Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 04. mars 2003, kl. 17:27:41 (4347)

2003-03-04 17:27:41# 128. lþ. 87.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, KolH
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 128. lþ.

[17:27]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Við förum nú í gegnum 3. umr. þessa mikilvæga máls sem varðar, eins og þeim sem á hafa hlýtt er auðvitað löngu orðið kunnugt, stærstu framkvæmd Íslandssögunnar í öllum skilningi, dýrustu framkvæmd Íslandssögunnar, áhættusömustu framkvæmd Íslandssögunnar, bæði í fjárhagslegu og félagslegu tilliti, og þá framkvæmd sem valda mun mestum spjöllum og óafturkræfustum á náttúru Íslands.

Meginuppistaðan í ræðu minni við 2. umr. um þetta mál, herra forseti, var um umhverfisþáttinn, aðallega um skort á umfjöllun um þann þátt. Ég fjallaði á yfirgripsmikinn hátt um mengunarþáttinn og það hvernig hið erlenda fyrirtæki Alcoa ætlar sér að blása brennisteininum út um 80 m háa skorsteina í stað þess að senda hann út um vothreinsibúnað þar sem brennisteinninn er gerður skaðlaus í sjónum. Í stað þess hyggst þetta fyrirtæki blása þessari eimyrju út í loftið og nýta sér hæð skorsteinanna til þess að það sé öruggt að brennisteinssýran, sem í raun og veru er sambærileg við það efni sem færi út í loftið, dreifist í réttum hlutföllum við einhverja erlenda staðla.

Ég spurði fjölmargra spurninga, herra forseti, í ræðu minni við 2. umr. Það varð eins og fyrri daginn, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson benti á í ræðu sinni hér á undan mér, fátt um svör. Og það fór svo eftir 2. umr. að hæstv. iðnrh., sem þó var hér í húsinu, sá ekki ástæðu til þess að flytja ræðu í lok umræðunnar sem þó má segja að sé venja í svo yfirgripsmiklum málum sem hér er um fjallað. Nei, við fengum engin svör.

Einu svörin sem við fáum frá hæstv. iðnrh. eru annaðhvort yfirlýsingar í fjölmiðlum, t.d. á borð við þá að andstaða við þessar framkvæmdir sé vart sæmandi, og yfirlýsingar um það að hún sé undrandi á því að þeir sem beiti sér í þessu máli séu að vinna gegn lýðræðislegum samþykktum, eins og hún hefur orðað það í blaðaviðtölum. Hæstv. ráðherra segir að slíkt sé ekki til sóma. Þá vil ég, herra forseti, benda hæstv. ráðherra á grein sem birtist að ég held í morgun, stendur a.m.k. núna á vef Háskóla Íslands sem fjallar sérstaklega um heimspeki, heimspekivefnum, eftir doktor í heimspeki, Ólaf Pál Jónsson, stóra og merkilega grein sem heitir: Hvað er lýðræði? Í þessari grein gerir dr. Ólafur Páll grein fyrir sjónarmiðum fræðimanna varðandi lýðræðið og hann setur umræðuna um Kárahnjúkavirkjun og þessa álversumræðu í brennidepil sjónarmiða sinna.

[17:30]

Herra forseti. Ég held að okkur sé hollt að líta örlítið yfir hina lýðræðislegu umræðu og hvernig stjórnvöldum hefur farist úr hendi að taka á hinni lýðræðislegu umræðu í samfélaginu. Sú umræða er kröftug. Til marks um hvernig krafturinn hefur haldist hafa mótmælendur þessara framkvæmda staðið á Austurvelli frá 26. ágúst í sumar, hvern einasta virkan dag sem þing hefur komið saman og vel það. Fólkið tók sér örfáa daga í jólaleyfi og hóf síðan að koma saman aftur í janúar. Það stendur enn hér á Austurvelli í hádeginu hópur fólks. Hann hefur verið misstór. Stundum er hann 8--10 manns en oft er hann stærri. Stundum hefur hann fyllt hundruð og jafnvel, eins og í hálendisgöngunni í síðustu viku, farið upp í 1.400--1.500 manns.

Fólkið sem safnast þarna saman, herra forseti, á lýðræðislegan rétt til þess að tjá skoðanir sínar, sama á hvaða stigi umræðan er á hinu háa Alþingi. Eins og dr. Ólafur Páll Jónsson kemur að í grein sinni á heimspekivefnum þá er lýðræði annars vegar tiltekin stjórnskipan en hins vegar aðferð til að taka bindandi ákvarðanir. Aðferðinni lýsir hann afar vel, og ég hvet hæstv. ráðherra til þess að kynna sér þessa grein. Þetta er umræðan nánast í hnotskurn. Þarna spyr doktorinn spurninga eins og þeirrar hvort barátta náttúruverndarsinna sé ólýðræðisleg. Hann fer á afar gagnrýninn hátt yfir ummæli hæstv. ráðherra Valgerðar Sverrisdóttur og fleiri aðila sem komið hafa að þessu máli og hafa gagnrýnt hina lýðræðislegu umræðu. Þar með fer hann ofan í ummæli Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar, stjórnarformanns Landsvirkjunar, og í umræðu sem hefur farið svo langt að vega að starfsheiðri vísindamanna.

Doktorinn spyr líka þeirra spurninga hvort stjórnvöld hafi brugðist lýðræðinu. Ég verð að segja, herra forseti, að sjónarmið dr. Ólafs Páls Jónssonar í þeim efnum eru afar athyglisverð og staðfesta að við, sem höfum staðið í þessum ræðustól og talið okkur með vopn lýðræðisins í höndunum berjast fyrir því að þær raddir náttúruverndarsinna fái að heyrast, séum að gera rétt. Orð hans koma heim og saman við tilfinningar mínar. Það að lesa þau í morgun fyllti mig kappi og staðfesti fyrir mér að við værum að gera rétt, við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs.

