleðslutöflur og reikna út væntanlegan stöðugleika á siglingu skipsins.
    13. Meðferð afla og hleðsla.
    13.1 Kunna örugga meðhöndlun og hleðslu afla og áhrif þessara atriða á öryggi skipsins.

    14. Smíði fiskiskipa.
    
14.1 Almenn þekking á helstu byggingarhlutum skips.
    15. Læknishjálp
    15.1 Kunna að veita skyndihjálp. Geta hagnýtt læknisfræðileg leiðbeiningargögn og beðið um læknisráðgjöf með fjarskiptum.
     16. Leit og björgun.
    16.1 Kunna að beita aðferðum við leit og björgum.
    17. Varnir gegn mengun lífríkis sjávar.

    17.1 Kunna skil á varúðarráðstöfunum sem grípa þarf til svo að koma megi í veg fyrir mengun lífríkis sjávar.
    18. Aðferðir við að sýna hæfni.
    18.1 Stjórnvöld skulu mæla fyrir um leiðir til að sýna hæfni í viðeigandi kröfum þessa viðbætis.


Regla 5
Lögboðnar lágmarkskröfur sem fullnægja ber til að öðlast réttindi yfirvélstjóra og 2. vélstjóra á fiskiskipum með 750 kW aðalvél eða stærri.



    1. Allir yfirvélstjórar og 2. vélstjórar sem starfa á fiskiskipi sem siglir á opnu hafi og er með 750 kW aðalvél eða stærri skulu hafa viðeigandi skírteini.


    2. Allir umsækjendur um skírteini skulu:
     .1      ekki vera yngri en 18 ára;
     .2      færa stjórnvöldum sönnur á heilbrigði sitt, einkum varðandi sjón og heyrn;
     .3      vegna útgáfu skírteinis sem 2. vélstjóri hafa að baki viðurkenndan siglingatíma í vélarúmi eigi skemmri en 12 mánuði. Hins vegar má stytta þennan tíma í sex mánuði krefjist aðili sérstakrar þjálfunar sem hann metur til jafns við viðurkenndan siglingatíma sem hún kom í staðinn fyrir;
     .4      vegna útgáfu skírteinis yfirvélstjóra, hafa viðurkenndan siglingatíma eigi skemmri en 24 mánuði en af þeim tíma skulu 12 mánuðir vera vegna starfa sem fullgildur 2. vélstjóri;

     .5      hafa sótt viðurkennt námskeið í brunavörnum; og
     .6      hafa staðist viðeigandi próf með fullnægjandi hætti að mati stjórnvalda. Slík próf eiga að ná til þess efnis sem getið er í viðbætinum við þessa reglu. Aðili getur þó breytt kröfum um próf og viðurkenndan siglingatíma yfirmanna á fiskiskipum sem sigla á takmörkuðu hafsvæði en þó skal ávallt tekið tillit til vélarafls og áhrifa á öryggi allra fiskiskipa sem sigla á sama svæði.


    3. Við menntun og þjálfun til þess að öðlast nauðsynlega fræðilega þekkingu og verklega reynslu á að hafa hliðsjón af viðeigandi alþjóðareglum og tilmælum.
    4. Kröfur um kunnáttu samkvæmt hinum ýmsu greinum viðbætisins geta verið mismunandi eftir því hvort um er að ræða skírteini yfirvélstjóra eða 2. vélstjóra.


Viðbætir við reglu 5
Lágmarksþekking sem krafist er til að öðlast réttindi yfirvélstjóra og 2. vélstjóra á fiskiskipum með 750 kW aðalvél eða stærri.



    1. Eftirfarandi námsskrá skal vera undirstaða prófs sem lagt er fyrir þá sem vilja öðlast réttindi yfirvélstjóra og 2. vélstjóra á fiskiskipum með 750 kW. aðalvél eða stærri. Með það í huga að 2. vélstjóri kann að þurfa að taka að sér ábyrgð yfirvélstjóra hvenær sem er er prófum í þessum greinum ætlað að prófa hæfni nemandans til að hagnýta allar upplýsingar sem fyrir hendi eru og varða öruggan rekstur vélbúnaðar fiskiskipsins.


    2. Hvað varðar greinar 3.4 og 4.1 hér á eftir getur aðili fellt niður kröfur um þekkingu á öðrum gerðum vélbúnaðar en þeirri sem viðkomandi skírteini nær til. Skírteini sem gefið er út samkvæmt þessu gildir ekki til starfa við vélbúnað, sem ekki er tilgreindur í því, fyrr en vélstjórinn hefur fært sönnur á hæfni sína á því sviði að mati aðila. Allar slíkar takmarkanir skulu skráðar á skírteinið.


    3. Allir umsækjendur skulu hafa næga fræðilega undirstöðuþekkingu til að skilja þau meginlögmál sem gilda í eftirtöldum greinum:
     .1      brunaferli;
     .2      varmaflutningi;
     .3      vélfræði og vatnsvélafræði;
     .4      eftir því sem við á:
           .4.1      dísilvélum;
           .4.2      skipagufuvélum;
           .4.3      skipagashverflum;
     .5      stýrisbúnaði;
     .6      eiginleikum eldsneytis og smurefna;
     .7      eiginleikum efna;
     .8      slökkviefnum;
     .9      rafbúnaði skipa;
     .10      sjálfvirkni, tækjabúnaði og stjórnkerfum;

     .11      smíði fiskiskipa, þ.m.t. stöðugleika, og aðgerðir til að draga úr skemmdum;
     .12      hjálparkerfi; og
     .13      kælikerfi.
    4. Allir umsækjendur skulu hafa nægilega verklega þekkingu í a.m.k. eftirtöldum greinum:
     .1      rekstri og viðhaldi á, eftir því sem við á:
           .1.1      skipadísilvélum;
           .1.2      skipagufuvélum;
           .1.3      skipagashverflum;
     .2      rekstri og viðhaldi hjálparvéla, þ.m.t. stýrisbúnaðar;

     .3      rekstri, prófun og viðhaldi raf- og stjórntækja;

     .4      viðhaldi veiðibúnaðar og vélbúnaðar á þilfari;

     .5      greiningu bilana, staðsetningu bilana og úrræðum til að koma í veg fyrir skemmdir;
     .6      skipulagningu öruggra aðferða við viðhald og viðgerðir;
     .7      aðferðum til að koma í veg fyrir eldsvoða og finna þá, slökkva eld og notkun viðeigandi hjálpartækja;
     .8      reglugerðum sem framfylgja ber varðandi mengun sjávar og aðferðum og ráðum til að koma í veg fyrir slíka mengun;

     .9      skyndihjálp vegna meiðsla sem búast má við í vélarúmum og notkun viðeigandi tækja;

     .10      verkun og notkun tækja til björgunar mannslífa;
     .11      aðferðum við að draga úr skemmdum, einkum með tilliti til þeirra úrræða sem grípa skal til ef sjór streymir inn í vélarúm; og
     .12      öruggum vinnuaðferðum.
    5. Allir umsækjendur skulu hafa þekkingu á alþjóðasiglingalögum, eins og þau koma fram í alþjóðasamningum og alþjóðasamþykktum, hvað varðar skyldur og ábyrgð starfsmanna í vélarúmi, einkum hvað varðar öryggismál og varnir gegn mengun sjávar. Stjórnvöldum hvers lands er í sjálfsvald sett hverrar þekkingar þau krefjast í siglingalögum síns lands en þó ber að krefjast þekkingar á ráðstöfunum innan lands til að framfylgja alþjóðasamningum og alþjóðasamþykktum.
    6. Allir umsækjendur skulu hafa þekkingu á verkstjórn, skipulagningu og þjálfun um borð í fiskiskipum.

Regla 6
Lágmarkskröfur sem fullnægja ber til að öðlast réttindi starfsmanna sem bera ábyrgð á eða annast fjarskipti um borð í fiskiskipum.

     Skýring.
    
Reglur varðandi fjarskiptavakt eru í alþjóðaradíóreglugerðinni og Torremolinos-bókuninni frá 1993. Reglur um viðhald eru í Torremolinos-bókuninni frá 1993 og leiðbeiningum samþykktum af stofnuninni.


     Gildissvið.
    1. Ákvæði þessarar reglu skulu taka til starfsmanna sem bera ábyrgð á eða annast fjarskipti á skipi sem ber samkvæmt alþjóðasamningum eða landsrétti að hafa fjarskiptabúnað sem notar tíðni og alþjóðlega neyðar- og öryggiskerfi fjarskipta á sjó (GMDSS), sbr. þó 2. gr.

    2. Áhafnir skipa þar sem fjarskiptabúnaður þarf ekki að vera samkvæmt alþjóðasamningum eða landsrétti þurfa ekki að fullnægja skilyrðum þessarar reglu, en skulu engu að síður fylgja ákvæðum alþjóðaradíóreglugerðarinnar. Stjórnvöld skulu tryggja að viðeigandi skírteini skuli gefin út eða viðurkennd til slíkra starfsmanna sem fullnægja ákvæðum alþjóðaradíóreglugerðarinnar.

    Lágmarkskröfur fyrir útgáfu skírteina starfsmanna GMDSS-fjarskipta.
    
1. Allir sem bera ábyrgð á eða annast fjarskipti um borð í skipi skulu vera handhafar viðeigandi skírteinis eða skírteina sem gefin eru út eða viðurkennd af stjórnvöldum samkvæmt ákvæðum Alþjóðaradíóreglugerðarinnar.
    2. Lágmarksþekking, skilningur og hæfni sem krafist er vegna útgáfu skírteinis samkvæmt þessari reglu skal vera fullnægjandi fyrir starfsmenn fjarskipta til að annast fjarskipti með öruggum og fullnægjandi hætti.
    3. Allir umsækjendur um skírteini skulu:
     .1      ekki vera yngri en 18 ára að aldri;
     .2      færa stjórnvöldum sönnur á heilbrigði sitt, einkum varðandi sjón og heyrn; og
     .3      fullnægja kröfum viðauka við reglu þessa.

    4. Allir umsækjendur um skírteini skulu gangast undir próf þannig að fullnægjandi sé að mati aðila.

    5. Við áritun allra tegunda skírteina sem gefin eru út samkvæmt ákvæðum alþjóðaradíóreglugerðarinnar og fullnægja kröfum samþykktarinnar eru gerðar kröfur í viðbæti við þessa reglu um þekkingu, skilning og hæfni. Þegar ákveðin eru viðeigandi stig þekkingar, menntunar og þjálfunar skal aðili einnig taka mið af viðeigandi meðmælum stofnunarinnar.


Viðbætir við reglu 6
Lágmarkskröfur um viðbótarþekkingu,menntun og þjálfun starfsmanna GMDSS-fjarskipta.

    1. Allir umsækjendur um skírteini skulu auk þess að uppfylla kröfur um útgáfu skírteinis samkvæmt alþjóðaradíóreglugerðinni hafa þekkingu á:

     .1      ákvæðum um fjarskiptaþjónustu í neyðartilvikum;
     .2      fjarskiptum við leit og björgun, þ.m.t. handbók Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um leit og björgun kaupskipa. (The Merchant Ship Search and Rescue Manual – MERSAR);
     .3      leiðum til að koma í veg fyrir að falskt neyðarkall sé sent og leiðir til að draga úr áhrifum falsks neyðarkalls sem sent hefur verið út;
     .4      tilkynningarkerfi skipa;
     .5      læknisþjónustu gegnum fjarskipti;
     .6      notkun á alþjóðamerkjakerfinu (International Code of Signals) og á stöðluðum orðalista stofnunarinnar um fjarskipti (Standard Marine Communication Phrases); og
     .7      fyrirbyggjandi ráðstöfunum vegna öryggis skipsins og áhafnar í tengslum við hættu sem fjarskiptabúnaður getur valdið, þ.m.t. á raflosti og útgeislun.

Regla 7
Lágmarkskröfur sem fullnægja ber til að tryggja áframhaldandi hæfni og endurmenntun skipstjóra, yfirmanna og vélstjóra.

    1. Allir skipstjórar eða yfirmenn sem hafa skírteini og starfa á sjó eða ætla að hverfa aftur á sjóinn eftir nokkurn tíma í landi skulu til þess að geta talist áfram fullgildir til starfa á sjó færa stjórnvöldum sönnur á eftirfarandi atriði með eigi lengra millibili en fimm árum:
     .1      heilbrigði, einkum varðandi sjón og heyrn; og

     .2      siglingatíma sem skipstjóri eða yfirmaður a.m.k. í eitt ár á síðustu fimm árum, eða

     .3      með því að hafa innt af hendi störf sem jafna má til viðkomandi skírteinis og teljast a.m.k. sambærileg við siglingatímann sem krafist er skv. 1.2. mgr., eða með því að:

           .3.1      standast viðurkennt próf; eða
           .3.2      ljúka á fullnægjandi hátt viðurkenndu námskeiði eða viðeigandi námskeiðum fyrir skipstjóra og yfirmenn sem starfa á fiskiskipum, sérstaklega fyrir þá sem eru að koma aftur til starfa á þeim skipum; eða
           .3.3      hafa að baki viðurkenndan siglingatíma sem yfirmaður í a.m.k. þrjá mánuði á fiskiskipi sem aukamaður rétt áður en hann hlaut það starfsstig, sem hann á tilkall til samkvæmt skírteini sínu.

    2. Endurmenntunarnámskeið sem krafist er samkvæmt þessari reglu skulu vera samþykkt af stjórnvöldum og hafa að geyma texta nýlegra breytinga á alþjóðareglum um öryggi mannslífa og varnir gegn mengun sjávar.
    3. Stjórnvöld skulu tryggja að texti nýlegra breytinga á alþjóðareglum um öryggi mannslífa og varna gegn mengun sjávar sé tiltækur mönnum á skipum sem sigla í lögsögu þeirra.


Regla 8
Lágmarkskröfur sem fullnægja ber til að tryggja áframhaldandi hæfni og endurmenntun starfsmanna GMDSS-fjarskipta.

