Ferill 647. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1044  —  647. mál.




Skýrsla



utanríkisráðherra Halldórs Ásgrímssonar um alþjóðamál.

(Lögð fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


1.     INNGANGUR
    Þeim málum fer sífellt fjölgandi sem aðeins er hægt að leysa í alþjóðlegri samvinnu og vægi alþjóðastofnana og alþjóðlegra samninga eykst dag frá degi. Samhliða þessu fer alþjóðleg samkeppni sívaxandi. Ísland er þátttakandi í þessari þróun og það hefur átt stóran þátt í því að hérlendis er orðið til alþjóðlegt atvinnu- og menningarlíf sem stenst í mörgum tilvikum samanburð við það besta sem gerist í heiminum. Alþjóðavæðing íslensks samfélags er ekki tilviljun því hana má rekja til stöðugrar vinnu við að auka verslun og viðskipti, svo sem með gerð fríverslunarsamninga, samstarfssamninga menntastofnana og til framtakssemi íslenskra fyrirtækja, svo dæmi séu nefnd. Alþjóðlegt samstarf þarf stöðugt að rækta og samkeppni stenst einungis sá sem stöðugt leitar nýrra leiða til að gera betur í dag en í gær.
    Þótt alþjóðasamskipti teygi nú anga sína inn á flest svið íslensks þjóðlífs – fyrirtæki, stjórnsýslu, menntakerfi og menningarlíf – stendur mikilvægi utanríkisþjónustunnar óhaggað við að skilgreina og gæta öryggis- og viðskiptahagsmuna Íslands til framtíðar. Þannig er unnt að tryggja velferð þjóðarinnar í víðum skilningi, því friður og öryggi er forsenda blómlegra viðskipta og öflugs atvinnulífs, og þjóðmenning dafnar hvað best í alþjóðlegu umhverfi. Til að sinna hlutverki sínu kappkostar utanríkisþjónustan að mæta breyttum aðstæðum og auknum kröfum á hverjum tíma.
    Grundvallarutanríkishagsmunir Íslands eru sem fyrr að tryggja öryggi og varnir landsins með virkri þátttöku í Sameinuðu þjóðunum, Atlantshafsbandalaginu og öðrum öryggisstofnunum, með varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna og öflugu grannsvæðasamstarfi. Þótt viðskiptahagsmunir Íslands felist fyrst og fremst í aðild að EES-samningnum og EFTA, eru sóknarfærin víða og krefjast þess m.a. að vel sé haldið á málum í samningum um alþjóðlegar viðskiptareglur og fríverslun. En Ísland hefur ekki aðeins hagsmuna að gæta í alþjóðasamfélaginu, heldur einnig skyldur gagnvart því. Íslandi ber að leggja sitt af mörkum á sem flestum sviðum, svo sem með þátttöku í friðargæslu og uppbyggingarstarfi, og með markvissum framlögum til þróunarmála, neyðaraðstoðar og mannúðarmála. Með því að axla ábyrgð til jafns við aðrar þjóðir í því að tryggja öryggi, mannréttindi og mannúð í veröldinni er Ísland fullgildur þátttakandi í samfélagi þjóðanna.
    Þessi yfirlitsskýrsla varpar ljósi á umfang þeirra verkefna sem utanríkisþjónustan er að fást við. Mun hún vonandi auka upplýsingar og efla enn frekar umræðu um utanríkismál og mikilvægi þeirra.

2.     UTANRÍKISÞJÓNUSTAN
2.1.     Fjölgun sendiskrifstofa
    Uppbygging og skipulagning utanríkisþjónustunnar hefur almennt mótast af meginhagsmunum Íslands erlendis, í samræmi við það sem segir í lögunum um utanríkisþjónustuna. Hér er einkum um að ræða hagsmuni sem varða viðskipti og efnahagsmál, stjórnmál, öryggi og varnir, ásamt menningarmálum. Hnattvæðing og aukin alþjóðleg samvinna gera það að verkum að þessir hagsmunir eru í vaxandi mæli samtengdir. Í gegnum tíðina hefur ekki verið ráðist í stofnun nýrra sendiráða nema slíkir veigamiklir hagsmunir væru til staðar. Megináherslurnar í utanríkisstefnu Íslands hafa einnig ráðið miklu um staðsetningu sendiráða. Þannig hefur áherslan á norræna samvinnu og náin tengsl við önnur norræn ríki leitt til þess að sendiráð hafa verið stofnuð í öðrum Norðurlöndum.
    Almennt má segja að stofnun tvíhliða sendiráða hafi setið á hakanum í þau 40 ár sem liðu frá því að sendiráðið í Bonn var stofnað árið 1955 og þar til sendiráðið í Kína var opnað árið 1995. Þær sendiskrifstofur sem voru stofnaðar á þessu 40 ára tímabili eru allar tilkomnar vegna þátttöku Íslands í og tengsla við alþjóðastofnanir. Það var orðið mjög brýnt að bæta úr þessu og stofna sendiráð í ríkjum þar sem Ísland hefur mikilvægra hagsmuna að gæta í dag. Stofnun nýrra sendiráða á undanförnum árum hefur verið tíðari af þessum sökum en ella.

Stofnun sendiskrifstofa frá 1995 til 2000
    
Þegar síðasta yfirlitsskýrsla um alþjóðamál var lögð fram árið 2000 hafði Ísland 17 sendiskrifstofur starfandi í 14 löndum. Á tímabilinu frá 1995 til ársins 2000 voru stofnaðar fimm sendiskrifstofur: sendiráð í Peking 1995 og Helsinki 1997, fastanefnd hjá Evrópuráðinu 1997, aðalræðisskrifstofa í Winnipeg 1999 og fastanefnd hjá ÖSE 1999. Stofnun sendiráðs í Peking hafði verið í undirbúningi í langan tíma. Á þessum tíma var ekkert íslenskt sendiráð í Asíu og löngu orðið tímabært fyrir Ísland að efla tengslin við þessa heimsálfu, einkum með hliðsjón af viðskiptalegu og pólitísku mikilvægi hennar. Kína er fjölmennasta ríki heims, mikilvægur framtíðarmarkaður og pólitísk þýðing þess veruleg, en það er eitt af fimm ríkjum heims sem á fast sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Það var því eðlilegt skref að stofna sendiráð í Kína. Það annast einnig sendiráðsstörf í mörgum öðrum ríkjum Asíu. Eins og fyrr segir hefur Ísland alltaf lagt mikla áherslu á norræna samvinnu og samstarf við önnur Norðurlönd. Eðlilegt er því að Ísland hafi sendiráð í hinum Norðurlöndunum. Í langan tíma höfðu verið sendiráð í Danmörku, Noregi og Svíþjóð en stofnun sendiráðs í Finnlandi hafði verið frestað. Opnun sendiráðs í Helsinki árið 1997 var því orðin tímabær.
    Ísland hefur jafnan tekið virkan þátt í störfum Evrópuráðsins í Strasbourg og sótt fundi þingmannasamtaka þess. Með vaxandi þýðingu þess eftir að kalda stríðinu lauk, m.a. við eflingu lýðræðislegra stjórnarhátta í ríkum Mið- og Austur-Evrópu, og vegna formennsku Íslands í Evrópuráðinu var orðið óhjákvæmilegt að stofna fastanefnd þar. Á árinu 1999 var fastanefnd Íslands hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu í Vín opnuð á nýjan leik, en henni hafði verið lokað árið 1994. Fljótlega kom í ljós að Íslandi mundi til lengdar ekki vera stætt á þeirri ákvörðun vegna vaxandi hlutverks samtakanna í öryggismálum, eflingu lýðræðis, kosningaeftirliti og mannréttindamálum í sumum aðildarríkjanna. Fastanefndin í Vín er jafnframt fastanefnd hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna þar og tvíhliða sendiráð í Austurríki og nágrannaríkjum þess. Stofnun aðalræðisskrifstofu með útsendum aðalræðismanni í Winnipeg árið 1999 var liður í því að efla tengslin við Kanada og fólk af íslenskum uppruna þar. Jafnframt hafði hún það verkefni að undirbúa hátíðahöld þar vegna landafundaársins. Aðalræðisskrifstofan er mikil lyftistöng fyrir tengslin við fólk af íslensku bergi brotið í Kanada.

Nýjar sendiskrifstofur 2000 til 2002
    
Á sl. tveimur árum hafa þrjú sendiráð verið opnuð, í Tókýó, Mapútó og Ottawa. Stofnun sendiráðsins í Japan á sér langan aðdraganda og miklar umræður hafa orðið um það. Með opnun sendiráðs Íslands í Tókýó og sendiráðs Japans í Reykjavík var brotið blað í samskiptum Íslands og Japans. Tilkoma þessara sendiráða opnar möguleika á stórauknum samskiptum Íslands og Japans, sem er annað stærsta hagkerfi heims. Ísland og Japan eiga margra sameiginlegra hagsmuna að gæta, m.a. á sviði hafréttarmála og umhverfisverndar og má vænta meira samstarfs á þeim sviðum í framtíðinni. Sendiráð Íslands í Tókýó styður markaðssókn íslenskra fyrirtækja í Japan auk þess sem vænta má að kynningarstarf þess stuðli m.a. að fjölgun japanskra ferðamanna til Íslands í framtíðinni. Mikill fengur er í slíku þar sem japanskir ferðamenn skilja að meðaltali mun meira eftir sig í þjóðarbúinu en ferðamenn frá öðrum löndum. Unnið er að undirbúa skipun ræðismanna í helstu borgum Japans í kjölfar stofnunar sendiráðsins. Hingað til hafa ræðismenn Íslands í Japan einungis verið í Tókýó en tilkoma ræðismanna í fleiri borgum mun auðvelda nýstofnuðu sendiráði að kynna málefni Íslands á breiðari grundvelli.
    Stofnun sendiráðsins í Ottawa á sér einnig langan aðdraganda. Töluverð tvíhliða viðskipti, náin pólitísk samskipti, sameiginlegir hagsmunir á mörgum sviðum, og ekki síst djúpstæð menningarleg og söguleg tengsl landanna, eru helstu ástæðurnar fyrir stofnun sendiráðs í Ottawa. Stofnun sendiráðsins undirstrikar einnig þá staðreynd að tengslin við Norður-Ameríku eru lykilþáttur í alþjóðlegum samskiptum Íslands, þó að það tilheyri óneitanlega Evrópu. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur verið unnið markvisst að því að auka framlag Íslands til þróunarsamvinnu og efla samskiptin við þróunarríkin. Stofnun sendiráðsins í Mapútó er eðlilegur þáttur í þessari stefnu. Einnig þarf að hafa í huga að þrátt fyrir langt samstarf við sum ríki Afríku hafði Ísland ekki sendiráð í þessari heimsálfu.

Sendiskrifstofur í dag
    
Alls hefur Ísland nú 20 sendiskrifstofur erlendis. Þar af eru 14 sendiráð í jafnmörgum löndum, en tvö þeirra, sendiráðin í París og Brussel, gegna jafnframt mjög umfangsmiklum hlutverkum gagnvart alþjóðastofnunum. Þá eru fimm sendiskrifstofur sem eru fyrst og fremst eða eingöngu fastanefndir hjá alþjóðastofnunum. Flestar eru einnig sendiráð gagnvart einu eða fleiri ríkjum, og eitt þeirra, fastanefndin í Vín, er jafnframt sendiráð í gistiríkinu og þremur nærliggjandi löndum. Með því að sendiskrifstofur séu bæði tvíhliða sendiráð og fastanefndir hjá alþjóðastofnunum þar sem því verður við komið er verið að hagræða og spara í utanríkisþjónustunni.
    Þess hefur verið gætt að sendiskrifstofur séu ekki stærri en nauðsyn krefur í hverju tilviki. Í sendiskrifstofunum í Mapútó og Winnipeg er aðeins einn útsendur starfsmaður, aðrir starfsmenn eru staðarráðnir en kostnaðurinn við þá er mun minni. Í sendiskrifstofunum í Ottawa, Helsinki og Strasbourg eru aðeins tveir útsendir starfsmenn, en þær eru einnig mannaðar með staðarráðnum starfsmönnum og í fastanefndinni í Strasbourg er jafnan einn starfsmaður sem er í starfsþjálfun. Þannig hefur, eftir því sem hægt er, verið reynt að takmarka kostnaðinn við rekstur þessara sendiskrifstofa. Fyrirhugað er að taka mun fleiri starfsmenn í starfsþjálfun í framtíðinni þar sem þetta fyrirkomulag hefur reynst vel.
    Fjárveitingar til utanríkisþjónustunnar hafa undanfarin 3 ár numið um 1% af heildarútgjöldum ríkisins. Á þessu ári nema þær um 2,53 milljörðum króna eða rúmlega 1% af fjárlögum. Útgjöld vegna utanríkisþjónustunnar hafa því aukist í sama hlutfalli og heildarútgjöld ríkissjóðs á þessu tímabili 1 .

2.2.     Umfangsmikil verkefni fram undan
    Samhliða fjölgun sendiráða er einnig nauðsynlegt að efla utanríkisráðuneytið. Þegar síðasta skýrsla um alþjóðamál kom út árið 2000 voru starfsmenn ráðuneytisins alls 80 talsins. Fleiri sendiráð kalla á aukna starfsemi í ráðuneytinu, bæði úrvinnslu mála og upplýsinga sem koma frá þeim og eftirlit með störfum þeirra og rekstri. Þörfinni fyrir fleiri starfsmenn hefur verið mætt með hagræðingu eftir því sem hægt er og eru starfsmenn ráðuneytisins álíka margir nú og þeir voru fyrir tveimur árum. Nauðsynlegt er samt að bæta við starfsmönnum í ráðuneytinu enda er mjög mörgum verkefnum erlendis sinnt beint frá ráðuneytinu.
    Til marks um umfang starfsemi utanríkisþjónustunnar má nefna að fjöldi innkominna erinda í utanríkisráðuneytið var 15.500 sl. ár og fjöldi útsendra erinda nam 25.400. Innkomin erindi til sendiskrifstofa námu 22.300 og útsendi erindi frá þeim voru samtals 22.000 á síðasta ári. Hér er aðeins um skráð erindi að ræða. Þá skal tekið fram að utanríkisráðherra hefur á undanförnum árum átt sérstaka tvíhliða samráðsfundi með á annan tug utanríkisráðherrum annarra landa, auk ráðherrafunda í alþjóðastofnunum. Slíkir fundir kalla á mikinn undirbúning og að þeim ákvörðunum sem þar eru teknar sé fylgt eftir.
    Þá standa fyrir dyrum tímabundin verkefni sem kalla á aukinn mannafla og umsvif á meðan þau standa yfir og verið er að undirbúa þau. Þessum verkefnum eru gerð ítarleg skil í öðrum köflum skýrslunnar og verður því aðeins vikið að þeim í mjög stuttu máli hér. Ísland tekur við formennsku í Norðurskautsráðinu í haust og gegnir því til 2004 og í Alþjóðabankanum verður íslenskur aðalfulltrúi frá 2003 til 2006. Bæði þessi verkefni, einkum það síðarnefnda, eru mjög umfangsmikil. Þá er Ísland í framboði til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 2009–2010. Bæði kosningabaráttan og þátttakan í öryggisráðinu krefjast mikillar vinnu og aukins mannafla, í ráðuneytinu og í fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Við frekari uppbyggingu utanríkisþjónustunnar á næstu árum verður að taka fullt tillit til þessara verkefna, þótt þau séu tímabundin, og þess mannafla og fjárveitinga sem nauðsynleg eru vegna þeirra.
    Tvíhliða samskipti Íslands og annarra ríkja eru mikilvægur vettvangur fyrir íslenska utanríkisþjónustu til að koma hagsmunum á framfæri, afla málstað stuðnings og vinna hugmyndum brautargengi. Persónuleg tengsl manna á milli gegna þar verulegu hlutverki og stundum skipta þau sköpum. Auk hefðbundins norræns samráðs fundar utanríkisráðherra reglulega með forustumönnum Evrópusambandsins. Þá eru fjölþjóðlegir fundir gjarnan nýttir til tvíhliða funda við aðra utanríkisráðherra til að vinna að málum sem snerta íslenska hagsmuni.
    Meginmarkmið opinberra heimsókna utanríkisráðherra Íslands til annarra ríkja er að efla tvíhliða viðskiptatengsl og treysta böndin við hlutaðeigandi ríki, þ.m.t. stjórnmálasambönd. Í þessum tilgangi fór utanríkisráðherra í opinberar heimsóknir til Japans, Kína og Rússlands haustið 2001. Heimsóknir erlendra utanríkisráðherra til Íslands hafa einnig reynst íslenskum hagsmunum mikilvægar, bæði í viðskiptalegu og stjórnmálalegu tilliti. Utanríkisráðherra Belgíu heimsótti Ísland í haust sem leið en Belgía gegndi þá formennsku í Evrópusambandinu. Utanríkisráðherra fór svo í vinnuheimsókn til utanríkisráðherra Spánar nýverið en Spánn gegnir nú formennsku í ESB. Tvíhliða fundir með utanríkisráðherrum Bandaríkjanna, Rússlands og ýmissa Evrópuríkja hafa nýst vel í þessum tilgangi og til að styrkja stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu. Gera má ráð fyrir að aukning tvíhliða samskipta Íslands við önnur ríki haldi áfram.

Frekari uppbygging
    
Staðsetning sendiskrifstofa endurspeglar áhersluatriði í hagsmunagæslu Íslands erlendis og meginatriðin í stefnu landsins í utanríkismálum. Stækkun utanríkisþjónustunnar er ekki síst tilkomin vegna áhrifa hnattvæðingar á mörgum sviðum, vaxandi alþjóðlegs samstarfs og aukins hlutverks alþjóðastofnana. Þeim málum fer fjölgandi sem aðeins er hægt að leysa í alþjóðlegri samvinnu. Þessi þróun kallar á aukna þátttöku í alþjóðasamstarfi en henni er aðeins hægt að sinna með öflugri utanríkisþjónustu. Lítil ríki eins og Ísland eru að mörgu leyti háðari virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi en stór ríki.
    Þegar ákvarðanir eru teknar um frekari uppbyggingu utanríkisþjónustunnar er nauðsynlegt að horfa fram á veginn og meta hagsmuni Íslands með hliðsjón af líklegri þróun alþjóðamála, ekki síður en núverandi stöðu. Þá þarf að hafa þróun viðskiptalífs og þjóðfélagsbreytingar hér á landi í huga. Jafnframt skal bent á það að Ísland hefur ekki aðeins hagsmuni í alþjóðasamfélaginu sem það þarf að gæta, heldur einnig skyldur gagnvart því. Sem sjálfstæðu, vel efnuðu ríki ber Íslandi að leggja sitt af mörkum á sem flestum sviðum; má þar m.a. nefna þátttöku í friðargæslu, framlög til þróunarmála og neyðarhjálp. Íslenska utanríkisþjónustan er enn frekar ung, a.m.k samanborið við utanríkisþjónustur margra annarra landa. Uppbyggingu hennar er því engan veginn lokið. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um frekari stækkun utanríkisþjónustunnar á allra næstu árum. Í framtíðinni verður hins vegar að meta þörfina á stofnun sendiráða, t.d. í Suður-Evrópu og Suður-Ameríku.

3.     ÖRYGGIS- OG VARNARMÁL
3.1.     Baráttan gegn hryðjuverkum
    Áhrif hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 11. september sl. á þróun öryggis- og varnarmála hafa þegar verið gríðarleg og munu verða langvarandi. Þær stofnanir sem Ísland á aðild að hafa brugðist við ýmsum hætti, með beinum aðgerðum, aðlögun vinnubragða og stefnumótun til framtíðar, eins og rakið verður hér á eftir. Ísland hefur reynt eftir mætti að taka virkan þátt í hinu alþjóðlega bandalagi gegn alþjóðahryðjuverkasamtökum.
    Viðbrögð alþjóðasamfélagsins voru nær án undantekninga á þann veg að besta vörnin gegn hryðjuverkum væri sú að þjóðir heims tækju höndum saman í baráttunni gegn þeim. Öll ábyrg ríki hafa lagst á eitt um að útrýma þeirri vá sem heimsbyggðinni, og þá ekki síst saklausum borgurum, stafar af alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi. Unnið hefur verið að því með allnokkrum árangri að uppræta samskiptanet og stoðkerfi þeirra afla sem að árásinni stóðu. Ríki heims og alþjóðlegar og svæðisbundnar stofnanir vinna nú að því hver með sínu lagi að efla viðbúnað til að bregðast við hryðjuverkum og afleiðingum þeirra. Samfélag þjóðanna hefur leitast við að samhæfa diplómatískar aðgerðir á vettvangi alþjóðasamtaka, ekki síst Sameinuðu þjóðanna. Þá hefur einnig hafist stórfelld efling alþjóðlegs samstarfs á fjölmörgum ólíkum sviðum, svo sem á sviði upplýsingaöflunar, réttarfars, löggæslu, bankamála, útlendingaeftirlits og almannavarna. Íslensk stjórnvöld munu hér eftir sem hingað til fylgjast grannt með og taka virkan þátt í baráttu alþjóðasamfélagsins gegn hryðjuverkum.

3.1.1.     Viðbrögð á Íslandi við hryðjuverkunum 11. september
    Strax í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 11. september sl. var ákveðið í ríkisstjórn að stofna til samráðs milli forsætis-, utanríkis- og dómsmálaráðuneytis til að tryggja nauðsynlega samhæfingu vegna fyrstu viðbragða við árásinni. Afleiðingar árásanna leiddu fljótt í ljós nauðsyn þess að samræma enn frekar aðgerðir þeirra fjölmörgu aðila sem koma að málum þegar bregðast þarf við ógn af þessu tagi og ljóst var að sú barátta sem hafin var á heimsvísu gegn hryðjuverkum mundi standa í langan tíma. Ríkisstjórnin ákvað því á fundi sínum hinn 16. október sl. að fela ráðuneytisstjórum sjö ráðuneyta að mynda samráðshóp til að fara yfir og hafa umsjón með viðbrögðum.
    Samráðshópurinn greindi fyrst hvaða verkefni heyrðu undir hvaða ráðuneyti og stofnun. Verkefni utanríkisráðuneytisins á þessu sviði eru einkum þríþætt. Í fyrsta lagi þátttaka í, afskipti af og stuðningur við alþjóðlegar aðgerðir í baráttunni gegn hryðjuverkum, svo sem á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Atlantshafsbandalagsins. Í öðru lagi samskipti og samstarf við varnarliðið og Atlantshafsbandalagið um varnir Íslands og öryggi, þ.m.t. varnir gegn hryðjuverkaárásum. Loks heyra öll öryggismál á Keflavíkurflugvelli, þ.m.t. vernd farþegaflugs og farþega, landamæragæsla og tolleftirlit, undir utanríkisráðuneytið.
    Strax í kjölfar árásanna fór varnarliðið á Keflavíkurflugvelli á efsta viðbúnaðarstig og var svo um nokkra hríð. Síðan var viðbúnaðarstigið lækkað en viðbúnaður er þó enn töluverður. Á hæsta viðbúnaðarstiginu voru vopnaðir lögreglumenn frá sýslumannsembættinu varnarliðinu til stuðnings. Öryggisráðstafanir á Keflavíkurflugvelli voru stórauknar og er viðbúnaður gegn hryðjuverkum m.a. fólginn í aukinni vopnaleit, farangursleit, handleit og gegnumlýsingu, sprengjuleit í flugvélum, hertu öryggiseftirliti í flugstöðinni og á varnarsvæðunum og aukinni gæslu á flughlöðum og þjónustusvæði. Megináhersla hefur verið lögð á að uppfylla alþjóðlega staðla og töluvert auknar kröfur til eftirlits með borgaralegu flugi til Bandaríkjanna. Öryggi og aðbúnaður á flugvellinum hefur staðist allar úttektir mjög vel, þar á meðal könnun bandarískra og breskra yfirvalda. Þá hefur verið tekin í notkun þar búnaður til að bera kennsl á einstaklinga sem talin er ástæða til að sæti sérstöku eftirliti. Hefur búnaður þessi vakið heimsathygli.

3.1.2.     Aðgerðir Sameinuðu þjóðanna gegn hryðjuverkum
    Í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum var öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kallað saman. Með ályktun öryggisráðsins nr. 1368 (2001) 12. september 2001 voru hryðjuverkin fordæmd og ríki heims hvött til að vinna saman að því að leita þá uppi sem stóðu á bak við þau og koma yfir þá lögum. Einnig voru ríki hvött til að fullgilda fyrirliggjandi alþjóðasamninga gegn hryðjuverkum og hrinda ákvæðum þeirra í framkvæmd. Hryðjuverkaárásirnar voru jafnframt fordæmdar af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
    Sautján dögum eftir hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum eða 28. september 2001 samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktun nr. 1373 (2001) um baráttu gegn fjármögnun hryðjuverkastarfsemi. Ályktunin leggur m.a. skyldur á ríki sem varða bæði refsinæmi þess að fjármagna hryðjuverkastarfsemi og aðgerðir til þess að stöðva flutning fjármuna til hryðjuverkahópa. Ályktunin sem er gerð á grundvelli VII. kafla sáttmála Sameinuðu þjóðanna er þjóðréttarlega skuldbindandi gagnvart íslenska ríkinu með sama hætti og þjóðréttarsamningur sem hefur verið fullgiltur.
    Með ályktuninni var einnig sett á fót nefnd á vegum öryggisráðsins sem ætlað er að hafa umsjón og eftirlit með framkvæmd hennar í aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna. Í lok síðasta árs skilaði Ísland skýrslu til nefndarinnar um þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til á Íslandi. Gera má ráð fyrir að nefndin óski eftir frekari upplýsingum frá íslenskum stjórnvöldum og öðrum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna um þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til á grundvelli ályktunar öryggisráðsins.
    Í framhaldi af tilmælum ályktunar öryggisráðsins nr. 1373 undirritaði Ísland í október 2001 alþjóðasamning Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir til að stemma stigu við fjármögnun hryðjuverka. Unnið er að fullgildingu samningsins. Ísland er þegar aðili að meiri hluta annarra alþjóðasamninga gegn hryðjuverkum en stefnt er að fullgildingu þeirra samninga sem Ísland er ekki aðili að fyrir vorið 2002. Þegar hefur verið leitað heimildar Alþingis til fullgildingar þeirra tveggja samninga sem telja verður mikilvægasta af umræddum samningum, annars vegar alþjóðasamnings um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar frá 15. desember 1997 og hins vegar alþjóðasamnings um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi frá 9. desember 1999. Til viðbótar því er ætlunin að fjórir aðrir samningar Sameinuðu þjóðanna sem tengjast baráttunni gegn hryðjuverkum verði fullgiltir í vor.
    Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa um árabil reynt að ná samkomulagi um gerð almenns alþjóðasamnings gegn hryðjuverkum sem fæli í sér skilgreiningu á hugtakinu. Eftir 11. september var vonast til að samkomulag næðist um gerð slíks samnings á allsherjarþinginu haustið 2001 en svo fór hins vegar ekki. Ágreiningurinn snýst bæði um gildissvið slíks samnings og skilgreiningar á hryðjuverkum.

3.1.3.     Samstaða gegn hryðjuverkum á vettvangi NATO
    Hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september í fyrra hafa haft mikil áhrif á starfsemi Atlantshafsbandalagsins. Fimmta grein stofnsáttmálans, sem kveður á um að aðildarríkin komi hvert öðru til hjálpar ef á þau er ráðist, var virkjuð í fyrsta sinn í sögu bandalagsins. Samstarfsríki NATO hafa einnig sýnt áhuga á framtíðarsamstarfi í baráttunni gegn hryðjuverkum.
    Atlantshafsbandalagið hefur gripið til margvíslegra aðgerða til að berjast gegn hryðjuverkum. Orðið var við óskum bandarískra stjórnvalda, um nauðsynlega aðstoð vegna aðgerðanna gegn stjórn talibana í Afganistan og hryðjuverkasamtökum al-Qaeda, með því að senda Miðjarðarhafs- og Atlantshafsflota bandalagsins til eftirlits á Miðjarðarhafi. Sex AWACS-ratsjárflugvélar halda uppi ratsjáreftirliti í Bandaríkjunum, öll bandalagsríkin hafa heimilað ótakmarkað yfirflug fyrir bandarískar flugvélar í eigin lofthelgi og aðgang að nauðsynlegum mannvirkjum. Enn fremur hefur öll upplýsingamiðlun milli bandalagsríkjanna verið aukin í því skyni að koma í veg fyrir frekari hryðjuverk og til að hafa hendur í hári hryðjuverkamanna. Sum aðildarríkja bandalagsins hafa heitið að leggja meira lið til SFOR og KFOR vegna tímabundinnar tilfærslu bandarísks liðsafla þaðan. Auk þess leiða Bretar, með þátttöku annarra aðildarþjóða bandalagsins, öryggislið til að viðhalda friði í Kabúl, höfuðborg Afganistan.
    Atlantshafsbandalagið hefur, í samvinnu við Evró-Atlantshafssamstarfsþjóðirnar (EAPC), tekið að sér að þróa og samræma varnaráætlanir til verja almenna borgara og liðsafla gegn árásum hryðjuverkamanna er nota gereyðingarvopn. Samvinnan á sér að miklu leyti stað innan samræmingarmiðstöðvar bandalagsins um viðbrögð gegn notkun slíkra vopna (WMD Center). Mikilvægt er að Ísland taki þátt í þessu starfi eftir efnum og ástæðum undir forystu viðeigandi ríkisstofnana, en einnig er mikilvægt að hugað verði nánar að því hvernig við getum tryggt betur innra öryggi í ljósi nýrra ógna sem að okkur steðja.
    Með þessum og öðrum aðgerðum hefur bandalagið ekki aðeins sýnt Bandaríkjunum samstöðu í orði heldur einnig tekið virkan þátt og verið einn af burðarásunum í baráttunni gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi. Atlantshafsbandalagið hefur m.a. beitt sér fyrir samstarfi við þjóðir á borð við Rússland og Úkraínu í baráttunni gegn hryðjuverkum. Þannig er stefnt að því að utanríkisráðherrafundur bandalagsins á Íslandi í maí næstkomandi verði fyrsti fundur aðildarþjóðanna með Rússum í hópi 20 ríkja þar sem þetta mál kynni að verða efst á baugi.

3.1.4.     Barátta ÖSE gegn hryðjuverkastarfsemi
    Ísland hefur á vettvangi ÖSE áréttað mikilvægi starfa stofnunarinnar í baráttunni gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi. Í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjum samþykkti fastaráð ÖSE yfirlýsingu þar sem hryðjuverkin voru harðlega fordæmd og hvatt til alþjóðlegrar samstöðu gegn hryðjuverkum. Einnig voru ríki hvött til að fullgilda fyrirliggjandi alþjóðasamninga gegn hryðjuverkum. Sérstakur vinnuhópur var stofnaður vegna eflingar starfs ÖSE á þessu sviði. Á ráðherrafundi ÖSE í Búkarest 3.–4. desember 2001 var samþykkt sérstök aðgerðaáætlun til eflingar starfsemi stofnunarinnar í baráttunni gegn hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Í áætluninni er skilgreint á hvaða sviðum stofnunin getur lagt mest af mörkum gegn hryðjuverkavá á grunni hins víðtæka starfs hennar á sviði öryggismála, mannréttinda og uppbyggingar lýðræðis.
    Í aðgerðaáætluninni er baráttan gegn hryðjuverkum fléttuð skipulega inn í mestalla starfsemi ÖSE, auk undirstofnana. Þannig er aukin áhersla lögð á hlutverk sendinefnda ÖSE við eftirlit og fyrirbyggjandi varnir gegn skipulagðri glæpastarfsemi og hryðjuverkum. Lögð er áhersla á öflun upplýsinga um deilur sem ógnað geta friði í aðildarríkjunum og á aukna samvinnu og upplýsingamiðlun milli ÖSE og annarra alþjóðastofnana, formlega og óformlega, svo sem við Sameinuðu þjóðirnar, Atlantshafsbandalagið, Evrópusambandið og Evrópuráðið. Einnig má nefna að á vettvangi ÖSE hefur verið samið um skuldbindingar sem miða að því að hefta útbreiðslu og uppræta handvopn. Þetta starf á sér stað innan nefndar ÖSE um öryggismálasamvinnu (FSC). Formennskuríki ÖSE fyrir árið 2002, Portúgal, hefur skipað sérstakan persónulegan fulltrúa sinn til að leggja lið starfi stofnunarinnar gegn hryðjuverkastarfsemi. Á ráðherrafundi ÖSE í Búkarest var einnig ákveðið að setja á fót embætti sérstaks lögreglufulltrúa ÖSE (Senior Police Advisor) sem mun hafa það verk með höndum að stýra og samræma starf og aðkomu ÖSE að þjálfun lögreglumanna á Balkanskaga m.a. með tilliti til hryðjuverkavarna.

3.2.     Atlantshafsbandalagið (NATO)
    Fyrir utan baráttuna gegn hryðjuverkum hafa helstu viðfangsefni Atlantshafsbandalagsins verið efling samstarfsins við Rússland, undirbúningur stækkunar og þróun samstarfs bandalagsins og Evrópusambandsins á sviði öryggis- og varnarmála. Tveir þýðingarmiklir fundir verða haldnir á vegum bandalagsins síðar á árinu. Vorfundur utanríkisráðherra bandalagsins verður haldinn í Reykjavík dagana 14. og 15. maí nk. Þá verða 15 ár liðin síðan ráðherrafundur bandalagsins var síðast haldinn á Íslandi en þetta er í þriðja sinn sem Ísland heldur ráðherrafund bandalagsins.
    Þó að almennt sé talað um utanríkisráðherrafund Atlantshafsbandalagsins í þessu sambandi er hér í raun um fimm aðskilda fundi að ræða. Í fyrsta lagi fund utanríkisráðherra 19 aðildarríkja bandalagsins; í öðru lagi fund ráðherra aðildarríkjanna með utanríkisráðherrum samstarfsríkja þess, en þau eru alls 27 og taka því 46 ríki þátt í honum; í þriðja lagi fund utanríkisráðherra bandalagsins með utanríkisráðherra Rússlands; í fjórða lagi fund utanríkisráðherranna með utanríkisráðherra Úkraínu; og í fimmta lagi sameiginlegan fund utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins. Alla þessa fundi þarf að undirbúa sérstaklega. Gert er ráð fyrir miklum fjölda gesta. Búist er við um 750 þátttakendum á fundunum, auk 400 blaða- og tæknimanna. Þetta verður því umfangsmesti alþjóðlegi fundur sem haldinn hefur verið á Íslandi til þessa.
    Leiðtogafundur NATO verður svo haldinn í Prag í nóvember þar sem m.a. verður tekin endanleg ákvörðun um hvaða ríkjum verður boðin aðild í næstu umferð stækkunar.
3.2.1.     Tengslin við samstarfsríki
Rússland
    
Aðildarríki Atlantshafsbandalagsins eru sammála um að nýta beri tækifærið sem skapaðist til aukins samstarfs við Rússland í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum, enda létu Rússar þegar í ljós samstarfsvilja. Ákveðið var á fundi utanríkisráðherra samstarfsráðs Atlantshafsbandalagsins og Rússlands (PJC) 7. desember sl., að unnið yrði að nýju samstarfsformi og tillögum um samstarfsverkefni. Stefnt er að því að ákvörðun um hið nýja fyrirkomulag verði tekin á utanríkisráðherrafundinum í Reykjavík í maí og er samstaða um það meðal aðildarríkjanna að innihald ráði fyrirkomulagi samstarfsins sem verði aukið skref fyrir skref í ljósi reynslunnar.
    Þótt ætlunin sé að skapa nýjan vettvang fyrir samskiptin, á samstarf Atlantshafsbandalagsins og Rússlands sér nokkra sögu. Stofnsamningur um samstarf Atlantshafsbandalagsins og Rússlands var undirritaður á leiðtogafundi bandalagsins í París 27. maí 1997. Samstarfið hafði þá aukist stöðugt frá 1991, en Rússar gerðust aðilar að samstarfi í þágu friðar í júní 1994. Í samstarfssamninginum frá 1997 eru skilgreind samstarfssvið og fyrirkomulag samstarfsins útfært á vettvangi samstarfsráðs bandalagsins og Rússlands. Samkomulag þetta tryggði Rússum áheyrn fyrir sjónarmið sín á ákveðnum sviðum, en færði þeim ekki rétt til þátttöku í ákvörðunarferli bandalagsins. Aðildarríkin 19 hafa að jafnaði fjallað um fyrirhuguð samstarfsmál áður en gengið hefur verið til funda með Rússum.
    Meðal málefna sem fjallað hefur verið um í samstarfsráðinu er hvernig koma megi í veg fyrir útbreiðslu gereyðingarvopna, upplýsingaskipti um varnarstefnu og uppbyggingu herafla, kjarnorkuvopn, umbreyting hergagnaiðnaðar í borgaralegan iðnað, umhverfismál á hermálasviði, almannavarnir og sameiginlegar friðargæsluaðgerðir. Rússar hafa frá upphafi tekið þátt í alþjóðlegu friðargæslusveitunum undir stjórn bandalagsins í Bosníu-Hersegóvínu og í Kosóvó. Þeir hafa samt sem áður ekki farið leynt með þá skoðun að núverandi fyrirkomulag samstarfsins skili ekki tilætluðum árangri og að koma ætti á fót nýjum samstarfsvettvangi þar sem þeir sætu við borðið til jafns við ríkin 19.
    Rússar hafa lýst því yfir að þeir sækist ekki eftir aðild að Atlantshafsbandalaginu og af bandalagsins hálfu hefur áhersla verið lögð á að Rússar geti ekki hlutast til um innri málefni þess. Á þetta m.a. við um skuldbindingar er tengjast 5. grein Atlantshafssáttmálans og stækkun bandalagsins. Í yfirlýsingu utanríkisráðherrafundar samstarfsráðsins 7. desember 2001 var lögð áhersla á að kanna möguleika á samstarfi um mál er varða öryggis- og varnarhagsmuni allra ríkjanna 20, svo sem um baráttu gegn hryðjuverkum, hættuástandsstjórnun, aðgerðir til að koma í veg fyrir útbreiðslu gereyðingarvopna, afvopnunarmál og svæðisbundnar eldflaugavarnir, leit og björgun á sjó, hermálasamstarf og almannavarnir.
    Atlantshafsbandalagið og Rússar skiptust á tillögum í síðasta mánuði um fyrirkomulag samstarfsins, bæði form og efnisatriði, og viðræður hófust í upphafi þessa mánaðar. Skammur tími er til stefnu ef samþykkja á hið nýja samstarfsfyrirkomulag á utanríkisráðherrafundinum í Reykjavík, en báðir aðildar hafa lýst vilja til að það takist. Ekki er gert ráð fyrir að stofnsáttmáli samstarfsráðsins verði endurskoðaður, en reikna má með að sameiginleg yfirlýsing utanríkisráðherranna í Reykjavík, ásamt skjali um skipulag og fundarsköp hins nýja ráðs, verði gerð að viðaukum við stofnsáttmálann. Jafnframt því sem vonir eru bundnar við að eflt samstarf verði til þess að auka öryggi og stöðugleika á Evró-Atlantshafssvæðinu leggja aðildarríki Atlantshafsbandalagsins áherslu á að það verði ekki til að draga úr mikilvægi samstarfsins við Úkraínu eða önnur samstarfsríki.

Úkraína
    
Úkraínsk stjórnvöld hafa sótt mjög á um aukið samstarf við NATO, sérstaklega í ljósi áætlana um aukið samstarf bandalagsins og Rússlands, en samstarfinu hafa verið skorður settar vegna fjárskorts stjórnvalda í Kænugarði. Samráð er um ýmis öryggispólitísk mál, afvopnunarmál og útbreiðslu gereyðingarvopna. Fjallað er um baráttu gegn eiturlyfjasmygli og hryðjuverkum. Úkraína tekur þátt í vísindaverkefnum NATO sem samstarfsþjóðirnar hafa aðgang að og í áætluninni Vísindi fyrir frið (Science for Peace) sem miðar að því að nýta vísindi og tækni í þágu iðnaðar og umhverfisverndar. Árangursríkast hefur samstarfið verið á hermálasviðinu, einkum í sameiginlegum vinnuhópi um endurskipulagningu úkraínska heraflans.
    Undanfarna mánuði hefur sala Úkraínu á þungavopnum til fyrrverandi Júgóslavíulýðveldisins Makedóníu (FJM) varpað skugga á samstarf Atlantshafsbandalagsins og Úkraínu. Stjórnvöldum í Kænugarði var gert ljóst að vopnasalan ógnaði þeim brothætta friði er samið var um í FJM. Samkomulag tókst loks með úkraínskum stjórnvöldum og bandalaginu um að tryggt yrði að hvorki Úkraínumenn né aðrar þjóðir seldu þangað vopn og eru því góðar horfur á samstarfið aukist í kjölfarið. Samstarfssamningur Atlantshafsbandalagsins og Úkraínu var undirritaður fyrir fimm árum í Madríd og í tilefni af því verður fundur samstarfsráðsins haldinn í Úkraínu 9. júlí nk.

Evró-Atlantshafssamstarfsráðið (EAPC)
    
Samstarfsáætlun EAPC 2000–2002 nær til fjölmargra málaflokka, ekki síst ástandsins á Balkanskaga og annarra svæðisbundinna öryggismála í SA-Evrópu og Kákasus. Fjallað hefur verið um stefnumótun Samstarfsins í þágu friðar (PfP), friðargæslu, hættuástandsstjórnun, efnahagslegar hliðar varnarmála, vísindasamstarf, umhverfismál, almannavarnir, baráttuna gegn útbreiðslu léttra handvopna og hreinsun jarðsprengjusvæða, svo nokkur dæmi séu nefnd.
    Baráttan gegn hryðjuverkum hefur verið á dagskrá Evró-Atlantshafssamstarfsráðsins (EAPC) eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin, enda lagði fjöldi samstarfsríkja Bandaríkjunum lið með einum eða öðrum hætti. Á vettvangi samstarfsráðsins er unnið að útfærslu á tillögum Finnlands og Svíþjóðar um virkari þátttöku samstarfsráðsins í aðgerðum gegn hryðjuverkum. Þeim er ætlað að tryggja pólitíska samstöðu stjórnvalda EAPC-ríkjanna og ætlunin er að stofna sjóð fyrir ríki Mið-Asíu svo þau eigi hægara um vik að taka þátt í ýmsum verkefnum Samstarfsins í þágu friðar (PfP), en ætlunin er að auka m.a. samstarf um almannavarnir, sérstaklega vegna þeirrar hættu er stafar af gereyðingarvopnum (WMD).

3.2.2.     Stækkun NATO
    Undirbúningur er hafinn fyrir fund leiðtoga bandalagsins sem haldinn verður í Prag í nóvember á þessu ári. Sá fundur verður sögulegur þar sem bæði verður tekin ákvörðun um næstu stækkun bandalagsins og búast má við að mótuð verði stefna um hvernig haga eigi vörnum og þátttöku bandalagsins í baráttunni gegn nýjum ógnum í upphafi 21. aldarinnar.
    Ljóst varð á óformlegum leiðtogafundi bandalagsins, 13. júní í Brussel í fyrra, að ákvörðun um stækkun bandalagsins yrði tekin í Prag. Óákveðið er hins vegar hversu mörgum og hvaða umsóknarríkjum verður boði að hefja aðildarviðræður við bandalagið. Bandalagið hefur ítrekað að dyr þess standi opnar öllum ríkjum Evrópu, sem óska aðildar og uppfylla nauðsynleg skilyrði, enda leiði frekari stækkun til styrkingar bandalagsins og stuðli að öryggi og friði á Evró-Atlantshafssvæðinu. Níu ríki eru þátttakendur í svokallaðri „Framkvæmdaráætlun aðildar“ (MAP): Albanía, Búlgaría, Eistland, Lettland, Litháen, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía og Makedónía. Áætluninni er ætlað að auðvelda umsóknarríkjunum hagnýtan undirbúning aðildar, m.a. með aðstoð sérfræðinga bandalagsins.
    Þriðja ársferli framkvæmdaráætlunarinnar stendur nú yfir með fundum fastaráðs bandalagsins með ráðherrum viðkomandi ríkja (19+1). Á vorfundinum í Reykjavík í maí verður utanríkisráðherrum bandalagsins gefin skýrsla um hvar ríkin níu eru á vegi stödd í undirbúningi aðildar. Mikilvægt er að tryggt verði, þegar þriðja ársferlinu lýkur í vor, að framhald verði á því ferli, bæði fyrir ríki sem ekki verður boðið til aðildarviðræðna í Prag og hugsanleg ný umsóknarríki.
    Umræður innan bandalagsins, um hvaða umsóknarríkjum verði boðið til aðildarviðræðna í Prag, munu ekki hefjast af alvöru fyrr en eftir Reykjavíkurfundinn. Innan bandalagsins er að hefjast nauðsynleg undirbúningsvinna svo það verði í stakk búið að taka við nýjum aðildarríkjum þegar þar að kemur, en m.a. þarf að stækka húsnæði núverandi höfuðstöðva því nýjar höfuðstöðvar verða væntanlega ekki tilbúnar fyrr en árið 2008.