Síðan er í grein dr. Ólafs Páls Jónssonar farið út í að fjalla almennt um arðsemi þessarar framkvæmdar og umhverfisáhrifin. Að lokum er skoðað hvaða kostir standi þjóðinni opnir. Þar langar mig, herra forseti, að fá leyfi til að fá að vitna í þessa ágætu grein orðrétt. Dr. Ólafur Páll Jónsson segir í grein sinni:

,,Ýmsir hafa haldið því fram að ekki sé forsvaranlegt að taka ákvörðun um jafnafdrifaríka framkvæmd og Kárahnjúkavirkjun án þess að setja hana í samhengi við aðra virkjanakosti. Það liggur fyrir að nóg er til af virkjanlegri vatnsorku á landinu.``

Höfndur greinarinnar telur að þegar þingmenn spyrji úr ræðustóli Alþingis hvort þeir sem séu mótfallnir virkjun haldi að þjóðin geti lifað af því að tína fjallagrös þá geri hinir sömu þingmenn sig seka um grófa vanþekkingu. Svo spyr Ólafur Páll Jónsson, með leyfi forseta: ,,En hvers vegna er málinu þá stillt þannig upp að annaðhvort verði virkjað við Kárahnjúka og byggt álver í Reyðarfirði, eða að það verði ekkert álver byggt og engin stór virkjun reist á næstunni? Er málið kannski einfaldlega að engin önnur virkjun er tilbúin á teikniborðum Landsvirkjunar? Kannski er það á endanum svarið, og kannski er svipuð ástæða fyrir því að Landsvirkjun vildi miðla vatni við Þjórsárver --- friðlandi með alþjóðlega viðurkenningu --- frekar en að leita annarra kosta.``

Herra forseti. Við erum þá komin að máli sem mér hefur verið tíðrætt um í ræðum mínum en hef aldrei fengin nein svör við. Við erum bundin af lögum um mat á umhverfisáhrifum sem gera ráð fyrir því að allir sýnilegir kostir í stöðunni séu skoðaðir. Einn af þeim kostum í þessari stöðu sem er til og er mögulegur, þ.e. að gera annað á hálendinu norðan Vatnajökuls en að virkja þar, er að stofna þar þjóðgarð á heimsmælikvarða, þjóðgarð elds og ísa.

Það vill svo til að gerð hefur verið um þetta skýrsla sem Stefán Benediktsson hefur skrifað að beiðni verkefnisstjórnar rammaáætlunarinnar. Skýrslan sú arna hefur legið ofan í skúffu hjá hæstv. iðnrh. og fær ekki að líta dagsins ljós, fær ekki að koma upp á yfirborðið sem raunhæfur kostur við hliðina á virkjanakostinum. (Iðnrh.: Vitleysa.) Þetta er engin vitleysa. Hæstv. ráðherra grípur hér fram í og segir að þetta sé vitleysa. Sannleikurinn er auðvitað sá að það hefur ekki verið fjallað á raunhæfan eða lýðræðislegan hátt um þetta atriði: Hvaða möguleikum höfum við úr að velja? Ég vil alltaf stilla upp þessum tveimur, annars vegar virkjananýtingu og hins vegar nýtingu sem er náttúruvernd. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, herra forseti, að náttúruvernd telst líka til landnýtingar.

Það er skelfilegt til þess að vita að öll sú vinna sem nú þegar hefur farið fram á vegum verkefnisstjórnar rammaáætlunarinnar skuli ekkert eiga að nýtast, skuli ekki nýtt meðvitað í þessari umræðu. Það er engu líkara en allan tímann hafi það verið keppikefli hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórnar að búa svo um hnútana í þessu máli að öllu verði lokið áður en niðurstöður rammaáætlunarinnar liggja fyrir. Þar er það auðvitað á borðinu, herra forseti, að ríkisstjórnin ætlar sér ekkert með þessa rammaáætlun. Hún ætlar sér ekki að nota hana sem það leiðbeinandi eða stefnuvísandi plagg sem henni er ætlað að vera.

Þessi rammaáætlun er að norskri fyrirmynd. Norðmenn gerðu um þetta rammaáætlun fyrir 15 árum eða 17 árum síðan. Þegar við loksins látum til skarar skríða með að gera svona rammaáætlun er það gert á ögurstundu, meðan allt landið er undir og hugmyndir virkjanaaðila og framkvæmdaraðila þannig að helst skuli ráðast á öll friðlýstu svæðin á hálendinu hvort sem þau eru á háhitasvæðum eða í kringum stóru jökulárnar okkar. Sannleikurinn er sá að rammaáætlunarplaggið virðist eiga að salta ofan í skúffu, líkt og skýrslu Stefáns Benediktssonar sem ég nefndi hér áðan. Tæki sem auðvitað ættu að vera þjóðinni opin og aðgengileg þegar umræða af þessu tagi fer fram.

Það er ljóst af tilraunamatinu sem verkefnisstjórn rammaáætlunar hefur nú þegar skilað af sér að Kárahnjúkavirkjun er sá virkjunarkostur sem valda mun hvað mestum umhverfisspjöllum á viðkvæmri náttúru landsins sem um getur, á svæðinu fyrir norðan Vatnajökul.

Mín skoðun er sú --- ég hef lýst henni áður --- að þegar farið er yfir mat á umhverfisáhrifum þessarar virkjunar hafi aðrir virkjunarkostir ekki verið teknir af neinni alvöru inn í þá mynd. Í sannleika sagt tel ég að þeir virkjunarkostir sem mögulega voru til staðar hafi ekki verið bornir saman. Ég tel að með rammaáætluninni fáum við í hendurnar tæki til að bera saman þessa virkjunarkosti. Ég hef því talað fyrir því að stoppa allar framkvæmdir á hálendinu í ákveðinn tíma á meðan við værum að ná sáttum. Það er ekki forsvaranlegt að ríkisstjórnin skuli ár eftir ár slíta þjóðina í sundur eins og hún hefur verið að gera allt þetta kjörtímabil. Þjóðin er þverklofin í afstöðu sinni til þessa máls. Þó að hæstv. ráðherra fagni hér einhverju fylgi við sjónarmið sín inni á Alþingi þá endurspeglar það fylgi sannarlega ekki fylgið sem hugmyndin hefur utan þessara veggja. Í skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið um málið hefur komið í ljós, herra forseti, að u.þ.b. 50% þjóðarinnar eru fylgjandi þessum framkvæmdum en hin 50% eru annaðhvort andvíg eða hafa ekki mótað sér afstöðu eða telja sig ekki hafa nægilegar upplýsingar til að móta afstöðu sína.

Herra forseti. Ég hef haldið því fram að við stöndum frammi fyrir afarkostum sem stillt hafi verið upp af ríkisstjórninni og að hugmyndaauðgi þjóðarinnar hafi ekki verið gefin laus taumur, eins og eðlilegt væri þegar um svo stórar, afdrifaríkar framkvæmdir og ákvarðanir er að ræða. Af því að ég hef hér greinina hans Ólafs Páls Jónssonar sem ég hef verið að vitna í varðandi lýðræðislega umræðu, herra forseti, vil ég benda á að hann tekur undir sjónarmið af þessu tagi. Hann telur að það sé kannski öðrum þræði gildismat verkfræðinga Landsvirkjunar sem ráði því í hvaða stöðu við erum núna fremur en margt annað.