    1. Allir starfsmenn GMDSS-fjarskipta, sem eru handhafar skírteinis eða skírteina sem gefin eru út eða viðurkennd af aðila, skulu til að viðhalda hæfni til að starfa á sjó fullnægja kröfum aðila hvað varðar eftirfarandi atriði:
     .1      heilbrigði, einkum varðandi sjón og heyrn, með reglulegu millibili sem ekki er lengra en fimm ár; og
     .2      hæfni í starfi:
           .2.1      með staðfestum siglingatíma við fjarskiptastörf a.m.k. í eitt ár á síðustu fimm árum; eða

           .2.2      með því að sinna störfum sem jafna má til staðfests siglingatíma sem krafist er samkvæmt grein 1.2.1; eða



           .2.3      með því að ljúka viðurkenndu prófi eða standast með fullnægjandi hætti viðurkennt þjálfunarnámskeið á sjó eða í landi sem skal hafa að geyma atriði sem varða með beinum hætti öryggi mannslífa á hafinu og með tilliti til þess skírteinis sem viðkomandi er handhafi að í samræmi við kröfur Torremolinos-bókunarinnar frá 1993.
    2. Þegar nýjar venjur, búnaður eða vinnubrögð eru lögbundin í skipum sem sigla undir fána aðila getur aðili krafið starfsmenn GMDSS-fjarskipta að gangast undir viðurkennt próf eða standast með fullnægjandi hætti viðeigandi þjálfunarnámskeið á sjó eða í landi með sérstöku tilliti til skyldna á sviði öryggis.
    3. Stjórnvöld skulu tryggja að texti nýlegra breytinga á alþjóðareglum um öryggi mannslífa og varna gegn mengun sjávar sé tiltækur mönnum á skipum sem sigla í lögsögu þeirra.


III. KAFLI
Grundvallarmenntun og þjálfun áhafnar fiskiskips.

Regla 1
Grundvallarmenntun og þjálfun áhafnar fiskiskips.


    1. Áhöfn fiskiskips skal áður en hún tekur á sig nokkrar skyldur um borð í skipinu fá grundvallarmenntun og þjálfun, sem staðfest er af stjórnvöldum, í eftirfarandi greinum:
     .1      hvernig halda á lífi í sjó, þ.m.t. hvernig klæðast á björgunarvestum og, eftir því sem við á, björgunarbúningum;
     .2      brunavörnum og slökkvistarfi;
     .3      neyðarúrræðum;
     .4      skyndihjálp;
     .5      vörnum gegn mengun sjávar; og
     .6      slysavörnum um borð.
    2. Stjórnvöld skulu við framkvæmd á ákvæðum 1. mgr. ákveða hvort og að hve miklu leyti ákvæði þessi skuli taka til áhafna lítilla fiskiskipa eða áhafna sem þegar starfa á fiskiskipum.


IV. KAFLI
Vaktstaða.

Regla 1
Grundvallaratriði sem fylgja ber við siglingavakt um borð í fiskiskipum.

    1. Stjórnvöld skulu vekja athygli skipseiganda og útgerðarstjóra fiskiskipa, skipstjóra og þeirra sem ganga vaktir á eftirfarandi grundvallaratriðum sem hafa ber í huga til að tryggja að ávallt sé staðin örugg vakt.
    2. Skipstjóri á hverju fiskiskipi skal tryggja að fyrirkomulag vakta sé á þann veg að ávallt sé staðin örugg siglingavakt. Undir yfirumsjón skipstjóra eru stýrimenn ábyrgir fyrir öruggri siglingu skipsins á sinni vakt og ber þeim sérstaklega að varast árekstur og strand.


    3. Um borð í öllum fiskiskipum á að hafa til hliðsjónar þau grundvallaratriði sem hér eru talin upp en er þó ekki tæmandi upptalning. Þrátt fyrir það getur aðili undanskilið mjög lítil fiskiskip sem sigla á takmörkuðu hafsvæði frá því að fylgja þessum grundvallarreglum að öllu leyti.
     4. Leið til og frá fiskimiðum.
    
4.1 Fyrirkomulag siglingavaktar.
    
4.1.1 Vakt skal ávallt valin og mönnuð nægilega og eftir aðstæðum hverju sinni og þess gætt að hafa dyggilegan útvörð.

    4.1.2 Þegar skipuð er vakt í brúnni skal ásamt öðru hafa eftirtalin atriði í huga:

     .1      að brúin má aldrei vera mannlaus;

     .2      veðurskilyrði, skyggni og hvort bjart er af degi eða dimmt af nóttu;
     .3      nálægð yfirvofandi hættu fyrir siglingar sem kann að gera það brýnt að yfirmaður á vakt fylgist enn nánar með siglingu skipsins;

     .4      notkun og ganghæfni siglingatækja eins og ratsjár eða annarra nútímastaðarákvörðunartækja sem og allra tækja er koma að notum við örugga siglingu skipsins;
     .5      hvort skipið er búið sjálfstýringu; og

     .6      óvenjulegt álag á þá sem standa siglingavakt og kann að leiða af sérstökum aðstæðum vegna siglingar skipsins.
    4.2 Hæfni til skyldustarfa.
    
Fyrirkomulag vakta skal vera með þeim hætti að þreyta dragi ekki úr árvekni þeirra sem standa vaktir. Þær skal setja þannig að þeir sem taka fyrstu vakt í upphafi sjóferðar og síðan þeir sem leysa af og ganga næstu vaktir séu nægilega hvíldir og að öðru leyti vel á sig komnir til að gegna skyldustörfum.
    4.3 Sigling.
    
4.3.1 Væntanlega siglingaleið skal ákvarða fyrir fram að því marki sem unnt er og skal þá hafa til hliðsjónar og athuga allar handbærar upplýsingar um leiðina. Allar stefnur sem settar hafa verið út í kort skal sannprófa og mæla upp áður en sjóferðin hefst.
    4.3.2 Á vakt skal með reglulegu millibili og nægilega oft sannreyna stýrða stefnu skipsins, stað þess og hraða með notkun allra nauðsynlegra siglingatækja sem fyrir hendi eru til að tryggja að skipið sigli eftir útsettri stefnu.
    4.3.3 Yfirmaður á vakt skal vita nákvæmlega um staðsetningu allra öryggis- og siglingatækja um borð í skipinu og þekkja notkun þeirra til hlítar. Yfirmanni skulu enn fremur vera ljós takmörk þessara tækja og við notkun þeirra skal hann taka mið af því.
    4.3.4 Yfirmaður á siglingavakt skal ekki taka að sér né skulu honum falin nein þau skyldustörf sem gætu truflað örugga siglingu skipsins.

    4.4 Siglingatæki.
    
4.4.1 Yfirmaður á vakt skal nota til hins ítrasta öll siglingatæki sem hann hefur yfir að ráða.

    4.4.2 Við notkun ratsjár skal yfirmaður á vakt hafa í huga að nauðsynlegt er að fylgja í hvívetna reglum um notkun ratsjár sem eru í viðeigandi reglugerðum til að koma í veg fyrir árekstra á sjó.

    4.4.3 Ef þörf krefur skal yfirmaður á siglingavakt ekki hika við að nota stýri, vélarafl og hljóð- og ljósmerkjatæki skipsins.
    4.5 Skyldur og ábyrgð vegna siglingar skipsins.
    
4.5.1 Yfirmaður vaktar skal:
     .1      standa vakt í brúnni;
     .2      ekki víkja af stjórnpalli undir neinum kringumstæðum fyrr en hann hefur verið leystur af vakt á tilhlýðilegan og viðunandi hátt;
     .3      hafa áfram ábyrgð á öruggri siglingu skipsins þrátt fyrir nærveru skipstjóra á stjórnpalli og þar til skipstjóri tilkynnir honum sérstaklega að hann taki sjálfur að sér ábyrgð á vaktinni og sé gagnkvæmur skilningur þeirra milli á því;
     .4      hafa samband við skipstjóra ef hann er í nokkrum vafa um hvað gera skuli til að tryggja öryggi skipsins; og
     .5      ekki skila af sér vakt til yfirmanns sem á að leysa hann af hafi hann ástæðu til að ætla að sá sem taka á við sé augljóslega ekki fær um að gegna skyldustörfum sínum af árvekni og öryggi og skal þetta tilkynnt skipstjóra.
    4.5.2 Þegar yfirmaður leysir af vakt skal hann sannreyna ágiskaðan eða athugaðan stað skipsins, útsetta stefnu í korti, stýrða stefnu og hraða og gæta að hvers konar hættum sem búast má við á vaktinni við siglingu skipsins.

    4.5.3 Halda skal nákvæma leiðarbók eða dagbók um siglingu skipsins og annað það sem gerist á vaktinni og varðar siglingu skipsins.
    4.6 Útvörður.
    4.6.1 Ætíð skal halda dyggilegan útvörð í samræmi við 5. reglu alþjóðasiglingareglnanna frá 1972, en með dyggilegum útverði er markmiðið að:

     .1      að gæta með stöðugri árvekni, jafnt með auga og eyra sem og öllum tiltækum tækjum, sérstaklega að öllum breytingum er geta skipt máli þar sem skipið er statt;
     .2      að leggja fullkomið mat á það sem er að gerast og hver hætta sé á árekstri, strandi og öðrum hættum fyrir siglingu skipsins; og
     .3      að sjá skip eða flugvélar sem eru í nauðum stödd, skipreika fólk, flök, rekgóss og aðrar hættur fyrir örugga siglingu skipa.
    4.6.2 Þegar ákveðið er hvernig siglingavakt sé valin og mönnuð svo að fullnægjandi sé til að tryggja að ávallt sé staðinn öruggur útvörður skal skipstjóri taka tillit til allra viðkomandi atriða, þar á meðal þeirra sem nefnd eru í 4.1. mgr. sem og eftirfarandi atriða:
     .1      skyggni, veðurs og sjólags;
     .2      fjölda skipa á siglingaleið og annarra umsvif þar sem skipið siglir;
     .3      árvekni, sem er brýn, þegar siglt er á eða nærri aðskildum siglingaleiðum eða eftir öðrum fyrirmælum um ákveðna siglingaleið;
     .4      viðbótarvinnuálags vegna þeirra verkefna sem skipið er í, væntanlegra umsvifa og stjórntaka innan mjög skamms tíma;
     .5      stjórnar stýris og skrúfu og hvernig skipið lætur að stjórn;
     .6      starfshæfni allra í áhöfn skipsins sem eru reiðubúnir, verði þeir kallaðir á vakt;

     .7      reynslu og þekkingu yfirmanna á hæfni annarra yfirmanna og áhafnar skipsins;

     .8      reynslau yfirmanna á siglingavakt, þekkingu þeirra á útbúnaði skipsins, daglegum rekstri og vinnureglum ásamt því hvernig skipið lætur að stjórn;
     .9      umsvifa um borð á hverjum tíma, þ.m.t. fjarskipta og hvernig eigi að að kalla umsvifalaust á aðstoð í brúnni ef þess gerist þörf;

     .10      gangfærni tækja og stjórnborða í brúnni, þ.m.t. viðvörunarkerfi;

     .11      stærðar skipsins og sjónsviðs frá stjórnpalli;

     .12      hvernig brúin er byggð og innréttuð með tilliti til þess að það gæti komið í veg fyrir að vaktmaður sæi eða heyrði hvað væri að gerast í námunda við skipið; og
     .13      allra annarra gildandi öryggisreglna, fyrirmæla eða leiðbeininga sem varða fyrirkomulag vakta og starfshæfni og hafa verið samþykktar af Alþjóðasiglingamálastofnuninni.
    4.7 Umhverfisvernd sjávar.
    
Skipstjóri og yfirmaður á vakt skulu sérstaklega hafa í huga hinar alvarlegu afleiðingar sem mengun hafs og sjávarstranda vegna daglegs rekstrar skips eða óhappa getur haft. Þeir skulu gera allar hugsanlegar varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir slíka mengun, sérstaklega í samræmi við og innan ramma gildandi alþjóðareglna og hafnarreglugerða.
    4.8 Veðurskilyrði.
    
Yfirmaður siglingavaktar skal gera viðeigandi ráðstafanir og upplýsa skipstjóra ef breytingar á veðri geta haft áhrif á öryggi skipsins, þ.m.t. veðurskilyrði sem geta leitt til ísingar.
     5. Sigling með hafnsögumann um borð.
    Nærvera hafnsögumanns um borð leysir hvorki skipstjóra né yfirmann á vakt undan þeirra skyldum og skuldbindingum vegna öryggis skipsins. Skipstjóri og hafnsögumaður skulu skiptast á upplýsingum varðandi tilhögun um siglingu skipsins, aðstæður á hverjum stað, stjórnhæfni skipsins og sérstök viðbrögð þess. Skipstjóri og yfirmaður á siglingavakt skulu hafa nána samvinnu við hafnsögumann og fylgjast áfram nákvæmlega með stað skipsins og siglingu.
     6. Skip að fiskveiðum eða í leit að fiski.

    6.1 Til viðbótar grundvallaratriðum sem eru talin upp í 4. tölul. skal yfirmaður vaktar hafa eftirfarandi atriði í huga og taka tillit til:

     .1      veiða og veiðarfæra annarra skipa, einkenna eigin skips við stjórntökum, sérstaklega stöðvunarvegalengdar og þvermáls hrings þegar skipinu er snúið við á siglingu og með veiðarfæri úti;
     .2      öryggis áhafnar á þilfari;
     .3      gagnstæðra áhrifa á öryggi skipsins og áhafnarinnar vegna minnkandi stöðugleika og fríborðs sem kemur í kjölfar óvenjulegra atvika vegna veiða, meðferðar afla og hleðslu og óvenjulegrar sjávar- og veðurskilyrða;

     .4      nálægðar við landgrunn með sérstöku tilliti til áhættusvæða; og
     .5      skipsflaka og annarra hindrana neðan sjávar sem geta verið hættulegar fyrir veiðarfæri.
    6.2 Þegar afla er komið fyrir skal ætíð þegar siglt er til löndunarhafnar gæta að fullnægjandi fríborði, fullnægjandi stöðugleika og traustleika vatnsþéttra skilrúma. Taka skal tillit til birgða og eyðslu eldsneytis, möguleika á veðurbreytingum, sérstaklega að vetri til, hættu á ísingu á eða yfir óvörðu þilfari á svæðum þar sem vænta má ísingar.


     7. Akkerisvakt.
    
Skipstjóri skal, með tilliti til öryggis skipsins og áhafnarinnar, tryggja að viðeigandi vakt sé ávallt staðin í brú eða á þilfari fiskiskips sem liggur við akkeri.
     8. Fjarskiptavakt.
    
Skipstjóri skal tryggja að staðin sé fullnægjandi fjarskiptavakt þegar skipið er á sjó, á viðeigandi tíðnum samkvæmt kröfum alþjóðaradíóreglugerðarinnar.