3.2.3.     Samstarf NATO og ESB í öryggis- og varnarmálum
    Grunnurinn að samstarfi Atlantshafsbandalagsins og ESB á sviði öryggis- og varnarmála var lagður á leiðtogafundi bandalagsins í apríl árið 1999 í Washington og Ísland hefur stutt samstarfið með þá meginhagsmuni landsins að leiðarljósi:
          að standa vörð um Atlantshafstengslin, þannig að ekki þurfi að velja á milli ríkja Norður-Ameríku og Evrópu í samstarfinu;
          að tryggja eftir mætti áhrifastöðu Íslands á grundvelli þeirra réttinda er Ísland hefur áunnið sér sem aðildarríki bandalagsins og í krafti aukaaðildar að VES, en þar hafði Ísland nánast sama rétt og full aðildarríki til þátttöku í ákvörðunum um viðbrögð við hættuástandi í Evrópu;
          að skapa færi á að leggja af mörkum til hugsanlegra friðaraðgerða ESB í framtíðinni, þar sem Atlantshafsbandalagið í heild sinni kæmi ekki við sögu.
    Haldið hefur verið á lofti því sjónarmiði að tryggja verði rétt evrópsku bandalagsríkjanna sex til þátttöku í hugsanlegum aðgerðum Evrópusambandsins, enda sé það órofa þáttur í samstarfi bandalagsins og ESB. Á leiðtogafundi ESB í desember árið 2000 í Nice var komið til móts við ríkin sex um tíðni funda og réttinn til að óska eftir sérstökum fundum, auk þess sem þeim var gefinn kostur á að gera tillögur um dagskrá sameiginlegra funda.
    Ísland hefur lagt áherslu á sem mest samræmi og samhæfingu í liðsaflaskipulagi samtakanna tveggja og að áætlanir um aðgerðir verði undirbúnar af hálfu hermálayfirvalda bandalagsins. Ísland hefur stutt vísan aðgang ESB að tækjum og búnaði bandalagsins í aðgerðum þar sem Atlantshafsbandalagið sem slíkt ákveður að eiga ekki hlut að máli. ESB hefur á hinn bóginn ekki viljað skuldbinda sig til þess að ríkin sex geti tekið þátt í stjórn aðgerða, sem ESB kann að taka að sér án atbeina bandalagsins. Þess í stað hefur ESB boðið ríkjum sem leggja umtalsvert af mörkum að taka sæti í svokallaðri framlaganefnd og þannig tengt áhrif á mótun ákvarðana við framlögin.
    Af Íslands hálfu hefur rík áhersla verið lögð á það að Íslandi, sem aðila að bandalaginu og aukaaðila að VES, gæfist kostur á þátttöku í samráði og mótun ákvarðana ESB um aðgerðir á sviði öryggis- og varnarmála. Þar sem höfuðtilgangur frumkvæðis sambandsins hefur verið að skapa því bolmagn til að standa undir auknu hlutverki sínu og efla hina evrópsku stoð bandalagsins er eðlilegt að Ísland reyni að leggja meira af mörkum til sameiginlegra friðaraðgerða í framtíðinni.
    Þátttökumálið er nú einkum til umfjöllunar innan Evrópusambandsins og óvíst hvenær samkomulag um það efni muni liggja fyrir. Hægt hefur einnig miðað í viðræðum um fyrirkomulag milli stofnananna tveggja til að samræma vinnu við gerð sameiginlegs liðsaflaskipulags og áætlanir vegna aðgerða. Þeir þrír vinnuhópar, sem að störfum eru, fjalla m.a. um samráð vegna hættuástands, aðlögun liðsaflaskipulags NATO að liðsafla ESB og aðgang ESB að tækjum og búnaði NATO (Berlín+). Hefur Ísland lagt áherslu á að þessari vinnu ljúki hið fyrsta svo hægt verði að ganga frá endanlegu rammasamkomulagi milli stofnananna tveggja um samstarf á þessu sviði (sjá einnig kafla 3.4.3). Hagnýtt samstarf NATO og ESB á Balkanskaga hefur gengið vel. Samráð stofnananna hefur haldið áfram með fundum bæði á ráðherra- og embættismannastigi. Á þessum fundum hefur verið fjallað um þau mál sem efst á baugi hafa verið svo sem ástandið á Balkanskaga og aðgerðir gegn alþjóðlegum hryðjuverkum í kjölfar árásanna á Bandaríkin.

3.2.4.     Aðgerðir NATO á Balkanskaga
    Verkefni Atlantshafsbandalagsins við að koma á varanlegum friði og stöðugleika á Balkanskaga, sem er forsenda fyrir frekari lýðræðis- og efnahagsþróun ríkjanna, er langt frá því að vera lokið. Meira en 50.000 hermenn eru nú í stöðugleikasveitum bandalagsins og samstarfsþjóðanna í Bosníu-Hersegóvínu (SFOR), Kosóvó (KFOR) og í fyrrverandi Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu.
    Í Makedóníu var nýlega að beiðni stjórnvalda framlengt umboð sveita NATO, sem þar eru til aðstoðar eftirlitsmönnum ESB og ÖSE til að tryggja frið og öryggi í samræmi við friðarsamkomulag slavneska meiri hlutans og albanska minni hlutans frá því í ágúst í fyrra. Komið verður á fót lögreglusveitum með þátttöku allra þjóðarbrota, festa á í sessi nýtt fyrirkomulag sveitarstjórnarmála og stuðla að heimkomu flóttafólks, hreinsa jarðsprengjusvæði, og kalla saman framlagaráðstefnu helstu alþjóðastofnana og áhugasamra ríkja þegar sýnt þykir að staðið hafi verið við skilmála friðarsamkomulagsins.
    Það var ekki fyrr en í lok febrúar sl. sem tókst loks að mynda héraðsstjórn í Kosóvó á grundvelli kosningaúrslitanna frá 17. nóvember sl. Á nýju héraðsþingi sem þá var kosið til eiga sæti 120 þingmenn, 10 sæti eru tryggð fyrir serbneska minnihlutann og önnur 10 fyrir aðra minnihlutahópa. Leiðtogi Lýðræðisbandalagsins, Dr. Ibrahim Rugova, verður forseti héraðsins, en forsætisráðherrann kemur frá Bandalagi um framtíð Kosóvó og verður Bajram Rexhepi. Héraðsþingið mun hafa takmörkuðu hlutverki að gegna en það á að fjalla m.a. um heilbrigðis-, mennta- og samgöngumál. Æðsta yfirstjórn mála héraðsins verður áfram í höndum borgaralegrar bráðabirgðastjórnar Sameinuðu þjóðanna, m.a. lög og regla, efnahagsstefna og utanríkismál, en varnir og öryggi verða í höndum KFOR.
    Um 18 þúsund manns eru nú í liði SFOR frá 34 þjóðum í Bosníu-Hersegóvínu. Lið þetta er forsenda þess að hægt sé að halda áfram uppbyggingu lýðræðis- og réttarsamfélags í landinu. Þótt friður hafi komist á í Bosníu-Hersegóvínu er pólitískt ástand enn viðkvæmt og ekki fyrirsjáanlegt að lið SFOR sé á förum þaðan á næstunni.

3.3.     Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE)
3.3.1.     Mannréttindi, lýðræði og réttindi minnihlutahópa
    ÖSE gegnir vaxandi hlutverki við eflingu mannréttinda, lýðræðis, réttinda minnihlutahópa og réttarríkisreglna í aðildarríkjunum sem nú eru 55 talsins. Styrkur ÖSE felst í því að starf stofnunarinnar að eflingu mannréttinda og lýðræðis fer að miklum hluta fram á vettvangi í aðildarríkjunum. ÖSE starfrækir alls átján sendinefndir í aðildarríkjunum sem hafa það að meginmarkmiði að vinna með og aðstoða viðkomandi stjórnvöld við styrkingu mannréttinda og lýðræðisþróunar. Þannig beitir stofnunin sér fyrir friðsamlegri lausn deilumála og fyrirbyggjandi aðgerðum, auk þess að afla vitneskju um deilur sem ógnað geta friði í aðildarríkjunum.
    Ísland hefur innan ÖSE lagt sérstaka áherslu á aukið samstarf ÖSE og Evrópuráðsins m.t.t. skilvirkni og verkaskiptingar við uppbyggingu lýðræðis og mannréttinda á vettvangi í aðildarríkjunum. Þessi áhersla á skilvirkt samstarf stofnananna er í fullu samræmi við áhersluatriði í formennsku Íslands í ráðherranefnd Evrópuráðsins árið 1999. Frá þeim tíma hefur umtalsverðum árangri verið náð. Störf beggja stofnananna lúta að fyrirbyggjandi aðgerðum á sviði eflingar mannréttinda og styrkingu lýðræðis og réttarríkisreglna í aðildarríkjunum.

3.3.2.     Verkefni ÖSE á Balkanskaga
    Stærstu verkefni ÖSE felast í uppbyggingarstarfinu á Balkanskaga. ÖSE er með sérstakar sendinefndir í Kosóvó, Bosníu-Hersegóvínu, Króatíu, Makedóníu, Serbíu og að auki í Albaníu. Endurreisn samfélagsins í Kosóvó á grundvelli ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1244 er stærsta verkefnið sem ÖSE hefur tekið að sér. Starfsemi ÖSE á Balkanskaga miðast fyrst og fremst að eflingu mannréttinda og lýðræðisþróunar, réttarríkisreglna, þjálfun dómara og aðstoð við frjálsa fjölmiðla. Barátta gegn mansali og kynlífsþrælkun er einnig mikilvægt áhersluatriði stofnunarinnar. ÖSE gegnir jafnframt mikilvægu hlutverki á sviði kosningaeftirlits en þar hefur Mannréttinda- og lýðræðisstofnun ÖSE (ODIHR) mikilvægu hlutverki að gegna. ÖSE hefur einnig tekið virkan þátt í framkvæmd stöðugleikasáttmálans fyrir Suðaustur-Evrópu (Stability Pact), ekki síst á sviði mannréttinda og lýðræðisuppbyggingar.
    Um það bil 3.000 alþjóðlegir starfsmenn starfa á vegum ÖSE á vettvangi, langflestir á Balkanskaga. Stærstu sendinefndir stofnunarinnar eru starfræktar í Kosóvó, Bosníu-Hersegóvínu, Króatíu og Makedóníu auk Serbíu. Hlutverk sendinefnda ÖSE er að starfa með og veita þarlendum stjórnvöldum aðstoð við uppbyggingu lýðræðis og mannréttinda og réttarríkisreglna auk frjálsrar fjölmiðlunar svo að dæmi séu nefnd. Í Kosóvó má sérstaklega nefna víðtæka þjálfun lögreglumanna á vegum ÖSE. ÖSE starfrækir lögregluskóla í Kosóvó og þjálfar einnig lögreglumenn í Serbíu. Þetta þjálfunar- og fræðslustarf þykir hafa tekist mjög vel og mikilvægt framlag til stöðugleika á viðkomandi svæðum.
    Í kjölfar átaka milli stjórnarhers Makedóníu og albanskra hryðjuverkamanna á síðasta ári hefur ÖSE aukið viðveru sína í Makedóníu. Alls starfa nú um 200 alþjóðlegir starfsmenn á vegum ÖSE í Makedóníu. Störf þeirra lúta fyrst og fremst að eftirlitsstörfum við landamæri og aðstoð við þjálfun lögreglumanna, en kveðið er á um framlag ÖSE á sviði traustvekjandi aðgerða í rammasamningnum frá síðasta ári. Barátta gegn mansali og aðstoð við stjórnvöld vegna endurkomu flóttamanna er einnig mikilvægur þáttur í starfsemi ÖSE í Makedóníu. ÖSE starfrækir einnig smærri sendinefndir í Úkraínu, Tsétsníu, Hvíta-Rússlandi, Kákasus-ríkjunum og einnig hefur stofnunin viðveru í Mið-Asíuríkjunum fimm; Kasakstan, Kirgisíu, Úsbekistan, Tadsjikistan og Túrkmenistan. Fastaráð ÖSE tók ákvörðun í desember 2001 um að framlengja ekki starfsemi sendinefnda ÖSE í Eistland og Lettlandi, en erindisbréf þeirra rann út um síðustu áramót. Í ákvörðun fastaráðs ÖSE var skýrt tekið fram að lokun sendinefndanna þýddi ekki skerta áherslu stofnunarinnar á mannréttindamál í ríkjunum. Bæði Mannréttinda- og lýðræðisstofnun ÖSE og fulltrúi ÖSE á sviði þjóðernisminnihluta munu áfram veita þarlendum stjórnvöldum ráðgjöf og aðstoð sérstaklega vegna stöðu og réttinda rússneska þjóðernisminnihlutans í löndunum tveimur.

3.3.3.     Mannréttindi kvenna og barna og baráttan gegn mansali
    Almennt má segja að megináherslur Íslands á vettvangi ÖSE séu innan mannréttindastarfs ÖSE og lúti að framlagi ÖSE til eflingar mannréttinda, lýðræðis og stöðugleika í aðildarríkjunum. Ísland hefur á vettvangi ÖSE lagt áherslu á mannréttindamál og réttindi kvenna og barna, auk baráttunnar gegn mansali og kynlífsþrælkun. Varlega áætlað er talið að þúsundir stúlkubarna og kvenna hafi verið þvingaðar til vændis og kynlífsþrælkunar í aðildarríkjum ÖSE undanfarin ár. ÖSE telur baráttuna gegn þessum hörmulega glæp forgangsverkefni, ekki síst á Balkanskaga. Mansal og kynlífsþrælkun er iðulega nátengd ólöglegri verslun með vopn, eiturlyfjasölu- og smygli og fjármögnun hryðjuverka. ÖSE hefur með markvissum hætti aukið aðgerðir sínar í baráttunni gegn mansali og kynlífsþrælkun á Balkanskaga á undanförnum árum. Ísland hefur tekið virkan þátt í störfum vinnuhóps ÖSE um mansal og kynlífsþrælkun sem starfræktur er innan vébanda stöðugleikasáttmálans fyrir Suðaustur-Evrópu. Starfsemi vinnuhópsins hefur aðallega beinst að Kosóvó, Bosníu-Hersegóvínu, Serbíu og Króatíu.

3.3.4.     Kosningaeftirlit á vegum ÖSE
    Eftirlit með þing- og sveitarstjórnarkosningum í aðildarríkjunum er mikilvægur þáttur í starfi ÖSE á sviði uppbyggingar lýðræðis og mannréttinda. Stærsta verkefni ÖSE á síðasta ári á þessu sviði var umsjón héraðsþingkosninganna í Kosóvó þann 17. nóvember 2001 sem þóttu takast mjög vel. Þrír kosningaeftirlitsmenn frá Íslandi tóku þátt í umsjón kosninganna, líkt og í umsjón með sveitarstjórnarkosningunum í héraðinu í apríl 2000. Stærstu verkefni ÖSE á sviði kosningaeftirlits á þessu ári verða sveitarstjórnarkosningar í Kosóvó, auk væntanlegra þingkosninga í Bosníu-Hersegóvínu, Makedóníu og Georgíu síðar á árinu.

3.4.     Utanríkis-, öryggis- og varnarmál Evrópusambandsins (CFSP/ESDP)
    Þróun utanríkismálastefnu Evrópusambandsins (CFSP) og skyldrar öryggis-varnarmálastefnu þess (ESDP) hefur verið hröð á undanförnum missirum. Gera má ráð fyrir að samráð og samræming aðildarríkja ESB á þessum sviðum aukist enn frekar á næstu árum og geti haft verulega svæðisbundna og jafnvel hnattræna þýðingu. Íslensk stjórnvöld hafa takmarkaða möguleika til áhrifa á sameiginleg utanríkis- eða varnarmál ESB en hafa reynt af fremsta megni að fylgjast með þessari þróun og haldið fram íslenskum hagsmunum og sjónarmiðum þegar tækifæri hafa gefist til.

3.4.1.     Sameiginleg utanríkistefna ESB
    Þótt ESB hafi formlega mótað og framkvæmt sameiginlega utanríkisstefnu í rúman áratug urðu nokkur tímamót fyrir tæpum tveimur árum við skipan sérstaks háttsetts fulltrúa samtakanna á sviði utanríkis- og öryggismála sem starfar fyrir ráðherraráðið og er í reynd hliðstæður framkvæmdastjóra ESB á sviði utanríkismála. Þetta endurspeglar vaxandi áherslu á milliríkjasamstarf innan ESB þar sem hefðbundið forræði framkvæmdastjórnarinnar hefur verið víkjandi. Samtímis hefur orðið áberandi aukning í virkni og vídd framkvæmdar utanríkisstefnunnar, sem hefur m.a. komið fram í frumkvæði á vestanverðum Balkanskaga og í Mið-Austurlöndum.
    Á grundvelli EES-samningsins býðst Íslandi að lýsa stuðningi við afstöðu ESB í einstökum utanríkismálum og í flestum tilvikum er fullt samræmi þar á milli, enda yfirleitt um svipuð gildi og hagsmuni að ræða. Það breytir því ekki að fyrir utan almenn pólitísk skoðanaskipti utanríkisráðherra tvisvar á ári er enginn formlegur vettvangur til tíðara reglubundins samráðs um einstök utanríkismál á milli Íslands annars vegar og ESB hins vegar. Þegar EES/ EFTA-ríkjunum er boðið að styðja afstöðu ESB er það einungis til samþykktar eða synjunar.

3.4.2.     Sameiginleg varnarmálastefna ESB
    Metnaður ESB til framkvæmdar svæðisbundinnar og jafnvel hnattrænnar utanríkisstefnu hefur óhjákvæmilega leitt til mótunar sameiginlegrar öryggis- og varnarmálastefnu, án þess þó að í henni felist eiginlegar landvarnir eða sameiginlegar varnarskuldbindingar. Meginaflvakinn var óánægja í helstu aðildarríkjum ESB með ósamræmið á milli pólitísks og efnahagslegs vægis samtakanna annars vegar og hernaðarlegrar getu hins vegar. Til viðbótar hefur reynslan af aðgerðum á vestanverðum Balkanskaga, þar sem aðildarríki ESB hafa þurft að reiða sig á bolmagn Bandaríkjanna innan Atlantshafsbandalagsins, og fyrirsjáanleg stækkun samtakanna til austurs og suðurs, orðið til að örva umfjöllun um eflingu bolmagns ESB til hernaðarlegra og borgaralegra aðgerða utan aðildarríkjanna. Þá eru enn ómetin áhrifin af aðgerðunum í Afganistan og nauðsynlegri baráttu gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi, en spænska formennskuríkið leggur megináherslu á að þetta verði skoðað í samhengi við öryggis- og varnarmálastefnu þess.

3.4.3.     Nýtt stofnanakerfi og þátttaka samstarfsríkja
    Á þeim fjórum árum sem liðin eru frá ákvarðanatöku um öryggis- og varnarmálastefnuna á leiðtogafundi ESB í Amsterdam hefur þegar tekist að leggja grunninn að frekari þróun. Nýjar öryggismálastofnanir ESB, þ.e. stjórnmála- og öryggismálanefnd, hermálanefnd og hermálastarfslið, hafa nú starfað formlega í rúmt ár og hafist handa við samþættingu utanríkis- og öryggismála og forgangsröðun verkefna. Á hermálasviðinu hefur hæst borið framkvæmd svonefnds meginmarkmiðs ESB um að hafa til taks 60 þúsund manna herlið sem áformað er að verði starfhæft á næsta ári í svokölluð Petersberg-verkefni, þ.e. friðaraðgerðir og aðgerðir á sviði mannúðarmála og neyðaraðstoðar (þar á meðal björgunaraðgerðir). Það var með hliðsjón af árangri í þessu starfi sem leiðtogafundur ESB í Laeken samþykkti í desember sl. að lýsa samtökin reiðubúin til aðgerða. Þeirri yfirlýsingu hefur svo nýlega verið fylgt eftir með ákvörðun um yfirtöku ESB á verkefnum alþjóðalögreglusveita Sameinuðu þjóðanna í Bosníu-Hersegóvínu (IPTF) frá næstu áramótum. Íslandi hefur ásamt fleiri samstarfsríkjum ESB verið boðið að leggja af mörkum til lögregluaðgerðar sambandsins í Bosníu-Hersegóvínu (EUPM) og hefur því verið svarað jákvætt. Þá hafa verið uppi hugmyndir um yfirtöku ESB á eftirlitsaðgerð Atlantshafsbandalagsins í Makedóníu en engar ákvarðanir hafa þó verið teknar í því sambandi.
    Um leið og nýjar öryggismálastofnanir ESB voru formfestar á leiðtogafundinum í Nice voru jafnframt teknar ákvarðanir um þátttökurétt umsóknarríkja og evrópskra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins utan ESB. Þær fólust m.a. í því að gert er ráð fyrir reglulegum fundum ráðherra og embættismanna í svonefndum 15+15 og 15+6 hópum. Auk þess gafst framangreindum samstarfsríkjum kostur á að tilnefna tengiliði gagnvart hermálanefndinni og hermálastarfsliðinu og að leggja af mörkum til framkvæmdar fyrrnefnds meginmarkmiðs ESB. Af Íslands hálfu hafa viðeigandi fundir verið sóttir, tillögur verið gerðar um tilhögun samstarfs og framlagi heitið til meginmarkmiðsins, en eiginleg pólitísk skoðanaskipti um mótun og framkvæmd öryggis- og varnarmálastefnunnar hafa verið af skornum skammti.
    Ljóst er að enn er verk óunnið innan ESB hvað varðar þróun og útfærslu öryggis- og varnarmálastefnunnar þegar til lengri tíma er litið og sennilegt að það verði eitt af verkefnum fyrirhugaðrar ríkjaráðstefnu árið 2004.

3.5.     Afvopnunarmál
    Afvopnunarmál eru enn þá mikilvægur málaflokkur þó að þau mál hafi ekki sama vægi á alþjóðavettvangi og þau höfðu á tímum kalda stríðsins. Alþjóðlegir afvopnunarsamningar varða allt alþjóðasamfélagið, öryggi þess og frið og ber Íslandi skylda til að fylgjast grannt með þróun mála. Nokkrir mikilvægir áfangar hafa náðst á vettvangi afvopnunar á undanförnum árum og er þeirra helstu getið hér á eftir.

3.5.1.     Vettvangur umræðna um afvopnunarmál
    Ásamt allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna er afvopnunarráðstefnan í Genf (Conference on Disarmament-CD) meginvettvangur umræðna um afvopnunarmál og vígbúnaðareftirlit. Frá því afvopnunarráðstefnan náði samkomulagi um efnavopnasamninginn árið 1993 og samninginn um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn árið 1996 hefur ekki tekist að ná samkomulagi um dagskrá hennar og gerð nýrra afvopnunarsamninga. Dagskrá ráðstefnunnar er háð samhljóða samkomulagi aðildarríkjanna, sem eru nú 66 að tölu.
    Um fimmtíu ályktanir og ákvarðanir varðandi afvopnun og alþjóðlegt öryggi voru samþykktar á 56. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Allsherjarþingið staðfesti m.a. hlutverk afvopnunarráðstefnunnar í Genf sem helsta vettvangs alþjóðasamfélagsins til fjölþjóðlegra samningaviðræðna um afvopnun og vígbúnaðareftirlit. Dagskrá og starfshættir afvopnunarráðstefnunnar eru nú til sérstakrar umræðu innan hennar og vonast er til að samkomulag náist sem fyrst um vinnuáætlun ráðstefnunnar þannig að frekari árangur sjáist sem fyrst af starfi hennar.

3.5.2.     Helstu fjölþjóðasamningar um afvopnunarmál
START-samningarnir
    
Mikilsverðum áfanga var náð í desember 2001 þegar ákvæði START I samningsins (Strategic Arms Reduction Treaty) höfðu að fullu komið til framkvæmda. START I samningarnir, sem allt frá 1983 voru löngum meginvettvangur viðræðna Bandaríkjanna og Rússlands um fækkun kjarnaodda, gerðu ráð fyrir fækkun langdrægra kjarnavopna í áföngum frá yfir 10.000 kjarnaoddum í 6.000. Öll kjarnavopn hafa enn fremur verið fjarlægð frá Hvíta-Rússlandi, Kasakstan og Úkraínu. START II samningurinn, sem undirritaður var 1993, hefur enn ekki gengið í gildi. Samkvæmt honum skyldi hvort ríki um sig fækka kjarnaoddum í 3.000–3.500 fyrir árslok 2007. Þjóðarleiðtogar Bandaríkjanna og Rússlands ákváðu í mars 1997 að hefja viðræður um START III, sem miðaði að fækkun kjarnaodda í 2.000–2.500 fyrir árslok 2007. Þessar viðræður, ásamt viðræðum um ABM-samninginn frá 1972, hófust í júní 1999 en hafa enn ekki skilað formlegri niðurstöðu. Forsetar Bandaríkjanna og Rússlands hittust í Texas í nóvember 2001, þar sem forseti Bandaríkjanna lýsti því yfir að Bandaríkin hygðust fækka kjarnaoddum sínum í 1.700–2.200 á næstu tíu árum og ganga þannig mun lengra en gert var ráð fyrir að samið yrði um í SALT III samningnum. Forseti Rússlands lýsti því yfir að Rússar mundu fækka kjarnaoddum sínum samsvarandi.

ABM-samningurinn
    
ABM-samningurinn um almennt bann við uppsetningu gagneldflauga gegn langdrægum eldflaugum (Treaty on the Limitation of Anti-Ballistic Missile Systems) hefur um áratugaskeið verið einn af hornsteinum alþjóðlegs vígbúnaðareftirlits. Bandarísk stjórnvöld hafa nú tekið ákvörðun um að segja samningnum upp með vísun til þess að samningurinn sé leifar frá kaldastríðsárunum og standi í vegi fyrir tilraunum Bandaríkjanna með uppsetningu gagneldflaugakerfis. Rússnesk stjórnvöld hafa verið mótfallin öllum breytingum á samningnum en hafa nú lýst sig reiðubúin til breytinga á honum. Uppsögn ABM-samningsins tekur gildi í júní 2002. Bandarísk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að segja sig frá ABM-samningnum, þar sem það kunni að leiða til nýs vígbúnaðarkapphlaups.

Samningurinn um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn, CTBT
    
Samningurinn um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn (Comprehensive Test Ban Treaty-CTBT) er einn af merkari samningum í sögu afvopnunar, en hann kveður á um algert bann við hvers kyns kjarnasprengjum er tengjast þróun kjarnavopna. Samningurinn var lagður fram til undirritunar 24. september 1996. Um þessar mundir hafa 165 ríki undirritað samninginn og 89 ríki fullgilt hann, þar á meðal Ísland sem staðfesti samninginn þann 26. júní 2000. Mikilvægi samningsins liggur fyrst og fremst í því að samkvæmt honum er kjarnavopnaríkjum bannað að framkvæma tilraunasprengingar með kjarnavopn jafnframt því sem hann hindrar ríki, sem ekki hafa yfir kjarnavopnum að ráða, að þróa slík vopn með aðstoð tilraunasprenginga. Hann takmarkar því þróun og endurbætur eldri kjarnavopna, kemur í veg fyrir þróun nýrra tegunda vopna og stuðlar þannig að því að markmiðið um útrýmingu kjarnavopna náist. Samningurinn hefur þá sérstöðu að í II. viðauka eru tilgreind 44 ríki, sem verða að fullgilda samninginn áður en hann getur tekið gildi, en það eru þau ríki sem hafa yfir kjarnavopnum eða kjarnaofnum að ráða. Nú hafa 31 af þessum 44 ríkjum fullgilt samninginn, þ.m.t. Rússland, Bretland og Frakkland. Samningurinn gengur fyrst í gildi þegar eftirfarandi ríki hafa einnig fullgilt hann: Alsír, Bandaríkin, Kína, Kólumbía, Kongó, Egyptaland, Indland, Indónesía, Íran, Ísrael, Norður-Kórea, Pakistan og Víetnam.
    Samningurinn kveður á um að stofnuð verði sérstök alþjóðastofnun, Comprehensive Test Ban Treaty Organization (CTBTO), til að annast framkvæmd samningsins. Þar sem samningurinn hefur ekki tekið gildi var komið á fót sérstakri undirbúningsnefnd (Preparatory Commission) í Vínarborg til að vinna að undirbúningi á staðfestingu samningsins. Meginverkefni undirbúningsnefndarinnar hefur verið að þróa alþjóðlegt eftirlitskerfi, sem byggir á neti rúmlega 337 eftirlitsstöðva, en slíkt eftirlitskerfi þarf að vera til staðar um leið og samningurinn tekur gildi. Tvær slíkar stöðvar verða á Íslandi, önnur til að mæla jarðhræringar og hin til að mæla geislavirkni. Stöðvarnar, sem verða í Borgarfirði og í Reykjavík, eru nú nánast starfshæfar og munu Geislavarnir ríkisins og Veðurstofa Íslands hafa faglega umsjón með þeim. Ísland og CTBTO þurfa að gera sérstakt samkomulag um reksturinn og er sú samningsgerð nú í vinnslu. Einnig má nefna að íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Kögun hf. hefur náð samningi við stofnunina um hugbúnaðargerð. Á vegum CTBTO er enn fremur verið að þróa eftirlitskerfi, sem fæli í sér eftirlit og skoðun á vettvangi ef grunsemdir vakna um brot á samningnum.
    Í kjölfar alþjóðaráðstefnu sem haldin var í október 1999 í Vín til að hraða endanlegri gildistöku samningsins hafnaði bandaríska öldungadeildin samningnum, þrátt fyrir mikla áherslu Clintons, forseta Bandaríkjanna, á framgang málsins. Í nóvember 2001 var önnur slík alþjóðaráðstefna haldin í New York, að boði framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, sem hafði það að meginmarkmiði að ræða aðgerðir til hraða gildistöku samningsins. Það er samhljóða álit í fastaráði samningsins í Vínarborg að forsenda þess að samningurinn taki gildi sé staðfesting Bandaríkjanna, enda voru þau í fararbroddi þeirra ríkja sem beittu sér fyrir gerð samningsins og hafa enn fremur ekki gert tilraunir með kjarnavopn síðan 1992. Bandaríkin voru eitt af fyrstu ríkjunum til að skrifa undir samninginn 1996 en hafa nú lýst því yfir að þau muni ekki fullgilda samninginn að svo stöddu. Í framhaldi af því sóttu Bandaríkin ekki alþjóðaráðstefnuna sem Sameinuðu þjóðirnar stóðu fyrir í New York í nóvember 2001.

Samningurinn um að hefta útbreiðslu kjarnavopna, NPT
    
Endurskoðunarráðstefna um samninginn um að hefta útbreiðslu kjarnavopna (Non-Proliferation Treaty-NPT), sem gekk í gildi 1970, fór fram í New York í maí 2000. Í lokaskjali ráðstefnunnar ákváðu aðildarríkin að beita sér fyrir styrkingu á samningnum með það fyrir augum að hefta enn frekari útbreiðslu kjarnavopna og stefna að frekari kjarnorkuafvopnun. Frekari takmörkun á útbreiðslu kjarnavopna er háð því að öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna gerist aðilar að samningnum og virði að fullu ákvæði hans um að koma sér ekki upp kjarnavopnum. Hin yfirlýsta stefna kjarnorkuveldanna að útrýma kjarnavopnum að fullu er mikilvæg fyrir þróun samningsins og áframhaldandi kjarnorkuafvopnun. Undirbúningsferli er nú hafið fyrir næstu endurskoðunarráðstefnu samningsins sem haldin verður 2005.

Samningurinn um opna lofthelgi
    
Samningurinn um opna lofthelgi (Open skies), sem fellur undir Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, gekk í gildi 1. janúar 2002 en þá höfðu bæði Rússland og Hvíta-Rússland afhent vörsluríkjum samningsins fullgildingarskjöl sín. Þar með lauk langri biðstöðu allt frá 24. mars 1992 þegar samningurinn var undirritaður. Samningurinn felur í sér að núverandi aðildarríki, 27 að tölu, geta á grundvelli tiltekins kvóta flogið eftirlitsflugvélum til hernaðarlegs eftirlits yfir landsvæði annars aðildarríkis. Samkvæmt samningnum má einnig beita flugvélunum til aðgerða til að forða átökum og til stjórnunar á hættutímum. Eftirlitsflugið getur einnig komið að gagni í öðrum tilgangi, svo sem vegna umhverfisverndar. Öll aðildarríkin hafa aðgang að þeim gögnum sem aflað er með eftirlitsfluginu og er samningurinn því ein af stoðum hins víðfeðma kerfis ÖSE um traustvekjandi aðgerðir. Á síðustu fimm árum hefur verið unnið mikið verk við að þróa eftirlitið með tilraunaflugi.

Samningurinn um hefðbundin vopn í Evrópu, CFE
    
Samningurinn um hefðbundin vopn í Evrópu (Conventional Forces Europe-CFE) er einn merkasti afvopnunarsamningur sögunnar á þessu sviði vígbúnaðar. Framkvæmd samningsins hefur gengið mjög vel og fækkunarmörkum náð varðandi þær fimm tegundir vígbúnaðar sem samningurinn tekur til; skriðdreka, brynvörð ökutæki, stórskotaliðsvopn, herþotur og árásarþyrlur. Í sumum tilvikum hefur jafnvel orðið fækkun umfram samningsskyldur en á móti skortir nokkuð á framkvæmd samningsins hvað varðar sérstakar svæðistakmarkanir. Á leiðtogafundi ÖSE í Istanbúl 18.–19. nóvember 1999 var gengið frá samkomulagi um aðlögun samningsins að breyttum aðstæðum. Nú eru 30 ríki aðilar að samningnum um hefðbundin vopn en þeim mun væntanlega fjölga þegar umsamin aðlögun tekur að fullu gildi. Felld voru út ákvæði sem byggðust á hinni gömlu skiptingu Evrópu í austur og vestur og jafnframt voru heimildir um fjölda einstakra vopnategunda í CFE-samningnum lækkaðar enn frekar. Ljóst er að aðlagaður samningur mun tryggja öryggi og stöðugleika í Evrópu með verulega minni vopnabúnaði en gerist í dag. Sérstök samráðsnefnd (Joint Consultative Group) starfar í Vínarborg og hefur yfirumsjón með framkvæmd samningsins.

Efnavopnasamningurinn, CWC
    
Efnavopnasamningurinn (Chemical Weapons Convention-CWC) sem gekk í gildi 1997 kveður á um algert bann við framleiðslu og notkun efnavopna. Þau aðildarríki efnavopnasamningsins sem búa yfir efnavopnum skulu hafa lokið eyðingu þeirra fyrir 2007 en þó með mögulegri framlengingu til 2012. Samningurinn mælir einnig fyrir um eyðileggingu tækja og tæknibúnaðar til framleiðslu efnavopna. Efnavopnasamningurinn bannar enn fremur öðrum ríkjum að afla sér þessara vopna. Áhyggjur vekur að framkvæmd samningsins hefur gengið mun hægar fyrir sig en gert var ráð fyrir við gildistöku hans, því efnavopn, sem mörg hver eru bæði auðveld og ódýr í framleiðslu, geta þannig komist í hendur hryðjuverkamanna. Samningurinn felur í sér mikilvæg eftirlitsákvæði en eftirlit með framkvæmd hans er í höndum Efnavopnastofnunarinnar sem tók formlega til starfa 1997 í Haag. Aðildarríki samningsins eru nú 145, en þó ekki Egyptaland, Ísrael, Líbía, Írak og Norður-Kórea, sem öll eru talin búa yfir efnavopnum eða hafa getu til að framleiða þau.

Lífefnavopnasamningurinn, BWC
    
Fimmta endurskoðunarráðstefna lífefnavopnasamningsins (Convention on the Prohibition of the Development, Production and Stockpiling of Bacteriological and Toxin Weapons and on Their Destruction-BWC) fór fram í Genf í nóvember 2001. Samningurinn bannar framleiðslu og notkun lífrænna vopna og gekk hann í gildi 1975. Nú eiga 144 ríki aðild að honum. Frá árinu 1995 hefur verið unnið að styrkingu samningsins með gerð viðbótarbókunar um eftirlitsákvæði. Gerð bókunarinnar er mikilvæg vegna aukinnar hættu á ólöglegri framleiðslu og notkun lífrænna vopna. Fimm ríki, Íran, Írak, Líbía, Norður-Kórea og Súdan, hafa verið sökuð um að brjóta ákvæði lífefnavopnasamningsins. Allt kapp var lagt á að ljúka samningsgerðinni um viðbótarbókunina fyrir fimmtu endurskoðunarráðstefnu samningsins. Árangur fimmtu endurskoðunarráðstefnunnar var hins vegar næsta lítill, þar sem hvorki náðist samkomulag um lokaskjal ráðstefnunnar né áframhaldandi starf að viðbótarbókun lífefnavopnasamningsins. Ráðstefnunni var því frestað um eitt ár.

Samningur gegn notkun jarðsprengja sem beinast gegn fólki
    
Annar fundur aðildarríkja samningsins um bann við notkun, birgðasöfnun, framleiðslu og flutningi jarðsprengna gegn fólki og eyðingu þeirra (Convention on the Prohibition of the Use, Stockpiling, Production and Transfer of Anti-personnel Mines and on their Destuction-Ottawa Convention) var haldinn í Genf í september 2000. Meginmarkmið samningsins um að koma í veg fyrir framleiðslu jarðsprengja sem beint er gegn fólki hefur náðst og alþjóðleg viðskipti með þessi vopn hafa algerlega lagst af. Um 22 milljónir jarðsprengja hafa verið eyðilagðar en talið er að enn séu um 100 milljónir í notkun í yfir 60 ríkjum. Jarðsprengjusamningurinn sem hefur nú verið fullgiltur af 107 ríkjum, þar á meðal Íslandi, gekk í gildi 1. mars 1999.

Samningur gegn ólöglegri verslun með handvopn
    
Alþjóðaráðstefnan um baráttuna gegn ólöglegri verslun með handvopn (United Nations Conference on the Illicit Trade in Small Arms and Light Weapons in All Its Aspects), sem fram fór í New York í júlí 2001, markaði ákveðin tímamót. Þar var fyrsta skrefið tekið í aðgerðum til að stemma stigu við þeirri vá og þeim óstöðugleika sem ólögleg handvopn hafa víða skapað. Framkvæmdaáætlunin sem samþykkt var á ráðstefnunni skapar skilyrði fyrir bæði alþjóðlega og svæðisbundna samvinnu gegn ólöglegri verslun með handvopn sem gæti síðar leitt til bindandi alþjóðlegra samninga á þessu sviði. Samkvæmt ákvæðum framkvæmdaáætlunarinnar á að kalla saman endurskoðunarráðstefnu eigi síðar en 2006 til þess að meta árangur þeirra aðgerða sem samkomulag náðist um. Mikilvægum áfanga var enn fremur náð í maí 2001 þegar allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti viðbótarbókun við alþjóðasamninginn gegn skipulagðri glæpastarfsemi (U.N. Convention against Transnational Organized Crime), sem samþykktur var í Palermo í desember 2000, þar sem stefnt er að útrýmingu ólöglegrar framleiðslu og verslunar með handvopn. Á vettvangi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu hefur einnig verið samið um skuldbindingar sem miða að því að hefta útbreiðslu og uppræta handvopn.

4.     VARNARSAMSTARF ÍSLANDS OG BANDARÍKJANNA
4.1.     Tvíhliða varnarsamstarf við Bandaríkin
4.1.1.     50 ára afmæli varnarsamningsins og viðræður um bókun
    Í maí 2001 voru 50 ár liðin frá því að varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna var undirritaður. Þessara tímamóta var minnst með ýmsum hætti, m.a. með málþingi sem utanríkisráðuneytið gekkst fyrir 5. maí í Þjóðmenningarhúsinu.
    Aðstæður í alþjóðamálum taka stöðugum breytingum sem hafa áhrif á öryggis- og varnarmál á hverjum tíma. Fyrir Ísland sem önnur ríki Evrópu voru lok kalda stríðsins vendipunktur í öryggis- og varnarmálum sem kallaði á nýtt mat og aðlögun að nýjum aðstæðum. Í meginatriðum má segja að varnarviðbúnaður Atlantshafsbandalagsins miði ekki lengur að því að bægja frá hernaðarlegri ógn úr austurátt heldur sé markmiðið að viðhalda stöðugleika í Evrópu. Það hefur sýnt sig með mjög afgerandi hætti í átökum í Bosníu-Hersegóvínu og Kosóvó hversu miklu það skiptir fyrir öryggi í Evrópu að varnarviðbúnaður sé fyrir hendi til að takast á við þær nýju ógnir sem við er að etja við breyttar aðstæður. Atlantshafsbandalagið heldur áfram að vera sú kjölfesta sem nauðsynleg er til að viðhalda friði og stöðugleika á meginlandinu. Engin önnur alþjóðasamtök eða stofnun hefur bolmagn til þess.
    Varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna var gerður á grundvelli aðildarinnar að Atlantshafsbandalaginu. Viðbúnaður varnarliðsins í Keflavík hefur tekið mið af hernaðarlegum og pólitískum aðstæðum á hverjum tíma. Í kjölfar þess að kalda stríðinu lauk hefur orðið mikill samdráttur í viðbúnaði og starfsemi varnarliðsins. Breytingarnar voru gerðar með tveimur bókunum við varnarsamninginn eftir viðræður milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda á liðnum áratug og voru þær undirritaðar 1994 og 1996. Bókanirnar fjalla um útfærslu varnarsamningsins og ýmis atriði er varða varnarsamstarfið. Bókunin frá 1996 gilti til fimm ára eða nánar tiltekið til 9. apríl 2001.
    Ekki hefur verið ákveðið hvenær viðræður við bandarísk stjórnvöld vegna endurskoðunar bókunarinnar hefjast. Ástæður þess að málið hefur tafist má m.a. rekja til stjórnarskipta í Bandaríkjunum á síðastliðnu ári, en sem kunnugt er veldur það allmiklum breytingum á skipan embættismanna í stjórnsýslunni. Þeir sem koma nýir að málum taka sér tíma til að kynna sér þau og móta afstöðu til þeirra. Einnig setti 11. september verulegt strik í reikninginn og hafa fjölmörg mál fengið allt annan forgang en þau höfðu áður í bandaríska stjórnkerfinu. Íslensk stjórnvöld eru reiðubúin til að ganga til viðræðna um endurskoðun bókunarinnar með skömmum fyrirvara
    Hryðjuverkin í New York 11. september sl. breyttu nánast í einni andrá þeim veruleika sem ríki standa frammi fyrir á sviði öryggis- og varnarmála. Sú ógn sem af hryðjuverkastarfsemi stafar sýnir svo ekki verður um villst mikilvægi varnarsamstarfsins við Bandaríkin. Hér á landi verður að vera til staðar viðbúnaður til að takast á við ógnir hvort sem er af hafi eða úr lofti. Íslensk stjórnvöld munu ganga til bókunarviðræðna við Bandaríkin með það í huga að nú sé um að ræða lágmarks varnarviðbúnað á Keflavíkurflugvelli og að ekki sé rétt að sá viðbúnaður sé skertur miðað við núverandi ástand heimsmála.
    Varnarstöðin á Miðnesheiði telur nú um 1.900 hermenn og um 2.000 fjölskyldumeðlimi. Á ófriðar- og hættutímum mun varnarviðbúnaður aukinn í samræmi við hættumat íslenskra og bandarískra stjórnvalda. Helstu stoðir loftvarna eru ratsjárkerfið og fjórar F-15C Eagle orrustuþotur bandaríska flughersins og ein KC-135 Stratotanker eldsneytisvél. Viðbragðssveit varnarstöðvarinnar telur um 50 manns. Þungamiðju sveitarinnar mynda landgönguliðar flotans. Fimm P-3C Orion kafbátaleitarvélar sjá um hernaðareftirlit á hafinu í kringum landið og felst veigamesti þátturinn í eftirliti með ferðum kafbáta. Fimm HH-60G Pavehawk brynvarðar björgunarþyrlur og ein HC-130 Hercules fjarskipta- og eldsneytisvél eru flugflota varnarliðsins til aðstoðar vegna leitar og björgunar. Umræddur flugkostur gegnir einnig mikilvægu borgaralegu hlutverki á sjó og landi í samstarfi við Landhelgisgæsluna.

