Útræðisréttur strandjarða

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 15:23:26 (5304)

2002-02-27 15:23:26# 127. lþ. 84.13 fundur 486. mál: #A útræðisréttur strandjarða# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[15:23]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Fyrirspurn hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar og Jóns Bjarnasonar er eftirfarandi:

,,Mun ráðherra beita sér fyrir því að fundin verði leið til þess að tryggja að útræðisréttur strandjarða verði virtur á ný og að sá réttur verði endurskilgreindur og staðfestur í nýjum lögum um stjórn fiskveiða?``

Því er til að svara, herra forseti, að það hefur verið skilningur ráðuneytisins að eigendur strandjarða hafi einir rétt til veiða innan netlaga jarða sinna en verði við þær veiðar að fara að öllu leyti að þeim reglum sem um viðkomandi veiðar gilda, m.a. um veiðileyfi og veiðiheimildir.

Hér má benda á að hafi eigendur strandjarða stundað veiðar á þeim viðmiðunartímabilum sem hverju sinni eru lögð til grundvallar við úthlutun veiðiheimilda þá hafa þeir notið þess í veiðiheimildum með sama hætti og aðrir sem gert hafa út á sama tíma. Gildir þetta um heimildir til botnfiskveiða og t.d. grásleppuveiða. Hins vegar eru veiðiheimildir sem þannig eru til orðnar ekki bundnar við jarðir heldur báta þeirra.

Í þessu sambandi má nefna að nefnd sú um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða sem skilaði tillögum sínum í september sl. tók rétt sjávarjarða sérstaklega til skoðunar og fór hún þess á leit við Skúla Magnússon, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, að hann kannaði hvaða heimildir eigendur sjávarjarða hefðu til veiða úr nytjastofnum innan netlaga jarða sinna og hvort þeir gætu í einhverjum tilvikum átt rétt til fiskveiða utan netlaga sem teldist eign þeirra samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar. Komst Skúli að því að fræðilega væri ekki hægt að útiloka bótarétt landeigenda vegna skerðingar laga á fiskveiðirétti í sjó innan netlaga. Hins vegar yrði að teljast ólíklegt að unnt væri að sýna fram á bótaskyldu í einstökum tilvikum svo og að slíkur bótaréttur væri ekki fallinn niður fyrir fyrningu.

Varðandi það hvort eigendur sjávarjarða gætu í einhverjum tilvikum átt rétt til fiskveiða utan netlaga sem teljist eign þeirra samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar komst Skúli Magnússon að því að með hliðsjón af því hvernig staðið hafi verið að úthlutun veiðiheimilda og öðrum takmörkunum á fiskveiðirétti í sjó verði að teljast líklegt að tekið hafi verið nægt tillit til hagsmuna útgerðarmanna sem stunduðu veiðar þegar þessar takmarkanir voru teknar upp. Gilda sömu sjónarmið um atvinnuhagsmuni eigenda sjávarjarða að þessu leyti og annarra þeirra sem stundað hafa útgerð. Ekki sé þó útilokað að reglur um úthlutun veiðiheimilda eða aðrar sérreglur um veiðar, svo sem reglur um veiðar krókabáta eða hrognkelsi, hafi af einhverjum ástæðum komið óvenjulega þungt niður á tilteknum aðila svo að hann teljist eiga bótarétt. Skilyrði fyrir slíkri kröfu væru þó enn sem fyrr að hún væri ófyrnd, en sökum þess hvað umræddar takmarkanir hafa verið lengi í gildi er ólíklegt að svo hátti til í dag.

Í áliti Skúla Magnússonar segir enn fremur að svonefndur útræðisréttur sjávarjarða vísi til nota af þeirri aðstöðu í landi sem nauðsynleg var útgerð fyrr á tímum, svo sem lendingu eða höfn. Þessi útræðisréttur landeigenda hafi ekki haggað meginreglu íslensks réttar um almannarétt til veiða utan netlaga. Þær reglur sem settar hafi verið á síðustu áratugum um fiskveiðistjórn hafi því með engum hætti skert útræðisrétt sjávarjarða og gera megi ráð fyrir að þessi réttur hafi ekki þá fjárhagslegu þýðingu sem hann hafði fyrr á tímum sökum breyttra atvinnuhátta og uppbyggingar hafna í þéttbýli.

Samkvæmt þessu segir að ekki verði séð að útræðisréttur sjávar hafi gefið tilefni til álitamála um bótaskyldu íslenska ríkisins samkvæmt eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Meiri hluti nefndarinnar taldi ekki ástæðu til að leggja til breytingu á lögunum um stjórn fiskveiða um rétt strandjarða. Ekki eru uppi nein áform í ráðuneytinu um að staðfesta að skilgreina sérstaklega útræðisrétt strandjarða í lögum um stjórn fiskveiða.