INTERNATIONAL CONVENTION
ON STANDARDS OF TRAINING, CERTIFICATION AND WATCHKEEPING FOR FISHING VESSEL PERSONNEL, 1995


THE PARTIES TO THIS CONVENTION,

NOTING the International Convention on Standards of Training, Certification and Watchkeeping for Seafarers, 1978 (hereinafter referred to as the “1978 STCW Convention”),

DESIRING to further promote safety of life and property at sea and the protection of the marine environment by establishing in common agreement international standards of training, certification and watchkeeping for personnel employed on board fishing vessels,

CONSIDERING that this end may be best achieved by the conclusion of an International Convention on Standards of Training, Certification and Watchkeeping for Fishing Vessel Personnel, hereinafter referred to as “the Convention”,

HAVE AGREED as follows:

ARTICLE 1
General obligations

    1 The Parties undertake to give effect to the provisions of the Convention and the Annex thereto, which shall constitute an integral part of the Convention. Every reference to the Convention constitutes at the same time a reference to the Annex hereto.
    2 The Parties undertake to promulgate all laws, decrees, orders and regulations and to take all other steps which may be necessary to give the Convention full and complete effect, so as to ensure that, from the point of view of safety of life and property at sea and the protection of the marine environment, seagoing fishing vessel personnel are qualified and fit for their duties.

ARTICLE 2
Definitions

    For the purpose of the Convention, unless expressly provided otherwise:
     .1      “Party” means a State for which the Convention has entered into force.
     .2      “Administration” means the Government of the Party whose flag the vessel is entitled to fly.
     .3      “Certificate” means a valid document, by whatever name it may be known, issued or recognized in accordance with the provisions of the Convention, authorizing the holder to serve as stated in this document or as authorized by national regulations.
     .4      “Certificated” means properly holding a certificate.
     .5      “Organization” means the International Maritime Organization.
     .6      “Secretary-General” means the Secretary-General of the Organization.
     .7      “Fishing vessel” or “vessel” means any vessel used commercially for catching fish or other living resources of the sea.
     .8      “Seagoing fishing vessel” means a fishing vessel other than those which navigate exclusively in inland waters or in waters within, or closely adjacent to, sheltered waters or areas where port regulations apply.

ARTICLE 3
Application

    The Convention shall apply to personnel serving on board seagoing fishing vessels entitled to fly the flag of a Party.

ARTICLE 4
Communication of information

    Each Party shall communicate to the Secretary- General the following information:
     .1      a report on the measures it has taken to give full and complete effect to the provisions of the Convention, including a specimen of certificates issued in compliance with the Convention; and
     .2      other information which may be specified or provided for in regulation I/5.

ARTICLE 5
Other treaties and interpretation

    1 All prior treaties, conventions and arrangements relating to standards of training, certification and watchkeeping for fishing vessel personnel in force between the Parties, shall continue to have full and complete effect during the terms thereof as regards:
     .1      fishing vessel personnel to whom this Convention does not apply; and
     .2      fishing vessel personnel to whom this Convention applies, in respect of matters for which it has not expressly provided.
    2 To the extent, however, that such treaties, conventions or arrangements conflict with the provisions of the Convention, the Parties shall review their commitments under such treaties, conventions and arrangements with a view to ensuring that there is no conflict between these commitments and their obligations under the Convention.
    3 All matters which are not expressly provided for in the Convention remain subject to the legislation of Parties.

ARTICLE 6
Certification

    Fishing vessel personnel shall be certificated in accordance with the provisions of the Annex to this Convention.

ARTICLE 7
National provisions

    1 Each Party shall establish processes and procedures for the impartial investigation of any reported incompetency, act or omission, that may pose a direct threat to safety of life or property at sea or to the marine environment, by the holders of certificates or endorsements issued by that Party in connection with their performance of duties related to their certificates and for the withdrawal, suspension and cancellation of such certificates for such cause and for the prevention of fraud.
    2 Each Party shall prescribe penalties or disciplinary measures for cases in which the provisions of its national legislation giving effect to this Convention are not complied with in respect of vessels entitled to fly its flag or of fishing vessel personnel duly certificated by that Party.
    3 In particular, such penalties or disciplinary measures shall be prescribed and enforced in cases in which:
     .1      an owner, owner's agent or skipper has engaged a person not holding a certificate as required by this Convention;

     .2      a skipper has allowed any function or service in any capacity required by these regulations to be performed by a person holding an appropriate certificate to be performed by a person not holding an appropriate certificate or dispensation; or
     .3      a person has obtained by fraud or forged documents an engagement to perform any function or serve in any capacity required by these regulations to be performed or filled by a person holding a certificate or dispensation.
    4 A Party within whose jurisdiction there is based an owner or owner's agent or any person who is believed on clear grounds to have been responsible for, or to have knowledge of, any apparent non-compliance with the Convention specified in paragraph 3, shall extend all co-operation possible to any Party which advises it of its intention to initiate proceedings under its jurisdiction.

ARTICLE 8
Control

    1 Fishing vessels, while in the port of another Party, are subject to control by officers duly authorized by that Party to verify that all persons serving on board who are required to be certificated by this Convention are so certificated or hold an appropriate dispensation.
    2 In the event of failure to correct any deficiency referred to in paragraph 3 of regulation I/4 in so far as it poses a danger to persons, property or the environment, the Party carrying out the control shall take steps to ensure that the vessel will not sail unless and until these requirements are met to the extent that the danger has been removed. The facts concerning the action taken shall be reported promptly to the Secretary-General and to the Administration.
    3 When exercising control:
     .1      1 all possible efforts shall be made to avoid a vessel being unduly detained or delayed. If a vessel is unduly detained or delayed, it shall be entitled to compensation for any loss or damage resulting therefrom; and
     .2      the discretion allowed in the case of the personnel of foreign fishing vessels shall not be less than that afforded to the personnel of vessels flying the flag of the port State.
    4 This article shall be applied as may be necessary to ensure that no more favourable treatment is given to a vessel entitled to fly the flag of a non-Party than is given to a vessel entitled to fly the flag of a Party.

ARTICLE 9
Promotion of technical co-operation

    1 Parties to the Convention shall promote, in consultation with and with the assistance of the Organization, support for those States which request technical assistance for the:
     .1      training of administrative and technical personnel;
     .2      establishment of institutions for training of fishing vessel personnel;
     .3      supply of equipment and facilities for training institutions;
     .4      development of adequate training programmes, including practical training on seagoing fishing vessels; and
     .5      facilitation of other measures and arrangements to enhance the qualifications of fishing vessel personnel,
preferably on a national, sub-regional or regional basis, to further the aims and purposes of the Convention, taking into account the special needs of developing countries in this regard.
    2 On its part, the Organization shall pursue the aforesaid efforts, as appropriate, in consultation or association with other international organizations, particularly the International Labour Organization and the Food and Agriculture Organization of the United Nations.

ARTICLE 10
Amendments

    1 The Convention may be amended by either of the procedures specified in this article.
    2 Amendments after consideration within the Organization:
     .1      Any amendment proposed by a Party shall be submitted to the Secretary-General, who shall then circulate it to all Members of the Organization, to all the Parties and to the Director- General of the International Labour Office and of the Food and Agriculture Organization of the United Nations respectively, at least six months prior to its consideration.
     .2      Any amendment proposed and circulated as above shall be referred to the Maritime Safety Committee of the Organization for consideration.
     .3      Parties whether or not Members of the Organization shall be entitled to participate in the proceedings of the Maritime Safety Committee for the consideration and adoption of amendments.
     .4      Amendments shall be adopted by a two-thirds majority of the Parties present and voting in the Maritime Safety Committee, expanded as provided for in paragraph 2.3 (hereinafter referred to as “the expanded Maritime Safety Committee”), on condition that at least one- third of the Parties shall be present at the time of voting.
     .5      Amendments adopted in accordance with paragraph 2.4 shall be communicated by the Secretary-General to all the Parties.
     .6      An amendment to an article shall be deemed to have been accepted on the date on which it is accepted by two-thirds of the Parties.
     .7      An amendment to the Annex or to an appendix to the Annex shall be deemed to have been accepted:
           .7.1      at the end of two years from the date of adoption; or
           .7.2      at the end of a different period, which shall not be less than one year, if so determined at the time of its adoption by a two-thirds majority of the Parties present and voting in the expanded Maritime Safety Committee.
        If, within the specified period, more than one- third of the Parties notify the Secretary-General that they object to the amendment, it shall be deemed not to have been accepted.
     .8      An amendment to an article shall enter into force, with respect to those Parties which have accepted it, six months after the date on which it is deemed to have been accepted, and with respect to each Party which accepts it after that date, six months after the date of that Party's acceptance.
     .9      An amendment to the Annex and to an appendix to the Annex shall enter into force with respect to all Parties, except those which have objected to the amendment under paragraph 2.7 and which have not withdrawn such objections, six months after the date on which it is deemed to have been accepted. However, before the date set for entry into force any Party may give notice to the Secretary-General that it exempts itself from giving effect to that amendment for a period not longer than one year from the date of its entry into force, or for such longer period as may be determined by a two-thirds majority of the Parties present and voting in the expanded Maritime Safety Committee at the time of the adoption of the amendment.
    3 Amendment by a Conference:
     .1      Upon the request of a Party concurred with by at least one-third of the Parties, the Organization shall convene, in association or consultation with the Director-General of the International Labour Office and of the Food and Agriculture Organization of the United Nations respectively, a Conference of the Parties to consider amendments to the present Convention.
     .2      Every amendment adopted by such a Conference by a two-thirds majority of the Parties present and voting shall be communicated by the Secretary-General to all the Parties for acceptance.
     .3      Unless the Conference decides otherwise, the amendment shall be deemed to have been accepted and shall enter into force in accordance with the procedures specified in paragraphs 2.6 and 2.8 or 2.7 and 2.9 respectively, provided that references in those paragraphs to the expanded Maritime Safety Committee shall be taken to mean references to the Conference.
    4 Any declaration of acceptance of, or objection to, an amendment or any notice given under paragraph 2.9 shall be submitted in writing to the Secretary-General, who shall inform all Parties of any such submission and the date of its receipt.

    5 The Secretary-General shall inform all the Parties of any amendments which enter into force, together with the date on which each such amendment enters into force.

ARTICLE 11
Signature, ratification, acceptance, approval and accession

    1 The Convention shall remain open for signature at the Headquarters of the Organization from 1 January 1996 until 30 September 1996 and shall thereafter remain open for accession. States may become Parties to the Convention by:
     .1      signature without reservation as to ratification, acceptance or approval; or
     .2      signature subject to ratification, acceptance or approval, followed by ratification, acceptanceor approval; or
     .3      accession.
    2 Ratification, acceptance, approval or accession shall be effected by the deposit of an instrument to that effect with the Secretary-General.

ARTICLE 12
Entry into force

    1 The Convention shall enter into force 12 months after the date on which not less than 15 States have either signed it without reservation as to ratification, acceptance, or approval, or have deposited the requisite instruments of ratification, acceptance, approval or accession in accordance with article 11.
    2 For States which have deposited an instrument of ratification, acceptance, approval or accession in respect of the Convention after the requirements for entry into force thereof have been met but prior to the date of entry into force, the ratification, acceptance, approval or accession shall take effect on the date of entry into force of the Convention or three months after the date of deposit of the instrument, whichever is the later date.
    3 For States which have deposited an instrument of ratification, acceptance, approval or accession after the date on which the Convention entered into force, the Convention shall become effective three months after the date of deposit of the instrument.
    4 After the date on which an amendment to the Convention is deemed to have been accepted under article 10, any instrument of ratification, acceptance, approval or accession deposited shall apply to the Convention as amended.

ARTICLE 13
Denunciation

    1 The Convention may be denounced by any Party at any time after the expiry of five years from the date on which the Convention enters into force for that Party.
    2 Denunciation shall be effected by notification in writing to the Secretary-General.
    3 A denunciation shall take effect 12 months after receipt of the denunciation by the Secretary- General or after the expiry of any longer period which may be indicated in the notification.

ARTICLE 14
Depositary

    1 The Convention shall be deposited with the Secretary-General of the Organization (hereinafter referred to as “the depositary”).
    2 The depositary shall:
     .1      inform the Governments of all States which have signed the Convention or acceded theretoof:
           .1.1      each new signature or deposit of an instrument of ratification, acceptance, approval or accession, together with the date thereof;
           .1.2      the date of entry into force of the Convention;
           .1.3      the deposit of any instrument of denunciation of the Convention, together with the date on which it was received and the date on which the denunciation takes effect; and
     .2      transmit certified true copies of the Convention to the Governments of all States which have signed the present Convention or acceded thereto.
    3 As soon as the Convention enters into force a certified true copy thereof shall be transmitted by the depositary to the Secretary-General of the United Nations, for registration and publication in accordance with Article 102 of the Charter of the United Nations.

ARTICLE 15
Languages

    The Convention is established in a single original in the Arabic, Chinese, English, French, Russian and Spanish languages, each text being equally authentic.

IN WITNESS WHEREOF the undersigned, being duly authorized by their respective Governments for that purpose, have signed the Convention.
DONE AT LONDON, this seventh day of July, one thousand nine hundred and ninety five.

ANNEX

CHAPTER I
GENERAL PROVISIONS

Regulation 1
Definitions

    For the purpose of this Annex the following definitions apply.
    1 “Regulations” means regulations contained in the Annex to the Convention.
    2 “Approved” means approved by the Party in accordance with the regulations.
    3 “Skipper” means the person having command of a fishing vessel.
    4 “Officer” means a member of the crew, other than the skipper, designated as such by national law or regulations or, in the absence of such designation, by collective agreement or custom.
    5 “Officer in charge of a navigational watch” means an officer qualified in accordance with regulation II/2 or II/4 of this Convention.
    6 “Engineer officer” means an officer qualified in accordance with regulation II/5 of this Convention.
    7 “Chief engineer officer” means the senior engineer officer responsible for the mechanical propulsion and operation and maintenance of mechanical and electrical installations of the vessel.
    8 “Second engineer officer” means the engineer officer next in rank to the chief engineer officer and upon whom the responsibility for the mechanical propulsion and the operation and maintenance of the mechanical and electrical installations of the vessel will fall in the event of the incapacity of the chief engineer officer.
    9 “Radio operator” means a person holding an appropriate certificate issued or recognized by an Administration under the provisions of the Radio Regulations.
    10 “Radio Regulations” means the Radio Regulations annexed to, or regarded as being annexed to, the most recent International Telecommunication Convention which may be in force at any time.
    11 “1978 STCW Convention” means the International Convention on Standards of Training, Certification and Watchkeeping for Seafarers, 1978, as amended.
    12 “1993 Torremolinos Protocol” means the Torremolinos Protocol of 1993 relating to the Torremolinos International Convention for the Safety of Fishing Vessels, 1977.
    13 “Propulsion power” means the total maximum continuous rated output power in kilowatts of all the vessel's main propulsion machinery which appears on the vessel's certificate of registry or other official document.
    14 “Limited waters” means those waters in the vicinity of a Party as defined by its Administration within which a degree of safety is considered to exist which enables the standards of qualification and certification for skippers and officers of fishing vessels to be set at a lower level than for service outside the defined limits. In determining the extent of limited waters the Administration shall take into consideration the guidelines developed by the Organization.
    15 “Unlimited waters” means waters beyond limited waters.
    16 “Length” (L) shall be taken as 96 per cent of the total length on a waterline at 85 per cent of the least moulded depth measured from the keel line, or as the length from the foreside of the stem to the axis of the rudder stock on that waterline, if that be greater. In vessels designed with rake of keel the waterline on which this length is measured shall be parallel to the designed waterline.
    17 “Moulded depth” is the vertical distance measured from the keel line to the top of the working deck beam at side.