4.1.2.     Varnaræfingin Norðurvíkingur 2001
    Varnaræfingin Norðurvíkingur fór fram í júní 2001. Æfingin hefur verið haldin annað hvert ár frá 1983 að telja. Markmið hennar var sem áður að æfa varnir Íslands á grundvelli varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 og bókunarinnar frá 1996. Grunnhugmynd æfingarinnar var í samræmi við þær miklu breytingar sem hafa átt sér stað í öryggisumhverfi Íslands síðan kalda stríðið leið undir lok. Í Norðurvíkingi 2001 voru ekki æfð viðbrögð við árás óvinaríkis, sem hyggst taka landið herskildi, heldur varnir gegn alþjóðlegum hryðjuverkum með öryggi almennings og mikilvægra staða og stofnana að leiðarljósi.     Æfð var framkvæmd varnaráætlana með áherslu á þátt landhersveita og það að gefa bandarískum liðssveitum sem fluttar yrðu til Íslands á hættu- og átakatímum tækifæri til að kynnast staðháttum. Þátttakendur í æfingunni voru um 3.000, frá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli, frá Bandaríkjunum, auk íslenskra þátttakenda. Æfingaþættirnir voru skipulagðir í samráði við staðaryfirvöld, en æfingin fór m.a. fram í varnarstöðinni á Miðnesheiði, við Helguvíkurhöfn, Sogsvirkjun, Nesjavallavirkjun, skíðasvæðið í Hamragili og skíðasvæðið í Skálafelli. Fulltrúar varnarmálaskrifstofu og lögregla voru til liðsinnis á æfingasvæðum.
    Utanríkisráðuneytið tók virkan þátt í Norðurvíkingi 2001, jafnt skipulagi sem framkvæmd. Þátttaka Landhelgisgæslunnar og víkingasveitarinnar var umfangsmeiri en áður, en þessir aðilar voru í löggæsluhlutverki á æfingunni. Aukin þátttaka af Íslands hálfu verður höfð að leiðarljósi við framkvæmd Norðurvíkings 2003, en undirbúningur er þegar hafinn fyrir þá æfingu.

4.2.     Samstarf í þágu friðar (PfP)
4.2.1.     Almannavarnaæfingin Samvörður
    Almannavarnaæfingin Samvörður var fyrst haldin hér á landi 1997. Tilurð æfingarinnar má rekja til þeirrar stefnu stjórnvalda að auka hlut Íslands í alþjóðlegu öryggis- og varnarmálasamstarfi. Samvörður fer fram undir merkjum Samstarfs í þágu friðar (PfP) sem er samvinnuverkefni aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og samstarfsríkja þess. Markmið æfingarinnar er að efla samvinnu og samhæfa aðgerðir þátttökuríkja, svo sem á sviði friðargæslu og viðbragða við náttúruhamförum. Samvörður 2002 mun fara fram dagana 24. júní til 1. júlí. Landhelgisgæslan og utanríkisráðuneytið hafa umsjón með skipulagi hennar fyrir Íslands hönd. Æfingastjórn verður í höndum forstjóra Landhelgisgæslunnar og flotaforingjans á Keflavíkurflugvelli.
    Atburðarásin snýst að þessu sinni um björgun íbúa Vestmannaeyja upp á meginlandið, vegna eldgoss í Eyjum. Æfingin er tvískipt: fyrri hluti æfingarinnar felst í fyrirlestrum og málstofu, en seinni hlutinn er vettvangsæfing. Æfðar verða björgunaraðgerðir, svo sem leit að fólki í nauð, rústabjörgun, slökkvistörf, reykköfun, varúðarráðstafanir vegna eiturefna, aðhlynning slasaðra, flutningur slasaðra og óslasaðra frá Eyjum til lands, móttaka og umönnun slasaðra í Þorlákshöfn og jafnframt uppsetning fjarskiptasambands innan æfingasvæðis og milli æfingasvæða. Fjórtán þjóðir taka þátt í æfingunni að þessu sinni, þeirra á meðal Eistland, Litháen, Kyrgistan, Rúmenía, Slóvakía, Ukraína og Uzbekistan.
    Af Íslands hálfu munu íslenskar björgunarsveitir og Slysavarnafélagið Landsbjörg miðla erlendu björgunarsveitunum af þekkingu sinni og reynslu af almannavarnaaðgerðum fyrir aðalæfinguna. Sú þjálfun fer fram í þjálfunarbúðum að Gufuskálum, svo og á Austurlandi þar sem björgunarsveitir hafa sérhæft sig í rústabjörgunarstörfum. Mun sveit Eistlands æfa sérstaklega með þeim. Margar helstu stofnanir og samtök sem koma að björgunar- og öryggisstörfum á SV-horninu taka þátt í undirbúningi æfingarinnar eða í henni sjálfri auk nokkurra sérhæfðra björgunarsveita annars staðar að af landinu.

4.3.     Stjórnsýsla á varnarsvæðum
4.3.1.     Sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli
    Stærstu verkefni embættisins eru löggæsla, tollgæsla og landamæravarsla í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og löggæsla innan afgirtra varnarsvæða í samstarfi við bandarísk löggæsluyfirvöld þegar það á við. Jafnframt hefur embættið eftirlit með ferðum manna og varnings inn og út af afgirtum varnarsvæðum. Embættið annast einnig innheimtu opinberra gjalda.
    Aukning flugumferðar um Keflavíkurflugvöll hefur haft í för með sér vaxandi álag á starfsemi embættisins undanfarin ár. Schengen-samstarfið hafði miklar breytingar í för með sér varðandi landamæraeftirlit í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, enda flugvöllurinn orðinn hluti af ytri landamærum Schengen-ríkjanna. Hryðjuverkin í Bandaríkjunum hafa einnig haft mikil áhrif á allt starfsumhverfi Keflavíkurflugvallar, en mjög auknar öryggiskröfur voru sem kunnugt er gerðar af bandarískum flugmálayfirvöldum í kjölfar voðaverkanna. Fjölga hefur þurft starfsfólki talsvert vegna þessara auknu öryggiskrafna og annarra nýrra verkefna. Hefur starfsmannafjöldi aukist úr 80 í 108 á síðustu tveimur árum. Í fyrstu var talið að sumar þessara öryggiskrafna yrðu tímabundnar, en allt útlit er nú fyrir að flestar þeirra verði varanlegar og ef eitthvað er, að þær muni aukast. Bandarísk flugmálayfirvöld hafa fylgt þessum auknu kröfum mjög náið eftir. Þrjár ítarlegar úttektir hafa farið fram á Keflavíkurflugvelli síðan í september í þessu skyni.
    Enn er fyrirséð aukning á verkefnum, þar sem tollafgreiðsla á flugfrakt fluttist að hluta frá Reykjavík til Keflavíkurflugvallar um síðustu áramót. Stefnir allt í að meiri hluti flugfraktar verði tollafagreiddur á Keflavíkurflugvelli áður en árið er á enda.
    Fíkniefnadeild tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli hefur náð afar góðum árangri í baráttunni gegn fíkniefnavánni síðustu tvö ár. Magn þeirra fíkniefna sem deildin hefur lagt hald á hefur margfaldast síðustu ár. Til marks um þetta nam svokallað götuverðmæti haldlagðra fíkniefna deildarinnar árið 1999 um 15 milljónum, 100 milljónum árið 2000 og 300 milljónum árið 2001.

4.3.2.     Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli
    Flugstöð Leifs Eiríkssonar var frá og með 1. nóvember 2001 gerð að hlutafélagi. Hlutafélagið annast daglegan rekstur, viðhald og uppbyggingu á flugstöðvarbyggingunni, þ.m.t. verslun með tollfrjálsar vörur á Keflavíkurflugvelli.
    Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli annast alla flugumferðarþjónustu á flugvellinum og stjórnar aðflugi og brottflugi fyrir Reykjavíkurflugvöll. Flugmálastjórn leggur til mannaflann til flugumferðarþjónustunnar, en varnarliðið húsnæði og búnað. Keflavíkurflugvöllur þjónar bæði hernaðarlegu og borgaralegu flugi. Varnarliðið annast viðhald á athafnasvæðum flugvéla, þ.e. flugbrauta, flugvélaakbrauta og flugvélastæða og felst viðhaldið fyrst og fremst í viðgerðum á malbiki. Jafnframt sér varnarliðið um snjóhreinsun og hálkuvarnir á flugbrautum og flugvélaakbrautum, en flugmálstjórnin sér að mestu leyti um snjóhreinsun og hálkuvarnir á flughlaði Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og viðhaldsskýlis Flugleiða hf. Einnig leggur varnarliðið til flugvallarslökkvilið, en starfsmenn þess eru íslenskir. Allir þessir verkþættir falla þó undir starfssvið flugmálastjórnarinnar.
    Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli er ábyrg fyrir aðgerðum til að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn farþegum, almenningi, byggingum og loftförum. Þessi ábyrgð felur m.a. í sér að semja og viðhalda flugverndaráætlun fyrir Keflavíkurflugvöll, í samræmi við flugverndaráætlun Íslands. Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli tilnefnir yfirmenn flugverndar, sem bera ábyrgð á ákveðnum þáttum áætlunarinnar. Þá hefur Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli, í umboði utanríkisráðherra og í samráði við Flugmálastjórn Íslands, eftirlit með starfsemi flugstöðvarinnar varðandi flugöryggi, farþegavernd og viðurkennda gæðastaðla.

4.3.3.     Skipulags-, byggingar- og umhverfismál á varnarsvæðum
    Á sviði skipulags- og umhverfismála starfar sérstök nefnd, skipulags-, umhverfis- og byggingarnefnd varnarsvæða. Nefndin hefur sama hlutverk og sambærilegar nefndir sveitarfélaga en auk þess hefur hún samráð við varnarliðið og nágrannasveitarfélög. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja sér um heilbrigðiseftirlit innan varnarsvæða undir yfirstjórn utanríkisráðuneytisins.
    Eitt stærsta verkefni nefndarinnar undanfarin tvö ár er gerð deiliskipulags fyrir flugstöðvarsvæðið. Í samræmi við aukningu á flugumferð og ferðamönnum um Keflavíkurflugvöll hefur eftirspurn eftir byggingarlandi umhverfis flugstöð Leifs Eiríkssonar farið vaxandi. Nefndin hefur á undanförnum tveimur árum unnið að gerð deiliskipulags ásamt flugvallarstjórn á Keflavíkurflugvelli. Skipulagið var samþykkt í nóvember 2001 og hafa lóðir þegar verið auglýstar.

4.4.     Samskipti við varnarliðið
4.4.1.     Atvinna Íslendinga á varnarsvæðunum
    Tæplega 1.700 Íslendingar vinna innan varnarsvæðanna. Þar af starfa um 900 hjá varnarliðinu. Ekki eru þá taldir þeir starfsmenn sem annast almenna flugstarfsemi. Launakostnaður vegna íslenskra starfsmanna varnarliðsins var árið 2001 um 3,8 milljarðar króna. Kjör og réttarstaða þeirra íslensku starfsmanna sem starfa hjá öðrum en varnarliðinu fara að öllu leyti eftir almennum reglum á íslenskum vinnumarkaði. Vegna úrlendisréttar varnarliðsins gildir annað fyrirkomulag um starfsmenn þess og á sá háttur sér stoð í varnarsamningnum. Varnarliðinu ber, að því marki sem unnt er, að ráða íslenska starfsmenn til framkvæmdar varnarsamningsins og skulu slíkar ráðningar fara fram með milligöngu íslenskra stjórnvalda. Jafnframt skulu kjör íslenskra starfsmanna vera í samræmi við þau sem tíðkast á íslenskum vinnumarkaði. Til að fullnægja skilyrðum um milligöngu stjórnvalda við ráðningar til varnarliðsins hefur utanríkisráðuneytið um margra áratuga skeið rekið ráðningardeild varnarmálaskrifstofu á Suðurnesjum. Þess skal getið að utanríkisráðuneytið er líklega eina ráðuneytið sem rekur útibú utan Reykjavíkur. Til að tryggja að kaup og kjör íslenskra starfsmanna varnarliðsins fari að íslenskum lögum og venjum hefur frá árinu 1952 verið starfrækt kaupskrárnefnd varnarsvæða. Eru reglugerðir nefndarinnar endurskoðaðar reglulega af varnarmálaskrifstofu.

4.4.2.     Verktaka fyrir varnarliðið
    Í erindaskiptunum sem fylgdu bókuninni frá 1996 samþykktu Ísland og Bandaríkin að stefna að því að koma á samkeppnisútboðum í öllum verksamningum fyrir varnarliðið. Var það meðal annars í ljósi reynslunnar af Mannvirkjasjóðsútboðum og útboðum á vöru og þjónustu sem samið var um árið 1995. Í samræmi við þessa stefnu var á árinu 2000 sett á fót nefnd embættismanna ríkjanna sem hafði meðal annars það hlutverk að gera tillögu um framtíðarfyrirkomulag á verktöku fyrir varnarliðið. Á grundvelli þeirra tillagna var í maí 2001 undirritaður samningur um framtíðarfyrirkomulag um verktöku fyrir varnarliðið vegna framkvæmda hér á landi.
    Helstu nýmæli í samningnum eru eftirfarandi: Starfandi verður sameiginleg forvalsnefnd ríkjanna. Er það sambærilegt fyrirkomulag og tíðkast í skipulags-, bygginga- og umhverfisnefnd varnarsvæða. Þannig verður starfandi íslensk forvalsnefnd og bandarísk nefnd sem fara eftir sameiginlegum verklagsreglum en gerð þeirra er á lokastigi. Samningsskilmálar voru einfaldaðir og komið á gerðardómsfyrirkomulagi sem tryggir úrlausn ágreiningsefna um verkframkvæmd fyrir gerðardómi á Íslandi. Byggt er á bandarískum reglum (Federal Acquisition Regulations – FAR) í framkvæmdum og helstu ákvæði þýdd á íslensku. Jafnframt hafa verið haldin námskeið og kynningar í notkun á reglunum og verður svo áfram. Samningar að verðmæti 2.500 bandaríkjadalir og hærri þarf að bjóða út og annast varnarliðið það sjálft í samræmi við umsamið ferli sem miðar meðal annars að því að auðvelda þátttöku smærri verktaka í útboðum. Öll íslensk fyrirtæki geta boðið í þá samninga. Samningar sem hafa hærra verðmæti en 100.000 dalir verða einnig boðnir út en fyrirtæki þurfa að komast í gegnum forval til að fá að bjóða í þá.
    Samkomulag var gert um aðlögunarferli á tímabilinu frá 2001–2004 sem endar með því að öll verk verða boðin út fyrir varnarliðið eftir árið 2004. Árið 2001 var 30% af verkframkvæmdum boðið út, 50% árið 2002, 67% árið 2003 og 100% árið 2004. Öll þjónustu- og vörukaup fyrir varnarliðið hafa verið boðin út frá 1995 og á framangreint aðlögunarferli því eingöngu við um verkframkvæmdir.

4.4.3.     Umsýslustofnun varnarmála
    Meginverkefni stofnunarinnar er sem fyrr að taka við varningi sem hefur verið fluttur inn gjaldfrjáls í þágu varnarliðsins. Stofnunin sér um sölu slíks varnings á markaði og rennur hagnaðurinn til ríkissjóðs sem hlutfallslegt ígildi tolla, vörugjalda og virðisaukaskatts sem veitt var undanþága frá við innflutning. Nú er unnið að breytingum á starfsemi stofnunarinnar, í samræmi við breytta viðskiptahætti.

4.4.4.     Ratsjárstofnun
    Ratsjárstofnun heyrir undir utanríkisráðuneytið og kemur fram fyrir hönd íslenskra stjórnvalda við framkvæmd þeirra milliríkjasamninga sem liggja til grundvallar starfsemi ratsjárstöðvanna á Miðnesheiði, Stokksnesi, Gunnólfsvíkurfjalli og Bolafjalli og jafnframt þeirra samninga sem snerta rekstur og viðhald íslenska loftvarnarkerfisins (Iceland Air Defence System). Starfsemi Ratsjárstofnunar er fjármögnuð af bandarískum stjórnvöldum samkvæmt samningi. Fyrirtækið Kögun hf. starfar sem undirverktaki Ratsjárstofnunar við tiltekna þætti starfseminnar. Rúmlega 70 Íslendingar starfa hjá Ratsjárstofnun og um 20 Íslendingar annast rekstur hugbúnaðarstoðkerfis íslenska loftvarnarkerfisins í varnarstöðinni á Miðnesheiði.

5.     FRIÐARGÆSLA, MANNÚÐARMÁL OG NEYÐARAÐSTOÐ
5.1.     Aukin þátttaka Íslands í fjölþjóðlegri friðargæslu
    Ákveðin eðlisbreyting hefur orðið á friðargæsluaðgerðum á vegum alþjóðastofnana á síðustu árum. Hún felst m.a. í því að aukin áhersla er lögð á fyrirbyggjandi aðgerðir, öflugt uppbyggingarstarf á átakasvæðum og ýmiss konar mannúðarstarf og neyðaraðstoð, til jafns við hefðbundið landamæraeftirlit og friðargæslu. Þessi þróun hefur gert Íslendingum mögulegt að taka þátt í friðargæslu til jafns við aðrar þjóðir með útsendingu borgaralegra sérfræðinga. Í nóvember árið 2000 ákvað ríkisstjórnin að tillögu utanríkisráðherra að efla verulega þátttöku Íslands í fjölþjóðlegum friðargæsluaðgerðum, bæði hefðbundinni friðargæslu og ekki síður uppbyggingar- og mannúðarstarfi og neyðaraðstoð. Síðan þá hefur verið unnið ötullega að því að hrinda þeim áformum í framkvæmd.

5.1.1.    Skýrsla starfshóps um eflingu á þátttöku Íslands í friðargæslu
    Í júní árið 2000 skipaði utanríkisráðherra starfshóp til að vinna að stefnumótun um þátttöku Íslands í alþjóðlegri friðargæslu á næstu árum, á grundvelli greinargerðarinnar „Öryggis- og varnarmál Íslands við aldamót“ sem lögð var fram í febrúar 1999. Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar fjögurra ráðuneyta og veitti Gunnar Gunnarsson sendiherra honum formennsku. Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni í október 2000. Helstu tillögur hans voru í stuttu máli að efla bæri þátttöku í alþjóðlegri friðargæslu með því
          að byggja upp getu til að senda allt að 25 íslenska starfsmenn til friðargæsluverkefna á hverjum tíma, svo sem lögreglumenn, lögfræðinga, hjúkrunarfólk, stjórnendur, tæknimenntað starfslið o.fl.; með aukinni þátttöku og reynslu verði miðað við að byggja upp getu til að fjölga íslenskum friðargæsluliðum í allt að 50 manns á ári;
          að koma upp viðbragðslista yfir allt að 100 manns undir heitinu Íslenska friðargæslan;
          að friðargæslu verði komið varanlega fyrir í stjórnsýslunni þannig að staðið sé sem best að tengslum við friðargæsluliða, sem og alþjóðlegar stofnanir sem tengjast málefninu (Sameinuðu þjóðirnar, NATO, ÖSE, ESB o.fl.);
          að tryggt verði að vandað sé til ráðningar, undirbúnings og þjálfunar;
          að framlög til friðargæslu verði fastur liður á fjárlögum.
    Skýrsla starfshópsins var samþykkt í ríkisstjórn og kynnt á Alþingi í nóvember árið 2000. Í framhaldi af því samþykkti ríkisstjórnin að hækka fjárveitingu til þátttöku Íslands í friðargæsluaðgerðum þannig að 15 íslenskir friðargæsluliðar gætu að staðaldri verið að störfum erlendis árið 2001, 20 árið 2002 og allt að 25 íslenskir friðargæsluliðar árið 2003.
    Við undirbúning þess að framfylgja ákvörðun ríkisstjórnar var haft víðtækt samráð við innlenda og erlenda aðila. Það var gert í því skyni að læra af reynslu annarra og tryggja að friðargæsluþátttaka verði ekki einangrað verkefni, heldur þvert á móti mikilvægur hluti af þátttöku Íslands í alþjóðlegri friðargæslu, uppbyggingarverkefnum, mannúðarmálum og neyðaraðstoð. Innan lands var m.a. haft samráð við Rauða kross Íslands, embætti ríkislögreglustjóra, Slysavarnafélagið Landsbjörgu og Almannavarnir ríkisins. Utan lands var m.a. fundað með fulltrúum utanríkisráðuneyta Danmerkur, Noregs og Þýskalands og samráð haft við helstu alþjóðastofnanir sem starfa í friðargæslu. Þá heimsótti utanríkisráðherra Kosóvó-hérað í ágúst 2001 og átti fundi með æðstu yfirmönnum Atlantshafsbandalagsins, Sameinuðu þjóðanna, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og Evrópusambandsins, og hitti að máli íslenska friðargæsluliða sem starfa í héraðinu.

5.1.2.     Íslenska friðargæslan, námskeið og undirbúningur
    Íslenska friðargæslan var stofnuð 10. september 2001. Daginn eftir, 11. september, var auglýst eftir umsóknum frá borgaralegum sérfræðingum í því skyni að koma upp allt að 100 manna viðbragðslista Íslensku friðargæslunnar. Þrátt fyrir að auglýsingar ráðuneytisins hefðu eðli málsins samkvæmt svo gott sem týnst í umfjöllun um hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin voru viðbrögðin við þeim einkar góð. Um 2.500 manns heimsóttu heimasíðu utanríkisráðuneytisins, hundruð fyrirspurna bárust símleiðis og rúmlega 250 umsóknir bárust fyrir lok umsóknarfrests. Að loknu mati á umsóknum og viðtölum lá viðbragðslisti Íslensku friðargæslunnar fyrir í desember 2001. Á honum eru stjórnmálafræðingar, lögfræðingar, fjölmiðlamenn, viðskipta- og hagfræðingar, verkfræðingar, tæknimenn og tölvufræðingar, læknar og hjúkrunarfólk og aðrir borgaralegir sérfræðingar með sérmenntun og víðtæka reynslu. Samsetning viðbragðslistans sýnir að það markmið náðist að koma á fót breiðum hópi allt að 100 borgaralegra sérfræðinga. Úr þessum hópi verða valdir einstaklingar á næstu árum til að efla þátttöku Íslands í friðargæsluaðgerðum. Þeir lögreglumenn sem ríkislögreglustjóri hefur metið hæfa til friðargæslustarfa eru auk þess hluti af viðbragðslista Íslensku friðargæslunnar en val á lögreglumönnum verður áfram í höndum ríkislögreglustjóra. Sömuleiðis er Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin, sem stýrt er af Slysavarnafélaginu – Landsbjörgu, formlega hluti af viðbragðsgetu Íslensku friðargæslunnar (sjá nánar kafla 5.2.2).

Námskeið og undirbúningur
    
Til að vanda betur til undirbúnings væntanlegra friðargæsluliða var ákveðið að þjálfun yrði tvíþætt. Annars vegar fá allir einstaklingar á viðbragðslistanum ákveðna grunnþjálfun hérlendis og hins vegar fá einstaklingar á leið til starfa sérhæfða þjálfun hjá alþjóðastofnunum eða samstarfsþjóðum, á sama hátt og verið hefur. Grunnþjálfunin hérlendis er þrískipt. Í fyrsta lagi verður fjallað á fræðilegan hátt um friðargæslu á vegum alþjóðastofnana, þátt frjálsra félagasamtaka, mannréttindamál, mannúðarmál og neyðaraðstoð og fleiri málefni tengd friðargæslu. Markmið þessarar fræðilegu umfjöllunar er að veita breiða heildarmynd af friðargæslu alþjóðasamfélagsins og þeim ólíku störfum sem þar eru unnin af ólíkum stofnunum. Fyrsta undirbúningsnámskeiðið af þessu tagi fór fram dagana 23.–24. febrúar sl. með þátttöku erlendra fyrirlesara frá helstu alþjóðastofnunum, auk innlendra fyrirlesara. Rúmlega 100 manns tóku þátt í námskeiðinu. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að verðandi friðargæsluliðar fái ákveðna öryggisþjálfun um hegðun á átakasvæðum, í samræmi við viðeigandi staðla. Í þriðja lagi er stefnt að því að veita viðeigandi sálrænan undirbúning og mun utanríkisráðuneytið leita til fagaðila í því skyni. Stefnt er að því að halda fyrsta öryggisnámskeiðið fyrir viðbragðslista Íslensku friðargæslunnar síðsumars.

5.1.3.     Efling þátttöku í friðargæslu og næstu skref
    Þrátt fyrir að fyrirhuguð hækkun á fjárveitingu til friðargæslu hafi aðeins að hluta til komið til framkvæmda á árinu 2001 reyndist unnt að ná því marki að íslenskir friðargæsluliðar að störfum erlendis yrðu 15 talsins. Útlit er fyrir að markmiðið um allt að 20 íslenska friðargæsluliða að störfum erlendis árið 2002 náist fyrir árslok. Sem fyrr einskorðast þátttakan við friðargæsluaðgerðir á Balkanskaga, í Bosníu, Kosóvó og Makedóníu, og er á vegum Sameinuðu þjóðanna, Atlantshafsbandalagsins og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Meðal friðargæsluliða að störfum á árunum 2001 og 2002 má nefna lögreglumenn á vegum Sameinuðu þjóðanna í Bosníu og Kosóvó, hjúkrunarfólk og tæknimenn á vegum NATO í Bosníu og Kosóvó, auk fjölmiðlamanns á vegum NATO í Makedóníu. Auk þess starfa fjölmiðlamenn og lögfræðingur hjá ÖSE í Bosníu og Kosóvó, og jafnréttissérfræðingur á vegum utanríkisráðuneytisins hjá UNIFEM í Kosóvó en íslensk stjórnvöld hafa frá árinu 1998 styrkt starf samtakanna að málefnum kvenna í héraðinu. Reynsla af samstarfinu við UNIFEM hefur verið góð og gert er ráð fyrir því verði haldið áfram á næstunni. Stefnt er að því að fjölga íslenskum friðargæsluliðum að störfum erlendis í allt að 25 á næsta ári. Ekki er útilokað að íslenskir friðargæsluliðar verði sendir til starfa víðar en á Balkanskaga en hafa ber í huga að þátttaka í friðargæslu er ekki áhættulaus og því þarf að gaumgæfa öll atriði sem varða öryggi starfsmanna.

Markvissara samstarf við alþjóðastofnanir
    
Gerð hefur verið grein fyrir stofnun Íslensku friðargæslunnar hjá helstu alþjóðastofnunum. Utanríkisráðherra greindi frá henni í ávarpi sínu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í nóvember 2001, á vettvangi NATO og ESB hafa áform íslenskra stjórnvalda verið kynnt í ávörpum ráðherra og hjá ÖSE hefur ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins gert sérstaka grein fyrir þeim, auk þess sem fastanefnd hefur kynnt þau. Sömuleiðis hafa fastanefndir Íslands hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna í Genf og hjá matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna í Róm gert grein fyrir þessari auknu getu, með tilliti til þess að gerðir verði samstarfssamningar við þessar stofnanir um útsendingu borgaralegra sérfræðinga til mannúðar- og neyðarverkefna. Með gerð slíkra samstarfssamninga við alþjóðastofnanir sem starfa að mannúðarmálum má enn styrkja þann þátt friðargæslustarfsins sem lýtur að neyðar- og mannúðaraðstoð. Unnið er áfram að frekari formfestingu þátttökunnar og útfærslu framlags Íslands til einstakra alþjóðastofnanna í nánu samráði við þær og fastanefndir Íslands.

Önnur verkefni tengd friðargæslu
    
Íslenska friðargæslan stóð að fjármögnun vikulangs þjálfunarnámskeið á Íslandi fyrir fjölmiðlamenn frá Kosóvó haustið 2001. Verkefnið var skipulagt af Davíð Loga Sigurðssyni sem þá starfaði á vegum utanríkisráðuneytisins sem fjölmiðlafulltrúi ÖSE í Gjilane. Var námskeiðið undirbúið í samstarfi við RÚV, Morgunblaðið o.fl. Á árinu 2001 var einnig greitt fyrir þátttöku fulltrúa embættis ríkislögreglustjóra í friðargæsluæfingunni Nordic Peace sem fram fór í Noregi. Þá hefur utanríkisráðuneytið í tvígang sent fulltrúa í kosningaeftirlit á vegum ÖSE í Kosóvó. Í fyrra skiptið var um ræða umsjón með sveitarstjórnarkosningum í héraðinu vorið 2000 og í síðara skiptið eftirlit með héraðsþingskosningunum sem fram fóru í nóvember 2001. Þessi verkefni sýna að þátttaka í friðargæsluverkefnum snýst ekki einvörðungu um útsendingu starfsmanna til starfa, heldur getur hún einnig falist í fjármögnun og skipulagi þjálfunarverkefna, þátttöku í kosningaeftirliti, eflingu fræðastarfs o.fl

Næstu skref
    
Fyrsta starfsár Íslensku friðargæslunnar árið 2001 var farsælt. Kynningarstarf gekk vel, samskipti við friðargæsluliða voru efld, viðbrögð í samfélaginu voru vonum framar og markmið um viðbragðslista og fjölgun starfsmanna náði fram að ganga, svo nokkur dæmi séu nefnd. Stefnumótunarvinna í ýmsum málaflokkum, svo sem kjara- og þjálfunarmálum, komst á góðan rekspöl á árinu. Þessu umfangsmikla verkefni er hins vegar síður en svo lokið því fram undan eru fjölmörg verkefni við að hrinda niðurstöðum skýrslu starfshópsins í framkvæmd.
    Friðargæslustarf á vegum alþjóðastofnana er sömuleiðis í stöðugri mótun og þurfa íslensk stjórnvöld að taka mið af því. Útfæra þarf nánar með hvaða hætti Íslenska friðargæslan mun tengjast áformum um friðargæsluhraðlið ESB, sbr. yfirlýst framlag Íslands til hins svokallaða meginmarkmiðs sambandsins (sjá kafla 3.4.3). Tilkynnt hefur verið að Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin, lögreglumenn, læknar og hjúkrunarfólk séu á meðal þeirra stétta sem komi til greina í aðgerðir á vegum ESB. Grundvallaratriði í þeirri stefnumótun er að skuldbinding á vettvangi ESB taki ávallt mið af skuldbindingu Íslands hjá NATO og að NATO njóti forgangs, komi til aðgerða.

5.2.     Mannúðarmál og neyðaraðstoð
    Alþjóðleg mannúðarmál, bæði þau sem rekja má til náttúruhamfara og þeirra sem eru af mannavöldum, vekja sífellt meiri athygli alþjóðasamfélagsins. Ljóst er að vandamál flóttamanna verða ekki leyst án samvinnu alþjóðasamfélagsins. Aðstæður flóttamanna sem neyðst hafa til að flýja heimili sín eru þess eðlis að tryggja verður þeim nauðsynlega vernd og tímabundið hæli þar til aðstæður þær sem þeir hafa flúið hafa breyst á þann veg að þeir geti snúið sjálfviljugir til baka. Flóttamenn í heiminum skipta tugum milljóna og þorri þeirra býr við afar kröpp kjör.

5.2.1.     Móttaka flóttamanna og neyðaraðstoð frá Íslandi
    Vandi flóttamanna í Evrópu, ásamt skorti á umburðarlyndi gagnvart þeim, er vaxandi áhyggjuefni. Það er grundvallaratriði að stuðla að uppbyggingu á svæðum sem fólk hefur flúið vegna ófriðar og gera flóttamönnum með því mögulegt að snúa heim sjálfviljugir eftir að friður og stöðugleiki hefur komist á. Við slíka uppbyggingu gegna lykilhlutverki stofnanir eins og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Rauði krossinn og frjáls félagasamtök.
    Ísland hefur átt góða samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um móttöku flóttamanna og leitast við að leggja sitt af mörkum til neyðaraðstoðar og til að leysa vanda flóttamanna. Íslensk stjórnvöld hafa í raun stóraukið þátttöku sína í alþjóðlegri viðleitni til hjálpar flóttafólki. Ástæða er til að vekja athygli á því að Ísland var í hópi fyrstu ríkja í heiminum til að taka á móti flóttamönnum frá Kosóvó. Á Íslandi var þeim boðin ótímabundin vist svo lengi sem þeir töldu sig þurfa á að halda. Tæplega helmingur þeirra hefur nú snúið heim aftur. Opinberir aðilar, einstaklingar og félagasamtök hafa lagst á eitt um að auðvelda þeim sem eftir eru dvölina hér og aðlögun að íslensku samfélagi. Jafnframt var Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna kynnt það fyrirkomulag stuðningsfjölskyldna sem sett var á laggirnar fyrir nýkomna flóttamenn. Árið 2000 tók Ísland á móti 24 flóttamönnum frá fyrrum lýðveldum Júgóslavíu og 23 árið 2001.
    Skipuleg alþjóðleg aðstoð við einstaklinga sem lenda í neyð vegna náttúruhamfara og/eða stríðsátaka hefur farið vaxandi þótt enn vanti oft mikið á að nægjanlega hratt og skipulega sé brugðist við. Oft eru það þó einstök ríki og alþjóðleg mannúðarsamtök sem leggja mest af mörkum þegar neyð knýr skyndilega dyra. Íslensk stjórnvöld hafa reynt að bregðast við þeirri sameiginlegu ábyrgð sem vel stæð samfélög verða að axla í þessum efnum og í nokkrum tilvikum hafa þau veitt fé til neyðaraðstoðar. Innan Sameinuðu þjóðanna hefur verið sett á laggirnar sérstök mannúðarskrifstofa (OCHA) sem hefur nú þegar sannað gildi sitt, ekki hvað síst nú á síðustu mánuðum. Mannúðarskrifstofan samræmir starf allra þeirra stofnana Sameinuðu þjóðanna er vinna að mannúðarmálum. Ísland fylgist náið með starfi skrifstofunnar og er unnið að því að efla stuðning við hið alþjóðlega mannúðarstarf.
    Stefnt er að því að auka frekar þátttöku og framlag Íslands til starfsemi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og mannúðarskrifstofunnar í framtíðinni. Eins og fjallað er um í kafla 5.1.3 er í skoðun að gera samstarfssamning við Flóttamannastofnunina og matvælaáætlunina og Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin er til taks í verkefni á vegum mannúðarskrifstofunnar.

5.2.2.     Aðstoð við Afganistan
    Þegar Bandaríkin og bandalagsríki þess hófu aðgerðir gegn stjórn talibana og hryðjuverkasamtökunum al-Qaeda í Afganistan var kallað eftir aukinni aðstoð við flóttafólk í landinu. Ríkisstjórnin ákvað þá þegar að veita 10 m.kr. til aðstoðar flóttamönnum í Afganistan í samvinnu við Rauða kross Íslands og Hjálparstofnun kirkjunnar.
    Ríkisstjórnin veitti enn fremur aðgerðinni í Afganistan lið með því að kosta flug Flugfélagsins Atlanta með tæki, varning og lyf til hjálparstarfs í landinu. Flogið var með ökutæki, matvæli og annan varning, samtals um 70 tonn, frá Danmörku til Tashkent í Uzbekistan fyrir Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna o.fl. Einnig var flogið frá Hollandi til Islamabad í Pakistan með 100 tonn af lyfjum fyrir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina. Í skoðun er að kosta fleiri flug í tengslum við aðgerðirnar.
    Utanríkisráðuneytið ákvað loks í lok síðasta árs að veita um 3,0 m.kr. til verkefna Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Afganistan, um 3,0 m.kr. til verkefna Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna í Afganistan, og sömuleiðis 3,0 m.kr. til verkefna á vegum OCHA til aðstoðar flóttafólki í landinu.

5.2.3.     Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin
    Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin var stofnuð með samstarfssamningi utanríkisráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins og Slysavarnafélagsins – Landsbjargar í maí árið 2000. Hlutverk sveitarinnar er að vinna að leitar- og björgunarstörfum á erlendum hamfarasvæðum og er hún sérhæfð í tæknilegri rústabjörgun. Sveitin starfar innan Slysavarnafélagsins – Landsbjargar en jafnframt í umboði íslenska ríkisins þegar hún fer til starfa erlendis. Slysavarnafélagið – Landsbjörg velur félaga í sveitina, annast daglegan rekstur hennar og þjálfun og tryggir að sveitin sé ávallt reiðubúin í útköll. Meðlimir Alþjóðabjörgunarsveitarinnar eru 16 á hverjum tíma og uppfyllir hún kröfur Samtaka alþjóðabjörgunarsveita (INSARAG) um sjálfbærni björgunarsveita á hamfarasvæðum, fjölhæfni og fullkominn tækjabúnað.
    Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin er hluti af viðbragðsgetu Íslensku friðargæslunnar og hefur hún verið tilkynnt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna (OCHA), Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins og er til taks í aðgerðir á vegum þessara stofnana verði þess óskað. Sveitin var boðin fram á vettvangi NATO og ESB, sem og tvíhliða til stjórnvalda í Bandaríkjunum, til björgunarstarfs í Bandaríkjunum eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001. Ekki varð af útsendingu sveitarinnar þar eð bandarísk stjórnvöld kusu að nota einvörðungu eigin björgunarsveitir í aðgerðir. Á vegum utanríkisráðuneytisins mun Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin taka þátt í fjölþjóðlegri almannavarnaræfingu sem skipulögð er af NATO og rússneskum stjórnvöldum og fram fer í Rússlandi í september. Þátttaka í slíkum æfingum er mikilvægur liður í því að styrkja sveitina og þar með getu íslenskra stjórnvalda til að veita neyðaraðstöð á hamfarasvæðum, auk þess sem Ísland leggur með þessu af mörkum til alþjóðlegs samstarfs á þessu sviði. Í því samhengi má nefna að næsta æfing UNDAC-skrifstofu Sameinuðu þjóðanna (United Nations Disaster Assesment and Coordinaton Team) verður haldinn á Íslandi næsta haust með stuðningi utanríkisráðuneytisins, en skrifstofan sér um samhæfingu aðgerða og útsendingu sérfræðinga í neyðaraðstoð.

6.     EVRÓPUMÁL
    Óhætt er að segja að þátttaka Íslands í evrópskri samvinnu sé einn veigamesti hluti íslenskra utanríkismála. Samstarf Evrópuríkja á fjölmörgum sviðum er í sífelldri þróun og á sér nú stað í ýmsu formi innan mismunandi samtaka. Í þessum kafla er sjónum sérstaklega beint að Evrópusambandinu (ESB). Starfsemi þess gerist æ umfangsmeiri og tengist Ísland því starfi með ýmsum hætti, einkum gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og Schengen-samninginn. Gerð er grein fyrir öðrum þáttum Evrópusamvinnunnar annars staðar í skýrslunni, þ.m.t. öryggis- og varnarmálum í kafla 3.4.

6.1.     EES-samningurinn
6.1.1.     Rekstur EES-samningsins
    Rekstur EES-samningsins krefst stöðugrar árvekni og mikilvægt er að hvergi slakni á við undirbúning ákvarðana sameiginlegu nefndarinnar sem bætast við samninginn. Á síðasta ári voru teknar 165 ákvarðanir sem bættu 401 nýrri gerð inn í EES-samninginn. Jafnframt hefur verið farið yfir ferilinn, bæði í Brussel og á Íslandi, til þess að efla samráð ráðuneyta, flýta fyrir þýðingum gerða og bæta upplýsingaflæði. Við upphaf síðasta árs hafði safnast upp mikill fjölda gerða sem teknar höfðu verið inn í samninginn en ekki verið þýddar. Tafði þetta birtingu gerða um rúmt ár. Lýstu fulltrúar Evrópusambandsins óánægju með þessar aðstæður og töldu að gagnsæi og framkvæmd samningsins væri sett í hættu. Nú hefur duglega verið tekið til hendi og búast má við að um mitt þetta ár verði unnt að birta þýðingar því sem næst samhliða ákvarðanatöku í sameiginlegu EES-nefndinni. Jafnframt er stefnt að því að flýta þýðingum svo þær verði handbærar mun fyrr við undirbúning laga og reglugerða og ætti það að verða til hagræðis fyrir alla þá sem vinna við framkvæmd samningsins.
    Íslenskir þátttakendur í nefndum á vegum samningsins hafa verið hvattir til virkari þátttöku og hefur það m.a. leitt til þess að mun fleiri Íslendingar hafa nú tekið að sér formennsku í starfshópum EFTA. Hefur skapast þar hæfileg verkaskipting við Noreg og Liechtenstein. Þótt Norðmenn hafi meiri mannafla og fjármagn er mikilvægt að íslensk stjórnvöld axli sína ábyrgð við rekstur samningsins. Enn skortir þó verulega á að þátttaka í ýmsum sérfræðinganefndum framkvæmdastjórnar sé fullnægjandi þar sem ýmsar stofnanir stjórnkerfisins hafa ekki ævinlega þann mannafla og fé sem til þarf.

6.1.2.     Helsti afrakstur EES-samningsins á liðnu ári
    Hér á eftir verður stiklað á stóru um afrakstur EES-samningsins á undanförnu ári. Stór hluti ákvarðana sem tekinn er inn í EES-samninginn er tæknilegs eðlis og snýr fremur að viðhaldi og aðlögun að breytingum í tækni eða atvinnuháttum. Ýmsar ákvarðanir geta þó haft umtalsverð efnahagsleg áhrif og breytt ýmsum forsendum í pólitískri umræðu. Engin tök eru á því að gefa tæmandi yfirlit en nokkur dæmi fara hér á eftir.

Frágangur bókunar 3 um vörur úr landbúnaðarhráefnum
    Meðal þess sem hæst bar á árinu ber fyrst að nefna að loks tókst eftir um tíu ára viðræður að ná niðurstöðu um endanlegan frágang bókunar 3 við samninginn. Bókun 3 fjallar um viðskipti með vörur sem unnar eru úr landbúnaðarhráefnum, t.d. sultur, súpur, morgunkorn, pasta og pizzur. Ekki tókst undir lok samningaviðræðna um EES að ná niðurstöðu og því var samningurinn undirritaður og fullgiltur án þess að bókun 3 gengi í gildi. Á meðan var stuðst við ákvæði í gamla fríverslunarsamningnum frá 1972. Málið varð flóknara fyrir þá sök að með gildistöku samninga um Alþjóðaviðskiptastofnunina voru lagðar niður ákveðnar aðferðir við álagningu breytilegra gjalda sem miðað hafði verið við í samningaviðræðunum. Því þurfti að taka málið upp á nýjum forsendum. Vegna umfangsmikilla hagsmuna í landamæraviðskiptum Noregs og Svíþjóðar var málið lengi rekið í tvíhliða viðræðum Noregs og framkvæmdastjórnarinnar en jafnóðum og náðst hafði niðurstaða sem ásættanleg virtist og kynnt var fyrir aðildarríkjum rak Svíþjóð framkvæmdastjórnina aftur að samningaborðinu. Fór svo þar til Svíar höfðu haft sitt fram. Frekari viðræðum milli Noregs og Evrópusambandsins verður þó haldið áfram svo að hægt verði að fella að fullu niður gjöld á vinnsluþætti varnings úr landbúnaðarhráefni. Hvað Ísland varðar munu tollar lækka um 2% á tilteknum vörutegundum en jafnframt er greitt fyrir útflutningi á vörum á borð við súkkulaði og bjór. Bókunin hefur verið einfölduð verulega.

