Ferill 510. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 803  —  510. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2001.

1. Inngangur.
    Árið 2001 var tímamótaár. Hugtökin ógnir, öryggi og varnir tóku á sig áður óþekkta mynd að morgni dags 11. september þegar liðsmenn hryðjuverkasamtaka gerðu fólskulega árás á New York og Washington D.C. þar sem þúsundir saklausra borgara létu lífið. Árásirnar á Bandaríkin vógu að hjarta hins frjálsa og lýðræðislega samfélags þjóðanna og þar með að öllum aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins, meginstoðar öryggis og varna Atlantshafssamfélagsins. Viðbrögð öryggis- og varnarkerfis vestrænna þjóða, undir forustu Bandaríkjanna, einkenndust af yfirvegun. Nokkrum dögum eftir árásirnar var söguleg ákvörðun tekin á fundi Norður-Atlantshafsráðsins er 5. gr. stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins var beitt í fyrsta sinn í 52 ára sögu þess, en hún kveður á um að vopnuð árás á eitt aðildarríki í Evrópu eða Norður-Ameríku skuli talin árás á þau öll. Yfirlýsing Norður-Atlantshafsráðsins markaði straumhvörf í hálfrar aldar farsælli sögu bandalagsins. Hryðjuverkin í Bandaríkjunum, hernaður Bandaríkjamanna og Breta í Afganistan, hin alþjóðlega barátta gegn hryðjuverkastarfsemi og hin breytta heimsmynd eftir hryðjuverkaárásirnar höfðu óhjákvæmilega mikil áhrif á öll alþjóðasamskipti og þar með talið starf NATO-þingsins seinni hluta ársins 2001. Sýnt þykir að áhrif þessi verði til langframa og hefur NATO-þingið þegar skipulagt nefndarstörf sín með það að markmiði að fjalla með heildrænum hætti um alla þætti hinnar umfangsmiklu baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi.
    Af öðrum málefnum sem bar hátt á árinu má nefna hin nýju verkefni á sviði Evrópusamstarfs í öryggis- og varnarmálum en áframhald varð á gagngerri umfjöllun NATO-þingsins í þeim málaflokki. Sem fyrr hefur Íslandsdeild NATO-þingsins lagt áherslu á sem ríkasta þátttöku Íslands og annarra evrópskra aðildarríkja NATO sem standa utan Evrópusambandsins í Petersberg-verkefnunum svonefndu og hefur áréttað hagsmuni Íslands á því málefnasviði. Stækkun NATO til austurs bar enn fremur hátt í störfum NATO-þingsins á árinu. Fyrir liggur að á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Prag haustið 2002 mun verða tekin ákvörðun um næstu lotu stækkunar til austurs. Eystrasaltsríkin þrjú binda miklar vonir við að gerast aðildarríki í næstu stækkun og hefur Íslandsdeild NATO-þingsins lagt ríka áherslu á það í málflutningi sínum að Eistlandi, Lettlandi og Litháen verði boðin formleg aðild. Áframhald varð á umræðum nefnda NATO-þingsins um eldflaugavarnaáætlun Bandaríkjastjórnar og stöðu mála í suðausturhluta Evrópu, einkum þó í fyrrum Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu. Segja má þó að málefni Balkanskaga, sem borið hafa hátt á dagskrá þingsins undanfarin missiri, hafi fallið í skugga annarra verkefna og nýrra ógna á árinu. Að hluta til má eigna þá þróun þeim umbótum sem fram hafa farið í ríkjum og héruðum gömlu Júgóslavíu frá því að Slobodan Milosevic var komið frá völdum.

2. Íslandsdeild NATO-þingsins.
    Aðalmenn Íslandsdeildar NATO-þingsins árið 2001 voru Tómas Ingi Olrich, þingflokki Sjálfstæðisflokks, formaður, Guðmundur Árni Stefánsson, þingflokki Samfylkingarinnar, varaformaður, og Jón Kristjánsson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Árni R. Árnason, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ásta R. Jóhannesdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Jónína Bjartmarz, þingflokki Framsóknarflokks. Í kjölfar þess að Jón Kristjánsson tók við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu 14. apríl tók Jónína Bjartmarz sæti hans í Íslandsdeildinni 26. apríl. Magnús Stefánsson tók þá sæti sem varamaður.
    Andri Lúthersson var ritari Íslandsdeildarinnar.
    Samkvæmt samþykktum þingsins geta fulltrúar aðildarríkja tekið þátt í öllum nefndum þess. Smæð Íslands takmarkar atkvæðisrétt ríkisins við þrjár nefndir, auk stjórnarnefndar. Skipting Íslandsdeildarinnar í nefndir árið 2001 var þannig:
Stjórnarnefnd: Tómas Ingi Olrich.
    Til vara: Jónína Bjartmarz.
Stjórnmálanefnd: Tómas Ingi Olrich.
    Til vara: Árni R. Árnason.
Varnar- og öryggismálanefnd: Jónína Bjartmarz.
    Til vara: Magnús Stefánsson.
Félagsmálanefnd: Guðmundur Árni Stefánsson.
    Til vara: Ásta R. Jóhannesdóttir.
Efnahagsnefnd: Jónína Bjartmarz.
    Til vara: Magnús Stefánsson.
Vísinda- og tækninefnd: Guðmundur Árni Stefánsson.
    Til vara: Ásta R. Jóhannesdóttir.
Miðjarðarhafshópur: Tómas Ingi Olrich og
Guðmundur Árni Stefánsson.

3. Fundir sem Íslandsdeildin sótti á árinu.
    NATO-þingið heldur tvo þingfundi árlega, vorfund og svo ársfund að hausti. Auk þess fundar stjórnarnefnd sérstaklega ár hvert, ýmist í mars eða apríl. Á svokölluðum febrúarfundum heldur stjórnarnefndin fund með framkvæmdastjóra NATO og Norður-Atlantshafsráðinu, auk þess sem stjórnmálanefnd, efnahagsnefnd og varnar- og öryggismálanefnd halda sameiginlegan fund. Nefndir og undirnefndir þingsins halda reglulega námsstefnur og fundi á milli þingfunda. Jafnframt stendur varnar- og öryggismálanefnd árlega fyrir kynnisferð til eins eða fleiri aðildarríkja bandalagsins til að skoða ýmis hernaðarmannvirki og búnað. Á árinu voru haldnar þrjár Rose-Roth námsstefnur (sjá fylgiskjal II, b-lið).
    Árið 2001 tók Íslandsdeildin þátt í febrúarfundunum í Brussel og fundi stjórnarnefndar sem haldinn var í Rómaborg, vor- og ársfundum þingsins í Vilníus og Ottawa, auk átta nefndafunda utan þingfundi.