Regulation 2
Application

    The Administration of a Party, if it considers it unreasonable or impracticable to apply the full requirements of regulations II/3, II/4 and II/5 and the requirement of the use of English language to personnel serving on board a fishing vessel of less than 45 metres in length operating exclusively from its ports and fishing within its limited waters, may determine which of these regulations should not apply, wholly or in part, to such personnel, without derogation from the principles of safety in the Convention. In such a case, the Administration concerned shall report to the Secretary-General on the details of the measures it has taken with respect to the training and certification of such personnel.

Regulation 3
Certificates and endorsements

    1 Certificates for fishing vessel personnel shall only be issued if the requirements for service, age, medical fitness, training, qualification and examinations are met in accordance with these regulations.
    2 A certificate issued by a Party in compliance with paragraph 1 shall be endorsed by that Party attesting the issue of that certificate in the form as prescribed in appendix 1 or appendix 2 .
    3 Certificates and endorsements shall be issued in the official language or languages of the issuing country. If the language used is not English, the text shall include a translation into that language.

    4 In respect of radio operators, Parties may:
     .1      include the additional knowledge required by regulation II/6 in the examination for the issue of a certificate complying with the Radio Regulations; or
     .2      issue a separate certificate indicating that the holder has the additional knowledge required by regulation II/6.
    5. The Administration which has recognized a certificate issued by or under the authority of another Party in compliance with regulation 7 shall issue an endorsement attesting the recognition of that certificate in the form prescribed in appendix 3.
    6 The endorsement shall expire as soon as the certificate endorsed expires or is withdrawn, suspended or cancelled by the Party which issued it and, in any case, not more than five years after the date of issue.
    7 Any appropriate certificate issued under the provisions of the 1978 STCW Convention, for the holder to serve as a Chief Engineer Officer, an Engineer Officer or Radio Operator shall be deemed to be a corresponding certificate for the purposes of paragraph 1 with regard to fishing vessels.
    8 Subject to the variations permitted under appendices 1, 2 and 3, Administrations may use a format different from the format given in those appendices provided that such format contains, as a minimum, the required information and that the particulars are inserted in Roman characters and Arabic figures.

Regulation 4
Control procedures

    1 Control exercised by a duly authorized officer under article 8 shall be limited to the following:

     .1      verification that all fishing vessel personnel serving on board who are required to be certificated by this Convention are so certificated or hold the required dispensation. Such certificates shall be accepted unless there are clear grounds for believing that a certificate has been fraudulently obtained or that the holder of a certificate is not the person to whom that certificate was originally issued; and
     .2      assessment of the ability of the fishing vessel personnel to maintain watchkeeping standards as required by the Convention if there are clear grounds for believing that such standards are not being maintained, because the following have occurred:
           .2.1      the vessel has been involved in a collision, grounding or stranding; or
           .2.2      there has been a discharge of substances from the vessel when underway, at anchor or at berth which is illegal under international conventions; or
           .2.3      the vessel has been manoeuvred in an erratic or unsafe manner, whereby routeing measures adopted by the Organization, or safe navigation practices and procedures, have not been followed; or
           .2.4      the vessel is otherwise being operated in such a manner as to pose a danger to persons, property or the environment.
    2 In the event that deficiencies are found under paragraph 1, the officer carrying out the control shall forthwith inform, in writing, the skipper of the vessel and the Administration, so that appropriate action may be taken. Such notification shall specify the details of the deficiencies found and the grounds on which the Party determines that these deficiencies pose a danger to persons, property or the environment.
    3 Deficiencies which may be deemed to pose a danger to persons, property or the environment include the following:
     .1      failure of persons, required to hold a certificate, to have an appropriate certificate or dispensation;
     .2      failure of navigational or engineering watch arrangements to conform to the requirements specified for the vessel by the Administration;
     .3      absence in a watch of a person qualified to operate equipment essential to safe navigation, safety radiocommunications or the prevention of pollution; or
     .4      inability to provide rested persons for the first watch at the commencement of a voyage, and for subsequent relieving watches.

Regulation 5
Communication of information

    1 The Secretary-General shall, on request, provide Parties with any information communicated to him under article 4.
    2 A Party which fails to communicate information required by article 4 within twenty-four months after the date of entry into force of the Convention for a Party shall not be entitled to claim the privileges of this Convention until such time as the information has been received by the Secretary-General.

Regulation 6
Administration of certification arrangements

    1 Each Party undertakes to establish and maintain a means of ensuring that programmes incorporating such instruction and practical training as is necessary to achieve the competency standards are regularly monitored to ensure their effectiveness.
    2 Each Party undertakes, to the extent practicable, to maintain a register or registers of all certificates and endorsements specified in regulations 3 and II/1 to II/6 which are issued, have expired, or have been revalidated, reported lost, suspended or cancelled, and of dispensations issued, and provide information on the status of such certificates, endorsements and dispensations when so requested by another Party.

Regulation 7
Recognition of certificates

    1 Each Administration shall ensure, in order to recognize, by endorsement in accordance with regulation 3, a certificate issued by or under the authority of another Party, that the requirements for standards of competence, as well as the issue and endorsement of certificates by that Party, are fully complied with.
    2 Certificates issued by or under the authority of a non-Party shall not be recognized.

    3 Notwithstanding the requirement of paragraph 1 of this regulation and paragraph 5 of regulation 3, an Administration may, if circumstances require, allow a person to serve for a period not exceeding three months on board a vessel entitled to fly its flag while holding an appropriate and valid certificate issued by another Party without it being endorsed as required by paragraph 5 of regulation 3 provided that documented proof is made available that application for an endorsement has been submitted to the Administration.

Regulation 8
Transitional provisions

    1 A certificate of competency or of service in a capacity for which this Convention requires a certificate and which before entry into force of the Convention for a Party is issued in accordance with the laws of that Party or the Radio Regulations, shall be recognized as valid for service after entry into force of the Convention for that Party.
    2 After the entry into force of the Convention for a Party, it may continue to issue certificates of competency in accordance with its previous practices for a period not exceeding five years. Such certificates shall be recognized as valid for the purpose of the Convention. During this transitional period such certificates shall be issued only to persons who had commenced their sea service before entry into force of the Convention for that Party within the specific ship department to which those certificates relate. The Party shall ensure that all other candidates for certification shall be examined and certificated in accordance with the Convention.
    3 A Party may, within two years after entry into force of the Convention for that Party, issue a certificate of service to fishing vessel personnel who hold neither an appropriate certificate under the Convention nor a certificate of competency issued under its laws before entry into force of the Convention for that Party but who have:
     .1      served in the capacity for which they seek a certificate of service for not less than three years at sea within the last seven years preceding entry into force of the Convention for that Party;
     .2      produced evidence that they have performed that service satisfactorily; and
     .3      satisfied the Party as to medical fitness, including eyesight and hearing, taking into account their age at the time of application.
For the purpose of the Convention, a certificate of service issued under this paragraph shall be regarded as the equivalent of a certificate issued under the Convention.

Regulation 9
Dispensation

    1 In circumstances of exceptional necessity, an Administration, if in its opinion this will not cause danger to persons, property or the environment, may issue a dispensation permitting a person to serve in a specified fishing vessel for a specified period not exceeding six months in a capacity, other than that of the radio operator, except as provided by the relevant Radio Regulations, for which the person does not hold the appropriate certificate, provided that the person to whom the dispensation is issued shall be adequately qualified to fill the vacant post in a safe manner, to the satisfaction of the Administration.
    2 Any dispensation granted for a post shall be granted only to a person properly certificated to fill the post immediately below it. Where certification of the post below is not required by the Convention, a dispensation may be issued to a person whose competence and experience are, in the opinion of the Administration, clearly equivalent to the requirements for the post to be filled, provided that, if such a person holds no appropriate certificate, the person shall be required to pass a test accepted by the Administration as demonstrating that such a dispensation may safely be issued. In addition, the Administration shall ensure that the post in question is filled by the holder of an appropriate certificate as soon as possible.
    3 Each Party shall as soon as possible after 1 January each year send a report to the Secretary- General giving information of the total number of dispensations in respect of each capacity for which a certificate is required, including nil returns.

Regulation 10
Equivalents

    1 The Convention shall not prevent a Party from retaining or adopting other educational and training arrangements, including those involving seagoing service and shipboard organization especially adapted to technical developments and to special types of vessels, provided that the level of seagoing service, knowledge and efficiency as regards navigational and technical handling of vessels ensures a degree of safety at sea and has a preventive effect as regards pollution at least equivalent to the requirements of the Convention.
    2 Details of such arrangements shall be included in the report under article 4.

CHAPTER II
CERTIFICATION OF SKIPPERS, OFFICERS, ENGINEER OFFICERS AND RADIO OPERATORS

Regulation 1
Mandatory minimum requirements for certification of skippers on fishing vessels of 24 metres in length and over operating in unlimited waters


    1 Every skipper on a fishing vessel of 24 metres in length and over operating in unlimited waters shall hold an appropriate certificate.
    2 Every candidate for certification shall:
     .1      satisfy the Party as to medical fitness, particularly regarding eyesight and hearing;
     .2      meet the requirements for certification as an officer in charge of a navigational watch on fishing vessels of 24 metres in length and over operating in unlimited waters, and have approved seagoing service of not less than 12 months as an officer in charge of a navigational watch or skipper on fishing vessels of not less than 12 metres in length. However, the Party may allow the substitution of a period not exceeding six months of approved seagoing service as an officer in charge of a navigational watch on seagoing ships covered by the 1978 STCW Convention; and
     .3      have passed an appropriate examination or examinations for assessment of competence to the satisfaction of the Party. Such examination or examinations shall include the material set out in the appendix to this regulation. A candidate for examination who holds a valid certificate of competency issued in accordance with the provisions of the 1978 STCW Convention need not be re-examined in those subjects listed in the appendix which were passed at a higher or equivalent level for issue of the Convention certificate.

Appendix to Regulation 1
Minimum knowledge required for certification of skippers on fishing vessels of 24 metres in length and over operating in unlimited waters

    1 The syllabus given below is compiled for examination of candidates for certification as skippers on fishing vessels of 24 metres in length and over operating in unlimited waters. Bearing in mind that the skipper has ultimate responsibility for the safety of the vessel and its crew at all times including during fishing operations, examination in these subjects shall be designed to test that the candidate has assimilated properly all available information that affects the safety of the vessel and its crew in accordance with the syllabus.
     2 Navigation and position determination
    2.1 Voyage planning and navigation for all conditions:
     .1      by acceptable methods of determining ocean tracks;
     .2      within restricted waters;
     .3      where applicable, in ice;
     .4      in restricted visibility;
     .5      where applicable, in traffic separation schemes; and
     .6      in areas affected by tides or currents.

    2.2 Position determination:
     .1      by celestial observations;
     .2      by terrestrial observations, including the ability to use bearings from landmarks and aids to navigation such as lighthouses, beacons and buoys in conjunction with appropriate charts, notices to mariners and other publications to assess the accuracy of the resulting position fix; and
     .3      by using, to the satisfaction of the Party, modern ship electronic navigational aids as provided in fishing vessels, with specific reference to knowledge of their operating principles, limitations, sources of error, detection of misrepresentation of information and methods of correction to obtain accurate position fixing.

     3 Watchkeeping
    3.1 Demonstrate thorough knowledge of the content, application and intent of the International Regulations for Preventing Collisions at Sea, 1972, specially Annexes II and IV concerned with safe navigation.
    3.2 Demonstrate knowledge of Basic Principles to be Observed in Keeping a Navigational Watch as prescribed in chapter IV.
     4 Radar navigation
    4.1 Demonstrate using a radar simulator or, when not available, manoeuvring board knowledge of the fundamentals of radar and ability in the operation and use of radar, and in the interpretation and analysis of information obtained from the equipment including the following:
     .1      factors affecting performance and accuracy;

     .2      setting up and maintaining displays;
     .3      detection of misrepresentation of information, false echoes, sea return;
     .4      range and bearing;
     .5      identification of critical echoes;
     .6      course and speed of other ships;
     .7      time and distance of closest approach of crossing, meeting or overtaking ships;

     .8      detecting course and speed changes of other ships;
     .9      effect of changes in own vessel's course or speed or both; and
     .10      application of the International Regulations for Preventing Collisions at Sea, 1972.
     5 Magnetic and gyro-compasses
    5.1 Ability, using terrestrial and celestial means, to determine and apply the errors of the magnetic and gyro-compasses.
     6 Meteorology and oceanography
    6.1 Knowledge of meteorological instruments and their application.
    6.2 Ability to apply meteorological information available.
    6.3 Knowledge of characteristics of various weather systems, including, at the discretion of the Party, tropical revolving storms and avoidance of storm centres and the dangerous quadrants.
    6.4 Knowledge of weather conditions, such as fog, liable to endanger the vessel.
    6.5 Ability to use appropriate navigational publications on tides and currents.
    6.6 Ability to calculate times and heights of high and low water and estimate the direction and rate of tidal streams.
     7 Fishing vessel manoeuvring and handling
    7.1 Manoeuvring and handling of a fishing vessel in all conditions including the following:
     .1      berthing, unberthing and anchor work under various conditions of wind and tide;
     .2      manoeuvring in shallow water;
     .3      management and handling of fishing vessels in heavy weather, including appropriate speed, particularly in following and quartering seas, assisting a ship or aircraft in distress, means of keeping an unmanageable vessel out of a sea trough and lessening drift;

     .4      manoeuvring the vessel during fishing operations, with special regard to factors which could adversely affect the vessel's safety during such operations;
     .5      precautions in manoeuvring for launching rescue boats or survival craft in bad weather;
     .6      methods of taking on board survivors from rescue boats or survival craft;
     .7      where applicable, practical measures to be taken when navigating in ice, icebergs or conditions of ice accretion on board the vessel;
     .8      the use of, and manoeuvring in, traffic separation schemes;
     .9      the importance of navigating at reduced speed to avoid damage caused by own vessel's bow or stern wave;
     .10      transferring fish at sea to factory ships or other vessels; and
     .11      refuelling at sea.
     8 Fishing vessel construction and stability
    8.1 General knowledge of the principal structural members of a vessel and the proper names of the various parts.
    8.2 Knowledge of the theories and factors affecting trim and stability and measures necessary to preserve safe trim and stability.

