Raforkulög

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 17:07:53 (4954)

2003-03-13 17:07:53# 128. lþ. 99.13 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, 463. mál: #A breyting á ýmsum lögum á orkusviði# frv. 64/2003, Frsm. 2. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[17:07]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekkert ósammála hæstv. iðnrh. í því efni að það er hollt fyrir menn að vita hvernig kostnaður leggst. Og ég veit ekki betur en allar opinberar stofnanir og sveitarfélög t.d. hafi unnið að því alveg frá 1980 að sundurliða hvar kostnaður verður til og gefa gleggri mynd af því hvernig einstök starfsemi eða hluti af starfsemi leggja sig kostnaðarlega. Þetta snýst ekkert um það. Þetta snýst um það að stór hluti sem er verðlagning til landsbyggðarinnar er óafgreitt mál. Og það er ekki hægt að sætta sig við það lengur að landsbyggðin og fyrirtækin úti á landi búi við eitt hæsta og ef ekki hæsta orkuverð í Evrópu. Þannig er staðan í dag og hefur reyndar verið lengi. Það er algjör krafa að jöfnunarþátturinn sé settur inn og honum komið í lag. Það er margt sem hægt er að sætta sig við í þessum breytingum, en að taka út fyrir sviga það sem er svo mikilvægt fyrir landið í heild sinni, það gengur ekki og verður ekki liðið.

Fyrirtækin okkar sem eru með starfsemi úti um land verða að greiða kannski tífalt verð fyrir raforku miðað við það sem gengur og gerist í þéttbýlinu og ég tala nú ekki um í stóriðju. Það er brýnt hagsmunamál, og byggðamál, að þetta sé í lagi. Þess vegna gerum við miklar og alvarlegar athugasemdir og getum ekki staðið að þessum málum á þennan hátt. Ég held að það skaði engan þó að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar til vinnslu á ný og málið verði látið liggja þar til endanleg lausn er fundin, ásættanleg lausn, þá eftir kosningar og í allra síðasta lagi með haustinu. (JB: Með nýrri ríkisstjórn.)