Þá spyr Ólafur Páll: ,,Hvað kostur er Kárahnjúkavirkjun?`` Þar koma fram afar athyglisverð sjónarmið um sjónarhól lýðræðisins. Hann varpar fram þeirri spurningu hvort umhverfismatið hafi verið fullnægjandi. Það er athyglisvert í ljósi þess að umhvn. þingsins fékk einmitt eina spurningu frá iðnn., aðeins eina, þegar þetta mál var til umfjöllunar í nefndinni. Hún laut að því hvort farið hefði verið að lögum í umhverfismatinu. Ég svaraði því til að svo margir óvissuþættir væru í því enn þá að ekki væri hægt að svara þeirri spurningu svo óyggjandi teldist, enda væri búið að stefna umhvrh. fyrir dómstóla vegna úrskurðarins víðfræga sem féll eftir að Skipulagsstofnun hafði hafnað framkvæmdunum á grundvelli umtalsverðra óafturkræfra umhverfisáhrifa. En dr. Ólafur Páll spyr í grein sinni, með leyfi forseta:

,,En hvers vegna skiptir það máli frá sjónarhóli lýðræðisins hvort umhverfismatið hafi verið fullnægjandi? Lýðræðið krefst þess ekki að í máli sem þessu séu allir sammála um hvort umhverfismat gefi tilefni til framkvæmda áður en ákvörðun er tekin. Það er hins vegar algjörlega nauðsynlegt að menn séu sammála um að slíkt mat gefi rétta mynd af því hvaða hagsmunir eru í húfi. Ef það er ekki ljóst er ekki er hægt að taka lýðræðislega ákvörðun um að fórna tilteknum hagsmunum fyrir aðra; það er einfaldlega ekki ljóst hverju er verið að fórna fyrir hvað.``

Herra forseti. Auðvitað er þetta mergurinn málsins. Með úrskurði umhvrh. var mati Skipulagsstofnunar snúið við, mati allra þeirra vísindamanna sem Skipulagsstofnun studdist við í úrskurði sínum. Hæstv. umhvrh. sótti hvorki kunnáttu né fagþekkingu til þeirra sérfræðinga sem hún þó leitaði til til að snúa málinu svo einhliða í hag stefnu ríkisstjórnarinnar. Það mál á eftir að fara fyrir dómstóla og dómstólar eiga eftir að skera úr um það hvort hæstv. ráðherra fór að lögum eða ekki. Hér eru þvílík vafamál enn þá tengd þessu máli að það er ófært að fullyrða, eins og hér hefur verið gert í þessum sölum af þingmönnum stjórnarflokkanna, að hér hafi verið farið að lögum svo óyggjandi sé. Það er ekki rétt.

Svo ég komi inn á niðurstöðunni í grein dr. Ólafs Páls Jónssonar þá bendir hann á að þegar við tölum um lýðræðislega umræðu eigum við ekki aðeins við umræðu sem feli í sér skoðanaskipti. Hann segir að lýðræðisleg umræða miði að ákveðnu marki, þessu sem ég nefndi fyrr í ræðu minni, herra forseti, að taka bindandi ákvörðun um hagsmuni fólks. Svo segir doktorinn að ákvörðun um að virkja hafi ekki verið tekin á vísindalegum forsendum heldur á grundvelli umhverfismats sem var af vísindalegum ástæðum ófullnægjandi. Hann segir að umræðan hafi ekki verið opin í þeim skilningi að þeir sem málið varðar hafi getað haft áhrif á hvaða valkostir hafi verið í boði. Hann segir að ekki hafi verið til umræðu hvernig meta skyldi verðmæti þeirrar ósnortnu náttúru sem yrði óhjákvæmilega fórnað. Að lokum segir hann að umræðan hafi ekki verið opin í þeim skilningi að allir hafi óhindrað getað lagt sitt til málanna.

Niðurstaða hans er því sú að í þessu máli hafi stjórnvöld brugðist lýðræðinu, herra forseti. Og þau brugðust vegna þess, segir dr. Ólafur Páll Jónsson, með leyfi forseta: ,,að þau sinntu ekki því sem þeim bar og misbeittu því valdi sem þeim hafði verið trúað fyrir``.

[17:45]

Þetta er niðurlag greinar dr. Ólafs Páls Jónssonar sem er að finna á heimspeki.hi.is. Ég verð að segja, herra forseti, að það hleypir manni kapp í kinn að fá svo ríka, efnismikla og öfluga staðfestingu á því að það sem ég hef talað fyrir í þingsölum, herra forseti, um allt þetta mál frá því að það hófst í upphafi þessa kjörtímabils hefur verið staðfest af doktor í heimspeki, að stjórnvöld fara ekki að leikreglum lýðræðisins. Þvert á móti bregðast þau lýðræðinu. Þau bregðast vegna þess að þau misbeita því valdi sem þeim hefur verið trúað fyrir.

Hér er til umræðu, herra forseti, brtt. frá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði um að þetta mál eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Því er afar viðeigandi að vitna á þennan hátt í grein dr. Ólafs Páls Jónssonar. Ég vil gera grein fyrir því, herra forseti, að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfum eins og fram hefur komið í ræðum látið fara fram skoðanakönnun meðal þjóðarinnar um hversu mikið fylgi er við þessar hugmyndir okkar. Það er merkilegt að samkvæmt þeim gögnum sem við höfum fengið frá Gallup, vegna spurninganna tveggja sem við stóðum fyrir að leitað yrði svara við á vegum þess fyrirtækis, að vita að 79% þjóðarinnar skuli hlynnt því að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um mikilvægustu málefni þjóðarinnar. Að því svöruðu kemur í ljós að 64% þjóðarinnar eru hlynnt því að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um Kárahnjúkavirkjun. Einungis 30% eru því andvíg. Ég tel að þegar stjórnvöld vita af skoðanakönnun sem gefur slíkar vísbendingar og ætla algerlega að hunsa hana þá sé það náttúrlega mjög dapurlegt.

Það er kannski enn dapurlegra að annar af stærstu stjórnarandstöðuflokkunum á Alþingi skuli ekki einu sinni láta svo lítið að vera viðstaddur þessa umræðu, þessa umræðu um brtt. okkar sem felur í sér þjóðaratkvæði. Þar á ég auðvitað við þingmenn Samfylkingarinnar, herra forseti, sem hafa lagt fram tillögur um þátttökulýðræði, tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslur og gera mikið úr því í máflutningi sínum að þeir séu hlynntir þjóðaratkvæðagreiðslu. En þó virðist eitthvað allt annað uppi á teningnum þegar þjóðaratkvæðagreiðsluhugmyndirnar koma frá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Auðvitað er þetta afar dapurlegt, herra forseti, sérstaklega í ljósi þess að fjöldi fólks í samfélaginu hefur í bréfum til iðnn. lýst sig fylgjandi hugmyndum okkar í þessu efni.