    8.3 Demonstrate ability to use stability data, stability and trim tables and pre-calculated operating conditions.
    8.4 Knowledge of effects of free surfaces and ice accretion, where applicable.
    8.5 Knowledge of effects of water on deck.
    8.6 Knowledge of the significance of weathertight and watertight integrity.
     9 Catch handling and stowage
    9.1 The stowage and securing of the catch on board vessels, including fishing gear.
    9.2 Loading and discharging operations, with special regard to heeling moments from gear and catch.
     10 Fishing vessel power plants
    10.1 Operating principles of marine power plants in fishing vessels.
    10.2 Vessel's auxiliary machinery.
    10.3 General knowledge of marine engineering terms.
     11 Fire prevention and fire-fighting appliances
    11.1 Organization of fire drills.
    11.2 Classes and chemistry of fire.
    11.3 Fire-fighting systems.
    11.4 Participation in an approved fire-fighting course.
    11.5 Knowledge of provisions concerning fire- fighting equipment.
     12 Emergency procedures
    12.1 Precautions when beaching a vessel.

    12.2 Action to be taken prior to, and after, grounding.
    12.3 Action to be taken when the gear becomes fast to the ground or other obstruction.
    12.4 Floating a grounded vessel, with and without assistance.
    12.5 Action to be taken following a collision.
    12.6 Temporary plugging of leaks.
    12.7 Measures for the protection and safety of crew in emergencies.
    12.8 Limiting damage and salving the vessel following a fire or explosion.
    12.9 Abandoning ship.
    12.10 Emergency steering, rigging, and use of jury steering and the means of rigging a jury rudder, where practicable.
    12.11 Rescuing persons from a ship in distress or from a wreck.
    12.12 Man-overboard procedures.
    12.13 Towing and being towed.
     13 Medical care
    13.1 Knowledge of first aid procedures.
    13.2 Knowledge of procedures for obtaining medical advice by radio.
    13.3 A thorough knowledge of the use of the following publications:
    .1 International Medical Guide for Ships or equivalent national publications; and

    .2 Medical section of the International Code of Signals.
     14 Maritime law
    14.1 A knowledge of international maritime law as embodied in the international agreements and conventions as they affect the specific obligations and responsibilities of the skipper, particularly those concerning safety and the protection of the marine environment. Particular regard shall be paid to the following subjects:
     .1      certificates and other documents required to be carried on board fishing vessels by international conventions, how they may be obtained and the period of their legal validity;
     .2      responsibilities under the relevant requirements of the 1993 Torremolinos Protocol;
     .3      responsibilities under the relevant requirements of chapter V of the International Convention for the Safety of Life at Sea, 1974;
     .4      responsibilities under Annex I and Annex V of the International Convention for the Prevention of Pollution from Ships, 1973, as modified by the Protocol of 1978 thereto;
     .5      maritime declarations of health and the requirements of the international health regulations;
     .6      responsibilities under the Convention on International Regulations for Preventing Collisions at Sea, 1972; and
     .7      responsibilities under other international instruments affecting the safety of the ship and crew.
    14.2 The extent of knowledge of national maritime legislation is left to the discretion of the Party, but shall include national arrangements for implementing applicable international agreements and conventions.
     15 English language
    Adequate knowledge of the English language enabling the skipper to use charts and other nautical publications, to understand meteorological information and measures concerning the vessel's safety and operation, and to communicate with other ships or coast stations. Ability to understand and use the IMO Standard Marine Communication Phrases.


     16 Communications
    16.1 General knowledge of the principles and basic factors necessary for the safe and efficient use of all sub-systems and equipment required by the Global Maritime Distress and Safety System (GMDSS).
    16.2 Knowledge of navigational and meteorological warning systems and the selection of the appropriate communication services.
    16.3 Knowledge of the adverse effect of misuse of such communication equipment.
    16.4 Where the Party has examined candidates in these subjects at lower levels of certification, they may have the option of not re-examining in these subjects.
    16.5 Ability to transmit and receive signals by Morse light and to use the International Code of Signals.
     17 Life-saving
    17.1 A thorough knowledge of life-saving appliances and arrangements.
    17.2 A thorough knowledge of emergency procedures, musters and drills.
     18 Search and rescue
    18.1 A thorough knowledge of the Merchant Ship Search and Rescue Manual (MERSAR).


     19 The FAO/ILO/IMO Code of Safety for Fishermen and Fishing Vessels


    19.1 Knowledge of part A of the FAO/ILO/IMO Code of Safety for Fishermen and Fishing Vessels
     20 Methods for demonstration of proficiency
    20.1 Navigation
    20.1.1 Demonstrate the use of sextant, pelorus, azimuth mirror and ability to plot position course and bearings.
    20.2 Demonstrate thorough knowledge of the content, application and intent of the Convention on the International Regulations for Preventing Collisions at Sea, 1972
    20.2.1 By the use of small models displaying proper signals or lights or by the use of a navigation light simulator.
    20.3 Radar
    20.3.1 By observation of radar simulators or manoeuvring boards.
    20.4 Fire fighting
    20.4.1 By participation in an approved fire- fighting course.
    20.5 Communications
    20.5.1 By practical test.
    20.6 Life-saving
    20.6.1 By handling of life-saving appliances, including the donning of lifejackets and, as appropriate immersion suit.

Regulation 2
Mandatory minimum requirements for certification of officersin charge of a navigational watch on fishing vessels of 24 metres in length and over operating in unlimited waters

    1 Every officer in charge of a navigational watch on a fishing vessel of 24 metres in length and over operating in unlimited waters shall hold an appropriate certificate.
    2 Every candidate for certification shall:
     .1      be not less than 18 years of age;
     .2      satisfy the Party as to medical fitness, particularly regarding eyesight and hearing;
     .3      have approved seagoing service of not less than two years in the deck department on fishing vessels of not less than 12 metres in length. However, the Administration may allow the substitution of the seagoing service by a period of special training not exceeding one year, provided that the period of the special training programme shall be at least equivalent in value to the period of the required seagoing service it substitutes or by a period of approved seagoing service evidenced by an approved record book covered by the 1978 STCW Convention.
     .4      have passed an appropriate examination or examinations for the assessment of competency to the satisfaction of the Party. Such examination or examinations shall include the material set out in the appendix to this regulation. A candidate for examination who holds a valid certificate of competency issued in accordance with the provisions of the 1978 STCW Convention need not be re-examined in those subjects listed in the appendix which were passed at a higher or equivalent level for issue of the Convention certificate;
     .5      meet the applicable requirements of regulation 6, as appropriate for performing designated radio duties in accordance with the Radio Regulations.

Appendix to Regulation 2
Minimum knowledge required for certification of officers in charge of a navigational watch on fishing vessels of 24 metres in length and over operating in unlimited waters

    1 The syllabus given below is compiled for examination of candidates for certification as officers in charge of a navigational watch on fishing vessels of 24 metres in length and over operating in unlimited waters.
     2 Celestial navigation
    Ability to use a celestial body to determine compass errors.
     3 Terrestrial and coastal navigation

    3.1 Ability to determine the vessel's position by the use of:
     .1      landmarks;
     .2      aids to navigation, including lighthouses, beacons and buoys; and
     .3      dead reckoning, taking into account winds, tides, currents, speed by propeller revolutions per minute and by log.

    3.2 Thorough knowledge of and ability to use navigational charts and publications such as sailing directions, tide tables, notices to mariners and radio navigational warnings.
     4 Radar navigation
    4.1 Demonstrate using a radar simulator or, when not available, manoeuvring board knowledge of the fundamentals of radar and ability in the operation and use of radar, and in the interpretation and analysis of information obtained from the equipment including the following:
     .1      factors affecting performance and accuracy;

     .2      setting up and maintaining displays;
     .3      detection of misrepresentation of information, false echoes, sea return;
     .4      range and bearing;
     .5      identification of critical echoes;
     .6      course and speed of other ships;
     .7      time and distance of closest approach of crossing, meeting or overtaking ships;

     .8      detecting course and speed changes of other ships;
     .9      effect of changes in own vessel's course or speed or both; and
     .10      application of the International Regulations for Preventing Collisions at Sea, 1972.
     5 Watchkeeping
    5.1 Demonstrate thorough knowledge of the content, application and intent of the International Regulations for Preventing Collisions at Sea, 1972, especially Annexes II and IV concerned with safe navigation.
    5.2 Demonstrate knowledge of the content of the Basic Principles to be Observed in Keeping a Navigational Watch as prescribed in chapter IV.
     6 Electronic systems of position-fixing and navigation
    6.1 Ability to determine the ship's position by the use of electronic navigational aids to the satisfaction of the Party.
     7 Meteorology
    7.1 Knowledge of shipborne meteorological instruments and their application.
    7.2 Knowledge of the characteristics of the various weather systems.
     8 Magnetic and gyro-compasses
    8.1 Care and use of compasses and associated equipment.
     9 Communications
    9.1 General knowledge of the principles and basic factors necessary for the safe and efficient use of all sub-systems and equipment required by the Global Maritime Distress and Safety System (GMDSS).
    9.2 Knowledge of navigational and meteorological warning systems and the selection of the appropriate communication circuits.
    9.3 Knowledge of the adverse effect of misuse of such communication equipment.
     10 Fire prevention and fire-fighting appliances
    10.1 Knowledge of classes and chemistry of fire.
    10.2 Knowledge of fire-fighting systems and procedures.
    10.3 Participation in an approved fire-fighting course.
     11 Life-saving
    Ability to direct abandon ship drills and knowledge of the operations of life-saving appliances and their equipment, including the two-way radio-telephone apparatus. Survival at-sea techniques including participation in an approved survival at-sea course.
     12 Emergency procedures and safe working practices for fishing vessel personnel
    Knowledge of the items listed in the appropriate sections of the FAO/ILO/IMO Code of Safety for Fishermen and Fishing Vessels, part A, and in chapter VIII of the Annex to the 1993 Torremolinos Protocol.
     13 Fishing vessel manoeuvring and handling
    13.1 Basic knowledge of manoeuvring and handling a fishing vessel, including the following:
     .1      berthing, unberthing, anchoring and manoeuvring alongside other vessels at sea;

     .2      manoeuvring during fishing operations with special regard to factors which could adversely affect the vessel's safety during such operations;
     .3      effects of wind, tide and current on ship handling;
     .4      manoeuvring in shallow water;
     .5      management of fishing vessels in heavy weather;
     .6      rescuing persons and assisting a ship or aircraft in distress;
     .7      towing and being towed;
     .8      man-overboard procedure; and
     .9      where applicable, practical measures to be taken when navigating in ice or in conditions of ice accretion on board the vessel.
     14 Fishing vessel construction
    General knowledge of the principal structural members of a vessel.
     15 Vessel stability
    Demonstrate ability to use stability data, stability and trim tables and pre-calculated operating conditions.
     16 Catch handling and stowage
    Knowledge of safe handling and stowage of catch and the effect of these factors on the safety of the vessel.
     17 English language
    Adequate knowledge of the English language enabling the officer to use charts and other nautical publications, to understand meteorological information and messages concerning ship's safety and operation. Ability to understand and use the IMO Standard Marine Communication Phrases.

     18 Medical aid
    Knowledge of first aid procedures. Practical application of medical guides and advice by radio.

     19 Search and rescue
    Adequate knowledge of search and rescue procedures based on the Merchant Ship Search and Rescue Manual (MERSAR).

     20 Prevention of pollution of the marine environment
    Knowledge of the precautions to be observed to prevent pollution of the marine environment.

     21 Methods to demonstrate proficiency
    The Party shall prescribe methods for the demonstration of proficiency in relevant requirements of this appendix.

Regulation 3
Mandatory minimum requirements for certification of skippers on fishing vessels of 24 metres in length and over operating in limited waters

    1 Every skipper on a fishing vessel of 24 metres in length and over operating in limited waters shall, unless they hold certificates issued in compliance with regulation 1, hold an appropriate certificate issued in compliance with at least the provisions of this regulation.
    2 Every candidate for certification shall:
     .1      satisfy the Party as to medical fitness, particularly regarding eyesight and hearing;
     .2      meet the requirements for certification as an officer in charge of a navigational watch on fishing vessels of 24 metres in length and over operating in limited or unlimited waters, and have approved seagoing service of not less than 12 months as an officer in charge of a navigational watch or skipper on fishing vessels of not less than 12 metres in length. However, a Party may allow the substitution of a period not exceeding six months of approved seagoing service as officer in charge of a navigational watch on merchant ships;
     .3      have passed an appropriate examination or examinations for the assessment of competency to the satisfaction of the Party. Such examination or examinations shall include the material set out in the appendix to this regulation.
    3 The Party, bearing in mind the effect on the safety of all ships and structures which may be operating in the same limited waters, should consider the limited waters it has defined in accordance with the definition given in regulation I/1 and determine any additional material that should be included in the examination or examinations.
    4 A candidate for examination who holds a valid certificate of competency issued in accordance with the provision of the 1978 STCW Convention need not be re-examined in those subjects listed in the appendix which were passed at a higher or equivalent level for issue of the Convention certificate.

Appendix to Regulation 3
Minimum knowledge required for certification of skippers on fishing vessels of 24 metres in length and over operating in limited waters

    1 The syllabus given below is compiled for examination of candidates for certification as skippers on fishing vessels of 24 metres in length and over operating in limited waters. Bearing in mind that the skipper has ultimate responsibility for the safety of the vessel and its crew at all times including during fishing operations, examination in these subjects shall be designed to test that the candidate has assimilated properly all available information that affects the safety of the vessel and its crew in accordance with the syllabus.
     2 Navigation and position determination
    2.1 Voyage planning and navigation for all conditions:
     .1      by acceptable methods of determining tracks;

     .2      within restricted waters;
     .3      where applicable, in ice;
     .4      in restricted visibility;
     .5      where applicable, in traffic separation schemes; and
     .6      in areas affected by tides or currents.

