Ferill 507. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 799  —  507. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um að kanna leiðir til að jafna lífskjör fólks og rekstrar- og samkeppnisstöðu fyrirtækja á landsbyggðinni.

Flm.: Kristján L. Möller, Margrét Frímannsdóttir, Karl V. Matthíasson,
Gísli S. Einarsson, Sigríður Jóhannesdóttir, Gunnlaugur Stefánsson,
Jóhann Ársælsson, Lúðvík Bergvinsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að leita leiða í skattamálum sem gætu jafnað lífskjör og aðstöðu fólks eftir búsetu, svo og samkeppnisstöðu og rekstrarskilyrði fyrirtækja. Nefndin verði skipuð einum fulltrúa sérhvers þingflokks, en auk þess skipi forsætisráðherra einn fulltrúa sem jafnframt verði formaður og fari með oddaatkvæði.
    Nefndin skili Alþingi skýrslu og tillögum eigi síðar en 15. janúar 2003.

Greinargerð.

    Flutningsmenn álíta jöfnun lífskjara eitt brýnasta úrlausnarefni á sviði byggðamála eigi árangur að nást í þeim málaflokki. Í nágrannalöndum okkar er jöfnun lífskjara talin mikilvæg til að sporna gegn frekari byggðaröskun og er skattkerfið m.a. notað í þessu skyni. Flutningsmenn eru sannfærðir um að með jöfnun lífskjara í gegnum skattkerfið megi snúa þjóðhagslega hættulegri byggðaröskun við á næstu árum og jafna rekstrarskilyrði og samkeppnishæfni atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu.
    Höfuðborg Íslands þarf á sterkri og öflugri landsbyggð að halda og landsbyggðin þarf sterka og öfluga höfuðborg. Byggðaröskun undanfarinna ára er þjóðhagslega óhagkvæm. Hún hefur m.a. valdið þenslu á höfuðborgarsvæðinu þar sem þurft hefur að byggja upp mikið íbúðarhúsnæði og ýmsa aðra opinbera þjónustu fyrir nýja íbúa. Á sama tíma er mikið af vannýttu húsnæði á landsbyggðinni. Þetta allt saman hefur leitt til mikillar hækkunar á húsnæðisþætti vísitölu neysluverðs, sem aftur hefur leitt til verðbólgu og hækkunar allra lána jafnt hjá íbúum á höfuðborgarsvæðinu sem íbúum landsbyggðarinnar. Sveitarfélögum á landsbyggðinni gengur æ verr að halda uppi margvíslegri þjónustu sem krafist er í nútíma sveitarfélögum, þar sem gjaldendum útsvars fækkar. Íbúar sveitarfélaga á landsbyggðinni sætta sig illa við skerta þjónustu miðað við það sem gerist á höfuðborgarsvæðinu. Í þessu sambandi má einnig benda á að hið opinbera er sífellt að samþykkja auknar álögur og skyldur á sveitarfélögin.

Lífskjaramismunur.
    Lífskjaramismunur þessi kemur fram á ótal sviðum hins daglega lífs og á án nokkurs vafa einn stærstan hlut í byggðaröskun undanfarinna ára, ásamt með miklum atvinnuháttabreytingum, einkum á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar. Benda má m.a. á eftirfarandi atriði í þessu sambandi: Hærra vöruverð, hærri flutningsgjöld, meiri kostnað við menntun barna, meiri orkukostnað (með nokkrum undantekningum þó), svo og mikinn mun á sölu- og kaupverði húsnæðis. Flutningsgjöld í landinu hafa stórhækkað á undanförnum árum og eru án nokkurs vafa stærsti einstaki þátturinn í hærra vöruverði víðast hvar á landsbyggðinni, auk þess sem hinn mikli flutningskostnaður íþyngir mjög allri atvinnustarfsemi og dregur úr þrótti atvinnurekenda til frekari starfsemi. Flutningsmenn vilja vekja sérstaka athygli á hinum mikla flutningskostnaði í sambandi við fiskflutninga milli landshluta, sem hafa stóraukist hin síðari ár, vegna breytinga hjá útvegsfyrirtækjum landsmanna.
    Í fylgiskjali I er birt verðskrá flutningsfyrirtækisins Flytjanda.

Hækkun gjalda í strandsiglingum.
    Nýlegar gjaldskrárbreytingar í strandsiglingum Eimskips íþyngja einnig allri atvinnustarfsemi á landsbyggðinni og hafa flutningsgjöld stórhækkað á síðustu mánuðum og óttast flutningsmenn að fleiri hækkanir eigi eftir að koma fram í strandsiglingum. Slíkar hækkanir yrðu enn eitt áfallið fyrir atvinnufyrirtæki á landsbyggðinni. Nauðsynlegt er því að finna úrræði til að lækka flutningskostnað í strandsiglingum.

