Skýrsla um starfslok forstjóra Landssímans

Mánudaginn 04. nóvember 2002, kl. 15:26:54 (993)

2002-11-04 15:26:54# 128. lþ. 21.1 fundur 208#B skýrsla um starfslok forstjóra Landssímans# (óundirbúin fsp.), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 128. lþ.

[15:26]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Fyrirspurn mín helgast einmitt af því að hagsmunir Símans verði hafðir í fyrirrúmi og eigendanna, þjóðarinnar allrar. Þess vegna fer ég fram á það að þær upplýsingar verði birtar.

Kannast menn við tóninn? Var það ekki nákvæmlega svona sem hæstv. ráðherrar svöruðu fyrir þau hneyksli sem áttu sér stað hjá Símanum, reyndu að fjarlægja sig veruleikanum og vísa til annarra, vísa til þáverandi stjórnar Símans? Veruleikinn er sá, herra forseti, að það er hæstv. ráðherra sem rekur stjórn og ræður stjórn og hefur yfir að ráða langstærstum eignarhluta Símans þannig að ábyrgðin er hans pólitísk, stjórnin er hans og það er hans að taka ákvörðun um þetta. Eða hvaða viðskiptahagsmunir geta ráðið för og eru úrslitaatriði í því sambandi hvort og hve mikið var greitt fyrir trjágreinar við Þingvallavatn? Við eigum að ljúka þessu máli og þar sem hæstv. ráðherra hefur ekki séð sóma sinn í því að birta þetta, þá hljóta menn að gagnálykta sem svo og segja: Hvað er verið að fela? Ég mun ekki láta kyrrt liggja.