a. Febrúarfundir.
    Dagana 20.–22. febrúar voru febrúarfundir NATO-þingsins haldnir í Brussel. Að venju var um að ræða sameiginlegan fund stjórnmálanefndar, efnahagsnefndar og varnar- og öryggismálanefndar annars vegar, og fund stjórnarnefndar með Norður-Atlantshafsráðinu og framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins hins vegar. Auk funda með fulltrúum NATO áttu fulltrúar NATO-þingsins fundi með fulltrúum ráðherraráðs Evrópusambandsins, tímabundinnar herstjórnar Evrópusambandsins og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Aukaaðilar NATO-þingsins hafa ekki seturétt á fundum og hefur mikilvægi þeirra aukist mjög á undanförnum árum, ekki síst í ljósi þess að þar gefst fulltrúum aðildarríkja bandalagsins færi til að ræða einir saman. Af hálfu Íslandsdeildarinnar sátu Tómas Ingi Olrich formaður og Jón Kristjánsson fundina, auk ritara. Helstu umræðuefni voru þróun Evrópusamstarfs í öryggis- og varnarmálum, áætlanir Bandaríkjamanna um að koma á fót takmörkuðu eldflaugavarnakerfi og ástand mála á Balkanskaga. Þess utan var rætt um viðskipti Evrópu og Bandaríkjanna á fundi með fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB.
    Fund stjórnmálanefndar, efnahagsnefndar og varnar- og öryggismálanefndar NATO-þingsins ávarpaði aðstoðarframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, Klaus-Peter Klaiber, sem fer fyrir stjórnmáladeildinni. Þá hélt dr. Edgar Buckley aðstoðarforstöðumaður varnarmáladeildarinnar erindi. Svöruðu þeir spurningum fundarmanna. Þá var efnt til hringborðsumræðna um notkun rýrðs úrans í átökunum í Kosovo-stríðinu þar sem þeir Daniel V. Speckhard, aðstoðarframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, og Mark Laity, aðstoðartalsmaður Atlantshafsbandalagsins, svöruðu spurningum fulltrúa NATO-þingsins.
    Rafael Estrella, nýkjörinn forseti NATO-þingsins, hóf almennar umræður og lagði áherslu á að tryggja samvinnu og samstöðu innan NATO þegar málefni líkt og Evrópusamstarfið í öryggis- og varnarmálum og eldflaugavarnaáætlun Bandaríkjastjórnar bæri á góma. Í máli Klaus-Peters Klaibers kom fram mat hans á meginforsendum Evrópusamstarfs í öryggis- og varnarmálum. Taldi hann að umfangsmikil samrunaþróun Evrópusambandsins, nauðsyn þess að Evrópuríkin öxluðu auknar hernaðarlegar byrðar og breytingar á eðli hernaðarátaka á síðasta áratug væru þær ástæður sem vægju þyngst á metunum. Sagði Klaiber jafnframt þróunina í átt að auknum hernaðarmætti ESB-ríkja hafa verið jákvæða og að árangur hefði náðst á mörgum sviðum. Lagði hann áherslu á að NATO hefði einnig lagt sitt af mörkum og hefði hafist handa við starf sem miðaði að því að skilgreina þörfina á aðstoð við Evrópuríkin. Þá ræddi hann einnig um afstöðu NATO-ríkjanna utan ESB og þær spurningar sem þau hefðu varpað fram. Í umræðum kom fram að þau málefni er lytu að þátttöku NATO-ríkjanna sex utan ESB væru mest aðkallandi í þessu tilliti.
    Á fundi fulltrúa NATO-þingsins með Cristoph Heusgen, yfirmanni stefnumótunardeildar ráðherraráðs ESB, var rætt um helstu forsendur Evrópusamstarfsins í öryggis- og varnarmálum. Í máli sínu vék Heusgen að mikilvægi hlutverks Javiers Solanas, sem fer með þennan málaflokk í framkvæmdastjórn ESB, og vék því næst að þeim stofnanalegu breytingum sem nú hefðu átt sér stað innan ESB, og þá sérstaklega stjórnmála- og öryggismálanefndinni. Þá gerði Heusgen samskiptin við NATO að umtalsefni og lagði áherslu á að ESB mundi eingöngu grípa til aðgerða þegar fyrirséð væri að aðgerð yrði ekki í verkahring NATO og vísaði þar með til Petersberg-verkefnanna. Fullyrti hann að ESB ætlaði sér ekki að byggja upp aðskildan hernaðarmátt og taldi að treysta þyrfti nánara samband milli ESB og NATO. Lagði hann og áherslu á að ESB ætlaði sér ekki að sjá um hættuástandsstjórnun eitt síns liðs heldur kæmu þar einnig til framtíðaraðildarríki ESB og önnur samstarfsríki. Í umræðum spurði Tómas Ingi Olrich um hinar sívaxandi ábyrgðir sem ESB tæki á sig og vísaði til þess að aðildarríkin væru ekki samstíga í fyrirhuguðu samstarfi. Gerði hann t.d. afstöðu Danmerkur og afstöðu Bretlands til Schengen-samstarfsins að umtalsefni og benti á undanþáguákvæði sem væru þessu samfara. Til samanburðar vék Tómas Ingi máli sínu að stöðu NATO-ríkjanna sex utan ESB og hlutverki þeirra í Evrópusamstarfinu í öryggis- og varnarmálum. Sagði hann að þeim hefði verið gert að fallast á skilyrði ESB sem komið hefðu fram á leiðtogafundinum í Nice. Af því mætti draga þá ályktun að sveigjanleiki ætti greinilega við um ESB og aðildarríki þess en að ESB væri fremur ósveigjanlegt með tilliti til öryggis- og varnarmála þegar NATO-ríkin sex væru annars vegar.
    Á fundi stjórnarnefndar með Norður-Atlantshafsráðinu var að mestu fjallað um Evrópusamstarfið í öryggis- og varnarmálum og kom fram í máli framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins að nauðsynlegt væri að efla Evrópusamstarfið en jafnframt yrði að finna lausn á spurningunni um þátttöku evrópsku NATO-ríkjanna sex sem stæðu utan ESB og að sú lausn yrði að vera ásættanleg bæði fyrir NATO og ESB. Nokkuð var rætt um hættuna á því að evrópsku NATO-ríkin sex utan ESB yrðu útilokuð frá Evrópusamstarfinu í öryggis- og varnarmálum. Fastafulltrúi Frakklands ræddi um að svo virtist sem ekki væri sami skilningur á þátttöku NATO-ríkjanna sex utan ESB og Evrópusambandsins sjálfs. Að undanförnu hefði verið reynt að finna lægsta samnefnara milli umræddra ríkja og ESB og sagði hann jafnframt að sambandið hefði verið gagnrýnt fyrir þá viðleitni sína. Taldi hann að leiðtogafundurinn í Nice hefði sýnt fram á að ekki væri verið að útiloka ríkin frá Evrópusamstarfinu á sviði öryggis- og varnarmála og taldi að tillögur ESB væru réttmætar og sanngjarnar. Vék hann einnig að því að NATO gengi ekki nægilega langt í samvinnuátt. Í umræðum sagðist Tómas Ingi Olrich fagna niðurstöðu fundarins í Nice en jafnframt að þróunin væri skammt á veg komin. Vék hann að þátttökurétti evrópsku NATO-ríkjanna sex utan ESB og sagði að enn væri mörgum spurningum ósvarað. Þá lagði Tómas Ingi áherslu á að ekki mætti missa sjónar á einingunni innan NATO og minnti í því samhengi á yfirlýsingar leiðtoga aðildarríkja NATO á Washington-fundinum árið 1999.

b. Fundur stjórnarnefndar.
    Laugardaginn 31. apríl fundaði stjórnarnefnd NATO-þingsins í Rómaborg. Fundinn sat af hálfu Íslandsdeildar Tómas Ingi Olrich formaður, auk ritara. Á fundinum var m.a. rætt um skipulag starfsemi þingsins og stöðu mála í Júgóslavíu og Hvíta-Rússlandi.
    Í upphafi fundar voru formönnum sendinefndanna kynntar hugmyndir um að auka tengsl bandarísku þingmannanna á NATO-þinginu og þeirra evrópsku með því að efna til ráðstefnu í Washington D.C. í desembermánuði sem bæri nafnið „Transatlantic Forum“. Megininntak ráðstefnunnar væri fyrir fulltrúa að skiptast á skoðunum um málefni þau sem hæst bæru í Atlantshafssamskiptunum, svo sem eldflaugavarnir, viðskipti og orkumál, auk þess að heyra framlag bandarískra embættismanna. Stjórnarnefndarmenn tóku allir vel í tillögur þessar og lýstu yfir þeirri von sinni að ráðstefnan yrði að árlegum viðburði. Þá var rætt um tengsl NATO-þingsins við rússnesku Dúmuna en á árinu 2000 höfðu samskipti NATO og Rússlands batnað mikið eftir um eins árs hlé í kjölfar stríðsins í Kosovo. Stjórnarnefndarmenn fögnuðu hinum auknu samskiptum og því að þingmenn Dúmunnar hugðust sækja vorfundinn í Vilníus og ársfundinn í Ottawa. Fögnuðu þingmenn einnig fyrirhuguðum sameiginlegum nefndafundi stjórnmálanefndar, varnar- og öryggismálanefndar og félagsmálanefndar með þingmönnum Dúmunnar í marsmánuði. Mikill áhugi virtist vera á þeim fundi meðal fulltrúa á NATO-þinginu en alls höfðu 80 þingmenn skráð sig til þátttöku.
    Fyrsta dagskrármálið á fundinum voru samskipti NATO-þingsins við Sambandsríkið Júgóslavíu annars vegar og Hvíta-Rússland hins vegar. Stjórnarnefndarmenn fögnuðu lýðræðisþróuninni í Júgóslavíu og þótt ekki hefði verið talið tímabært að ræða hugsanlega aukaaðild Júgóslavíu var ákveðið að bjóða fulltrúum júgóslavneska þingsins til vissra nefndafunda á vegum NATO-þingsins. NATO-þingið ákvað árið 1997 að slíta tengslum sínum við hið nýkjörna hvít-rússneska þing eftir þingkosningar sem brutu í bága við alþjóðlega staðla um frjálsar og lýðræðislegar kosningar. Fulltrúum þrettánda Sovétsins (hins eldra þings) var áfram boðið að senda fulltrúa á fundi NATO-þingsins en nú bar svo við að upprunalegt kjörtímabil þeirra var útrunnið og þar af leiddi að ekki var unnt að bjóða neinum réttmætum þjóðkjörnum fulltrúum Hvít-Rússa. Rétt fyrir stjórnarnefndarfundinn hafði sérlegur starfshópur NATO-þingsins, undir forsæti Markus Meckels, haldið til Hvíta-Rússlands með það að markmiði að reyna að koma á tengslum NATO-þingsins við fulltrúa frá landinu. Miklar umræður spruttu um tillögur þær sem starfshópurinn lagði fyrir stjórnarnefndarfundinn en þær kváðu á um, í fyrsta lagi, að formlegri stöðu Hvíta-Rússlands fyrir utan NATO-þingið skyldi viðhaldið að svo komnu máli, og í öðru lagi, að NATO-þingið skyldi bjóða þremur hvít-rússneskum fulltrúum til vorfundarins í Vilníus til skoðanaskipta. Nokkur ágreiningur var um hvaða fulltrúum ætti að bjóða og varð niðurstaðan sú að bjóða fjórum fulltrúum frá landinu en enginn þeirra mætti þó vera fulltrúi þings þess sem kjörið var til í síðustu kosningum.
    Í umræðum um starfsemi þingsins var vikið að reglum um afgreiðslu tilmæla á nefndarfundum og þingfundum og rætt um að forðast bæri að mismunandi nefndir legðu fram tilmæli um sömu mál. Slíkt hefði komið fyrir á ársfundinum í Berlín árið 2000 og voru stjórnarnefndarmenn sammála um að starfsfólk nefndanna þyrfti að hafa vakandi auga með því að þær tækju ekki sömu mál til umfjöllunar. Fyrir fundinum lágu tillögur frá forseta þingsins, Rafael Estrella, um að einfalda reglur er varða breytingartillögur við tilmæli þingsins sem tekin væru fyrir á þingfundum. Sagði forsetinn að brögð hefðu verið að því á undanförnum missirum að mikill fjöldi smávægilegra breytingartillagna, sem oftar en ekki væru lagðar fram í nafni sömu þingmannanna, hefði tafið mikið fyrir störfum þingfundarins sem alla jafna væri efnt til á lokadegi, vorfundar og ársfundar NATO-þingsins. Stjórnarnefndarmenn lýstu sig almennt afar fylgjandi tillögunum sem gerðu ráð fyrir að til að breytingartillögur væru tækar þyrfti undirritun fimm þingmanna frá þremur þjóðríkjum ellegar undirritun formanns landsdeildar fyrir hönd landsdeildarinnar allrar. Þær reglur sem áður giltu kváðu á um að aðeins þyrfti undirritun þriggja þingmanna frá þremur þjóðríkjum. Tómas Ingi Olrich kvaðst í umræðum um tillögurnar vera afar fylgjandi boðuðum breytingum enda væri mikil nauðsyn, ekki síst í tilfelli smárra ríkja eins og Íslands sem hefði aðeins þrjú atkvæði á þinginu, að formaður landsdeildar gæti lagt fram breytingartillögur þegar nauðsyn krefði og þjóðarhagsmunir væru í húfi. Niðurstaða fundarins var sú að tillögurnar voru samþykktar til reynslu, án þess þó að breyta þingsköpum NATO-þingsins. Þá var ákveðið að við breytingartillögur sem lagðar væru fram í nefndum þyrfti undirritun þriggja þingmanna frá þremur þjóðríkjum ellegar undirritun formanns landsdeildar.

