Viðræður við Alcoa um álver á Reyðarfirði

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 10:47:08 (891)

2002-11-01 10:47:08# 128. lþ. 20.91 fundur 200#B viðræður við Alcoa um álver á Reyðarfirði# (aths. um störf þingsins), KolH
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[10:47]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til annars en þakka hæstv. ráðherra fyrir það að hún skyldi koma í ræðustól og segja okkur að hér gangi allt samkvæmt áætlunum. Ég vona auðvitað að orð ráðherrans reynist rétt, þ.e. að hennar þáttur í þessu máli verði ekki jafnsnautlegur og ömurlegur og hann varð á sínum tíma vegna samninganna við Norsk Hydro.

Auðvitað verður að rifja upp þessa tíma sem eru rétt að baki. Við vorum í allt fyrravor að munnhöggvast um samningamálin við Norsk Hydro og það er óneitanlega svipuð lykt af því sem nú er að gerast eins og þá gaus upp. Þess vegna getur ráðherrann ekki gagnrýnt þingmenn stjórnarandstöðunnar fyrir að líkja þessum tveimur málum saman því að lyktin er algerlega sú sama.

Það hafa orðið tafir á málinu. Það er vitað að gert var ráð fyrir því að frumvörpin sem hæstv. ráðherra nefnir hér kæmu fyrir þingið í nóvember. Núna segir hæstv. ráðherra að frumvörpin séu væntanleg fyrir jól. Við vitum að þingið ætlar sér í jólahlé 13. desember þannig að það er eins gott að við séum þá á útkikki eftir þeim málum. Ég vil bara í lok þessarar umræðu, hæstv. forseti, ítreka þá beiðni sem hér er fram komin að hæstv. iðnrh. geri Alþingi með formlegum hætti grein fyrir stöðu þessara samningaviðræðna eigi síðar en um miðjan þennan mánuð. Um miðjan nóvember tel ég alveg eðlilegt að Alþingi fái formlegar upplýsingar um stöðu og gang þessara mála.