Eins og kunnugt er hefur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lagt fram sjálfstæða tillögu á Alþingi sem varðar einmitt þetta, að bygging Kárahnjúkavirkjunar fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá þáltill. er að finna á þskj. 806 og hefur hún farið út til umsagnar. Mig langar, með leyfi forseta, að fletta í nokkrum umsagnanna sem borist hafa. Mig ber fyrst niður í umsögn frá Umhverfissamtökum Skagafjarðar um þessa tillögu. Þar kemur fram að stjórn samtakanna lýsi sig sammála tillögunni eins og hún er lögð fram. Svo segir í bréfi Umhverfissamtaka Skagafjarðar, með leyfi forseta:

,,Við teljum að þjóðin eigi rétt á að fá að segja hug sinn í þessu stóra og umdeilda máli. Með þjóðaratkvæðagreiðslu ætti að skapast frekari umræða þar sem sjónarmiðum er gert jafnhátt undir höfði.``

Þetta er auðvitað hárrétt hjá Umhverfissamtökum Skagafjarðar. Eins og komið hefur fram í máli mínu, herra forseti, er þessi lýðræðislega umræða í gangi og henni er ekki lokið. Það er eðlilegt að hún taki lengri tíma en þennan eina vetur en við skulum vera minnug þess að þó að stjórnvöld hafi haft stóriðju á Reyðarfirði í huga allt kjörtímabilið hefur umræðan verið að blossa upp af miklum krafti seinustu mánuðina og þá ber okkur skylda til að gefa henni það svigrúm og ráðrúm sem hún þarf að fá.

Næsta umsögn sem iðnn. Alþingis barst og mig langar til að vitna til er frá Félagi íslenskra landslagsarkitekta. Stjórn þess félags fagnar því að þessi tillaga skuli komin fram og vill að þjóðinni sé gefinn kostur á að sýna hug sinn í málinu þar sem lýðræðisleg atkvæðisgreiðsla ætti að varpa ljósi á sjónarmið þjóðarinnar í þessum efnum.

Náttúrusamtök Vesturlands taka í umsögn sinni í sama streng.

Þá er það Félag um verndun hálendis Austurlands sem segir í sínu erindi, með leyfi forseta:

,,Félag um verndun hálendis Austurlands lýsir eindregnum stuðningi við það að bygging Kárahnjúkavirkjunar verði borin undir þjóðaratkvæði samhliða alþingiskosningum í maí nk.`` Niðurlag bréfsins er svohljóðandi: ,,Málið er svo stórt og mikilvægt fyrir nútíð og framtíð að það verðskuldar þjóðaratkvæðagreiðslu.``

Íslenskir fjallaleiðsögumenn taka í sama streng og Austurvallarhópurinn skrifar langt og mikið bréf til að lýsa stuðningi sínum við hugmyndirnar. Þær umsagnir sem borist hafa til iðnn. við tillögu okkar, herra forseti, eru af þessum toga. Það sem þar kemur fram er í samræmi við það sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa haldið fram. Við höfum talað fyrir þáltill. um þjóðaratkvæði í tvígang á Alþingi, herra forseti. Á síðasta þingi fjölluðum við um tillögu sem fjallaði um þjóðaratkvæðagreiðslu hálendisins norðan Vatnajökuls. Þá vorum við með ítarlegri svarkost en í þeirri tillögu sem nú liggur fyrir þessu þingi. Þá vorum við gagnrýnd fyrir að ætla kjósendum og þjóðinni að skilja of flókna hluti, eins og við settum fyrri tillöguna okkar upp. En ég fullyrði, herra forseti, að sú gagnrýni sem fram kom á þá tillögu er ekki réttmæt. Það hefur sýnt sig í umræðunni seinustu missirin að þjóðin er að verða nokkuð vel heima í þeim málum sem hér er um að ræða. Þvílíkur greinafjöldi hefur birst í blöðum og tímaritum og það mörg viðtöl hafa verið tekin við fólk sem er vel að sér um þessi mál, vísindamenn, hvort sem er í náttúru- eða félagsvísindum og fróða einstaklinga sem þekkja vel til á svæðinu. Ég fullyrði að þjóðinni er ekkert að vanbúnaði að takast á við flóknar spurningar í þessum efnum. Það skiptir bara máli að hún fái tækifæri til þess.

Herra forseti. Í útvarpinu í morgun var nokkuð merkilegt viðtal við Má Guðmundsson, einn aðalhagfræðing Seðlabankans, þar sem hann fjallaði um að um þessar mundir væri óhentugt að fara í skattalækkanir. Þær ættu frekar að fara fram þegar stórframkvæmdum lyki en áður en þær hefjast. Það er dálítið merkilegt, herra forseti, í ljósi þeirrar umræðu sem farið hefur fram í dag, til þess að vita að einn aðalhagfræðingur Seðlabankans skuli segja okkur fullum fetum að ekki séu líkur á vaxtalækkun við þær aðstæður sem nú blasa við og það að greiða upp skuldir þýði vaxtahækkun en ekki vaxtalækkun. Hann segir okkur að áframhaldandi raungengishækkun séu staðreynd verði farið út í þessar miklu framkvæmdir og það blasi við að skera þurfi niður opinberar framkvæmdir. Hann segir sömuleiðis að þeim framkvæmdum sem menn eru að reyna að ýta af stað núna til að vega upp einhvern slaka þurfi að vera lokið á um ári til að þær valdi ekki skakkaföllum í efnahagsmálum þegar stóriðjuframkvæmdirnar verða komnar á fullt.