Útflutningur sjávarafurða
    
Það var mikill sigur þegar það fékkst fram á sínum tíma að sjávarafurðir frá Íslandi skyldu ekki sæta heilbrigðiseftirliti sem þriðja lands vara og íslensk vottorð og heilbrigðiseftirlit var sjálfkrafa tekið gilt. Með þessu fyrirkomulagi verða viðskipti með sjávarafurðir til ESB greiðari en ella. Þessu fyrirkomulagi fylgdi hins vegar að við innflutning sjávarafurða til Íslands, t.d. frá Rússlandi, verður að fylgja sameiginlegum reglum og hann verður að fara um samþykktar landamærastöðvar. Samkvæmt almennum reglum EES-samningsins væri það hlutverk ESA að taka út og samþykkja slíkar stöðvar en framkvæmdastjórnin hefur viljað áskilja sér ákveðinn eftirlits- og íhlutunarrétt. Í september var loks gengið formlega frá samkomulagi um það hvernig þessu skyldi hagað og jafnframt var samþykkt að einfalda verulega alla málsmeðferð við upptöku nýrra gerða á sviði dýraheilbrigðis. Þessi einföldun hefur verið íslenskum stjórnvöldum mikið kappsmál þar sem framkvæmdastjórnin hafði lengi krafist að ýmsar framkvæmdareglugerðir þeirra yrðu teknar inn sem hluti af samningnum með tilheyrandi þýðingar- og umsýslukostnaði fyrir Ísland. Einnig slævðust við þetta mörkin milli EES-löggjafar og framkvæmdar hennar. Íslensk stjórnvöld tóku málið fyrst upp fyrir tæpum þremur árum síðan við dræmar undirtektir framkvæmdastjórnarinnar og Noregs en nú hefur árangur náðst. Annað mál sem fékk farsæla lausn var framlenging á undanþágu Íslands vegna fiskisjúkdóma. Löggjöf sem setur vissar hömlur á innflutning á lifandi fiski verður því, enn um sinn, óbreytt á grundvelli vísindalegs mats á sýkingarhættu. Aftur er um að ræða mál þar sem ESA hefur samkvæmt EES-samningnum ákveðið umboð til ákvarðana en verður að fara sér hægt vegna afstöðu framkvæmdastjórnarinnar.

Sameiginlegar reglur um nýtingu gass
    
Norðmenn hafa lengi staðið gegn því að tilskipun um sameiginlegan innri markað með gas yrði felld án tilhliðrana inn í samninginn þar sem hún breytti verulega skipulagi þeirra á vinnslu og sölu á gasi. Þeirra nálgun var að hér væri um að ræða nýtingu á auðlind en af hálfu ESB var litið á þetta sem markaðsmál. Þótt ESB legðist ekki gegn því að Norðmenn stýrðu því á eigin forsendum hversu mikið skyldi nýtt þá töldu þeir að um sölu, flutning, dreifingu, útvegun og geymslu á náttúrulegu gasi skyldu gilda sameiginlegar reglur. Fór svo að lokum að Norðmenn samþykktu tilskipunina. Í tengslum við þessa gerð er athyglisvert að athuga aðskilnað nýtingar og markaðssetningar.

Aðrar mikilvægar ákvarðanir í EES
    
EES-samningnum fylgdi á sínum tíma ákveðin skylda til að tilkynna um tæknilega staðla og reglugerðir við framleiðslu vöru, svo tryggt væri að fullt samræmi ríkti á svæðinu. Gildissvið þessarar skyldu hefur nú verið útfært og nær einnig til fjarþjónustu. Með auknu vægi rafrænna viðskipta reynir meira á það hvernig ganga megi úr skugga um hvað teljist vera örugg undirskrift og hafa verið teknar inn í samninginn tilskipanir um þetta efni, svo og almennar reglur um rafeyrisfyrirtæki. Á fjarskiptasviði var tekin inn reglugerð um aðgang að heimtaug sem hefur það markmið að efla framboð og samkeppni í allri fjarskiptaþjónustu.
    Verulega var breytt reglum um gæði neysluvatns og m.a kveðið á um mun umfangsmeiri mælingar en tíðkast hafa á Íslandi. Reynt var að fá fram undanþágu vegna þess kostnaðar sem þessu fylgir en það reyndist erfitt. Þegar hins vegar hefur verið sannað með mælingum að vatnið sé hreint verður hægt að fækka mælingum.
    Tekin var inn ákvörðun um samstarf gegn mengun sjávar, viðbrögð við bráðamengun og upplýsingakerfi milli ríkja EES-svæðisins, samþykkt var framhaldsáætlun MEDIA-áætlunarinnar um stuðning við kvikmynda-, sjónvarps- og margmiðlunariðnað en til þeirrar áætlunar munu renna um 30 milljarðar íslenskra króna. Enn fremur var gengið frá aðild EFTA-ríkja um svokallaða „Digital Content“ áætlun, sem ætlað er að stuðla að þróun og notkun stafræns efnis á netinu og ýta undir tungumálafjölbreytni upplýsingaþjóðfélagsins. Skýrari reglur voru settar um hámarksvinnutíma flugáhafna á EES-svæðinu en almenn viðmið á Íslandi höfðu verið innan þeirra marka.
    Eftir að EFTA-ríkin féllust á að samþykkja skrá ESB um aukefni í matvælum og andstöðu Norðmanna við vítamínbættan barnamat og einkaleyfi í líftækni linnti eru ágreiningsefni fá. Nýjar reglur ESB um sæfiefni (eiturefni ýmiss konar) og markaðssetningu þeirra hafa þó valdið nokkrum áhyggjum. Það eru ekki reglurnar sjálfar sem valda vandkvæðum heldur það hvernig framkvæmdastjórnin vill áskilja sér og stofnunum ESB ákvörðunarvald út fyrir ramma EES-samningsins án þess að taka tillit til tveggja stoða kerfisins. Er jafnframt tekið fram að lausn í þessu máli verði fyrirmynd annarra ákvarðana í framtíðinni. Málið er enn í skoðun hjá íslenskum stjórnvöldum.
    Við upphaf síðasta árs hóf framkvæmdastjórnin í fyrsta skipti samningsbrotaferil vegna vegaflutninga í Liechtenstein. Það tókst að leysa málið áður en í óefni var komið.

6.1.3.     Málefni fram undan á vettvangi EES
    Það hefur lengi verið kappsmál bæði Íslendinga og Norðmanna að fá fram betri kjör fyrir sjávarafurðir á ESB-markaði. Þetta hefur verið sérstaklega tilfinnanlegt fyrir Norðmenn þar sem mikilvægasta útflutningsafurð þeirra, lax, er ekki aðeins tollaður heldur hefur verið samið um lágmarksverð sem ekki lengur er raunhæft. Hvað Íslendinga varðar er það einkum tollar á síld og humar sem hafa hindrað eðlilega þróun útflutnings og tollar á fersk fiskflök. Enn bagalegra verður þetta eftir stækkun Evrópusambandsins þegar markaðir í Austur-Evrópu taka upp tolla ESB. Hvorki hefur gengið né rekið í viðræðum um umbætur á bókun 9 en vonir standa til að tvíhliða viðræður Norðmanna og ESB leiði til einhvers sveigjanleika í framkvæmd. Áfram verður þó sótt á ESB um endurbætur á bókun 9 og jafnframt farið fram á bætur vegna skerts markaðsaðgangs eftir stækkun sambandsins.
    Framkvæmdastjórnin og formennska ESB hafa viljað hefja viðræður við Ísland og Noreg á grundvelli 19. greinar samningsins um aukið frjálsræði í viðskiptum með landbúnaðarvörur. Hefur þegar verið skýrt frá nýlegum lækkunum íslenskra stjórnvalda á aðflutningsgjöldum á grænmeti og jafnframt vakið máls á innflutningsgjöldum á íslenska hesta. Búist er við að fyrstu viðræður hefjist í sumar.
    Fram undan eru samningaviðræður um aðkomu EFTA-ríkja að þremur nýjum stofnunum um öryggi matvæla, flugöryggi og öryggi á sjó. Þessar stofnanir munu móta lagaumhverfi og eftirlit á EES-svæðinu. Ekki er ágreiningur um að Ísland og Noregur muni taka þátt í starfi þessara stofnana en ýmislegt er enn ójóst um stjórn þeirra, skipulag og fjármál.

6.1.4.     Eftirlitsstofnun EFTA (ESA)
    Eftirlitsstofnun EFTA gefur tvisvar á ári út yfirlit um það hvernig aðildarríkjum EFTA/ EES miðar við framkvæmd sameiginlegra skuldbindinga. Er það gert í nánu samráði við framkvæmdastjórn ESB og nær því samanburðurinn til EES-ríkjanna átján. ESB hefur sett sér það markmið að aldrei skuli skorta meira en eitt og hálft prósent á það að samþykkt löggjöf sé að fullu í framkvæmd. Talsvert skorti á það að Ísland og Noregur stæðu sem skyldi við upphaf árs því þá voru þau í 16. og 17. sæti. Bæði ríkin hafa hins vegar nú tekið sig á og eru í 6. og 7. sæti. Hefur Ísland náð því marki að vera innan viðmiðunarmarka. Stofnunin hefur fylgst náið með og gert athugasemdir við framkvæmd heilbrigðiseftirlits með sjávarafurðum og fóðri, með framkvæmd matvælalöggjafar, hollustueftirlits, eftirlits með eiturefnum og umhverfisvernd og enn mætti lengi telja. Stofnunin hefur tekið fyrir mismunun við innheimtu flugvallarskatta, mismunun við veitingu skattafrádráttar eftir því hvort um var að ræða innlent eða erlent fyrirtæki, byggðastyrki, persónuverndarákvæði við starfsemi gagnagrunns, styrki til kvikmyndagerðar o.fl.

6.2.     Samskipti við ESB utan EES-samningsins
    Samhliða EES-samningnum var á sínum tíma gengið frá samningi milli Íslands og ESB um skipti á veiðiheimildum þar sem skip frá aðildarríkjum ESB fengu heimildir til að veiða allt að 3.000 tonn af karfa en ESB gaf á móti 30.000 tonna loðnukvóta. Lengi vel áttu fiskiskip ESB í erfiðleikum með að nýta þessar heimildir og sum árin veiddist enginn karfi. Á síðasta ári fór þó afli fiskiskipa ESB, sem öll eru frá Bretlandi eða Þýskalandi, í fyrsta skipti yfir 2.000 tonn. Samningurinn verður framlengdur sjálfkrafa til sex ára ef honum verður ekki sagt upp í vor en framkvæmdastjórnin hefur lýst áhuga á að ræða það hvort svigrúm sé fyrir hendi um stækkun veiðisvæða og breytta tilhögun veiðieftirlits.
    Í Lissabon er starfrækt sérstök upplýsingamiðstöð á vegum ESB sem hefur það hlutverk að vera stjórnvöldum aðildarríkja til aðstoðar í baráttunni við eiturlyf. Reynt var að sjá til þess að koma þátttöku Íslands og Noregs inn í EES-samninginn. Noregur hefur samið um sérstaka aukaaðild. Samningaviðræður við Ísland hafa ekki komist á skrið sökum þess að framkvæmdastjórnin hefur viljað halda sig við þá grunnreglu að kostnaði við þátttöku beri að skipta upp jafnt milli þátttökuríkja án tillits til stærðar.

6.3.     Stækkun ESB
    Samningaviðræður um stækkun ESB eru vel á veg komnar. 2 Er nú stefnt að því að samningaviðræðum ljúki fyrir árslok við tíu ríki 3 og aðildarsamningar verði fullgildir árið 2004 svo umsóknarríkin geti tekið þátt í kosningum til Evrópuþingsins það ár. Gert er ráð fyrir því að á sama tíma verði lýst jákvæðum viðhorfum til umsókna Búlgaríu og Rúmeníu með það að markmiði að þau komi inn í sambandið innan fárra ára. Talið er að Tyrkland þurfi enn um sinn að bíða aðildar, einkum og sér í lagi vegna stöðu mannréttindamála þar í landi. Nú um stundir hafa velflest ríkjanna tíu lokið samningaviðræðum um flesta málaflokka en eftir standa þeir þættir sem eru viðkvæmastir, bæði fyrir ríkin 10 en ekki síður fyrir núverandi aðildarríki. Þar er um að ræða þá þætti sem eru fjárfrekastir í sambandinu. Framkvæmdastjórnin hefur lagt fram tillögur um tíu ára aðlögunarfrest áður en beingreiðslur til bænda verða með sama hætti og í aðildarríkjum. Þessar tillögur hafa mætt verulegri andstöðu einstakra umsóknarríkja, einkum Póllands, þar sem þeim þykir ekki gengið nógu langt til móts við þau í fjárframlögum til mikilvægra þátta eins og landbúnaðarmála.
    Stækkun ESB leggur þá skyldu á nýju aðildarríkin að sækja einnig um aðild að EES-samningnum. Er þar um sérstaka umsókn að ræða og þarf því að gera sérstaka samninga við þessi ríki um aðild að EES-samningnum en undir þeim kringumstæðum er Ísland einn samningsaðila. Ekki er í sjálfu sér gert ráð fyrir að um tæknilega flókið ferli verði að ræða eða að sérstök vandkvæði komi upp gagnvart nýjum aðildarríkjum. Er tæknileg undirbúningsvinna fyrir þessa samningsgerð þegar hafin í samstarfi sérfræðinga EFTA og framkvæmdastjórnar ESB.
    Það sem mun verða EFTA-ríkjunum mikilvægast en jafnframt erfiðast að ná fram gagnvart ESB er að viðhalda þeim viðskiptakjörum sem nú eru við lýði varðandi markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir í þessum nýju aðildarríkjum. Ástæða þess er sú að ef ekkert verður að gert mun bókun 9 við EES-samninginn ráða þessum kjörum eftir stækkun en bókun 9 er óhagstæðari en fríverslunarsamningar EFTA við átta þessara ríkja sem allir tryggja fulla fríverslun með sjávarafurðir. Hefur framkvæmdastjórn ESB tekið dræmt í allar breytingar hvað þetta varðar og telur sér ekki skylt að bæta skaðann. Vísa þeir til þess að reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar geri aðeins ráð fyrir bótum ef breyting er gerð á almennum tollum en taki ekki til tollfríðinda á grundvelli fríverslunarsamninga. Af hálfu EFTA-ríkja hefur verið bent á að samið hafi verið um bætur þegar Spánn gekk í Evrópusambandið og aftur þegar Austurríki, Finnland og Svíþjóð gengu inn. Pólitísk og lagaleg rök hnígi að því að stækkun eigi ekki að leiða til frekari viðskiptahindrana. Málið hefur verið kynnt fyrir ráðamönnum framkvæmdastjórnar og aðildarríkja í tvíhliða viðræðum og nú síðast á ráðherrafundi EES. Ekki verður hægt að hefja eiginlegar viðræður fyrr en eftir að aðildarviðræðum lýkur. Pólland er gamall og mikilvægur markaður m.a. fyrir síld en útflutningur þangað minnkaði verulega á tímabili. Nú virðist vera að birta til og vaxtarmöguleikar eru verulegir. Mikilvægt er að festa sig í sessi á þessum mörkuðum nú því náist árangur í viðræðum um bætur verður það líklegast á grundvelli tollkvóta á grundvelli útflutnings síðustu þriggja ára.


6.4.     Schengen-samstarfið
    Í mars 2001 hófst full framkvæmd Schengen-samningsins hér á landi. Með því var fellt niður landamæraeftirlit gagnvart farþegum er ferðast frá einu Schengen-ríki til annars. Framkvæmd samningsins hér á landi hefur almennt gengið vel og á vettvangi samstarfsins sjálfs hefur samstarfið gengið vel í meginatriðum. Þó hafa verið skiptar skoðanir í afmörkuðum tilvikum um túlkun samnings Íslands og Noregs annars vegar og ESB hins vegar. Má fullyrða að alvarlegasti ágreiningurinn þess eðlis hafi orðið í kjölfar viðbragða ESB við hryðjuverkunum í Bandaríkjunum 11. september 2001. Þar greindi samningsaðila á um hvort umfangsmiklar aðgerðir ESB í kjölfar atburðanna teldust varða Schengen-samstarfið eður ei. Gegn andmælum Íslands og Noregs fékk ESB sínu framgengt og fjallaði ekki um þessar aðgerðir á vettvangi Schengen-samstarfsins. Er nú að koma á daginn að ýmsar af þessum aðgerðum kalla á breytingar á Schengen-samningnum sem nú eru til umfjöllunar.
    Þróun samstarfsins á sér hins vegar að öðru leyti stað með öruggum hætti. Hefur komið í ljós að gerðir samningsins eru viðráðanlegar í fjölda og umfangi en á þeim vettvangi sem Schengen-samstarfið tekur til er þó stöðug þróun í átt til aukinnar samræmingar og nánara samstarfs eins og á öðrum sviðum Evrópusamvinnunnar. Á næstu missirum er framundan veruleg vinna við að aðstoða ný aðildarríki ESB við að aðlaga sig að reglum Schengen en ætla má að nokkur tími líði þar til þau hefja fulla framkvæmd samningsins. Er ekki óvarlegt að ætla að þau muni í verulegum mæli leita til Norðurlandanna eftir þekkingu og reynslu á framkvæmd Schengen-reglna og mun Ísland leggja sitt að mörkum í því skyni eftir því sem unnt er. Hefur Ísland til að mynda þegar tekið þátt í verkefni í Litháen í þessu skyni.
    Til að tryggja öfluga lögreglusamvinnu innan Schengen var samið um samstarf við EUROPOL, miðstöð lögreglusamstarfs Evrópusambandsríkja, sem starfrækt er í Haag. Samstarfssamningur var undirritaður í lok júní 2001 í Stokkhólmi. Ísland og Noregur voru þar með fyrst allra ríkja til að semja um slíkt samstarf við EUROPOL en þessi tvö ríki eru efst á forgangslista ESB um eflingu samstarfs.

6.5.     Þróun ESB
6.5.1.     Nice-sáttmálinn og „Framtíð Evrópu“
    Þróun ESB hefur verið ör frá því skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi var lögð fram vorið 2000. Nice-sáttmálinn var gerður í formennskutíð Frakka undir lok ársins 2000. Á leiðtogafundinum í Nice var leitast við að fjalla að mestu um stofnanalega þætti ESB til undirbúnings stækkunar sambandsins. Er óhætt að segja að efnisleg niðurstaða hafi verið fremur rýr ef á heildina er litið. Málamiðlun náðist um atkvæðavægi í ráðherraráðinu og á Evrópuþinginu en að öðru leyti var málefnum frestað til síðari umfjöllunar. Sú umfjöllun er nú hafin undir yfirskriftinni „Framtíð Evrópu“ en að henni koma fulltrúar allra aðildarríkja ESB, jafnt þjóðþinga sem ríkisstjórna, auk fulltrúa væntanlegra aðildarríkja sem þó eru einungis áheyrnaraðilar. Helstu stofnanir ESB eiga þar einnig sína fulltrúa. Ráðstefnunni er ætlað að endurnýja og opna umræðu um framtíð álfunnar og gera þeir bjartsýnustu sér vonir um að niðurstaðan muni leggja grunn að einhvers konar stjórnarskrá Evrópu. Er sérstaklega rætt um að skýra verði verkaskiptingu milli aðildarríkja og sameiginlegra stofnana og sjá til þess að Evrópustarfið verði ljósara og skiljanlegra öllum almenningi. Það verður þó ekki fyrr en að ríkjaráðstefnan hefst 2004 sem það skýrist hversu mikið af þessu starfi skilar sér inn í lagagrunna ESB.
    
Í formennskutíð Finna voru á leiðtogafundi í Tampere settar fram nýjar áherslur um samstarf á sviði innanríkis- og dómsmála og markið sett hátt. Það tók tíma að festa nýjar forsendur í sessi en segja má að eftir hryðjuverkin í New York í september hafi nauðsyn þess að auka samstarf aðildarríkja um þessi mál blasað við. Hefur umræðu fleygt fram á undanförnum mánuðum og má sem dæmi nefna samþykkt undir lok síðasta árs um evrópska handtökutilskipun. Dómsmálaráðherrar hafa í kjölfar fyrrgreindra atburða rætt breytingar á refsiramma, samgönguráðherrar hvernig bregðast skuli við breyttum forsendum við rekstur flugvalla og fjármálaráðherrar hafa tekið á rekstrarvanda flugfélaga vegna svimandi hárra tryggingagjalda. Þegar ríkisstjórn Íslands ákvað að hlaupa undir bagga með íslenskum flugfélögum vegna tryggingakostnaðar var erfitt um vik því það þurfti að gera innan ramma sameiginlegrar reglna EES sem mótaðar voru af fjármálaráðherrum ESB.

6.5.2.     Innleiðing Evrunnar sem lögeyris
    Án efa er innleiðing evrunnar í 12 aðildarríkjum ESB þann 1. janúar 2002 eitt af stærstu skrefunum sem stigið hefur verið innan ESB frá stofnun þess. Samdóma álit flestra virðist vera að einkar vel hafi tekist til að hrinda verkefninu í framkvæmd. Virðist sem þessi velgengni ætli að hafa mótandi áhrif á skoðanir íbúa þeirra aðildarríkja ESB sem enn standa utan evrunnar. Er eðlilegt að Ísland fylgist sérstaklega með þessari þróun þar sem fjölgun ríkja innan evrusvæðisins mun hafa í för með sér að aukið hlutfall utanríkisviðskipta Íslands verði við þetta eina myntsvæði, sérstaklega ef Bretland, Svíþjóð og Danmörk munu ganga í myntbandalagið, sem og umsóknarríkin. Við slíkar kringumstæður væri evran gjaldmiðill um 500 milljón manna á markaði sem tæki við um 70% af útflutningsverðmætum Íslands.
    Svíar stefna nú að því að bera upptöku evrunnar undir þjóðaratkvæði á næsta ári og skoðanakannanir í Danmörku benda til þess að þar hafi fólki snúist hugur og taki jákvæðari afstöðu en áður til upptöku evru. Það land sem mest vægi hefur í utanríkisviðskiptum Íslands er þó Bretland. Blair forsætisráðherra stefnir að aðild en mun ekki láta til skarar skríða fyrr en efnahagsleg skilyrði hafa verið uppfyllt og hefur falið Brown fjármálaráðherra sínum að meta það hvenær sú stund rennur upp.

6.5.3.     Lissabonferlið
    Á leiðtogafundinum í Lissabon vorið 2000 setti Evrópusambandið sér það metnaðarfulla markmið til næstu tíu ára að verða samkeppnishæfasta og framsæknasta hagkerfi veraldarinnar. Markmiði þessu á að ná með því beita þeim stjórnunar- og stefnumótunaraðferðum sem þegar hafa mótast hjá Evrópusambandinu auk þess sem skilgreind var ný aðferð, svonefnt „opið samráð“, sem byggir að verulegu leyti á því að virkja einkaaðila og einstaklinga til jafns við hið opinbera.
    Í gegnum tíðina hefur helsti aflvaki Evrópusamrunans verið laga- og reglusetningarvald stofnana Evrópusambandsins. Með Lissabonferlinu færist áhersla frá hefðbundnu löggjafarstarfi Evrópusambandsins yfir í fjölbreyttara samstarf við við ríkisstjórnir, sveitarstjórnir, aðila vinnumarkaðar og einkaaðila. Sett eru nánar skilgreind áfangamarkmið og síðan reynt að mæla hvernig til takist um að ná þeim markmiðum.
    Ein forsenda EFTA/EES-ríkjanna fyrir því að velja sínu Evrópusamstarfi ramma EES-samningsins var að það leiddi í minni mæli til valdaframsals til miðlægra og yfirþjóðlegra stofnana. Lissabonferlið ætti því að henta EFTA/EES-ríkjunum vel þar sem það byggist í grunninn á nálægðarreglunni og því að færa framkvæmd og frumkvæði sem næst einkaaðilum og borgurum. EFTA/EES-ríkin hafa ekki átt þess kost að taka þátt í því að móta hin einstöku áfangamarkmið sem Evrópusambandið hefur skilgreint. Ljóst er að Evrópusambandið mun þurfa að grípa til lagasetningar til að ná fyrrnefndum markmiðum sínum og verður sú löggjöf felld inn í EES-samninginn. Þegar þeim tilvikum sleppir er hins vegar ljóst að EES-samningurinn felur ekki í sér úrræði til að tryggja þátttöku EFTA/EES-ríkjanna í þeirri mótun innri markaðarins sem Lissabonferlið óhjákvæmilega felur í sér.
    EFTA/EES-ríkin hafa brugðist við þessu með því að óska eftir því að fá að tengjast Lissabonferlinu að því marki sem það snertir innri markaðinn og þar með EES-samninginn. EFTA/EES-ríkin hafa fyrir sitt leyti safnað saman nauðsynlegum upplýsingum til að mæla árangur sinn gagnvart einstökum áfangamarkmiðum Lissabonferlisins. Sú vinna hefur nú þegar leitt í ljós að á mörgum sviðum standa EFTA/EES-ríkin sig mjög vel í samburði við ESB-ríkin og ætti það að vera mönnum hvatning. Niðurstöðurnar eru þó mikilvægari í þeim tilvikum þegar þær leiða í ljós slakari frammistöðu. Þá er brýnna en ella að bæta úr vilji menn ná höfuðmarkmiðinu um samkeppnishæfasta hagkerfið innan 10 ára. Eigi þessi vinna að nýtast EFTA/EES-ríkjunum með sambærilegum hætti og ESB er nauðsynlegt að upplýsingar frá EFTA/EES-ríkjunum komi fram í töflum og gögnum sem gefin eru út vegna Lissabonferlisins. Leiðtogafundur ESB vor hvert er m.a. tileinkaður Lissabonferlinu og komu EFTA/EES-ríkin á framfæri upplýsingum um stöðu sína gagnvart áfangamarkmiðum fyrir leiðtogafundinn í Stokkhólmi á síðasta ári. ESB hafnaði þá að taka upplýsingar EFTA/EES-ríkja með í skýrslu sína um stöðu Lissabonferlisins og bar því við að fyrst yrði að gera umsóknarríkjunum viðeigandi skil.
    EFTA/EES-ríkin hafa brugðist við því nú með því að setja upplýsingar sínar fram sem viðbót við upplýsingar Evrópusambandsríkjanna. Hefur forsætisráðherra, fyrir hönd Íslands sem formennskuríkis EFTA í EES-samstarfinu, ritað starfsbræðrum sínum hjá Evrópusambandinu bréf þar sem framlagi EFTA/EES-ríkjanna til Lissabonferlisins er komið á framfæri. Líklegt er talið að upplýsingar um umsóknarríkin verði felldar inn í stöðuskýrslu Evrópusambandsins sem verður tekin saman fyrir leiðtogafundinn vorið 2003 og má þá gera sér vonir um að upplýsingar um EFTA/EES-ríkin gætu komið með einhverjum hætti inn í næstu stöðuskýrslur þar á eftir.

7.     SAMEINUÐU ÞJÓÐIRNAR OG SÉRSTOFNANIR ÞEIRRA
    Sameiginleg útnefning Kofis Annan, aðalframkvæmdastjóra, og Sameinuðu þjóðanna sjálfra til friðarverðlauna Nóbels í desember 2001 var mikilsverð viðurkenning á starfi stofnunarinnar. Miklar vonir eru bundnar við að þessi heiður auki enn á trúverðugleika Sameinuðu þjóðanna og afli þeim þess pólitíska fylgis sem nauðsynlegt er til að stofnunin fái sinnt því hlutverki sínu að varðveita heimsfrið og öryggi, og að styrkja og stuðla að virðingu fyrir mannréttindum. Hinn 27. júní 2001 var Kofi Annan einróma endurkjörinn aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna til næstu fimm ára. Mikil ánægja ríkir með störf hans og er óumdeilt að honum hefur tekist að styrkja virðingu og vægi stofnunarinnar á alþjóðavettvangi. Virk þátttaka í starfi Sameinuðu þjóðanna er sem fyrr einn af grundvallarþáttum íslenskrar utanríkisstefnu.

7.1.     Virk þátttaka Íslands í starfi Sameinuðu þjóðanna
7.1.1.     Framboð Íslands til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna
    Í samræmi við þá stefnu að Ísland láti enn frekar að sér kveða í starfi Sameinuðu þjóðanna hefur verið ákveðið að bjóða Ísland fram til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 2009–2010. Kosningar fara fram á allsherjarþinginu haustið 2008. Framboð Íslands nýtur stuðnings hinna Norðurlandanna. Utanríkisráðuneytið hefur hafið undirbúning að framboðinu og var m.a. bætt við einum starfsmanni í fastanefnd Íslands í New York á síðasta ári gagngert til að fylgjast með verkefnum öryggisráðsins.
    
Framboð til öryggisráðsins og væntanleg seta Íslands í ráðinu verður eitt stærsta verkefni sem utanríkisþjónustan hefur fengist við. Undirbúningur og framkvæmd þarf að einkennast af fagmennsku og vandvirkni þannig að Ísland komi öflugt inn í ráðið og geti axlað þá miklu ábyrgð sem í starfinu felst. Samstaða þjóða í baráttunni gegn hryðjuverkum, einkum á grundvelli ályktana öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, hefur sýnt og sannað mikilvægi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem verkfæri alþjóðasamfélagsins til að stuðla að friði og öryggi. Tryggja þarf að bein þátttaka Íslands í störfum ráðsins verði markviss og skili árangri sem verði Íslandi til sóma og framdráttar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Endurskoðun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna
    
Undanfarin ár hefur verið unnið ötullega að því að ná samkomulagi um endurskoðun á starfsháttum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna en hægt hefur gengið að sætta mismunandi sjónarmið og hagsmuni aðildarríkjanna. Almennt samkomulag er um nauðsyn þess að aðlaga starfshætti öryggisráðsins að breyttum tímum og fjölga þeim ríkjum sem sæti eiga í ráðinu. Ágreiningur er hins vegar um hve mikið fjölga eigi í ráðinu, um fjölda ríkja sem þar ættu að hafa fast sæti, hvort þau eigi að hafa neitunarvald og hvort breyta eigi heimildum um beitingu neitunarvaldsins. Þorsteinn Ingólfsson, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, var á árinu 2000 kjörinn til að gegna starfi annars tveggja varaformanna sérstakrar nefndar sem vinnur að endurskoðun á starfsháttum öryggisráðsins.

7.1.2.     Sáttaumleitanir í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna
    Í kjölfar þess að Bandaríkin náðu ekki kjöri í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna í kosningum innan Efnahags- og félagsmálaráðsins (ECOSOC) í maí 2001 ákvað ríkjahópur Vesturlanda að freista þess að ná samkomulagi um framboðsmál til langs tíma í mikilvægustu stofnunum sem kjörið er til á vettvangi ECOSOC. Þorsteini Ingólfssyni, fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, var fengið það hlutverk að vinna að sátt innan hópsins um helstu framboðsmál og að freista þess í upphafi að ná samkomulagi um framboð í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna fyrir kosningar í ECOSOC í lok apríl 2002. Um miðjan mars 2002 var ljóst að sáttaumleitanir um þetta voru komnar í strand. Þrátt fyrir það hefur ríkjahópurinn skorað á íslenska fastafulltrúann að taka aftur upp sáttaumleitanir eftir kosningarnar í ECOSOC í vor.

7.1.3.     Aðild Íslands að nefndum og ráðum
Sæti í stjórn Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO)
    
Ákveðið var haustið 2000 að Ísland mundi sækjast eftir sæti í framkvæmdastjórn UNESCO þegar kjörtíma Finnlands í stjórninni lyki haustið 2001 en jafnan er einn fulltrúi Norðurlanda í ráðinu. Ísland hefur einu sinni áður átt sæti í stjórninni, árin 1983–87. Það þýðir þó ekki að sætið tilheyri Norðurlöndunum heldur er Vesturlandahópnum ætluð níu sæti í stjórninni. Nú var kosið um fjögur sæti en fimm á næstu aðalráðstefnu. Til þess er ætlast að hver valhópur semji innbyrðis um hverjir hljóti sætin en slíkt gerist æ sjaldnar og geta óvænt framboð komið fram. Framboð Íslands hlaut góðan hljómgrunn, Ísland náði kosningu og tekur Sveinn Einarsson sæti Íslands í stjórninni. Menntamálaráðuneytið og utanríkisráðuneytið unnu saman að framboðinu og kom sérstakur starfsmaður utanríkisráðuneytisins til starfa í sendiráðinu í París í hálft ár til að vinna framboðinu fylgi.
Sæti í nefnd um sjálfbæra þróun (CSD)
    
Ísland var kosið til setu í nefnd um sjálfbæra þróun (CSD) á fundi efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuð þjóðanna í maí 2000. Kjörtímabil Íslands stendur til loka 12. fundar nefndarinnar árið 2004. Nefndin var sett á fót til að fylgja eftir ákvörðunum Ríóráðstefnunnar um umhverfi og þróun og hefur henni verið falið að undirbúa leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem verður í Jóhannesarborg haustið 2002 (sjá nánar kafla 11.1.1).

Framboð í framkvæmdastjórn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO)
    Ísland hefur tilkynnt framboð Davíðs Á. Gunnarssonar, ráðuneytisstjóra í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, til setu í framkvæmdastjórn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar tímabilið 2003–2006. Framboðið hefur stuðning Norðurlandanna. Utanríkisráðuneytið, sendiráð og fastanefndir vinna að kynningu framboðsins og öflun stuðnings við það í samvinnu við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.

Annað nefndastarf
    
Ísland lauk á árinu 2001 þriggja ára setu sinni í hagtölunefnd Sameinuðu þjóðanna (Statistical Commission). Hallgrímur Snorrason hagstofusjóri sat í nefndinni fyrir hönd Íslands. Þá tók Ísland í byrjun árs 2002 sæti í nefnd Sameinuðu þjóðanna um friðargæsluaðgerðir þar sem fjallað er um áherslur og áform í friðargæslustarfi samtakanna. Þátttaka í starfi friðargæslunefndarinnar tengist áformum íslenskra stjórnvalda í fjölþjóðlegum friðargæsluaðgerðum, þar á meðal á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þátttakan í starfi nefndarinnar er jafnframt liður í undirbúningi að framboði Íslands til öryggisráðsins (sjá kafla 7.1.1).

7.1.4.     Þátttaka íslenskra þingmanna í störfum allsherjarþingsins
    Líkt og undanfarin ár hafa íslenskir þingmenn sótt allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og fylgst með störfum þess. Þátttakan er mikilvæg til að tengja það sem gerist á vettvangi Sameinuðu þjóðanna við löggjafarvaldið og stuðlar um leið að því að auka upplýsingaflæði og efla tengsl milli utanríkisráðuneytisins og Alþingis. Eftirfarandi þingmenn sóttu 56. allsherjarþingið haustið 2001: Guðjón Guðmundsson, Jónína Bjartmarz, Kolbrún Halldórsdóttir, Kristinn H. Gunnarsson, Lúðvík Bergvinsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir. Eftirfarandi þingmenn sóttu 55. allsherjarþingið haustið 2000: Hjálmar Árnason, Sigríður Jóhannesdóttir, Árni Johnsen, Margét Frímannsdóttir, Lára Margrét Ragnarsdóttir og Katrín Fjeldsted.

7.1.5.     Íslenskir starfsmenn hjá Sameinuðu þjóðunum
    Nokkrir Íslendinga starfa á vegum Sameinuðu þjóðanna, sérstofnana þeirra og undirstofnana víða um heim en það er stefna utanríkisráðuneytisins að stuðla að fjölgun íslenskra starfsmanna hjá alþjóðastofnunum. Í febrúar 2001 héldu Sameinuðu þjóðirnar hæfnispróf í Reykjavík um störf hjá Sameinuðu þjóðunum fyrir unga háskólamenntaða umsækjendur. Rúmlega 50 manns þreyttu prófið sem tók tvo daga. Fjórir þeirra stóðust prófið og eru nú á lista Sameinuðu þjóðanna yfir einstaklinga sem boðin verða störf hjá stofnuninni á næstu missirum. Steinar Berg Björnsson viðskiptafræðingur sem gegnt hefur ýmsum stjórnunarstörfum hjá Sameinuðu þjóðunum um árabil, var settur yfirmaður skrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Vínarborg í janúar 2002. Enginn Íslendingur hefur fyrr gegnt jafnhárri stöðu innan samtakanna.

7.2.     Leiðtogafundur Sameinuðu þjóðanna og aðrir stórviðburðir
Leiðtogafundur Sameinuðu þjóðanna í september 2000
    55. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna árið 2000 var aldamótaþing og árþúsundamótaþing. Af því tilefni var í upphafi þingsins efnt til leiðtogafundar dagana 6.–8. september 2000. Fundinn sóttu 146 þjóðarleiðtogar og var þetta stærsti þjóðarleiðtogafundur sem haldinn hefur verið. Davíð Oddsson forsætisráðherra sótti fundinn fyrir Íslands hönd. Í ræðu sinni lagði hann áherslu á að í heimi vaxandi veraldarvæðingar hefði aldrei verið meiri þörf fyrir Sameinuðu þjóðirnar, en jafnframt hefðu aldrei verið gerðar jafnmiklar kröfur til stofnunarinnar. Þar væru lýðræðis- og mannréttindamál m.a. í brennidepli. Hann fagnaði frumkvæði aðalframkvæmdastjórans um úttekt á friðargæslustarfi Sameinuðu þjóðanna og greindi frá áformum íslenskra stjórnvalda um að auka þátttöku í friðargæslu.
    Yfirlýsing leiðtogafundarins er stefnumótandi fyrir framtíðarstarf Sameinuðu þjóðanna. Í yfirlýsingunni staðfestu þjóðarleiðtogarnir trú sína á markmið og meginreglur Sameinuðu þjóðanna og lýstu því yfir að eitt af aðalviðfangsefnum samtíðarinnar væri að tryggja að alþjóðavæðingin kæmi öllum til góða. Þeir kváðu gildi á borð við frelsi, jafnrétti, samstöðu, umburðarlyndi, virðingu fyrir náttúrunni og óskipta ábyrgð skipta sköpum í alþjóðlegum samskiptum á nýrri öld. Leiðtogarnir skuldbundu sig til að styrkja Sameinuðu þjóðirnar í hlutverki sínu að viðhalda heimsfrið og öryggi og settu sér framsækin markmið til að útrýma fátækt í heiminum og auka framþróun.

50 ára afmæli flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna
    
Í lok árs 2001 var haldinn í Genf fyrsti ráðherrafundur Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í tilefni 50 ára afmælis flóttamannasamningsins og sótti utanríkisráðherra fundinn og hélt ávarp. Samningurinn er helsta tæki Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna til verndar mannréttindum flóttamanna. Árið 1967 var gerð viðbótarbókun við samninginn sem felur í sér víðtækari skilgreiningu á hugtakinu flóttamaður. Alls hafa 143 ríki gerst aðilar að öðrum hvorum þessara samninga eða báðum. Ísland er bæði aðili að samningnum og bókuninni. Samkvæmt samningnum ber aðildarríkjum skylda að tryggja réttindi og velferð flóttamanna án tillits til kynþáttar, kynferðis, trúarbragða eða pólitískra skoðana. Í árslok 2000 var stofnað til alþjóðlegs samráðs sem miðar að því að endurskoða samninginn frá 1951, sem og viðbótarbókunina, með það að leiðarljósi að koma til móts við breyttar aðstæður og þróa nýjar aðferðir til að styrkja enn frekar vernd flóttamanna. Jafnframt verði lögð áhersla á nauðsyn þess að finna varanlegar lausnir á vandamálum flóttamanna og að komast fyrir rót vandans, þ.e. þær aðstæður sem flóttamennirnir eru að flýja. Ráðherrafundurinn samþykkti samhljóða yfirlýsingu sem miðar að því að styrkja samninginn og bókunina enn frekar. Ísland mun halda áfram að fylgjast með og taka þátt í hinu alþjóðlega samráði með markvissri þátttöku í störfum Flóttamannastofnunarinnar.

Eftirfylgni Peking-ráðstefnunnar um málefni kvenna

    Aukaallsherjarþing um eftirfylgni alþjóðaráðstefnunnar um málefni kvenna sem haldin var í Peking 1995, var haldið í New York í júní 2000. Páll Pétursson félagsmálaráðherra sótti þingið. Í ræðu sinni skýrði hann frá þeim árangri sem náðst hefur í jafnréttismálum á Íslandi síðan ráðstefnan var haldin í Peking. Hann gerði sérstaklega grein fyrir nýrri jafnréttislöggjöf og nýjum lögum um fæðingar- og foreldraorlof.

Aukaallsherjarþing Sameinuðu þjóðanna um alnæmisvandann
    
Dagana 25.–27. júní 2001 var haldið aukaallsherjarþing Sameinuðu þjóðanna um alnæmisvandann. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sat þingið og ávarpaði það. Heilbrigðisráðherra lagði áherslu á að árangur hefði náðst í baráttunni gegn þessum vágesti. Það væri ekki síst að þakka aukinni fræðslu og bættri stöðu kvenna. Ráðherra lagði einnig áherslu á að virkja yrði ungt fólk í baráttunni og ekki síst þá einstaklinga sem hafa smitast af alnæmisveirunni. Hvatti ráðherra stjórnvöld ríkja til að tryggja jafnt aðgengi þegna að lyfjum og heilbrigðisþjónustu. Hann ítrekaði jafnframt að nauðsynlegt væri að efla alnæmisrannsóknir.

Alþjóðaráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Durban í Suður-Afríku
    
Alþjóðaráðstefna Sameinuðu þjóðanna gegn kynþáttamismunun, útlendingahatri og skorti á umburðarlyndi fór fram í Durban í Suður Afríku 31. ágúst til 7. september 2001. Þungamiðja undirbúningsferlisins fór fram í Genf og hafði verið þyrnum stráð. Nokkrir svæðisbundnir fundir voru einnig haldnir til undirbúnings ráðstefnunni. Á undirbúningsfundunum í Genf hafði hvorki náðst samkomulag um orðalag yfirlýsingar ráðstefnunnar né framkvæmdaáætlun, þannig að óljóst var hvert stefndi þegar ráðstefnan hófst. Við opnun ráðstefnunnar lagði Kofi Annan áherslu á að ekkert ríki væri alveg laust við kynþáttamisrétti, útlendingahatur og skort á umburðarlyndi. Mary Robinson, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, fór þess á leit við ráðstefnugesti að þeir beindu augunum að fórnarlömbum kynþáttamisréttis, bæði fyrr og nú, og lagði áherslu á að gæta þyrfti mannlegs virðuleika allra þegna heims. Fulltrúar 170 ríkisstjórna sóttu ráðstefnuna ásamt fulltrúum á þriðja þúsund frjálsra félagasamtaka. Alls voru um fjórtán þúsund þátttakendur í Durban í tengslum við ráðstefnuna og atburði tengda henni, þar af um 6.000 á sjálfri alþjóðaráðstefnunni. Páll Pétursson félagsmálaráðherra leiddi sendinefnd Íslands. Ráðstefnunni lauk með samkomulagi um yfirlýsingu og framkvæmdaáætlun sem náðist á elleftu stundu. Yfirlýsingin og framkvæmdaáætlunin verður gefin út á íslensku innan tíðar.

Alþjóðleg ráðstefna um fjármögnun þróunar
    
Alþjóðleg ráðstefna um fjármögnun þróunar var haldin í Monterrey í Mexíkó dagana 18.–22. mars sl. og fór Geir H. Haarde fjármálaráðherra fyrir sendinefnd Íslands. Í ávarpi sínu ítrekaði fjármálaráðherra það mat íslenskra stjórnvalda að hið einstaka tækifæri sem felist í ráðstefnunni megi ekki glatast. Milljónir manna í þróunarlöndunum líti til ráðstefnunnar með von um betra líf og þeir leiðtogar sem mæti á ráðstefnuna skuldbindi sig til að beita sér enn frekar að úrbótum. Íslensk stjórnvöld hafa jafnan ítrekað að árangur ráðstefnunnar verði að skila sér í markvissara átaki í útrýmingu fátæktar og eflingu samskipta þróaðra ríkja og vanþróaðra við uppbyggingu stjórnkerfis er byggi á ábyrgð stjórnenda og virðingu fyrir mannréttindum. Að þessu sögðu má aldrei líta fram hjá því að ábyrgð þróunar verður að liggja hjá stjórnvöldum viðkomandi ríkis.

Aukaallsherjaþing um málefni barna
    
Halda átti aukaallsherjarþing um málefni barna 18.–20. september í New York. Í undirbúningsferlinu sem hófst í ársbyrjun 2001 lagði Ísland áherslu á lykilhlutverk alþjóðasamningsins um réttindi barnsins, jafnréttismál, baráttuna gegn ofbeldi á börnum, forvarnir og meðferðarúrræði fyrir börn vegna vímuefnaneyslu. Búið var að taka ákvörðun um þátttöku frá Íslandi undir forustu félagsmálaráðherra, en fresta varð þinginu vegna hryðjuverkanna 11. september. Nú er áformað að halda þingið 8.–10. maí 2002.
    Leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem fram fer í Jóhannesarborg í september 2002 og undirbúningi íslenskra stjórnvalda vegna þátttöku í honum er gerð skil í kafla 10.1.1.

