Ástandið á kjötmarkaðnum

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 12:51:32 (2315)

2002-12-06 12:51:32# 128. lþ. 48.95 fundur 303#B ástandið á kjötmarkaðnum# (umræður utan dagskrár), Flm. ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[12:51]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég lagði fram nokkrar spurningar til hæstv. ráðherra sem hann svaraði. Hann vísaði til markaðsábyrgðar landbúnaðarins, að markaðurinn ætti að ráða og það væri ekki á valdi ráðuneytisins að koma þar nærri. Hann gat ekki svarað, sem eðlilegt er, til um hversu lengi þetta ástand geti varað án þess að stór gjaldþrot verði. Hann taldi aftur á móti að enginn heiðvirður bóndi ætti að selja undir framleiðsluverði. En nú er það gert og hefur verið gert síðan í haust. Hvernig á að bregðast við því? Hvernig á að leysa vanda mismunandi búgreina?

Hæstv. ráðherra færði rök fyrir því að hækka ekki útflutningshlutfallið meira en hvernig var því þá fylgt eftir að auka hlut lambakjöts á íslenska markaðnum? Hvaða möguleikar eru til að koma lambakjötinu í sölu? Það má eiginlega segja að dilkakjötið sé munaðarlaus framleiðsla. Bændur, sauðfjárbændur, hafa fæstir aðgang að afurðastöðvunum eða markaðnum. Markaðurinn er einkennilegt fyrirbrigði hvað varðar sölu á kjöti.

Ábyrgð bankanna er mikil, herra forseti, og það er óeðlilegt að mínu mati að þeir geti verið svo samofnir rekstri stóru verksmiðjubúanna og afurðastöðvanna og lánað svo mikið til þessarar framleiðslu að í raun og veru sé ekki nokkur leið að láta þetta rúlla.