c. Vorfundur.
    Dagana 27.–31. maí var vorfundur NATO-þingsins haldinn í Vilníus í Litháen. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Tómas Ingi Olrich formaður, Guðmundur Árni Stefánsson varaformaður og Jónína Bjartmarz, auk ritara. Að vanda var vorfundurinn skipulagður sem eins konar undirbúningsfundur fyrir ársfund þingsins í Ottawa í Kanada 6.–9. október. Í málefnanefndum voru til umræðu skýrslu- og ályktanadrög sem átti að samþykkja í Ottawa, auk þess sem ýmsir góðir gestir ávörpuðu fundi nefndanna og svöruðu spurningum þingmanna. Það sem hæst bar á fundinum í Vilníus var næsta lota stækkunar Atlantshafsbandalagsins (NATO) í austurátt, stefna Evrópusambandsins (ESB) í öryggis- og varnarmálum og samband ESB við NATO.
    Í stjórnmálanefnd voru til umræðu skýrslur um lykilatriðin í framtíð varnarsamstarfs NATO-ríkja og öryggi Evrópu; stækkun Atlantshafsbandalagsins; og eldflaugavarnir og stefna Evrópusambandsins (ESB) á sviði öryggis- og varnarmála. Fund nefndarinnar ávörpuðu þeir Antanas Valionis, utanríkisráðherra Litháens, og Cristopher Hill, sendiherra Bandaríkjanna í Póllandi. Utanríkisráðherrann fjallaði um stefnumið litháískra stjórnvalda í öryggis- og varnarmálum og lagði áherslu á það í ræðu sinni að mikilvægt væri að Eystrasaltsríkin þrjú fengju skýrar vísbendingar um framtíðaraðild og nefndi í því sambandi næsta leiðtogafund NATO sem haldinn verður í Prag 2002. Cristopher Hill fjallaði um stefnumið nýrrar ríkisstjórnar Bandaríkjanna í öryggismálum Evró-Atlantshafssvæðisins og nefndi að þau fjögur málefni sem hæst mundi bera á þeim vettvangi á næstu missirum væru öryggis- og varnarmálastefna ESB, eldflaugavarnir, stækkun NATO og staða mála á Balkanskaga. Hvað öryggis- og varnarmálastefnu ESB varðaði lagði sendiherrann mikla áherslu á þau stefnumið Bandaríkjastjórnar að tryggt yrði að evrópsku NATO-ríkin sex sem stæðu utan ESB fengju sem ríkust áhrif á stefnumótun innan ESB en sagði jafnframt að þróunin hefði hingað til verið afar jákvæð. Í framsögu sinni um lykilatriðin í framtíð varnarsamstarfs NATO-ríkja og öryggi Evrópu, fagnaði skýrsluhöfundurinn, Þjóðverjinn Markus Meckel, því m.a. að Evrópuríkin öxluðu auknar byrðar hvað öryggismál í álfunni varðaði og lagði út af því að NATO-þinginu bæri að auka tengsl sín og samskipti við Evrópuþingið. Þá sagði hann að stækkunarferli NATO væri eitt af mikilvægari atriðum á dagskrá næstu missira og lagði áherslu á að aðildaráætlun NATO (e. Membership Action Plan) yrði að styrkja í ljósi þess að þau ríki sem óska aðildar yrðu að auka hernaðargetu sína ef af aðild ætti að verða. Bert Koenders, höfundur skýrslunnar um stækkun NATO, sagði í framsögu sinni að í aðildarríkjum NATO yrði að fara fram mun heildstæðari umræða um stækkun bandalagsins og sagði mikilvægt að fullur stuðningur við stækkun í austurátt kæmi fram á leiðtogafundinum í Prag 2002. Þá lagði hann áherslu á að koma yrði í veg fyrir að óskyld málefni, líkt og fyrirhuguð eldflaugavarnaáætlun Bandaríkjastjórnar og stækkun NATO, yrðu tengd með beinum hætti. Í umræðum um skýrsludrögin sagði Tómas Ingi Olrich að tryggja bæri þátttöku evrópsku NATO-ríkjanna sex sem standa utan ESB í stefnumótun ESB í öryggis- og varnarmálum. Sagði hann að í skýrslu Markus Meckels gætti þess misskilnings að ríkin hefðu farið fram á fulla þátttöku þegar staðreyndin væri að enginn hefði farið þess á leit. Þá gagnrýndi Tómas Ingi söguleg efnistök skýrsluhöfundar á því hvernig innlimun Eystrasaltsríkjanna undir Sovétríkin bar að. Tómas Ingi gerði einnig athugasemd við að í skýrslunni væri ekki greint frá yfirlýstum stuðningi íslenskra stjórnvalda við aðild Eystrasaltsríkjanna að NATO, heldur aðeins Danmerkur, Noregs og Bandaríkjanna. Hét skýrsluhöfundur að lagfæra það. Fleiri voru til þess að gagnrýna efnistök í skýrslunni og sagði t.a.m. Carolyn Parrish, formaður kanadísku landsdeildarinnar, að of mikið væri gert úr stefnumiðum ESB miðað við að um skýrslu NATO-þingsins væri að ræða.
    Í varnar- og öryggismálanefnd voru til umræðu skýrslur um eldflaugavarnir og áhrif þeirra á eininguna innan NATO; hlutverk NATO í hermálaumbótum; og NATO og stefnu ESB í öryggis- og varnarmálum. Fund nefndarinnar ávörpuðu þeir Linas Linkevicius, varnarmálaráðherra Litháens, og Jonas Kronkaitis, hershöfðingi og yfirmaður herafla Litháens. Fjölluðu þeir um árangur Litháens við umbætur í hermálum landsins samkvæmt aðildaráætlun NATO.
    Í félagsmálanefnd voru til umræðu skýrslur um borgaraleg áhrif á öryggismál í Evrópu; horfur á lýðræðisumbótum í Sambandsríkinu Júgóslavíu, Hvíta-Rússlandi og Kaliningrad; og suðausturhluta Evrópu, horfur á varanlegum friði og stöðugleika. Fund nefndarinnar ávörpuðu þeir Vytautas Markevicius, innanríkisráðherra Litháens, sem fjallaði um baráttu stjórnvalda gegn skipulegri glæpastarfsemi; Alexander Feduta, forstöðumaður vísindastofnunarinnar í Minsk í Hvíta-Rússlandi, sem fjallaði um stjórnmálaástandið í landinu og komandi forsetakosningar; og Zoran Zivkovic, innanríkisráðherra Sambandsríkisins Júgóslavíu, sem fjallaði um lýðræðisumbæturnar í Júgóslavíu eftir valdaskiptin.
    Í efnahagsnefnd voru til umræðu skýrslur um samspil orku- og öryggismála og mikilvægi orku í öryggiskerfi Evró-Atlantshafssvæðisins; hagkerfi Serbíu, uppbyggingarstarf og þrengingar eftir valdatíð Milosevic; stöðugleika og hagsæld í Evrópu, horfur á stækkun ESB; og stofnanalegar og pólitískar forsendur fyrir viðskiptatengslum Bandaríkjanna og ESB. Fundinn ávörpuðu þeir Petras Austervicius, formaður Evrópunefndar ríkisstjórnar Litháens og aðalsamningamaður stjórnvalda í aðildarviðræðum við ESB, og Nerijus Eidukevicius, aðstoðarfjármálaráðherra Litháens. Fjölluðu þeir um víðtækar efnahagsumbætur í landinu og gang aðildarviðræðna við ESB. Tómas Ingi Olrich tók til máls í umræðum um orkumál og ræddi þar hve mikilvægt væri að þau málefni væru rædd á vettvangi NATO-þingsins. Í máli sínu vék Tómas Ingi að stefnu Vesturlanda í orkumálum en þau hefðu á undanförnum árum lagt of ríka áherslu á skammtímasjónarmið og að slíkt skapaði mikinn vanda á næstu áratugum. Orka væri ein grundvallarforsenda hins hnattræna hagkerfis og aðgengi að tryggu framboði orku væri afar mikilvægt fyrir öryggis- og varnarmál í NATO-ríkjum. Þá benti Tómas Ingi á umhverfislegar afleiðingar notkunar á olíu, gasi og kolum, helstu orkugjöfum Vesturlanda, og enn fremur á þann pólitíska óstöðugleika sem einkenndi þau svæði er geymdu helstu orkuforðabúr jarðar – svæði sem gegndu æ mikilvægara hlutverki í orkumálum Vesturlanda. Tómas Ingi sagði að gefnar forsendur bentu til þess að vestrænar þjóðir yrðu að móta stefnu til lengri tíma litið þar sem hugað væri bæði að tryggu framboði orku og sjónarmiðum um umhverfisvernd. Taldi hann að þótt í skýrslunni væri gerð grein fyrir hversu Vesturlönd væru háð innflutningi á olíu þá skorti í hana umfjöllun um efnahagslegar, pólitískar og umhverfislegar afleiðingar þessa. Fyrirséð væri að á næstu áratugum yrðu Vesturlönd enn háðari Miðausturlöndum í orkumálum. Þá vakti Tómas Ingi athygli á því að verðmyndunin tengdist þessari þróun með beinum hætti. Flestar spár bentu til að hámarki olíuframleiðslu yrði náð eftir 15–20 ár og samtímis mundi eftirspurn aukast stórlega ef fram færi sem horfði. Að öllum líkindum mundi því verð hækka umtalsvert á þessu tímabili. Vesturlönd yrðu að taka á þessum vanda og því bersýnilegt að skýrsla efnahagsnefndarinnar yrði sömuleiðis að fjalla um hann. Þá sagði Tómas Ingi að í skýrslunni væri ekki tekið nægilegt tillit til aukins mikilvægis kjarnorku sem framtíðarorkugjafa og færði rök fyrir því að kjarnorkan væri eini hugsanlegi orkugjafinn sem nýta mætti til að koma til móts við framtíðareftirspurn eftir orku án þess að valda umhverfisspjöllum. Ekki yrði unnt að minnka olíunotkun án þess að auka nýtingu kjarnorku og enn sem stendur væru afar takmarkaðar fjárfestingar í nýjungum í kjarnorkuvinnslu, en núverandi orkuvinnsla væri óviðunandi vegna geislavirkra úrgangsefna. Þá vék Tómas Ingi máli sínu að Kyoto-bókun loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og benti á veikleika hennar, einkum hvað áhrærði annars vegar þróunarríkin og losunarkvóta þeirra og hins vegar ESB sem í þessu tiltekna máli kæmi ýmist fram sem ríkjasamband eða samstarfsvettvangur sjálfstæðra ríkja eftir því hvað hentaði hverju sinni. Að lokum sagðist Tómas Ingi vonast til þess að Vesturlönd hygðu að nýrri stefnu í þessum afar mikilvæga málaflokki og að langtímahagsmunir verði þar ríkjandi. Innleggi Tómasar Inga í umræðuna um orkumálin var vel tekið og tóku margir fundarmanna undir orð hans. Þá hét skýrsluhöfundur, Lúxemborgarbúinn Paul Helminger, að bæta athugasemdum Tómasar Inga í skýrsluna áður en hún yrði lögð fram til samþykktar á haustfundinum í Ottawa í október.
    Í vísinda- og tækninefnd voru til umræðu skýrslur um eftirlit með kjarnorkumannvirkjum í ríkjum gömlu Sovétríkjanna; hryðjuverk og útbreiðslu gereyðingarvopna; notkun rýrðs úrans í hernaðarlegum tilgangi í suðaustanverðri Evrópu; tækninýjungar og áhrif þeirra á afvopnunarsamninga og hömlur á útbreiðslu kjarnavopna; og kjarnorkuöryggismál í Mið- og Austur-Evrópu. Fund nefndarinnar ávarpaði Pekka Haavisto, formaður umhverfisnefndar Sameinuðu þjóðanna og sérfræðingur í notkun rýrðs úrans í hernaði. Fjallaði hann um hernaðarnotkun rýrðs úrans á Balkanskaga.
    Á fundi stjórnarnefndarinnar var ákveðið að áhersla þingfundarins í Vilníus yrði á yfirlýsingu NATO-þingsins um stöðu mála í suðaustanverðri Evrópu þar sem ástandið í fyrrum Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu væri til umfjöllunar. Ljóst væri að nokkrar breytingartillögur yrðu lagðar fram og mundi reglubreyting sú sem ákveðin hefði verið á stjórnarfundinum í Rómaborg fyrr á árinu því koma til framkvæmda. Í Róm var ákveðið að breytingartillögur við þingmál sem tekin væru fyrir á þingfundi NATO-þingsins yrði að leggja fram með þeim skilyrðum að annaðhvort undirrituðu hana fimm þingmenn frá þremur ríkjum eða formaður landsdeildar fyrir hönd hennar. Þá var ákveðið að NATO-þingið gæfi út yfirlýsingu um stækkun NATO og að sú yfirlýsing yrði í samræmi við ályktun haustfundarins í Berlín 2000. Þá var vikið að málefnum Rússlands en sendinefnd rússneska þingsins hafði ákveðið að hunsa vorfundinn í Vilníus en að mati Dúmunnar gæti þátttaka sendinefndarinnar verið túlkuð sem samþykki fyrir aðild Eystrasaltsríkjanna að NATO. Þó hefði komið fram í máli forustumanna Dúmunnar að þeir vildu ekki að þetta yrði til þess að skaða samskiptin við NATO. Framkvæmdastjóri þingsins, Simon Lunn, sagði að samskiptin við Rússa hefðu tekið miklum framförum á undanförnum missirum og benti á góðan árangur af sameiginlegum nefndarfundi NATO-þingsins í Moskvu fyrr á árinu. Sagði Lunn að fundir þessir yrðu gerðir að föstum lið í dagskrá stjórnmálanefndar, varnar- og öryggismálanefndar og félagsmálanefndar þingsins. Urðu nokkrir þingmenn til þess að mótmæla ákvörðun Dúmunnar um að senda enga þingmenn til Vilníus.
    Þá var vikið að málefnum Aserbaídsjan en ríkið sótti um aukaaðild að NATO-þinginu árið 1999. Aðildarumsókninni var hafnað en þess í stað var þingi Aserbaídsjan veitt áheyrnaraðild. Nokkrar umræður urðu um hvernig móta bæri afstöðu þingsins gagnvart Aserbaídsjan og voru flestir á því máli að miðað við ríkjandi ástand í stjórnarfari landsins, sem t.a.m. hefði bersýnilega komið í ljós í þingkosningunum 2000, væri engin ástæða til að veita ríkinu aukaaðild. Nefndu nokkrir þingmenn, þar á meðal Tómas Ingi Olrich, Evrópuráðsþingið í þessu samhengi en Armeníu og Aserbaídsjan var veitt full aðild að Evrópuráðinu í ársbyrjun. Þótti þeim þingmönnum sem til máls tóku miður að sú stofnun hefði ákveðið að veita ríkjunum aðild og vildu ekki að NATO-þingið færi sömu leið. Þá var einnig rætt um líklega aukaaðildarumsókn Bosníu og Hersegóvínu.
    Nokkur umræða fór fram um nefndastarf þingsins og þá aðallega hvaða ráðum mætti beita til að koma í veg fyrir að tvær eða fleiri nefndir álykti um sömu mál, en sú staða hafði komið upp á haustfundinum í Berlín árinu áður. Almennt álit var að ekki væri unnt að koma í veg fyrir að málefnanefndir tækju mál til umræðu enda margar hliðar á hverju máli. Hins vegar yrði að gæta ákveðins greinarmunar og í því ljósi þótti fundarmönnum að öryggis- og varnarmálastefna ESB ætti heldur heima í stjórnmálanefnd og eldflaugavarnir í varnar- og öryggismálanefnd svo að dæmi séu nefnd. Stjórnarnefnd þingsins yrði að gæta að því að málefnanefndirnar ályktuðu ekki um sömu mál með ólíkum hætti.
    Á þingfundinum var samþykkt ályktun um stöðu mála í suðaustanverðri Evrópu og ályktun um stækkun NATO. Litháíski þingmaðurinn Rasa Jukneviciene flutti breytingartillögu við ályktun þingsins um stækkun NATO sem kvað á um að öll evrópsk lýðræðisríki gætu sótt um aðild að Atlantshafsbandalaginu og að réttur þeirra til þessa sætti ekki neitunarvaldi þriðja aðila. Íslenska sendinefndin studdi breytingartillöguna og var hún samþykkt. Fundinn ávörpuðu Rafael Estrella, forseti NATO-þingsins, George Robertson lávarður, framkvæmdastjóri NATO og formaður Norður-Atlantshafsráðsins, og Rolandas Paksas, forsætisráðherra Litháens. Robertson lávarður og Rolandas Paksas svöruðu jafnframt spurningum þingmanna.