Herra forseti. Það er dapurlegt til þess að vita að menn skuli ekki bregðast við á annan hátt en gert er í sölum Alþingis, þegar menn á borð við Má Guðmundsson, einn af aðalhagfræðing Seðlabankans, segja þessi sjónarmið sín opinskátt í fjölmiðlum. Þeim efnahagslegu staðreyndum sem fyrir liggja hefur verið mjög vel lýst, t.d. af hagfræðingum eins og Sigurði Jóhannessyni sem síðast í dag skrifaði mjög athyglisverðan pistil á vefritið heimur.is og sömuleiðis má nefna Þorstein Siglaugsson hagfræðing sem birti í gær mjög athyglisverða grein í Morgunblaðinu þar sem hann er að svara opnu bréfi til Friðriks Sophussonar sem skrifað var af Jóni Val Jenssyni. Það var birt 15. febrúar í Morgunblaðinu. Þorsteinn Siglaugsson kemur fram með mjög athyglisverðar staðreyndir í Morgublaðsgrein sinni sem birtist í gær. Hann segir fullum fetum að Jón Valur hafi ekki fengið rétt svör við spurningum sínum og gagnrýnir svör sem Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, hefur gefið. Hann segir þau í sumum tilfellum einfaldlega röng. Eitt af því sem Þorsteinn Siglaugsson segir rangt með farið hjá Friðrik Sophussyni varðar orkuverðið sem fyrirhugað er við upphaf orkusölu Landsvirkjunar til Alcoa. Þorsteinn segir í grein sinni, með leyfi forseta:

,,Þótt nú um stundir fari lágir vextir saman við lágt álverð fer því fjarri að um marktækt langtímasamhengi sé að ræða. Þar að auki er langtímaleitni álverðs niður á við, um u.þ.b. 1% árlega að raungildi. Enga slíka leitni er að finna varðandi vaxtaþróun, enda væri slíkt óeðlilegt.``

Sannleikurinn er sá, herra forseti, að áhyggjur fólks af því að vextirnir þvælist fyrir og skekki þessa heildarmynd, eiga sannarlega við rök að styðjast. Sömuleiðis styður Þorsteinn Siglaugsson góðum rökum vangaveltur sínar og Jóns Vals um þá óvissu sem ríkir um endanlegan stofnkostnað virkjunarinnar. Það er eitt atriði sem hefur verið gagnrýnt mjög alvarlega. Landsvirkjun telur samkvæmt áætlunum sínum pláss fyrir tiltölulega litlum frávikum frá stofnkostnaðinum og sannleikurinn er sá að jafnvel þau litlu frávik hafa veruleg neikvæð áhrif á arðsemi framkvæmdanna.

Þessu hefur ekki verið svarað, herra forseti, svo að neitt gagn sé að. Hvers vegna svarar Landsvirkjun eða hæstv. iðnrh. ekki þeim gögnum sem lögð hafa verið fram um að framkvæmdir af þessu tagi fari frá 30--50%, jafnvel 80%, fram úr upphaflegum stofnkostnaðaráætlunum? Hvers vegna ætti framkvæmdin sem hér um ræðir, Kárahnjúkavirkjun, ekki að lúta sömu lögmálum og menn hafa sýnt okkur fram á að ríkja erlendis? Þorsteinn Siglaugsson segir í Morgunblaðsgrein sinni óraunhæft að búast við öðru en að þetta verkefni fari langt fram úr kostnaðaráætlun. Hann vekur einnig athygli okkar á því að þessi lágu tilboð sem ítalska verktakafyrirtækið Impregilo sendir inn séu ekki föst verðtilboð. Frávik frá forsendunum eru, eins og hagfræðingurinn segir, á ábyrgð íslenskra skattgreiðenda.

Ég spyr eina ferðina enn, herra forseti: Með öllum þessum vísbendingum sem við höfum um að þessar framkvæmdir langt fram úr kostnaðaráætlun og að ábyrgðin lendi á endanum á herðum íslenskra skattborgara, ætlar enginn úr stjórnarliðinu að bregðast neitt við þessum fullyrðingum sem koma fram koma í ræðum á Alþingi og í greinaskrifum frá hagfræðingum sem hafa fullt vit á þessum málum? Hvers vegna eru ekki komin nein svör?

Herra forseti. Af því að ítalska verktakafyrirtækið Impregilo var nefnt þegar ég vitnaði til greinar Þorsteins Siglaugssonar langar mig til að gera að umtalsefni ákveðna þætti þessara framkvæmda sem valda mér verulegum ugg. Alþjóð á heimtingu á að fá að vita meira um það og við krefjumst svara um þau atriði úr þessum ræðustól.

[18:00]

Það er vitað, herra forseti, að þegar útboðsgögnin lágu fyrir voru göngin sem gert er ráð fyrir að boruð verði, aðrennslisgöng Jökulsár á Dal og þau göng sem eiga að færa hana yfir í stöðvarhúsið í Fljótsdal, víkkuð eftir að verklýsingar voru allar klárar. Þau voru víkkuð um 40 sm ef ég man rétt, herra forseti. Maður spyr sig hver ástæðan er fyrir því, að ítalska verktakafyrirtækið biður um að göngin verði víkkuð. Það er búið að reikna út það rennslisþol sem göngin hafa. Það er út frá stærð Jöklu sem vídd ganganna er upphaflega reiknuð og út frá stærð Jöklu sem fullkomlega er vitað hver er sem þessi útboðsgögn eru útbúin og ákveðin. Svo kemur ítalska verktakafyrirtækið og biður um heimild til að fá að víkka göngin um 40 sm. Ég spyr: Er það til þess að í framtíðinni, kannski náinni framtíð, kannski mjög nálægri framtíð, verði auðveldara fyrir Landsvirkjun að seilast í vötn eins og Kverká og Kreppu sem þurfa ekki að fara nema 12 km leið í hæsta lagi í göngin?

Sannleikurinn er auðvitað sá að ef fólk þekkir staðhætti þarna þá er Kreppa um 25--30 m ofar í landi en Jökulsá á Dal. Þegar maður skoðar allar þessar teikningar sér maður í í hendi sér --- það er líka hluti af LSD sem hefur verið nefndur hér í dag, langstærsta draumi Landsvirkjunar --- að það á að færa Kreppu og Kverká, upptakakvíslar Jökulsár á Fjöllum, inn í þennan langstærsta draum sinn. Ég sé ekki betur en víkkunin á göngunum geti staðið í beinu samhengi við að þessi áform séu enn uppi á borðinu. Við þurfum auðvitað, herra forseti, að fá svör við því frá ábyrgum aðilum úr ríkisstjórn Íslands hvort slíkar hugmyndir séu á bak við þessa 40 sentimetra víkkun ganganna. Á að taka vatn úr Kverká og Kreppu og bæta í þessa virkjun innan fárra ára?

Við krefjumst svara, herra forseti. Þetta er allt of grunsamlegt dæmi sem við höfum fyrir augum okkar, að Ítalirnir skuli fá þessa heimild af því að þeir þurftu 40 sm víkkun eins og ekkert sé. Ég spyr: Hvers vegna? Gera menn sér þá grein fyrir því að við værum að tapa þriðjungi af rennsli Jökulsár á Fjöllum í þetta batterí? Hvað verður þá um Dettifoss?