7.3.     Mannréttindamál
    Mannréttindi eru óaðskiljanlegur hluti alþjóðastjórnmála en ekki einkamál sérhverrar þjóðar. Mannréttindi eru í eðli sínu altæk, ekkert ríki getur hafnað alþjóðlegum afskiptum af mannréttindamálum sínum í skjóli þess að um innanríkismál sé að ræða og ekki er lengur um það deilt að það er á ábyrgð alþjóðasamfélagsins alls að tryggja virðingu fyrir mannréttindum.
    Ísland leggur sérstaka áherslu á mannréttindi í málflutningi sínum hjá Sameinuðu þjóðunum, einkum réttindi kvenna og barna, og er leitast við að taka sem virkastan þátt í starfi Sameinuðu þjóðanna á þessu sviði. Utanríkisráðherra hefur fjallað um þau mál sérstaklega í ræðum sínum á allsherjarþinginu. Þá hefur Ísland á farsælan hátt tengt málefni kvenna og friðargæslu með fjármögnun á útsendum íslenskum jafnréttissérfræðingum til að starfa fyrir UNIFEM í Kosóvó (sjá kafla 5.1.3).

7.3.1.     Mannréttindi og alþjóðlegir samningar
    Í samræmi við mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og yfirlýsingu og framkvæmdaáætlun mannréttindaráðstefnunnar í Vínarborg árið 1993 leggja íslensk stjórnvöld áherslu á að tryggja beri mannréttindi um allan heim óháð svæðisbundnum aðstæðum, t.d. stjórnarfari og menningu, félagslegu umhverfi eða trúarbrögðum. Efling mannréttinda er órjúfanlegur hluti af starfi Sameinuðu þjóðanna í þágu friðar og öryggis. Ísland mun sem fyrr leggja áherslu á að styðja baráttuna fyrir alþjóðlegum mannréttindum, sem er samofin baráttunni gegn fátækt, kúgun og ófriði. Starf Sameinuðu þjóðanna á sviði mannréttinda hefur styrkst frekar með sérstöku embætti mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna. Þetta sést glöggt þegar litið er til allra þeirra alþjóðasamninga um mannréttindi sem hafa verið gerðir á vettvangi stofnunarinnar. Nýverið fullgilti Ísland tvær viðbótarbókanir við alþjóðasamninginn um réttindi barnsins og var eitt af fyrstu ríkjum til að gera svo. Þessar bókanir varða annars vegar þátttöku barna í vopnuðum átökum og hins vegar sölu á börnum, barnavændi og barnaklám.
    Ísland sem og önnur aðildarríki Sameinuðu þjóðanna skilar reglulega skýrslum til samtakanna á grundvelli alþjóðlegra mannréttindasamninga. Í október 2001 skilaði Ísland þriðju skýrslu sinni um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Í nóvember 2001 var annarri skýrslu Íslands skilað á grundvelli samningsins gegn pyntingum og annarri grimmilegri og vanvirðandi meðferð. Í janúar 2002 gerðu fulltrúar íslenskra stjórnvalda grein fyrir þriðju og fjórðu skýrslu Íslands á grundvelli alþjóðasamningsins um afnám alls misréttis gegn konum fyrir kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna í New York. Í júlí 2002 verður fimmtu skýrslu Íslands skilað á grundvelli samningsins um afnám alls misréttis gegn konum og í október 2003 á að skila fjórðu skýrslu Íslands á grundvelli samningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.
    Af hálfu Íslands hefur enn fremur verið lögð rík áhersla á að ákvæði Genfarsáttmálanna og viðbótarbókana við þá um vernd særðra og sjúkra, stríðsfanga, óbreyttra borgara og fórnarlamba staðbundinna vopnaðra átaka verði virt. Þess má geta að Ísland hefur eitt fárra ríkja stutt samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyntingum með fjárframlögum. Slíkum stuðningi verður haldið áfram. Jafnframt hafa Norðurlöndin eindregið stutt málefni frumbyggja á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Stefnt er að því að slíkt verði einnig gert með fjárframlögum.
    Ný ályktun var samþykkt á 56. allsherjarþinginu um gerð alþjóðasamnings gegn einræktun manna. Sett var á fót nefnd til að kanna grundvöllinn fyrir gerð slíks samnings. Nefndin kom saman í lok febrúar og er strax ljóst að töluverður ágreiningur ríkir um hversu víðtækur samningurinn á að vera. Norðurlöndin hafa lagt áherslu á að samningurinn verði takmarkaður við einræktun manna til að hraða málinu sem talið er brýnt í ljósi framþróunar á sviði vísinda. Gera má ráð fyrir að málið verði erfitt viðureignar en það er aftur á dagskrá næstkomandi haust.

7.3.2.     Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna í Genf
    Mannréttindamál eru einn allra mikilvægasti hluti af starfsemi Sameinuðu þjóðanna í Genf. Veruleg styrking hefur orðið á starfi mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, auk þess sem öll aðstaða mannréttindaskrifstofunnar hefur verið bætt verulega. Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna heldur sex vikna þing á vori hverju og í ráðinu eiga 53 ríki sæti hverju sinni. Eftir þriggja ára setu Noregs í ráðinu hefur Svíþjóð nú tekið sæti Norðurlandanna til næstu þriggja ára. Á 57. þingi mannréttindaráðsins 2001 átti Ísland meðflutningsaðild að 37 ályktunartillögum. Dagana 18. mars til 26. apríl 2002 verður 58. þing mannréttindaráðsins haldið í Genf. Sem fyrr verður fylgst náið með tillöguflutningi í ráðinu og Ísland mun gerast meðflytjandi að þeim ályktunartillögum sem styrkt geta þróun alþjóðlegra mannréttinda og mannréttindasamninga. Á þinginu verða væntanlega ræddar og afgreiddar tillögur um margvíslegar endurbætur á starfi mannréttindaráðsins. Á vegum mannréttindaráðsins starfa nú 13 sérstakir fulltrúar sem ætlað er að fylgjast með stöðu mannréttindamála í nokkrum löndum þar sem mannréttindi eru hvað lökust. Einnig hefur sérstökum fulltrúum ráðsins verið falið að kanna stöðu mannréttinda í hinum ýmsu málaflokkum óháð landsvæðum. Allir þessir einstaklingar og/eða vinnuhópar skila skýrslum til þingsins til umfjöllunar.

7.3.3.     Stofnun Alþjóðasakamáladómstólsins
    Ísland varð hinn 25. maí 2000 tíunda ríkið til að fullgilda Rómarsamþykktina um Alþjóðlega sakamáladómstólinn sem gerð var á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í júlí 1998. Dómstóllinn hefur það hlutverk að dæma í málum einstaklinga sem grunaðir eru um alvarlegustu glæpi gegn mannkyninu, þ.e. hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði. Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn er varanlegur og hefur almenna lögsögu og er því frábrugðinn alþjóðastríðsglæpadómstólunum í málefnum fyrrum Júgóslavíu og Rúanda sem hafa takmarkaða lögsögu bæði í tíma og rúmi. Dómstóllinn hefur sjálfvirka lögsögu í málum er undir hann heyra, þ.e. óháða sérstöku samþykki viðkomandi ríkja. Skilyrði er þó að annaðhvort þegnríki sakbornings eða ríkið þar sem hið meinta brot var framið sé aðili að samþykktinni. Stofnun Alþjóðlega sakamáladómstólsins er eitt mikilvægasta framlag til mannréttindaverndar og friðar í heiminum frá stofnun Sameinuðu þjóðanna, en unnið hefur verið að stofnun slíks dómstóls allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Hinn 12. mars 2002 höfðu 55 ríki fullgilt Rómarsamþykktina en hún mun öðlast gildi tveimur mánuðum eftir að 60 ríki hafa fullgilt hana. Er þess vænst að unnt verði að halda fyrsta aðildarríkjafund samþykktarinnar í New York í september 2002 og að dómstóllinn muni taka til starfa á árinu 2003. Hann mun hafa aðsetur í Haag.

7.4.     Málefni Palestínu í brennidepli
    Allt frá því að allsherjarþingið samþykkti ályktun nr. 181 árið 1947 um skiptingu Palestínu hefur ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs verið eitt af erfiðustu viðfangsefnum Sameinuðu þjóðanna. Átökin í Mið-Austurlöndum eru sífellt til umfjöllunar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, nú síðast með samþykkt ályktunar nr. 1397 frá 12. mars 2002, þar sem lýst er yfir stuðningi við stofnun sérstaks ríkis Palestínu. Þetta er í fyrsta skipti sem öryggisráðið lýsir yfir stuðningi við stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínu. Arabaríkin hafa ítrekað síðastliðið ár lagt til að eftirlitsveitir verði sendar á herteknu svæðin en Bandaríkjamenn hafa ekki ljáð máls á því. Þeir telja slíkar aðgerðir ekki til þess fallnar að bæta ástandið og hafa beitt neitunarvaldi sínu í öryggisráðinu gegn slíkum tillögum.
    Síðan núverandi uppreisn Palestínumanna hófst 28. september 2000 hafa verið haldnir tveir neyðarfundir í allsherjarþinginu undir yfirskriftinni „Ólöglegar aðgerðir Ísraelsmanna í hernumdri Austur-Jerúsalem og annars staðar á hernumdu svæðunum“. Á seinni fundinum 20. desember sl. voru samþykktar tvær ályktanir. Annars vegar ályktun sem krafðist þess að öllu ofbeldi linnti, að tillögur Mitchell-nefndarinnar yrðu framkvæmdar og að utanaðkomandi sveitir hefðu eftirlit með vopnahléi. Hins vegar var samþykkt ályktun sem kveður á um að fjórði Genfarsamningurinn gildi um óbreytta borgara á hernumdu svæðunum.
    Frá haustinu 2000 hefur stjórnmálaþróunin í Mið-Austurlöndum einkennst af átökum og ófriði. Ekkert lát hefur verið á ofbeldinu og öryggisleysinu á svæðinu. Á sl. 18 mánuðum hafa um 1.400 Palestínumenn og Ísraelsmenn látið lífið í þeirri ógnaröld sem ríkt hefur. Ofbeldi hefur verið svarað með enn meira ofbeldi. Þótt ógnaratburðir undanfarinna mánaða gefi ekki tilefni til mikillar bjartsýni virðist nú vera von um vopnahlé.
    Krafa alþjóðasamfélagsins er að deiluaðilar fallist tafarlaust á vopnahlé og hefji strax, án nokkurra skilyrða, samningaviðræður á grundvelli Mitchell-skýrslunnar frá 30. apríl 2001. Utanríkisráðherra Frakklands hefur einnig lagt fram athyglisverðar tillögur þar sem gert er ráð fyrir því að friðarferlið í Mið-Austurlöndum hefjist með kosningum á heimastjórnarsvæðum Palestínumanna. Jafnframt yrði sjálfstætt ríki Palestínumanna formlega stofnað sem fengi tafarlaust aðild að Sameinuðu þjóðunum og viðurkenningu Ísraels. Abdullah, krónprins Sádi-Arabíu, hefur einnig sett fram athyglisverðar hugmyndir sem hníga í sömu átt og verða ræddar á fundi Arababandalagsins í Beirút í lok mars nk. Þær fela í sér að Ísrael dragi herlið sitt til baka frá þeim svæðum sem hernumin voru í sex daga stríðinu 1967, gegn því að Arabaríkin viðurkenni tilverurétt Ísraelsríkis og eðlileg samskipti komist á milli ríkja í Mið-Austurlöndum.
    Íslensk stjórnvöld fylgjast náið með þróun mála í Mið-Austurlöndum. Afstaða Íslands er skýr og hefur komið fram á norrænum, evrópskum og alþjóðlegum vettvangi. Ísland hefur fordæmt ofbeldisverk Ísraelsmanna og Palestínumanna og krafist þess að deiluaðilar semji um vopnahlé og hefji friðarviðræður sem leiði til stofnunar sjálfstæðs ríkis Palestínu, um leið og öryggi Ísraels verði tryggt. Ljóst er að Ísland mun vart hafa afgerandi áhrif á lausn deilumálanna í Mið-Austurlöndum. Ísraelsmenn og Palestínumenn verða sjálfir að semja um frið. Íslensk stjórnvöld munu hins vegar halda áfram að leggja sitt af mörkum til friðsamlegrar lausnar á átökunum á grundvelli þingsályktunar Alþingis um deilur Ísraelsmanna og Palestínumanna sem samþykkt var samhljóða 18. maí 1989.
    Á 56. allsherjarþinginu kom í ljós að fjárhagsstaða Flóttamannaaðstoðar Palestínumanna (UNRWA) er orðin mjög slæm þar sem verkefni hennar á hernumdu svæðunum hafa aukist í samræmi við hríðversnandi ástand. Hjá talsmönnum stofnunarinnar hefur komið fram að henni væri gert erfitt um vik að sinna störfum sínum á hernumdu svæðunum vegna framgangs Ísraelsmanna, sérstaklega vegna útgöngubanns og annarra takmarkana sem settar hafa verið á ferðafrelsi. Með hliðsjón af uggvænlegri þróun mála fyrir botni Miðjarðarhafs ákvað utanríkisráðuneytið í lok árs 2001 að veita um 3,0 m.kr. til starfsemi UNRWA til aðstoðar palestínskum flóttamönnum.
    Utanríkisráðherra hefur verið boðið að heimsækja Palestínu og Ísrael. Í athugun er að af heimsókn ráðherra geti orðið fljótlega.

8.     SVÆÐISBUNDIN SAMVINNA OG STOFNANIR
8.1.     Evrópuráðið
    Starfsemi og vægi Evrópuráðsins hefur aukist stórlega undanfarinn áratug. Evrópuráðið hefur breyst frá því að vera samtök 17 vestrænna ríkja sem bundust samtökum um að stuðla að lýðræði, mannréttindum, félagslegum réttindum og framförum eftir bitra reynslu seinni heimsstyrjaldarinnar. Í dag eru aðildarríkin orðin 43 talsins. Stækkun Evrópuráðsins hefur leitt til þess að starfsemi þess er mun pólitískari en áður og til vitnis um það má nefna stóraukna tíðni funda í ráðherranefndinni sem er skipuð fastafulltrúum og staðgenglum utanríkisráðherra. Sérsvið Evrópuráðsins á vettvangi mannréttindamála, lýðræðis- og menningarmála er virt og viðurkennt af öðrum alþjóðastofnunum.
    Stækkunarferli Evrópuráðsins hófst eftir lok kalda stríðsins og hafa hin nýju ríki austanverðrar Evrópu sótt styrk til aðildar að Evrópuráðinu til að festa réttarríkið í sessi og styrkja lýðræðislega stjórnarhætti og mannréttindi. Evrópuráðið ákvað á sínum tíma að veita nýjum aðildarríkjum aðild án þess að þau stæðust grundvallarkröfur aðildar í veigamiklum atriðum, í því skyni að aðstoða við og flýta fyrir nauðsynlegum umbótum. Mörg nýju aðildarríkjanna líta á aðild að Evrópuráðinu sem grundvöll fyrir aðildarumsókn að Evrópusambandinu, enda gerir ESB það nánast að skilyrði að umsóknarríkin standist kröfur Evrópuráðsins. Það er einnig mikilvægt fyrir framtíð og trúverðugleika Evrópuráðsins að vel takist til með aðlögun nýju aðildarríkjanna og að þau standi við aðildarskuldbindingar sínar. Evrópuráðið hefur sett á fót umfangsmikið eftirlits- og stoðkerfi fyrir ný aðildarríki til að sjá til þess að þau standi við samningsbundnar skyldur sínar. Auk þessa fer sérstök nefnd með eftirlit í Armeníu og Aserbaídsjan og Feneyjanefnd Evrópuráðsins veitir ráðgjöf um stjórnarfar og réttarfar þegar eftir því er leitað. Eftirlitshlutverkið er þannig orðið helsti og umfangsmesti þáttur pólitískrar starfsemi Evrópuráðsins og er drjúgur hluti af starfsemi ráðherranefndar og undirnefnda hennar. Sá þrýstingur, sem eftirlit Evrópuráðsins skapar, hefur borið umtalsverðan árangur og hraðað verulega uppbyggingu lýðræðislegra stjórnarhátta hjá mörgum hinna nýju aðildarríkja. Ísland leggur mjög mikla áherslu á, ásamt ýmsum öðrum aðildarríkjum, að ný aðildarríki standi við tímasetningar og taki fullt tillit til athugasemda eftirlitsstofnana Evrópuráðsins. Áhyggjuefni hefur verið að einstök nýju aðildarríkjanna hafa ekki staðið við mikilvæg grundvallaratriði í aðildarskuldbindingum sínum.

Mannréttindadómstóll Evrópu
    
Sérstaklega hefur verið stutt við starfsemi Mannréttindadómstóls Evrópu, endurskipulagningu hans og fjármögnun. Mannréttindadómstóllinn gegnir því hlutverki að framfylgja skuldbindingum samkvæmt alþjóðasamningum Evrópuráðsins. Dómstóllinn tekur fyrir kærur frá einstaklingum, félagasamtökum og ríkjum um brot á samningsskyldum aðildarríkjanna þegar öll önnur úrræði fyrir innlendum dómstólum hafa verið fullreynd. Aðildarríkin eru samningsbundin til að hlýta niðurstöðum dómstólsins og fara eftir þeim, en ráðherranefndin fer með eftirlit með því að dómsúrskurðum sé framfylgt. Starfsálag á dómstólinn hefur vaxið gífurlega undanfarin ár og er nú svo komið að hann annar ekki verkefnum sínum við óbreyttar aðstæður. Ísland var meðal þeirra ríkja sem áttu frumkvæði að því að hefja umfjöllun um endurskipulagningu á innri starfsemi dómstólsins og aukinni fjárveitingu til hans þannig að hann gæti betur sinnt hlutverki sínu, enda er dómstóllinn ein meginstoð Evrópuráðsins. Niðurstaða þessarar endurskipulagningar liggur nú fyrir og mun væntanlega skila tilætluðum árangri strax á næsta ári.

Evrópuráðsþingið
    
Fastanefnd Íslands hefur beitt sér fyrir nánu og góðu samstarfi við þing Evrópuráðsins sem hefur átt frumkvæði að mörgum mikilvægum ákvörðunum ráðherranefndarinnar með ályktunum sínum enda þótt þessir tveir aðilar séu ekki alltaf sammála um einstök málefni. Fastanefndin í Strasbourg hefur átt náið og gott samstarf við íslensku þingmannanefndina sem hefur unnið einkar mikilvægt starf á þinginu. Á næstu árum er ekki ólíklegt að skilgreina þurfi stöðu Evrópuráðsins að nýju meðal Evrópustofnana, þannig að sérhæfing Evrópuráðsins nýtist sem best og til að koma í veg fyrir tvíverknað, einkum á milli Evrópuráðsins og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu.

Þróunarbanki Evrópuráðsins
    
Í bankastjórn Þróunarbanka Evrópuráðsins hefur verið stutt við þá þróun að bankinn snúi sér í auknum mæli að þróunarverkefnum í nýjum aðildarríkjum, sérstaklega á Balkanskaga, um leið og þess er gætt að arðsemi bankans tryggi hæsta mat og lánstraust á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum eins og nú er raunin.

8.2.     Norræn samvinna
    Samstarf og samráð við hin Norðurlöndin hefur alla tíð verið sjálfsagður og mikilvægur hluti utanríkisstefnu Íslands. Utanríkisráðherrar Norðurlanda funda að jafnaði tvisvar á ári og halda auk þess einn fund á ári með utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna þriggja. Auk ráðherrasamstarfs hafa embættismenn utanríkisráðuneyta og sendiskrifstofa Norðurlandanna gott og náið samstarf og samráð varðandi flesta málaflokka sem undir ráðuneytin heyra.
    Mikilvægi Norðurlandasamstarfsins kemur best í ljós þegar það er skoðað með tilliti til annarra þátta utanríkisstefnu Íslands. Í ræðu utanríkisráðherra á Alþingi í mars 2001 var lögð sérstök áhersla á stöðu Íslands með tilliti til hnattvæðingar og aukinnar þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Þar kom fram að náið samstarf Norðurlanda er innan alþjóðastofnana, t.d. ÖSE, Evrópuráðsins, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, Alþjóðabankans og OECD. Í öllum borgum þar sem íslensk sendiráð og fastanefndir eru til staðar taka íslenskir sendierindrekar þátt í norrænum samráðsfundum og eru þeir utanríkisþjónustunni ómetanlegir. Ljóst er að í mörgum tilvikum byggir aukin og virkari þátttaka Íslands á alþjóðavettvangi á samstarfi og samráði við hin Norðurlöndin. Í því sambandi nægir að nefna framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 2009–2010, framboð fulltrúa Íslands til setu í framkvæmdastjórn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar 2003–2006. Möguleikar Íslands á að ná kosningu eru í báðum tilvikum meiri vegna þess að framboðin hafa stuðning Norðurlandanna og eiga embættismenn utanríkisþjónustunnar náið samstarf við norræna starfsbræður varðandi kynningu og öflun stuðnings við þau.
    Norðurlandasamstarfið er ekki síður mikilvægt með tilliti til Evrópumálanna. Í mörgum tilvikum getur Ísland nýtt sér langa hefð Norðurlandasamstarfs til þess að miðla upplýsingum eða afla upplýsinga í gegnum Norðurlöndin þrjú sem aðild eiga að ESB, Danmörku, Svíþjóð og Finnland.

8.3.     Eystrasaltsráðið
    Í ár eru liðin 10 ár frá stofnun Eystrasaltsráðsins. Ísland gerðist aðili að ráðinu árið 1995 og hefur tekið virkan þátt í því síðan. Aðildarríki ráðsins eru Norðurlöndin, Eistland, Lettland, Litháen, Rússland, Þýskaland, Pólland og Evrópusambandið. Margvíslegur ávinningur er fyrir Ísland af þátttöku í ráðinu, en jafnframt hefur Ísland ýmislegt fram að færa og getur miðlað af reynslu og þekkingu. Áherslur Íslands eru einkum á sviði viðskipta-, efnahags-, umhverfis- og félagsmála. Þátttöku í Eystrasaltsráðinu er þannig hagað að utanríkisráðuneytið á fulltrúa í nefnd háttsettra embættismanna ráðsins (CSO) sem fundar reglulega. Þá taka fulltrúar sendiskrifstofa, forstöðumenn ríkisstofnana og sérfræðingar þátt í fundum undirnefnda eftir því sem tilefni er til. Utanríkisráðherrar aðildarríkjanna funda reglulega einu sinni á ári og forsætisráðherrar annað hvort ár. Auk þess eru haldnir aðrir ráðherrafundir um málefni sem eru ofarlega á baugi hjá ráðinu hverju sinni. Á utanríkisráðherrafundi Eystrasaltsráðsins, sem haldinn var í Kaliningrad, Rússlandi, 6. mars sl., var samstaða um að ráðið hefði áorkað miklu á þeim 10 árum sem liðin eru frá stofnun þess. Enn fremur að Eystrasaltsráðið ætti framtíð fyrir sér eftir stækkun ESB árið 2004, þegar Pólland, Eistland, Lettland og Litháen gerast aðilar að Evrópusambandinu. Ljóst er að starfsemi ráðsins mun draga dám af þeirri þróun og efla samstarf við Evrópusambandið sem er fullgildur aðili að Eystrasaltsráðinu. Gert er ráð fyrir að samstarfið muni beinast enn frekar að Rússlandi, einkum Kaliningrad, sem verður nokkurs konar rússneskt eyland í stækkuðu Evrópusambandi. Eystrasaltsráðið hefur lagt á ráðin um hvernig gera beri Kaliningrad að álitlegu viðskiptasvæði, m.a. með tilliti til erlendra fjárfesta. Er þess að vænta að þar geti skapast tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki til að hasla sér völl. Sem stendur er unnið að því að sett verði upp 112 neyðarlínukerfi í nokkrum aðildarríkjum við austanvert Eystrasaltið sem grundvallast á hugbúnaði þróuðum af íslenskum fyrirtækjum. Er þetta hluti af EUROBALTIC samstarfsverkefni Eystrasaltsráðsins sem Evrópusambandið styrkir sérstaklega. Hefur utanríkisráðuneytið komið að málinu með beinum og óbeinum hætti. Þess er vænst að íslenskir aðilar geti tekið að sér forustuhlutverk varðandi undirbúning og uppsetningu á þessu kerfi.

8.4.     Barentsráðið
    Barentsráðið var stofnað í janúar 1993 með það að meginmarkmiði að efla samvinnu og samstarf að sameiginlegum hagsmunamálum þeirra svæða sem liggja að Barentshafinu, þ.e. norðurhluta Noregs, Svíþjóðar og Finnlands og norðvesturhluta Rússlands. Auk framangreindra ríkja eiga Ísland og Danmörk aðild að Barentsráðinu, ásamt framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Sérstakt svæðisráð, sem hefur aðsetur í Kirkenes, starfar undir Barentsráðinu og í því sitja fulltrúar þeirra héraða sem liggja að Barentssvæðinu. Náin samvinna byggða, félaga og fyrirtækja á Barentssvæðinu, m.a. Komi- og Karelíu-lýðveldanna í Rússlandi, einkennir starfsemi svæðisráðsins. Svæðisráðið hefur lagt sérstaka áherslu á að styrkja tengsl fulltrúa norðurhéraðanna og í ár verður höfuðáherslan lögð á samvinnu í æskulýðs- og ferðamálum á svæðinu.
    Eitt af meginmarkmiðum Barentsráðsins á sl. ári var að beita sér fyrir víðtækri almannavarnaræfingu haustið 2001 sem á fjórða þúsund manns tók þátt í. Æfingin þótti hafa tekist vel og bætt samstarf þeirra aðila sem vinna að almannavörnum á Barentssvæðinu. Æfingin var haldin innan ramma Samstarfs í þágu friðar (PFP) og alls tóku fulltrúar 12 ríkja, þar á meðal frá Íslandi, þátt í æfingunni. Á vegum Barentsráðsins starfa auk þess fjölmargir vinnuhópar, svo sem um efnahagssamvinnu, tollamál, skógrækt, samgöngur, umhverfismál, æskulýðsmál, orkumál og heilbrigðismál.
    Lítt hefur miðað í hinum svokölluðu MNEPR-samningaviðræðum um hreinsun geislavirks úrgangs í hinum rússneska hluta Barentssvæðisins (Multilateral Nuclear Environmental Programme for the Russian Federation) sem utanríkisráðherrafundur Barentsráðsins beitti sér fyrir í mars 1999 í framhaldi af verkefni sem Noregur og Bandaríkin höfðu þá þegar hafið í samvinnu við Rússland. Samningsdrög liggja fyrir en enn er deilt um ábyrgðir og skattamál. Fulltrúar Rússlands hafa staðfest að kjarnorkuöryggi væri mjög ofarlega á stefnuskrá rússneskra stjórnvalda og innan Barentsráðsins hafa samningsaðilar ítrekað verið hvattir til að ljúka þessum samningaviðræðum. Mikilvægt er að samningar takist sem fyrst þar sem fjármögnun verkefna á sviði kjarnorkuöryggis í Rússlandi er háð því. Hér er um mikið hagsmunamál að ræða og í samræmi við stefnu Íslands um vernd gegn mengun sjávar og vernd gegn hættum sem umhverfinu stafar af geislavirkum úrgangi .
    Utanríkisráðherrar Barentsráðsins funda nú annað hvort ár en embættismannanefndir ráðsins þess á milli. Svíþjóð gegnir nú formennsku í ráðinu. Stefnt er að því að tíu ára afmælis Barentsráðsins verði minnst með leiðtogafundi á næsta ári.

9.     UTANRÍKISVIÐSKIPTI OG EFNAHAGSSAMVINNA
    Alþjóðavæðingin á rætur sínar í alþjóðlegum viðskiptasamningum sem ríki hafa gert sín í milli á undanförnum áratugum. Óhætt er að segja að alþjóðavæðingin hafi breytt í grundvallaratriðum starfsháttum og uppbyggingu atvinnulífs hér á landi. Má sem dæmi nefna að í auknum mæli horfa fyrirtæki til þess að selja þjónustu og þekkingu ekki síður en vörur í hefðbundnum skilningi. Aukið frjálsræði í viðskiptum hefur einnig skapað greiðari leiðir til fjárfestinga erlendis. Fyrirtæki notfæra sér þetta með því m.a. að koma sér í vaxandi mæli fyrir á svæðum þar sem sérþekking þeirra gefur þeim viðskiptalegt forskot. Er nú svo komið að þjónustuviðskipti vaxa mun hraðar milli landa en vöruviðskipti. Bein fjárfesting Íslendinga erlendis er enn mjög lítil á alþjóðlega mælikvarða og sama gildir um erlendar fjárfestingar hér á landi, sem vaxa hægar en í öðrum aðildarlöndum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).
    Grundvöllur þessarar þróunar eru alþjóðlegir samningar sem m.a. hafa það að markmiði að skapa viðskiptaumhverfi þar sem alþjóðleg fyrirtæki finna sér stað og á sama tíma að örva gagnkvæmar fjárfestingar. Kallar þessi staðreynd á að lagaumhverfi fyrirtækja sé sem mest samræmt og að Ísland taki þátt í þeirri vinnu.
    Ljóst er að til lengri tíma litið er mikilvægt fyrir íslenskt atvinnulíf að horfa í vaxandi mæli á stöðu sína í alþjóðlegu samhengi. Er nauðsynlegt að lagt verði mat á það hvernig íslensk stjórnvöld og íslenskt atvinnulíf geti notfært sér þessar aðstæður og í því efni skilgreint styrkleika sína sérstaklega. Er í því efni nauðsynlegt að leggja frekari áherslu á að skilgreina fyrirfram möguleika á einstökum mörkuðum svo sem í tengslum við gerð fríverslunarsamninga.

9.1.     Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA)
    Meginhlutverk EFTA er þríþætt. Í fyrsta lagi að fjalla um samskipti EFTA-landanna sjálfra á grundvelli stofnsamnings samtakanna. Í öðru lagi að vera aðildarríkjunum vettvangur við gerð fríverslunarsamninga við lönd utan samtakanna og Evrópusambandsins og í þriðja lagi að vera samstarfsvettvangur þeirra þriggja EFTA-ríkja sem eru aðilar að evrópska efnahagssvæðinu. Í öllum tilvikum er hér um að ræða starf sem skiptir Ísland miklu máli.

9.1.1.     EFTA og fríverslunarsamningar
    Á síðustu árum hefur EFTA unnið að því að koma upp neti fríverslunarsamninga við ríki Mið- og Austur-Evrópu samhliða sams konar neti ESB. Með þessu er komið í veg fyrir að íslensk fyrirtæki og fyrirtæki annarra EFTA-landa verði í verri samkeppnisaðstöðu í þessum löndum en fyrirtæki innan ESB. Auk iðnvarnings ná þessir samningar til fríverslunar með sjávarafurðir. Með samningunum leggja ríkin fjögur líka sitt af mörkum við uppbyggingu viðskiptalífs í þessum heimshluta sem er forsenda þess að lýðræði fái að skjóta rótum og stöðugleiki að festast í sessi.
    Aðildarríki Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) hafa á undanförnum árum gert fríverslunarsamninga við 18 ríki. Að auki er samningaviðræðum við Singapúr lokið og nú standa yfir samningaviðræður við fimm önnur ríki, Kanada, Chile, Túnis, Egyptaland og Kýpur. Það er viðurkennt grundvallarmarkmið EFTA-ríkjanna að í öllum fríverslunarsamningum verði fríverslun með sjávarafurðir tryggð.
    EFTA-ríkin hafa nú lokið endurskoðun stofnsáttmála síns og er hann nú til meðferðar á Alþingi en stefnt er að gildistöku hans á vormánuðum. Undirrót þess að ráðist var í þá endurskoðun var ekki síst sú staðreynd að Sviss hefur lokið gerð tvíhliða samninga við ESB á ýmsum þeim sviðum sem stofnsáttmáli EFTA tekur til, svo og EES-samningurinn. Var því nauðsynlegt að tryggja að samræmi væri í þeim reglum er giltu á þessum sviðum, annars vegar milli allra EFTA-ríkjanna og hins vegar milli EFTA-ríkjanna og ESB.
    Gerð fríverslunarsamninga hefur reynst þeim aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) vel sem hafa það sameiginlega markmið að liðka enn betur fyrir viðskiptum en WTO-samningarnir segja til um. Evrópuríkin hafa verið í fararbroddi fríverslunarsamvinnu og gert marga fríverslunarsamninga innbyrðis og við aðra. EFTA-ríkin hafa haft það markmið að tryggja fyrirtækjum sínum sömu markaðsstöðu erlendis og fyrirtæki innan ESB njóta og hafa því fylgt í kjölfar ESB við gerð fríverslunarsamninga. Undantekning frá þeirri reglu eru viðræðurnar við Kanada og Singapúr, en þar tóku EFTA-ríkin fyrsta skrefið á undan ESB.
    Nokkur aðildarríki WTO, þ.m.t. Bandaríkin, Japan og Ástralía hafa almennt verið mótfallin stefnu Evrópuríkjanna í fríverslunarmálum og telja hana grafa undan WTO-samstarfinu, en ríki Evrópu hafa mælt fyrir tvíhliða fríverslunarsamningum þar sem þeir ýti undir frekari fríverslun í heiminum og hvetji þau ríki WTO sem vilja ganga skemur til að breyta stefnu sinni.
    Upp á síðkastið hefur orðið nokkur breyting á stefnu framangreindra ríkja og hafa Bandaríkin hafið fríverslunarviðræður við nokkur ríki utan Norður Ameríku, þ.m.t. Chile og Singapúr, og nú nýlega lýstu Bandaríkjamenn því yfir að þeir vildu semja um fríverslun við Suður-Afríku. Afar erfitt er fyrir Bandaríkin og ESB að semja um fríverslun sín á milli að svo stöddu. Japan er einnig að þreifa fyrir sér og hefur undirritað sinn fyrsta fríverslunarsamning við Singapúr.
    Um er að ræða mikilvæga útflutningsmarkaði fyrir Ísland og önnur EFTA-ríki. EFTA fylgist því vel með þróuninni og heldur sambandi við þessi ríki með það að markmiði að nýta öll tækifæri sem gefast til að semja um fríverslun. Þótt oft og tíðum kunni að vera um að ræða markaðssvæði sem þá stundina teljist ekki ofarlega á forgangslista útflytjenda er nauðsynlegt að hafa í huga að samningarnir skapa tækifæri sem ávallt standa opin útflytjendum skapist forsendur til að nýta þau. E.t.v. er þróun viðskipta við ríki Mið- og Austur-Evrópu að undaförnu gott dæmi um þetta þar sem veruleg aukning hefur orðið í viðskiptum milli ára.

9.2.     Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO)
9.2.1.     WTO og viðskiptahagsmunir Íslands
    Alþjóðaviðskiptastofnunin (World Trade Organisation, WTO) sem setur grundvallarreglur um alþjóðaviðskipti hefur ekki síst mikla þýðingu fyrir opin og lítil hagkerfi. Því skiptir máli fyrir Ísland að leitast verði við að laga alþjóðlega viðskiptakerfið að breyttum aðstæðum og styrkja þannig að það svari sem best þörfum heimsbúskaparins og milliríkjaverslunar á hverjum tíma. Endurbættar alþjóðareglur um heimsviðskipti treysta réttarstöðu smærri ríkja sem verða að geta reitt sig á að alþjóðlegar skuldbindingar ráði meiru en aflsmunur í milliríkjaverslun.
    Samningar um frekara frelsi í alþjóðaviðskiptum hafa jákvæð áhrif heimsbúskapinn og þar af leiðandi betra efnahagsumhverfi og bætt viðskiptakjör fyrir Ísland sem önnur lönd. WTO gegnir einnig mikilvægu hlutverki í að stuðla að þróun fátækari ríkja og umbreytingu hagkerfa frá miðstýringu í markaðsbúskap. Íslensk stjórnvöld hafa því eindregið stutt að hafnar verði nýjar og umfangsmiklar viðræður um sem flest svið alþjóðaviðskipta. Rannsóknir sýna einnig að smærri hagkerfi eru oft betur í stakk búin til að nýta sér þau tækifæri sem aukin alþjóðavæðing hefur í för með sér.
    Á ráðherrafundi stofnunarinnar í Seattle í desember 1999 var reynt að ýta úr vör nýrri lotu viðræðna. Ætlunarverkið mistókst af ýmsum ástæðum. Hins vegar náðist samkomulag á fundi aðildarríkjanna 142 sem haldinn var í Doha í Katar, dagana 9. til 14. nóvember 2001, um að hefja nýjar samningaviðræður um alþjóðaviðskipti, í því skyni að draga enn frekar úr viðskiptahömlum og fella fleiri svið viðskipta undir alþjóðlegar reglur. Viðræðurnar verða víðtækar og snerta íslenska hagsmuni á marga vegu. Gert er ráð fyrir að samningalotunni ljúki á þremur árum.
    Ísland hefur tryggt viðskiptahagsmuni sína í Evrópu með þátttöku sinni í hinu Evrópska efnahagssvæði (EES), Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) og í fríverslunarsamningum EFTA við ýmis þriðju ríki sem ekki eru aðilar að Evrópusambandinu. WTO er því mikilvægur vettvangur til að tryggja íslenska hagsmuni sérstaklega fyrir utan Evrópu, t.d. með því að bæta markaðsaðgang fyrir íslenskar útflutningsvörur. Einnig nýtast samningaviðræður á vettvangi WTO til að fjalla um málefni þar sem EES-samningurinn hefur ekki dugað til, t.d. ríkisstyrki í sjávarútvegi. Ísland hefur því sóknarhagsmuni á flestum þeim sviðum sem væntanlegar viðræður ná til.

9.2.2.     Helstu málefni nýrrar samningalotu WTO
    Viðræður um landbúnaðarviðskipti, sem verða einn af lykilþáttum nýrrar lotu, munu knýja á um frekari aðlögun íslensks landbúnaðar að erlendri samkeppni í formi aukins markaðsaðgangs og strangari reglna um stuðning ríkisvalds.
    Í öllum undirbúningi fyrir viðskiptalotuna hafa kröfur og sjónarmið þróunarríkjanna gefið sterkan undirtón enda eru þau í miklum meiri hluta aðildarríkjanna og því mikill áhrifavaldur um framvinduna. Rík áhersla hefur því verið lögð á að koma til móts við sjónarmið þeirra. Þetta verður gert með sérreglum og undanþágum varðandi ýmsa samninga WTO, aukinn markaðsaðgang fyrir þær vörur sem þau hafa sérstaka hagsmuni af og með aukinni tækniaðstoð. Hvað Ísland varðar gæti þetta þýtt lækkun tolla á ákveðnum vöruflokkum, svo sem vefnaðarvörum og hugsanlega ákveðnum búvörum. Að auki má gera ráð fyrir útgjöldum vegna tækniaðstoðar við þróunarríki.
    Ísland hefur leitt hóp aðildarríkja WTO sem telja aðkallandi að semja sérstaklega um afnám ríkisstyrkja í sjávarútvegi. Þessi ríki hafa verið sammála um að sérstaklega þurfi að taka á ríkisstyrkjum í sjávarútvegi þar sem þeir trufli viðskipti, stuðli að ofveiði og vegna þess að þeir grafi undan aðlögun þróunarríkja að hinu alþjóðlega viðskiptaumhverfi. Það er því markverður árangur að kveðið er á um samningaviðræður um þennan málaflokk í nýju viðræðulotunni. Björninn er hins vegar ekki unninn því stjórnvöld þurfa að sjálfsögðu að skilgreina hagsmuni Íslands nánar og fylgja þeim eftir nú þegar eiginlegar viðræðurnar hefjast.
    Ljóst er því að samningaviðræðurnar eru mikilvægar fyrir viðskiptahagsmuni Íslands og gera verður ráð fyrir að nánast öll ráðuneyti taki þátt í þeim. Hér á eftir er gerð stutt grein fyrir helstu þáttum viðræðnanna.

Landbúnaður
    
Í viðræðunum verður haldið áfram að semja um frekara frelsi í landbúnaðarviðskiptum með lækkun tolla auk þess að dregið verði úr innanlandsstuðningi. Að sama skapi skal taka mið af byggðastefnu, umhverfisþáttum, fæðuöryggi og hollustu. Gera má ráð fyrir að sótt verði hart að háum innflutningstollum og framleiðslutengdum ríkisstyrkjum. Viðskipti með landbúnaðarafurðir hafa á síðustu áratugum verið eitt helsta deiluefnið á vettvangi WTO þar sem tekist er á um hversu langt eigi að ganga í auknu frelsi á þessu sviði. Þau ríki sem knýja á um aukið frelsi í þessum málaflokki telja engin rök fyrir því að mismuna beri landbúnaði í hinu alþjóðlega viðskiptakerfi, þ.e. að hann eigi að njóta sérreglna sem heimili ríkjum að styrkja hann og vernda fyrir samkeppni. Andstæðingar þeirra benda hins vegar á að landbúnaður gegni fjölbreyttu þjóðfélagslegu hlutverki og því sé ekki hægt gera landbúnaðinn berskjaldaðan fyrir sviptivindum frjálsra viðskipta.
    Ísland hefur skipað sér í hóp þeirra ríkja sem hafa viljað fara varlega í því umbótaferli landbúnaðarviðskipta sem hófst með stofnsetningu WTO. Um leið og því hefur verið lýst yfir að Ísland styðji langtímamarkmið um aðlögun íslensks landbúnaðar að hinu alþjóðlega viðskiptaumhverfi í samræmi við landbúnaðarsamninginn hefur á það verið lögð áhersla að taka verði tillit til þátta sem ekki væru viðskiptalegs eðlis í umbótaferlinu, einkum byggðasjónarmiða, umhverfismála og fæðuöryggis. Einnig hefur verið á það bent að vegna einangrunar landsins og sérstöðu hvað varðar sjúkdómaástand búfjárstofna væri nauðsynlegt að gera ríkar kröfur til heilbrigðis og um sjúkdómavarnir í innflutningi búvara. Má búast við því að niðurstaða samninga feli í sér strangari kröfur um ríkisstyrki til landbúnaðar og aukinn markaðsaðgang með lækkun tolla og útvíkkun eða afnámi tollkvóta. Einnig má gera ráð fyrir afnámi útflutningsstyrkja sem er ekki sérstakt vandamál fyrir íslensk stjórnvöld sem hafa aflagt slíka styrki.

Þjónustuviðskipti
    
Í viðskiptalotunni verður haldið áfram viðræðum um alla þætti þjónustuviðskipta með það að markmiði að auka frjálsræði í þessum viðskiptum og leggja af hvers kyns hömlur. Þar má nefna ýmsa sérfræðingaþjónustu, fjarskipti og samgöngur.
    Þjónustuviðskipti eru einn helsti vaxtarbroddur í milliríkjaviðskiptum iðnríkja, þ.m.t. Íslands. Gjaldeyristekjur íslenska þjóðarbúsins af þjónustuviðskiptum námu árið 2000 35,7% af heildargjaldeyristekjum þjóðarinnar (samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands) og hefur hlutfallið vaxið jafnt og þétt undanfarin ár. Viðræðurnar eru því mikilvægar fyrir íslenska viðskiptahagsmuni og eiga flest ráðuneyti erindi að reka í þeim.

Markaðsaðgangur
    
Hafnar verða samningaviðræður um lækkun tolla á iðnaðarvörum, þ.m.t. sjávarafurðum. Jafnframt verði dregið úr öðrum viðskiptahindrunum eða þær afnumdar. Enn eru innheimtir tollar á þeim vörum sem Ísland flytur út. Þar eru sjávarafurðir mikilvægastar og Ísland mun leggja áherslu á fríverslun með sjávarafurðir. Ýmsar iðnaðarvörur eru einnig mikilvægar, t.d. ál, kísiljárn, lyf, veiðarfæri og vélar og tæki til fiskvinnslu. Gott samráð stjórnvalda við útflytjendur um áherslur í samningaviðræðunum er nauðsynlegt.

