Stækkun Hagavatns

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 11:15:45 (3168)

2001-12-13 11:15:45# 127. lþ. 52.6 fundur 311. mál: #A stækkun Hagavatns# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 127. lþ.

[11:15]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Fyrir rúmlega einu og hálfu ári síðan svaraði hæstv. ráðherra fyrirspurn frá hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni eins og ég nefndi áðan. Þá kom fram að hæstv. ráðherra hafði leitað eftir upplýsingum hjá Landgræðslu ríkisins og í svari ráðherrans segir, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt upplýsingum Landgræðslu ríkisins er upplýsingaöflun lokið, svo og rannsóknum á gróðurfari. Rannsókn á sandfoki stendur enn yfir og verður lögð aukin áhersla á þann þátt í sumar og stefnt að því að ljúka rannsókninni í haust þannig að Landgræðslan geti lagt inn matsskýrslu fyrir eða um áramót.``

Það er að verða komið heilt ár síðan þessi ríkisstofnun ætlaði sér að ljúka þessu verkefni svo að hægt væri að fara í þær framkvæmdir sem þarna þarf að fara í og meira að segja voru flestallar umsagnir umsagnaraðila á sínum tíma jákvæðar varðandi mat á umhverfisáhrifum. Þær voru jákvæðar í garð þessara framkvæmda.

Ég vil skora á hæstv. ráðherra að reka á eftir Landgræðslunni þó hún heyri til annars ráðuneytis eða koma því til samráðherrans, hæstv. landbrh., þannig að Landgræðsla ríkisins ljúki þessu verkefni og það liggi þá fyrir, eins og komið hefur fram ítekað, en sveitarstjórnir Biskupstungnahrepps og sveitarfélaga í uppsveitum Árnessýslu hafa lagt ofurkapp á að þessu verkefni ljúki. Ég skora á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að Landgræðslan ljúki vinnunni sem hún gaf hæstv. ráðherra upplýsingar um fyrir einu og hálfu ári síðan að væri að ljúka. Þetta er ótrúlegur seinagangur og búið er að ýta á eftir þessu verkefni a.m.k. tvisvar eða þrisvar áður í sölum Alþingis. Við hv. þm. Suðurlands, bæði þeir sem þar starfa og eru að koma til starfa, skorum á ráðherra að skerpa nú á framkvæmdum Landgræðslunnar.