Atvinnuástandið

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 13:57:44 (2874)

2003-01-22 13:57:44# 128. lþ. 62.94 fundur 360#B atvinnuástandið# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 128. lþ.

[13:57]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni, fyrir að taka þetta mál upp á hv. Alþingi. Vaxandi atvinnuleysi verður að stöðva með öllum ráðum. Ríkisvaldið getur vissulega stuðlað að því að auka atvinnu með því að fjölga og flýta verklegum framkvæmdum á þess vegum, t.d. með nýlögnum og endurbótum á þjóðvegum. Til dæmis bíða mörg verkefni við breikkun einbreiðra brúa sem jafnframt eru slysagildrur. Hægt væri að flýta framkvæmdum við þær og auka þannig atvinnu með verkefnum sem verður hvort sem er að vinna á næstu árum.

Gjaldþrotum fyrirtækja hefur fjölgað og uppsagnir eru tíðar í mörgum greinum. Við þessu getur ríkisvaldið brugðist að hluta eins og áður kom fram í máli mínu. Veruleg vaxtalækkun gæti einnig aukið og eflt atvinnulífið. Mesti vandinn sem nú blasir við er sá vandi sem fylgir mjög háu gengi íslensku krónunnar. Sjávarútvegur, sem enn þá er okkar mikilvægasti atvinnuvegur, fær varla þolað til langframa svo hátt gengi og viðhorfin í greininni í dag eru svartsýn og stefna til fækkunar fólks við úrvinnslu sjávarfangs. Auk þess er rækjuverð lágt og illa horfir í hörpuskel og síldveiðar ganga illa þrátt fyrir margeflda sóknargetu þess flota.

Það á að bregðast við þeim atvinnuleysisvanda sem nú fer vaxandi. Það má auka veiði á botnfiski og fækka kvótabundnum fisktegundum, það fyrirkomulag hefur þau áhrif að hefta atvinnufrelsi og tryggja eingöngu kvótaeigendum arð fyrir óveiddan fisk.

Ríkisstjórnin á ekki að sitja aðgerðalaus á samdráttarskeiði eins og nú er uppi í þjóðfélagi okkar. Það er ábyrgðarleysi við núverandi aðstæður og ástand á vinnumarkaði.