Hugverk í viðskiptum og aðgangur að lyfjum
    
Á fundinum í Doha var samþykkt sérstök yfirlýsing um aðgang þróunarríkja að nauðsynlegum lyfjum. Yfirlýsingin felur m.a. í sér viðurkenningu á rétti aðildarríkja til að veita leyfi til tímabundinnar framleiðslu á lyfjum sem háð eru einkaleyfi fram hjá einkaleyfishafa, í þeim tilfellum þegar neyðarástand ríkir. Í því sambandi er mikilvægt að viðurkenndur er réttur ríkja til að ákveða hvenær neyðarástand ríkir. Einnig er viðurkennt að aðildarríki WTO með litla framleiðslugetu í lyfjaiðnaði geti staðið frammi fyrir erfiðleikum með að nýta sér tímabundin framleiðsluleyfi, samkvæmt samningnum um hugverk í viðskiptum (TRIPS-samningurinn). Fátækustu ríkjunum sem nú eru aðilar að WTO er ekki skylt að framkvæma ákveðna þætti samningsins fyrr en 1. janúar 2016.

Fjárfestingar, samkeppni og einföld tollmeðferð
    
Samningaviðræður verða hafnar um þrjú ný mál á vettvangi WTO eftir næstu ráðherrastefnu sem haldin verður í Mexíkó innan tveggja ára. Þessi mál eru um frelsi til fjárfestinga og alþjóðlegar reglur til verndar fjárfestum, samræmdar samkeppnisreglur og um leiðir stjórnvalda til að einfalda tollmeðferð.

Gagnsæi í opinberum innkaupum
    
Hafnar verða samningaviðræður um gerð samnings um gagnsæi í opinberum innkaupum þar sem sérstaklega verður tekið tillit til þarfa þróunarríkja og fátækustu ríkjanna.

Reglur um undirboð og ríkisstyrki, þ.m.t. í sjávarútvegi
    
Samið verður um að skýra og bæta ákvæði um undirboð og aðgerðir gegn þeim og ríkisstyrki. Sérstaklega verður tekið á ríkisstyrkjum í sjávarútvegi. Ísland ásamt fleiri ríkjum átti frumkvæði að þessu máli og leiddi það í undirbúningi fyrir ráðherrastefnuna. Á það var bent að þegar ríkisstyrkir í sjávarútvegi skaða viðskiptahagsmuni hafa þeir sjálfkrafa þær hliðarverkanir að þeir stuðla að ofveiði og skaða því umhverfið.

Umhverfismál
    
Ákveðið er að hefja samningaviðræður um tvö málefni er varða viðskipti og umhverfismál. Í fyrsta lagi verður samið um þjóðréttarlega stöðu alþjóðlegra umhverfissamninga gagnvart reglum WTO og þann möguleika að upp geti komið mótsögn á milli réttarstöðu alþjóðlegara umhverfissamninga og WTO reglna og því þurfi að móta reglur um tengsl þessa tveggja sviða þjóðaréttar. Samið verður m.a. um regluleg samskipti milli nefnda WTO og þeirra skrifstofa sem reka alþjóðlega umhverfissamninga. Í öðru lagi verður samið um afnám tolla á umhverfisvænar vörur og þjónustu. Sérstaklega er tekið fram, að kröfu þróunarríkja, að samningaviðræðurnar geti ekki leitt til nýrra skuldbindinga eða breytt þeim sem fyrir eru undir gildandi samningum WTO.
    Þar sem fjallað er um viðskipti og umhverfismál í yfirlýsingunni er vísað til að ákveðið er annars staðar í yfirlýsingunni að semja sérstaklega um ríkisstyrki í sjávarútvegi.
    Nefnd WTO um viðskipti og umhverfi er falið að halda áfram störfum sínum samkvæmt gildandi umboði og gefa samninganefndum leiðbeiningar um hvernig þær geti tekið tillit til tengsla viðskipta og umhverfismála. Henni er falið að skoða sérstaklega þrjú meginmálefni. Í fyrsta lagi þegar afnám viðskiptahindrana stuðlar að bættri umgengni um umhverfið og greiðir fyrir aðlögun þróunarríkja að alþjóðlega viðskiptaumhverfinu. Í undirbúningi fyrir ráðherrastefnuna byggði rökstuðningur Íslands fyrir því að ræða ætti sérstaklega afnám ríkisstyrkja í sjávarútvegi á því að afnám þeirra stuðlaði einnig að bættri umgengni við umhverfið og hraðari aðlögun þróunarríkja að viðskiptaumhverfinu. Í öðru lagi er nefndinni falið að líta á viðeigandi ákvæði samningsins um höfunda og hugverkaréttindi og í þriðja lagi vörumerkingar sem stuðla að umhverfisvernd.

Rafræn viðskipti
    
Ákveðið var að viðhalda toll- og gjaldfrelsi í rafrænum viðskiptum í það minnsta fram að fimmtu ráðherrastefnu WTO í Mexíkó á næsta ári. Vinnuáætlun um rafræn viðskipti á vettvangi WTO verði haldið áfram. Í framhaldi er aðalráði WTO falið að finna viðeigandi farveg fyrir vinnuáætlunina og skila stöðuskýrslu til fimmtu ráðherrastefnu WTO.
    
Þróunarríkin
    
Sex fyrirsagnir í yfirlýsingu ráðherra þjóna hagsmunum þróunarríkja. Þær varða lítil efnahagskerfi, viðskipti, skuldir og fjármál, viðskipti með tækni til þróunarríkja, tæknilega samvinnu og uppbyggingu tækni í þróunarríkjum, vanþróuðustu ríkin og sérmeðferð fyrir þróunarríki. Markmiðið er að þróunarríkin aðlagist betur að alþjóðlega viðskiptaumhverfinu svo þau geti nýtt sér frelsi í viðskiptum til að bæta velferð og hag þegna sinna. Þetta skuldbindur iðnríkin, þ.m.t. Ísland, til að veita þeim sérmeðferð í viðskiptum og aðstoða þau við að ráða yfir þeirri tækni sem til þarf. Fastafulltrúi Íslands í Genf er formaður í þeirri nefnd sem fjallar um viðskipti og tækni.

Aðild Kína og Taívan að WTO
    
Kína, ásamt Taívan, bættist í hóp aðila að WTO á ráðherrastefnunni í Doha. Þar með eru aðilar orðnir 144. Þetta er mikilvægur áfangi í sögu WTO og staðfestir þann ávinning sem ríki telja sig hafa af þátttöku í störfum stofnunarinnar. Í aðildarviðræðum Kína að WTO sömdu Ísland og Kína um lækkun tolla á mikilvægum sjávarafurðum. Í tollskrá Kína eru 152 vöruflokkar fyrir sjávarafurðir og samdi Ísland um lækkun tolla á 52 þeirra. Kína innheimtir allt að 30% toll í innflutningi á sjávarafurðum. Ísland náði mikilvægum samningum um að tollar verði 2–16% á flestar sjávarafurðir sem Ísland flytur út og allar sem eru mikilvægar á markaði Kína.

9.3.     Efnahags- og framfarastofnunin (OECD)
    Auk hinnar hefðbundnu starfsemi OECD á sviði efnahags- og þjóðfélagsmála hefur stofnunin nú ráðist í nokkur viðamikil verkefni sem munu setja mark sitt á starfsemi hennar á næstu árum. Hér verður gerð grein fyrir þeim helstu.
9.3.1.     Innri málefni OECD
    Fyrirséð er að jafnvel strax árið 2004 muni þurfa að fjölga aðildarríkjum OECD um allt að átta ríki vegna stækkunar ESB. Fulltrúar ESB hafa lýst því yfir að þeir álíti að aðild nýs ríkis að ESB hljóti að hafa í för með sér sjálfkrafa aðild að OECD því annars væri verið að mismuna aðildarríkjum ESB. Þessu til viðbótar gæti svo farið að í framtíðinni geti aðildarríki orðið allt að 60 að tölu, því auk fjölgunar Evrópuríkjanna muni Suður-Ameríkuríki, ríki Suðaustur-Asíu, Ísrael, Suður-Afríka, Kína og Rússland verða meðal umsækjenda um aðild. Þessi veruleiki mun gerbreyta eðli og verkefnum samtakanna og við því þarf að bregðast með því að hefja endurskipulagningu þeirra.
    Niðurstaða ráðherrafundar WTO í Doha í nóvember um að hefja nýja lotu samningaviðræðna um heimsviðskiptin mun hafa víðtæk áhrif á framtíðarverkefni OECD. Í Úrúgvæviðræðunum, sem lauk 1993 og leiddu til stofnunar WTO, voru starfsliði OECD falin víðtæk verkefni til stuðnings samningaferlinu. Það er trú og vilji aðildarríkja OECD að sagan muni nú endurtaka sig og vissulega mun OECD gegna mikilvægu hlutverki í skjóli sérfræðiþekkingar sinnar við greiningu ýmissa þátta sem gagnast samningsaðilum í Genf.

9.3.2.     Helstu verkefni á vettvangi OECD
Ríkisstyrkir í sjávarútvegi
    
Á síðasta ráðherrafundi OECD, sem haldinn var í maí 2000, rataði tiltekið ákvæði um ríkisstyrki í sjávarútvegi og samþykkt um frekari greiningarvinnu OECD í þeim efnum, inn í yfirlýsingu fundarins. Ísland, stutt af m.a. Ástralíu, Bretlandi, Bandaríkjunum, Hollandi, Nýja-Sjálandi og Noregi, bar talsverða ábyrgð á þessari samþykkt og var af þeim sökum litið til þess um næsta leik þegar kom að því að ræða framkvæmd þessa ákvæðis. Þá lá ljóst fyrir að það mundi koma í hlut fiskimálanefndar OECD að annast framkvæmd þessa máls. Af þeim sökum var leitað eftir tillögum um framkvæmd ákvæðisins. Ísland reið á vaðið og lagði fram tillögu er fól í sér að OECD mundi vinna frekar eldri greiningu sína um fjármagnstilfærslur í sjávarútvegi í því skyni að varpa ljósi á ríkisstyrki sem beitt er af aðildarríkjum OECD og falla að skilgreiningu FAO um styrki sem hafa neikvæð áhrif á viðskipti og eru skaðlegir sjálfbærri þróun. Búist er við að verkefni af þessu tagi verði hrint af stokkunum næsta haust.

Aðgerðir gegn hryðjuverkum
    
Í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september sl. hóf OECD umfjöllun um framlag samtakanna til baráttunnar gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi. Í mörgum nefndum OECD hefur verið leitast við að greina áhrifin á mismunandi atvinnustarfsemi og hvernig bregðast má við til að koma í veg fyrir frekari hermdarverk. Þannig fjallaði efnahagsstefnunefnd OECD á fundi sínum í nóvember sl. um efnahagsleg áhrif hryðjuverkanna, viðskiptanefndin fjallaði um áhrif þeirra á viðskipti og fjárfestingar og nefnd um fjármálamarkaði um áhrif þeirra á fjármálaviðskiptin á fundi sínum í sama mánuði. Vinna OECD að setningu reglna til að koma í veg fyrir skaðlega skattameðferð og starfsemi á vegum samtakanna gegn peningaþvætti (Financial Action Task Force) kunna að verða mikilvægt framlag í baráttunni í því skyni að hindra fjármagnstilfærslur til hryðjuverkastarfsemi og uppræta athvörf fyrir fjármagn til slíkrar starfsemi.

Heilbrigðisverkefnið
    
OECD hefur ýtt úr vör sérstöku heilbrigðisverkefni sem mun standa yfir næstu þrjú ár. Verkefnið felur m.a. í sér úttekt á stöðu heilbrigðismála í OECD-ríkjunum, hvernig þeim er stjórnað og samanburði á mismunandi rekstrarformum á sviði heilbrigðisþjónustu. Þverfaglegur sérfræðingahópur hefur verið myndaður til að fást við verkefnið sem stefnt er því að ljúki með skýrslu til fundar heilbrigðisráðherra OECD ríkjanna sem fyrirhugað er að fram fari 2004. Verkefnið er fjármagnað með frjálsum framlögum og hafa 12 aðildarríki OECD, þar á meðal Ísland, lagt fram sameiginlega upphæð sem nemur um 85 milljónum króna. Leitast verður við að tengja verkefnið reglulegu mati á efnahagsstefnu OECD-ríkjanna og sérstakt mat verður framkvæmt í völdum aðildarríkjum.

Skaðleg skattameðferð
    
Á ráðsfundi OECD í nóvember sl. var samþykkt að létta trúnaði af áfangaskýrslu nefndar OECD um fjárhagsleg málefni fyrir árið 2001 er fjallar um skaðlega skattameðferð. Skýrslan var tilbúin til útgáfu í vor en vegna deilna Breta og Spánverja um stöðu Gíbraltar í þessu ferli kom Spánn í veg fyrir útgáfu skýrslunnar þangað til í nóvember. Á vormánuðum lá í loftinu að Bandaríkjamenn mundu draga sig út úr þessu samstarfi sem líklega hefði þýtt endalok þessarar viðleitni OECD til að koma á samræmdum gagnsæjum reglum í svonefndum skattaparadísum. Hryðjuverkin 11. september leiddu þó til þess að Bandaríkjamenn hófu aftur þátttöku í þessu verkefni. Skýrslan lýsir þeim áfanga sem náðst hefur sl. ár við að leiða í ljós skaðlega skattameðferð sem tíðkast innan og utan OECD-ríkjanna. Til viðbótar inniheldur hún lýsingu á þeirri vinnu sem fram fer á vegum OECD og snertir skattaparadísir.

Þátttaka Íslands í nefndum OECD
    
Eins og áður segir eru um 180 nefndir starfræktar á vegum OECD. Ísland tekur þátt í störfum tæplega 50 nefnda að einhverju eða öllu leyti, eða um tæplega þriðjungi nefndanna. Um það bil 40 einstaklingar úr íslensku stjórnsýslunni sinna þessari þátttöku auk fastanefndar Íslands í París. Kostnaður við rekstur samtakanna nemur um 20 milljörðum króna á ári og nemur framlag Íslands um 20 milljónum króna á ári.

9.4.     Viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins (VUR)

    Viðskiptaþjónustan hefur eflst til muna frá stofnun hennar 1997 með aukinni kynningu á þjónustunni og vaxandi reynslu starfsmanna hennar. Samfara þessu hafa væntingar atvinnulífisins til þjónustu VUR vaxið. Starfsemi VUR fer einkum fram í sendiráðum Íslands erlendis og er áhersla lögð á þjónustu frá þeim sendiráðum þar sem starfandi eru sérstakir viðskiptafulltrúar. Af þremur nýjum sendiráðum er starfandi viðskiptafulltrúi í Tókýó en hvorki í Ottawa né Mapútó.
    Meginviðfangsefni VUR fyrstu fimm starfsárin hafa verið margvísleg og mætti flokka starfsemina niður í sex flokka:
          Aðstoð við sprotafyrirtæki á nálægum og kunnuglegum mörkuðum.
          Aðstoð við stærri fyriræki á fjarlægum mörkuðum þar sem menningarmunur er mikill.
          Kynningar á íslenskum fyrirtækjum á tilteknum mörkuðum erlendis.
          Kynningar á erlendum markaðssvæðum hérlendis m.t.t. viðskipta og fjárfestingartækifæra fyrir Íslendinga.
          Miðlun fyrirspurna erlendra aðila vegna viðskipta við og á Íslandi
          Skipulagning opinberra heimsókna viðskiptasendinefnda til útlanda og skipulagning heimsókn erlendra sendinefnda í viðskiptaerindum til Íslands.
    Ljóst er af framansögðu að fram til þessa hefur starfsemi VUR fyrst og fremst miðað að því að taka við beiðnum frá fyrirtækjum og veita þeim fyrirgreiðslu sem eftir þjónustunni leita. Verkefnum hefur fjölgað jafnt og þétt einkum á sl. ári. Áfram verður haldið að efla viðskiptaþekkingu og viðskiptaþjónustu í sendiráðunum til að vinna með á fleiri mikilvægum markaðssvæðum.
    Hlutverk VUR er ekki síður mikilvægt í þeim framtíðarverkefnum sem reifuð voru í upphafi þessa kafla.

9.4.1.     Viðskiptaþróun – samstarfsverkefni
    Haustið 2000 var undirritað samkomulag utanríkisráðuneytisins, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands um samstarf sem hefur það markmið að samtvinna þróunaraðstoð og íslenska markaðssókn í þróunar- og nýþróuðum ríkjum. Verkefnið, sem kallast Viðskiptaþróun, er til þriggja ára, fór formlega af stað í byrjun árs 2001 og er VUR formlegur umsjónaraðili þess. Enn fremur sinnir VUR hlutverki tengiliðar milli fyrirtækja og Alþjóðabankans sem miðar að því að virkja betur lítil og meðalstór fyrirtæki í verkefnum bankans. Gengið var frá samstarfi utanríkisráðuneytisins og Alþjóðbankans á þessu sviði haustið 2000.
    Alþjóðabankinn hefur um nokkurt skeið lagt aukna áherslu á náið samstarf við einkageirann í Evrópu. Í þeim tilgangi hefur bankinn nýverið sett upp öflugt net tengla sem hafa það hlutverk að kynna starfsemi bankans fyrirtækjum í Evrópu. Með þessu er Alþjóðabankinn að svara kröfum þeirra ríkja, sem hafa lagt fram mikið fé til starfsemi hans um að veita litlum og meðalstórum fyrirtækjum aukna möguleika á samstarfi, aðallega varðandi útboð og fjármögnun verkefna.
    Meginmarkmiðið með viðskiptaþróuninni er að stuðla að auknum viðskiptatengslum íslenskra fyrirtækja við þróunarlönd og nýþróuð ríki Austur- og Mið-Evrópu og Suðaustur-Asíu. Tilgangur verkefnisins er að hvetja íslenskt atvinnulíf til virkari þátttöku í efnahagslífi þeirra þróunarlanda sem Ísland veitir tvíhliða aðstoð. Enn fremur að greina tækifæri í þróunarlöndum og setja þau þannig fram að íslensk fyrirtæki sjái sér hag í gagnkvæmum viðskiptum.
    Hlutverk Viðskiptaþróunar er að marka stefnu um markaðssókn og fjárfestingar, vera fyrirtækjum og fjárfestum til aðstoðar, greina ný viðskiptatækifæri og fjárfestingarmöguleika og aðstoða íslensk fyrirtæki við að taka að sér verkefni hjá alþjóðastofnunum. Stefnt er að því að safna saman á einum stað þekkingu sem snýr að verkefnaútflutningi og fjármögnunarleiðum og koma upplýsingum markvisst á framfæri við íslensk fyrirtæki í útrásarhug. Megináhersla er í fyrstu á upplýsingaöflun og upplýsingamiðlun milli íslenskra fyrirtækja og alþjóðastofnana. Viðskiptaþróun mun hér gegna hlutverki upplýsingamiðstöðvar og vera tengiliður milli fyrirtækja við hinar ýmsu alþjóðastofnanir.

10.     HAFRÉTTARMÁL
10.1.     Samningar Sameinuðu þjóðanna um hafréttarmál
10.1.1.     Hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna
    Hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna var gerður 10. desember 1982 og verður 20 ára afmælis hans minnst á þessu ári. Um er að ræða fyrsta og eina heildstæða alþjóðasamninginn á sviði hafréttar. Með honum voru settar eða staðfestar reglur um öll not hafsins og tekur hann til allra hafsvæða, þar á meðal loftrýmisins yfir þeim og hafsbotnsins og botnlaganna undir þeim. Samningurinn fjallar m.a. um landhelgi, efnahagslögsögu, landgrunn, úthafið og alþjóðlega hafsbotninn, réttindi strandríkja og annarra ríkja til fiskveiða, annarrar auðlindanýtingar, siglinga og flugs, verndun gegn mengun hafsins og lausn deilumála.
    Ísland fullgilti hafréttarsamninginn 21. júní 1985 og var fyrsta Evrópuríkið til þess. Samningurinn öðlaðist gildi 16. nóvember 1994 og eru aðildarríki hans 138 talsins miðað við 12. mars 2002. Samningurinn sem slíkur bindur ekki önnur ríki, en flest ákvæði hans hafa stöðu þjóðréttarvenju og eru því bindandi fyrir öll ríki heims. Á grundvelli hafréttarsamningsins eru haldnir reglubundnir fundir aðildarríkja samningsins. Er þar einkum fjallað um rekstrar-, skipulags- og fjármál. Eftir að grunnur að hafréttinum hefur nú verið lagður má gera ráð fyrir að helstu laga- og tæknilegum viðfangsefnum hafréttarins verði eftirleiðis vísað til þeirra stofnana sem settar hafa verið á laggirnar samkvæmt hafréttarsamningnum: Alþjóðlega hafréttardómsins, Alþjóðahafsbotnsstofnunarinnar og Landgrunnsnefndarinnar. Stofnanirnar hafa allar tekið til starfa og verið virkar í störfum sínum.
    Hagsmunir Íslands sem strandríkis, sem á mikið undir nýtingu lifandi auðlinda hafsins, eru vel tryggðir í hafréttarsamningnum og samningum tengdum honum. Af Íslands hálfu hefur, í samræmi við þetta, verið lögð á það áhersla að í hafréttarmálum beri að vinna á grundvelli þeirra samninga sem gerðir hafa verið og að mikilvægt sé að ákvæðum þeirra sé framfylgt. Jafnframt hefur af Íslands hálfu verið lögð áhersla á að ekki beri að opna að nýju mál sem þegar hafa verið afgreidd, enda þjónar það ekki íslenskum hagsmunum. Einstök ríki og ríkjahópar, sem telja á sig hallað í einstökum málum, hafa hins vegar haft tilhneigingu í þessa átt. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að niðurstaða hafréttarráðstefnunnar fól í sér pakkalausn þar sem einstök ríki fengu sitt fram á sumum sviðum en urðu að gefa eftir á öðrum.
    Efnisleg umfjöllun um hafréttarmál fer einkum fram á allsherjarþinginu. Æ fleiri alþjóðastofnanir, þ.m.t. sérstofnanir Sameinuðu þjóðanna, láta þó hafréttarmál til sín taka með einum eða öðrum hætti. Tryggja þarf að starf þessara stofnana sé samræmt og að ákvæði hafréttarsamningsins séu virt, en nokkur misbrestur hefur verið á því. Allsherjarþingið hefur hér mikilvægi hlutverki að gegna. Á 54. allsherjarþingi var samþykkt ályktun um að koma á fót nýjum samráðsvettvangi sem ætlað er að undirbúa umfjöllun allsherjarþingsins um málefni hafsins. Ísland tók virkan þátt í gerð ályktunarinnar og hafði þar framangreind sjónarmið að leiðarljósi. Í ályktuninni er m.a. viðurkennt að hafréttarsamningurinn skapi hinn lagalega ramma um starf hins nýja vettvangs og áréttað mikilvægi þess að standa vörð um ákvæði hans. Nánar er fjallað um hinn nýja samráðsvettvang um málefni hafsins í kafla 10.2.1.

10.1.2.     Úthafsveiðisamningur Sameinuðu þjóðanna
    Úthafsveiðisamningurinn öðlaðist gildi 11. desember 2001, mánuði eftir að þrítugasta ríkið, Malta, gerðist aðili að samningnum. Ísland fullgilti samninginn 14. febrúar 1997, en meðal annarra aðildarríkja hans má nefna Noreg, Rússland, Bandaríkin, Kanada, Ástralíu og Nýja-Sjáland. Í kjölfar aukinnar ásóknar í fiskstofna utan efnahagslögsögunnar var knúið á um að gerður yrði samningur um framkvæmd ákvæða hafréttarsamningsins um deilistofna og víðförula fiskstofna, þ.e. stofna sem finnast bæði innan lögsögu strandríkja og á úthafinu. Langflestir þeirra fiskstofna, sem veitt er úr á úthafinu, teljast til þessara tveggja flokka. Samkomulag varð um það á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Ríó de Janeiró árið 1992 að kalla saman úthafsveiðiráðstefnu. Ísland tók virkan þátt í ráðstefnunni og skipaði svonefndan kjarnahóp strandríkja. Rúmum þremur árum síðar var úthafsveiðisamningurinn í höfn og var hann samþykktur í New York 4. ágúst 1995.
    Yfirlýst markmið úthafsveiðisamningsins er að tryggja langtímaverndun og sjálfbæra nýtingu deilistofna og víðförulla fiskstofna. Samningurinn styrkir verulega ramma um samstarf strandríkja og úthafsveiðiríkja á vettvangi svæðisbundinna fiskveiðistofnana um verndun þessara stofna og stjórnun veiða úr þeim. Sérstök réttindi strandríkja eru viðurkennd í samningnum og í honum felast frekari takmarkanir á hefðbundnu frelsi til fiskveiða á úthafinu. Þegar þýðing úthafsveiðisamningsins er vegin og metin er rétt að hafa í huga að langtímahagsmunir allra fiskveiðiþjóða eru í því fólgnir að markmiði samningsins verði náð og að bundinn verði endi á stjórnlausar veiðar á úthafinu víðs vegar í heiminum. Engin ríki eiga meira undir því en ríki á borð við Ísland sem byggja afkomu sína að mjög miklu leyti á fiskveiðum.

10.2.     Landgrunnsmál
10.2.1.     Afmörkun ytri marka landgrunns Íslands utan 200 sjómílna
    Samkvæmt hafréttarsamningnum skulu strandríki leggja upplýsingar um mörk landgrunns síns utan 200 sjómílna fyrir landgrunnsnefndina innan 10 ára frá gildistöku samningsins að því er viðkomandi ríki varðar. Nefndin gerir í framhaldi af því tillögur þar að lútandi og skulu mörk landgrunnsins, sem strandríki ákveður á grundvelli þessara tillagna, vera endanleg og bindandi. Samkvæmt sérstakri ákvörðun 11. fundar aðildarríkja hafréttarsamningsins í maí 2001 gildir þó sérstök regla um ríki á borð við Ísland sem samningurinn öðlaðist gildi gagnvart fyrir 13. maí 1999. Fyrir þessi ríki reiknast 10 ára fresturinn ekki fyrr en frá þessum degi, en þá fyrst samþykkti landgrunnsnefndin vísindalegar og tæknilegar viðmiðunarreglur sínar. Frestur Íslands til að skila greinargerð til nefndarinnar er því til 13. maí 2009, en stefnt er því að skila greinargerðinni mun fyrr.
    Af Íslands hálfu er annars vegar gert tilkall til landgrunns utan 200 sjómílna í suðri, þ.e. á Reykjaneshrygg og Hatton Rockall-svæðinu, og hins vegar í austri, þ.e. í Síldarsmugunni. Landgrunnið var afmarkað til suðurs með reglugerð nr. 196/1985 en afmörkun landgrunnsins til austurs er skemmra á veg komin. Aðeins Ísland gerir kröfu um landgrunnsréttindi á Reykjaneshrygg, en á Hatton Rockall-svæðinu hafa Danmörk f.h. Færeyja, Bretland og Írland einnig sett fram kröfur um slík réttindi. Í Síldarsmugunni mun Noregur einnig gera kröfu til landgrunnsréttinda út frá Jan Mayen og hugsanlega mun Danmörk einnig setja fram kröfu um slík réttindi fyrir hönd Færeyja.
    Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra um undirbúning greinargerðar til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna um mörk landgrunns Íslands utan 200 sjómílna. Gert er ráð fyrir að undirbúningur greinargerðarinnar, sem felur m.a. í sér umfangsmiklar og kostnaðarsamar mælingar á umræddum þremur svæðum, muni taka um fjögur ár og að greinargerðinni verði skilað til nefndarinnar árið 2005. Áætlaður heildarkostnaður vegna þessa er rúmlega 700 milljónir króna.
    Utanríkisráðuneytið ber ábyrgð á greinargerð þeirri sem skilað verður til landgrunnsnefndarinnar og mun ráðuneytið hafa yfirumsjón með undirbúningi greinargerðarinnar og taka allar stefnumarkandi ákvarðanir, að höfðu samráði við iðnaðarráðuneytið, Orkustofnun, Sjómælingar Íslands og, eftir atvikum, aðrar stofnanir. Til að umrætt verkefni verði unnið á sem markvissastan hátt hefur verið skipaður starfshópur undir forustu utanríkisráðuneytisins til að vinna umrædda greinargerð.

10.2.2.     Hatton Rockall-málið
    Í ljósi þess að talið var tímabært að koma aftur á viðræðum milli aðila Hatton Rockall-málsins áttu íslensk stjórnvöld frumkvæði að tvíhliða viðræðum við Bretland vorið 2000. Viðræðurnar voru jákvæðar en báðum aðilum var ljóst að til að ná samkomulagi í málinu þyrftu Írland og Danmörk f.h. Færeyja einnig að koma að því. Hinn 11. október 2001 fóru fram í Reykjavík óformlegar viðræður allra deiluaðila í Hatton Rockall-málinu. Var um að ræða fyrsta fjórhliða fund þeirra aðila sem gera tilkall til landgrunns á Hatton Rockall-svæðinu og markar fundurinn því tímamót. Viðræðurnar voru afar gagnlegar og verður þeim haldið áfram haustið 2002. Mikilvægt er að aðilar byrji að leita leiða til að leysa þetta mikilvæga mál, en ekki er við því að búast að viðræður aðila muni leiða til skjótrar niðurstöðu enda er málið afar flókið og erfitt að samræma sjónarmið aðila. Til þess að lausn náist um afmörkun landgrunns á umdeildum svæðum á borð við Hatton Rockall-svæðið þarf tvennt að koma til: Annars vegar þurfa hlutaðeigandi ríki að komast að samkomulagi um skiptingu landgrunnsins sín á milli eða um að það verði sameiginlegt nýtingarsvæði. Hins vegar þarf að nást niðurstaða um afmörkun ytri marka landgrunnsins með hliðsjón af tillögum landgrunnsnefndarinnar.

11.     UMHVERFISMÁL/AUÐLINDAMÁL
    Mikilvægi umhverfismála og þýðing þeirra fyrir auðlindanýtingu fer sívaxandi í alþjóðamálum og í samskiptum ríkja. Þessi mál eru að sönnu oft nefnd sem eitt skýrasta dæmið um þá hnattvæðingu sem við nú upplifum. Hnattvæðinguna er ekki aðeins að finna í viðskiptum og fjárfestingum, hún er einnig í straumum og stefnum í umhverfismálum. Öflug alþjóðasamvinna er forsenda þess að heimsbyggðin geti brugðist við margvíslegri umhverfisvá. Á sama tíma hefur hnattvæðing bein áhrif á stöðu Íslands og stefnu í auðlinda- og umhverfismálum hvort sem er inn á við eða út á við. Veruleg áhersla hefur verið lögð á að efla þátttöku Íslands í skoðanaskiptum og stefnumörkun um auðlinda- og umhverfismál á alþjóðavettvangi. Hefur þessi stefna borið góðan árangur. Þessari stefnu verður fylgt áfram, enda á Ísland ríkra hagsmuna að gæta á þessum sviðum.

11.1.     Sjálfbær þróun
11.1.1.     Leiðtogafundur Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun
    Ísland hefur verið kjörið í undirbúningsnefnd leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Leiðtogafundurinn, sem fram fer í Jóhannesarborg 26. ágúst til 4. september 2002, er haldinn í tilefni þess að10 ár eru liðin frá ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun sem haldin var í Ríó de Janeiro 1992. Markmið leiðtogafundarins er að ríki heims endurnýi skuldbindinguna um sjálfbæra þróun, meti árangur af framkvæmd á samþykktum Ríóráðstefnunnar og móti raunhæfa framtíðarsýn. Vonir eru bundnar við að leiðtogafundurinn marki mikilvægt skref í hnattrænni samvinnu um sjálfbæra þróun, einkum varðandi þróunarríkin.
    Dagskrá leiðtogafundarins er í mótun en ljóst er að mikil áhersla verður lögð á þróunarmál og að nálgunin á umhverfismálin mun að stórum hluta taka mið af þeim. Sem dæmi um áherslur má nefna útrýmingu fátæktar og eflingu þróunaraðstoðar. Líklegt er einnig að sjálfbær nýting náttúruauðlinda verði þungavigtarmál á fundinum, þar með talið lífríki hafsins og orkumál. Töluverð áhersla hefur verið lögð á það í undurbúningsferlinu að skilgreina leiðir til að virkja hnattvæðinguna í þágu sjálfbærrar þróunar sem og á leiðir til að beina hagvexti inn á brautir sem lágmarka neikvæð umhverfisáhrif. Heilbrigðismál hafa einnig verið nefnd, einkum í tengslum við fátækt og Afríku. Einnig mun endurskoðun og endurbætur á alþjóðastjórn umhverfismála og sjálfbærrar þróunar verða mikilvægur liður á dagskrá fundarins.
    Málflutningur Íslands hefur undirstrikað þá skoðun að fundurinn skuli taka til allra þriggja stoða sjálfbærrar þróunar, þeirra félagslegu, efnahagslegu og umhverfislegu. Innan þessa ramma hefur áhersla Íslands fyrst og fremst verið lögð á þrjú atriði: Í fyrsta lagi að styðja þá almennu væntingu að útrýming fátæktar verði eitt meginþema leiðtogafundarins. Í örðu lagi að fjallað verði sérstaklega um málefni er varða umgengni við hafið, þar á meðal framkvæmd Reykjavíkuryfirlýsingarinnar um ábyrgar fiskveiðar í vistkerfi sjávar, þörf á mati á ástandi hafsins til að efla framkvæmd áætlunar Sameinuðu þjóðanna um vernd hafsins gegn mengun frá landi, og nauðsyn þess að efla fjárhagslega og tæknilega aðstoð við þróunarríkin til að byggja upp sjálfbærar fiskveiðar. Loks í þriðja lagi hefur verið lögð áhersla á notkun endurnýjanlegra orkugjafa til þess að draga úr mengun frá iðnaði og samgöngum, og til að mæta orkuþörf í þróunarríkjunum.

11.1.2.     Kýótó-bókunin
    Samkomulag náðist um lausn á sérstöðu Íslands gagnvart Kýótó-bókuninni á 7. aðildarríkjaþingi rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytinga í Marakess í nóvember 2001. Með þessari niðurstöðu er leystur sá vandi sem skilgreindur var í Kýótó og staðið hefur í vegi fyrir aðild Íslands að bókuninni. Samkomulagið var gert samhliða öðrum ákvörðunum um framkvæmd Kýótó-bókunarinnar, en allt frá því að bókunin var samþykkt árið 1997 hafa staðið yfir erfiðar samningaviðræður um reglur sem gera iðnríkjunum kleift að framkvæma hana. (Sjá nánar skýrslu umhverfisráðherra til 127. löggjafarþings, þskj. 349.)
    Ákvörðunin um íslenska ákvæðið heimilar smáríkjum að ráðast í verkefni á sviði iðnaðar þótt þau auki útblástur gróðurhúsalofttegunda, að því gefnu að þau byggist á nýtingu endurnýjanlegrar orku og leiði til samdráttar í losun á hnattræna vísu. Forsaga ákvæðisins er að við samþykkt Kýótó-bókunarinnar var því lýst yfir af hálfu stjórnvalda að Ísland gæti ekki staðið við þau útstreymismörk sem tilgreind eru í viðauka B við bókunina, vegna smæðar efnahagskerfisins og sérstöðu hvað varðar samsetningu á útstreymi. Það sem veldur vanda í tilviki Íslands eru hlutfallsleg áhrif einstakra verkefna á heildarútstreymi. Hér á landi vega einstök stóriðjuverkefni svo þungt hlutfallslega að áhrif stærstu verkefnanna hvers um sig eru meiri en þreföld samdráttarmarkmið Kýótó-bókunarinnar sem eru 5,2%. Ljóst var að ekki yrði mögulegt að meðhöndla slík verkefni með sama hætti og önnur smærri. Íslensk stjórnvöld óskuðu eftir því í Kýótó 1997 að aðildarríkjaþing samningsins tæki þetta vandamál fyrir. Þetta var samþykkt og málsgrein sem vísar til þessa vanda var hluti af ákvörðun aðildarríkjaþingsins, þess efnis að leitað yrði lausnar á þessu máli. Þetta var kallað „íslenska ákvæðið“. Umfjöllun um málið hófst á fundi undirnefndar samningsins um vísindalega og tæknilega ráðgjöf í júní 1998 og lauk á þinginu í Marakess með samþykkt um útfærslu íslenska ákvæðisins.
    Langar og strangar samningaviðræður liggja að baki þessari jákvæðu niðurstöðu. Sá árangur sem náðist í því að gæta hagsmuna Íslands jafnhliða hnattrænum ávinningi í loftslagsmálunum er afrakstur mikils starfs bæði ráðherra og embættismanna. Samstillt átak utanríkis-, umhverfis-, iðnaðar-, landbúnaðar-, sjávarútvegs- og forsætisráðuneytisins, sem hafa átt fulltrúa í sendinefndum Íslands, hefur skilað þessari niðurstöðu. Fjármála- og samgönguráðuneytið hafa auk fyrrnefndra ráðuneyta einnig átt fulltrúa í samninganefnd vegna málsins. Þingsályktunartillaga um aðild að bókuninni verður lögð fyrir yfirstandandi þing.

11.1.3.     Reykjavíkurráðstefnan um ábyrgar veiðar í vistkerfi sjávar
    Alþjóðleg ráðstefna um ábyrgar fiskveiðar í vistkerfi sjávar var haldin í Reykjavík 1.–4. október 2001. Ráðstefnan var haldin á vegum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) í boði íslenskra og norskra stjórnvalda. Hana sátu fulltrúar frá 60 ríkjum, þar á meðal frá fremstu sjávarútvegsþjóðum heims, 19 alþjóðastofnunum og 10 alþjóðlegum félagasamtökum. Auk þess tóku um 200 vísindamenn víðs vegar að úr heiminum þátt í sérstökum vísindahluta ráðstefnunnar.
    Markmiðið með ráðstefnunni var að stuðla að bættri framkvæmd á siðareglum FAO um ábyrgð í fiskimálum einkum með því að beita vistfræðilegri nálgun við stjórn á nýtingu á lifandi auðlindum hafsins. Afrakstur ráðstefnunnar var Reykjavíkuryfirlýsingin um ábyrgar fiskveiðar í vistkerfi sjávar. Yfirlýsingin markar tímamót því með henni skuldbinda stærstu sjávarútvegsríki heims sig til að taka tillit til vistkerfis sjávar við stjórnun á nýtingu lifandi auðlinda hafsins. Staðfest er að í því felist að mið sé tekið bæði af áhrifum sjávarútvegs á vistkerfið og áhrifum vistkerfisins á sjávarútveg. Einnig er lögð áhersla á aðra þætti sem hafa áhrif á vistkerfi hafsins svo sem mengun frá landi. Til að stuðla að beitingu vistfræðilegrar nálgunar við fiskveiðistjórnun sammæltust ríkin um að efla hafrannsóknir og fiskveiðistjórnun. Sérstök áhersla er lögð á aðstoð við þróunarríkin við að byggja upp sjálfbærar fiskveiðar og einkum aukna þátttöku alþjóðlegra fjármálastofnana í slíkri aðstoð. Ísland átti verulegan þátt í gerð yfirlýsingarinnar og mótun vísindahluta ráðstefnunnar.
    Reykjavíkuryfirlýsingin er framlag sjávarútvegsríkja til leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg haustið 2002. Íslensk stjórnvöld leggja sérstaka áherslu á að koma yfirlýsingunni og efni hennar á framfæri við undirbúning leiðtogafundarins. Að ósk íslenskra stjórnvalda hefur aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna gefið Reykjavíkuryfirlýsinguna út sem opinbert skjal vegna undirbúnings ráðstefnunnar og hefur fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðanna kynnt yfirlýsinguna á fundi undirbúningsnefndar leiðtogfundarins. Niðurstöður ráðstefnunnar voru einnig kynntar af sjávarútvegsráðherra á ráðstefnu FAO í nóvember 2001 og var Reykjavíkuryfirlýsingin þar samþykkt af öllum aðildarríkjum FAO. Jafnframt verður framkvæmd yfirlýsingarinnar fylgt eftir á vettvangi FAO, þ.m.t. á leiðtogafundi FAO um fæðuöryggi nk. sumar.

11.2.     Málefni hafsins
11.2.1.     Samráðsvettvangur Sameinuðu þjóðanna um málefni hafsins
    Á 57. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna nk. haust ber að ákveða hvort framhald verði á starfsemi hins óformlega samráðsvettvangs Sameinuðu þjóðanna um málefni hafsins. Honum var komið fót með ályktun 54. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í því augnamiði að efla umfjöllun allsherjarþingsins um skýrslu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um málefni hafsins. Stofnun þessa vettvangs endurspeglar hinn vaxandi áhuga heimsbyggðarinnar á vernd og nýtingu hafsins. Einkum er vaxandi áhugi í samfélagi þjóðanna á að efla samræmingu og samvinnu í málefnum hafsins innan Sameinuðu þjóðanna. Þessi áhugi mótast af áhyggjum af mengun hafsins og því að of víða er illa gengið um auðlindir þess og rányrkja stunduð á fiskstofnum. Vettvangurinn hefur fundað tvisvar. Á þeim fundum hefur verið fjallað sérstaklega um ábyrgan sjávarútveg, ólögmætar fiskveiðar, félagslegar og efnahagslegar afleiðingar mengunar hafsins og hafrannsóknir. Á fundi nefndarinnar í ár verður fjallað um vernd hafsins og leiðir til að auka getu þróunarríkja til að vernda og stjórna eigin hafsvæðum og sjávarauðlindum.
    Ísland hefur tekið virkan þátt í mótun og starfi þessa nýja vettvangs, enda fjallar hann um mikilvæg hagsmunamál þjóðarinnar. Íslensk stjórnvöld eru þeirrar skoðunar að málefni hafsins séu bæði flókin og margvísleg og að um þau beri að fjalla af bærum alþjóðastofnunum og í samræmi við réttindi og skyldur ríkja samkvæmt hafréttarsamningnum. Sé þörf á umfjöllun um úrbætur í samræmingu og samvinnu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í málefnum hafsins, þá sé allsherjarþing stofnunarinnar rétti vettvangurinn til þess.
    Íslensk stjórnvöld telja aukna umræðu um málefni hafsins á allsherjarþinginu vera jákvæða. Hún vekur athygli á ógnun við lífríki hafsins og mótar aðgerðir til verndar hafinu og sjálfbærrar nýtingar auðlinda þess. Slík umræða felur einnig í sér vissar hættur. Ber þar að nefna þrýsting frá einstökum ríkjum og umhverfisverndarsamtökum um að komið verði á fót einhvers konar hnattrænni stjórn á málefnum hafsins, þar með talið stjórn fiskveiða. Hnattvæðing umhverfismálanna varðar ekki síst strauma og stefnur í málefnum hafsins. Það skiptir hagsmuni Íslands verulegu máli að slík skoðanaskipti og stefnumörkun fari fram á vettvangi þar sem Ísland hefur fulla aðild og getur haft veruleg áhrif á niðurstöður umræðunnar. Ísland hefur löngum haft umtalsverð áhrif á umfjöllun og niðurstöður Sameinuðu þjóðanna um málefni hafsins, hvort sem um hefur verið að ræða mengun hafsins eða nýtingu á lifandi auðlindum þess. Rík áhersla verður lögð á áframhaldandi virka og öfluga þátttöku af hálfu Íslands í þessum málaflokki á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Í ljósi þess umfjöllunarefnis sem verður á fundi nefndarinnar í ár, verður lögð sérstök áhersla á mikilvægi sjálfbærs sjávarútvegs fyrir fæðuöryggi í heiminum og efnahag margra ríkja.

