Vændi

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 15:28:42 (1060)

2002-11-05 15:28:42# 128. lþ. 22.95 fundur 220#B vændi# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[15:28]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir þessa umræðu, en hún lagði m.a. sitt af mörkum í vinnu sérfræðinefndarinnar.

Varðandi síðustu spurningu hennar um samráðsnefndina þá hafa þessi mál verið í skoðun innan ráðuneytisins. En það er ekki ljóst hver eigi að hafa yfirstjórn og umsjón með slíkri nefnd. En ég hef áhuga á því að eiga þátt í að koma slíkri starfsemi á fót. Að því þurfa hins vegar að koma fleiri aðilar innan stjórnkerfisins.

Hér var líka minnst á sænsku leiðina svokölluðu. Mér finnst rétt að benda á að ýmsir hafa haft áhyggjur af því að með þeirri leið færðist vandinn meira undir yfirborðið og að erfiðara yrði að ná til þeirra sem ættu við vanda að stríða í þessu sambandi.

Enn fremur er ástæða til að þakka þeim einstaklingum sem unnu þessar skýrslur og er rétt að vekja athygli á því að sérfræðingar af ýmsum sviðum samfélagsins komu að þessari vinnu.

Ég tel ljóst að sú skoðun sem þetta málefni hefur fengið á undanförnum missirum sé meiri og dýpri en áður hefur farið fram hér á landi. Við erum því betur í stakk búin en áður til að móta heildstæða og gagnlega stefnu sem nýtist þeim sem neyðst hafa til þess að stunda vændi.

Hins vegar er alveg jafnljóst að hér duga engin einföld svör. Þetta er flókið viðfangsefni sem verður að taka á með margvíslegum aðgerðum. Ég hef ríkan vilja til þess að vinna áfram að þessum málum á þeim nótum sem ég hef gert hingað til, en ég lýsti því í fyrri ræðu minni að ýmislegt hefur þegar komið til framkvæmda og margt er í deiglunni, svo sem breytingar á almennum hegningarlögum og margt fleira.

Herra forseti. Að lokum vil ég þakka hv. þingmönnum fyrir þessa umræðu sem hefur verið gagnleg. Hún hefur verið málefnaleg og það er auðvitað ákaflega mikilvægt þegar rætt er um jafnvandmeðfarið mál.