Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 32. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 32  —  32. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um úttekt á verðmyndun á innfluttu sementi.

Flm.: Jón Bjarnason, Árni Steinar Jóhannsson.



    Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að láta gera úttekt á verðmyndun á innfluttu sementi og að grípa til aðgerða ef í ljós kemur að um undirboð er að ræða.

Greinargerð.


    Sementsverksmiðja ríkisins tók til starfa á Akranesi síðla árs 1958. Henni var breytt í hlutafélag árið 1993 og heitir nú Sementsverksmiðjan hf. Öll hlutabréf í fyrirtækinu eru í eigu ríkisins og verða ekki seld öðrum nema með samþykki Alþingis. Heimild er í fjárlögum til að selja 25% hlut ríkisins í verksmiðjunni. Tilkoma Sementsverksmiðjunnar gjörbreytti á sínum tíma skilyrðum til mannvirkjagerðar í landinu og skipti sköpum fyrir atvinnulíf á Akranesi. Alls starfa nú um 90 manns við fyrirtækið.
    Innflutningur á sementi hefur aukist á undanförnum missirum. Sement er flutt inn frá Danmörku og mun hlutdeild innflutts sements nú vera um 20% af heildarnotkun sements í landinu. Samkvæmt upplýsingum sem flutningsmenn hafa er verð þessa innflutta sements mun lægra en í útflutningslandinu og jafnframt lægra en sementsverð í öðrum löndum sem viðkomandi aðilar flytja út til. Sementsverksmiðjan hf. hefur kært meint undirboð samkeppnisaðilans til samkeppnisyfirvalda. Er það mál enn óútkljáð og óvíst hve lengi svo verður. Getur biðtíminn orðið verksmiðjunni afar dýrkeyptur. Afar mikilvægt að ekki sé um óeðlilega viðskiptahætti að ræða, í ljósi stöðu Sementsverksmiðjunnar á Akranesi og íslenska markaðarins, þar eð slíkt dregur óhjákvæmilega dilk á eftir sér. Því telja flutningsmenn nauðsynlegt að stjórnvöld grípi nú þegar inn í og láti gera úttekt á innflutningi og hvernig verðmyndun er háttað. Ef um er að ræða undirboð, eða svokallað „dumping“, þarf að taka á því og tryggja að jafnræðis verði gætt hvað varðar framleiðslu Sementsverksmiðjunnar hf. Flutningsmenn telja að verði ekkert að gert geti það stofnað rekstri Sementsverksmiðjunnar á Akranesi í hættu og jafnvel orðið þess valdandi að reksturinn yrði lagður niður. Yrði þá skarð fyrir skildi í íslensku atvinnulífi. Hætt er við að það kæmi sér illa fyrir íslenskan markað og skaðaði hagsmuni neytenda til lengri tíma litið.


Fylgiskjal.


Samkeppni á sementsmarkaði teygir anga sína til Færeyja.
(Viðskiptablað Morgunblaðsins, 30. maí 2002.)


