Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 11:44:48 (4899)

2003-03-13 11:44:48# 128. lþ. 99.11 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, Frsm. 2. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[11:44]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnrh. talar um ofstæki. Ég held að það verði nú að flokka undir ofstæki í framkvæmdamálum sem hæstv. iðnrh. hefur verið að beita sér fyrir undanfarið. Það eru nú engin smámál. Virkjanaframkvæmdir fyrir austan, álverið fyrir austan, þessa stækkunarmöguleika sem við erum að ræða um hér, álverið í Straumsvík. Ég held að maður geti með góðri samvisku sagt að hér er farið fram með þvílíku ofstæki varðandi uppbyggingu einhæfs atvinnulífs (Iðnrh.: ... atvinnulífsins.) að það hálfa væri nóg. Ég fullyrði það, virðulegi forseti, að hvergi í heiminum, af tilsvarandi stærðargráðu miðað við fólksfjölda og efnahagskerfi, mundu menn láta sér detta í hug að fara fram með slík verkefni. Aldrei. En hér geta menn farið fram með offorsi og ofstæki gagnvart landinu, gagnvart auðlindunum og og sjást ekki fyrir. Það er meginmálið í þessu dæmi. Meginmálið.