Ferill 78. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 377  —  78. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur um jafnréttisáætlun, stöðuveitingar og skipan í nefndir og ráð.

     1.      Hefur ráðuneytið gert sérstaka framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til að tryggja jafnan hlut kvenna og karla í störfum innan ráðuneytisins og á vegum þess? Ef svo er, hvenær var það gert og hvað hefur verið gert til að framfylgja áætluninni?
    Ráðuneytið hefur ekki gert sérstaka framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til að tryggja jafnan hlut karla og kvenna í störfum ráðuneytisins og á vegum þess. Hins vegar liggja fyrir drög að jafnréttisstefnu fyrir Stjórnarráðið í heild og stendur til að hún verði birt í sameiginlegri starfsmannahandbók ráðuneytanna. Ráðuneytið leitast við að auka og viðhalda kynjajafnrétti, sbr. markmið laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

     2.      Hversu margar stöður hafa verið auglýstar á vegum ráðuneytisins síðustu þrjú ár og um hvaða stöður er að ræða? Hversu margir umsækjendur voru um hverja stöðu og hversu margir þeirra voru metnir hæfir til að gegna henni, skipt eftir kyni í báðum tilvikum? Hvort var kona eða karl ráðinn í umræddar stöður?
     Alls hefur verið auglýst eftir umsækjendum um níu störf á vegum forsætisráðuneytisins sl. þrjú ár. Spurt er um hæfi umsækjenda. Upplýsingar um fjölda hæfra umsækjenda eru birtar með fyrirvara um að þær kunna að byggjast á mismunandi forsendum í einstökum tilvikum. Í 6. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, eru talin upp almenn hæfisskilyrði sem menn þurfa að uppfylla til að hægt sé að fá starf í þjónustu ríkisins og halda því. Geta í ákveðnum tilvikum verið gerðar kröfur til að umsækjendur uppfylli önnur hæfisskilyrði sérstaklega. Til að umsækjandi teljist vera hæfur þarf hann að uppfylla hin almennu skilyrði sem sett eru í lögum, auk þess að uppfylla önnur skilyrði sem ráðning kann að vera bundin, t.d. varðandi menntun, reynslu eða aðra hæfileika. Störf eru að jafnaði auglýst fyrir milligöngu ráðningarstofa, sem taka við umsóknum, flokka þær og meta, og gera að lokum tillögu um hverjir skuli teknir í viðtal. Það að einstaklingur sé ekki tekinn í viðtal þarf vitanlega ekki að þýða að hann sé ekki hæfur til að gegna viðkomandi starfi.
    Í eftirfarandi samantekt er gefinn upp fjöldi þeirra sem töldust vera hæfir eða voru boðaðir í viðtal vegna mögulegrar ráðningar í störf sem voru auglýst.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     3.      Hefur á síðustu þremur árum verið ráðið í stöður á vegum ráðuneytisins sem ekki voru auglýstar? Ef svo er, um hvaða stöður er að ræða og hvort var kona eða karl ráðinn í umræddar stöður?
    Ráðningar til skemmri tíma eru 18 frá 1. nóvember 1998 og voru þær einkum tengdar þremur verkefnum: hátíðarhöldum vegna landafunda (5), kristnihátíð (4) og ráðstefnunni Konur og lýðræði (6). Auglýst var eftir starfsmönnum til að sinna þessum verkefnum í nokkrum tilvikum, en oftast var þó ráðið í þær samkvæmt ábendingum og meðmælum ráðningarstofa. Allir þeir starfsmenn sem hér um ræðir hafa látið af störfum að einum undanskildum, en ráðning þess starfsmanns er tímabundin. Ekki verða tíundaðar upplýsingar um hvert og eitt starf í svari þessu, en benda má á að 13 af þessum 18 starfsmönnum eru konur og að þau störf sem þær gegndu teljast ekki vera ábyrgðarminni en störf karlanna fimm sem ráðnir voru.
    Þá hefur verið ráðið í tvö störf án auglýsingar, þ.e. í stöðu forstöðumanns Þjóðmenningarhússins við Hverfisgötu, en þar var um að ræða tilflutning í starfi skv. 37. gr. starfsmannalaga, og í stöðu umsjónarmanns hópvinnukerfis ráðuneytanna, en þar er einnig um tímabundinn tilflutning milli ráðuneyta að ræða.

     4.      Hvaða nefndir og ráð eru starfandi á vegum ráðuneytisins? Hve margir fulltrúar eru í hverri nefnd eða ráði, hvernig skiptast þeir eftir kynjum og hvenær voru þeir skipaðir?
    Vísað er til eftirfarandi töflu, en rétt er að nefna að ráðuneytið hefur sjálfdæmi um hverjir veljist til setu í nefndum, ráðun og stjórnum á vegum þess í innan við helmingi tilvika. Í flestum tilvikum er skipað í nefndir, ráð og stjórnir samkvæmt tilnefningu, en algengt er að tilnefningaraðilar séu tilgreindir í lögum, samþykktum og ályktunum Alþingis. Alls eru konur 38% þeirra sem sitja í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum forsætisráðuneytisins.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.