11.2.2.     Alþjóðlegar aðgerðir gegn mengun hafsins
    Það var mikill áfangi í alþjóðlegu samstarfi um varnir gegn mengun sjávar og umhverfisins almennt þegar 92 ríki undirrituðu Stokkhólmssamninginn um þrávirk lífræn efni þann 23. maí árið 2001. Samningurinn gengur í gildi 90 dögum eftir að fimmtíu ríki hafa fullgilt hann. Þingsályktunartillaga um fullgildingu samningsins verður lögð fyrir yfirstandandi þing. Ísland átti frumkvæði að því að áhersla á þrávirk lífræn efni var tekin inn í Dagskrá 21 í Ríó 1992 og tók virkan þátt í gerð Stokkhólmssamningsins. Mikilvægt er að þessum áfanga verði fylgt eftir með því að samningurinn öðlist gildi sem fyrst. Í því sambandi er aðkoma Alþjóðlega umhverfissjóðsins (GEF) mikilvæg en sjóðnum hefur verið falið að hafa milligöngu um aðstoð við þróunarríkin við framkvæmd samningsins.
    Í nóvember árið 2001 var haldinn fyrsti ráðherrafundurinn til þess að meta árangurinn af Washington-áætluninni um varnir gegn mengun sjávar frá landi og til að marka stefnu um aðgerðir á næstu árum. Íslensk stjórnvöld beittu sér á sínum tíma fyrir gerð þessarar áætlunar og var einn af undirbúningsfundum fyrir hana haldinn hér á landi. Gerð hefur verið framkvæmdaáætlun um varnir gegn mengun sjávar frá landi hér á landi og var hún samþykkt af ríkisstjórn í nóvember árið 2001. Mikilvægt verkefni á þessu sviði er samstarf við Rússland um aðgerðir þar til þess að draga úr mengun sjávar frá landi. Ísland hefur stutt undirbúning framkvæmdaáætlunar Rússlands en mikils fjármagns þarf að afla til þess að áætlunin nái fram að ganga. Skrifstofa undirnefndar Norðurskautsráðsins um varnir gegn mengun sjávar sem aðsetur hefur á Akureyri hefur tekið virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði og unnið með rússneskum aðilum að gerð þeirra áætlunar. Mikilvægt er að halda því starfi áfram.
    Heildaryfirlit skortir um ástand sjávar með tilliti til mengunar og annarra umhverfisþátta. Traustar vísindalegar upplýsingar um ástand umhverfisins í hafinu er mikilvæg forsenda aðgerða til þess að koma í veg fyrir mengun sjávar og önnur þau áhrif sem geta haft neikvæð áhrif á vistkerfi hafsins. Ísland hefur beitt sér fyrir því á vettvangi nefndar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (CSD) og Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) að átak verði gert til þess að bæta upplýsingar um ástand umhverfis í hafinu og efnahagslegar og félagslegar afleiðingar slíkar hnignunar. Að tillögu Íslands samþykkti aðalfundur UNEP í febrúar árið 2001 að kanna möguleika á því að gera átak á þessu sviði og var alþjóðlegur vinnufundur haldinn um málið í Reykjavík í september sama ár. Mikilvægt er að mál þetta fái umfjöllun í tengslum við leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg.

11.3.     Ísland í formennsku Norðurskautsráðsins
    Í október nk. tekur Ísland við formennsku í Norðurskautsráðinu og mun gegna því fram til haustsins 2004. Ráðið var stofnað í Ottawa árið 1996 á grunni áætlunar um umhverfisvernd á norðurslóðum sem samþykkt var af umhverfisráðherrum í Rovaniemi árið 1991. Aðildarríki ráðsins eru átta talsins, þ.e. Norðurlöndin fimm, Bandaríkin, Kanada og Rússland. Auk þeirra eiga sæti í ráðinu samtök frumbyggja á norðurslóðum og taka þau virkan þátt í starfi þess. Þessu til viðbótar eiga ýmis frjáls félagasamtök og ríki áheyrnaraðild að ráðinu. Markmið Norðurskautsráðsins er að vinna að umhverfisvernd og sjálfbærri þróun á norðurslóðum. Norðurskautsráðið er ekki stofnun með sjálfstæðan fjárhag og þjóðréttarlega stöðu. Ráðið er samráðs og samvinnuvettvangur ríkja, fyrst og fremst um stefnumörkun. Verkefni sem unnin eru á vettvangi Norðurskautsráðsins eru ekki greidd úr sameiginlegum sjóði heldur með framlögum frá þeim ríkjum sem taka þátt í þeim.
    Þegar Ísland tekur við formennsku í ráðinu verður skrifstofa þess vistuð í utanríkisráðuneytinu. Komið hefur verið á fót tenglahópi, undir stjórn utanríkisráðuneytisins, með fulltrúum ráðuneyta, Alþingis og Sambands íslenskra sveitarfélaga til að undirbúa formennsku Íslands. Það er stefna íslenskra stjórnvalda að efla beri þá þætti í starfi ráðsins sem snúa að félags-, efnahags- og menningarmálum, án þess þó að draga úr starfsemi ráðsins á vettvangi umhverfisverndar. Ísland hefur tekið forustu í starfshópi Norðurskautsráðsins um gerð tillögu að skýrslu um mannlífs-, byggða- og atvinnumál á norðurslóðum sem gæti orðið eitt meginverkefnið á formennskutímanum reynist nægur stuðningur við gerð hennar. Stefnt er að því að áherslur Íslands í formennskutíð liggi fyrir í lok sumars.

11.4.     Alþjóðlegar fiskveiðistofnanir og samstarf um veiðistjórn
    Hlutverk svæðisbundinna samtaka til stjórnunar fiskveiða, er taka bæði til úthafsins og til fiskstofna sem ganga inn og út úr lögsögum einstakra ríkja, verður æ mikilvægara, ekki síst eftir tilkomu úthafsveiðisamningsins. Íslensk stjórnvöld taka virkan þátt í starfi þeirra stofnana sem taka til Norður-Atlantshafs og hafa enn fremur tekið þátt í stofnun svæðissamtaka á Suður-Atlantshafi. Það er stefna Íslands að efla staðbundna og svæðisbundna stjórn fiskveiða en vinna gegn þeirri tilhneigingu sem nú gætir hjá ýmsum að draga úr mikilvægi svæðisstofnana og koma á víðtækari stjórnun fiskveiða sem jafnvel tæki til heimshafanna í heild.

11.4.1.     Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndin (NEAFC)
    Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndin hefur með höndum stjórn veiða á kolmunna, makríl, síld úr norsk-íslenska síldarstofninum og úthafs- og djúpkarfa.

Kolmunni
    
Það er í verkahring NEAFC að ákveða leyfilegan hámarksafla úr kolmunnastofninum. Samkomulag hefur hins vegar ekki náðst um stjórn á veiðum vegna ósamkomulags um kvótaskiptingu milli aðildarríkjanna. Haldnir hafa verið einir níu strandríkjafundir frá því í febrúar árið 2000 án árangurs. Það er almennt samkomulag á milli strandríkjanna (þ.e. Evrópusambandsins, Færeyja, Grænlands, Íslands og Noregs) að stofninn þoli ekki það veiðiálag sem nú er. Veiðar náðu hámarki á síðasta ári, eða u.þ.b. 1,8 milljónir lesta, en ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins hljóðaði það ár upp á rúmlega 600 þúsund lestir. Það sem stendur í vegi fyrir samkomulagi um varanlega veiðistjórnun eru óhóflegar kröfur, einkum ESB og Noregs sem samtals gera kröfur um næstum 100% af kvótanum. Íslensk stjórnvöld hafa áhyggjur af ástandi kolmunnastofnsins. Mikilvægi kolmunnaveiða hefur vaxið undanfarin missiri í íslenskum sjávarútvegi og skipum sem veiðarnar geta stundað hefur farið fjölgandi. Veiðarnar hafa farið vaxandi innan íslenskrar lögsögu, en íslensk skip hafa veitt um 60% aflans innan hennar. Á fundi strandríkjanna í Reykjavík 11.–12. febrúar sl. lagði Ísland fram tillögu þess efnis að öll ríkin drægju úr veiðum sínum um 42% þannig að heildarveiðin árið 2002 yrði 1 milljón lestir. Þessari tillögu var því miður hafnað af bæði ESB og Noregi sem kröfðust þess að Ísland drægi hlutfallslega meira úr sínum veiðum en þau. Þannig lagði Noregur til að Ísland drægi um 42% úr sínum veiðum á meðan samdráttur Noregs og ESB hefði orðið í kringum 25%. Íslensk stjórnvöld gátu vitaskuld ekki sætt sig við svo ójafna niðurstöðu. Íslensk stjórnvöld munu setja einhliða kvóta á veiðar íslenskra skipa á þessu ári og munu stuðla að mætti að því að samkomulag náist um varanlega stjórn á veiðum úr kolmunnastofninum.

Makríll
    
NEAFC hefur frá því 1999 ákveðið leyfilegan hámarksafla úr markílstofninum. Ákvarðanir NEAFC hafa þó frá upphafi verið samþykktar gegn mótmælum Íslands og Rússlands. Mótmæli Íslands byggja á því að önnur aðildarríki hafa ekki viljað fallast á rétt Íslands sem strandríkis til veiða úr markrílstofninum, enda þótt makríll gangi inn í íslenska lögsögu. Áhugi á makrílveiðum er að aukast hér á landi og er mikilvægt að Ísland verði viðurkennt sem strandríki í þessum veiðum.

Norsk-íslenski síldarstofninn

    Samvinna strandríkjanna innan NEAFC um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum er nú komin í fastar skorður. Fylgt er ráðgjöf ICES við ákvörðun um leyfilegan heildarafla og er í því efni miðað við að dregið sé úr hættu á hruni stofnsins og tryggðar séu jafnari veiðar á komandi árum. Þetta hefur verið meginstefna íslenskra stjórnvalda, að byggja upp síldarstofninn þannig að hann standi undir jöfnum veiðum í framtíðinni. Strandríkin eru sammála um að grípa til enn strangari veiðitakmarkana ef ICES telur ástand stofnsins gefa tilefni til.
    Við gerð samninga um veiðar fyrir árið 2002 bar nokkuð á þrýstingi frá Norðmönnum og Rússum um endurskoðun á kvótaskiptingu á milli aðildarríkja. Íslensk stjórnvöld telja brýnt að núverandi samningi verði haldið óbreyttum. Hafa verður hugfast að þrátt fyrir að allir hefðu þurft að gefa eftir í síldinni á sínum tíma náðist samningur sem virkar fyrir alla aðila. Það er mikilvægt að viðhalda honum, annars er hætt við að stjórnlausar veiðar hefjist aftur, og sagan kennir okkur að slíkt getur haft alvarlegar afleiðingar.

Úthafs- og djúpkarfi

    Síðan stjórn náðist á veiðum úthafskarfa árið 1995 á Reykjaneshrygg, hefur komið í ljós að í raun er um tvo karfastofna að ræða, annars vegar djúpkarfa, sem heldur sig undir 500 metra dýptarlínu, og hins vegar úthafskarfa sem er ofan 500 metra. Íslendingar hafa um nokkurt skeið barist fyrir því að fá þessa staðreynd viðurkennda innan NEAFC. Hafa vísindarannsóknir og gögn sem styðja þetta ítrekað verið lögð fram og kynnt á ársfundum nefndarinnar. Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur jafnframt í ráðgjöf sinni síðastliðin ár lagt til að karfastofninum sé stjórnað í sitt í hvoru lagi til að forðast ofveiðar í öðrum stofninum. Þrátt fyrir vísindaráðgjöf ICES hafa önnur aðildarríki ekki viljað fallast á að tillit verði tekið til tvískiptingar stofnsins. Íslensk stjórnvöld hafa bókað mótmæli við áframhaldandi veiðistjórn sem ekki tekur tillit til tvískiptingar stofnsins þar sem hún verður að teljast óábyrg og ganga þvert á vísindaráðgjöf ICES. Íslensk stjórnvöld vinna áfram að brautargegni þess máls á vettvangi NEAFC m.a. með markvissri þróun kerfis sem gerir það mögulegt að stjórna hvorum stofninum um sig. Íslendingar hafa einbeitt sér að veiðum úr neðri stofninum sem gefur mun verðmætari afurð.

11.4.2.     Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnunin (NAFO)
    Rækjuveiðarnar á Flæmingjagrunni lúta stjórn NAFO. Kanadamenn hófu rækjuveiðar á þessum miðum árið 1993, en stuttu síðar bættust fleiri þjóðir í hópinn, þeirra á meðal Færeyingar, Íslendingar og Norðmenn. Rækjuveiðunum er stjórnað með sóknardagastýringu sem felst í því að ákveðnum fjölda veiðidaga er úthlutað til hvers lands. Íslendingar hafa verið ósáttir við skipan þessara mála og mótmælt henni. Gagnrýni okkar á sóknardagastýringuna byggist meðal annars á því að sóknardagakerfið sé óheppilegt til að mæta nauðsynlegum veiðitakmörkunum með hagkvæmum hætti og þar að auki hafi framkvæmd sóknardagakerfisins ekki verið sem skyldi. Enda hefur komið á daginn að undir stjórn kerfisins eru veiðarnar næstum því 100% meiri en vísindamen mæla með þrátt fyrir að aðeins séu nýtt um 75% sóknardaganna.
    Veiðum íslenskra skipa á Flæmingjagrunni er stjórnað með kvótasetningu. Af hálfu Íslands hafa jafnframt verið fluttar tillögur um að tekið verði upp aflamarkskerfi í rækjuveiðunum á Flæmingjagrunni. Nú loks eru flest önnur NAFO-ríkin orðin okkur sammála um að sóknardagstýringin hafi ekki skilað tilætluðum árangri og því nauðsynlegt að taka upp aflamarkskerfi. Nú standa yfir viðræður um mögulega skiptingu kvóta.

11.4.3.     Suðaustur-Atlantshafsfiskveiðistofnunin (SEAFO)
    Þann 20. apríl 2001 var undirritaður í Windhoek í Namibíu samningur um stofnun svæðissamtaka um stjórnun fiskveiða utan lögsögu á Suðaustur-Atlantshafi. Frumkvæðið í málinu kom frá strandríkjunum, Suður-Afríku, Namibíu, Angóla og Bretum fyrir hönd smáeyjanna Tristan da Cuhna, Ascensioneyjar og St. Helenu. Að auki tóku Bandaríkin, Rússland, Pólland, Úkraína, Kórea, Japan, Evrópusambandið, Noregur og Ísland þátt í undirbúningi að stofnun samtakanna.
    Það er sameiginlegt álit utanríkisráðuneytis og sjávarútvegsráðuneytis að mikilvægt hafi verið fyrir Ísland að taka þátt í gerð samningsins. Íslensk skip hafa í nokkrum mæli stundað veiðar á því svæði sem hér um ræðir og íslenskir aðilar taka þátt í útgerð í Namibíu. Auk þess skiptu samningaviðræðurnar máli fyrir þróun hafréttar þar sem um var að ræða fyrsta samninginn af þessu tagi sem gerður er eftir að úthafsveiðisamningurinn var undirritaður.

11.4.4.     Atlantshafstúnfiskveiðiráðið (ICCAT)
    Frá árinu 1995 hefur Ísland haft áheyrnaraðild að Atlantshafstúnfiskveiðiráðinu (ICCAT). Áheyrnaraðild fylgir málfrelsi, sem þó er háð mati fundarstjóra, á fundum ráðsins og vinnunefnda sem settar eru á laggirnar á þess vegum. Eitt íslenskt skip hefur stundað veiðar á bláuggatúnfiski undanfarin ár, bæði í íslensku efnahagslögsögunni og á alþjóðlegu hafsvæði. Þá hafa japönsk skip stundað tilraunaveiðar samkvæmt sérstöku leyfi í íslenskri lögsögu. Á vettvangi ICCAT hefur Ísland ítrekað lýst óánægju með núverandi skiptingu veiðiheimilda og lagt áherslu á að tekið verði tillit til réttar strandríkjanna við úthlutun veiðiheimilda. Undir þetta hafa ýmsir aðrir tekið, og hafa deilur um réttindi og hagsmuni strandríkja verið áberandi í öllu starfi ICCAT undanfarin ár. Íslendingar hafa lagt áherslu á að þeir geti ekki samþykkt stjórnunarreglur sem meini þeim að stunda veiðar úr stofni sem gengur inn í lögsögu Íslands.
    Vinnuhópur ICCAT um endurskoðun reglna um úthlutun veiðiheimilda komst að niðurstöðu seint á síðasta ári þar sem segir m.a. að tillit skuli tekið til réttinda og hagsmuna strandríkja við úthlutunina. Í framhaldi af þessu mun fara fram endurúthlutun á skiptingu veiðiheimilda innan ICCAT. Í ljósi þessa er verið að meta hvort rétt sé að Ísland gerist aðili að ICCAT fyrir næsta ársfund ráðsins sem haldinn verður í nóvember 2002, en ráðið hefur hvatt Ísland til þess.

11.4.5.     Aðrir samningar
    Framkvæmd smugusamningsins hefur gengið vel frá því hann var gerður vorið 1999. Samningurinn hefur orðið til að auka og bæta samskipti ríkjanna þriggja, þ.e. Íslands, Noregs og Rússlands, og er mikilvægt að áframhaldandi virku samráði verði viðhaldið á grundvelli samningsins.
    Unnið hefur verið að gerð þríhliða rammasamnings milli Íslands, Grænlands og Færeyja um stjórnun veiða, vernd og rannsóknir á sameiginlegum karfa- og grálúðustofnum. Ekki er fyrirsjáanlegt hvenær samningsgerð lýkur.

11.5.     Hvalveiðimál
    Afstaða íslenskra stjórnvalda er sem kunnugt er sú að nýta beri allar lifandi auðlindir hafsins með sjálfbærum hætti, þar með talda hvali. Alþingi ályktaði 10. mars 1999 að hefja skyldi hvalveiðar hið fyrsta hér við land, en engin ákvörðun hefur verið tekin um hvenær hvalveiðar verði hafnar.
    Af Íslands hálfu hefur verið lögð áhersla á þátttöku í alþjóðlegu samstarfi í hvalveiðimálum á vettvangi þeirra alþjóðastofnana sem fjalla um þau mál. Ísland er, ásamt Noregi, Færeyjum og Grænlandi, stofnaðili Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins (NAMMCO) og tekur virkan þátt í vaxandi starfsemi þess.
    Ísland gerðist aðili að Alþjóðahvalveiðiráðinu (IWC) að nýju 8. júní 2001 með fyrirvara við núllkvóta ráðsins vegna hvalveiða í atvinnuskyni. Er fyrirvarinn óaðskiljanlegur hluti af aðildarskjalinu. Ísland hafði sagt sig úr ráðinu árið 1992 þegar sýnt þótti að það starfaði ekki lengur eftir stofnsamningi sínum. Segja má að það hafi verið orðið hvalfriðunarráð fremur en hvalveiðiráð. Þótt enn megi telja að nokkuð langt sé í land að það standi undir nafni eru þess merki að stuðningur sé að aukast innan ráðsins við að sjálfbærar hvalveiðar verði stundaðar með einhverjum hætti. Í ljósi þessarar þróunar var talið tímabært að ganga inn í Alþjóðahvalveiðiráðið að nýju til þess að taka þátt í umræðum um sjálfbæra nýtingu hvalastofna og hafa bein áhrif á ákvarðanir ráðsins þar að lútandi. Meðal annars er unnið að því í ráðinu að ná samkomulagi um endurskoðað stjórnunarkerfi (Revised Management Scheme, RMS).
    Á ársfundi sínum í London í júlí 2001 ákvað Alþjóðahvalveiðiráðið með eins atkvæðis meiri hluta að taka sér vald til að hafna fyrirvara Íslands við núllkvótann og um leið aðild þess að ráðinu. Að mati íslenskra stjórnvalda er ákvörðun ráðsins ógild þar sem það var ekki bært til að taka slíka ákvörðun. Hún er ólögmæt að þjóðarétti og án fordæmis. Ákvörðun ráðsins er því að engu hafandi og hefur engin áhrif á stöðu Íslands sem aðili að ráðinu.
    Sú staða er nú uppi að sum aðildarríki Alþjóðahvalveiðiráðsins viðurkenna aðild Íslands að ráðinu en önnur ekki. Í ljósi þessa hafa íslensk stjórnvöld átt tvíhliða viðræður við stjórnvöld fjölda aðildarríkja ráðsins í því skyni að ná sem víðtækastri sátt um aðild Íslands að ráðinu fyrir næsta ársfund þess sem haldinn verður í Shimonoseki í Japan í maí 2002.

12.     ÞRÓUNARSAMVINNA
12.1.     Tvíhliða þróunaraðstoð
12.1.1. Þróunarsamvinnustofnun Íslands
    Síðastliðin ár hafa umsvif Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) vaxið umtalsvert í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um þreföldun fjárveitinga til stofnunarinnar á árabilinu 1998–2003. Hlutverk stofnunarinnar er að annast tvíhliða þróunaraðstoð Íslendinga en grundvallarsjónarmið að baki þeirrar aðstoðar er að hjálpa fátækum þjóðum heims, sérstaklega verst settu þjóðfélagshópunum, til sjálfsbjargar með því að stuðla að varanlegum framförum í atvinnulífi, nýtingu og vernd auðlinda ásamt því að bæta lýðræði og mannréttindi. Í tvíhliða þróunaraðstoð Íslands hefur töluverð áhersla verið lögð á verkefni til þess ætluð að bæta hag kvenna og stuðla þar með að auknu jafnrétti kynjanna.
    Helstu samstarfslönd ÞSSÍ í dag eru Malaví, Mósambík, Namibía og Úganda en í því síðastnefnda hófst starfsemi árið 2001. Fiskimálaverkefni eru áberandi í starfinu sem fyrr, en heilsugæsla og menntamál eru sívaxandi verkefnissvið. Stærsta núverandi verkefni ÞSSÍ er bygging heilsugæslustöðvar og sjúkrahúss í Malaví en þar eru einnig í gangi verkefni sem styðja við hefðbundna fiskeldis- og fiskimannafræðslu auk fullorðinsfræðslu. Í Mósambík snúa helstu verkefnin að gæðamálum í sjávarútvegi, stuðningi við kvennamálaráðuneyti og byggingu heilsugæslustöðvar í samvinnu við RKÍ. Namibía er rótgróið samstarfsland en starfið þar beinist einkum að sjómannafræðslu og margvíslegum félags/menntunarverkefnum. Á þessu ári munu hefjast tvö ný verkefni í Úganda, annars vegar tengt fiskgæðamálum og hins vegar fullorðinsfræðslu. Aukin áhersla er nú lögð á samstarf við frjáls félagasamtök, m.a. Rauða kross Íslands og Hjálparstarf kirkjunnar. Í athugun er einnig samstarf við ASÍ, ABC Hjálparstarf og Háskóla Íslands.
    Tuttugu og tveir íslenskir sérfræðingar starfa nú hjá stofnuninni í Afríku, en þeirra á meðal eru skipstjórnarkennarar, vélstjórnarkennarar, matvælafræðingar, mannfræðingar, stjórnmálafræðingar, kennarar, líffræðingar o.fl. Starfsmenn þessir vinna aðallega við þjálfun, kennslu og rannsóknir og stjórnun. Í ljósi þess að árið 2003 er síðasta árið sem fellur undir stefnumið ríkisstjórnarinnar frá árinu 1997 um aukningu framlaga til ÞSSÍ hefur utanríkisráðherra ákveðið að láta framkvæma nýja úttekt á starfsemi stofnunarinnar sem yrði grundvöllur fyrir nýrri langtímaáætlun hennar.

12.1.2     Sendiráð Íslands í Mósambík
    Hugmyndin að stofnun sendiskrifstofu frá íslenska utanríkisráðuneytinu í sunnanverðri Afríku er tiltölulega ný af nálinni. Viðskipti Íslands við þennan heimshluta, einkum Suður-Afríku og Namibíu, hefur farið ört vaxandi á síðasta áratug, auk þess sem starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) hefur aukist mjög á sama tíma og starfsmönnum fjölgað.
    Sendiráðsbyggingin, sem hýsir íslenska, norska og danska sendiráðið í Mósambík, var opinberlega tekin í notkun 30. júní 2001. Þróunarmálaráðherrar Danmerkur og Noregs, ásamt sendiherra Íslands, Birni Dagbjartssyni, opnuðu bygginguna formlega. Viðstaddir athöfnina voru flestir þegnar Norðurlandanna þriggja í Mósambík, þar á meðal 17 Íslendingar, auk mósambískra ráðherra og embættismanna og sendimanna erlendra ríkja, alls um 250 manns. Þann 4. júlí 2001 afhenti sendiherra Íslands forseta Mósambík trúnaðarbréf sitt að viðstöddum utanríkisráðherra landsins.
    Sendiherra Íslands í Mapútó er einnig trúnaðarbundinn gagnvart Suður-Afríku, Namibíu, Malaví og Úganda, en ÞSSÍ heldur úti starfsemi í þremur síðarnefndu ríkjanna, auk Mósambík. Trúnaðarbréf hafa einnig verið afhent í Namibíu og Suður-Afríku. Starf sendiráðsins felst einkum í stuðningi við starfsemi ÞSSÍ í umdæmislöndunum, kynningu á Íslandi í umdæmislöndunum og að sinna fyrirspurnum frá íslenskum fyrirtækjum, auk almennra diplómatískra samskipta. Sendiherra er einnig virkur þátttakandi í samstarfi þeirra þjóða og stofnana sem veita þróunaraðstoð til sunnanverðrar Afríku.

12.2.     Marghliða þróunaraðstoð
12.2.1     Málefni Alþjóðabankans og undirstofnana hans
    Ísland gerðist stofnaðili að Alþjóðabankanum (International Bank for Reconstruction and Development – IBRD) ásamt 28 öðrum ríkjum árið 1945. Hlutverk bankans var að stuðla að endurreisn eftir hörmungar seinni heimsstyrjaldarinnar. Þegar því uppbyggingarstarfi lauk breyttust áherslur bankans og veitir hann nú eingöngu lán til þróunarlanda og ríkja Austur-Evrópu. Ísland er einnig aðili að dótturstofnunum bankans:
    Alþjóðaframfarastofnunin (International Development Association – IDA) sem tók til starfa árið 1960. Markmið IDA er að stuðla að efnahagslegum framförum í fátækustu þróunarlöndunum með lánveitingum á hagstæðum kjörum til opinberra framkvæmda og verkefna.
    Alþjóðalánastofnunin (International Finance Corporation – IFC) sem sett var á stofn árið 1955. Hlutverk hennar er að örva vöxt einkaframtaks í þróunarlöndum með lánum og hlutafjárkaupum í einkafyrirtækjum.
    Alþjóðlega stofnunin til lausnar fjárfestingardeilum (The International Center for Settlement of Investment Disputes – ICSID) sem stofnuð var 1965. Tilgangur hennar er að veita þjónustu til lausnar fjárfestingardeilum milli aðildarríkja og þegna annarra aðildarríkja.
    Fjölþjóðlega fjárfestingarábyrgðastofnunin (Multilateral Investment Guarantee Agency – MIGA) sem sett var á fót 1988 og veitir ábyrgðir vegna fjárfestinga í þróunarlöndum vegna áhættu sem ekki er viðskiptalegs eðlis.
    Á undanförnum árum hafa áherslur Alþjóðabankans og dótturstofnana hans tekið töluverðum breytingum. Sem fyrr leggur bankinn áherslu á lánveitingar sem stuðla að bættri efnahagsstjórn og virkari stjórnsýslu. Verkefni á sviði menntamála og heilbrigðisþjónustu eru hins vegar mun fyrirferðarmeiri nú en áður á kostnað lánveitinga til byggingar opinberra mannvirkja. Bankinn hefur gert bætt stjórnarfar og baráttu gegn spillingu að mikilvægu áhersluatriði í sinni verkefnavinnu. Þá hefur verið gert átak í að styrkja samvinnu og samráð milli lántökulanda, þróunarstofnana, einkageirans og félagasamtaka með það að markmiði að auka skilvirkni þróunarverkefna. Frá 1. júlí 2002 mun Alþjóðaframfarastofnunin byggja allar sínar verkefnaáætlanir á sameiginlegri stefnumótunarvinnu þessara aðila sem stýrt verður af lántökulandinu.
    Með aukinni hnattvæðingu og atburðum ársins 2001 hefur mikilvægi alheimsstofnana á borð við Alþjóðabankann sjaldan verið meira. Gildir það ekki síst fyrir smáríki eins og Ísland, sem með þátttöku sinni í starfi Alþjóðabankans hefur tækifæri til að vera virkur þátttakandi í alþjóðlegri stefnumótun sem með beinum hætti stuðlar bæði að friði og öryggi og er ein af grunnstoðum alþjóðahagkerfisins. Hér má nefna verkefni bankans við uppbyggingarstarfið á Balkanskaga, eftirlit með fjármálamörkuðum í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, og auknar áherslur í baráttunni gegn peningaþvætti og fjármögnun á hryðjuverkastarfsemi. Tvö mikilvæg verkefni sem bankinn hefur tekist á hendur nýlega er að sjá um fjárreiður styrktarsjóðs fyrir uppbyggingarstarfið í Afganistan og að sjá um fjárreiður og veita tækniaðstoð til alheimssjóðs fyrir baráttuna gegn eyðni, berklum og malaríu.

Aukin framlög til Alþjóðaframfarastofnunarinnar (IDA)
    
Þar sem lánastarfsemi Alþjóðaframfarastofnunarinnar stendur ekki undir sér sjálf þurfa aðildarlönd reglulega að leggja henni til aukið fé. Líkt og önnur iðnríki tekur Ísland fullan þátt í slíkri endurfjármögnun. Í samræmi við áherslur Norðurlandanna, og sem vott um mikilvægi þess starfs sem stofnunin vinnur, greiddi Ísland 25% aukaframlag á yfirstandandi fjármögnunartímabili. Nú standa yfir lokasamningaviðræður vegna fjármögnunar næsta tímabils sem hefst á miðju ári 2002. Fyrir liggur að heildarframlög ríkja til IDA muni aukast um 13% og hyggst Ísland auka hlut sinn enn frekar frá síðasta fjármögnunartímabili.

Niðurfelling skulda fátækustu ríkja heims (HIPC)
    
Eitt helsta sameiginlega baráttumál Norðurlanda til aðstoðar þróunarlöndunum á síðustu árum hefur verið átak til niðurfellingar skulda fátækustu ríkja heims, hið svokallaða HIPC-átak, sem er leitt af Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Átakið er ekki enn að fullu fjármagnað, en Ísland greiddi nýverið lokagreiðslu vegna skuldbindinga sinna til HIPC, alls um 250 milljónir króna. Nú hefur verið samið um niðurfellingu skulda 26 þróunarlanda að upphæð u.þ.b. 40 milljarða bandaríkjadala. Alls er reiknað með að HIPC-átakið taki til meðferðar skuldastöðu 38 landa. Áframhaldandi þrýstingur er á yfirvöld iðnríkja að ganga enn lengra í niðurfellingu skulda en þegar hefur verið gert og fjölga þeim löndum sem rétt eiga á stuðningi frá HIPC. Búast má við að Ísland haldi áfram að styrkja HIPC-átakið.

12.2.2.     Íslenskur aðalfulltrúi í stjórn Alþjóðabankans
    Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin skipa sameiginlegan aðalfulltrúa í stjórn Alþjóðabankans og mynda því svokallað kjördæmi í stjórn bankans. Þetta fyrirkomulag kallar á mjög náið samstarf milli kjördæmislandanna. Á skrifstofu kjördæmisins í bankanum í Washington sitja fulltrúar allra landanna átta. Íslendingar skipa nú í stöðu aðstoðarmanns, en á miðju ári 2003 fellur staða aðalfulltrúa í hlut Íslands til þriggja ára. Á því tímabili mun þungamiðja alls starfs kjördæmisins færast á hendur Íslendinga. Auk starfa aðalfulltrúans í Washington mun utanríkisráðuneytið sinna mikilvægu hlutverki þar sem samræming á afstöðu kjördæmislandanna til einstakra mála verður á ábyrgð ráðuneytisins. Þetta starf er mjög umfangsmikið og byggir á daglegu samráði við skrifstofuna í Washington og ráðuneyti annarra kjördæmislanda.
    Nauðsynlegt verður að efla verulega meðferð marghliða þróunarmála innan utanríkisráðuneytisins meðan á þessu verkefni stendur og hefur undirbúningur þegar hafist með styrkingu starfseiningar innan alþjóðaskrifstofu ráðuneytisins. Íslendingar hafa ekki áður ráðist í svo umfangsmikið verkefni á sviði marghliða þróunarsamvinnu. Þessi aukna ábyrgð verður því kjörið tækifæri til að styrkja til frambúðar markvissari meðferð þessa málaflokks innan utanríkisráðuneytisins.
    Ráðherrar kjördæmisins eiga að jafnaði árlegan samráðsfund með bankastjóra Alþjóðabankans. Þá skiptast Norðurlöndin á um að halda reglulega samráðsfundi embættismanna um málefni bankans. Næsti samráðsfundur fer fram í Reykjavík í apríl 2002. Í byrjun árs 2002 kom í hlut Íslands að skipa aðalfulltrúa í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til tveggja ára. Ólafur Ísleifsson, framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Seðlabanka Íslands, tók sæti í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkja. Stýrir hann jafnframt skrifstofu þeirra hjá sjóðnum. Ísland mun auk þess fara með varaformennsku á ársfundi Bretton Woods stofnananna, Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, í Washington haustið 2002.

12.2.3. Alþjóðlegi umhverfissjóðurinn (GEF)
    Í ljósi árangurs Íslands við lausn íslenska ákvæðisins og fullgildingar Kýótó-bókunarinnar hyggst utanríkisráðuneytið beita sér fyrir því að Ísland gerist aðili að Alþjóðlega umhverfissjóðnum (Global Environment Facility eða GEF). Sjóðurinn er notaður til að fjármagna ýmis verkefni sem tengjast loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna og Kýótó-bókuninni.
    Aðildarríki GEF eru 172 talsins, þar á meðal öll aðildarríki OECD. Hlutverk sjóðsins er að veita þróunarríkjum styrki eða víkjandi lán til verkefna sem varða hnattræn umhverfismál. Þar á meðal eru verkefni er varða íslenska hagsmuni eins og verndun hafsins, ráðstafanir til að draga úr mengun af völdum þrávirkra lífrænna efna og verkefni í þróunarríkjunum sem snúa m.a. að endurnýjanlegum orkugjöfum, eins og jarðhita. GEF hefur aðsetur hjá Alþjóðabankanum í Washington en bankinn, ásamt Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna og Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna, eru framkvæmdaaðilar þeirra verkefna sem fjármögnuð eru af sjóðnum. Í athugun er að Ísland gerist aðili að sjóðnum á þessu ári.

12.2.4.     Þróunarverkefni á vegum FAO, WFP og IFAD
    Um tveggja ára skeið hefur Ísland setið í FAO-ráðinu. Fastanefnd Íslands hefur á þeim tíma stýrt norrænu samstarfi og samvinnu á þeim vettvangi og mun gera það út árið 2002 á meðan Ísland situr í ráðinu. Í janúar 2000 var opnuð sérstök skrifstofa fastanefndarinnar í Róm með einum starfsmanni til þess að sinna því verkefni. Skrifstofan sinnir einnig tveimur öðrum stofnunum Sameinuðu þjóðanna í Róm sem Ísland er aðili að, þ.e. Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) sem veitir neyðaraðstoð og fæðuhjálp til flóttamanna og annarra í neyð af völdum náttúruhamfara, og Alþjóðasjóði um þróun landbúnaðar (IFAD) sem lánar fátækustu ríkjum heims til þróunarverkefna á sviði landbúnaðar og fiskimála.
    Á vettvangi fyrrnefndra sérstofnana Sameinuðu þjóðanna í Róm er samvinna Norðurlandanna bæði sterk og umfangsmikil. Vegna sterkrar stöðu þeirra í þróunarmálum á alþjóðavettvangi er horft til skoðana þeirra í stjórnum og ráðum. Þátttaka Íslands í norrænni samvinnu á þessum vettvangi hefur því töluvert vægi og er mikilvæg vídd í þátttöku Íslands á alþjóðavettvangi. Sérstofnanir Sameinuðu þjóðanna í Róm gegna lykilhlutverki í stærstu og mikilvægustu verkefnum þessarar aldar, þ.e. þróun þriðja heimsins og útrýmingu fátæktar og hungurs. Engin þjóð getur staðið utan við þá vinnu og ábyrgð sem alþjóðasamfélagið hefur í þeim efnum.

Meginverkefni FAO
    
Hlutverk FAO er að bæta fæðuöryggi og velferð fólks í aðildarlöndunum með því að auka framleiðni í landbúnaði, framleiðslu og dreifingu matvæla og landbúnaðarafurða, þar með talið sjávar- og skógarafurða. Verkefni stofnunarinnar beinast sérstaklega að því að bæta kjör fólks í dreifbýli og stuðla þannig að auknum hagvexti og útrýmingu hungurs í heiminum.
    Fiskimáladeild FAO er heimsvettvangur þjóða á sviði fiskimála og hafa íslensk stjórnvöld sinnt því starfi í samræmi við það. Í siðareglum FAO um ábyrgð í fiskimálum frá 1995 er lagður grunnur að því starfi sem nú er unnið hjá FAO á sviði fiskimála. Reykjavíkurráðstefnan um ábyrgar veiðar í vistkerfi sjávar er án efa mikilvægasta samstarfsverkefni FAO og íslenskra stjórnvalda á liðnum árum og var liður í útfærslu og framkvæmd siðareglnanna. FAO-ráðið samþykkti yfirlýsingu Reykjavíkurráðstefnunnar, sem síðar var samþykkt af öllum aðildarlöndum FAO á aðalráðstefnu stofnunarinnar haustið 2001 (sjá kafla 11.1.3).
    Á ráðherrafundi fiskideildar FAO árið 1999 var samþykkt að gera skyldi sérstaka alþjóðaáætlun til þess að berjast gegn og útrýma ólöglegum og óskráðum fiskveiðum. Sérfræðingar sjávarútvegsráðuneytisins voru virkir þátttakendur og höfðu veruleg áhrif við gerð áætlunarinnar á tæknifundum aðildarlandanna. Áætlunin hlaut síðan samþykki fiskinefndar FAO á síðasta ári.
    Af öðrum mikilvægum hagsmunamálum á sviði fiskimála hjá FAO má nefna CITES mál, ríkisstyrki í sjávarútvegi og umhverfismerkingar sjávarafurða. Sérfræðingar sjávarútvegsráðuneytisins hafa tekið virkan þátt í stefnumótun um skráningu nytjategunda í sjó á lista CITES-stofnunarinnar um tegundir í útrýmingarhættu. Í ríkisstyrkjamálinu lögðu íslensk stjórnvöld áherslu á mikilvægi aðkomu fiskideildar FAO sem bæri að skoða og safna tæknilegum upplýsingum um ríkisstyrki í sjávarútvegi og áhrifum þeirra á viðskipti og sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda hafsins. Íslensk stjórnvöld tóku að sér á fundi fiskimálanefndar FAO að kynna vinnu norrænnar nefndar um umhverfismerkingar sjávarafurða.
    Á sviði tvíhliða þróunaraðstoðar sem snýr að fiskimálum hefur FAO verið vettvangur fyrir samstarf á milli ríkja, þróunarsamvinnustofnananna og þróunarbanka. Ísland hefur frá upphafi tekið þátt í þeirri samvinnu og meðal annars beitt sér fyrir aukinni þátttöku Alþjóðabankans. Mikilvægt er að hvetja til samvinnu allra aðila á þessum vettvangi svo þekking og reynsla fiskimáladeildar FAO nýtist sem víðast. Eins er brýnt að komast hjá óþarfa uppbyggingu hjá öðrum stofnunum á þekkingu sem er til staðar hjá FAO og hafa íslensk stjórnvöld hvött til þess að fiskimálanefnd FAO (COFI) verði meginvettvangur stefnumótunar í fiskimálum á alþjóðavettvangi.
    Mikilvægasta verkefni FAO í ár er leiðtogafundurinn um framvindu áætlunar Rómar- yfirlýsingarinnar frá Fæðuráðstefnu FAO 1996 þar sem leiðtogar heims settu sér það markmið að fækka hungruðum um helming fyrir 2015.

Verkefni Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP)
    
Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna hóf starfsemi sýna árið 1963. Allar aðildarþjóðir Sameinuðu þjóðanna og FAO standa að stofnuninni með frjálsum framlögum. Matvælaáætlunin veitir neyðaraðstoð og fæðuhjálp til flóttamanna og annarra í neyð af völdum náttúruhamfara. Samvinna er milli Norðurlandanna um málefni stofnunarinnar, bæði milli fulltrúa í Róm og höfuðborganna en Norðurlöndin eru meðal sterkustu styrktaraðila Matvælaáætlunarinnar. Frá því skrifstofa fastanefndar Íslands hjá FAO var opnuð í Róm hefur verið fylgst með starfsemi matvælaáætlunarinnar. Verið er að skoða möguleika á frekara samstarfi við stofnunina, t.d. varðandi útsendingu sérfræðinga til mannúðarstarfa á borð við aðstoð við flóttafólk og dreifingu matvæla (sjá kafla 5.1.3).

Alþjóðasjóðurinn um þróun landbúnaðar (IFAD)
    
Ísland gerðist formlegur aðili að Alþjóðasjóðnum um þróun landbúnaðar (IFAD) á síðasta ári og tekur nú að fullu þátt í samvinnu Norðurlandanna á vettvangi sjóðsins. Ísland stýrir nú samráði Norðurlandanna fram að næsta aðalfundi í febrúar 2003 sem felur m.a. í sér að ávarpa aðalfundinn fyrir hönd allra Norðurlandanna. Sjóðurinn er ein af sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna og hóf starfsemi sína í Róm árið 1977. Ákvörðunin um stofnun sjóðsins var tekin í kjölfar matvælaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna árið 1974. Markmið sjóðsins er að afla fjármagns til þróunarverkefna í landbúnaði, þar með talið sjávarútvegi, þar sem fyrst og fremst skal fjármagna verkefni sem auka fæðuframleiðslu hjá fátækustu þróunarríkjunum sem búa við mestan fæðuskort. Undanfarin fjögur ár hefur utanríkisráðuneytið styrkt sjóðinn lítils háttar. Sjóðurinn er rekinn fyrir frjáls framlög, tekjur af eignum og endurgreiðslur af lánum. Hafinn er undirbúningur að fjármögnun sjóðsins fyrir tímabilið 2004–2006.

12.2.5. Jarðhitaskóli og Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna
    Íslendingar hafa um árabil átt gott samstarf við Háskóla Sameinuðu þjóðanna (HSþ). Jarðhitaskóli HSþ hefur starfað hér á landi síðan 1979 og útskrifað liðlega 260 nemendur frá 38 löndum. Í ljósi góðrar reynslu af Jarðhitaskólanum var Íslendingum falið að setja á stofn Sjávarútvegsskóla HSþ sem tók til starfa árið 1998. Starfsemi Sjávarútvegsskólans hefur farið vaxandi ár frá ári. Frá stofnun skólans hafa alls 43 nemendur frá 15 löndum útskrifast. Búist er við að fjöldi nemenda í Sjávarútvegsskólanum starfsárið 2002 verði á bilinu 18–20, m.a. frá þremur nýjum samstarfslöndum. Háskólaráð HSþ, sem aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skipar, hefur farið lofsamlegum orðum um skólana á Íslandi og m.a. sagt að hinn góði árangur við að miðla þróunarlöndunum af sérþekkingu Íslands við sjálfbæra nýtingu jarðhita og sjávarafla endurspeglaði góðan hug íslensku þjóðarinnar til markvissrar þróunaraðstoðar í samvinnu við HSþ.

12.2.6.     Önnur þróunarverkefni
NEPAD
    
Í byrjun árs 2001 voru lagðar fram áætlanir sem miðuðu að því að draga úr fátækt í Afríku og auka þróun í álfunni. Að frumkvæði forseta Suður-Afríku var lagður grunnur að sérstöku samstarfsverkefni, MAP, og öðru verkefni, OMEGA, sem forseti Senegal stofnaði til. Síðar voru áætlanirnar tvær sameinaðar undir merkjum New Africa Initiative (NAI). Á fundi þjóðarleiðtoga Afríkuríkja í Nígeríu í október 2001 var ákveðið að koma á fót stofnun sem kallast „New Partnership for Africa´s Development“ (NEPAD). Stofnunin tók við verkefnum NAI en fékk jafnframt aukið hlutverk. Grunnhugmynd NEPAD er að Afríkuríki taki meiri ábyrgð á þróunarmálum í álfunni sem byggi m.a. á afrískri eignaraðild og stjórnun. Svo þetta megi takast er nauðsynlegt að leysa deilumál í álfunni, efla lýðræði og mannréttindi og auka stöðugleika í efnahagslífinu. Með þetta í huga hafa verið lögð til margvísleg verkefni í NEPAD-löndunum. Gert er ráð fyrir verulegum stuðningi iðnríkjanna með aukinni þróunaraðstoð, niðurfellingu skulda, bættu markaðsaðgengi og aukinni fjárfestingu erlendra aðila. Á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda með utanríkisráðherrum nokkurra Afríkuríkja um NEPAD, sem haldinn var í Stokkhólmi í janúar sl., lýstu utanríkisráðherrar Norðurlanda stuðningi við stofnun NEPAD og þau sjónarmið sem stofnunin hefur til grundvallar í áherslum sínum.