Herra forseti, ég spyr: Hvers vegna drífum við ekki í að friða Dettifoss núna til að ríkisstjórnin og hæstv. iðnrh. geti ekki seilst í þriðjung úr rennsli hans með þessum óprúttnu aðferðum, að heimila ítölsku verktakafyrirtæki að víkka göngin um 40 sm svoleiðis að þau passi akkúrat fyrir upptakakvíslir Jökulsár á Fjöllum? Erum við í alvöru, herra forseti, sett undir vald sem mögulega hugsar svona? Við því þurfum við að fá svör.

Herra forseti. Eitt af því sem rætt hefur verið í tengslum við þessar framkvæmdir eru mögulegar línulagnir sem við eigum hugsanlega von á yfir hálendið til að tryggja þessu álveri rekstraröryggi. Það var eitt af því sem ég nefndi í ræðu minni við 2. umr. en fékk engin svör við. Ég beindi hér spurningum til hæstv. iðnrh. um hversu nálægar þessar áætlanir væru. Það kemur fram í svari ráðherrans við fyrirspurnum mínum að það geti jafnvel verið möguleiki að innan 10 ára verði búið að tengja Norðurland og Suðurland yfir hálendið.

Ég vil líka fá að vita hvort það er á teikniborði hæstv. ráðherra að dúndra hálendislínum yfir í þessa framkvæmd. Þá þarf líka að vita hver borgar kostnaðinn. Hvað er inni í þessu orkuverði sem manni skilst að sé hlægilega lágt? Útsöluverð á orku er ekki ný bóla, herra forseti. Þess er skemmst að minnast að fyrir örfáum árum gáfu íslensk stjórnvöld út bækling sem átti að markaðssetja Ísland á erlendri grund sem gósenland fyrir stórfyrirtæki sem þyrftu mikið rafmagn. Forsíðan á þeim fræga bæklingi var fyrir neðan allar hellur. Þar stóð stríðsfyrirsagnarletri með rauðum lit: ,,lowest energy prices``, þ.e. lægsta raforkuverðið.

Íslensk stjórnvöld hafa markaðssett Ísland á alþjóðavettvangi til alþjóðlegra auðhringa sem land sem selur orku á útsöluverði. Það hafa stjórnvöld gert. Ég sé ekki, af þeim plöggum sem ég hef skoðað í þessu máli, herra forseti, að nokkuð hafi breyst á þeim árum sem liðin eru frá því sá frægi bæklingur var gefinn út til dagsins í dag þegar Alcoa eru boðnir gull og grænir skógar fyrir að koma hingað og reisa álverksmiðju í Reyðarfirði. Enn eru íslensk stjórnvöld að falbjóða íslenska náttúru á útsöluverði. Náttúran er náttúrlega ekki á útsöluverði, herra forseti. Hún er einskis metin, ekki til krónu. En orkan sem framleiða á með vatnsaflinu okkar fer á útsöluverði til erlendra auðhringa.

Herra forseti. Athyglisverðu svari hæstv. iðnrh. var dreift í sölum Alþingis í gær. Ég komst í að lesa það í morgun. Ég vil hafa um það nokkur orð. Svarið er á þskj. 1022 og spurningarnar sem ég bar upp við hæstv. iðnrh. fjölluðu um framkvæmdaleyfi og samráð vegna Kárahnjúkavirkjunar. Sérstaka athygli mína, herra forseti, vekur svar ráðherra við spurningu sem var svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Hvaða leyfi hafa verið gefin út til undirbúningsframkvæmda sem nú standa yfir við Kárahnjúkavirkjun og hvernig hefur Náttúruvernd ríkisins (nú Umhverfisstofnun) komið að þeim leyfisveitingum?``

Hér eru tíunduð í svari ýmis leyfi sem Landsvirkjun hefur fengið fyrir þessum framkvæmdum sínum, bæði leyfi sem iðnrh. hefur veitt Landsvirkjun, þ.e. virkjanaleyfið sjálft, og líka leyfin sem sveitarfélögin í kring, Fljótsdalshreppur og Norður-Hérað hafa veitt framkvæmdaraðila.

En það sem er athyglisverðast í þessu svari lýtur, herra forseti, að framkvæmdum við svokallaða skábraut eða sneiðing, eftir glúfurveggnum niður að hjáveitugöngum væntanlegrar Kárahnjúkastíflu. Ég vek athygli á því að menn hafa séð myndir í sjónvarpinu síðustu daga af þessum gerningi, þegar hamraveggurinn var sprengdur og honum steypt ofan í gljúfrið mörg hundruð rúmmetrum af grjóti og bergi varpað niður í gljúfrið með sprengingum. Það var gífurlega dapurleg sjón eftir því sem ég hef heyrt. Ég hef ekki sjálf séð kvikmyndir af þessu. Ég hef skoðað myndasýningu inn á vef Landsvirkjunar sem greinilega talar um þessa framkvæmd með þó nokkru stolti. Það er satt að segja mjög dapurlegt að sjá þessi vegsummerki. Hver skyldi nú leyfin vera sem Landsvirkjun hefur fyrir nákvæmlega þessum hluta framkvæmdanna? Við skulum grípa niður í svar hæstv. iðnrh. Í því kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Framkvæmdaleyfi vegna vegslóða á vesturbakka Jökulsár á Dal og skábrautar í gljúfurvegg að hjáveitugöngum í væntanlegri Kárahnjúkastíflu.``

Það kemur í ljós að sveitarstjórn Norður-Héraðs hefur veitt Landsvirkjun framkvæmdaleyfi fyrir hluta þessara framkvæmda, þ.e. því sem lýtur að lagningu vegar frá Kárahnjúkavegi við Desjaárstíflu að bráðabirgðabrú yfir Jökulsá á Dal og vegna vegar sem er vestan við ána frá brúnni að Brúardalsleið.

Í bréfi Náttúruverndar ríkisins, dagsettu 23. september 2002, segir um þetta mál:

,,Náttúruvernd ríkisins telur vegna umfangs skábrautarinnar og í ljósi þess að ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun sé ekki tímabært að taka ákvörðun um skábrautina út frá náttúruverndarsjónarmiðum. Ákvörðun um skábrautina verður því að byggja alfarið á öðrum hagsmunum.``

Tilvitnun í álit Náttúruverndar ríkisins er þar með lokið en áfram heldur svarið, herra forseti:

,,Yfirstjórn Landsvirkjunar ákvað að bíða með þessa framkvæmd uns ljóst væri að ráðist yrði í virkjunarframkvæmdirnar.``

Nú spyr ég, herra forseti, hæstv. iðnrh.: Hvað hefur breyst? Í samráði við hvern var skábrautin sprengd á fimmtudaginn var?

