Ferill 734. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1240  —  734. mál.




Skýrsla



samgönguráðherra um störf rannsóknarnefndar flugslysa fyrir árið 2000.

(Lögð fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



Rannsóknarnefnd flugslysa.
    Rannsóknarnefnd flugslysa tók til starfa 28. júní 1996 í samræmi við lög nr. 59/1996, um rannsókn flugslysa, en þá var flugslysarannsóknardeild Flugmálastjórnar lögð niður, svo og flugslysanefnd, sem fyrst var skipuð árið 1968 samkvæmt þágildandi loftferðalögum.
    Í stjórnsýslukerfinu telst rannsóknarnefnd flugslysa sjálfstæð stjórnsýslustofnun. Hún starfar sjálfstætt og óháð stjórnvöldum og öðrum rannsóknaraðilum, ákæruvaldi og dómstólum, sbr. 6. gr. laga nr. 59/1996.
    Rannsóknarnefnd flugslysa annast rannsókn allra flugslysa, þ.m.t. alvarlegra flugatvika svo og flugumferðaratvika. Flugslysarannsóknir miða að því einu að koma í veg fyrir að flugslys endurtaki sig og að auka öryggi í flugi.
    Rannsóknarnefnd flugslysa skal gera tillögur um úrbætur í flugöryggismálum eftir því sem rannsókn á orsökum flugslysa gefur tilefni til. Tillögurnar skal birta opinberlega. Flugmálayfirvöldum ber að sjá til þess að úrbótatillögur nefndarinnar séu teknar til formlegrar afgreiðslu hverju sinni.
    Rannsóknarnefnd flugslysa heyrir stjórnsýslulega beint undir samgönguráðherra.
    Nefndina skipa fimm menn:
     .      Skúli Jón Sigurðarson, BA, rannsóknarstjóri flugslysa,
     .      Þorsteinn Þorsteinsson flugvélaverkfræðingur, vararannsóknarstjóri flugslysa,
     .      Kristján Guðjónsson, lögfræðingur og framkvæmdastjóri hjá Tryggingastofnun ríkisins,
     .      Steinar Steinarsson, flugstjóri hjá Flugleiðum hf.,
     .      Sveinn Björnsson, flugmaður og framkvæmdastjóri Flugþjónustunnar ehf.,
    Þeir Skúli Jón Sigurðarson og Þorsteinn Þorsteinsson eru skipaðir ótímabundið og eru fastir starfsmenn nefndarinnar. Hinir þrír nefndarmennirnir eru skipaðir til fjögurra ára í senn. Núverandi skipunartímabil þeirra nær til 1. júlí árið 2004.
    Þormóður Þormóðsson, BS í flugrekstrar- og tæknistjórnun, sem jafnframt er menntaður flugvélavirki og flugmaður, var ráðinn til Rannsóknarnefndar flugslysa 1. febrúar 2001. Hann verður í starfsþjálfun með nefndinni og mun m.a. í sumar sækja sex vikna námskeið í rannsóknum flugslysa sem haldið er af Cranfield University í Englandi. Þormóður Þormóðsson mun taka við starfi formanns Rannsóknarnefndar flugslysa hinn 1. janúar 2002, en þá hefur Skúli Jón Sigurðarson ákveðið að láta af störfum.
    Skrifstofa Rannsóknarnefndar flugslysa er í leiguhúsnæði á 2. hæð húss Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík, við Flugvallarveg á Reykjavíkurflugvelli. Leigusamningur var gerður árið 1997 til tíu ára.

Kostnaðaryfirlit.
    Í fjárlögum fyrir árið 2000 voru 18,4 millj. kr. ætlaðar til starfsemi rannsóknarnefndar flugslysa:

Fjárlög 2000
18,4 millj. kr.
Skuld frá 1999
0,2 millj. kr.
Heildarkostnaður 2000
19,7 millj. kr.
Mismunurinn, -1,5 millj. kr., færist til næsta árs.