d. Ársfundur.
    Dagana 6.–9. október var 47. haustfundur NATO-þingsins haldinn í Ottawa. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Tómas Ingi Olrich formaður, Guðmundur Árni Stefánsson varaformaður og Jónína Bjartmarz, auk ritara Íslandsdeildarinnar. Tómas Ingi Olrich sat fundi stjórnarnefndar og stjórnmálanefndar. Guðmundur Árni Stefánsson sat fundi félagsmálanefndar og Jónína Bjartmarz sat fundi varnar- og öryggismálanefndar.
    Haustfundurinn í Ottawa var haldinn í skugga hryðjuverkanna í New York og Washington D.C. þann 11. september og bar samkoman merki þeirra atburða en stuttu áður hafði Atlantshafsbandalagið (NATO) samþykkt að fólskuleg árás hryðjuverkamanna á Bandaríkin jafngilti árás á öll aðildarríki bandalagsins. Yfirlýsing NATO markaði straumhvörf í hálfrar aldar sögu bandalagsins í ljósi þess að ákvæði 5. gr. Norður-Atlantshafssáttmálans, sem kveður á um sameiginlegar varnir, komu til framkvæmda í fyrsta skipti. Meðan á haustfundinum stóð hófust hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna og Breta í Afganistan sem beint var gegn þeim sem taldir voru sekir um hryðjuverkin í Bandaríkjunum. Atburðir þessir höfðu óhjákvæmilega mikil áhrif á haustfundinn í Ottawa og voru málefni alþjóðlegrar hryðjuverkastarfsemi og hinnar breyttu heimsmyndar í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum rædd í öllum málefnanefndum þingsins. Var jafnframt ákveðið í stjórnarnefnd þingsins að umræðan um hryðjuverk skyldi tekin upp í öllum nefndum NATO-þingsins og er ljóst að á komandi starfsári munu pólitísk, efnahagsleg, tæknileg og samfélagsleg viðbrögð við alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi bera hátt í störfum þingsins. Af öðrum málefnum sem rædd voru á þinginu bar hæst umræðuna um stækkun NATO til austurs. Þá var þróun Evrópusamstarfs í öryggis- og varnarmálum til umræðu í stjórnmálanefnd og í öryggis- og varnarmálanefnd. Í báðum málaflokkum gerðu íslensku þingmennirnir grein fyrir sjónarmiðum Íslands
    Í stjórnmálanefnd voru til umræðu skýrslur um lykilatriðin í framtíð varnarsamstarfs NATO-ríkja og öryggi Evrópu; stækkun Atlantshafsbandalagsins; og eldflaugavarnir og stefnu Evrópusambandsins (ESB) á sviði öryggis- og varnarmála. Þá ályktaði nefndin um stækkun NATO til austurs; eldflaugavarnir og stefnu ESB á sviði öryggis- og varnarmála; og ástand mála í suðaustanverðri Evrópu. Fund nefndarinnar ávörpuðu þeir Gaetan Lavertu, aðstoðarutanríkisráðherra Kanada; dr. Jeffrery Simon, frá National Defence University í Montreal; dr. Allen Sens, formaður alþjóðasamskiptadeildar háskólans í Bresku-Kólumbíu; og Stanley Sloan, forstöðumaður Atlantic Community-stofnunarinnar og gestakennari við Middlebury-háskólann í Kanada.
    Í upphafi fundar stjórnmálanefndarinnar var efnt til opinnar umræðu um áhrif hryðjuverkanna í Bandaríkjunum og tóku margir þingmenn til máls og lýstu yfir samúð með bandarísku þjóðinni og fullum stuðningi við aðgerðir Bandaríkjastjórnar. Fundurinn hófst á því að bandaríski þingmaðurinn Porter Goss, varaformaður nefndarinnar, þakkaði fyrir þann stuðning sem bandaríska þjóðin hefði fengið á síðustu vikum og ítrekaði mikilvægi þess að allar þjóðir störfuðu saman í baráttunni gegn hryðjuverkum. Þá las formaður slóvakísku sendinefndarinnar, Frantisek Sebej, upp sameiginlega stuðningsyfirlýsingu landsdeilda tíu aukaaðildarríkja í Mið- og Austur-Evrópu og Tyrkinn Kamran Inan vakti athygli á því að hryðjuverkaváin væri ekki nýtilkomin, Tyrkir hefðu t.a.m. þurft að berjast gegn slíkum ógnum í árabil. Í umræðunum lýsti Tómas Ingi Olrich yfir fullum stuðningi við Bandaríkjastjórn og sagði að fyrstu viðbrögð hennar eftir árásirnar hefðu einkennst af ákveðnum, yfirveguðum og ábyrgum viðbrögðum við áður óþekktum aðstæðum. Sagði Tómas Ingi að með árásunum á Bandaríkin þann 11. september hefði í raun verið vegið að hinu frjálsa og lýðræðislega samfélagi ríkjanna og þar með öllum aðildarríkjum NATO. Bandaríkin gætu því reitt sig á stuðning þjóðþinga aðildarríkjanna. Í máli Tómasar Inga kom fram að hryðjuverkin hefðu ófyrirséðar afleiðingar á mörgum sviðum og að NATO yrði að taka á mörgum álitamálum og hrinda sameiginlegum aðgerðum í framkvæmd. Í fyrsta lagi benti Tómas Ingi á hve mikið áfall hryðjuverkin hefðu verið fyrir leyniþjónustur þar sem ekki hefði verið unnt að sjá fyrir í hvað stefndi og bregðast við í tæka tíð. Í þessu tilliti taldi hann afar mikilvægt að þjóðþing aðildarríkja NATO yrðu í auknum mæli að axla þá ábyrgð að koma almenningi í skilning um mikilvægi samstilltrar baráttu gegn hryðjuverkum og að þjóðaröryggi til lengri tíma litið vægi þyngra en skammtímasjónarmið. Þá vakti Tómas Ingi máls á því að viðsjárvert væri hve efnahagslega háð Bandaríkin og önnur vestræn ríki væru Miðausturlöndum hvað orkuframboð varðar. Svæðið fyrir botni Miðjarðarhafs einkenndist oftar en ekki af pólitískum óstöðugleika og hin nýja heimsmynd sem skapaðist eftir hryðjuverkin 11. september gæfi öfgaöflum sem andsnúin væru lýðræði og frelsi markaðarins aukið vægi ef litið væri til orkuforðans sem Miðausturlönd hefðu að geyma. Hvatti Tómas Ingi jafnframt til þess að ráðamenn hygðu að þeim leiðum sem væru færar til að snúa þessari þróun við, ella stæðu Vesturlönd berskjölduð frammi fyrir miklum vanda.
    Í umræðum nefndarinnar var tekin fyrir skýrslan um lykilatriðin í framtíð varnarsamstarfs NATO-ríkja og öryggi Evrópu, svo sem þróun stefnu ESB í öryggis- og varnarmálum, stækkun NATO, samskipti NATO og Rússlands og eldflaugavarnir. Kom fram nokkur gagnrýni á skýrsluna, sem fjölda fundarmanna þótti m.a. draga taum Evrópusambandsins í of ríkum mæli. Niðurstaða umræðunnar varð sú að skýrsludrögum var vísað aftur til höfundarins, Markus Meckels, í stað þess að verða gerð að skýrslu stjórnmálanefndar. Miklar umræður urðu um skýrslu Hollendingsins Bert Koenders um stækkun Atlantshafsbandalagsins og þá sérstaklega ályktunardrögin sem henni fylgdu. Þau nýmæli voru gerð við framlögn ályktunardraganna að tvær málsgreinar, og hluti þeirrar þriðju, voru lagðar fram, aðeins í nafni Markus Meckels, sem var meðhöfundur ályktunardraganna ásamt Bert Koenders. Greinar þessar gerðu ráð fyrir að tengja stækkunarferli NATO og ESB með því að nefna að öll aðildarríki ESB gætu gerst aðilar að NATO ef þess yrði óskað, að uppfylltum hernaðarlegum skilyrðum; og yfirlýsingu þess efnis að ákvörðun um næstu lotu stækkunar NATO verði tekin eigi síðar en 2005. Þá vildi Meckel að í málsgrein sem kvað á um aðildarviðræður eftir leiðtogafundinn í Prag 2002, stæði að aðildarviðræður hæfust við öll þau ríki sem uppfylltu skilyrði bandalagsins, þ.m.t. Eystrasaltsríkin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen. Fjölmargar breytingartillögur höfðu verið lagðar fram og mikil skoðanaskipti urðu um ályktunardrögin og þá sérstaklega þær klausur sem Meckel lagði fram. Tómas Ingi Olrich gerði athugasemd við að nöfn Eystrasaltsríkjanna væru nefnd sérstaklega í ályktuninni. Ekki þyrfti að taka það sérstaklega fram að samningaviðræður gætu hafist við Eystrasaltsríkin eftir Prag-fundinn þar eð slíkt orðalag væri aðeins til þess fallið að veikja stöðu þeirra. Fulltrúar Eystrasaltsríkjanna sem fundinn sátu voru á sama máli og töldu óþarft að nefna ríkin sérstaklega og fjölmargir fundarmenn, þ.m.t. fulltrúar Bandaríkjanna og Tyrklands, voru sammála og töldu orðalagið villandi. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar um breytingartillögurnar varð sú að allar viðbætur Meckels í ályktunardrögunum voru teknar úr textanum.
