Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 14:18:36 (1865)

2002-11-28 14:18:36# 128. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., KolH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 128. lþ.

[14:18]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér er um að ræða brtt. frá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem lýtur að Þjóðminjasafninu og grunnsýningu þess. Hæstv. menntmrh. hefur gefið yfirlýsingu um það í þessum sal að að öllum líkindum verði Þjóðminjasafnið opnað að nýju árið 2004. Það standa auðvitað vonir til þess að það verði fyrri hluta árs. Það þýðir að við erum að falla á tíma með að fjármagna grunnsýningu safnsins, fjármagna þá nauðsynlegu framkvæmdarliði sem safnið sjálft þarf að standa straum af kostnaði við.

Safnið hefur gert áætlun upp á 116 millj. Við höfum lagt til 36 millj. í viðbót við það sem gert er ráð fyrir í frv. Ég tel því að hér sé um að ræða brtt. sem geti gert það að verkum að grunnsýning safnsins þegar að opnun kemur verði hin glæsilegasta.