Norræni þróunarsjóðurinn (NDF)
    
Norræni þróunarsjóðurinn (NDF) tók formlega til starfa 1. febrúar 1989. Markmið NDF er að styrkja efnahagslegar og félagslegar framfarir í fátækustu þróunarríkjunum í samvinnu við aðrar lánastofnanir og lánar sjóðurinn fé á vildarkjörum til langs tíma. Árið 2001 samþykkti stjórn sjóðsins að takmarka lán sjóðsins næstu árin við um tuttugu samstarfslönd. Stærstu lántakendur sjóðsins eru Senegal, Mósambík, Úganda, Gana, Malaví, Laos, Nepal, Bólivía og Níkaragúa. NDF tekur fullan þátt í að létta lánabyrði skuldsettustu lántökulanda sinna í samræmi við ramma og reglur sem alþjóðlegar lánastofnanir setja til aðstoðar fátækustu ríkjum heims. Sjóðurinn hefur þegar tekið á sig slíkar skuldbindingar vegna Bólivíu, Eþíópíu, Malaví, Mósambík, Níkaragúa, Senegal, Tansaníu og Úganda.
    Norræna ráðherranefndin ákvað á árinu að breyta samþykktum NDF þannig að nú getur sjóðurinn veitt áhættulán til einkafyrirtækja í lántökulöndum sínum án ríkisábyrgðar. Slík lán verða þó aðeins lítill hluti heildarlána sjóðsins á hverju ári. Þessi lán munu væntanlega auka möguleika íslenskra útrásarfyrirtækja til samstarfs við fyrirtæki í þróunarlöndunum en íslensk fyrirtæki hafa mun lakari aðgang að áhættulánum í þróunarlöndunum en samkeppnisaðilar í flestum iðnríkjum vegna þess að Ísland á ekki aðild að þróunarbönkum Afríku, Asíu og Rómönsku Ameríku. Íslensk fyrirtæki hafa tekið beinan þátt í sjö verkefnum NDF, fimm fiskveiðiverkefnum (í Malaví, Mósambík, Namibíu, Grænhöfðaeyjum og Úganda) og hitaveituverkefni í Kína. Fiskveiðiverkefnin á Grænhöfðaeyjum, í Malaví og Mósambík voru í samvinnu við ÞSSÍ.

     13.      TVÍHLIÐA SAMSKIPTI, UPPLÝSINGA- OG MENNINGARMÁL, ÞJÓÐRÆKNI OG KJÖRRÆÐISMENN
13.1.     Upplýsinga- og menningarmál
Umfangsmikil upplýsingagjöf
    
Á undanförnum mánuðum hefur utanríkisráðuneytið lagt áherslu á að byggja upp vefsetur ráðuneytisins og sendiskrifstofa Íslands erlendis. Á síðasta ári var ráðinn sérstakur vefstjóri til þessa verkefnis en hann starfar náið með samráðshópi um uppbyggingu stjórnarráðsvefsins. Aðalvefur utanríkisráðuneytisins, sem er á slóðinni www.utanrikisraduneytid.is, hefur að geyma mikið magn upplýsinga um utanríkismál, alþjóðasamskipti og starfsemi utanríkisráðuneytisins og sendiskrifstofa erlendis. Sérstök áhersla er lögð á að allt upplýsingaefni ráðuneytisins sé tiltækt á vefnum jafnskjótt og það kemur út og þar er jafnframt dregið fram það sem hæst ber í starfseminni hverju sinni. Vefur utanríkisráðuneytisins er í stöðugri þróun og sýna mælingar að hann er einn af mest sóttu vefjum stjórnarráðsins.
    Viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins rekur eigið vefsetur, www.vur.is, sem hefur að markmiði að veita íslenskum fyrirtækjum upplýsingar og margvíslega fyrirgreiðslu varðandi útflutning. Aðrir undirvefir ráðuneytisins eru EES-vefsetrið, www.ees.is, og vefsetur þýðingarmiðstöðvar utanríkisráðuneytisins, þar sem meðal annars má finna orðasafn þýðingarmiðstöðvarinnar.
    Opnuð hafa verið vefsetur fyrir allar sendiskrifstofur Íslands erlendis og eru þau aðgengileg á sameiginlegri inngangssíðu, www.iceland.org. Tilgangur vefsetranna er að veita almennar upplýsingar um Ísland og íslensk málefni, sértækar upplýsingar um starfsemi viðkomandi sendiskrifstofu og ýmsar hagnýtar upplýsingar fyrir Íslendinga erlendis og erlent áhugafólk um land og þjóð. Almennu upplýsingarnar eru sameiginlegar á öllum vefsetrunum og koma úr sérstökum upplýsingabanka sem ráðuneytið hefur umsjón með. Einstakar sendiskrifstofur eru hins vegar ábyrgar fyrir uppbyggingu og uppfærslu á staðbundnum hlutum vefsetranna. Vel rekin vefsetur geta haft mikinn vinnusparnað í för með sér og aukið svigrúm starfsmanna til að takast á hendur önnur verkefni.
    Nýtt vefsetur utanríkisráðuneytisins á ensku, www.mfa.is, var opnað á liðnu hausti. Auk upplýsinga um utanríkismál og starfsemi utanríkisráðuneytisins er þar að finna upplýsingar um Ísland og íslenskt þjóðfélag, menningu og sögu. Vefsetrið er enn í uppbyggingu og mun það gegna hlutverki opinbers upplýsingaseturs um Ísland. Sá hluti vefsetursins sem inniheldur almennar upplýsingar um Ísland og íslenska stjórnsýslu myndar jafnframt grunn að vefsetrum sendiskrifstofa Íslands.
    Veraldarvefurinn hefur þróast mjög hratt undanfarin ár og gegnir nú síauknu hlutverki í upplýsingasamfélagi nútímans. Samráðshópur ráðuneytanna hefur unnið að uppbyggingu stjórnarráðsvefsins í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í upplýsingamálum og er markmið vefsins að gera almenningi og fyrirtækjum kleift að leita hvers kyns upplýsinga sem stjórnsýslan miðlar og sækja rafræna opinbera þjónustu með einföldum og skjótvirkum hætti. Stórt skref var stigið í þessa átt á liðnu ári þegar stjórnarráðsvefurinn var færður í nýtt útlit. Hvert ráðuneyti rekur sjálfstæð vefsetur en útlit og uppbygging þeirra er samræmt í því sjónarmiði að gera efni þeirra sem aðgengilegast.
    Þrátt fyrir nýjar áherslur á sviði upplýsingatækni mun utanríkisráðuneytið áfram leggja áherslu á útgáfu vandaðs upplýsingaefnis í prentuðu máli á íslensku og erlendum tungumálum. Ráðuneytið gefur annað hvert ár út upplýsingarit um íslenskar hagtölur, „Iceland in Figures“, í samstarfi við Hagstofu Íslands. Ráðuneytið gefur enn fremur út sérhæft upplýsingaefni er varðar starfsemi ráðuneytisins og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Þetta efni er einnig aðgengilegt á vefsetri ráðuneytisins.
    Utanríkisþjónustan starfar einnig með Ferðamálaráði Íslands og hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu að kynningu á Íslandi sem áhugaverðum áfangastað fyrir erlenda ferðamenn. Mikilvægt upplýsinga- og kynningarstarf á þessu sviði fer fram í sendiskrifstofum Íslands. Hluti af daglegu starfi starfsmanna í sendiráðum Íslands og á skrifstofum kjörræðismanna felst í því að svara margvíslegum fyrirspurnum um land og þjóð og ferðaþjónustumöguleika. Starfsfólk utanríkisþjónustunnar býr yfir mikilli þekkingu og reynslu í þessum efnum og hefur í gegnum árin náð góðum árangri í samstarfi við markaðsskrifstofur Ferðamálaráðs og Flugleiða erlendis. Að frumkvæði utanríkisráðuneytisins hefur Ferðamálaráð nýverið gefið út upplýsingabæklinga um Ísland á rússnesku og japönsku sem nýst hafa vel til markaðssóknar í viðkomandi ríkjum. Huga þarf að því hvernig samhæfa megi betur starfsemi utanríkisþjónustunnar og Ferðamálaráðs á erlendum vettvangi enda víða samstarfsmöguleikar fyrir hendi.

Fjölbreytt menningarstarf sendiskrifstofa
    
Sérhverri sjálfstæðri þjóð ber skylda til að hlúa vel að menningu sinni og kynna hana erlendis á þeim vettvangi sem viðeigandi er. Á þann hátt ávinnur þjóð sér sess erlendis, styrkir ímynd sína, eflir tengsl við aðrar þjóðir og stuðlar að framgangi hagsmunamála sinna. Utanríkisráðuneytið hefur ekki haft sérstaka fjárveitingu á fjárlögum vegna starfsemi sendiskrifstofa á sviði menningarmála. Forræði í menningarmálum heyrir undir menntamálaráðuneytið sem veitir fjárstyrki til menningarstarfsemi erlendis. Utanríkisþjónustan hefur átt gott samstarf við menntamálaráðuneytið á þessum vettvangi. Þrátt fyrir fjárhagslega annmarka standa sendiskrifstofur Íslands reglulega að fjölbreyttri kynningu á íslenskri menningu og menningararfleifð erlendis í samstarfi við menntamálaráðuneyti, opinberar stofnanir, samtök listafólks og hagsmunaaðila í útflutningi og ferðaþjónustu.
    Utanríkisráðuneytið hefur lagt sérstaka áherslu á að vekja athygli á íslenskri menningu í tengslum við opinberar heimsóknir utanríkisráðherra erlendis. Má nefna fjölbreyttar íslenskrar menningardagskrár í Japan og Kína í nóvember og desember 2001 í tilefni af opinberum heimsóknum utanríkisráðherra til þessara ríkja og opnunar sendiráðs Íslands í Tókýó. Á þessu ári er þess minnst að öld er liðin frá fæðingu Halldórs Laxness rithöfundar. Af því tilefni verða settar upp sýningar erlendis sem helgaðar eru minningu skáldsins. Laxness-sýningar verða meðal annars settar upp á Norðurlöndum, í Þýskalandi, Austurríki og Rússlandi. Sýning helguð Halldóri Laxness var einnig opnuð í Aþenu í september 2001 í tilefni af opinberri heimsókn forseta Íslands til Grikklands. Utanríkisþjónustan hefur átt náið samstarf við skrifstofu forseta Íslands, menntamálaráðuneyti og Bókmenntakynningarsjóð viðvíkjandi þessi verkefni. Þá á utanríkisráðuneytið og sendiskrifstofur erlendis gott samstarf við Kvikmyndasjóð Íslands um kynningu á íslenskri kvikmyndagerð erlendis.
    Utanríkisþjónustan á aðild að margvíslegri kynningu á íslenskri menningu á erlendum vettvangi. Á þessu ári standa Norðurlöndin sameiginlega að fjölbreyttu menningarátaki á Bretlandseyjum og Írlandi. Á næsta ári og árið 2004 stendur til að kynna menningu Norðurlanda í Suðaustur-Evrópu og á Balkanskaga. Sameiginlegt upplýsinga- og menningarhús á norræna sendiráðssvæðinu í Berlín hefur nýst vel til kynningar á íslenskri menningu í Þýskalandi. Svæðið nýtur vinsælda í Berlín og árlega heimsækja það tugþúsundir gesta. Sýning á verkum íslenskra hönnuða verður opnuð þar snemma á næsta ári. Nú stendur yfir undirbúningur að umfangsmikilli íslenskri menningarkynningu í Frakklandi árið 2004 í samvinnu íslenskra og franskra stjórnvalda. Sendiskrifstofur Íslands á Norðurlöndum eiga aðild að margvíslegri menningarstarfsemi sem stendur á gömlum merg. Í Rússlandi er ráðgert að setja upp sýningu á verkum úr eigu Listasafns Íslands og ástæða er til að minnast á vel heppnaða sýningu í haust á íslenskri nútímalist í Corcoran-safninu í Washington D.C., einu virtasta myndlistarsafni Bandaríkjanna.

Menningarkynning á landafundaári
    
Sendiskrifstofur Íslands í Norður-Ameríku standa að öflugri menningarstarfsemi á sínum starfssvæðum. Sendiráð Íslands í Washington og aðalræðismenn í New York og Winnipeg stóðu að undirbúningi og framkvæmd árangursríkrar dagskrár landafundanefndar í Norður-Ameríku árið 2000 og fylgja nú þeim árangri eftir í samvinnu við sendiráð Íslands í Ottawa sem opnað var í fyrra. Sendiráð Íslands í Washington D.C. og aðalræðisskrifstofan í New York eiga gott samstarf við samtökin „American Scandinavian Foundation“ sem vígði glæsilegt húsnæði í miðborg New York í október 2000 sem mun nýtast vel við kynningu á norrænni menningu.
    Víkingasýning á vegum Smithsonian-stofnunarinnar í Washington D.C., í tilefni af þúsund ára afmæli landafunda norrænna manna í Ameríku árið 2000, vakti mikla athygli í Bandaríkjunum og kveikti áhuga á víkingatímanum og norrænum menningararfi. Víkingasýningin er ein umfangsmesta sýning sem Smithsonian-stofnunin hefur ráðist í á síðari árum og naut hún fjárstuðnings Norðurlanda og norrænna fyrirtækja í Bandaríkjunum. Hún var jafnframt mikilvæg viðbót við vel heppnaða dagskrá landafundanefndar í Norður-Ameríku. Sýningin er farandsýning sem síðar var opnuð í New York, Houston og Denver. Nú stendur sýningin yfir í Los Angeles og verður formlega opnuð í Ottawa þann 7. maí næstkomandi. Hún verður sett upp í Minneapolis í haust og lýkur þá yfirreið sinni um Norður-Ameríku. Sendiráð Íslands í Ottawa á nú aðild að undirbúningi sérstakrar hátíðardagskrár í tengslum við opnunina í Ottawa. Hlutur Íslands er veglegur í sýningunni og eru fjölmargir dýrgripir úr fórum Þjóðminjasafns Íslands á meðal sýningarmuna.
    Nýverið kom út upplýsingarit á vegum íslenskra stjórnvalda, „Discovery, Iceland´s Amazing Adventure“, helgað landafundunum og íslenskum menningararfi. Ritið er einkum ætlað til dreifingar í Norður-Ameríku og er prentað í stóru upplagi.

13.2.     Þjóðrækni
    Ríkisstjórnin hefur á undanförnum árum unnið markvisst að því að efla samskipti við fólk af íslenskum uppruna í Norður-Ameríku. Vorið 1999 var opnuð aðalræðisskrifstofa í Winnipeg í Manitobafylki með útsendum starfsmanni utanríkisþjónustunnar. Á þessu svæði er fjölmennasta byggðarlag Íslendinga í heiminum, utan Íslands. Efnt var til umfangsmikilla hátíðahalda á vegum landafundanefndar í Norður-Ameríku árið 2000 og loks var nýtt íslenskt sendiráð opnað í Ottawa í maí, 2001.
    Þessar áherslur hafa haft þau áhrif að samskipti Íslendinga við fólk af íslenskum uppruna í Norður-Ameríku á sviði þjóðrækni, viðskipta- og menningarmála blómstra nú sem aldrei fyrr. Á sama tíma hefur orðið merkjanleg aukning í viðskiptum á milli Íslands og Kanada og margvísleg samskipti á sviði ferðaþjónustu hafa enn fremur aukist. Nýju lífi hefur verið blásið í starfsemi þjóðræknisfélaga í Norður-Ameríku og þar er mikill hugur í fólki sem leggur áherslu á að tryggja áframhaldandi samskipti. Þetta eru gamalgróin félög með sterkar rætur. Innan vébanda þessara félaga, „Icelandic National League“, starfa á þriðja þúsund duglegir og ósérhlífnir félagsmenn. Markmið þeirra er aðeins eitt, að efla samskiptin við gamla landið.
    Þann 19.–21. apríl 2002 mun Þjóðræknisfélag Íslendinga í Vesturheimi efna til þjóðræknisþings í Minneapolis með fjölbreyttri dagskrá. Þar verður í fyrsta sinn stefnt saman þjóðræknisfélögum bæði í Bandaríkjunum og Kanada í þeim megintilgangi að gera starfsemi félaganna öflugri og skilvirkari. Utanríkisráðuneytið hefur komið að undirbúningi málsins. Ánægjulegt hefur verið að fylgjast með vaxandi áhuga yngra fólks á starfi þjóðræknisfélaganna. Á síðustu þremur árum hefur þessi áhugi endurspeglast í „Snorraverkefninu“ sem byggist á ungmennaskiptum á milli Íslands og Kanada. Íslensk stjórnvöld hafa styrkt verkefnið sem gengið hefur framar vonum. Að frumkvæði utanríkisráðherra var Þjóðræknisfélag Íslands endurreist í október 1997. Félagið rekur nú öfluga starfsemi og nýtur til þess fyrirgreiðslu utanríkisráðuneytisins.
    Aðalræðisskrifstofa Íslands í Winnipeg hefur frá upphafi unnið mikilvægt starf við að kortleggja starfsemi þjóðræknisfélaganna í Kanada og er nú miðstöð samskipta á þessu sviði undir forræði sendiráðs Íslands í Ottawa. Íslensk stjórnvöld og fyrirtæki fjármögnuðu að nokkru leyti framkvæmdir við íslenska þjóðmenningarhúsið í Gimli, „New Iceland Heritage Museum“ sem opnað var í október árið 2000. Þjóðmenningarhúsið býður upp á fjölbreytta möguleika til menningarstarfsemi af Íslands hálfu í framtíðinni. Þar er nýverið lokið sýningu sem helguð var lífi og starfi Vilhjálms Stefánssonar. Utanríkisráðuneytið veitti styrk til uppsetningar sýningarinnar í Norður-Ameríku. Íslensk stjórnvöld fjármögnuðu einnig framkvæmdir við endurbætur á húsnæði fyrir íslenska bókasafnið í Winnipeg sem hefur aðsetur í Manitoba háskóla. Íslenskudeild við háskólann hefur starfað í hálfa öld með glæsilegum árangri. Jafnframt hafa íslensk stjórnvöld stutt dyggilega við bakið á forráðamönnum Vesturfarasetursins á Hofsósi og veitt fjárstyrki til frekari uppbyggingar setursins. Ánægjulegt hefur verið að fylgjast með uppbyggingu þess. Á skömmum tíma hafa þar skapast sterk tengsl við þjóðræknisfélög um alla Norður-Ameríku á sviði ættfræðirannsókna og menningarstarfsemi.

13.3.     Samskipti við kjörræðismenn Íslands erlendis
    Kjörræðismenn gegna mikilvægu hlutverki við hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd. Í mars 2002 starfa 239 einstaklingar sem kjörræðismenn Íslands í 70 þjóðlöndum. Á undanförnum árum hefur utanríkisráðuneytið lagt áherslu á að fjölga kjörræðismönnum og einkum þar sem íslenskir kjörræðismenn hafa ekki starfað áður, svo sem í ríkjum Austur-Evrópu, Afríku, Mið-Austurlöndum, Mið-Ameríku og Karíbahafi.
    Utanríkisráðuneytið hefur einnig gert átak í því að upplýsa kjörræðismenn Íslands enn betur um helstu hagsmunamál Íslands, starfsemi ráðuneytisins og sendiskrifstofa. Jafnframt hefur verið lögð áhersla á að nettengja sem flestar skrifstofur kjörræðismanna við ráðuneytið í því skyni að auðvelda upplýsingaflæði. Frá því í september 2001 hafa kjörræðismenn fengið sent í tölvupósti greinargott yfirlit á ensku tvisvar í viku með helstu fréttum úr viðskipta- og stjórnmálalífi. Hefur þessi nýjung mælst mjög vel fyrir.
    Fimmta ráðstefna kjörræðismanna Íslands var haldin á Grand Hóteli í Reykjavík dagana 2.–5. september 2001. Alls tóku 140 kjörræðismenn þátt í ráðstefnunni, auk maka, sem var metaðsókn. Meginmarkmið ráðstefnunnar var að uppfræða þessa fulltrúa okkar enn betur um Ísland og íslenska hagsmuni með áherslu á utanríkismál, utanríkisþjónustuna, efnahags- og viðskiptamál, umhverfismál, orkumál, mennta- og menningarmál og ferðaþjónustu. Haldnir voru fyrirlestrar og efnt til fyrirtækjakynningar á fundarstað. Einnig heimsóttu ræðismenn Vesturland og kynntu sér atvinnulíf og sögu þjóðarinnar. Ræðismannaráðstefnan þótti takast afar vel og stefnt er að því að næsta ráðstefna af þessu tagi verði haldin árið 2005.
    Skipting kjörræðismanna Íslands eftir heimsálfum:

    Evrópa
 141

    Norður-Ameríka (Bandaríkin, Kanada og Mexíkó)
   46

    Suður-Ameríka (Mið-Ameríka og Karíbahafið meðtalið)
   18

    Asía
   18

    Afríka (sunnan Sahara)
     6

    Mið-Austurlönd og Norður-Afríka
     6

    Ástralía og Nýja-Sjáland
     4

    Samtals
 239               


    Á undanförnum tveimur árum hefur sérstakur starfsmaður ráðuneytisins eingöngu sinnt málefnum kjörræðismanna og samskiptum við þá. Óeigingjarnt starf ræðismanna fyrir íslenska hagsmuni er ómetanlegt og því afar mikilvægt að ráðuneytið sjálft sé í stakk búið til að styðja við bakið á þeim.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




VIÐAUKI 2
Starfsmenn utanríkisþjónustunnar, sendiskrifstofur og umdæmi.

(Mars 2002.)


    Samtals eru 204 launaðir starfsmenn í utanríkisþjónustunni, þar af eru 85 í utanríkisráðuneytinu í Reykjavík og 118 í sendiskrifstofum erlendis. Af þeim síðarnefndu eru 71 útsendir og 47 staðarráðnir. Ólaunaðir kjörræðismenn eru 227.
    Sendiskrifstofur erlendis (sendiráð, fastanefndir og sendiræðisskrifstofur) eru 20 í 16 löndum. Umdæmislönd þeirra eru 93.

Berlín
Umdæmislönd: 4 (Þýskaland, Króatía, Sviss og Ungverjaland).
Ræðisskrifstofur: 17
Útsendir starfsmenn: 3.
Staðarráðnir: 4
Samtals: 7 + 17 kjörræðismenn.

Brussel, sr.
Umdæmislönd: 4 (Belgía, Liechtenstein, Lúxemborg og Marokkó)
Stofnanir: 1 (ESB).
Ræðisskrifstofur: 4.
Útsendir starfsmenn: 6.
Staðarráðnir: 4
Frá öðrum ráðuneytum: 9.
19 samtals + 4 kjörræðismenn.

Brussel, fn.
Stofnanir: 3 (NATO, OPCW og VES).
Útsendir starfsmenn: 6.
Staðarráðinn: 1.
7 samtals.

Genf
Umdæmisland: 1 (Slóvenía)
Stofnanir: 8 (EFTA, WTO, stofnanir Sþ. í Genf, ITU, WHO, WIPO, WMO og ILO).
Útsendir starfsmenn: 4.
Staðarráðnir: 2.
6 samtals.

Helsinki
Umdæmislönd: 4 (Finnland, Eistland, Lettland og Úkraína).
Ræðisskrifstofur: 10
Útsendur starfsmaður: 2.
Staðarráðinn: 3
5 samtals + 11 kjörræðismenn.

Japan:
Umdæmisland: 1 (Japan)
Ræðisskrifstofur: 2
Útsendir starfsmenn: 3
Staðarráðnir: 3
6 samtals + 2 kjörræðismenn

Kanada:
Umdæmisland: 1 (Kanada)
Ræðisskrifstofur: 10 (þar af 1 sendiræðisskrifstofa í Winnipeg)
Útsendir starfsmenn: 3
Staðarráðnir: 3
6 samtals + 10 kjörræðismenn

Kaupmannahöfn
Umdæmislönd: 6 (Danmörk, Ísrael, Litháen, Malta, Rúmenía og Tyrkland).
Ræðisskrifstofur: 23.
Útsendir starfsmenn: 3.
Staðarráðnir: 2.
Frá öðrum ráðuneytum: 1.
6 samtals + 25 kjörræðismenn.

London
Umdæmislönd: 8 (Bretland, Grikkland, Holland, Indland, Írland, Maldíveyjar, Nepal og Nígería).
Ræðisskrifstofur: 25.
Útsendir starfsmenn: 4.
Staðarráðnir: 3.
Frá öðru ráðuneyti: 1.
8 samtals + 26 kjörræðismenn.


Moskva
Umdæmislönd: 11 (Rússland, Armenía, Aserbaídsjan, Georgía, Hvíta Rússland, Kasakstan, Kirgisía, Moldóva, Tadsjikistan, Túrkmenistan og Úsbekistan).
Ræðisskrifstofur: 3
Útsendir starfsmenn: 3.
Staðarráðnir: 5
8 samtals + 4 kjörræðismenn.

New York
Stofnanir: 1 (S.þj. - New York).
Umdæmislönd: 4 (Bahamaeyjar, Barbadoseyjar, Grenada og Kúba).
Ræðisskrifstofa: 1
Útsendir starfsmenn: 6.
Staðarráðnir: 1.
8 samtals + 1 ræðismaður

Osló
Umdæmislönd: 5 (Noregur, Egyptaland, Kýpur, Makedónía og Tékkland).
Ræðisskrifstofur: 12.
Útsendir starfsmenn: 3.
Staðarráðnir: 2.
5 samtals + 13 kjörræðismenn.

Mapútó:
Umdæmislönd. 5 (Mósambík, Malaví, Namibía, Suður-Afríka og Úganda
Ræðisskrifstofur: 4
Útsendir starfsmenn: 1
Staðarráðnir: 1
2 samtals + 4 ræðismenn

París
Umdæmislönd: 6 (Frakkland, Andorra, Ítalía, Portúgal, San Marínó og Spánn).
Stofnanir: 3 (OECD, FAO og UNESCO).
Ræðisskrifstofur: 30.
Útsendir starfsmenn: 6.
Staðarráðnir: 3.
9 samtals + 34 kjörræðismenn.

Peking
Umdæmislönd: 9 (Kína, Ástralía, Indónesía, Mongólía, Norður-Kórea, Nýja-Sjáland, Suður-Kórea, Taíland og Víetnam). Ræðisskrifstofur: 9.
Útsendir starfsmenn: 3.
Staðarráðnir: 4.
7 samtals + 10 kjörræðismenn.

Stokkhólmur
Umdæmislönd: 7 (Svíþjóð, Albanía, Bangaldesh, Búlgaría, Pakistan, Serbía-Svartfjallaland og Sri Lanka).
Ræðisskrifstofur: 10.
Útsendir starfsmenn: 3.
Staðarráðnir: 2.
5 samtals + 10 kjörræðismenn.

Strassborg
Stofnun: 1 (Evrópuráðið).
Umdæmisland: 1 (Páfagarður)
Útsendir starfsmenn: 2.
Staðarráðinn: 1.
3 samtals.

Vín
Umdæmislönd: 4 (Austurríki, Bosnía og Hersegóvína, Slókakía og Ungverjaland)
Stofnanir: 3 (ÖSE, IAEA og S.þj. - Vín).
Ræðisskrifstofur: 5
Útsendir starfsmenn: 3.
Staðarráðinn: 1.
4 samtals + 6 ræðismenn.

Washington
Umdæmislönd: 12 (Bandaríkin, Argentína, Brasilía, Chile, Gvatemala, Kostaríka, Kólumbía, Mexíkó, Níkaragva, Perú, Úrúgvæ og Venesúela).
Ræðisskrifstofur: 41. (þar af 1 sendiræðisskrifstofa í New York)
Útsendir starfsmenn: 7.
Staðarráðnir: 2.
9 samtals + 50 kjörræðismenn.

Utanríkisráðuneytið
Umdæmislönd: 34.
85 starfsmenn

VIÐAUKI 3
Stjórnmálasamband og ræðissamband Íslands við erlend ríki.

(Mars 2002.)


I.      Stjórnmálasamband (og ræðissamband) (122).
    A.     Bæði löndin hafa skipað sendiherra (79).

EVRÓPA (39)
Albanía
Andorra
Austurríki
Belgía
Bosnía og Hersegóvína
Bretland
Búlgaría
Danmörk
Eistland
(Evrópusambandið)
Finnland
Frakkland
Grikkland
Holland
Írland
Ítalía
Júgóslavía (Serbía og
Svartfjallaland)
Króatía
Kýpur
Lettland
Litháen
Lúxemborg
Makedónía i
Noregur
Páfagarður
Portúgal
Pólland
Rúmenía
Rússland
Slóvakía
Slóvenía
Spánn
Sviss
Svíþjóð
Tékkland
Tyrkland
Ungverjaland
Úkraína
Þýskaland

AMERÍKA (utan Karíbahafs - 11)
Argentína
Bandaríkin
Brasilía
Chile
El Salvador
Kanada
Kólumbía
Mexíkó
Perú
Úrúgvæ
Venesúela

KARÍBAHAF (2)
Barbadoseyjar Kúba

MIÐ-AUSTURLÖND (og Norður-Afríka - 7)
Egyptaland
Írak
Íran
Ísrael
Jórdanía
Sádi Arabía
Túnis

ASÍA (utan Mið-Austurlanda - 11)
Bangladess
Indland
Indónesía
Japan
Kína
Mongólía
Norður-Kórea ii
Pakistan
Suður-Kórea iii
Taíland
Víetnam


EYJAÁLFA (1)
Ástralía

AFRÍKA (sunnan Sahara - 8)
Grænhöfðaeyjar
Kenía
Malaví
Namibía
Nígería
Suður-Afríka
Tansanía
Úganda

    B.     Aðeins annað ríkið hefur skipað sendiherra (24).
    
         a. Aðeins hið erlenda ríki hefur skipað sendiherra (13).
Alsír
Angóla
Botsvana
Filippseyjar
Gana
Kúveit
Lesótó
Marokkó
Nepal
Níger
Níkaragva
Srí Lanka
Svasíland

              b. Aðeins Ísland hefur skipað sendiherra (11).
Armenía
Bahamaeyjar
El Salvador
Eþíópía
Georgía
Jamaíka
Kostaríka
Liechtenstein
Moldóva
Mósambík
Nýja-Sjáland

    C.     Sendiherrar ekki skipaðir (20).
Aserbaídsjan
Barein
Búrkína Fasó
Grenada
Gvatemala
Jemen
Kirgisía
Líbanon
Maldíveyjar
Malta
Marshalleyjar
Óman
Panama
San Marínó
Seychelleseyjar
Singapúr
Sómalía
Tadsjikistan
Túrkmenistan
Úsbekistan

II. Ræðissamband eingöngu (aðeins Ísland hefur skipað ræðismann - 3).
Dóminíska lýðveldið Mónakó Hondúras

III. Ríki sem Ísland hefur hvorki stjórnmálasamband né ræðissamband við (65).
EVRÓPA (1)
Hvíta-Rússland

AMERÍKA (utan Karíbahafs - 7)
Belís
Bólivía
Ekvador
Gvæana
Hondúras
Paragvæ
Súrínam


KARÍBAHAF (7)
Antígva og Barbúda
Dóminíka
Haítí
Sankti Kristófer og Nevis Sankti Lúsía
Sankti Vincent og
Grenadíneyjar
Trínídad og Tóbagó

MIÐ-AUSTURLÖND (og Norður-Afríka - 4)
Afganistan
Líbía
Sameinuðu arabísku
furstadæmin
Sýrland

ASÍA (utan Mið-Austurlanda - 6)
Brúnei
Bútan
Kambódía
Kasakstan
Laos
Burma

EYJAÁLFA (11)
Fídjieyjar
Kíribatí
Míkrónesía
Nárú
Palá
Papúa
Salómonseyjar
Samóa
Tonga
Túvalú
Vanúatú

AFRÍKA (sunnan Sahara - 29)
Benín
Búrúndí
Djíbútí
Erítrea
Fílabeinsströndin
Gabon
Gambía
Gínea
Gínea-Bissá
Kamerún
Kongó
Kómoreyjar
Líbería
Madagaskar
Malí
Máritanía
Máritíus
Mið-Afríkulýðveldið
Miðbaugs-Gínea
Rúanda
Saír
Sambía
Saó Tóme og Prinsípe
Senegal
Simbabve
Síerra Leóne
Súdan
Tógó
Tsjad

Samantekt
I.    Stjórnmálasamband (og ræðissamband)
    A.    Bæði löndin hafa skipað sendiherra
    B.    Aðeins annað ríkið hefur skipað sendiherra
            a. Erlenda ríkið
            b. Ísland
    C.    Sendiherrar ekki skipaðir
II.    Ræðissamband eingöngu (aðeins Ísland hefur skipað
        ræðismann)
III.    Ekkert stjórnmála- eða ræðissamband
Lönd samtals
122
79
24
13
11
20

3
65
190


VIÐAUKI 4
Fyrirsvar Íslands við ríki
sem Ísland hefur stjórnmála- eða ræðissamband við
og fyrirsvar þeirra gagnvart Íslandi.

(Mars 2002.)


Land Fyrirsvar Íslands i Fyrirsvar gagnvart Íslandi
Albanía
Alsír
Andorra
Angóla
Argentína
Armenía
Aserbaídsjan
Austurríki
Ástralía
Bahamaeyjar
Bandaríkin
Bangladess
Barbadoseyjar
Barein
Belgía
Bosnía og Hersegóvína
Botsvana
Brasilía
Bretland
Búlgaría
Búrkína Fasó
Chile
Danmörk
Egyptaland
Eistland
El Salvador
(Evrópusambandið)
Eþíópía
Filippseyjar
Finnland
Frakkland
(Frelsissamtök Palestínu)
Gana
Georgía     
Grenada
Grikkland
Grænhöfðaeyjar
Gvatemala
Holland
Indland
Indónesía
Írak
Íran
Írland
Ísrael
Ítalía
Jamaíka
Japan
Jemen
Jórdanía
Kanada
Kasakstan
Katar
Kenía
Kirgisía
Kína
Kostaríka
Kólumbía
Króatía
Kuveit
Kúba
Kýpur
Lesótó
Lettland
Liechtenstein
Litháen
Líbanon
Lúxemborg
Makedónía
Malasía
Malaví
Maldíveyjar
Malta
Marokkó
Marshalleyjar
Mexíkó
Moldóva
Mongólía
Mónakó
Mósambík
Namibía
Nepal
Níger
Nígería
Níkaragva
Norður-Kórea ii
Noregur
Nýja-Sjáland
Óman
Pakistan
Panama
Páfagarður
Perú
Portúgal
Pólland
Rúmenía
Rússland
San Marínó
Sádi-Arabía
Serbía og Svartfjallaland iii
Seychelleseyjar
Singapúr
Slóvakía
Slóvenía
Sómalia
Spánn
Srí Lanka
Suður-Afríka     
Suður-Kórea iv
Svasíland
Sviss
Svíþjóð
Taíland
Tansanía
Tadsjikistan
Tékkland
Túnis
Túrkmenistan
Tyrkland
Ungverjaland
Úganda
Úkraína
Úrúgvæ
Úsbekistan
Venesúela
Víetnam
Þýskaland
Sr. Stokkhólmi
Utanríkisráðuneytið
Sr. París
Utanríkisráðuneytið
Sr. Washington
Sr. Moskvu
Sr. Moskvu
Sr. Vín
Sr. Peking
Fn. New York
Sr. Washington
Sr. Stokkhólmi
Fn. New York
Utanríkisráðuneytið
Sr. Brussel
Sr. Vín
Utanríkisráðuneytið
Sr. Washington
Sr. London
Sr. Stokkhólmi
Utanríkisráðuneytið
Sr. Washington
Sr. Kaupmannahöfn
Sr. Osló
Sr. Helsinki
Utanríkisráðuneytið
Sr. Brussel
Utanríkisráðuneytið
Utanríkisráðuneytið
Sr. Helsinki
Sr. París
Utanríkisráðuneytið
Utanríkisráðuneytið
Sr. Moskvu
Fn. New York
Sr. London
Utanríkisráðuneytið
Sr. Washington
Sr. London
Sr. London
Sr. Peking
Utanríkisráðuneytið
Utanríkisráðuneytið
Sr. London
Sr. Kaupmannahöfn
Sr. París
Utanríkisráðuneytið
Sr. Tókýó
Utanríkisráðuneytið
Utanríkisráðuneytið
Sr. Ottawa
Sr. Moskvu
Utanríkisráðuneytið
Utanríkisráðuneytið
Sr. Moskvu
Sr. Peking
Sr. Washington
Sr. Washington
Sr. Berlín
Utanríkisráðuneytið
Fn. New York
Sr. Osló
Utanríkisráðuneytið
Sr. Helsinki
Sr. Brussel
Sr. Kaupmannahöfn
Utanríkisráðuneytið
Sr. Brussel
Sr. Osló
Utanríkisráðuneytið
Sr. Mapútó
Sr. London
Sr. Kaupmannahöfn
Sr. Brussel
Utanríkisráðuneytið
Sr. Washington
Sr. Moskvu
Sr. Peking
Utanríkisráðuneytið
Sr. Mapútó
Sr. Mapútó
Sr. London
Utanríkisráðuneytið
Sr. London
Sr. Washington
Sr. Peking
Sr. Osló
Sr. Peking
Utanríkisráðuneytið
Sr. Stokkhólmi
Utanríkisráðuneytið
Fn. Strassborg
Sr. Washington
Sr. París
Sr. Berlín
Sr. Kaupmannahöfn
Sr. Moskvu
Sr. París
Utanríkisráðuneytið
Sr. Stokkhólmi
Utanríkisráðuneytið
Utanríkisráðuneytið
Sr. Vín
Fn. Genf
Utanríkisráðuneytið
Sr. París
Sr. Stokkhólmi
Sr. Mapútó
Sr. Peking
Utanríkisráðuneytið
Sr. Berlín
Sr. Stokkhólmi
Sr. Peking
Utanríkisráðuneytið
Sr. Moskvu
Sr. Osló
Utanríkisráðuneytið
Sr. Moskvu
Sr. Kaupmannahöfn
Sr. Vín
Sr. Mapútó
Sr. Helsinki
Sr. Washington
Sr. Moskvu
Sr. Washington
Sr. Peking
Sr. Berlín
Sr. Stokkhólmi
Sr. Stokkhólmi
Utanríkisráðuneytið
Sr. Stokkhólmi
Sr. Osló
Utanríkisráðuneytið
Utanríkisráðuneytið
Sr. Kaupmannahöfn
Sr. Kaupmannahöfn
Sr. Washington
Sr. Reykjavík
Sr. Stokkhólmi
Sr. London
Utanríkisráðuneytið
Sr. Osló
Sr. Stokkhólmi
Sr. Stokkhólmi
Sr. Osló
Sr. Reykjavík
Sr. Stokkhólmi
Sr. Kaupmannahöfn
Sr. Osló
Sr. Reykjavík
Sr. Osló
Sr. Kaupmannahöfn
Sr. Stokkhólmi
Sr. Osló
Utanríkisráðuneytið
Sr. London
Sr. Reykjavík
Sr. Reykjavík
Sr. Osló
Sr. Kaupmannahöfn
Utanríkisráðuneytið
Utanríkisráðuneytið
Sr. Osló
Utanríkisráðuneytið
Utanríkisráðuneytið
Sr. Osló
Sr. Osló
Sr. Osló
Utanríkisráðuneytið
Sr. Osló
Sr. Kaupmannahöfn
Sr. Osló
Sr. Osló
Utanríkisráðuneytið
Sr. Reykjavík
Utanríkisráðuneytið
Sr. London
Sr. Reykjavík
Utanríkisráðuneytið
Sr. London
Sr. Stokkhólmi
Utanríkisráðuneytið
Sr. Reykjavík
Utanríkisráðuneytið
Sr. Stokkhólmi
Sr. Kaupmannahöfn
Sr. Stokkhólmi
Sr. Stokkhólmi
Sr. Stokkhólmi
Sr. Kaupmannahöfn
Sr. Kaupmannahöfn
Utanríkisráðuneytið
Sr. Kaupmannahöfn
Sr. Stokkhólmi
Sr. London
Sr. London
Sr. Stokkhólmi
Sr. London
Utanríkisráðuneytið
Utanríkisráðuneytið
Sr. Kaupmannahöfn
Utanríkisráðuneytið
Sr. Osló
Utanríkisráðuneytið
Sr. London
Utanríkisráðuneytið
Utanríkisráðuneytið
Sr. Stokkhólmi
Sr. London
Sr. Brussel
Sr. Dublin
Sr. Stokkhólmi
Sr. Stokkhólmi
Sr. Reykjavík
Utanríkisráðuneytið
Utanríkisráðuneytið
Sr. Osló
Utanríkisráðuneytið
Sr. Kaupmannahöfn
Sr. Stokkhólmi
Sr. Osló
Sr. Osló
Sr. Kaupmannahöfn
Sr. Reykjavík
Utanríkisráðuneytið
Sr. Stokkhólmi
Sr. Stokkhólmi
Utanríkisráðuneytið
Utanríkisráðuneytið
Sr. Osló
Sr. Kaupmannahöfn
Utanríkisráðuneytið
Sr. Osló
Sr. Stokkhólmi
Sr. Osló
Sr. Osló
Sr. Kaupmannahöfn
Sr. Osló
Sr. Reykjavík
Sr. Kaupmannahöfn
Sr. Stokkhólmi
Utanríkisráðuneytið
Sr. Osló
Sr. Stokkhólmi
Utanríkisráðuneytið
Sr. Osló
Sr. Osló
Sr. Kaupmannahöfn
Sr. Helsinki
Sr. Ottawa
Sr. London
Sr. Osló
Sr. Kaupmannahöfn
Sr. Reykjavík

Samantekt Fjöldi umdæmislanda v Fjöldi erlendra sendiráða vi
Sr. Washington: 12
Sr. Peking: 9
Sr. London: 8
Sr. Stokkhólmur: 7
Sr. Moskva: 11
Sr. Kaupmannahöfn: 6
Sr. Osló: 6
Sr. París: 6
Sr. Berlín: 4
Sr. Helsinki: 4
Sr. Mapútó: 4
Sr. Ottawa: 1
Sr. Tokýó: 1 vii
Sr. Vín: 4
Sr. Brussel: 4
Fn. New York: 4
Fn. Genf: 1
Fn. Strassborg: 1
Samtals: 93
Utanríkisráðuneytið: 34
Reykjavík: 12
Stokkhólmur: 24
Osló: 27
Kaupmannahöfn: 18
London: 10
Brussel: 1
Dublin: 1
Helsinki: 1
Ottawa: 1
Washington: 1
Ráðuneytin: 31
Samtals: 127 Samtals: 127 Samtals: 127









1 Þá eru ekki taldar með fjárveitingar vegna sýslumanns og flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli, þróunarmála og hjálparstarfsemi, útflutningsráðs og framlög til alþjóðastofnana, en þessir liðir teljast ekki hluti af utanríkisþjónustunni.
2 Viðræður standa yfir við Eistland, Lettland, Litháen, Pólland, Ungverjaland, Slóveníu, Tékkland, Slóvakíu, Kýpur, Möltu, Búlgaríu og Rúmeníu. Meðal umsóknarríkja er einnig Tyrkland. Umsókn Sviss er ekki til umfjöllunar.
3 Öll framangreind ríki utan Búlgaríu, Rúmeníu og Tyrklands.
i     Fyrrum sambandslýðveldi Júgóslavíu.
ii     Alþýðulýðveldið Kórea.
iii     Lýðveldið Kórea.
i     Miðað er við forsetaúrskurð nr. 131/2001.
ii     Alþýðulýðveldið Kórea.
iii     Fyrrum sambandslýðveldi Júgóslavíu.
iv     Lýðveldið Kórea.
v     Íslenskra sendiráða, fastanefnda og utanríkisráðuneytisins.
vi     Gagnvart Íslandi í viðkomandi borgum og fjöldi utanríkisráðuneyta sem fer með fyrirsvarið.
vii     Fyrirhugað er að fjölga umdæmisríkjum hinna nýstofnuðu sendiráða í Tókýó og Ottawa.