Ferill 262. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 449  —  262. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um rannsóknasetur að Kvískerjum.

     1.      Hvað líður undirbúningsvinnu að stofnun rannsóknaseturs að Kvískerjum og hvenær má búast við að framkvæmdin hefjist?
    Undanfarið hefur verið starfandi nefnd á vegum umhverfisráðuneytisins sem farið hefur yfir stöðu mála varðandi stofnun rannsóknaseturs að Kvískerjum og unnið að framgangi málsins og undirbúningi byggingar og reksturs setursins. Nefndinni var jafnframt falið að gera tillögur um leiðir til að fjármagna byggingu setursins og rekstur. Nefndin mun skila tillögum til ráðuneytisins um miðjan næsta mánuð.

     2.      Hverjir munu standa að byggingu og rekstri rannsóknasetursins?
    Í þeim tillögum sem lágu fyrir er fyrrgreind nefnd hóf störf og samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar um málið var gert ráð fyrir því að ríkið og sveitarfélagið Hornafjörður stæðu sameiginlega að byggingu setursins. Í tillögunum er gert ráð fyrir rannsóknaraðstöðu og sýningaraðstöðu að Kvískerjum en nú eru hugmyndir um að skilja sýningaraðstöðuna frá og tengja hana annarri safnastarfsemi á Höfn og hugsanlega einnig gestastofunni í þjóðgarðinum í Skaftafelli. Hvað rekstur stöðvarinnar varðar þá hefur verið rætt um að Háskóli Íslands taki að sér að sjá um rekstur og umsjón með setrinu, en þetta er eitt af því sem tekið verður á í tillögum þeirrar nefndar sem nú er að störfum. Þetta skýrist betur þegar tillögur nefndarinnar liggja fyrir.

     3.      Hvaða starfsemi er fyrirhuguð í rannsóknasetrinu og hverjir munu eiga aðgang að því?
    Eins og áður segir hefur nefndin ekki skilað tillögum og er því ekki hægt að slá neinu föstu. Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar hefur aðallega verið horft til þess að starfsemi rannsóknastöðvarinnar verði byggð upp á svipaðan hátt og starfsemi náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, þ.e. að komið verði upp aðstöðu að Kvískerjum til þess að vinna að rannsóknum á þessu svæði. Ekki hefur komið til tals að rannsóknasetrið sjálft standi fyrir rannsóknum eða kosti þær heldur að rannsóknastofnanir eins og Náttúrufræðistofnun Íslands, Háskóli Íslands, Veðurstofa Íslands og Orkustofnun nýti sér aðstöðuna til þess að stunda rannsóknir á þessu svæði. Jafnframt að starfsmenn þessara stofnana eða annarra aðila geti nýtt aðstöðuna til smærri funda eða til skrifta og úrvinnslu rannsóknarverkefna.

     4.      Hvernig hefur það fé verið nýtt sem var veitt af fjárlögum ríkisins til undirbúnings rannsóknaseturs að Kvískerjum?
    Þar sem framkvæmdir hafa ekki hafist enn hefur litlum hluta þess fjár sem veitt hefur verið til verkefnisins undanfarin ár verið ráðstafað. Fyrir liggja teikningar að húsi og staðsetningu þess ásamt yfirliti yfir efnisþörf og hefur verið greitt fyrir vinnu arkitekta og verkfræðinga vegna þeirra starfa. Að öðru leyti hefur fjárveitingum í fjárlögum ekki verið ráðstafað og eru þær geymdar.

     5.      Hefur verið myndaður sérfræðingahópur sem hefur það hlutverk að kynna sér og fjalla um rannsóknir á svæðinu og gera tillögur um ný rannsóknarverkefni, og ef ekki, hvenær má búast við að til hans verði stofnað?
    Sérfræðingahópur um rannsóknir á svæðinu hefur ekki verið stofnaður, en þegar fyrir liggur að ráðist verði í að reisa aðstöðu fyrir rannsóknasetur að Kvískerjum og búið verður að ganga frá því hver hafi umsjón með rekstri setursins er tímabært að setja saman sérfræðingahóp til þess að fjalla um rannsóknir og tillögur að nýjum rannsóknarverkefnum á svæðinu.