    Bjarni Óskar Halldórsson, framkvæmdastjóri Aalborg Portland á Íslandi, segir að ekki sé hægt að bera saman sementsverð á Íslandi og í Færeyjum út frá tollflokkum þar sem þar sé bæði um að ræða laust sement og pakkað og það síðarnefnda sé miklum mun dýrara og skekki heildarmyndina því.
    Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voru flutt inn 2.363,5 tonn af Portlandssementi frá Danmörku í janúar og febrúar á þessu ári. Verð þess með tryggingum og flutningsgjaldi (cif) var tæpar 12,2 milljónir króna eða að meðaltali 5 kr./kg. Meðalverð á tonn á tímabilinu var 5.000 krónur cif, skv. upplýsingum frá Hagstofunni eða um 435 danskar krónur samkvæmt núverandi gengi.
    Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Færeyja eru samsvarandi tölur fyrir Portlandssement flutt frá Danmörku til Færeyja í janúar og febrúar á þessu ári 1.512,8 tonn. Verðið er 1.181.091 danskar krónur cif eða samkvæmt núverandi gengi 13,6 milljónir íslenskra króna. Þetta gerir 780 danskar krónur á tonn eða um 8.980 íslenskar krónur. Verðið á Íslandi er því 44,35% lægra en í Færeyjum samkvæmt þessum tölum.
    Aalborg Portland á Íslandi sem hóf starfsemi árið 2000 rekur nú eitt sementssíló í Helguvík. Fyrirtækið tekur í notkun annað síló í júlí nk. Þessir tveir geymar munu geta borið allt að 10 þúsund tonn af sementi. Fyrirtækið flytur inn sement frá Aalborg Portland í Danmörku og selur hér á landi í samkeppni við Sementsverksmiðjuna.
    Nýverið féll úrskurður Samkeppnisráðs vegna kæru Sementsverksmiðjunnar á hendur Aalborg Portland á Íslandi og var hann á þá leið að ekki væri tilefni til neinna aðgerða, Sementsverksmiðjan væri hinn markaðsráðandi aðili með 80% hlutdeild.
    Sementsverksmiðjan hefur nú einnig kært Aalborg Portland í Danmörku til Eftirlitsstofnunar Efta (ESA) og stendur athugun á því máli yfir. Kæran gengur út á að AP selji sement á óeðlilega lágu verði til Íslands.
    Aðspurður segir Bjarni Óskar Halldórsson, framkvæmdastjóri Aalborg-Portland á Íslandi að undir sama tollnúmer falli laust sement og pakkað sement og það síðarnefnda sé mun dýrara. Það skekki því myndina ef hlutfall þess er hátt í innflutningi. Hann leggur áherslu á að Aalborg Portland á Íslandi tengist á engan hátt sementsviðskiptum í Færeyjum. „Það er verulegur munur á innkaupsverði á pökkuðu annars vegar og lausu hins vegar.“
    Bjarni leggur áherslu á að það sé alkunna að sement í skipsfarmi sé mun ódýrara en pakkað sement á vörubrettum. „Þannig getur hlutfall viðskipta frá einu landi til annars á annars vegar pökkuðu og hins vegar lausu sementi skekkt myndina þegar verið er að bera saman út frá innflutningstölum frá Hagstofum.“ Einnig nefnir Bjarni hagkvæmni af því að flytja meira magn til Íslands en Færeyja.
    „Munurinn á hagkvæmni af því að flytja nokkur þúsund tonn til Íslands eða mun minna magn til Færeyja í lítinn geymi er mikill. Við höfum verið að taka frakt á stærðarbilinu þrjú til fjögur þúsund tonn en eftir að nýja sílóið verður tekið í notkun skapast möguleiki til að flytja allt að sjö til átta þúsund tonn í einu sem felur í sér mikla hagkvæmni í fraktflutningum og skapar vonandi forsendur til að geta lækkað verð enn frekar,“ segir Bjarni.
    Aðspurður segir hann að ekki nema í undantekningartilvikum hafi sömu skip siglt með sement frá Danmörku til bæði Færeyja og Íslands. Í 2–3 tilfellum af 14–15 skipum sem hingað hafa komið með sement, hafa þau komið við í Færeyjum á bakaleiðinni. Mun minni skip sigli að jafnaði til Færeyja en til Íslands.

Líklegt verð í Færeyjum 600 dkr./tonn
    Bjarni telur að rétt og eðlilegt sé að cif verð á lausu Portlandssementi sé hærra í Færeyjum en á Íslandi en ekki að það sé 780 danskar krónur. „Mér þykir líklegra að verðið í Færeyjum sé í kringum 600 danskar krónur á tonn,“ segir Bjarni en hann hefur ekki staðfestingu á því. „Ég geri ráð fyrir því að við fáum eitthvað hagkvæmara verð hingað til Íslands í ljósi þess að um mun meira magn er að ræða og hagkvæmari flutninga.“
    Samkvæmt skýrslu um úrskurð Samkeppnisráðs er verðið á Íslandi 415 danskar krónur á tonn og sé það borið saman við þær 600 krónur sem Bjarni nefnir sem sennilega raunhæft verð í Færeyjum er verðið 30,8% lægra hér á landi og 27,5% lægra ef miðað er við töluna 435 danskar krónur á tonn. Bjarni ítrekar að Aalborg Portland á Íslandi tengist á engan hátt sementssölu í Færeyjum, heldur séu þar sjálfstæðir aðilar sem kaupi m.a. af Aalborg Portland í Danmörku en einnig af belgískum sementsframleiðendum. Móðurfélagið í Danmörku selur til sjálfstætt starfandi söluaðila á sementi í Færeyjum en stundar hins vegar ekki endursölu. Bjarni segir sementsverð hafa lækkað hérlendis á síðustu misserum. „Sementsverksmiðjan lækkaði sitt sement áður en við hófum sementssölu. Það gerðu þeir væntanlega til þess að mæta samkeppni frá okkur. Sementsverksmiðjan er ráðandi á markaði hér og verðmyndun á sementi er algerlega á þeirra höndum. Við seljum engu að síður sement á eðlilegu samkeppnishæfu verði eins og Samkeppnisstofnun hefur komist að.“

