Ferill 480. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1438  —  480. mál.




Breytingartillaga



við frv. til l. um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða.

Frá Guðjóni A. Kristjánssyni.



    Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Verði í nýjum orkulögum heimilað að skilið sé á milli eignarforms virkjana og framleiðslu raforku annars vegar og eignar á dreifikerfi, viðhaldi og þjónustu við lagnir og dreifistöðvar hins vegar, skal þegar ný orkulög taka gildi stofna sérstakt hlutafélag um dreifingar- og þjónustuþáttinn innan Orkubús Vestfjarða hf. Það fyrirtæki verði stofnað á næsta ári, þó ekki fyrr en 1. apríl 2002. Að loknum eignaskiptum út úr Orkubúi Vestfjarða hf. verði ríkinu selt hið nýja fyrirtæki að hluta eða öllu leyti eftir því sem samkomulag verður um milli sveitarfélaga á Vestfjörðum og ríkisins. Verðmat Orkubús Vestfjarða hf. verði miðað við kauptilboð ríkisins upp á 4,6 milljarða króna og ríkið kaupi nýtt fyrirtæki dreifingar og þjónustu af sveitarfélögunum miðað við það verðmat.
    Orkubú Vestfjarða hf. verði rekið í óbreyttu eignarformi, þ.e. ríkið eigi 40% og sveitarfélögin á Vestfjörðum 60% fram til 1. júlí 2003. Sveitarfélögin geta fram til 1. júlí 2003 selt hvort öðru eignarhluti í Orkubúinu eða skipt á eignarhlutum í Orkubúi Vestfjarða hf. og í nýju dreifingar- og þjónustufyrirtæki á Vestfjörðum.