Ferill 712. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1397  —  712. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um stöðu Íslands gagnvart rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

     1.      Hver var losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum árið 1999 og hvernig kemur hún út miðað við ákvæði Kyoto-bókunarinnar og miðað við viðmiðunarárið 1990?
    Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í koltvíoxíðígildum árin 1990 og 1999 kemur fram í töflunni hér á eftir. Breyting frá viðmiðunarárinu 1990 er einnig sýnd í prósentum. Ákvæði Kyoto-bókunarinnar taka ekki til ársins 1999. Fyrsta skuldbindingartímabil bókunarinnar miðast við meðallosun áranna 2008–12. Aðildarþjóðir skulu hafa náð merkjanlegum árangri við að draga úr losun árið 2005.
1990,
þús. tonna
1999,
þús. tonna
Breyting frá viðmiðunarári, %
Koltvíoxíð CO2 2.144 2.734 27,7
Metan CH4 294 286 -3,0
Tvíköfnunarefnisoxíð N2O 192 220 14,7
Vetnisflúorkolefni HFC 0 59
Flúorkolefni FC 304 133 -56,1
Sexflúorbrennisteinn SF6 5 5 0
Samtals 2.939 3.441 17,1

     2.      Hvernig hefur spá stjórnvalda um heildarlosun gróðurhúsalofttegunda hérlendis fyrir árin 2005 og 2010 breyst frá spá þeirri sem birt var í þskj. 139 á 125. löggjafarþingi?
    Spá um heildarlosun gróðurhúsalofttegunda hérlendis fyrir árin 2005 og 2010 er sú sama og birt var í þskj. 139 á 125. löggjafarþingi. Umhverfisráðuneytið hefur í samráði við stýrihóp ráðuneytisstjóra um loftslagsbreytingar sett á stofn starfshóp um losunarbókhald og losunarspár sem mun yfirfara gildandi losunarspá og vera Hollustuvernd ríkisins til ráðgjafar um endurskoðun hennar. Þjóðhagsstofnun, Orkustofnun, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Vegagerðin og Fiskifélag Íslands tilnefndu fulltrúa í vinnuhópinn. Þessi endurskoðun á spánni mun m.a. taka mið af endurskoðun á eldsneytisspá orkuspárnefndar sem nú er á lokastigi. Hér er um umtalsvert verkefni að ræða sem taka mun nokkurn tíma. Vonir standa til að taka megi mið af endurskoðaðri losunarspá við gerð þriðju skýrslu Íslands til Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem skila á í árslok 2001. Einnig verður tekið mið af endurskoðaðri spá við stefnumörkun um aðgerðir til að draga úr
losun gróðurhúsalofttegunda.

     3.      Hversu mikilli losun gróðurhúsalofttegunda má gera ráð fyrir
                  a.      frá 420.000 tonna álveri í Reyðarfirði,
                  b.      vegna aukningar á ársframleiðslu álvers Norðuráls á Grundartanga í 180.000 tonn,
                  c.      vegna aukningar á ársframleiðslu álvers Ísals í Straumsvík í 200.000 tonn?
    Í töflunni hér á eftir er birt mat á væntanlegri viðbótarlosun frá framangreindum iðjuverum miðað við 1990. Við mat á losun frá álframleiðslu er gert ráð fyrir að hún verði sambærileg við losun frá núverandi framleiðslu. Hugsanlegt er að losun á flúorkolefnum muni minnka vegna tækniþróunar og gæðastjórnunar í framleiðslunni en losun flúorkolefna er rétt rúm 22% af losuninni sem tilgreind er hér að neðan.

Framleiðsla í þús. tonna Samtals í þús. tonna, CO2-gildi
Álver á Reyðarfirði 420 818
Álver á Grundartanga í 180 þús. tonna 180 355
Stækkun álvers Ísals úr 88 í 200 þús. tonna 112 222

     4.      Hvað líður störfum stýrihóps ráðuneytisstjóra um loftslagsmál sem hefur m.a. það verkefni að semja framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda?
    Stýrihópur ráðuneytisstjóra um loftslagsmál vinnur að tillögum um aðgerðir til þess að ná losunarmarkmiðum Kyoto-bókunarinnar á fyrsta skuldbindingartímabili hennar. Snemma árs 2000 var skipaður starfshópur með aðkomu átta ráðuneyta sem vinnur í nánu samstarfi við stýrihópinn að undirbúningi tillagna. Stefnt er að því að fljótlega eftir að niðurstöður um útfærslu á sveigjanleikaákvæðum Kyoto-bókunarinnar liggja fyrir muni stýrihópur ráðuneytisstjóra leggja fram heildstæðar tillögur að framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.