Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 18:11:09 (6599)

2002-03-25 18:11:09# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[18:11]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrir fram mismunar þetta kerfi ekki bændum. Allir bændur eiga kost á að vera með í þessari gæðastýringu. Fyrir fram mismunar það ekki. Hins vegar eiga menn það val að búa áfram og vera utan við kerfið.

Ég er klár á því að það þekkir enginn betur en gamli skólastjórinn á Hólum, þ.e. gæðastýringuna, alla vega í hestamennskunni og árangurinn sem komið hefur af því. Hann veit að það þarf að vera gulrót í öllum málum. Þó að vinstri grænir séu kannski ekki mikið fyrir peninga þá skilja þeir samt að peningar eru afl þeirra hluta sem gera skal og peningar hvetja stundum, alla vega þegar þeir eru sem gulrót til að hvetja menn. Allir vilja meiri peninga, jafnvel vinstri grænir ef ég þekki þá rétt. Þannig voru alla vega gömlu kommúnistarnir sem eru undanfari ... (Gripið fram í.) Ég hef sama frelsi og vinstri grænir í ræðustóli Alþingis að fá að tala. (JB: Já, já.) Það er frelsi sem ég vil fá að njóta og hv. þm. tekur bara við af mér hér í stólnum.

Það er enginn vilji til að mismuna bændum. Þeir eiga allir sama möguleika. Nú er annað slagið sagt að þetta sé framleiðsluhvati. Hins vegar er sagt að þetta sé kerfi til þess að hrinda mönnum út úr framleiðslunni og draga úr framleiðslu. Fyrst og fremst hef ég séð í gegnum líf mitt að þeir sem taka þátt í félagsstarfi og ræktunarstarfi og halda skýrslur reka betri búskap. Það hefur komið í ljós, hv. þm., að bóndinn sem er í þessu kerfi er í dag með einu kílói þyngri meðalvigt en hinir sem ekki eru með. Hann er að skila hálfu lambi meira eftir á en hinir. Þessi er hvatinn, að fá menn inn í kerfið til að standa sig vel og hafa betri arð af búskap sínum. Ég held, hæstv. forseti, að þetta kerfi muni skila íslenskri sauðfjárrækt betri stöðu.