    Í varnar- og öryggismálanefnd voru til umræðu skýrslur um eldflaugavarnir og áhrif þeirra á eininguna innan NATO; hlutverk NATO í hermálaumbótum; og NATO og stefnu ESB í öryggis- og varnarmálum. Þá ályktaði nefndin um Evrópusamstarf í öryggis- og varnarmálum annars vegar og um eldflaugavarnir og afvopnunarsáttmála hins vegar. Fund nefndarinnar ávörpuðu þeir Raymond Henault, yfirmaður herráðs Kanada; Theodore Postol, frá alþjóðastjórnmáladeild Tækniháskólans í Massachusetts (MIT); og Raymond Askew, frá geimvísindadeild A&M háskólans í Texas. Nokkrar umræður urðu um hryðjuverkin í Bandaríkjunum og ákvörðun NATO um að hrinda 5. gr. Norður-Atlantshafssáttmálans í framkvæmd. Var það álit nefndarmanna að Atlantshafssamfélagið stæði á miklum tímamótum og hvöttu nokkrir þingmenn til þess að NATO tæki meira tillit til hryðjuverkavárinnar í hernaðaráætlunum sínum í náinni framtíð. Á fundinum tóku fulltrúar rússnesku landsdeildarinnar undir mikilvægi alþjóðlegar samstöðu um baráttuna gegn hryðjuverkum líkt og á fundum annarra málefnanefnda. Tveir gestafyrirlesara á fundi nefndarinnar, Theodore Postol og Raymond Askew, fjölluðu um eldflaugavarnaáætlun Bandaríkjastjórnar og gáfu nokkuð ólíka mynd af gagnsemi hennar. Í umræðum um áætlunina lagði formaður frönsku landsdeildarinnar, Jean-Michel Boucheron, áherslu á að fyrirætlanir Bandaríkjastjórnar á sviði eldflaugavarna væru gagnslitlar eftir atburðina þann 11. september þar eð brýnna væri að ríki hygðu að öðrum öryggisþáttum. Douglas Bereuter, formaður bandarísku landsdeildarinnar, benti hins vegar á að ef hryðjuverkahópar réðu yfir gereyðingarvopnum og langdrægum eldflaugum kynnu þeir að valda enn meiri skaða en þeim hefði hingað til tekist og sú hætta réttlætti framgang áætlana bandarískra stjórnvalda. Í umræðum um öryggis- og varnarmálastefnu ESB lagði skýrsluhöfundurinn, hollenski þingmaðurinn Wim van Eekelen, m.a. áherslu á nauðsyn þess að leiða til lykta hvert hlutverk þeirra sex aðildarríkja NATO sem standa utan ESB verði í sameiginlegri öryggis- og varnarmálastefnu sambandsins. Tahir Köse, formaður tyrknesku landsdeildarinnar, tók undir þetta sjónarmið og vildi að fastar yrði kveðið að orði í skýrslunni um hlutverk ríkjanna sex enda væri enn með öllu óljóst hvort og með hvaða hætti ríkin hefðu áhrif á mótun ákvarðana ESB um að beita hraðliði sínu og búnaði NATO, jafnvel þótt hættuástand ríki á eigin landsvæði.
    Í félagsmálanefnd voru til umræðu skýrslur um borgaraleg áhrif á öryggismál í Evrópu; horfur á lýðræðisumbótum í Sambandsríkinu Júgóslavíu, Hvíta-Rússlandi og Kaliningrad; og suðausturhluta Evrópu, horfur á varanlegum friði og stöðugleika. Þá ályktaði nefndin um stöðu mála í Hvíta-Rússlandi. Fund félagsmálanefndarinnar ávörpuðu þau Houchang Hassan-Yari, deildarforseti stjórnmála- og hagfræðideildar Konunglega hermálaskólans í Kanada, sem fjallaði um stöðu mála fyrir botni Miðjarðarhafs í ljósi síðustu atburða; Carolyn M. McAskie, aðstoðarforstöðumaður skrifstofu mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum, sem fjallaði um samband mannúðarstarfs og hernaðaríhlutunar; David Collenette, samgöngumálaráðherra Kanada, sem fjallaði um flugumferðarmál í Kanada eftir árásirnar 11. september; og Gwyn McClure, aðstoðardeildarstjóri INTERPOL, sem fjallaði um skipulega glæpastarfsemi á Balkanskaga og í Mið- og Austur-Evrópu.
    Í efnahagsmálanefnd voru til umræðu skýrslur um samspil orku- og öryggismála og mikilvægi orku í öryggiskerfi Evró-Atlantshafssvæðisins; hagkerfi Serbíu, uppbyggingarstarf og þrengingar eftir valdatíð Milosevic; stöðugleika og hagsæld í Evrópu, horfur á stækkun ESB; og stofnanalegar og pólitískar forsendur fyrir viðskiptatengslum Bandaríkjanna og ESB. Þá ályktaði nefndin um orkumál. Fundinn ávörpuðu þeir William Dymond, forstöðumaður laga- og viðskiptastofnunar Carleton-háskóla, sem fjallaði um viðskipti á Evró-Atlantshafssvæðinu; og Francis S. Bradley, aðstoðarforstjóri Orkuveitu Kanada, sem fjallaði um tengsl orku og öryggis.
    Í vísinda- og tækninefnd voru til umræðu skýrslur um eftirlit með kjarnorkumannvirkjum í ríkjum Sovétríkjanna gömlu; hryðjuverk og útbreiðslu gereyðingarvopna; notkun rýrðs úrans í hernaðarlegum tilgangi í suðaustanverðri Evrópu; tækninýjungar og áhrif þeirra á afvopnunarsamninga og hömlur á útbreiðslu kjarnavopna; og kjarnorkuöryggismál í Mið- og Austur-Evrópu. Þá ályktaði nefndin um eftirlit með kjarnorkumannvirkjum í ríkjum Sovétríkjanna gömlu. Fundinn ávörpuðu þeir William Kelly, fyrrum öldungadeildarþingmaður frá Kanada, sem fjallaði um breytta heimsmynd í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum; David Stapley, framkvæmdastjóri DRS Technologies Canada Inc., sem fjallaði um tækninýjungar í hergagnaiðnaði; og dr. George Lewis, aðstoðarforstöðumaður alþjóðasamskiptadeildar Tækniháskólans í Massachusetts (MIT), sem fjallaði um eldflaugavarnaáætlun Bandaríkjastjórnar.
    Á fundi stjórnarnefndar var m.a. fjallað um þau verkefni sem tekin verða fyrir hjá málefnanefndum NATO-þingsins á næsta starfsári. Fyrirséð er að framhald verði á starfi þingsins á sviði öryggis- og varnarmálastefnu ESB og eldflaugavarnaáætlun Bandaríkjastjórnar svo og stöðu mála í suðausturhluta Evrópu. Umræður um störf þingsins snerust að þessu sinni að miklu leyti um hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum og hvernig þingmannasamkundan gæti fjallað um málefni hryðjuverka með sem bestum hætti. Breski þingmaðurinn Donald Anderson stakk upp á því að ný málefnanefnd yrði sett á laggirnar og að hún mundi eingöngu beina sjónum sínum að málefnum hryðjuverka. Þá stakk José Maria Robles, formaður spænsku landsdeildarinnar, upp á því að málaflokkurinn yrði í verkahring einnar undirnefndar stjórnmálanefndarinnar. Allmargir þingmenn voru mótfallnir slíkum breytingum á störfum þingsins. Þeirra á meðal var Tómas Ingi Olrich sem sagði að þrátt fyrir að allir væru sammála um að atburðirnir í Bandaríkjunum breyttu mörgu í alþjóðasamskiptum og að NATO-þingið yrði að takast á við nýja heimsmynd þá væri jafnljóst að ein málefnanefnd þingsins væri ekki fær um að taka á hinum marghliða málefnum hryðjuverka með heildrænum hætti. Sagði hann þær málefnanefndir sem þegar væru að störfum væru best til þess fallnar að fjalla um allar víddir þessa málaflokks. Margir nefndarmanna voru á sama máli og lýstu yfir efasemdum um gagnsemi þess að ein nefnd fjallaði um þessi mál og varð niðurstaðan sú að hrófla ekki við ríkjandi skipulagi. Á fundinum var hins vegar ákveðið að á næsta starfsári mundu málefnanefndirnar fimm fjalla um málefni hryðjuverka og skipta með sér sviðum með eftirfarandi hætti: Stjórnmálanefndin mun fjalla um hvernig NATO sé best í stakk búið að berjast gegn hryðjuverkum; varnar- og öryggismálanefndin mun einbeita sér að þeim leiðum sem færar eru til að verjast hryðjuverkum; félagsmálanefndin mun beina sjónum sínum að orsökum hryðjuverkastarfsemi; efnahagsmálanefndin mun fjalla um áhrif hryðjuverka á viðskipti og hagkerfi Evró-Atlantshafssvæðisins; og vísinda- og tækninefndin mun meta hættuna sem stafar af útbreiðslu gereyðingarvopna m.t.t. hryðjuverkastarfsemi. Þá kynnti forsetinn drög sín að ályktun NATO-þingsins um baráttuna gegn hryðjuverkum.
    Rafael Estrella, forseti NATO-þingsins, vakti athygli á því að fulltrúar Evrópuþingsins, sem hafa áheyrnaraðild á þinginu, hefðu sótt fast að fá rétt til þess að leggja fram breytingartillögur í umræðum um ályktanir NATO-þingsins og sóttust eftir skoðunum nefndarmanna við málaleitunum Evrópuþingsmanna. Í umræðum um það mál minnti Tómas Ingi Olrich nefndarmenn á svarbréf sitt til forseta NATO-þingsins á síðasta ári þar sem fjallað var efnislega um þessa spurningu og vikið að því að jafnræði verði að gilda í samskiptum NATO-þingsins og Evrópuþingsins og litlar líkur væru á því að NATO-þingmenn fengju rétt til þess að leggja fram breytingartillögur á Evrópuþinginu. Lýstu margir fundarmenn, þar á meðal formaður þýsku, tyrknesku og bandarísku landsdeildarinnar yfir miklum efasemdum við þessum óskum fulltrúa Evrópuþingsins. Hét Estrella því að koma þeim skilaboðum áleiðis. Þá lagði gjaldkeri þingsins, Sir Geoffrey Johnson Smith, fram fjárlagadrög fyrir árið 2002, og voru þau samþykkt einróma. Sir Johnson Smith lét af störfum sínum fyrir þingið í kjölfar haustfundarins sökum aldurs og í hans stað var kjörinn Þjóðverjinn Lothar Ibrügger.
    Þingfundinn ávörpuðu þeir Rafael Estrella, forseti NATO-þingsins; Jean Chrétien, forsætisráðherra Kanada; George Robertson lávarður, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins; Marc Grossman, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna; Klaus Bühler, forseti VES-þingsins; Dennis Hastert, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings; og Douglas Bereuter, formaður landsdeildar Bandaríkjanna við NATO-þingið. Ályktun Rafaels Estrella, forseta þingsins, um baráttuna gegn hryðjuverkum var rædd og samþykkt. Þá voru ályktanir málefnanefndanna ræddar og samþykktar, sem og fjárlagadrögin fyrir árið 2002.

