Úthlutun á byggðakvóta

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 13:46:39 (2973)

2003-01-23 13:46:39# 128. lþ. 64.94 fundur 367#B úthlutun á byggðakvóta# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[13:46]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Frjálsræðið með kvótann, leiguna og söluna, hefur því miður fært okkur þau vandræði sem m.a. sá sem hér stendur varaði við þegar á árinu 1990. Reyndar vöruðu þau samtök sem ég vann þá fyrir við þessu í heilu lagi, ályktuðu um það að frjálsræðið í sölunni og leigunni mundi valda byggðaröskun, mundi valda ósætti með þjóðinni, tekjubresti og veikja byggðirnar. Allt hefur þetta gengið eftir, því miður.

Þessar viðvaranir voru að engu hafðar. Og það hefur verið keyrt hart á það að láta kvótakerfið þróast með þeim hætti sem hæstv. sjútvrh. gat um hér áðan, að frjálsa framsalið væri nauðsynlegt til hagkvæmrar aðlögunar. Til hagkvæmrar aðlögunar fyrir hverja? Eingöngu þá sem eru öflugastir í sjávarútvegi og hafa náð að þjappa til sín veiðiheimildunum, safna þeim saman frá byggðunum, taka þær frá vertíðarflotanum að stórum hluta. Viðbrögðin við því hafa jú verið þau að menn hafa reynt að bjarga sér á smábátum. Og hver voru þá ráð stjórnarliða? Að kvótasetja einnig smábátakerfið og meira að segja hafa heyrst yfirlýsingar um að það stæði til og hefði ævinlega staðið til að láta þau kerfi renna saman, þ.e. stóra kvótakerfið og hið minna, og til þess stefna öll verkin eins og að þeim er stefnt.

Það verður aldrei horft fram hjá því að fiskveiðirétturinn er undirstaða byggðar í landinu, mjög margra byggðarlaga og verður það um langa framtíð. Þess vegna er ekki hægt að umgangast þessa stefnumótun með þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur uppi í málunum. Hún er vonlaus fyrir byggðirnar.