Síhækkandi flugkostnaður.
    Rekstrarerfiðleikar flugfélaga sem stunda innanlandsflug eru miklir og hafa farið vaxandi, þrátt fyrir mikla hækkun fargjalda. Ýmsir þættir hafa valdið þessari hækkun fluggjalda, svo sem miklar launahækkanir, hátt orkuverð og ýmsir opinberir skattar og þjónustugjöld. Flutningsmenn leggja til að þessi þáttur verði einnig kannaður þar sem hann er snar þáttur í rekstrarútgjöldum fjölda fólks og fyrirtækja á landsbyggðinni.

    Flutningsmenn telja ýmsar aðgerðir í skattamálum koma til álita og leggja til að eftirfarandi leiðir verði kannaðar sérstaklega í þessari allsherjarúttekt til lífskjarajöfnunar hér á landi.

Tuttugu og ein leið til að jafna lífskjör fólks og samkeppnisstöðu
og rekstrarskilyrði fyrirtækja á landsbyggðinni.


1. Hærri persónuafsláttur.

    Kannað verði með misháan persónuafslátt, íbúar ákveðinna landsvæða fái með öðrum orðum sérstakan persónuafslátt í staðgreiðslu til viðbótar þeim persónuafslætti sem almennt gildir, t.d. 150–250 þús. kr. á ári. Flutningsmenn telja þessa leið ef til vill best fallna til að jafna lífskjör í landinu. Í raun yrði framkvæmdin þannig að búsetu- og lífsskilyrði yrðu metin í hverju byggðarlagi eða landsvæði og aukinn persónuafsláttur metinn í framhaldi af því.

2. Lægri tekjuskattur.
    Kannað verði með lægri tekjuskattsprósentu fyrir íbúa tiltekinna svæða. Slíkt má gera í eftiráálagningu í skattkerfinu líkt og er með álagningu hátekjuskatts. Hér yrði einnig að leggja mat á búsetu- og lífsskilyði í hverju byggðarlagi/landsvæði.

3. Álagning hátekjuskatts.
    Kannað verði hvort leggja megi hátekjuskatt niður í ákveðnum byggðarlögum eða láta hann renna óskiptan til viðkomandi sveitarfélags. Hátekjuskattur er lagður á eftir á. Flutningsmenn telja það form sem notað er í skattkerfinu við eftiráálagningu hátekjuskatts hentugt form til lífskjarajöfnunar í gegnum skattkerfið.
4. Ónýttur persónuafsláttur barna.
    Foreldrar nemenda í framhaldsskólum fjarri heimili fái að nýta ónýttan persónuafslátt barna sinna.

5. Framhaldsskólakostnaður.
    Tekið verði tillit til kostnaðar foreldra vegna náms barna við framhaldsskóla fjarri heimili. Athugað verði hvort þetta megi gera í gegnum skattframtal (skattskýrslu) líkt og er með kaup á hlutabréfum, þar sem kaupandi fær eftir á greiddan frádrátt samkvæmt gildandi reglum.

6. Vinna fjarri lögheimili.
    Tekið verði tillit til kostnaðar við akstur milli heimilis og vinnustaðar. Skattalög leyfa ekki slíkan frádrátt nú en í löggjöf nágrannaríkja okkar er að finna slíkar heimildir.
7. Tvö heimili vegna vinnu.
    Tekið verði tillit til þess ef fólk þarf að halda tvö heimili vegna vinnu sinnar.

8. Afsláttur á námslánum.
    Athugað verði með lægri endurgreiðsluhluta námslána hjá því fólki sem starfar á landsbyggðinni, sbr. tillögu svokallaðrar byggðanefndar forsætisráðherra frá því í október 1998.

9. Hærri barnabætur.
    Kannað verði hvort unnt sé að taka upp aukabarnabætur fyrir íbúa landsbyggðarinnar líkt og gert er í Norður-Noregi.

10. Eignarskattar.
    Við útreikning á eignarskatti verði tekið tillit til tekna en áður fyrr var slíka heimild að finna í skattalögum. Bændur mundu einkum njóta þessa hagræðis þar sem talsverðar eignir eru bundnar í byggingum til rekstrarins en tekjur eru yfirleitt lágar.
11. Skattar á flug.
    Skattheimta af flugumferð innan lands verði tekin til endurskoðunar, t.d. hvað varðar eldsneyti og flugvallarskatta.
12. Virðisaukaskattur.
    Hugað verði að jöfnun aðstöðumunar íbúa dreifbýlis og þéttbýlis með innheimtu mismunandi virðisaukaskatts.