e. Nefndafundir.
    
Alls tóku fulltrúar Íslandsdeildarinnar þátt í níu nefndafundum utan venjubundinna þingfundi NATO-þingsins og febrúarfundanna svonefndu. Tómas Ingi Olrich tók þátt í hinni árlegu kynningarferð NATO-þingsins en að þessu sinni var haldið til Póllands. Þá hélt hann ásamt Jónínu Bjartmarz og Guðmundi Árna Stefánssyni til Kænugarðs í Úkraínu þar sem sameiginlegur nefndafundur stjórnmálanefndar, félagsmálanefndar og varnar- og öryggismálanefndar fór fram í nóvember. Tómas Ingi hélt enn fremur til Möltu þar sem fram fór fundur Miðjarðarhafshópsins og Washington D.C. þar sem efnt var til ráðstefnu um öryggismál á Atlantshafssvæðinu á vegum NATO-þingsins. Auk fundarins í Kænugarði sótti Guðmundur Árni Stefánsson sameiginlegan fund stjórnmálanefndar, félagsmálanefndar og varnar- og öryggismálanefndar NATO-þingsins í Moskvu í mars og fund Miðjarðarhafshópsins í Alsír í aprílmánuði. Jón Kristjánsson sótti febrúarfundina svonefndu í Brussel og Jónína Bjartmarz sótti hinn sameiginlega nefndafund í Kænugarði í nóvember.

