Stjórn fiskveiða í Norður-Atlantshafi

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 14:36:38 (2892)

2003-01-22 14:36:38# 128. lþ. 63.91 fundur 362#B stjórn fiskveiða í Norður-Atlantshafi# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[14:36]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Að því er varðar hugsanlega aðkomu Færeyinga og Grænlendinga í þessu máli liggur náttúrlega alveg ljóst fyrir að hún er ekki í okkar valdi, hvorki íslenskra stjórnvalda né Alþingis Íslendinga. Það er væntanlega í höndum þeirra aðila sem vilja vinna að þessu verkefni. Ég er út af fyrir sig alveg sammála hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni um að til þess að gera góða úttekt á máli sem þessu er nauðsynlegt að einhverjir frá þeim þjóðum komi að því, þ.e. ef menn ætla að fara yfir sviðið í heild sinni. En það er ekki mitt að hafa nein áhrif á það. Það eina sem ég hef gert sem utanrrh. er að benda viðkomandi aðilum á Háskóla Íslands í þessu sambandi. Ég hef ekki heyrt neinar athugasemdir við það.

Í öðru lagi höfum við í utanrrn. ákveðið að styrkja þetta verkefni með 500 þús. kr. framlagi. Hins vegar veit ég að það hlýtur að vera tiltölulega miklu dýrara. Ég vænti þá að Norðmenn ætli sér að standa undir stórum hluta kostnaðarins. Faglega séð er að sjálfsögðu nauðsynlegt að Grænlendingar eða einhverjar stofnanir þar komi að slíku máli. Ég skal játa að ég veit ekkert um það og hef ekki hugsað mér að hafa nein afskipti af því, enda ekki í mínu valdi.

Ég vil endurtaka það að ég er undrandi á því að það sé ástæða til þess á hv. Alþingi að taka í upphafi fundar fyrir mál sem varða vísindarannsóknir og samstarf stofnana. Er það ekki af hinu góða að okkar rannsókna- og vísindastofnanir, háskólar landsins, vinni með öðrum stofnunum á alþjóðavettvangi? Á það að vera eitthvert sérstakt umræðuefni á Alþingi í hvert skipti sem það gerist? Mér finnst það algjörlega fráleitt og ætti fyrrv. skólameistari að vera sammála í þeim efnum. (JB: Þetta er pólitískt mál.)