    2.2 Position determination:
     .1      by terrestrial observations, including the ability to use bearings from landmarks and aids to navigation such as lighthouses, beacons and buoys in conjunction with appropriate charts, notices to mariners and other publications, and assessment of the accuracy of the resulting position fix; and
     .2      by using, to the satisfaction of the Party, modern ship electronic navigational aids as provided in the fishing vessels concerned.
     3 Watchkeeping
    3.1 Demonstrate thorough knowledge of the content, application and intent of the International Regulations for Preventing Collisions at Sea, 1972, especially Annexes II and IV concerned with safe navigation.
    3.2 Demonstrate knowledge of Basic Principles to be Observed in Keeping a Navigational Watch as prescribed in chapter IV.
     4 Radar navigation
    4.1 The Party shall decide whether or not to incorporate the radar syllabus below in the general requirements for certification of skippers. If the Party decides not to include the syllabus in the general requirements, it shall ensure that the syllabus is taken into account for purposes of certification of skippers serving on vessels fitted with radar equipment and plying within limited waters.
    4.2 Demonstrate using a radar simulator or, when not available, manoeuvring board, knowledge of the fundamentals of radar and ability in the operation and use of radar, and in the interpretation and analysis of information obtained from the equipment including the following:
     .1      factors affecting performance and accuracy;

     .2      setting up and maintaining displays;
     .3      detection of misrepresentation of information, false echoes, sea return;
     .4      range and bearing;
     .5      identification of critical echoes;
     .6      course and speed of other ships;
     .7      time and distance of closest approach of crossing, meeting or overtaking ships;

     .8      detecting course and speed changes of other ships;
     .9      effect of changes in own vessel's course or speed or both; and
     .10      application of the International Regulations for Preventing Collisions at Sea, 1972.
     5 Compasses
    5.1 Ability to determine and apply compass errors.
     6 Meteorology and oceanography
    6.1 Knowledge of meteorological instruments and their application.
    6.2 Ability to apply meteorological information available.
    6.3 Knowledge of characteristics of various weather systems affecting the limited waters concerned, at the discretion of the Party.
    6.4 Knowledge of weather conditions affecting the limited waters concerned liable to endanger the vessel, at the discretion of the Party.
    6.5 Where applicable, ability to use appropriate navigational publications on tides and currents.
     7 Fishing vessel manoeuvring and handling
    7.1 Manoeuvring and handling of a fishing vessel in all conditions including the following:
     .1      berthing, unberthing and anchor work under various conditions of wind and tide;
     .2      manoeuvring in shallow water;
     .3      management and handling of fishing vessels in heavy weather, including appropriate speed, particularly in following and quartering seas, assisting a ship or aircraft in distress, means of keeping an unmanageable vessel out of a sea trough and lessening drift;

     .4      manoeuvring the vessel during fishing operations with special regard to factors which could adversely affect the vessel's safety during such operations;
     .5      precautions in manoeuvring for launching rescue boats or survival craft in bad weather;
     .6      methods of taking on board survivors from rescue boats or survival craft;
     .7      where applicable, practical measures to be taken when navigating in ice or conditions of ice accretion on board the vessel;
     .8      where applicable, the use of, and manoeuvring in, traffic separation schemes;

     .9      the importance of navigating at reduced speed to avoid damage caused by own vessel's bow or stern wave; and
     .10      transferring fish at sea to factory ships or other vessels.
    8 Fishing vessel construction and stability
    8.1 General knowledge of the principal structural members of a vessel and the proper names of the various parts.
    8.2 Knowledge of the theories and factors affecting trim and stability and measures necessary to preserve safe trim and stability.

    8.3 Demonstrate ability to use stability data, stability and trim tables and pre-calculated operating conditions.
    8.4 Where applicable, knowledge of effects of free surfaces and ice accretion.
    8.5 Knowledge of effects of water on deck.
    8.6 Knowledge of the significance of weathertight and watertight integrity.
     9 Catch handling and stowage
    9.1 The stowage and securing of catch on board vessels, including fishing gear.
    9.2 Loading and discharging operations, with special regard to heeling moments from gear and catch.
     10 Fishing vessel power plants
    10.1 Operating principles of marine power plants in fishing vessels.
    10.2 Vessel's auxiliary machinery.
    10.3 General knowledge of marine engineering terms.
     11 Fire prevention and fire-fighting appliances
    11.1 Organization of fire drills.
    11.2 Classes and chemistry of fire.
    11.3 Fire-fighting systems.
    11.4 Participation in an approved fire-fighting course.
    11.5 Knowledge of provisions concerning fire- fighting equipment.
     12 Emergency procedures
    12.1 Precautions when beaching a vessel.

    12.2 Action to be taken prior to, and after, grounding.
    12.3 Action to be taken when the gear becomes fast to the ground or other obstruction.
    12.4 Floating a grounded vessel, with and without assistance.
    12.5 Action to be taken following a collision.
    12.6 Temporary plugging of leaks.
    12.7 Measures for the protection and safety of crew in emergencies.
    12.8 Limiting damage and salving the vessel following a fire or explosion.
    12.9 Abandoning ship.
    12.10 Emergency steering, rigging and use of jury steering and the means of rigging a jury rudder, where practicable.
    12.11 Rescuing persons from a ship in distress or from a wreck.
    12.12 Man-overboard procedures.
    12.13 Towing and being towed.
     13 Medical care
    13.1 Knowledge of first aid procedures. Practical application of medical guides and advice by radio.

    13.2 Practical application of medical guides and advice by radio, including the ability to take effective action based on such knowledge in the case of accidents or illnesses that are likely to occur on board the vessel.
     14 Maritime law
    14.1 Taking into account the limited waters as defined by the Party, a knowledge of international maritime law as embodied in the international agreements and conventions as they affect the specific obligations and responsibilities of the skipper in the waters concerned, particularly those related to safety and the protection of the marine environment.
    14.2 The extent of knowledge of national maritime legislation is left to the discretion of the Party, but should include national arrangements for implementing applicable international agreements and conventions.

     15 Life-saving
    Knowledge of life-saving appliances provided on fishing vessels. Organization of abandon ship drills and the use of the equipment.
     16 Search and rescue
    Knowledge of search and rescue procedures.

     17 The FAO/ILO/IMO Code of Safety for Fishermen and Fishing Vessels, Part A
    Knowledge of such sections of the FAO/ILO/ IMO Code of Safety for Fishermen and Fishing Vessels as may be required by the Party.
     18 Methods for demonstration of proficiency
    The Party shall prescribe appropriate methods for the demonstration of proficiency in relevant requirements of this appendix.

Regulation 4
Mandatory minimum requirements for certification of officersin charge of a navigational watch on fishing vessels of 24 metres in length and over operating in limited waters

    1 Every officer in charge of a navigational watch on a fishing vessel of 24 metres in length and over operating in limited waters shall either hold a certificate issued in compliance with regulation 2 or hold an appropriate certificate issued in compliance with at least the provisions of this regulation.
    2 Every candidate for certification shall:
     .1      be not less than 18 years of age;
     .2      satisfy the Party as to medical fitness, particularly regarding eyesight and hearing;
     .3      have approved seagoing service of not less than two years in the deck department on fishing vessels of not less than 12 metres in length. However, the Administration may allow the substitution of the seagoing service by a period of special training not exceeding one year, provided that the period of the special training programme shall be at least equivalent in value to the period of the required seagoing service it substitutes or by a period of approved seagoing service evidenced by an approved record book covered by the 1978 STCW Convention;
     .4      have passed an appropriate examination or examinations for assessment of competency to the satisfaction of the Party. Such examination or examinations shall include the material set out in the appendix to this regulation. A candidate for examination who holds a valid certificate of competency issued in accordance with the provisions of the 1978 STCW Convention need not be re-examined in those subjects listed in the appendix which were passed at a higher or equivalent level for issue of the Convention certificate; and
     .5      meet the applicable requirements of regulation 6, as appropriate for performing designated radio duties in accordance with the Radio Regulations.

Appendix to Regulation 4
Minimum knowledge required for certification of officers in charge of a navigational watch on fishing vessels of 24 metres in length and over operating in limited waters

    1 The syllabus given below is compiled for examination of candidates for certification as officers in charge of a navigational watch on fishing vessels of 24 metres in length and over operating in limited waters.
     2 Terrestrial and coastal navigation

    2.1 Ability to determine the vessel's position by the use of:
     .1      landmarks;
     .2      aids to navigation, including lighthouses, beacons and buoys; and
     .3      dead reckoning, taking into account winds, tides, currents and speed by propeller revolutions per minute and by log.

    2.2 Thorough knowledge of and ability to use navigational charts and publications such as sailing directions, tide tables, notices to mariners and radio navigational warnings.
     3 Radar navigation
    3.1 The Party shall decide whether or not to incorporate the radar syllabus below in the general requirements for certification of officers in charge of a navigational watch. If the Party decided not to include the syllabus in the general requirements, it shall ensure that the syllabus is taken into account for purposes of certification of officers in charge of a navigational watch serving on vessels fitted with radar equipment and plying within limited waters.
    3.2 Demonstrate using a radar simulator or, when not available, manoeuvring board, knowledge of the fundamentals of radar and ability in the operation and use of radar, and in the interpretation and analysis of information obtained from the equipment including the following:
     .1      factors affecting performance and accuracy;

     .2      setting up and maintaining displays;
     .3      detection of misrepresentation of information, false echoes, sea returns;
     .4      range and bearing;
     .5      identification of critical echoes;
     .6      course and speed of other ships;
     .7      time and distance of closest approach of crossing, meeting or overtaking ships;

     .8      detecting course and speed changes of other ships;
     .9      effect of changes in own vessel's course or speed or both; and
     .10      application of the International Regulations for Preventing Collisions at Sea, 1972.
     4 Watchkeeping
    4.1 Demonstrate thorough knowledge of the content, application and intent of the International Regulations for Preventing Collisions at Sea, 1972, specially Annexes II and IV concerned with safe navigation.
    4.2 Demonstrate knowledge of the content of Basic Principles to be Observed in Keeping a Navigational Watch as prescribed in chapter IV.
     5 Electronic systems of position fixing and navigation
    5.1 Ability to determine the ship's position by the use of electronic navigational aids, where applicable, to the satisfaction of the Party.
     6 Meteorology
    6.1 Knowledge of shipborne meteorological instruments and their application.
    6.2 Knowledge of the characteristics of the various weather systems affecting the limited waters concerned.
     7 Compasses
    7.1 Ability to determine and apply compass errors.
     8 Fire fighting
    8.1 Knowledge of fire prevention and use of fire- fighting appliances.
    8.2 Participation in an approved fire-fighting course.
     9 Life-saving
    9.1 Knowledge of life-saving appliances provided on fishing vessels. Organization of abandon ship drills and the use of the equipment.
    9.2 Participation in an approved survival at-sea course.
     10 Emergency procedures and safe working practices for fishing vessel personnel
    10.1 Knowledge of the items listed in the appropriate sections of the FAO/ILO/IMO Code of Safety for Fishermen and Fishing Vessels, part A, and in chapter III of the Annex to the 1993 Torremolinos Protocol.
     11 Fishing vessel manoeuvring and handling
    11.1 Basic knowledge of manoeuvring and handling a fishing vessel, including the following:
     .1      berthing, unberthing, anchoring and manoeuvring alongside other vessels at sea;

     .2      manoeuvring during fishing operations with special regard to factors which could adversely affect the vessels during such operations;
     .3      effects of wind and tide/current on ship handling;
     .4      manoeuvring in shallow water;
     .5      management of fishing vessels in heavy weather;
     .6      rescuing persons and assisting a ship or aircraft in distress;
     .7      towing and being towed;
     .8      man-overboard procedure; and
     .9      where applicable, practical measures to be taken when navigating in ice or in conditions of ice accretion on board the vessel.
     12 Vessel stability
    12.1 Demonstrate ability to use stability data, stability and trim tables and pre-calculated operating conditions.
     13 Catch handling
    13.1 Knowledge of safe handling and stowage of catch and the effect of these factors on the safety of the vessel.
     14 Fishing vessel construction
    14.1 General knowledge of the principal structural members of a vessel.
     15 Medical aid
    15.1 Knowledge of first aid procedures. Practical application of medical guides and advice by radio.

     16 Search and rescue
    16.1 Knowledge of search and rescue procedures.

     17 Prevention of pollution of the marine environment
    17.1 Knowledge of the precautions to be observed to prevent pollution of the marine environment.
     18 Methods to demonstrate proficiency
    18.1 The Party shall prescribe methods for the demonstration of proficiency in relevant requirements of this appendix.

Regulation 5
Mandatory minimum requirements for certification of chief engineer officers and second engineer officers of fishing vessels powered by main propulsion machinery of 750 kW propulsion power or more

    1 Every chief engineer officer and second engineer officer serving on a seagoing fishing vessel powered by main propulsion machinery of 750 kW propulsion power or more shall hold an appropriate certificate.
    2 Every candidate for certification shall:
     .1      be not less than 18 years of age;
     .2      satisfy the Party as to medical fitness, including eyesight and hearing;
     .3      for certification as second engineer officer, have not less than 12 months approved seagoing service in the engine-room; however, this period may be reduced to not less than 6 months if the Party requires special training which it considers to be equivalent to the approved seagoing service it replaces;
     .4      for certification as chief engineer officer, have not less than 24 months approved seagoing service, of which not less than 12 months shall be served while qualified to serve as second engineer officer;
     .5      have participated in an approved practical fire- fighting course; and
     .6      have passed an appropriate examination for the assessment of competency to the satisfaction of the Party. Such examination shall include the material set out in the appendix to this regulation, except that the Party may vary the requirements for examination and seagoing service for officers of fishing vessels engaged in voyages in limited waters bearing in mind the power of the propulsion machinery and the effect on the safety of all fishing vessels which may be operating in the same waters.
    3 Training to achieve the necessary theoretical knowledge and practical experience shall take into account relevant international regulations and recommendations.
    4 The level of knowledge required under the different paragraphs of the appendix may be varied according to whether the certificate is being issued at chief engineer officer or second engineer officer level.