Alþingi, 25. jan. 2002.


Tómas Ingi Olrich,


form.


Guðmundur Árni Stefánsson,


varaform.


Jónína Bjartmarz.



Fylgiskjal I.

Yfirlýsingar og ályktanir NATO-þingsins árið 2001.

Vorfundur, 27.–31. maí:
     1.      Yfirlýsing um stöðu mála í suðausturhluta Evrópu samþykkt.
     2.      Yfirlýsing um stækkun Atlantshafsbandalagsins samþykkt.

Ársfundur 6.–9. október:
     1.      Yfirlýsing um hina alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkum.
     2.      Ályktun nr. 307, um stöðu mála í Hvíta-Rússlandi.
     3.      Ályktun nr. 308, um sameiginlega öryggis- og varnarmálastefnu ESB.
     4.      Ályktun nr. 309, um eldflaugavarnir og afvopnunarsamninga.
     5.      Ályktun nr. 310, um orkumál.
     6.      Ályktun nr. 311, um stöðu mála í suðaustanverðri Evrópu.
     7.      Ályktun nr. 312, um stækkun Atlantshafsbandalagsins.
     8.      Ályktun nr. 313, um eftirlit með kjarnorkumannvirkjum í ríkjum Sovétríkjanna gömlu; hryðjuverk og útbreiðslu gereyðingarvopna.



Fylgiskjal II.


Almennt um NATO-þingið.

    NATO-þingið er þingmannasamtök sem hafa allt frá árinu 1955 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða sameiginleg hagsmunamál og áhyggjuefni. Fram til ársins 1999 bar þingið heitið Norður-Atlantshafsþingið, en heitir síðan NATO-þingið. Undanfarin ár hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum fjölgað á þinginu og starfssvið þess verið víkkað til móts við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Þrettán ný lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja hafa nú aukaaðild að þinginu sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu sem beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild og efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Með Rose-Roth áætluninni styður þingið nú einnig við þróun þingbundins lýðræðis í þessum ríkjum (sjá nánar í b-lið).