Það er alveg ljóst, herra forseti, á þessu svari hæstv. iðnrh. að það var ekki búið að gefa heimild fyrir henni þegar þetta svar er skrifað. Það getur ekki verið langt síðan, því var dreift á Alþingi í gær. Hvað hefur breyst? Hver gaf leyfi fyrir skábrautinni? Í samráði við hvern var það leyfi gefið? Ég veit að það var ekki gefið af Náttúruvernd ríkisins. Samráð við Náttúruvernd ríkisins hefur ekki verið haft. Ég spyr og við eigum heimtingu á svari: Hver heimilaði skábrautina niður í gljúfrið? Ég treysti því að hæstv. iðnrh. komi með svar við því hér í ræðu sinni á eftir. Ég ætla að ganga út frá því að ég fái ræðu frá hæstv. ráðherra en hún muni ekki þaga þunnu hljóði eins og við lok 2. umr.

Herra forseti. Í svarinu sem ég hef fyrir framan mig á þskj. 1022 kemur annað merkilegt fram sem mig langar að vitna til.

Ég spurði: ,,Hvaða áhrif hafa skilyrði umhverfisráðherra í fyrrnefndum úrskurði haft á áður áætlaðan stofnkostnað virkjunarinnar:

a. heildarkostnað,

b. kostnað á orkueiningu?``

Í svarinu kemur fram, með leyfi forseta:

,,Orkuvinnsla Kárahnjúkavirkjunar minnkaði um 230 GWst/ári. Viðbótarkostnaður við færslu yfirfalls, umframkostnaður við orkuöflun vegna niðurfellingar veitna og kostnaður við ýmsar umhverfisaðgerðir er áætlaður 2.000--2.500 millj. kr., eða um 3% af kostnaði við virkjunina. Kostnaður á orkueiningu eykst því um 3% vegna þessara þátta í úrskurði umhverfisráðherra.

Kostnaður við aðgerðir til þess að hindra jarðvegsrof og áfok í Hálslóni var innifalinn í kostnaðaráætlunum Landsvirkjunar.``

Þetta, herra forseti, kemur sem sagt fram í svarinu. Hækkun á kostnaðaráætluninni um 2.000--2.500 millj. kr. eru í þessu svari sagðar auka kostnað á orkueiningu um 3%.

Mig langar að vitna í frétt sem birtist á baksíðu Morgunblaðsins föstudaginn 21. dsesember þegar úrskurður umhvrh. var ljós. Þá var leitað til ýmissa aðila um álit á úrskurðinum. Meðal þeirra sem spurðir voru var Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar. Hann segir á baksíðu Morgunblaðsins þann 21. desember 2001 að það sé ljóst að aukakostnaður við framkvæmdir vegna þessara skilyrða nemi milljörðum króna. Svo fæ ég að vitna beint í greinina, með leyfi forseta:

,,... og ekki sé hægt að sækja þá fjármuni til orkukaupandans, þar sem nú þegar liggi fyrir drög að samningi um sölu orkunnar.``

Herra forseti. Þennan kostnað verður samkvæmt umælum Friðriks Sophussonar forstjóra Landsvirkjunar ekki hægt að sækja til orkukaupandans. Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Er það rétt að íslenskir orkunotendur eigi að fá þennan reikning, 2.000--2.500 millj. kr. sem úrskurður umhvrh. beinlínis kostar? Á að senda þennan reikning beint á okkur eða er hann innifalinn í útreikningum á orkuverðinu? Þetta er auðvitað eitt af því sem er ófyrirgefanlegt, herra forseti, að útreikningur orkuverðsins er leyndarmál. Hvorki alþingismenn né þjóðin fá að vita nákvæmlega hvert orkuverðið er, hvernig það er uppbyggt og hvað er í því fólgið. Þessi vinnubrögð eru ekki líðandi og eru hluti af lokaðri umræðu sem á ekki möguleika á að komast út í samfélagið. Þetta er hluti af því að ríkisstjórnin er að sniðganga lýðræðið og lýðræðislega umræðu í þessu máli.

En auðvitað kemur manni ekkert á óvart í sambandi við Landsvirkjun í þessum efnum. Landsvirkjun framkvæmir og framkvæmir undir drep og það er sorglegt að lesa fyrirsagnir allra greinanna sem Landsvirkjun skrifa á heimasíðuna karahnukavirkjun.is, því þar er ekkert metið til nokkurs nema framkvæmdirnar. Þar leggst maður undir manns hönd við að gera lítið úr áróðri eða baráttu náttúruverndarsamtaka og umhverfisverndarsinna. Á þessari síðu eru skrifaðar greinar sem gera mjög lítið úr þeirri baráttu en í stað þess koma fyrirsagnir og greinar sem fjalla um framkvæmdirnar.

Með því að telja upp nokkrar fyrirsagnir á heimasíðunni, herra forseti, má sjá hvað stjórnar, hvernig hjarta Landsvirkjunar slær í þessum efnum. Þetta fjallar allt saman um vegagerðina: Lokið að leggja Kárahnjúkaveg, segir ein; Stálbitaflutningar að stæði nýrrar brúar yfir Jöklu, er yfirskrift annarrar; Rífandi gangur í brúarsmíðinni, heitir ein; Íslenskir aðalverktakar hefja jarðgangagerð við Kárahnjúka; Borunum lokið, bitar í brú; Stálbitarnir komnir yfir Jöklu; Stöðvarhúsið 800 metra inni í Teigsbjargi; Vígsla brúar yfir Jöklu og Kárahnjúkavegs, o.s.frv., herra forseti.

[18:15]

Lítið er gert með baráttu umhverfisverndarsinna sem þó hafa lagt mjög mikið af mörkum til að umhverfisþátturinn sé inni í þessari umræðu og umræðan þar af leiðandi háð á breiðum grunni.

Þá er ég komin að spurningu til hæstv. iðnrh. sem varðar umhverfisþáttinn og útblástur frá fyrirhuguðu álveri. Nú er það svo, herra forseti, að í matsskýrslu um fyrra álverið, það sem Norsk Hydro hugðist reisa í Reyðarfirði, kom fram að árleg losun á brennisteinsdíoxíði yrði 828 tonn. Í tillögu Hollustuverndar ríkisins að starfsleyfi fyrir verksmiðju Norsk Hydro var lagt til að fyrirtækinu yrði heimilað að losa 17% meira af brennisteinsdíoxíði eða 966 tonn á ári. Engin skýring var gefin í starfsleyfistillögunum á því af hverju ætti að heimila Norsk Hydro að losa 17% umfram það sem þeir töldu sig þurfa að losa.