Appendix to Regulation 5
Minimum knowledge required for certification of chief engineer officers and second engineer officers of fishing vesselspowered by main propulsion machinery of 750 kW propulsion power or more

    1 The syllabus given below is compiled for examination of candidates for certification as chief engineer officer or second engineer officer of fishing vessels powered by main propulsion machinery of 750 kW propulsion power or more. Bearing in mind that a second engineer officer will be in a position to assume the responsibilities of the chief engineer officer at any time, examination in these subjects shall be designed to test that the candidate has assimilated properly all available information that affects the safe operation of the fishing vessel's machinery.
    2 With respect to paragraphs 3.4 and 4.1 below, the Party may omit knowledge requirements for types of propulsion machinery other than machinery installations for which the certificate to be awarded is to be valid. A certificate awarded on such a basis shall not be valid for any category of machinery installation which has been omitted until the engineer officer proves to be competent in these items to the satisfaction of the Party. Any such limitation shall be stated in the certificate.
    3 Every candidate shall possess sufficient elementary theoretical knowledge to understand the basic principles involved in the following subjects:
     .1      combustion processes;
     .2      heat transmission;
     .3      mechanics and hydromechanics;
     .4      as appropriate:
           .4.1      marine diesel engines;
           .4.2      marine steam propulsion plant;
           .4.3      marine gas turbines;
     .5      steering gear systems;
     .6      properties of fuels and lubricants;
     .7      properties of materials;
     .8      fire-extinguishing agents;
     .9      marine electrical equipment;
     .10      automation, instrumentation and control systems;
     .11      fishing vessel construction, including stability and damage control;
     .12      auxiliary systems; and
     .13      refrigeration systems
    4 Every candidate shall possess adequate practical knowledge in at least the following subjects:
     .1      operation and maintenance of, as appropriate:
           .1.1      marine diesel engines;
           .1.2      marine steam propulsion plant;
           .1.3      marine gas turbines;
     .2      operation and maintenance of auxiliary machinery systems, including steering gear systems;
     .3      operation, testing and maintenance of electrical and control equipment;
     .4      maintenance of catch handling equipment and deck machinery;
     .5      detection of machinery malfunction, location of faults and action to prevent damage;
     .6      organization of safe maintenance and repair procedures;
     .7      methods of, and aids for, fire prevention, detection and extinction;

     .8      regulations to be observed regarding operational or accidental pollution of the marine environment and methods and aids to prevent such pollution;
     .9      first aid related to injuries which might be expected in machinery spaces and use of first aid equipment;
     .10      functions and use of life-saving appliances;

     .11      methods of damage control with specific reference to action to be taken in the event of flooding of seawater into the engine-room; and
     .12      safe working practices.
    5 Every candidate shall possess a knowledge of international law as embodied in international agreements and conventions as they affect the specific obligations and responsibilities of the engine department, particularly those concerning safety and the protection of the marine environment. The extent of knowledge of national maritime legislation is left to the discretion of the Party, but shall include arrangements for implementing international agreements and conventions.
    6 Every candidate shall possess a knowledge of personnel management, organization and training aboard fishing vessels.

Regulation 6
Mandatory minimum requirements for certification of personnel in charge of or performing radiocommunication duties on board fishing vessels

     Explanatory note
    Mandatory provisions relating to radio watchkeeping are set forth in the Radio Regulations and the 1993 Torremolinos Protocol. Provisions for radio maintenance are set forth in the 1993 Torremolinos Protocol and the guidelines adopted by the Organization.
     Application
    1 Except as provided in paragraph 2, the provisions of this regulation shall apply to personnel in charge of, or performing, radiocommunication duties on a vessel required by international agreement or national law to carry radio equipment using the frequencies and techniques of the Global Maritime Distress and Safety System (GMDSS).
    2 Personnel on vessels for which carriage of radio equipment is not compulsory under international agreements or national law are not required to meet the provisions of this regulation, but are nevertheless required to comply with the Radio Regulations. The Administration shall ensure that the appropriate certificates meeting the requirements of the Radio Regulations are issued or recognised in respect of such personnel.
     Minimum requirements for certification of GMDSS radio personnel
    1 Every person in charge of, or performing, radiocommunication duties on a vessel shall hold an appropriate certificate or certificates issued or recognised by the Administration under the provisions of the Radio Regulations.
    2 The minimum knowledge, understanding and proficiency required for certification under this regulation shall be sufficient for radio personnel to carry out their radio duties safely and efficiently.

    3 Every candidate for certification shall:
     .1      be not less than 18 years of age;
     .2      satisfy the Party as to medical fitness, particularly regarding eyesight and hearing; and
     .3      meet the requirements of the appendix to this regulation.
    4 Every candidate for certification shall be required to pass an examination or examinations to the satisfaction of the Party.
    5 For endorsement of all types of certificates issued under the provisions of the Radio Regulations as meeting the requirements of the Convention, the required knowledge, understanding and proficiency is given in the appendix to this regulation. In determining the appropriate level of knowledge and training the Party shall also take into account the relevant recommendations of the Organization.

Appendix to Regulation 6
Minimum additional knowledge and training requirements for GMDSS radio personnel

    1 In addition to satisfying the requirements for the issue of a certificate in compliance with the Radio Regulations, every candidate for certification shall have knowledge of:
     .1      provision of radio services in emergencies;

     .2      search and rescue radiocommunications, including procedures in the Merchant Ship Search and Rescue Manual (MERSAR);

     .3      the means to prevent the transmission of false distress alerts and the procedures to mitigate the effects of false distress alerts;
     .4      ship reporting systems;
     .5      radio medical services;
     .6      use of the International Code of Signals and the Standard Marine Communication Phrases; and

     .7      preventive measures for the safety of the vessel and personnel in connection with hazards related to radio equipment, including electrical and non-ionising radiation hazards.

Regulation 7
Mandatory minimum requirements to ensure the continued proficiency and updating of knowledge for skippers, officers and engineer officers

    1 Every skipper or officer holding a certificate who is serving at sea or intends to return to sea after a period ashore shall, in order to continue to qualify for seagoing service, be required at regular intervals not exceeding five years, to satisfy the Administration as to:
     .1      medical fitness, particularly regarding eyesight and hearing; and
     .2      seagoing service as skipper or officer of at least one year during the preceding five years; or
     .3      ability to perform fishing vessel operational duties relating to the duties appropriate to the grade of certificate held which are considered to be at least equivalent to the seagoing service required in paragraph 1.2, or by:
           .3.1      passing an approved test; or
           .3.2      successfully completing an approved course or course appropriate, for skippers and officers who are serving on fishing vessels, especially for re-entrants to seagoing service on these vessels; or

           .3.3      having completed approved seagoing service as an officer for a period of not less than three months on a fishing vessel in a supernumerary capacity, immediately prior to taking up the position for which the certificate is valid.
    2 The refresher and updating courses required by this regulation shall be approved by the Administration and include the text of recent changes in international regulations concerning the safety of life at sea and the protection of the marine environment.
    3 The Administration shall ensure that the texts of recent changes in international regulations concerning the safety of life at sea and the protection of the marine environment are made available to ships under its jurisdiction.

Regulation 8
Mandatory minimum requirements to ensure the continued proficiency and updating of knowledge for GMDSS radio personnel

    1 Every GMDSS radio personnel holding a certificate or certificates issued or recognized by the Party shall, in order to continue to qualify for seagoing service, be required to satisfy the Party as to the following:
     .1      medical fitness, particularly regarding eyesight and hearing, at regular intervals not exceeding five years; and
     .2      professional competence:
           .2.1      by approved seagoing service involving radiocommunication duties of at leastone year in total during the preceding five years; or
           .2.2      by virtue of having performed functions relating to the duties appropriate to the grade of certificate held which are considered to be at least equivalent to the seagoing service required in paragraph 1.2.1; or
           .2.3      by passing an approved test or successfully completing an approved training course or courses at sea or ashore which shall include those elements which areof direct relevance to the safety of life at sea, and which are applicable for the certificate that the person is holding, in accordance with the requirements of the 1993 Torremolinos Protocol.
    2 When new modes, equipment or practices are to become mandatory aboard vessels entitled to fly the flag of a Party, the Party may require GMDSS radio personnel to pass an approved test or successfully complete an appropriate training course or courses, at sea or ashore, with particular reference to safety duties.
    3 The Administration shall ensure that the texts of recent changes in international regulations relating to radiocommunications and relevant to the safety of life at sea are available to ships entitled to fly its flag.

CHAPTER III
BASIC SAFETY TRAINING FOR ALL FISHING VESSEL PERSONNEL
Regulation 1

Basic safety training for all fishing vessel personnel

    1 Fishing vessel personnel shall, before being assigned to any shipboard duties, receive basic training approved by the Administration in the following areas:
     .1      personal survival techniques including donning of lifejackets and, as appropriate, immersion suits;
     .2      fire prevention and fire fighting;
     .3      emergency procedures;
     .4      elementary first-aid;
     .5      prevention of marine pollution; and
     .6      prevention of shipboard accidents.
    2 In implementing the provisions of paragraph 1, the Administration shall determine whether and, if so to what extent, these provisions shall apply to personnel of small fishing vessels or personnel already employed on fishing vessels.

CHAPTER IV
WATCHKEEPING
Regulation 1

Basic principles to be observed in keeping a navigational watch on board fishing vessels

    1 Administrations shall direct the attention of owners and operators of fishing vessels, skippers and watchkeeping personnel to the following principles, which shall be observed to ensure that a safe navigational watch is maintained at all times.
    2 The skipper of every fishing vessel shall ensure that watchkeeping arrangements are adequate for maintaining a safe navigational watch. Under the skipper's general direction, the officers of the watch are responsible for navigating the fishing vessel safely during their periods of duty, when they will be particularly concerned with avoiding collision and stranding.
    3 The basic principles, including but not limited to the following, shall be taken into account on all fishing vessels. However, a Party may exclude very small fishing vessels operating in limited waters from fully observing the basic principles.

     4 En route to or from fishing grounds
    4.1 Arrangements of the navigational watch
    4.1.1 The composition of the watch shall at all times be adequate and appropriate to the prevailing circumstances and conditions, and shall take into account the need for maintaining a proper look-out.
    4.1.2 When deciding the composition of the watch the following factors, inter alia, shall be taken into account:
     .1      at no time shall the wheelhouse be left unattended;
     .2      weather conditions, visibility and whether there is daylight or darkness;
     .3      proximity of navigational hazards which may make it necessary for the officer in charge of the watch to carry out additional navigational duties;
     .4      use and operational condition of navigational aids such as radar or electronic position-indicating devices and of any other equipment affecting the safe navigation of the vessel;
     .5      whether the vessel is fitted with automatic steering; and
     .6      any unusual demands on the navigational watch that may arise as a result of special operational circumstances.
    4.2 Fitness for duty
    The watch system shall be such that the efficiency of watchkeeping personnel is not impaired by fatigue. Duties shall be so organized that the first watch at the commencement of a voyage and the subsequent relieving watches are sufficiently rested and otherwise fit for duty.
    4.3 Navigation
    4.3.1 The intended voyage shall, as far as practicable, be planned in advance taking into consideration all pertinent information, and any course laid down shall be checked before the voyage commences.

    4.3.2 During the watch the course steered, position and speed shall be checked at sufficiently frequent intervals, using any available navigational aids necessary, to ensure that the vessel follows the planned course.
    4.3.3 The officer in charge of the watch shall have full knowledge of the location and operation of all safety and navigational equipment on board the vessel, and shall be aware and take account of the operating limitations of such equipment.
    4.3.4 The officer in charge of a navigational watch shall not be assigned or undertake any duties which would interfere with the safe navigation of the vessel.
    4.4 Navigational equipment
    4.4.1 The officers in charge of the watch shall make the most effective use of all navigational equipment at their disposal.
    4.4.2 When using radar the officer in charge of the watch shall bear in mind the necessity to comply at all times with the provisions on the use of radar contained in the applicable regulations for preventing collisions at sea.
    4.4.3 In cases of need the officer of the watch shall not hesitate to use the helm, engines, sound and light signalling apparatus.
    4.5 Navigational duties and responsibilities
    4.5.1 The officer in charge of the watch shall:
     .1      keep watch in the wheelhouse;
     .2      in no circumstances leave the wheelhouse until properly relieved;

     .3      continue to be responsible for the safe navigation of the vessel despite the presence of the skipper in the wheelhouse until informed specifically that the skipper has assumed that responsibility and this is mutually understood;
     .4      notify the skipper when in any doubt as to what action to take in the interest of safety; and
     .5      not hand over the watch to a relieving officer if there is reason to believe that the latter is not capable of carrying out the watchkeeping duties effectively, in which case the skipper shall be notified.
    4.5.2 On taking over the watch the relieving officer shall confirm and be satisfied as to the vessel's estimated or true position and confirm its intended track, course and speed, and shall note any dangers to navigation expected to be encountered during the watch.
    4.5.3 Whenever practicable a proper record shall be kept of the movements and activities during the watch relating to the navigation of the vessel.
    4.6 Look-out
    4.6.1 A proper look-out shall be maintained in compliance with Rule 5 of the International Regulations for Preventing Collisions at Sea, 1972. It shall serve the purpose of:
     .1      maintaining a continuous state of vigilance by sight and hearing as well as by all other available means, with regard to any significant changes in the operating environment;
     .2      fully appraising the situation and the risk of collision, stranding and other dangers to navigation; and
     .3      detecting ships or aircraft in distress, shipwrecked persons, wrecks and debris.

    4.6.2 In determining that the composition of the navigational watch is adequate to ensure that a proper look-out can continuously be maintained, the skipper shall take into account all relevant factors, including those described under paragraph 4.1 of this regulation, as well as the following factors:
     .1      visibility, state of weather and sea;
     .2      traffic density, and other activities occurring in the area in which the vessel is navigating;
     .3      the attention necessary when navigating in or near traffic separation schemes and other routeing measures;
     .4      the additional workload caused by the nature of the vessel's functions, immediate operating requirements and anticipated manoeuvres;
     .5      rudder and propeller control and vessel manoeuvring characteristics;
     .6      the fitness for duty of any crew members on call who may be assigned as members of the watch;
     .7      knowledge of and confidence in the professional competence of the vessel's officers and crew;
     .8      the experience of the officer of the navigational watch and the familiarity of that officer with the vessel's equipment, procedures, and manoeuvring capability;
     .9      activities taking place on board the vessel at any particular time, and the availability of assistance to be summoned immediately to the wheelhouse when necessary;
     .10      the operational status of instrumentation in the wheelhouse and controls, including alarm systems;
     .11      the size of the vessel and the field of vision available from the conning position;
     .12      the configuration of the wheelhouse, to the extent such configuration might inhibit a member of the watch from detecting by sight or hearing any external developments; and
     .13      any relevant standards, procedures and guidelines relating to watchkeeping arrangements and fitness for duty which have been adopted by the Organization.
    4.7 Protection of the marine environment
    The skipper and the officer in charge of the watch shall be aware of the serious effects of operational or accidental pollution of the marine environment, and shall take all possible precautions to prevent such pollution, particularly within the framework of relevant international and port regulations.