13. Tryggingagjald.
    Alþingi samþykkti nýlega almenna hækkun tryggingagjalds. Þessi breyting kemur mjög illa út fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni (sbr. úttekt ríkisskattstjóra) þar sem skattalegur ávinningur af lækkun tekju- og eignarskatta er lítill sem enginn fyrir fyrirtæki landsbyggðarinnar (sjá töflu í fylgiskjali II). Lækkun eða lægra tryggingagjald á fyrirtæki landsbyggðarinnar jafnar því rekstrarumhverfi fyrirtækja og kemur á móti ýmsum öðrum kostnaði sem er hærri hjá landsbyggðarfyrirtækjum en sambærilegum fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu. Þessi aðferð er vel þekkt, t.d. í Noregi, og er lík hærri persónuafslætti til almennings.
    Flutningsmenn telja þessa leið ef til vill auðveldustu aðferð til að jafna samkeppnishæfni atvinnurekstrar á landsbyggðinni, þar sem hvert fyrirtæki fyrir sig reiknar út þetta gjald mánaðarlega, aðeins þarf að breyta álagningarprósentu eftir staðsetningu fyrirtækisins. Eftirlit skattyfirvalda er einnig auðvelt og einfalt.

14. Flýtiafskriftir.
    Athugað verði með flýtiafskriftir hjá nýjum fyrirtækjum og þeim fyrirtækjum sem hæfu nýja atvinnustarfsemi á landsbyggðinni á ákveðnum árafjölda þessa átaksverkefnis.

15. Húshitunarkostnaður.
    Gerð verði allsherjarúttekt á húshitunarkostnaði og hann jafnaður enn meira en gert er, sbr. tillögur svokallaðrar byggðanefndar forsætisráðherra frá því í október 1998. Sérstaklega verði kannað með möguleika á undanþágu/endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna orkunotkunar heimila og fyrirtækja sem búa við hæst orkuverð.

16. Opinber eftirlitsgjöld.
    Kannað verði með niðurfellingu eða verulega afslætti á ýmsum eftirlitsgjöldum sem atvinnurekstri á landsbyggðinni ber að greiða til ríkisins.

17. Misjöfn skipting tekjuskatts.
    Hugað verði að misjafnri skiptingu tekjuskatts á milli ríkis og sveitarfélaga, einkum hjá þeim sveitarfélögum sem orðið hafa fyrir hvað mestum búsifjum vegna brottflutnings íbúa undanfarin ár.

18. Atvinnuleysisbætur.
    Réttur sjálfstæðra atvinnurekenda, t.d. bænda og smábátaútgerðarmanna, til atvinnuleysisbóta verði aukinn og ekki gert upp á milli rekstrarforma fyrirtækja.

19. Þungaskattur.
    Álagning þungaskatts og bifreiðagjalda verði endurskoðuð sem liður í lækkun flutningsgjalda og kannað hvort taka megi upp eins konar flutningastyrki, t.d. í gegnum bókhald fyrirtækja.
    Fyrsti flutningsmaður o.fl. hafa lagt fram þingsályktunartillögu svipaðs efnis (þskj. 311, 266. mál).

20. Heilbrigðismál.
    Án nokkurs vafa er aðgengi að ýmislegri sérfræðiþjónustu lækna mikilvægt atriði þegar borin eru saman lífskjör fólks á landsbyggðinni annars vegar og höfuðborgarsvæðinu hins vegar. Flutningsmenn telja brýnt að hugað verði að þessu atriði. Slíkan mismun má jafna í gegnum skattkerfið. Benda má á tillögur svokallaðs byggðahóps forsætisráðherra frá 1998.

21. Stofnstyrkir.
    Flutningsmenn benda á þingsályktunartillögu frá Svanfríði Jónasdóttur o.fl. í þessu sambandi (þskj. 43, 43. mál), svo og greinargerð með henni.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Fylgiskjal II.


Áhrif skattalagabreytinga.
(Úr nefndaráliti 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar í 114. máli, þskj. 464.)


Skattbreytingar (millj.kr.)

Rekstrarform Fjöldi
félaga
Eignar-
skattar
Tekju-
skattur
Trygginga-
gjald
Heildarbreyting
skatta
Reykjavík 11.502 -861 -2.504 1.728 -1.637
Reykjanes 4.540 -259 -1.266 493 -1.032
Vesturland 1.360 -59 -62 118 -4
Vestfirðir 816 -21 -54 64 -12
Norðurland vestra 725 -37 -44 78 -2
Norðurland eystra 1.733 -55 -139 201 6
Austurland 985 -17 -40 89 33
Suðurland 1.827 -74 -131 92 -114
Vestmannaeyjar 314 -12 -11 43 19
Lögaðilar samtals 23.802 -1.396 -4.253 2.907 -2.742