2002-12-03 13:53:56# 128. lþ. 44.94 fundur 291#B leiðtogafundurinn í Prag og þátttaka Íslands í hernaðarstarfsemi á vegum NATO# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[13:53]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Fagna ber þeirri niðurstöðu sem varð í Prag um stækkun NATO og við Íslendingar höfum lengi lagt áherslu á að sú niðurstaða næðist sem miðar að auknu öryggi og friði í Evrópu. Það er líka vert að vekja athygli á því góða samstarfi sem hefur náðst með NATO og Rússum, samanber samkomulag sem var undirritað í Róm fyrr á þessu ári um samstarfsvettvang þessara aðila. Þar er um sögulegt mál að ræða og var lagður grunnur að því í Reykjavík sl. vor.

En varðandi þátttöku Íslendinga í NATO er ljóst að við höfum skyldu til þátttöku og við höfum notið mikils af NATO. Ísland mun halda áfram því sem við höfum verið að gera og hefur komið fram m.a. í þessari umræðu varðandi uppbyggingarstarf og aðstoð í Afganistan og í verkum okkar við uppbyggingu og friðarstarf á Balkanskaga.

Herra forseti. Ýmsir hafa sungið falskan söng í fölskum kór um að Íslendingar séu að dragast inn í hernaðaraðgerðir, þátttöku í hernaðaraðgerðum á vegum NATO. Allt slíkt tal er úr lausu lofti gripið eins og fram hefur komið bæði í þessari umræðu og víðar. En ég vil segja að lokum að ég tel að við Íslendingar getum verið stolt af okkar verkum og þátttöku okkar í aðgerðum NATO sem miða m.a. að uppbyggingarstarfi og friðarstarfi víða í heiminum.