Stækkun Hagavatns

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 11:12:05 (3166)

2001-12-13 11:12:05# 127. lþ. 52.6 fundur 311. mál: #A stækkun Hagavatns# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 127. lþ.

[11:12]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Hér er spurt: ,,Hafa farið fram viðbótarrannsóknir og verið lagt fram nýtt mat á umhverfisáhrifum af stækkun Hagavatns? Ef ekki, hver er ástæða þess, og mun ráðherra beita sér fyrir að rannsóknirnar verði gerðar?``

Því er til að svara að hinn 16. okt. 1996 felldi umhvrn. úr gildi úrskurð skipulagsstjóra ríkisins frá 29. júlí 1996, þar sem heimiluð var stækkun Hagavatns og var framkvæmdaraðilanum, Landgræðslu ríkisins, gert að láta fara fram frekara mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar í samræmi við þágildandi lög nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum. Nýtt mat eða frekara mat hefur ekki farið fram og það er hlutverk framkvæmdaraðila, þ.e. Landgræðslu ríkisins, að ákveða hvort og hvenær hann heldur áfram með undirbúning framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum og beita sér fyrir rannsóknum í því skyni.

Af þessu tilefni er rétt að benda á að í fyrra voru sett ný lög um mat á umhverfisáhrifum, lög nr. 106/2000. Í þeim lögum er ekki gert ráð fyrir svokölluðu frekara mati eins og í fyrri lögum. Hyggist framkvæmdaraðili halda áfram með málið getur hann lokið því samkvæmt eldri lögum samanber ákvæði til bráðabirgða í gildandi lögum nr. 106/2000 eða hafið ferlið upp á nýtt samkvæmt nýjum lögum.

Miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið hjá Landgræðslu ríkisins, sem er reyndar ekki undirstofnun umhvrn., þá hafa þeir ekki farið í þær rannsóknir sem krafist var í úrskurði og mér er ekki kunnugt um hvort þeir munu fara í þær á næstunni, en það hafa verið kláraðar einhverjar rannsóknir sem ég get ekki listað upp hér, einhverjum háskólaritgerðum hefur verið skilað inn o.s.frv. En það er hlutverk framkvæmdaraðila að leggja fram annaðhvort frekara mat samkvæmt bráðabirgðaákvæði eða nýtt mat en það er ekki hlutverk umhvrh. að hafa þau mál á hendi hjá framkvæmdaraðilum samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Hlutverk okkar er að úrskurða í kærumálum berist þau til okkar á seinni stigum þannig að þetta mál er alfarið í höndum Landgræðslu ríkisins.