Yfirlit yfir skráð og rannsökuð mál árið 2000.
    Í ársbyrjun 2000 átti rannsóknarnefnd flugslysa eftir að ljúka formlega rannsókn fimm atvika sem urðu á árinu 1999 og lauk þeim öllum á fyrstu vikum ársins 2000. Þar af er einu lokið með rannsóknarskýrslu og fjórum var lokið með formlegri bókun.
    Árið 2000 skráði rannsóknarnefnd flugslysa samtals 96 atvik í flugi íslenskra loftfara hérlendis og erlendis, svo og í flugi erlendra loftfara um íslenska lögsögu og íslenska flugstjórnarsvæðið. Af þessum atvikum tók rannsóknarnefnd flugslysa samtals 49 sem skilgreind voru sem flugslys, flugumferðaratvik eða alvarleg flugatvik til formlegrar meðferðar og rannsóknar.
    Nefndin lauk rannsókn tólf þessara mála með útgáfu rannsóknarskýrslu, 21 máli var formlega lokið með bókun og fjórum málum, þar sem tvö og tvö mál tengdust, var lokið með bókun og sérstöku bréfi til Flugmálastjórnar.
    Í árslok 2000 átti rannsóknarnefnd flugslysa eftir að ljúka formlega 12 málum. Þar af lauk hún sex með rannsóknarskýrslu á fyrstu þrem mánuðum ársins 2001 og fimm með bókun. Í apríl 2001 átti rannsóknarnefnd flugslysa einu máli ólokið frá árinu 2000 og einu var ólokið af hálfu rannsóknarnefndar flugslysa í Bretlandi.
    Rannsóknarnefnd flugslysa gerði samtals átta tillögur til úrbóta í öryggisátt við rannsóknir sem hún lauk á árinu 2000 og skrifaði Flugmálastjórn sérstakt bréf vegna tveggja atvika. Tvö loftför áttu hlut að hvoru máli og vörðuðu þau umferð sjónflugvéla við Reykjavíkurflugvöll þar sem aðeins ein flugbraut var í notkun um tíma vegna jarðvegsframkvæmda. Þá var Flugmálastjórn enn fremur skrifað bréf vegna slyss á tveimur óskráðum loftförum sem flokkuð voru og flogið í samræmi við reglugerð um fis (loftfar undir 120 kg tómaþyngd, ætlað til einflugs, ýmist með eða án hreyfils, og hefur ekki íslenskt eða erlent lofthæfisskírteini og er ekki skráð), en að mati nefndarinnar lék vafi á að annað loftfarið uppfyllti þær kröfur sem gerðar eru til fisa.
    Í allmörgum málanna voru að mati nefndarinnar ekki efni til þess að gera tillögur til úrbóta. Tillögum þessum var (öllum) beint til Flugmálastjórnar Íslands, en skv. 7. gr. laga nr. 59/1996, um rannsókn flugslysa, er flugmálayfirvöldum skylt að sjá til þess að úrbótatillögur rannsóknarnefndar flugslysa séu teknar til formlegrar afgreiðslu.
    Tvö alvarleg flugumferðaratvik hafa orðið á íslenska flugstjórnarsvæðinu það sem af er árinu 2001, annað nálægt Færeyjum og hitt rétt austan Grænlandsstranda.
    Banaslys varð í flugi hinn 7. ágúst 2000. Flugvél í þjónustuflugi fórst í Skerjafirði við Reykjavíkurflugvöll, þar sem fjórir létust og tveir slösuðust alvarlega. Þá hafði ekki orðið banaslys í flugi íslenskra flugvéla frá 14. september 1997. Einn einkaflugmaður slasaðist í flugslysi í Stíflisdal og tveir fisflugmenn slösuðust er þeir brotlentu fisum sínum, annar á Flúðum og hinn á Sandskeiði.


Flugstundir, flugslys og alvarleg flugatvik 1980–2000.



Ár

Reglubundið flug

Flugslys og flugatvik Leiguflug Flugslys og flugatvik Þjónustuflug Flugslys og flugatvik Verkflug Flugslys og flugatvik Einkaflug Flugslys og flugatvik Kennsluflug Flugslys og flugatvik Svifflug Flugslys og flugatvik Flugstundir samtals Flugslys og flugatvik samtals
1980 24.300 2 6.700 1 7.800 1 1.300 1 6.800 3 7.100 0 800 0 54.800 8
1981 23.000 0 6.100 2 8.600 1 1.300 1 7.600 7 6.700 1 800 1 54.100 13
1982 26.000 3 7.500 0 9.100 2 1.400 1 9.100 6 6.300 0 800 1 60.200 13
1983 27.600 2 6.100 1 9.000 4 1.400 2 14.800 6 6.000 0 800 0 65.700 15
1984 29.500 4 7.000 0 8.700 2 1.500 0 12.200 4 5.400 0 800 0 65.100 10
1985 30.000 1 6.500 0 9.100 1 3.000 0 14.000 7 6.900 5 800 0 70.300 14
1986 33.000 2 6.000 0 9.300 1 3.500 0 14.000 9 7.800 0 800 1 74.400 13
1987 37.200 1 6.900 0 8.800 3 4.000 2 15.500 9 9.200 2 800 1 82.400 18
1988 35.000 4 6.500 0 8.500 1 4.000 2 17.100 11 8.700 1 800 0 80.600 17
1989 33.000 4 4.000 0 6.800 1 2.800 0 16.700 6 9.100 3 800 1 73.200 15
1990 37.900 3 5.400 2 9.100 1 2.200 1 15.100 6 7.800 4 800 2 78.300 19
1991 38.500 0 11.900 0 8.500 0 1.900 0 12.700 10 8.500 0 800 0 82.800 8
1992 36.082 1 5.549 0 6.641 2 2.138 0 11.234 4 6.189 0 800 2 68.633 9
1993 34.517 1 10.320 0 6.825 0 1.751 0 9.510 4 8.237 0 800 1 71.996 6
1994 39.684 1 12.272 0 7.101 1 2.119 1 10.952 5 7.766 1 800 3 80.694 12
1995 41.694 1 13.881 0 10.087 1 2.475 0 13.025 5 6.316 4 800 2 88.278 13
1996 47.682 2 21.464 3 6.159 2 2.131 0 14.106 11 10.750 0 800 0 103.092 18
1997 51.930 3 25.452 2 5.826 2 1.729 4 14.805 7 13.318 2 800 0 113.060 20
1998 60.549 5 34.434 6 6.756 1 2.004 2 10.753 7 16.052 2 930 0 131.480 23
1999 65.847 5 34.885 4 3.481 1 1.730 0 10.995 11 16.843 3 797 0 134.578 24
2000 70.833 9 39.961 3 2.614 2 1.955 0 11.042 11 12.462 8 700 0 139.567 33
Ath. Alvarleg flugatvik eru talin hér með frá 1995 og flugumferðaratvik frá 1997.