Ég spyr hæstv. iðnrh.: Hvað varð til þess að heimila átti Norsk Hydro í starfsleyfinu að fara umfram losunarheimildirnar sem þeir höfðu greint frá í mati á umhverfisáhrifum?

Önnur spurning vegur auðvitað þyngra: Þarf Alcoa að standa við það sem þeir segjast ætla að standa við? Þurfa þeir að gera sitt besta til að fara ekki yfir losunarmörk eða eiga þeir að fá álíka svigrúm og Norsk Hydro virðist hafa átt að fá á sínum tíma? Á að gefa Alcoa 17% losunarheimild umfram það sem þeir hafa sagt Skipulagsstofnun að þeir þyrftu að losa út í andrúmsloftið? Ef svo er, herra forseti, er mengunarþátturinn í þessu umrædda verki kominn út yfir allt. Nú þegar er ljóst að þetta álver kemur til með að losa meira af brennisteinsdíoxíði út í andrúmsloftið en álver Norsk Hydro. Eigi í ofanálag að veita Alcoa afslátt eða auknar losunarheimildir umfram það sem þeir telja sig þurfa þá tel ég auðvitað eðlilegt að það liggi á borðunum nú þegar.

Herra forseti. Óhjákvæmilegt er að vitna til, við þessa síðustu umræðu um lýðræðið og brtt. okkar Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs við þetta frv., tillögu sem lýtur að þjóðaratkvæðagreiðslu, eru önnur lög sem koma inn á ákveðna og afmarkaða þætti þessa máls. Því hefur ekki verið svarað, herra forseti, hvert ráðherrar ríkisstjórnarinnar hyggjast snúa sér varðandi friðlýsinguna á Kringilsárrana. Hvað er búið að gera í þeim efnum? Er búið að undirbúa friðlýsingu á Kringilsárrana sem er friðlýst landsvæði vegna þess sérstaka náttúrufars sem þar er og þeirrar miklu þýðingar sem náttúrufarið þar hefur fyrir hreindýrin? Þetta er aðalburðarsvæði hreindýranna á svæðinu, aðalburðarsvæði hreindýrastofnsins okkar. Er búið að undirbúa einhvers konar breytingar á friðlýsingunni þarna? Ég spyr: Á að fara fram hjá Náttúruvernd ríkisins í þessum efnum og Náttúrufræðistofnun sem þó eiga samkvæmt lögum að vera umsagnaraðilar um öll mál er varða friðlýsingu?

Hvaða myrkraverk er ríkisstjórnin að vinna hvað varðar friðlýsinguna á Kringilsárrana? Gerir ríkisstjórnin sér ekki grein fyrir því að hreindýrin, sem einu sinni voru dreifðari víða um landið, hafa eingöngu lifað af á þessu svæði vegna þess náttúrufars sem er til staðar í friðlandinu, náttúrufars sem gerir þeim kleift að ganga með kálfa sína og bera strax snemma vors, þó svo að snjór sé allt í kring. Þetta svæði þannig er mjög snjólétt og lygnt og einmitt þar hafa hreindýrin okkar þó lifað af. Ef þessi þriðjungsskerðing á friðlandinu nær fram að ganga og för hreindýranna um þetta svæði takmörkuð á þann hátt sem augljóst er að verður gert með þessum framkvæmdum, ætlar þá ríkisstjórnin að láta segja það um sig eftir á að hún hafi aflétt friðlýsingu á Kringilsárrana með bolabrögðum og valdi?

Auðvitað þurfum við að fá að heyra, herra forseti, hvað verið er að gera í þessum efnum. Það var bent á það í ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar að virðing hæstv. ráðherra fyrir friðlýsingum er af mjög skornum skammti. Hann vitnaði til marks um það til ummæla ráðherra, sem ég fer ekki að endurtaka. Hins vegar er nauðsynlegt, herra forseti, að við fáum að heyra frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar hvað verið er að gera. Er eitthvað í undirbúningi varðandi friðlýsingu Kringilsárrana og hvernig á að aflétta henni? Á að fara lýðræðislega leið í þessum málum að einhverju leyti eða á bara að gera þetta með valdboði? Ætla menn að setja undir sig hausinn líkt og í virðist stefna?

Herra forseti. Það væri hægt að halda áfram þessari umræðu fram eftir nóttu en ég held ég fari að ljúka máli mínu. En ég get eiginlega ekki gert það án þess að gera náttúru Íslands, náttúrunni á þessu svæði, þann greiða að vitna í orð þeirrar konu sem hefur verið hvað ötulust í baráttunni gegn þessum framkvæmdum. Mig langar, með leyfi forseta, að vitna til orða Elísabetar Jökulsdóttur rithöfundar, sem hefur verið leiðandi í baráttunni á vettvangi umhverfis- og náttúruverndarsinna. Hún segir í Morgunblaðinu, í lesendabréfi sem ber yfirskriftina Aðeins eitt land, með leyfi forseta:

,,Öldum saman þegar þessi þjóð átti varla neitt, engan mat eða húsaskjól, enga framtíð, ekkert sjálfstæði, eilífa kúgun og smán, handritin uppétin, sögurnar farnar að endurtaka sig og sálmagaulið hana lifandi að drepa, þá átti þessi þjóð eitt og aðeins eitt, hún átti land, ljósið sem læddist upp yfir fjallsbrúnina, slæðuna í fossinum, faldinn á öldunni, skuggann í hamraveggnum, fífuna í mýrinni, mosató í grænum skóg, hvíslið í golunni og dálitla lautu (jafnvel til að deyja í) og þegar eymdin og bágindin höfðu svæft okkur var landið það eina sem var nógu sterkt til að vekja okkur aftur og aftur, og þess vegna á þetta land heima í blóði okkar, beinum, frumum og innyflum og ef það á að eyðileggja það er verið að svæfa okkur svefni svo löngum að það er alveg á huldu hvort við vöknum aftur. Og svo gæti farið að þá ættum við ekki neitt með neinum og fyndist við einhvern veginn alltaf sofandi þótt við vissum ekki betur en við værum vakandi.``

Herra forseti. Ég ætla að vona að allir hv. þm. sem hér eiga eftir að greiða atkvæði um brtt. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs við þetta mál, sem lýtur að því að þjóðin fái að greiða atkvæði um þessi stærstu náttúruspjöll Íslandssögunnar, greiði atkvæði vakandi. Með fullri meðvitund. Vakandi.