SV kærir APÍ hugsanlega aftur
    Gunnar Örn Gunnarsson er meðal fulltrúa iðnaðarráðuneytisins í stjórn Sementsverksmiðjunnar og jafnframt formaður stjórnar. Gunnar Örn gegnir tímabundið starfi deildarsérfræðings hjá iðnaðarráðuneytinu og hefur m.a. starfað að verkefnum varðandi aðkomu Alcoa að álverksmiðju hér á landi. Gunnar Örn segir í samtali við Morgunblaðið að Sementsverksmiðjan sé í mikilli varnarbaráttu og forsvarsmenn hennar, sem og viðskiptavinir, hafi áhyggjur af framhaldinu varðandi þróun sementsverðs hér á landi.
    „Ef fram heldur sem horfir, verður Sementsverksmiðjan ekki til eftir nokkur ár. Aalborg Portland er sterkt félag með mikið fjármagn. Með því að halda verðinu niðri hér á landi getur það hrakið Sementsverksmiðjuna frá starfsemi.“ Hann segir að viðskiptavinir hafi áhyggjur af þessari þróun þar sem hún muni að öllum líkindum leiða til þess að sementsverð hækki til muna ef SV fellur út af markaðnum.
    Gunnar Örn vísar því á bug að samanburður á verði í Færeyjum og á Íslandi standist ekki. Í báðum tilvikum sé aðallega um að ræða laust sement og ekki sé svo mikill munur á magni, Ísland sé lítill markaður. „En þó nógu stór til þess að Aalborg Portland vill koma hingað og beita þessum aðferðum við samkeppni. Við förum bara fram á að samkeppnin verði eðlileg,“ segir Gunnar Örn. Hann bendir á að verð á venjulegu sementi við verksmiðjudyr í Danmörku skv. upplýsingum frá Global cement report sé 430 danskar krónur á tonn miðað við tölur frá árinu 2000. „Ef þetta er verðið í skip í Danmörku, þá væri Sementsverksmiðjan orðin vel samkeppnisfær við Aalborg Portland,“ segir Gunnar Örn. Hann segir að Sementsverksmiðjan lúti nýbirtum úrskurði Samkeppnisráðs eftir kæru SV á hendur APÍ. Hins vegar geti farið svo að SV leggi fram ný gögn og kæri aftur. „Við teljum Sementsverksmiðjuna eiga framtíð fyrir sér og munum halda áfram að berjast fyrir því, segir Gunnar Örn.

Selt til smásöluaðila í Færeyjum
    Jørgen Norup er sölu- og markaðsstjóri Aalborg Portland A/S í Danmörku. Í samtali við Morgunblaðið segir Norup að varan sé ekki sambærileg. „Sementið er annaðhvort í lausu eða í pokum og hvort tveggja eða annað hvort getur verið á mismunandi mörkuðum. Magnið er einnig mismunandi og því meira sem hægt er að flytja í einu, því hagkvæmara er það. Það er ómögulegt að bera saman verð á þennan hátt.“
    Aðspurður segir Norup ekki heldur mögulegt að bera saman verð á sementi í lausu. Þá sé einnig um að ræða mismunandi vörutegundir, mismunandi magn og mismunandi dreifingu. Norup segir að í raun selji Aalborg Portland til smásöluaðila í Færeyjum en til dreifingaraðila á Íslandi og því sé eðlilegt að verðið sé lægra á Íslandi.
    Spurður um viðbrögð við kæru Sementsverksmiðjunnar til ESA segir Norup: „Samkeppnisráðið á Íslandi hefur úrskurðað að ekki sé tilefni til aðgerða. Við væntum þess sama frá ESA.“