a. Hlutverk og starfssvið þingsins.
    Í Atlantshafssáttmálanum 1949 var ekki gert ráð fyrir þinglegri ráðgjafarsamkundu, en með tímanum jókst skilningur manna á því að nauðsyn væri á einhvers konar skipulegu samstarfi þjóðþinga í tengslum við og til stuðnings Atlantshafsbandalaginu (NATO). Þingið hefur því enga formlega stöðu innan bandalagsins en smám saman hefur komist á náin og virk samvinna stofnananna. Meginhlutverk þingsins er að upplýsa þingmenn og efla samstöðu þjóðþinga á milli. Þingið gerir þingmönnum aðildarríkja bandalagsins, og nú einnig þingmönnum ríkja Mið- og Austur-Evrópu, kleift að koma á framfæri áhuga- og áhyggjuefnum ríkja sinna og skiptast á viðhorfum í ýmsum löndum og svæðum til mikilvægra sameiginlegra hagsmunamála. Fulltrúar á þingið eru kjörnir af þjóðþingum með aðferðum sem þjóðþingin ákveða. Þar endurspeglast því afar breitt svið pólitískra skoðana. Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar og ársfundar að hausti. Fundir eru haldnir í aðildarríkjunum til skiptis í boði þjóðþinganna.
    Starfsemi þingsins fer að mestu fram í fimm málefnanefndum, stjórnmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, félagsmálanefnd, efnahagsnefnd, og vísinda- og tækninefnd. Þessar nefndir eru bæði vinnuhópar og meginvettvangur umræðna. Þær rannsaka og fjalla um samtímamál er koma upp á starfssviði þeirra. Óski nefnd þess að gera ítarlega rannsókn á tilteknu máli getur hún kosið undirnefnd eða komið á fót vinnuhópi til að afla um það upplýsinga. Nefndarálit eru oftast sett fram í formi tillagna eða ályktana sem nefndin samþykkir og þingið greiðir síðan atkvæði um. Tillögum er beint til Norður-Atlantshafsráðsins og í þeim er hvatt til tiltekinna aðgerða en ályktunum þingsins er beint til ríkisstjórna aðildarríkja.
    Þótt þingið sé óháð Atlantshafsbandalaginu hafa samskipti þingsins við bandalagið, sem fyrr segir, smám saman tekið á sig fastara form og meðal formlegra samskipta má nefna formlegt svar við tillögum þingsins af hálfu framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd Atlantshafsráðsins, ávarp framkvæmdastjóra bandalagsins á haustfundum þingsins, aukafundi nefnda í Brussel í febrúarmánuði ár hvert til að greiða fyrir samskiptum við starfsmenn og embættismenn bandalagsins og SHAPE (Supreme Headquarters Allied Powers in Europe – æðstu bækistöðvar bandamanna í Evrópu) og loks fundi forustumanna í þinginu og Atlantshafsráðsins til gagnkvæmra skoðanaskipta.

b. Samskiptin við ríki Mið- og Austur-Evrópu.
    Eins og Atlantshafsbandalagið sjálft hefur þingið endurskoðað hlutverk sitt í ljósi mikilla breytinga á alþjóðavettvangi. Þótt enginn vafi leiki á þörf fyrir bandalagið og hið einstæða samband sem það felur í sér milli þjóða beggja vegna Atlantshafs er þörf breytinga til aðlögunar að nýjum aðstæðum sem skapast hafa. Umfram allt kallar þetta á þróun fyrirkomulags í öryggismálum sem byggist á samvinnu og umræðum fremur en árekstrum. NATO-þingið (þá Norður-Atlantshafsþingið) hóf tilraunir til að koma á samskiptum við þjóðir Mið- og Austur-Evrópu árið 1987. Það var þó ekki fyrr en í nóvember 1990, á ársfundi í Lundúnum, að samskiptum þessum var komið í fastara form er þjóðþing Búlgaríu, Tékkóslóvakíu (nú Tékklands og Slóvakíu), Ungverjalands, Póllands og fyrrverandi Sovétríkjanna (nú Rússlands) fengu aukaaðild að þinginu. Síðan þá hafa þjóðþing Albaníu, Georgíu, Hvíta-Rússlands, Eistlands, Lettlands, Litháens, Moldavíu, Rúmeníu, Slóveníu, Sviss, Úkraínu og Króatíu fengið aukaaðild að þinginu. Mikilvægi aukaaðildarinnar felst í því að hún veitir löggjöfum nýju lýðræðisríkjanna tækifæri til að taka virkan þátt í störfum þingsins.
    Þingið hefur einnig átt frumkvæði að öðrum áætlunum er varða Mið- og Austur-Evrópu. Í samræmi við áætlun sem sett var fram árið 1991 af tveimur bandarískum þingmönnum og nú fyrrverandi forsetum Norður-Atlantshafsþingsins, þeim Charlie Rose og William V. Roth Jr., beinir NATO-þingið nú kröftum sínum í ríkum mæli að því að efla þróun þingræðis í Mið- og Austur-Evrópu. Meginþátturinn í Rose-Roth áætluninni er röð námsstefna og ráðstefna þar sem fjallað er um sérstök vandamál Mið- og Austur-Evrópulanda þar sem reynsla og þekking þingfulltrúa kemur að gagni og þingið getur lagt mikið af mörkum vegna sérstöðu sinnar sem fjölþjóðlegur umræðuvettvangur. Margar þessara námsstefna fjalla beint eða óbeint um samskipti hers og borgaralegra stjórnvalda, einkum um lýðræðisleg yfirráð yfir herafla. Þeim er ætlað að miðla upplýsingum og sérþekkingu sem nauðsynleg er til þess að tryggja virka þátttöku þjóðþinga í gerð varnaráætlana og taka ákvörðun um fjárveitingar til varnarmála og herafla. NATO-þingið býður einnig starfsmönnum frá löndum Mið- og Austur-Evrópu til stuttrar rannsóknardvalar (í þrjá til sex mánuði) á skrifstofu þingsins í Brussel. Einnig hefur verið komið á laggirnar þjálfunaráætlun til að starfslið þjóðþinganna geti öðlast beina reynslu af starfsemi alþjóðlegra stofnana.
    Af margvíslegri starfsemi NATO-þingsins sem að framan er lýst má vera ljóst að þingið hefur bætt nýrri vídd við hefðbundið hlutverk sitt að hlúa að Atlantshafstengslunum.

c. Fulltrúar á NATO-þinginu og embættismenn þess.
    Á NATO-þinginu eiga sæti 214 þingmenn. Fjöldi fulltrúa frá hverju landi ræðst að mestu af fólksfjölda. Stærsta sendinefndin er sú bandaríska með 36 þingmenn frá öldungadeild og fulltrúadeild bandaríska þingsins. Sendinefndir Frakklands, Þýskalands, Ítalíu og Bretlands skipa 18 þingmenn hverja. Kanada, Pólland, Spánn og Tyrkland senda 12 fulltrúa hvert ríki. Frá Belgíu, Grikklandi, Hollandi, Portúgal, Tékklandi og Ungverjalandi koma sjö frá hverju ríki. Danmörk og Noregur senda fimm fulltrúa hvort ríki og Ísland og Lúxemborg þrjá. Auk fulltrúanna má hvert þjóðþing tilnefna jafnmarga varamenn sem mega taka þátt í öllum störfum þingsins en hafa ekki atkvæðisrétt. Ráðherrar í ríkisstjórnum mega ekki vera fulltrúar á NATO-þinginu. Aukaaðilar taka þátt í nefndafundum og þingfundum en hafa ekki atkvæðisrétt.
    Embættismenn þingsins eru sex og eru fimm þeirra kjörnir ár hvert af fulltrúum á þingfundi (forseti og fjórir varaforsetar). Sjötti embættismaðurinn er gjaldkerinn en hann kýs stjórnarnefndin annað hvert ár af stjórnarnefndinni. NATO-þinginu er stjórnað af stjórnarnefnd en í henni eiga sæti formenn allra sendinefndanna, forseti, varaforsetar, gjaldkeri og nefndarformenn.

d. Fjármögnun.
    Starfsemi þingsins er fjármögnuð með framlögum þjóðþinga eða ríkisstjórna aðildarríkja. Framlög eru reiknuð á grundvelli þeirra viðmiða sem notuð eru við gerð fjárhagsáætlunar NATO um kostnað annan en herkostnað. Til að standa straum af hluta kostnaðar við árlegt þinghald greiðir NATO einnig framlag til þingsins ár hvert.


Fylgiskjal III.



NATO-ÞINGIÐ
Kemur saman á þingfundi tvisvar á ári, á vorfundi og ársfundi


Sendinefndir aðildarríkja

19 aðildarríki Atlantshafsbandalagsins
214 þingmenn

Fjöldi þingsæta er í hlutfalli
við fólksfjölda


Aukaaðilar

Frá Albaníu, Búlgaríu, Eistlandi, Georgíu, Hvíta-Rússlandi, Lettlandi,
Litháen, Moldavíu, Rúmeníu, Rússlandi, Slóvakíu, Slóveníu, Sviss, Úkraínu og Króatía

Hafa ekki atkvæðisrétt


Framkvæmdastjórn

Kosin árlega

Forseti, fjórir varaforsetar,
gjaldkeri, framkvæmdastjóri


Stjórnarnefnd

Formenn sendinefnda
Formenn nefnda

Hvert land hefur eitt atkvæði

Kemur saman þrisvar á ári



Nefndafundir

Fimm nefndir:
Félagsmálanefnd
Varnar- og öryggismálanefnd
Efnahagsnefnd
Stjórnmálanefnd
Vísinda- og tækninefnd

Taka saman, ræða og greiða atkvæði um skýrslur og ályktanir

Mynda undirnefndir til að rannsaka afmörkuð mál og afla upplýsinga


Þingfundir

Greiða atkvæði um tillögur nefndanna fimm og
um fjárhagsáætlun

Ræða afmörkuð málefni
sem ofarlega eru á baugi

Hlýða á ávörp gesta

Með þátttöku auka- og áheyrnaraðila


Önnur starfsemi

Árleg kynnisferð til að
skoða hernaðarmannvirki
og búnað

Námsstefnur og hringborðsumræður innan Rose-Roth áætlunarinnar