Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 358. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 398  —  358. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 14/1998, um Örnefnastofnun Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Menntamálaráðherra skipar forstöðumann Örnefnastofnunar Íslands til fimm ára í senn. Forstöðumaður skal hafa háskólapróf og fræðilega reynslu á vísindasviði er tengist örnefnafræðum. Forstöðumaður markar stefnu stofnunarinnar, annast daglegan rekstur hennar og er í fyrirsvari fyrir hana út á við. Hann ber ábyrgð á rekstri stofnunarinnar og að starfsemi hennar sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Jafnframt annast forstöðumaður ráðningu annarra starfsmanna. Menntamálaráðherra setur forstöðumanni erindisbréf.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með núgildandi þjóðminjalögum, nr. 107/2001, var þjóðminjaráð lagt niður. Af því tilefni er nauðsynlegt að breyta 3. gr. laga nr. 14/1998, um Örnefnastofnun Íslands, þar sem í 1. mgr. þeirrar greinar er kveðið á um að þjóðminjaráð tilnefni einn stjórnarmann í stjórn stofnunarinnar. Við mat á því hvernig best er að breyta umræddu lagaákvæði er varðar stjórn stofnunarinnar er óhjákvæmilegt að líta til lögbundins hlutverks hennar samkvæmt gildandi lögum. Hlutverk hennar er að vinna að stefnumörkun stofnunarinnar og hafa eftirlit með rekstri og starfsemi hennar. Þá er einnig kveðið á um að forstöðumaður ráði aðra starfsmenn stofnunarinnar í samráði við stjórnina, auk þess sem stjórnin veitir menntamálaráðherra umsögn um hvern skuli skipa forstöðumann.
    Með frumvarpi þessu er lögð til sú breyting að stjórn Örnefnastofnunar verði lögð niður jafnframt því sem valdsvið og hlutverk forstöðumanns verður gert skýrara en í gildandi lögum.
    Í nefndaráliti nefndar á vegum fjármálaráðuneytisins um ábyrgð, valdsvið og stjórnunarumboð forstöðumanna, sem gefið var út í október 2000, kom fram að stjórnsýsluleg staða, hlutverk stjórna og staða forstöðumanna væri oft óskýr og af því leiddi að óljóst væri hver bæri ábyrgð á rekstri viðkomandi stofnunar. Nefndin lagði til að stjórnum ríkisstofnana yrði fækkað og þær aðeins nýttar þar sem sérstök ástæða væri til að gera stjórn stofnunar sjálfstæðari en almennar reglur ríkisrekstrarins gæfu færi á. Jafnframt var lagt til að sérstakar stofnanir, þ.e. stofnanir sem stofnaðar væru með lögum og sinntu sérstökum verkefnum sem þeim væru falin með lögum og tækju ákvarðanir í eigin nafni, hefðu ekki eiginilegar stjórnir og yrðu því stjórnir þeirra annaðhvort lagðar niður eða þeim breytt í ráðgefandi stjórnir.
    Hlutverk stjórnar Örnefnastofnunar Íslands, að hafa eftirlit með rekstri og starfsemi stofnunarinnar, felur í sér óljós mörk milli ábyrgðar forstöðumanns og stjórnar. Hið sama má segja um hlutdeild stjórnar í ráðningum annarra starfsmanna við stofnunina. Samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, er það meginregla að vald til ráðningar annarra starfsmanna ríkisstofnunar er í höndum forstöðumanna.
    Annað meginhlutverk stjórnarinnar samkvæmt gildandi lögum er að vinna að stefnumörkun stofnunarinnar í samráði við forstöðumann. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að forstöðumaðurinn taki að sér þetta hlutverk og hafi þannig einn umsjón með því. Með hliðsjón af 1. gr. gildandi laga um stofnunina er þó óhjákvæmilegt að haft verði samráð við þær stofnanir sem tengjast varðveislu örnefna og rannsóknum á þeim. Er hér átt við stofnanir eins og Landmælingar Íslands sem Örnefnastofnun Íslands hefur nú þegar samstarfssamning við, stofnanir og deildir Háskóla Íslands og eftir atvikum aðrar ríkisstofnanir eða aðila sem tengjast starfssviði stofnunarinnar.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 14/1998,
um Örnefnastofnun Íslands.

    Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að stjórn Örnefnastofnunar verði lögð niður. Á síðasta ári nam þóknun stjórnarinnar um 0,6 m.kr. og er gert ráð fyrir að álíka fjárhæð sparist árlega við breytinguna.