Ferill 674. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1053  —  674. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðgerðir gegn útlendingaandúð.

Flm.: Þórunn Sveinbjarnardóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir, Svanfríður Jónasdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir.



    Alþingi ályktar að grípa til sérstakra aðgerða til þess að stemma stigu við vaxandi andúð í garð útlendinga hér á landi. Í því skyni verði stofnaður starfshópur sem hafi að aðalverkefni að vinna að fræðsluátaki í fjölmiðlum, skólum og á vinnustöðum. Starfshópurinn verði skipaður sjö manns. Eftirfarandi aðilar skipi einn fulltrúa hver í hópinn: Miðstöð nýbúa, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Rauði kross Íslands, Mannréttindasamtök innflytjenda, Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins. Dómsmálaráðherra skipi einn fulltrúa sem jafnframt leiði starf hópsins.

Greinargerð.


    Á liðnum missirum hefur vaxandi andúðar í garð útlendinga orðið vart í opinberri umræðu hér á landi. Í blaðaviðtölum, útvarpi og sjónvarpi hefur mátt heyra þær skoðanir viðraðar að Ísland sé fyrir Íslendinga og enga aðra. Svo virðist sem sú skoðun eigi vaxandi fylgi að fagna að fólk af erlendum uppruna eigi ekki heima í íslensku samfélagi.
    Í niðurstöðum könnunar sem Gallup birti í nóvember árið 2000 kemur fram að fólk í aldurshópnum 16–24 ára telur þorra landsmanna vera frekar eða mjög fordómafullan gagnvart útlendingum (58% frekar fordómafull og 19% mjög fordómafull). Hins vegar segist þessi sami hópur ekki hafa mikla fordóma gagnvart útlendingum (15% frekar mikla og 1% mjög mikla). Niðurstöður þessarar könnunar benda einnig til þess að margir álíti að útlendingar séu of margir á Íslandi og aukinn fjöldi þeirra gæti haft slæm áhrif á samfélagið. Þannig telja 32,3% svarenda að Íslendingar eigi ekki að leitast við að vera fjölþjóðlegt samfélag en 52,4% telja það æskilegt. Rúmur þriðjungur svarenda er einnig þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi að ganga fyrir í störf hér á landi. Einnig var spurt hvort fólk væri samþykkt markmiði félags íslenskra þjóðernissinna að sporna við innflutningi fólks frá Asíu og Afríku og reyndust 27,1% svarenda samþykk því, 12,6% tóku ekki afstöðu en 60,3% svarenda voru ekki samþykk markmiði félagsins.
    Varasamt er að draga of víðtækar ályktanir af niðurstöðu einnar könnunar en hins vegar er ljóst að jarðvegur útlendingaandúðar er frjór hér á landi, rétt eins og annars staðar í Evrópu. Það er því skylda stjórnvalda að grípa til aðgerða í bráð og lengd sem miða að því að sporna við vaxandi fordómum í garð útlendinga.
    Í 65. gr. stjórnarskrárinnar segir: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“ Sé ekkert að gert getur útlendingaandúð smám saman grafið undan þessum grundvallarmannréttindum.
    Með skipan starfshóps sem undirbýr aðgerðir gegn útlendingaandúð er þess vænst að leggja megi grunn að fræðslu um gildi þess að búa í fjölmenningarlegu samfélagi, þar sem hæfileikar allra fá að njóta sín án tillits til uppruna. Það er brýnt að hópurinn nýti áhrifamátt fjölmiðla til þess að koma upplýsingum og fræðslu á framfæri og að hann fái til þess verkefnis næga fjármuni. Að öðru leyti hefur hópurinn frjálsar hendur um starf sitt og mótun tillagna.


Fylgiskjal.

Ana Isorena Atlason:

Erindi um rasisma (kynþáttahyggju) flutt í Listasafni Reykjavíkur
á alþjóðlegum degi Sameinuðu þjóðanna gegn kynþáttahyggju.
    
(21. mars 2001.)


    „Today, 21st of March is the United Nations International Day for the Elimination of Racial Discrimination, with the theme „Empowering Youth to Fight Racism“.
    Now, let me try to speak in Icelandic.

    Við erum hér í tilefni af þessum degi til að skoða saman hvað hægt er að gera til að efla starf sem miðar að því að koma í veg fyrir að ungt fólk, og allt fólk, aðhyllist rasisma og beiti aðra misrétti aðeins vegna þjóðernis eða litarháttar.
    Við trúum því að allir í samfélaginu eigi sama rétt til að lifa og starfa og að leikreglurnar eigi að vera þær sömu fyrir okkur öll, án tillits til uppruna, þjóðernis, litarháttar, tungu eða trúar. Öll leggjum við jú okkar af mörkum til samfélagsins og eigum rétt á því að vera fullgildir þátttakendur.
    Því miður er rasismi mikill í íslensku samfélagi í dag og nú er ljótleiki hans að koma upp á yfirborðið. Þjóðernishyggja virðist djúpstæð í íslensku samfélagi og lítið hefur verið lagt í að uppræta þann ófögnuð. Börnum er sagt að Ísland sé besta land í heimi og að hér sé allt best og mest. Íslendingar eru betri en annað fólk. Svona uppeldi er mjög varhugavert og í raun hættulegt. Heldur ætti að leggja áherslu á í kennslu og uppeldi barna hvað margt er líkt með fólki frá hinum ýmsu stöðum í veröldinni. Það ætti að kenna þeim að við búum öll saman á einni jörð og að allir séu mikilvægir einstaklingar sem eiga rétt á að lifa í friði og öryggi. Það ætti líka að kenna þeim að allt er í heiminum hverfult og þjálfa þau í að setja sig í spor annarra. Allt of oft er sagt frá því hvað er ólíkt í menningu fólks, í stað þess að segja hvað margt er líkt, því í raun er það miklu fleira sem er líkt með okkur en það sem ólíkt er.
    Stjórnvöld á Íslandi hafa almennt ekki brugðist við vaxandi andúð á fólki sem er af erlendu bergi brotið. Það er mjög alvarlegt. Stjórnvöld eru meira að segja að reyna að setja lög sem brjóta mannréttindi okkar á ýmsan hátt og skerða réttindi okkar frá því sem nú er. Mig langar þó að minnast á að Reykjavíkurborg hefur sett sér stefnu og markmið á þessu sviði sem er til fyrirmyndar.
    Það er nauðsynlegt að bregðast við rasismanum. Sérstaklega er mikilvægt að koma fræðslu inn í leik- og grunnskóla en til þess þarf líka að mennta kennara á þessu sviði.
    Þeirri óheillaþróun rasismans sem nú er hér verður að snúa við. Við þurfum að knýja á um að stjórnvöld fylgi þeim alþjóðlegu samningum sem þau hafa skrifað undir. Það má ekki samþykkja rasisma með þögn og því verðum við að tala, og við vonum að fólkið sem er fylgjandi mannréttindum fyrir alla þegna samfélagsins tali líka, en þegi ekki. Öll berum við ábyrgð og hvert handtak er mikils vert á vogarskálum hins illa og hins góða.
    Að lokum langar mig því að minnast orða Martin Luther King er hann sagði:
    „Við endalokin munum við ekki minnast orða óvina okkar, heldur þagnar vina okkar.“