    4.8 Weather conditions
    The officer in charge of the watch shall take relevant measures and notify the skipper when adverse changes in weather could affect the safety of the vessel, including conditions leading to ice accretion.
     5 Navigation with pilot embarked
    The presence of a pilot on board does not relieve the skipper or officer in charge of the watch from their duties and obligations for the safety of the vessel. The skipper and the pilot shall exchange information regarding navigation procedures, local conditions and the vessel's characteristics. The skipper and the officer in charge of the watch shall co-operate closely with the pilot and maintain an accurate check of the vessel's position and movement.

     6 Vessels engaged in fishing or searching for fish
    6.1 In addition to the principles enumerated in paragraph 4, the following factors shall be considered and properly acted upon by the officer in charge of the watch:
     .1      other vessels engaged in fishing and their gear, own vessel's manoeuvring characteristics, particularly its stopping distance and the diameter of turning circle at sailing speed and with the fishing gear overboard;
     .2      safety of the crew on deck;
     .3      adverse effects on the safety of the vessel and its crew through reduction of stability and freeboard caused by exceptional forces resulting from fishing operations, catch handling and stowage, and unusual sea and weather conditions;
     .4      the proximity of offshore structures, with special regard to the safety zones; and
     .5      wrecks and other underwater obstacles which could be hazardous for fishing gear.
    6.2 When stowing the catch, attention shall be given to the essential requirements for adequate freeboard, adequate stability and watertight integrity at all times during the voyage to the landing port, taking into consideration consumption of fuel and stores, risk of adverse weather conditions and, especially in winter, risk of ice accretion on or above exposed decks in areas where ice accretion is likely to occur.
     7 Anchor watch
    The skipper shall ensure, with a view to the safety of the vessel and the crew, that a proper watch is maintained at all times from the wheelhouse or deck on fishing vessels at anchor.
     8 Radio watchkeeping
    The skipper shall ensure that an adequate radio watch is maintained while the vessel is at sea, on appropriate frequencies, taking into account the requirements of the Radio Regulations.

Viðbætir 1.


Formið til að staðfesta útgáfu á skírteini skal vera á þann hátt sem að neðan greinir og er gert ráð fyrir að orðunum „eða þess dags sem gildistími þessa skírteinis er endurnýjaður til eins og skírteinið kann að bera með sér“ sem koma fram á framhlið formsins og ákvæði um skráningu endurnýjana sem koma fram á bakhlið þess sé sleppt þegar gefin eru út ný skírteini í stað þeirra sem renna út.

(Opinber stimpill)

(LAND)


SKÍRTEINI GEFIÐ ÚT SAMKVÆMT ÁKVÆÐUM ALÞJÓÐASAMÞYKKTAR UM MENNTUN OG ÞJÁLFUN, SKÍRTEINI OG VAKTSTÖÐU ÁHAFNAR FISKISKIPS, 1995


Ríkisstjórn ............................... staðfestir að handhafi þessa skírteinis fullnægir ákvæðum reglu .................................... ofannefndrar alþjóðasamþykktar og er hæfur til neðangreindra starfa með þartilgreindum takmörkunum fram til dagsins .................................. eða þess dags sem gildistími þessa skírteinis er endurnýjaður til eins og skírteinið kann að bera með sér.

Löglegum handhafa þessa skírteinis er heimilt að starfa í eftirfarandi stöðu eða stöðum:

STAÐA TAKMARKANIR (ef einhverjar)





Skírteini nr.     ............................. gefið út .....................................................................

(Opinber stimpill) .................................................................
Undirskrift lögskipaðs útgefanda
...................................................................
Nafn lögskipaðs útgefanda

Fæðingardagur handhafa skírteinisins .......................................................................
Undirskrift handhafa skírteinisins .................................................................
Ljósmynd af handhafa skírteinisins:





Skírteini þetta er endurnýjað til ..................................................

(Opinber stimpill) ...................................................
Undirskrift lögskipaðs útgefanda

Endurnýjað þann ............................. ....................................................
Nafn lögskipaðs útgefanda
Skírteini þetta er endurnýjað til ..................................................

(Opinber stimpill) ...................................................
Undirskrift lögskipaðs útgefanda

Endurnýjað þann ............................. ....................................................
Nafn lögskipaðs útgefanda

Viðbætir 2.


Formið til að staðfesta útgáfu á skírteini skal vera á þann hátt sem að neðan greinir og er gert ráð fyrir að orðunum „eða þess dags sem gildistími þessa skírteinis er endurnýjaður til eins og skírteinið kann að bera með sér“ sem koma fram á framhlið formsins og ákvæði um skráningu endurnýjana sem koma fram á bakhlið þess sé sleppt þegar gefin er út ný áritun í stað þeirrar sem rennur út.

(Opinber stimpill)

(LAND)


ÁRITUN SEM STAÐFESTIR ÚTGÁFU SKÍRTEINIS SAMKVÆMT ÁKVÆÐUM ALÞJÓÐASAMÞYKKTAR UM MENNTUN OG ÞJÁLFUN, SKÍRTEINI OG VAKTSTÖÐU ÁHAFNAR FISKISKIPS, 1995


Ríkisstjórn ............................... staðfestir að skírteini nr. ......................... hefur verið gefið út til ................................................................................................, sem fullnægir ákvæðum reglu .................................... ofannefndrar alþjóðasamþykktar og er hæfur til neðangreindra starfa með þartilgreindum takmörkunum fram til dagsins .............................. eða þess dags sem gildistími þessa skírteinis er endurnýjaður til eins og skírteinið kann að bera með sér.

Löglegum handhafa þessarar áritunar er heimilt að starfa í eftirfarandi stöðu eða stöðum sem tilgreindar eru í viðeigandi kröfum stjórnvalda um örugga mönnun:

STAÐA TAKMARKANIR (ef einhverjar)





Áritun nr.     ............................. gefin út .....................................................................

(Opinber stimpill) .................................................................
Undirskrift lögskipaðs útgefanda
...................................................................
Nafn lögskipaðs útgefanda

Fæðingardagur handhafa skírteinisins .......................................................................
Undirskrift handhafa skírteinisins .................................................................
Ljósmynd af handhafa skírteinisins:





Áritun þessi er endurnýjuð til ..................................................

(Opinber stimpill) ...................................................
Undirskrift lögskipaðs útgefanda

Endurnýjuð þann ............................. ....................................................
Nafn lögskipaðs útgefanda

Áritun þessi er endurnýjuð til ..................................................

(Opinber stimpill) ...................................................
Undirskrift lögskipaðs útgefanda

Endurnýjuð þann ............................. ....................................................
Nafn lögskipaðs útgefanda

Viðbætir 3.


Formið til að staðfesta viðurkenningu á skírteini skal vera á þann hátt sem að neðan greinir nema að orðunum „eða þess dags sem gildistími þessa skírteinis er endurnýjaður til eins og skírteinið kann að bera með sér“ sem koma fram á framhlið formsins og ákvæði um skráningu endurnýjana sem koma fram á bakhlið þess skal sleppt þegar gefin er út ný áritun í stað þeirrar sem rennur út.

(Opinber stimpill)

(LAND)


ÁRITUN SEM STAÐFESTIR VIÐURKENNINGU Á SKÍRTEINI SAMKVÆMT ÁKVÆÐUM ALÞJÓÐASAMÞYKKTAR UM MENNTUN OG ÞJÁLFUN, SKÍRTEINI OG VAKTSTÖÐU ÁHAFNAR FISKISKIPS, 1995


Ríkisstjórn ............................... staðfestir að skírteini nr. ......................... gefið út til ................................................................................................ af eða fyrir hönd ríkisstjórnar ................................................. er viðurkennt í samræmi við ákvæði reglu I/7 ofannefndrar samþykktar og að löglegur handhafi er hæfur til neðangreindra starfa með þartilgreindum takmörkunum fram til dagsins .................................. eða þess dags sem gildistími þessarar áritunar er endurnýjaður til eins og skírteinið kann að bera með sér.

Löglegum handhafa þessarar áritunar er heimilt að starfa í eftirfarandi stöðu eða stöðum sem tilgreindar eru í viðeigandi kröfum stjórnvalda um örugga mönnun:

STAÐA TAKMARKANIR (ef einhverjar)




Áritun nr.     ............................. gefin út .....................................................................

(Opinber stimpill) .................................................................
Undirskrift lögskipaðs útgefanda
...................................................................
Nafn lögskipaðs útgefanda

Fæðingardagur handhafa skírteinisins .......................................................................
Undirskrift handhafa skírteinisins .................................................................
Ljósmynd af handhafa skírteinisins:





Áritun þessi er endurnýjuð til ..................................................

(Opinber stimpill) ...................................................
Undirskrift lögskipaðs útgefanda

Endurnýjuð þann ............................. ....................................................
Nafn lögskipaðs útgefanda

Áritun þessi er endurnýjuð til ..................................................

(Opinber stimpill) ...................................................
Undirskrift lögskipaðs útgefanda

Endurnýjuð þann ............................. ....................................................
Nafn lögskipaðs útgefanda

Appendix 1


The form used to attest the issue of a certificate shall be as shown hereunder, provided that the words “or until the date of expiry of any extension of the validity of this certificate as may be shown overleaf” appearing on the front of the form and the provisions for recording extension of the validity appearing on the back of the form shall be omitted where the certificate is required to be replaced upon its expiry.

(Official Seal)

(COUNTRY)


CERTIFICATE ISSUED UNDER THE PROVISIONS OF THE INTERNATIONAL CONVENTION ON STANDARDS OF TRAINING, CERTIFICATION AND WATCHKEEPING FOR FISHING VESSEL PERSONNEL, 1995


The Government of ........... certifies that the holder of this certificate has been found duly qualified in accordance with the provisions of regulation ... of the above Convention and has been found competent to serve as specified below, subject to any limitations indicated until .................. or until the date of expiry of any extension of the validity of this certificate as may be shown overleaf:

The lawful holder of this certificate may serve in the following capacity or capacities.

CAPACITY LIMITATIONS APPLYING (IF ANY)




Certificate No.............................. issued on .....................................................................

(Official Seal) .................................................................
Signature of duly authorized official
...................................................................
Name of duly authorized official

Date of birth of the holder of the certificate .......................................................................
Signature of the holder of the certificate .................................................................
Photograph of the holder of the certificate:





The validity of this certificate is hereby extended until ..................................................

(Official seal) .........................................................
Signature of duly authorized official

Date of revalidation ............................. .........................................................
Name of duly authorized official

The validity of this certificate is hereby extended until ..................................................

(Official seal) .........................................................
Signature of duly authorized official

Date of revalidation ............................. .........................................................
Name of duly authorized official

Appendix 2


The form used to attest the issue of a certificate shall be as shown hereunder, provided that the words “or until the date of expiry of any extension of the validity of this endorsement as may be shown overleaf” appearing on the front of the form and the provisions for recording extension of the validity appearing on the back of the form shall be omitted where the endorsement is required to be replaced upon its expiry.

(Official Seal)

(COUNTRY)


ENDORSEMENT ATTESTING THE ISSUE OF A CERTIFICATE UNDER THE PROVISIONS OF THE INTERNATIONAL CONVENTION ON STANDARDS OF TRAINING, CERTIFICATION AND WATCHKEEPING FOR FISHING VESSEL PERSONNEL 1995


The Government of ................................... certifies that certificate No. ........................... has been issued to .................................................................................................... who has been found duly qualified in accordance with the provisions of regulation .................... of the above Convention and has been found competent to serve as specified below, subject to any limitations indicated until .............................. or until the date of expiry of any extension of the validity of this endorsement as may be shown overleaf:

The lawful holder of this endorsement may serve in the following capacity or capacities specified in the applicable safe manning requirements of the Administration:

CAPACITY LIMITATIONS APPLYING (IF ANY)




Endorsement No.............................. issued on .....................................................................

(Official Seal) .................................................................
Signature of duly authorized official
...................................................................
Name of duly authorized official

Date of birth of the holder of the certificate .......................................................................
Signature of the holder of the certificate .................................................................
Photograph of the holder of the certificate:





The validity of this endorsement is hereby extended until ..................................................

(Official seal) .........................................................
Signature of duly authorized official

Date of revalidation ............................. .........................................................
Name of duly authorized official

The validity of this endorsement is hereby extended until ..................................................

(Official seal) .........................................................
Signature of duly authorized official

Date of revalidation ............................. .........................................................
Name of duly authorized official

Appendix 3


The form used to attest the recognition of a certificate shall be as shown hereunder, except that the words “or until the date of expiry of any extension of the validity of this endorsement as may be shown overleaf” appearing on the front of the form and the provisions for recording extension of the validity appearing on the back of the form shall be omitted where the endorsement is required to be replaced upon its expiry.

(Official Seal)

(COUNTRY)


ENDORSEMENT ATTESTING THE RECOGNITION OF A CERTIFICATE UNDER THE PROVISIONS OF THE INTERNATIONAL CONVENTION ON STANDARDS OF TRAINING, CERTIFICATION AND WATCHKEEPING FOR FISHING VESSEL PERSONNEL, [1995]


The Government of ........... certifies that Certificate No. .......... issued to ............................................ by or on behalf of the Government of ........................ is duly recognized in accordance with the provisions of regulation I/7 of the above Convention, and the lawful holder is authorized to serve as specified below, subject to any limitations indicated until .............. or until the date of expiry of any extension of the validity of this endorsement as may be shown overleaf:

The lawful holder of this endorsement may serve in the following capacity or capacities specified in the safe manning requirements of the Administration:

CAPACITY LIMITATIONS APPLYING (IF ANY)




Endorsement No.............................. issued on .....................................................................

(Official Seal) .................................................................
Signature of duly authorized official
...................................................................
Name of duly authorized official

Date of birth of the holder of the certificate .......................................................................
Signature of the holder of the certificate .................................................................
Photograph of the holder of the certificate:





The validity of this endorsement is hereby extended until ..................................................

(Official seal) .........................................................
Signature of duly authorized official

Date of revalidation ............................. .........................................................
Name of duly authorized official

The validity of this endorsement is hereby extended until ..................................................

(Official seal) .........................................................
Signature of duly authorized official

Date of revalidation ............................. .........................................................
Name of duly authorized official