Verndun íslensku mjólkurkýrinnar

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 18:38:37 (3753)

2003-02-11 18:38:37# 128. lþ. 76.21 fundur 193. mál: #A verndun íslensku mjólkurkýrinnar# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[18:38]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég held að með þeirri þáltill. sem við ræðum, verndun íslensku mjólkurkýrinnar, sé verið að hreyfa þörfu máli. Tillagan er flutt af þingmönnum allra flokka og ég ætla að leyfa mér að vona eins og hv. síðasti ræðumaður að tillagan fái hér afgreiðslu.

Ljóst er og það vita allir sem vilja vita að við lifum í nokkuð vernduðu umhverfi á Íslandi að því er varðar dýrastofnana okkar. Ýmsir sjúkdómar sem þekktir eru í öðrum löndum eru ekki þekktir hér. Og það er alls ekki fyrirséð hvaða afleiðingar það hefði ef hingað til lands bærust sjúkdómar sem hafa ekki verið landlægir hér og hafa ekki lagst á íslenska dýrastofna, og hvernig búfjárstofnar okkar mundu bregðast við vegna þess að þeir hafa engin mótefni gegn ýmsum sjúkdómum. Þetta er auðvitað alþekkt, ekki bara hvað varðar dýr, þetta er alþekkt varðandi manninn og er hægt að finna sögur um það í sambandi við þjóðflutninga hér fyrr á öldum þegar Evrópumenn voru t.d. að koma til Suður-Ameríku að þá báru þeir auðvitað með sér sjúkdóma sem voru algjörlega óþekktir þar.

Ég tel því, herra forseti, að hér sé verið að hreyfa hinu þarfasta máli. Ég tel að við höfum ágæta dýrastofna í landinu sem okkur beri að varðveita. Við höfum sérstaka stofna sem eru búnir að vera hér öldum saman með íslensku þjóðinni og við höfum ákveðnar skyldur, ekki bara gagnvart okkur sjálfum, heldur einnig gagnvart veröldinni um að vernda þá sérstöðu sem felst í sauðfé okkar, í hestakyninu og íslensku mjólkurkúnni, svo ekki sé talað um ýmsar aðrar tegundir dýra sem hér eru auðvitað í minna mæli eins og geitur og íslensku hænsnin, svo dæmi sé tekið.

Ég held því að við eigum að líta svo á að við séum með ákveðin verðmæti í höndunum sem okkur beri að varðveita. Það er ekki hægt að keyra endalaust á hagkvæmninni einni saman. Það er ýmislegt annað sem er verðmæti og ég sé ekki annað en að með markvissu ræktunarstarfi bænda hafi þeim tekist á undanförnum árum að auka afurðir íslensku mjólkurkýrinnar mjög mikið og er alls ekki séð fyrir endann á því hvaða árangri þeir muni nái í því í framtíðinni. Ég sé í raun og veru enga þörf á því að flytja hingað inn annað mjólkurkyn.