2002-12-13 14:50:53# 128. lþ. 59.95 fundur 347#B horfur í væntanlegum samningaviðræðum EFTA-ríkjanna við Evrópusambandið í tengslum við stækkun sambandsins# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 128. lþ.

[14:50]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Ljóst er og hefur komið fram í þessari umræðu m.a. að væntanleg stækkun Evrópusambandsins mun hafa ýmis áhrif á hagsmuni okkar og annarra EFTA-ríkja. Það eru gríðarlega miklir viðskiptahagsmunir í húfi og óskum okkar um lausnir í þeim efnum er mætt með kröfugerð af hálfu Evrópusambandsins um hluti sem ganga þvert á hagsmuni okkar og ganga þvert á þá stefnu sem við höfum haft uppi.

Krafan um mjög aukið fjármagn í þróunarsjóðina verður að teljast mjög ósanngjörn, m.a. vegna þess að þeir sjóðir eru opnir fyrir aðildarríki Evrópusambandsins en ekki fyrir okkur. Krafan um að opnað verði fyrir fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi gengur auðvitað þvert gegn þeirri stefnu sem hér hefur verið höfð uppi og þar af leiðandi gengur hún þvert á hagsmuni okkar.

Það er alveg ljóst, herra forseti, af þeim upplýsingum sem liggja fyrir að íslensk stjórnvöld eiga mjög erfiðar samningaviðræður fyrir höndum við Evrópusambandið og það er full ástæða til að óska hæstv. utanrrh. og hans fólki góðs gengis í því verkefni. En þessi umræða sýnir okkur að við verðum að halda vöku okkar varðandi þróun mála í tengslum við Evrópusambandið, umræðan um Evrópumálin verður að vera lifandi og byggjast á málefnalegum nótum. Það samrýmist ekki framtíðarhagsmunum þjóðarinnar að stinga hausnum í sandinn, eða steininn eins og maðurinn sagði, og vilja ekki halda uppi upplýstri umræðu um þessi mál. Við verðum einfaldlega að fylgjast með þróun mála og vera með á nótunum og einungis þannig getum við mætt þróuninni og haft áhrif á hana á okkar forsendum.